Innbakað hátíðarOumph!

Þegar gerast skal vegan er það oft jólamaturinn sem þvælist hvað mest fyrir fólki. Hvað skal borða á jólunum? er spurning sem við fáum ótrúlega oft á hverju ári. Flestir eiga margar góðar jólaminningar og tengjast þær nánast allar mat. Margir eru mjög vanafastir og líður illa við tilhugsunina um að borða eitthvað annað en það sem þau eru vön á jólunum. Við systur komumst hinsvegar að því að jólin verða alveg jafn hátíðleg og eftirminnileg sama hvað við borðum. Vegan matur er nefnilega ekki síðri öðrum mat líkt og margir virðast oft halda. 

Við höfum báðar prófað margt, annars vegar rétti sem hafa heppnast mjög vel og hins vegar rétti sem hafa endað í ruslinu. Ein jólin var það hnetusteik sem brann við, önnur jólin hnetusteik sem var óæt og fleira þess háttar. Svo hafa það verið gómsætar sveppasúpur sem hinir í fjölskyldunni geta ekki staðist og mjög gómsætar hnetusteikur. Við höfum komist að því að það skiptir í rauninni litlu máli hvað við borðum á jólnum, svo lengi sem það er gott.  Eftir þónokkuð mörg veganjól, áramót, páska og fleiri hátíðir höfum við þó loksins fundið rétt sem okkur finnst vera fullkomin fyrir hátíðirnar. 

Helga kynntist Oumph! vörunum á undan flestum Íslendingum þar sem hún bjó í Svíþjóð, en þaðan er varan upprunalega. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph! er þá er það soyjakjöt sem inniheldur einungis soyja, vatn og olíu og er lang besta soyjakjötið á markaðnum í dag að okkar mati. Helga ákvað eftir að hafa kynnst þessari vöru að gera einhvern rétt úr henni um jólin í fyrra.  Tengdamamma hennar var að innbaka einhvers konar kjöt í smjördeigi og fannst henni tilvalið að prófa bara eitthvað þess háttar með Oumphinu.

Það kom ekkert smá vel út og vörum við staðráðnar í því að fyrir jólin í ár myndum við deila uppskriftinni með ykkur. Við fundum rosalega mikla þörf fyrir uppskrift af einhverju öðru en hnetusteik fyrir þessi jól. Hnetusteik er algengasti jólamatur grænmetisæta og sumir skiljanlega komnir með smá leið á henni. Júlía er að minnsta kosti spennt fyrir því að borða eitthvað annað þessi jóla eftir að hafa borðað hnetusteikina á aðfangadag, annan í jólum, gamlárskvöld og nýársdag í fyrra.  

Innbakað hátíðarOumph! (10 bökur)

  • 1 poki OumphI (annað hvort the chunk eða garlic and thyme)

  • 1-2 skallotlaukar

  • 3 hvítlauksrif

  • 2-4 blöð grænkál, allt eftir smekk

  • 1 tsk rósmarín

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1 dl Oatly-hafrarjómi

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 sveppateningur

  • 1 pakki Findus smjördeig

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna þar til auðvelt er að skera það í litla bita. Saxið einnig niður laukinn og grænkálið og setjið til hliðar.

  2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er vel heitt og setjið síðan laukinn, grænkálið og hvítlaukinn útí ásamt kryddunum.

  3. Steikið þetta í nágóðan tíma, eða um 10 - 15 mínútur, áður en rjómanum, sveppakraftinum og sinnepinu er bætt út í.

  4. Leyfið fyllingunni að hitna vel áður en slökkt er undir, en rjóminn þarf ekki að sjóða.

  5. Fletjið hverju smjördeigsplötu örlítið út (ekki hafa áhyggjur þó þið eigið ekki kökukefli, við redduðum okkur með glerflösku hehe) og skerið í tvennt. Leggið hvern ferhyrning af smjördeigi í eitt hólf á möffinsskúffu og setjið sirka 2 msk af fyllingunni ofan í. Festið öll fjögur hornin vel saman.

  6. Penslið hverja böku með þeirra plöntusmjólk sem er til hverju sinni, það má einnig nota afgangin af hafrarjómanum og bakið við 190 °C í 20 til 30 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Við bárum innbakaða Oumphið fram með brúnuðum kartöflum, rauðvínssveppasósu, grænum baunum og rauðkáli.

Rauðvíns-sveppasósa

  • 100 gr sveppir

  • 1 peli Oatly-hafrarjómi (250ml)

  • 1 msk rauðvín

  • 1/2 sveppateningur

  • salt og pipar

  • 2 msk hveiti

  • 3/4 dl vatn

  1. Steikið sveppina þar þeir eru mjúkir og svolítið vökvi myndast.

  2. Bætið rjóma, rauðvíni, sveppateningi, salti og pipar á í pottinn og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur,

  3. Hristið eða þeytið saman með písk vatninu og hveitinu þar til alveg kekklaust og hellið út í í mjórri bunu á meðan hrært er stanslaust í súpunni.

  4. Leyfið suðunni að koma aftur upp og slökkvið undir.

Brúnaðar kartöflur (10-12 litlar)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Njótið vel
-Veganistur

 

 

Vegan lagterta

Jólaundirbúningurinn heldur áfram hjá okkur systrum og enn einu sinni sannast það að maður þarf ekki dýraafurðir til að njóta matarins sem fylgir þessari hátíð. Núna í nóvember prófuðum við í fyrsta skipti síðan við gerðumst vegan að gera lagtertu. við gerðum okkur þó ekki miklar vonir og vissum í raun ekki alveg út í hvað við værum að fara.

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og sáum að þær voru ekkert rosalega flóknar. Uppistaðan í þeim flestum var u.þ.b. sú sama en auðvitað innihéldu þær allar egg. Við ákváðum að þróa okkar eigin uppskrift og nota aquafaba í staðin fyrir egg. 

Aquafaba er orðið flestum kunnungt en það notum við t.d. í marengsuppskriftirnar okkar. Júlía bakaði köku fyrir jólin í fyrra sem minnti mikið á lagtertu og notaði aquafaba í hana og því ákváðum við bara að halda okkur við það. En fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós.

Það að baka lagtertu er alls ekki eins flókið og við héldum. Ástæðan fyrir því að okkur hafði ekki dottið í hug að baka lagtertu áður er sú að við borðuðum ekki mikið af henni í æsku. Hún var aldrei bökuð heima og því ekki mjög stór partur af okkar jólum. Núna í vetur höfum við samt mikið verið að gæla við þessa hugmynd þar sem kakan er svo rosalega jólaleg.

Einnig fundum við fyrir svolítilli eftirspurn eftir uppskrift af þessari köku og við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa skellt í hana. Við erum núna búnar að prófa uppskriftina nokkrum sinnum og hefur hún alltaf heppnast mjög vel.

Hráefni:

  • 150 gr vegan smjör (við notum Krónu smjörlíki)

  • 3 dl sykur

  • 6 msk aquafaba

  • 7 1/2 dl hveiti

  • 2 tsk kanill

  • 1 1/2 tsk negull

  • 1 1/2 tsk matarsódi

  • 1 msk kakó

  • 2 1/2 dl plöntumjólk (við notum Oatly haframjólkina)

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið og sykurinn í hrærivél og bætið síðan aquafaba útí. Þeytið þetta þar til létt og ljóst.

  2. Blandið þurrefnunum saman í aðra skál.

  3. Bætið því út í smjörhræruna ásamt mjólkinni og hrærið saman.

  4. Skiptið deginu jafnt í tvennt og bakið tvo botna í 18 mínútur við 175°C. Botnarnir eiga að vera u.þ.b. 25 x 35 cm. Skerið hvorn botn í tvennt svo þið hafið fjóra botna og smyrjið smjörkreminu jafnt á milli þeirra.

Smjörkrem:

  • 200 gr vegan smjör

  • 3 msk aquafaba

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 pakki flórsykur (500 gr)

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í hrærivel og þeytið vel saman.

  2. Smyrjið á milli botnanna.

Njótið vel!
-Veganistur

Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

  • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif

Rjómalöguð sveppasúpa í brauðskál

IMG_6705.jpg

Á veturna eru súpur og kássur algjörir bjargvættir. Það er fátt meira kósí en ylvolg súpa eftir langan og kaldan dag. Við ætlum að vera duglegar að deila með ykkur góðum súpuuppskriftum í vetur, en í dag ætlum við að sýna ykkur sveppasúpu uppskriftina okkar sem er ein af okkar eftirlætis súpum. 

Súpur eru ekki einungis þægilegar vegna þess að þær ylja manni á köldum dögum, heldur einnig vegna þess að við eldamennskuna þarf yfirleitt bara einn pott og eitthvað til að hæra með. Oftar en ekki er gott að skella hráefnunum í pottinn og leyfa þeim að malla í svolítinn tíma á lágum hita án þess að þurfa mikið að skipta sér af. Eins og okkur þykir gaman að eyða tíma í eldhúsinu er oft rosalega fínt að geta gert fljótlegan, bragðgóðan og næringarríkan mat án mikillar fyrirhafnar. Það skemmtilegasta við þessa súpu er það að hún hentar fullkomlega sem kvöldmatur á venjulegu miðvikudagskvöldi en hentar einnig einkar vel sem forréttur við hvaða tilefni, eins og til dæmis sem forréttur á aðfangadagskvöld. 

Við erum duglegar að gera sveppasúpu við allskonar tilefni.  Við höfum mikið borðað hana á hátíðum og Júlía bar hana til dæmis fram í útskriftarveislunni sinni. Hún er klassísk og það finnst flestum hún góð svo hún hentar til dæmis vel fyrir tilefni þar sem ekki eru allir vegan, því fæstir finna nokkurn bragðmun. Eini munurinn er sá að jurtarjóminn er alls ekki jafn þungur í magann og hinn hefðbundni og við getum lofað ykkur að fólk mun ekki kvarta yfir því. 

Við ákváðum að prufa að bera súpuna fram í brauðsskál. Við keyptum súrdeigsbrauð í Passion bakaríi og einfaldlega skárum ofan af brauðinu, tókum það mesta innan úr og stungum í ofnin á 200°C í sirka 10 mínútur svo skálin yrði ekki blaut í gegn.

Þar sem brauðið var heldur stórt komst nóg af súpu í það fyrir okkur tvær. Næst ætlum við að reyna að finna aðeins minni brauð svo maður geti fengið sína eigin brauðskál. Við þurfum þó varla að taka það fram að brauðskálin er engin nauðsyn, hún var gerð einungis uppá gamanið en kom virkilega vel út. Við mælum þó sterklega með súrdeigsbrauðunum úr Passion bakarí, hvort sem þið viljið nota þau sem skálar eða einfaldlega njóta þess að borða það með súpunni. 

Hráefni:

  • 100 gr vegan smjör

  • 1/2 til 1 laukur (við notuðum hálfan stóran)

  • 200 gr frosin villisveppablanda

  • 250 (1 pakki) sveppir

  • hveitiblanda (2 kúfullar msk hveiti + 1 dl vatn hrisst saman)

  • 1 til 2 greinar ferskt timian

  • 1 tsk þurrkað timian

  • salt og pipar

  • 1 sveppateningur

  • 1 til 2 tsk grænmetiskraftur

  • 250 ml vatn

  • 750 ml Oatly haframjólk

  • 500 ml (tvær fernur) Oatly hafrarjómi

Aðferð:

  1. Leyfið frosnu sveppunum að þiðna í nokkrar mínútur. Skerið þá svo niður ásamt fersku sveppunum og saxið laukinn.

  2. Bræðið smjörið í potti og bætið sveppunum og lauknum saman við. Steikið við lágan hita í dágóðan tíma eða u.þ.b. 15 mínútur. 

  3. Nýtið tímann á meðan í að sjóða vatn í katli eða öðrum potti. Þetta er ekki nauðsynlegt en okkur þykir gott að búa til grænmetissoð með því að sjóða vatn, hella því í skál og leyfa kraftinum að leysast almennilega upp í því áður en við hellum því út í pottinn með sveppunum. 

  4. Hristið saman hveitiblönduna þar til engir kekkir eru eftir. Okkur þykir fínt að nota sultukrukku í verkið því þá er engin hætta á að þetta hristist uppúr. Hellið blöndunni hægt útí og hrærið vel í á meðan.

  5. Hellið grænmetissoðinu útí 50 ml í einu og hrærið vel í á meðan svo ekki myndist kekkir í súpuna. Leyfið suðunni svo að koma upp og hellið síðan mjólkinni útí. 

  6. Látið súpuna malla í 15-20 mínútur áður en rjóminn fer útí.  Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort vantar meira af kryddum. 

  7. Hellið hafrarjómanum útí, leyfið suðunni að koma upp, slökkvið undir og berið fram. 

  8. Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum t.d. oft á jólunum, er fínt að geyma það að setja rjómann útí þar til hún er hituð upp rétt áður en það á að borða hana.

  9. Það má auðvitað mauka súpuna með töfrasprota ef þess er kosið en við kjósum að gera það ekki.

Vonandi njótið þið vel! 
-Veganistur

Vegan lakkrístoppar

Nú nálgast jólin óðfluga og flestir farnir að huga að jólabakstrinum. Við systurnar erum að sjálfsögðu engin undantekning. Þegar við gerðumst vegan bjuggumst við ekki við því að baka lakkrístoppa aftur. Vegan marengs var eitthvað sem fólk almennt hafði ekki hugmynd um að hægt væri að gera. Það var svo fyrir sirka tveimur árum að aquafaba, próteinríki vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós, uppgvötaðist. Það var frakkinn Joël Roessel sem fann upp á þessarri snilld. Aquafaba gjörsamlega breytti lífi vegan fólks um allan heim. Nú geta þeir sem kjósa að borða ekki egg eða eru með ofnæmi fyrir eggjum notið þess að borða til dæmis marengstertur og mæjónes svo eitthvað sé nefnt. 

Síðustu jól bökuðum við lakkrístoppa í fyrsta skipti síðan við urðum vegan. Við vorum örlítið skeptískar í fyrstu og vildum ekki gera okkur of miklar vonir. Við urðum því heldur betur hissa þegar lakkrístopparnir komur úr ofninum og smökkuðust nákvæmlega eins og þeir gömlu góðu sem við vorum vanar að borða áður fyrr. 

Við þróuðum uppskriftina sjálfar og birtum á facebooksíðunni okkar en hún vakti strax mikla lukku. Uppskriftin er virkilega einföld og hefur slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað toppana hjá okkur. Það er að sjálfsögðu vel hægt að bjóða öllum uppá lakkrístoppana, hvort sem fólk er vegan eða ekki, því það er enginn munur á þeim. 

Við erum á fullu að safna góðum hátíðaruppskriftum á bloggið okkar sem henta vel fyrir jólin og í allskonar veislur. 
Núna erum við til dæmis komnar með

Marengstertu
Aspasbrauðrétt
Döðlunammi
Súkkulaðiköku

... Og það er margt fleira á leiðinni. 
 

IMG_6712-2.jpg

Vegan Lakkrístoppar

  • 9 msk aquafaba

  • 300g púðursykur

  • 150g lakkrískurl

  • 150g suðusúkkulaði

 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°c

  2. Þeytið aquafaba í hrærivél þar til vökvinn verður alveg stífur, eða í sirka 15-20 mínútur

  3. Bætið púðursykrinum hægt út í, það er fínt að setja bara eina matskeið í einu og þeytið á meðan

  4. Hrærið vel og lengi, alveg í aðrar 20 mínútur

  5. Slökkvið á hrærivélinni og blandið lakkrísnum útí, ásamt brytjuðu súkkulaðinu, varlega með sleif.

  6. Bakið lakkrístoppana í 15-17 mínútur. Leyfið þeim að kólna í svolítinn tíma á plötunni eftir að þið takið þá út.

Vonum að þið njótið 

-Veganistur

Fullkomið grænmetis lasanga

Ég varð snemma ástfangin af ítölskum mat. Það var eitthvað við pasta, pizzur, tómatlagaðar sósur og þessar einstöku kryddjurtir sem heillaði mig. Ég held að pasta hafi alltaf verið einn af mínum uppáhalds mat, hvort sem það var pasta með kjötsósu, lasanga, kalt pastasalat eða pestópasta. Það er eitthvað við þennan rétt, hann getur bæði verið svo látlaus með einfaldri sósu en á sama tíma svo fínn með aðeins meiri tíma og ást.

Í þetta skiptið ætlum við þó að deila með ykkur uppskrift á einföldu, klassísku grænmetislasanga. Það er langt síðan við fengum fyrst fyrirspurn um að gera lasagna uppskrift.  Lasagna er réttur sem maður getur leikið sér endalaust með. Það skiptir eiginlega ekki máli hvaða grænmeti maður notar, það verður alltaf gómsætt. Þessi uppskrift er mjög hefðbundin og þægileg, en við stefnum á að birta uppskriftir af alls kyns mismunandi útgáfum af þessum skemmtilega rétt í framtíðinni. 

I uppskriftina notuðum við meðal annars Violife rjómaost sem gefur réttinum mjög skemmtilegt bragð. Brúnu linsubaunirnar gera líka mikið fyrir réttinn að okkar mati. Grænmetið er hinsvegar smekksatriði. Það er að sjálfsögðu hægt að nota bara það sem er til í ísskápnum en við ákváðum að nota það sem er í uppáhaldi hjá okkur að þessu sinni. 

það halda margir að það sé rosalegt vesen að útbúa lasagna en í rauninni er það verulega einfalt. Það er tekur kannski smá stund að setja það saman en það er skemmtilegt og algjörlega þess virði. 

Það sem er hins vegar mjög þægilegt við lasanga er að það er í góðu lagi að undirbúið það daginn áður en það skal borið fram. Því hentar það fullkomlega þegar maður fær fólk í mat því maður getur haft það tilbúið í ísskápnunm og skellt því í ofninn rétt áður en gestina ber að garði. Ekkert uppvask eða stress.

Hráefni:

  • 1/2 bolli þurrar brúnar linsur

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 2 til 3 hvítlauksgeirar

  • 1/2 til 1 paprika

  • 1 meðalstór laukur

  • 3 gulrætur

  • hálfur meðalstór blómkálshaus

  • 1 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 3 msk tómatpúrra

  • 1 msk þurrkuð basilíka

  • 1 msk þurrkað oregano

  • 2 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar

  • spínat

  • 1 dós violife rjómaostur með kryddjurtabragði (herbs)

  • lasanga plötur (passa að þær innihaldi ekki egg)

  • vegan ostur (við notuðum ost frá merkinu follow your heart sem fæst í Gló)

Aðferð

  1. Byrjið á því að skola linsurnar vel og sjóða upp úr einni matskeið af grænmetiskrafti í 40 mínútur. Á meðan er gott að undirbúa fyllinguna.

  2. Skerið gulrætur, papriku og lauk venjulega niður en blómkálið er best að saxa mjög smátt svo það líkist örlítið hakki. Steikið grænmetið með kryddunum og hvítlauknum þangað til það mýkist aðeins. Þegar grænmeti sem nota á í fyllingar og pottrétti líkt og í þessari uppskrift er algjör óþarfi að steikja það upp úr olíu en okkur finnst best að nota bara nokkrar msk af vatni.

  3. Bætið niðursoðnum tómötum og tómatpúrru útí ásamt grænmetiskraftinum. Látið suðuna koma upp og setjið þá soðnar linsurnar saman við og smakkið til með salti og pipar. Leyfið fyllingunni að sjóða í um 10 mínútur og bræðið rjómaostinn í potti á lágum hita á meðan. Það þarf að hræra vel í rjómaostinum á meðan svo hann brenni ekki við.

  4. Setjið í eldfast mót, fyllingu, spínat, lasangaplötur og síðast þunnt lag af rjómaostinum. Endurtakið þrisvar til fjórum sinnum þar til mótið er nánast fullt. Endið síðan á fyllingu og setjið ostin yfir hana.

  5. Bakið í 190°C heitum ofni í 20-25 mínútur.

Lasanga smakkast einstaklega vel borið fram með góðu fersku salati og hvítlauksbrauði, en það er þó alveg nóg eitt og sér.

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

  • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)

  • 130 gr vegan smjör

  • 1/2 bolli púðursykur

  • 100 gr lakkrís

  • 2 1/2 bolli rice krispies (á Íslandi fæst því miður ekki lengur vegan rice krispies frá Kellogs, en það er hægt að nota poppað kínóa pöffs sem fæst í Nettó. Eins höfum við prófað að kaupa kornflex frá öðrum merkjum en Kellogs og það virkar vel líka)

  • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita.

  2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.

  3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman.

  4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita.

Njótið vel

-Júlía Sif

 

 

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Síðastliðin ár hefur mér þótt virkilega gaman að prufa mig áfram með allskonar uppskriftir. Þegar ég tók út dýraafurðir varð það að svolitlu sporti hjá mér að veganæsa rétti sem mér þóttu góðir. Hinsvegar lagði ég einhvernveginn aldrei í að útbúa vegan heitan brauðrétt. Ég held að það hafi verið vegna þess að svona brauðréttir voru virkilega eitt það besta sem ég fékk, og ég var mögulega hrædd um að valda sjálfri mér vonbrigðum. Ég prufaði það svo í fyrsta sinn í gær og ég eiginlega trúi ekki að ég hafi verið vegan í rúm 5 ár og farið í gegnum afmælisveislur og jólaboð og svona án þess að gera svona brauðrétt. Þetta er bæði fáránlega einfalt og smakkast aaalveg eins og þessir sem ég var vön að elska sem barn. Ég bauð ömmu minni uppá réttinn, sem er langt frá því að vera vegan, og henni þótti hann gjörsamlega æðislegur. Það eitt og sér er nógu góð staðfesting á því að þetta hafi heppnast vel hjá mér!

Í brauðréttinn nota ég meðal annars heimagerða mæjónesið mitt. Uppskriftina birti ég í annarri færslu í sumar og hérna er linkur á hana. Það er að sjálfsögðu hægt að kaupa vegan mæjónes útum allt en það er mun ódýrara að gera sitt eigið og alveg jafn gott, ef ekki betra. Ég á það til að mikla fyrir mér hlutina og ég frestaði því lengi að prufa að gera mæjó, aðallega því mér fannst það hljóma eins og svaka vesen en það er einmitt hlægilega einfalt. 

Annað hráefni sem mér þykir mikivægt í uppskriftinni er sveppakrafturinn. Hann gefur réttinum æðislegt bragð sem kemur í stað sveppasúpunnar frá Campbell/sveppasmurostsins sem ég notaði alltaf í brauðrétti áður en ég varð vegan. Það fást bæði sveppateningar frá Kallo og frá Knorr hér á landi. Ef þið notið þennan frá Knorr þarf alls ekki að salta fyllinguna því krafturinn er vel saltur. Ég hef ekki prufað að nota þennan frá Kallo svo ég er ekki viss hversu mikið salt er í honum. Að sjálfsögðu smakkið þið bara og finnið hvort ykkur finnst vanta salt. 

Rúllubrauðið kaupi ég frosið og það fæst í Bónus. Ég leyfi því að þiðna áður en ég nota það og það tekur yfirleitt svona rúmlega hálftíma. Brauðið kemur rúllað upp í plasti og gott er að leggja plastið undir brauðið, smyrja fyllingunni á og nota plastörkina til að rúlla brauðinu upp. Það verður nefnilega svolítið viðkvæmt þegar fyllingin er komin inn í það. 

Í fyrstu ætlaði ég að hafa rifinn vegan ost ofan á brauðinu en átti hann ekki til. Ég smurði því vel af vegan mæjónesinu ofan á og stráði kryddi yfir. Í þetta sinn notaði ég Old bay kryddið en það er líka æðislegt að nota bara paprikuduft. Eftir að hafa prufað þetta finnst mér ostur aaalgjör óþarfi ofan á þetta því mæjóið kemur svolítið út eins og bráðinn ostur og er sjúklega gott! 

Ég er svo ánægð að hafa loksins tekið af skarið og búið til svona heitt brauð. Þessi uppskrift mun svo sannarlega vera notuð mikið í framtíðinni við allskonar tilefni. Mig langar helst að halda veislu bara til þess að geta boðið uppá svona brauðrétt og vegan marengstertuna sem Júlía birti hérna á blogginu fyrir stuttu. Ég vona að ykkur líki uppskriftin og endilega sendið okkur snap (veganistur) ef þið gerið uppskriftirnar okkar, við elskum að fá að fylgjast með ykkur! :)

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum
Höfundur: Helga María
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 20 Min: 40 Min
Heitt rúllubrauð er nauðsynlegt í allar veislur og önnur boð að okkar mati. Þessi uppskrift er algjör klassík með sveppum og aspas og svíkur því engan.

Hráefni:

  • 1 Rúllubrauð.
  • 1 bolli vegan majónes (Plús tvær matskeiðar auka til að smyrja ofan á brauðið áður en það fer í ofninn)
  • 1 sveppateningur.
  • 100 g sveppir
  • Smávegis af olíu til að steikja sveppina uppúr
  • 1/2 dós aspas plús 1 msk af safanum úr dósinni
  • Old bay krydd eða paprikuduft

Aðferð:

  1. 1. Hitið ofninn í 200°c
  2. 2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu í svolítilli olíu í sirka 5 mínútur, eða þar til þeir eru svolítið mjúkir
  3. 3. Bætið mæjónesinu útá pönnuna ásamt sveppakrafi, aspasinum og safanum frá aspasinum og blandið vel saman
  4. 4. Smyrjið fyllingunni í rúllubrauðið og notið plastörkina sem fylgir með til þess að rúlla brauðinu upp.
  5. 5. Smyrjið toppinn á brauðinu með mæjónesi og stráið kryddinu yfir
  6. 6. Bakið í ofninum í 15-20 mínútur. Það fer svolítið eftir því hvernig ofninn er. Endarnir á brauðinu voru orðnir svolítið gylltir þegar það var tilbúið og tók sirka 17 mínútur hjá mér.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Ferðaráð-Ástralía

Ég fór í heimsreisu snemma á árinu og ferðaðist í þrjár vikur um austurströnd Ástralíu í litlum húsbíl með kærastanum mínum. Við keyrðum strandlengjuna frá Cairns til Sydney, en þegar ferðast er með takmarkaðan pening í Ástralíu er húsbílaleiga hin fullkomna leið. Þó svo að það hafi kostað frekað mikið að leigja þennan litla húsbíl sem var kannski ekki mesti lúxusbíll í heimi, spöruðum við mikinn pening á honum. Við leigðum bíl í gegnum fyrirtækið Spaceships en eftir mikla leit fundum við út að það var ódýrasta og hentugasta fyrirtækið fyrir okkur.

Bíllinn var mjög notalegur og kom með öllu sem við þurftum, rúmi, gashellum, kæliboxi og öllum helstu nauðsynjum. Það að búa í húsbíl í 3 vikur var einn besti ferðamáti sem ég hef upplifað. Þvílíkt frelsi sem fylgdi þessu, þó svo að maður gæti örugglega ekki gert þetta með hverjum sem er. Að vera ofan í hvort öðru, bókstaflega, allan sólahringin getur verið krefjandi og því þarf að vanda valið á ferðafélaganum en ég var þó svo heppinn að vera í minni ferð með kærastanum mínum. Á þessum ferðamáta spöruðum við mjög mikinn pening en það var þó aðalega á tvo vegu.

Annars vegar var það á gistingu. Við gistum í bílnum í 19 nætur en borguðum einungis gistingu fyrir þrjár þeirra. Í Ástralíu er mikið af tjaldsvæðum og bílastæðum sem hægt er að gista í frítt. Maður verður þó að passa sig að það megi gista á stöðunum því annars getur maður fengið himinháar sektir. Það er þó ekki erfitt að vera viss um að það sé í lagi á gista á stöðum með Ástralska appinu WikiCamps. Við notuðum þetta app rosalega mikið til að finna gistingar, flotta staði og margt fleira. Þær nætur sem við borguðum fyrir gistingu, gistum við fyrir utan hostel en mörg hostel í ástralíu eru með stór bílastæði þar sem þau bjóða uppá að leggja bílunum og gista í þeim gegn vægu gjaldi, á móti því himinháa sem svokallaðir húsbílagarðar taka fyrir stæði.

Hins vegar spöruðum við mjög á mat en við elduðum nánast alltaf sjálf í húsbílnum. Matur í Ástralíu er frekar dýr en maður sparar mikið á því að fara í stórar matvörubúðir og kaupa mat sem maður svo eldar sjálfur í húsbílnum. Þetta gerðum við alltaf og þó svo að maturinn hafi ekki alltaf verið sá merkilegasti var það vel þess virði miðað við peningin sem við spöruðum. Þetta hentaði mér einnig mjög vel sem VEGAN. Með því að gera þetta gat ég alltaf eldað það sem ég vildi og þurfti ekki að hafa áhyggjur af því að veitingastaðir væri með VEGAN rétti. Í áströlskum matarbúðum er nefnilega mjög gott úrval af vegan mat, þó svo að það hafi ekki verið jafn gott og ég bjóst við er hægt að fá allt það helsta í flestum búðum. Uppáhalds vörurnar mínar voru:

  • Vegie delights vörurnar frá sanitarium.- Vörur frá merkinu Vegie delights finnast í öllum helstu búðum landsins en við versluðum lang mest í Coles. Það þarf þó að passa sig þegar þessar vörur eru keyptar því ekki allar þeirra er vegan. Áleggin hennta öll einungis grænmetisætum, en pulsurnar, hakkið og hamborgararnir eru vegan. Þessar vörur eru vel merktar svo það er mjög auðvelt að finna út hverjar eru vegan og hverjar ekki. Við keyptum pylsurnar tvisvar en þær voru mjög góðar í brauði með tilheyrandi sósum. Hakkið notuðum við hins vegar mikið, það var mjög gott sem „hakk“ og spagetti eða í vefjur með salsasósu og grænmeti.
  • Hummus-. Ástralir eru greinilega miklir hummus-menn en í öllum búðum má finna margar tegundir af hummus. Þetta gerði mig mjög glaða þar sem ég elska hummus og voru millimálin okkar í bílnum oftar en ekki hummus og brauð eða gulrætur.
  • Haframjöl- var einn af bestu vinum okkar þarna úti. Kílóa poki af haframjöli kosti rúmar 100 íslenskar krónur en úr honum fengum við hafragraut í morgunmat í tvær vikur. Það var ekki bara ódýr morgunmatur heldur einnig mjög nærandi og góður.
  • Ferskir ávextir-. Við komumst að því snemma á ferðalaginu okkar að ávextir á Íslandi eru EKKERT miðað við á þessum slóðum. Ávaxta og grænmetismarkaði er að finna út um allt í sveitum Ástralíu. Ferskar melónur, ananas og ástaraldin beint frá býli var eitt það besta sem ég hef á ævinni smakkað. Við versluðum mikið við svona markaði og borðuðum á ferðum okkar í bílnum.
  • SoGood frá merkinu sanitarium. Frá sama fyrirtæki og gerir Vegie delights er hægt að fá vegan ís sem eru æðislegir. Það eru þó bara tvær tegundir, chocolate Almond sem er gerður úr möndlumjólk og Coconut vanilla sem er úr kókosmjólk. Mér fannst báðir mjög góðir, en vanilluísinn þó aðeins betri.

Þó svo að við höfum oftast eldað í bílnum fórum við auðvitað nokkrum sinnum út að borða. Það er alls ekki erfitt að komast yfir vegan rétti í ástralíu en ég vildi að ég hefði haft meiri tíma til að prufa alla spennandi veitingastaðina sem í boði eru. Þar sem við vorum að ferðast frekar ódýrt eru þetta þó ekki fínir veitingastaðir en þó gott að hafa þá á bakvið eyrað þegar ferðast er um landið.

 

  • Hungry jacks- Hamborgarastaður í anda Burger King en þeir selja grænmetiborgara sem er auðvelt að gera vegan með því að biðja þá að sleppa majónesinu og ostinum. Þessi borgari er ágætur á bragðið en staðinn má finna alls staðar um landið og henntar því vel þegar maður lendir í vanda. 
  • Dominos- Ólíkt dominos á Íslandi eru allir botnarnir í Ástralíu og Nýja-Sjálandi vegan. Það er því auðvelt að kaupa sér pítsu með alls konar áleggi en auðvitað þarf að muna að biðja um engan ost. Pönnupizza með lauk, sveppum og spínati var í uppáhaldi hjá mér.
  • Falafel- Út um allt landið er að finna Kebab staði sem selja falafel í vefjum. Ég hef aldrei lent í því að falafel bollur séu ekki vegan og því er það mjög góður kostur. Í falafel vefjurnar fær maður að velja sér grænmeti og sósur, en á flest öllum stöðunum er hægt að fá hummus
  • Funky pies- Bökur „pies“ eru mjög vinsæll matur í ástralíu og því urðum við auðvitað að smakka svoleiðis. Við fundum mjög góðan vegan bökustað í Sydney nálægt Bondi Beach. Staðurinn heitir Funcky pies en allar bökurnar þeirra eru vegan.

Glútenlaust rjómapasta

IMG_1390.JPG

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram við að elda glútenlausan mat, en ég elska pasta og er mjög oft með það í matinn. Þegar reyna á að gera hina ýmsu pastarétti glútenlausa þarf að finna staðgengil fyrir aðal hráefnið, pastað sjálft. Það eru til alls kyns glútenlaus pasta í flestum búðum í dag en ég hef ekki smakkað mörg þeirra ennþá. Þó hefur mig lengi langað að prófa að elda baunapasta, en ég hef séð svoleiðis í mörgum búðum í soldin tíma. Ég ákvað að láta verða af því og keypti svartbauna-pasta, en ásamt því er hægt að fæ bæði soyjabauna-pasta og edamame-pasta. Pakkinn af pastanu er frekar dýr en 200gr pakki var nóg fyrir fjórar fullorðnar manneskjur í kvöldmat þar sem pastað stækkar alveg rosalega mikið við suðu. 

Einhvernveginn fannst mér líklegra að rjómasósa myndi passa með svartbaunapastanu frekar en sósa með tómatgrunn. Rjómapasta hefur alltaf verið smá spariréttur hjá mér en það geri ég alltaf þegar mig langar í eitthvað extra gott. Ég átti kebab Oumph í frystinum og datt í hug að það myndi passa vel í þennan rétt. Ég notaði svo það grænmeti sem ég átti til í ísskápnum, en mér finnst sveppir og laukur allavega vera nauðsyn í rjómapasta. Uppskriftin passar fyrir fjóra.

Hráefni:

  • 1 pakki svartbaunapasta

  • 1 bolli niðurskorið Oumph að eigin vali (ég notaði Kebab Oumph)

  • u.þ.b. 4 sveppir

  • hálfur rauðlaukur

  • u.þ.b. 1 bolli brokkolíblóm

  • tveir hvítlauksgeirar/1/4 lítill kínverskur hvítlaukur

  • rjómasósugrunnur (uppskrift neðar í færslunni)

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 msk Pasta Rossa krydd frá Santa Maria

  • 2 msk maísmjöl

Aðferð:

  1.  Byrjið á því setja vatn í pott, kveikja undir og leyfa suðunni að koma upp. Á meðan er sniðugt að undribúa grænmetið. Þegar suðan kemur upp er pastað sett út í og látið sjóða í 4-6 mínútur, en ég sauð mitt pasta í 6 mínútur. Aðskiljið pastað nokkrum sinnum með gaffli á meðan það síður.

  2. Skerið grænmetið eins og þið viljið hafa það, en ég reyni að skera það ekki of smátt, og steikið ásamt Oumph'inu upp úr örlítilli olíu og pressuðum hvítlauknum í nokkrar mínútur.

  3. Þegar grænmetið hefur mýkst er rjómasósunni hellt út í ásamt kryddunum og suðan látinn koma upp. Stráið maísmjölinu yfir, hrærið vel í og leyfið sósunni svo að sjóða í 4-5 mínútur.

  4. Pastanu er síðan hrært saman við þegar slökkt hefur verið undir pönnunni.

Rjómasósugrunnur:

  • 1 dós kókosmjólk

  • 1/4 dl næringarger

  • 1/2 grænmetisteningur

Aðferð:

  1. Öllu er blandað saman í skál og notað eftir aðferðinni hér að ofan. 

Það sem ég elska mest við þennan rétt er hversu einfaldur hann er þó svo að hann sé í fínni kanntinum og passi æðislega vel í matarboðið. Ég bar mitt pasta fram með ristuðu grófu brauði með vegan smjöri og vegan parmesan ostinum frá Follow Your Heart, en hann fæst í Gló Fákafeni og Hagkaup.

-Júlía Sif

Vegan Marengsterta

Marengstertur eru eitthvað sem ég hélt að ég þyrfti að gefa alfarið upp á bátinn þegar ég varð vegan. Mér fannst engar líkur á því að hægt væri að baka tertu sem samanstendur af sykri og eggjahvítu án eggjanna. Svo virðist sem ég hafi haft rangt fyrir mér í þessum efnum þar sem það er ekkert mál að gera marengsbotna án eggjana, en það er nú orðið að einum af mínum uppáhalds kökum. Þetta er gert með svokölluðu aquafaba, en það er soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós. Þessi kaka er því ekki einungis jafn bragðgóð og hin hefðbundna marengsterta heldur líka töluvert ódýrari í framleiðslu. Það er ekki skrítið að marengstertur séu svona vinsælar á veisluborðið en auk þess að vera mjög góðar á bragðið eru þær svo ótrúlega fallegar. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig að ná að fullkomna þessa uppskrift en oftar en ekki hefur uppskriftin sem ég prófaði að baka misheppnast. Ég held þó að ég sé komin nokkuð nálægt því með þessari uppskrift en hún hefur ekki enn misheppnast hjá mér þó ég sé búin að baka hana nokkrum sinnum.

Hráefni:

  • 12 msk aquafaba

  • 220 gr sykur

  • 2 dl mulið kornflex

  • 1/2 tsk lyftiduft

Aðferð:

  1. Þeytið vökvan á hæsta stigi þar til hann verður að stífri, u.þ.b. 15 mínútur. Bætið síðan við einni matskeið af sykrinum í einu á meðan hrært er á miklum hraða. Þeytið þetta tvennt lengi og vel, eða þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan detti úr. þetta tekur allt að 20 mínútum.

  2. Blandið muldu kornflexinu mjög varlega saman við ásamt lyftiduftinu með sleikju.

  3. Bakið marengsin í 50 mínútur við 120°C heitan ofn en ég hef ofninn á blæstri og leyfið botnunum að kólna vel áður en þeir eru teknir af plötunni. Best er að slökkva á ofninum og leyfa botnunum að kólna með honum.

Ég bar marengstertuna mína fram með þeyttum soyatoo rjóma í milli, en í hann setti ég niðurskorin jarðaber og Ichoc núggatsúkkulaði. Bæði rjóminn og súkkulaðið má finna í Nettó. Kökuna skreytti ég svo með heimagerðri vegan karamellu, jarðaberjum og afganginum af súkkulaðinu sem ég reif niður. Jarðaberin og karamellan gera kökuna svo ótrúlega fallega og girnilega en ég lofa að engin sem smakkar hana mun verða fyrir vonbrigðum.

-Júlía Sif 

Svartbauna- og sætkartöflu enchilada.

Ég elska að elda og borða mexíkóska rétti og hef því þess háttar mat á boðstólnum nánast í hverri viku. Enchilada er mexíkóskur réttur sem er ekki svo þekktur meðal Íslendinga en þegar ég var að ferðast fyrr á árinun smakkaði ég hann í alls konar útgáfum, auðvitað alltaf vegan samt. Ég hafði aldrei eldað enchiladas áður, og aðeins heyrt lítið um réttinn. Ég ákvað því þegar ég kom heim að ég yrði að prufa að elda svoleiðis og fór að lesa og skoða meira um þennan tiltekna rétt. Ég ákvað að ég vildi hafa sætkartöflu og svartbaunafyllingu, bæði af því að það á ég oftast til heima og það eru alls ekki svo dýr hráefni. Ég las mikið á netinu að það væri hægt að kaupa enchilada sósur út í búð. Það hef ég þó aldrei séð hérna á Íslandi og ákvað því að búa hana bara til frá grunni, sem kom í ljós að var ROSALEGA lítið mál. Þessu réttur er ekki bara einfaldur heldur hefur hann slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað hann hjá mér í sumar.

Hráefni:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðuroðnir tómatar

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fegnið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursöðnum tómötum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og stráið yfir vegan osti ef hans er óskað. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

 

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

Réttinn má bera fram með því sem hugurinn girnist en ég ber hann fram með guacamole, maís, fersku salati og salsasósu.

Einfaldur og góður grjónagrautur

Ég hef verið vegan í 5 ár og fæ reglulega spurningar frá fólki varðandi allskonar sem tengist lífsstílnum. Eitt af því sem fólk virðist hafa miklar áhyggjur af þegar það gerist vegan, er að það verði að kveðja grjónagrautinn. Ég held ég hafi verið spurð oftar að því hvaða jurtamjólk sé best til að gera grjónagraut heldur en hvað best sé að nota í stað osts. 

Mér hefur alltaf þótt grjónagrautur góður. Sem barn borðaði ég hann alltaf með rúsínum og kanilsykri. Ég áttaði mig svo á því seinna meir hversu mikið hægt er að leika sér með grautinn. Hann er góður með
eplum og kanil
hlynsírópi
bláberjum og möndlum
sultu
karamellusósu...

..Listinn er endalaus.

Í kvöld bar ég grautinn annarsvegar fram með kanilsykri og hinsvegar með hindberjasultu sem ég hitaði örlítið í potti. Bæði þykir mér alveg virkilega gott!

Hráefni:

  • 3 dl grautar hrísgrjón

  • 3 og 1/2 dl vatn 

  • 1 líter jurtamjólk. Ég mæli mest með því að nota sæta soyamjólk, Provamel og Alpro eru æðislegar. 
    Annars er mjög gott að nota haframjólk, kókosmjólk eða möndlumjólk.
    Mér finnst hrísmjólk virka síst. Hún er æðisleg útá grautinn en hún er svo þunn að mér finnst hún ekki alveg passa í grautargerðina. 

  • 1 og 1/2 tsk salt

  • 1/4 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Setjið grjónin í pott ásamt vatninu og sjóðið þar til allt vatnið er horfið (sirka 10-15 mín). Hrærið reglulega á meðan

  2. Hellið mjólkinni, saltinu og vanilludropunum útí og látið malla í sirka 25-35 mínútur og hrærið mjög reglulega, grauturinn getur nefnilega auðveldlega brunnið við í botninum

  3. Berið fram með því sem ykkur langar. Í kvöld setti ég örlítið af sultu í lítinn pott og hitaði í smá stund. Sultunni helti ég svo yfir grautinn og það var æðislega gott

 

Njótið :)

Helga María

Kryddbrauð

Suma daga langar mig að baka eitthvað gott en er samt varla í stuði til þess. Svoleiðis daga er ég vön að skella í uppáhalds súkkulaðikökuna mína því hún er svo hlægilega einföld. Það kemur samt fyrir að mann langar í eitthvað annað en súkkulaðiköku og í dag var svoleiðis dagur. Mig hefur lengi langað að prufa að baka kryddbrauð svo ég lét loksins vaða. Útkoman varð æðisleg og ég trúi því ekki að ég hafi ekki gert þetta áður.

Ég reyni að forðast það að borða glútein svo ég notaðist við glúteinlaust hveiti. Ég hef verið að prufa mig áfram með glúteinlausan bakstur og ég verð að segja að það hefur komið mér skemmtilega á óvart. Kryddbrauðið kom úr ofninum mjúkt og undursamlega gott á bragðið.  Ég hef aðallega verið að nota hveitiblöndu frá Toro hérna erlendis en á Íslandi fæst meðal annars glúteinlaust hveiti frá Doves farm sem hefur vakið mikla lukku. 

Þessi uppskrift er virkilega einföld og er tilvalin til þess að leyfa krökkum að spreyta sig í bakstrinum.
Það tekur enga stund að útbúa deigið og einu áhöldin sem þarf eru:
stór skál
desilítramál
teskeið
sleif
brauðform

Kryddbrauðið er ekki einungis gott á bragðið heldur fyllist húsið af unaðslegum ilmi. Mér finnst það best volgt með vegan smjöri. Þetta verður klárlega bakað aftur á næstunni. 

Ég vil taka það fram að þó ég notist við glúteinlaust hveiti og haframjöl er ekkert mál að skipta því út fyrir venjulegt hveiti og haframjöl. 

Hráefni:

  • 3,5 dl glúteinlaust hveiti. Hveitið frá Doves farm fæst í Nettó og er mjög vinsælt. Ef þið eruð að nota venjulegt hveiti ætti að vera nóg að nota 3 dl

  • 3 dl glúteinlaust haframjöl. Ég mæli með haframjölinu frá Semper

  • 4 tsk kakó

  • 1 tsk engifer (krydd, ekki ferskt)

  • 1 tsk negull

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 og 1/2 dl púðursykur

  • 3 dl jurtamjólk að eigin vali

  1. Hitið ofninn í 200°c 

  2. Blandið öllu saman í stóra skál

  3. Smyrjið brauðform með vegan smjöri eða penslið með olíu

  4. Hellið deiginu ofan í og bakið í 40-50 mínútur. 

  5. Leyfið brauðinu að kólna í nokkrar mínútur áður en þið fjarlægið það úr forminu. 

Ég vona að þið njótið
Helga María

Gómsætt rjómapasta

Pasta er líklega eitthvað sem öllum þykir gott. Uppáhalds pastaréttirnir mínir eru lasagna, kalt pastasalat, pasta með grænu pestó og að sjálfsögðu rjómapasta. Síðan ég var barn hef ég haldið uppá pasta í rjómasósu og þá sérstaklega það sem mamma var vön að gera fyrir mig. Þegar ég gerðist vegan útbjó ég mína eigin uppskrift af rjómapasta sem minnti á það sem ég var vön að borða. 

Það eru til nokkrar tegundir af vegan matreiðslurjóma. Persónulega finnst mér sojarjóminn frá Naturli bestur, hann fæst í Nettó. Ég hef gert pastað með kókosrjóma og mér finnst það einnig mjög gott. Ég á enn eftir að prufa möndlurjóma en hrísrjóminn finnst mér sístur, aðallega vegna þess hversu sætur hann er. 
Galdra-hráefnið er svo næringarger sem gerir ótrúlega mikið fyrir sósuna. Næringarger er óvirkt ger sem er stútfullt af vítamínum, þar á meðal b12. Næringarger er eitt af mínum uppáahalds hráefnum. Það gefur svolítið ostalegt bragð svo það er oft notað í stað osts í allskonar uppskriftir. Ég strái næringargeri nánast út á allt og mæli með því að fólk kaupi sér dollu. Ég mæli með gerinu frá Engevita sem fæst meðal annars í Bónus og Hagkaup.

Neikvæða hliðin á svona gómsætum rjómapastaréttum er sú að þeir geta verið þungir í magann. Ég man að mér leið stundum eins og ég væri með stein í maganum þegar ég hafði borðað mig sadda af svona pasta. Mér finnst vegan rjómapasta samt fara mun betur í magann. Jurtarjóminn er einhvernveginn léttari en hinn. Um nokkurt skeið hef ég líka borðað eins lítið af glúteini og ég mögulega get og ég verð að segja að glúteinlaust pasta fer miklu betur í mig. Það er til fullt af góðu glúteinlausu pasta hvort sem það er úr baunum, kínóa eða maís. Það sem ég notaði í þetta sinn er úr maís og það er ómögulegt að finna bragðmun á því og hveitipasta.

Hráefni

1/2 askja sveppir
1/2 rauð paprika
1/2 haus brokkólí 
1/2 grænmetisteningur
1-2 fernur jurta-matreiðslurjómi (mæli með Oatly sem fæst í krónunni)
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk paprikuduft
Örlítið af olíu til steikingar
200 g pasta
3 msk næringarger
salt og pipar eftir smekk


Aðferð:

1. Steikið grænmetið á pönnunni uppúr örlítilli olíu

2. Sjóðið pasta í potti á meðan grænmetið steikist á pönnunni

3. Hellið rjómanum út á pönnuna þegar grænmetið er vel steikt. Bætið grænmetiskrafti, næringargeri og kryddum út á og látið malla í nokkrar mínútur á lágum hita. 

4. Hellið pastanu út á pönnuna þegar það er soðið í gegn. Bætið næringargeri, salti og pipar við ef ykkur finnst vanta. Ég á það til að bæta næringargeri útá því ég fæ einfaldlega ekki nóg af því!

Þegar ég er í stuði útbý ég hvítlauksbrauð og ber fram með pastanu en yfirleitt borða ég það bara eitt og sér. Ég vona að þið njótið vel.

Helga María

 


 

 

Svartbauna-brownies með kókosrjóma

Það er ótrúlega skemmtilegt að uppgötva nýja hluti í matargerð. Ég hef oft talað um það hversu mikið matarvenjurnar mínar breyttust til hins betra þegar ég gerðist vegan. Ég hef líka sagt frá því hvernig eldamennskan mín varð mun fjölbreyttari og meira spennandi en nokkurn tímann áður. Fyrir nokkrum mánuðum bakaði ég í fyrsta sinn svartbauna-brownies. Ég viðurkenni að mér fannst tilhugsunin ekkert svakalega spennandi. En ég er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt svo ég ákvað að láta reyna á þetta. Útkoman kom mér heldur betur skemmtilega á óvart! Kökurnar voru æðislegar á bragðið!  Þvert á það sem ég bjóst við finnur maður ekkert bragð af baunum í kökunum svo hafið engar áhyggur af því. 

Uppskriftin sem ég prófaði fyrst var af bloggsíðunni Minimalist baker. Hún smakkaðist mjög vel en ég fann á mér að ég gæti búið til mína eigin uppskrift og gert kökurnar enn betri. Nú hefur mér tekist það og ég er mjög ánægð með útkomuna. Kökurnar eru gómsætar, flöffí og mun hollari en margar aðrar kökur. Ég þeytti kókosrjóma með og ég mæli með því að bera hann fram með kökunum því rjóminn gefur þeim þetta litla extra. Ég get líka ímyndað mér að vegan vanillu-ís passi vel með.

Mér finnst glúteinlausar kökuuppskriftir oft innihalda of mikið af (oft rándýrum) hráefnum. Gjarnan innihalda þær margar tegundir af glúteinlausu hveiti og getur það tekið mikinn tíma að útbúa þær. Þar sem ég er öll fyrir einfaldleikann nenni ég svoleiðis stússi ekki alltaf. Jú, það kemur fyrir að maður er í stuði til að gefa sér tíma í hlutina en mér líður yfirleitt best þegar mér tekst að útbúa auðveldar uppskriftir sem eru á sama tíma bæði fljótlegar og virkilega bragðgóðar. Þessi uppskrift er ein af þeim. 

IMG_5442-4.jpg

Eins og þið sjáið sparaði ég ekki súkkulaðið. Ég setti helminginn inn í deigið og hinum helmingnum stráði ég yfir kökurnar áður en þær fóru í ofninn. Það er ekki bara ótrúlega bragðgott heldur gerir það kökurnar líka virkilega fallegar. Mér finnst mun skemmtilegra að borða góðan mat þegar hann er fallegur. 

Svartbauna brownies

1 1/2 bolli soðnar svartar baunir. Ég keypti lífrænar baunir í fernu, helti þeim í sigti og skolaði vel undir köldu vatni áður en ég maukaði þær
1/2 bolli glúteinlaust haframjöl. (Ef þið þolið glútein virkar venjulegt haframjöl að sjálfsögðu líka)
1/2 bolli hrísgrjónahveiti
1 tsk matarsódi
1/4 tsk salt
1/2 bolli kakóduft
4 msk olía. Ég mæli mest með bráðinni kókosolíu eða sólblómaolíu
1 tsk eplaedik
1/2 bolli vatn
1/2 bolli agave- eða hlynsíróp
1 bolli brytjað suðusúkkulaði

Það er auðveldast að nota matvinnsluvél eða góðan blandara til að gera deigið en það er ekki nauðsynlegt. Ég notaði töfrasprota í þetta sinn og það virkaði mjög vel. Eina sem þarf að passa er að mauka allar baunirnar vel því maður vill helst ekki bíta í heila baun. 

1. Byrjið á því að hita ofninn á 175°c með blæstri.  

2. Hellið haframjölinu í skál og malið það niður með töfrasprotanum þar til áferðin verður svipuð hveiti. Leggið það svo til hliðar.

3. Sigtið baunirnar og skolið vel með köldu vatni. Hellið þeim í stóra skál, maukið þær vel og passið að engin baun sé heil. 

4. Hellið vatni, sírópi, eplaediki og olíu saman við og maukið vel saman.

5. Bætið haframjölinu, hrísgrjónahveitinu, kakóinu, saltinu og matarsódanum saman við og maukið þar til engir kekkir eru. 

6. Hellið helmingnum af súkkulaðinu útí og blandið saman við deigið með sleif.

7. Pennslið muffins ofnskúffuform með olíu. Formið sem ég nota gerir 12 kökur og deigið passar nákvæmlega í það.

8. Stráið hinum helmingnum af súkkulaðinu yfir kökunar. Það er hægt að leika sér aðeins þarna og setja á kökurnar hnetur, þurrkaða ávexti, kókosmjöl eða bara það sem manni dettur í hug. 

9. Bakið kökurnar í 20-30 mínútur. Það er stundum mismunandi eftir ofnum hversu langan tíma tekur að baka kökurnar en mínar tóku sirka 26 mínútur. Leyfið kökunum að kólna í 10 mínútur áður en þið takið þær úr muffins forminu. 

Þeyttur kókosrjómi

1 dós kókosmjólk. (Passið ykkur að kaupa ekki létta kókosmjólk. Hún þarf helst að vera yfir 70% ef maður ætlar að þeyta hana.)
1 msk agave- eða hlynsíróp
1/2 tsk vanilludropar (má sleppa)

1. Kælið kókosmjólkina í dósinni. Ég reyni að setja hana í ísskápinn nóttina áður en ég ætla að þeyta hana, en að sjálfsögðu er það ekki alltaf hægt og þá hef ég skellt henni í ísskápinn í 1-2 klst eða í frystinn í hálftíma.

2. Takið kókosmjólkina úr kælinum.  Við kælingu skilur mjólkin sig og vatnið verður yfirleitt eftir í botninum. Við viljum bara nota þykka partinn af kókosmjólkinni þegar við þeytum hana svo passið ykkur að skilja vatnið eftir. 

3. Þeytið kókosmjólkina með rafmagnsþeytara ásamt sírópinu og vanilludropunum. Ef þið hafið tök á því að kæla rjómann örlítið er mjög gott að setja hann í kæli í sirka hálftíma eftir þeytingu, hann þykknar enn meira við það. 

Ég vona að ykkur líki uppskriftin og ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar

Helga María

 

 

Pulled Oumph! borgari með jalapeno mæjó og gómsæt ídýfa

Ég held að flestum Íslendingum líði þessa dagana eins og þeir gangi um í draumi. Karlalandsliðið okkar í fótbolta spilar í átta liða úrslitum á Evrópumeistaramótinu á morgun. Þetta lið er eitt af átta bestu fótboltaliðum evrópu. Og ekki gengur kvennaliðinu verr, efstar í undankeppni evrópumótsins sem fer fram á næsta ári, búnar að skora tæp 30 mörk og fá engin á sig. Ég er allavega í sjokki og ekkert smá stolt af þessu fólki og því að litla landið okkar skari fram úr á svo mörgum sviðum. Líkt og flestir Íslendingar ætla ég að horfa á leikinn á sunnudaginn, en leikurinn er sýndur klukkan 19:00, einmitt á kvöldmatartíma. Því er eiginlega nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að borða á meðan. Það verður þó að vera eitthvað auðvelt þar sem spennan og stressið sem við munum finna fyrir á sunnudaginn mun örugglega hindra flókna eldamennsku. Ég ákvað því að á sunnudaginn þyrfti ég að hafa eitthvað rosalega gott en einnig rosalega auðvelt í matinn.

Þegar ég var í Svíþjóð hjá Helgu í maí fórum við á skyndibitastaðinn Max, en hann er nýlega farin að bjóða upp á vegan borgara. Þetta er þó ekki hinn hefðbundni grænmetisborgari en uppistaðan í honum var Pulled Oumph. Mér datt því í hug að reyna að endurgera þennan borgara þar sem ekki er erfitt að nálgast Pulled Oumph þessa dagana á Íslandi. Það gekk líka svona ljómandi vel og útkoman varð æðisleg máltíð sem tók örskamman tíma að útbúa. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni af borgaranum svo þið getið notið hans yfir leiknum á morgun líkt og ég mun gera.

Pulled Oumph borgari (ein uppskrift verður að tveimur borgurum)

1 poki Pulled Oumph
2 hamborgarabrauð (athugið að brauðin sem þið kaupið séuð vegan, en brauðin frá Myllu eru það til dæmis)
Það grænmeti sem hugurinn girnist, en ég notaði kál, gúrku og tómata.
Jalapeno mæjónes

Borgarinn er mjög auðveldur í eldamennsku en það eina sem þarf að gera er að steikja Oumphið þar til það er tilbúið og setja á hamborgarabrauð ásamt sósunni og grænmetinu. Ég bar borgarann fram með kartöflubátum og vegan hrásalati. En uppskriftin af hrásaltinu má finna HÉR. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph er, þá er það soja kjöt sem líkist kjúklingi mjög mikið. Pulled Oumph er í bbq sósu og því þarf ekki einu sinni að krydda það og því mjög auðvelt að gera góða máltíð úr því. Hægt er að fá Oumph í nánast öllum Krónu búðum á landinu.

Jalapeno mæjónes

1 dl vegan mæjónes
3 skífur niðursoðið jalapeno mjög smátt skorið
nokkrir dropar af sítrónusafa
salt og pipar

Hrærið öllu saman í skál. Hægt er að fá vegan mæjónes t.d. í Hagkaup frá Just Mayo en mér finnst lang best að gera bara heimatilbúið mæjónes en það er mjög auðvelt. Uppskrif af mæjó er að finna HÉR


Ég ætla einnig að deila með ykkur uppáhalds sjónvarpsmönnsinu mínu. Þessa ídýfu kenndi mamma vinkonun minnar okkur að gera þegar við vorum litlar en mér fannst þessi uppskrift hljóma svo illa að ég var staðráðin í að mér myndi sko ekki finnast þetta gott. Ástæðan var örugglega sú að ídýfan samanstendur af sósu með fullt af grænmeti ofan á. Mér fannst alveg furðulegt að maður myndi setja grænmeti á eitthvað sem ætti að vera borðað yfir sjónvarpinu á föstudagskvöldi. Ég hefði þó ekki getað haft meira rangt fyrir mér þar sem þessi ídýfa er það besta sem ég veit og heldur betur tilvalinn með leiknum á sunnudaginn. Einnig er hún alls ekkert óholl og þarf maður því ekki að sitja með samviskubit eftir að maður gæðir sér á henni.

Ídýfa Önnu í Túni (ein uppskrift verður að ágætisstærð af ídýfu sem gott er að deila með vinum og fjölskyldu)

1 dós vegan rjómaostur (tofutti rjómaosturinn er mjög góður en hann fæst í Hagkaup)
1 dós (sirka 300 gr) salsa sósa
Það grænmeti sem hugurinn girnist, t.d. kál, gúrka, tómatar og paprika, en það er það sem ég notaði

Hrærið rjómaostinn ötlitla stund með handþeytara. Hrærið salsasósunni út í og setjið blönduna í það ílát sem þið hyggist bera ídýfuna fram í. Gott er að nota einhversskona eldfast mót eða bakka en blandan á að vera sirka einn cm þykk í botninum. Skerir grænmetið mjög smátt og stráið yfir. Berið ídýfuna fram kalda með tortilla snakki eða svörtu doritos, en það er vegan. Ef tíminn fyrir leikinn er naumur er gott að gera ídýfuna fyrr um daginn en þá er sniðugt að skera vatnsmesta partin úr gúrkunni (miðjuna) og sleppa tómötunum svo ídýfan verði ekki vatnskennd.

 

Ég hvet alla til að prófa þessar uppskriftir og hafa með leiknum á morgun, en ef þið gerið það má alltaf pósta á instagram og merkja #veganistur eða senda okkur myndir á snapchat, en við elskum að fá myndir frá ykkur.

 

 Júlía Sif

Af hverju nota ég mánabikarinn?

Ég var 12 ára gömul þegar ég byrjaði fyrst á blæðingum. Á meðan mamma óskaði mér til hamingju með að vera orðin kona hugsaði ég að lífi mínu gæti allt eins verið lokið. Ekki skánaði það svo þegar ég sat með henni inni á baði á meðan hún kenndi mér að nota dömubindi. Mig langaði sko ekkert að þurfa að hafa ,,bleyju" í nærbuxunum í hverjum mánuði það sem eftir yrði. Ég var einnig fyrst af stelpunum í mínum bekk til þess að byrja og fannst það heldur betur skömmustulegt. Ég þoldi ekki þennan tíma mánaðarins, ekki aðeins vegna hræðilegu túrverkjanna sem ég fékk í hvert skipti, heldur einnig vegna þess að dömubindi þóttu mér óþolandi. Þau voru svo þykk og mér fannst alltaf eins og þau sæjust í gegnum buxurnar mínar. Ég lenti svo í nokkrum hræðilegum atvikum á unglingsárunum þar sem dömubindið færðist til og blóð lak í gegnum buxurnar mínar. Þegar maður er 13 ára er fátt jafn pínlegt og slíkar uppákomur. 

Þið getið því trúað því hversu ánægð ég var þegar ég uppgvötaði túrtappann. Eða okei, fyrst þegar ég prófaði túrtappa skildi ég ekki alveg hvernig hann virkaði. Ég rétt tillti honum inn sem olli því að ég fann alltaf mikið fyrir honum og t.d það að setjast niður varð mjög sársaukafullt. Ég gafst því upp og þorði ekki að prófa túrtappann aftur fyrr en um ári seinna. Þegar ég hafði lært hvernig hann virkaði var ekki aftur snúið. Vá, þvílík snilld! 
Loksins voru dömubindin úr sögunni. Ég gat farið í skólann án þess að hafa áhyggjur af því að blæða í gegn og verða að athlægi. Ég gat loksins farið á túr án þess að þurfa að spá í því að ég væri á túr. 

Það sem ég vissi ekki á þeim tíma er að túrtappar eru ekkert sérstaklega hollir og þeir geta jafnvel verið mjög hættulegir. Mamma hafði sagt mér að skipta alltaf yfir í dömubindi fyrir svefninn því það væri alls ekki hollt að vera með sama tappann yfir heila nótt. Ég hlýddi því, svona oftast.  Þó gerði ég stundum undantekningar þegar ég gisti annars staðar en heima hjá mér. Ég gleymdi líka oft að skipta um tappa og var með sama tappann mjög lengi yfir daginn, sérstaklega þegar túrinn var léttur. Satt best að segja spáði ég ekkert mikið í því hvort tapparnir væru hollir eða ekki því þeir voru svo ótrúlega þægilegir. 

Þegar ég gerðist vegan fór ég þó að setja spurningamerki við túrtappana vegna þess að þeir eru yfirleitt prófaðir á dýrum, hvort sem það eru tapparnir sjálfir eða klórinn sem bómullinn eru þrifinn upp úr. Túrtappar eru heldur ekkert svakalega umhverfisvænir sem truflaði mig líka svolítið. Ég vissi samt ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í þessu og hélt áfram að nota þá í von um að finna einhverja betri lausn. 

Ég kynntist mánabikarnum þegar ég var tvítug. Ég keypti hann í Heilsuhúsinu. Ég hafði heyrt frábæra hluti um bikarinn og var því verulega spennt að prófa. Það sem ég hinsvegar vissi ekki þá er að maður þarf aðeins að læra á hann. Ég var svo ung og óþolinmóð að ég gafst strax upp og hætti að nenna að nota hann. Ég bið ykkur að gera ekki sömu mistök, þetta er fljótt að lærast og þá munuði aldrei vilja fara til baka. 

Bikarinn sem ég nota núna keypti ég í Svíþjóð og er frá finnska merkinu Lunette. Bikarinn fæst í Gló Fákafeni og er alveg frábær.
Lunette bikarinn kemur í tveimur stærðum. Minni stærðin er ætluð ungum stelpum sem hafa ekki sofið hjá og stelpum sem fá léttar blæðingar. Stærri gerðin er svo ætluð stelpum sem hafa sofið hjá og þeim sem fá meðal - miklar blæðingar. Ég nota stærri gerðina og finnst hún alveg fullkomin fyrir mig. Það er hægt að fá bikarinn í nokkrum litum en ég keypti þennan glæra. 

Hérna er listi yfir nokkra hluti sem ég hefði viljað að einhver segði mér áður en ég keypti mér mánabikar í fyrsta skipti:

1. Á bikarnum er stilkur til þess að auðvelt sé að ná honum út. Stilkurinn er hinsvegar of langur fyrir margar konur og þá þarf að klippa hann til, maður á nefnilega ekki að finna neitt fyrir bikarnum þegar hann er kominn upp. Ég endaði á því að þurfa að klippa minn svolítið niður.  Ég mæli með því að klippa bara lítið í einu og finna hvað hentar manni. 

2. Það þarf að brjóta bikarinn saman til þess að koma honum inn, það eru til nokkrar aðferðir sem taldar eru bestar til þess. Þetta getur tekið smá æfingu. Mér finnst best að setja hann upp á meðan ég sit á klósettinu eða fara niður í hnébeygju. 

Hérna er mynd sem sýnir aðferðina sem ég mér þykir best.

3. Þegar bikarinn er kominn inn þarf hann að opnast vel svo það leki ekki framhjá. Þetta er það sem mér fannst erfiðast. Maður þarf að vera svolítið þolinmóð við þetta. 

4. Bikarinn getur færst lengra upp í leggöngin og því getur verið svolítið erfitt að ná honum úr.  Fyrst þegar ég lenti í þessu fékk ég vægt taugaáfall. Ég komst samt fljótt að því að maður þarf engar áhyggjur að hafa. Hann fer aldrei svo langt að ekki sé hægt að ná honum niður. Það er nóg að nota kviðvöðvana aðeins og ýta honum þannig niður þar til maður nær taki á honum. Þegar maður nær taki á bikarnum klípur maður um endann á honum til þess að hleypa inn lofti. Þannig er auðveldast að ná honum út. 

5. Þegar maður tæmir hann en ætlar að setja inn aftur er best að hella úr honum í klósettið, skola hann með köldu vatni og svo með volgu vatni og örlítilli ilmefnalausri sápu ef maður vill. Í aðstæðum þar sem maður þarf að tæma hann þar sem enginn vaskur er í einrúmi, til dæmis á almenningssalernum, er nóg að þurrka hann með pappír eða jafnvel vera með vatnsflösku með sér sem hægt er að nota til þess að skola hann, svo þrífur maður hann bara betur þegar heim er komið.  Ef maður ætlar ekki að nota hann aftur strax er best að þvo hann og geyma svo í pokanum sem hann kemur í. 

6. Hjá sumum getur hann lekið örlítið og þá getur verið gott öryggisins vegna að vera með innlegg. Ég hef ekki lent í þessu sjálf en ég hef heyrt að sumar konur lendi í því. Það er mikilvægt að læra á blæðingarnar sínar og finna hversu oft maður þarf að tæma hann á dag þegar túrinn er sem mestur svo maður lendi ekki í því að hann byrji að leka. Ég fæ frekar miklar blæðingar fyrstu tvo dagana en mér dugir samt að tæma hann tvisvar til þrisvar á sólarhring. Sumum þykir samt öruggara að hafa innlegg og fyrir þær sem vilja ekki nota einnota innlegg er hægt að kaupa taubindi og einnig sérstakar nærbuxur fyrir konur á blæðingum sem gerðar eru til þess að leka ekki. Ég mun skrifa færslur um bæði taubindi og nærbuxurnar í náinni framtíð. 

7. Það þarf alls ekki að tæma bikarinn í hvert sinn sem maður fer á klósettið og maður getur vel haft hann yfir nótt án þess að hafa áhyggur af því að það sé óhollt eða hættulegt. Óhætt er að hafa bikarinn í allt að 12 klst í einu. Mælt er með því að tæma hann 2-4 sinnum á sólarhring og það fer alfarið eftir því hversu mikið blæðir hjá hverjum og einum hversu oft þarf að tæma hann. 

Ég vona að þið prófið að kaupa ykkur bikar. Hann endist í mörg ár ef farið er vel með hann, er umhverfisvænn og 100% vegan. Ég mæli eindregið með því að kaupa sér Lunette bikarinn, hann verður klárlega ykkar besti vinur! 

Helga María
 

BBQ samloka með grilluðu tófú og hrásalati

Sumarið er yndislegur tími. Ég hef alltaf haldið mikið upp á grillmat og fyrst þegar ég hætti að borða kjöt hélt ég að nú væri minn grilltími liðinn. Ég var því himilifandi að uppgvöta hversu frábærir möguleikar eru af grilluðum mat fyrir grænkera. Mér finnst æðislegt að grilla grænmetisspjót, vegan pylsur og borgara, kartöflur, portobello sveppi, maísstöngla, soyakjötið frá Oumph! og seitan steikur. Nýlega hef ég þó fengið algjört æði fyrir því að grilla tófú. Það er gjörsamlega æðislegt og hentar vel bæði með vegan rjómasósu og meðlæti, með kaldri jógúrtssósu eða í hamborgara og samlokur. 

Til þess að njóta þess að borða tófú þarf aðeins að læra inn á það. Ég man alveg þegar ég smakkaði það fyrst hvað mér þótti það bragðlaust og óspennandi. Ég þurfti þó ekki annað en að lesa mér aðeins til og fljótlega sá ég að með einföldum leiðum er hægt að gera tófú alveg ótrúlega gott. Ég prófaði mig áfram og fann aðferð sem mér fannst best. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum vikum sem ég prófaði að grilla tófú og vá, útkoman er gjörsamlega æðisleg. Í þetta sinn ætla ég að deila með ykkur uppskrift af æðislegri BBQ tófú samloku með vegan hrásalati.

Grillað tófú

  • 1 tófústykki

  • 1 bolli tamari- eða soyasósa

  • 1/2 tsk agave síróp

  • 1 msk sriracha sósa

  • 1 tsk hvítlauksduft

Aðferð

  1. Skerið tófúið niður í 1-2 cm þykkar sneiðar. 

  2. Pressið tófúsneiðarnar í að minnsta kosti klukkustund. Mér finnst gott að pressa það í sirka þrjár klukkustundir. 

  3. Blandið saman tamarísósu, sírópi, sriracha sósú og hvítlauksdufti. 

  4. Marinerið tófúið í að minnsta kosti klukkustund. Því lengur, því betra. Ég reyni að byrja tímanlega svo ég nái að hafa tófúið í marineringunni í nokkrar klukkustundir. Mér finnst líka gott að undirbúa mig kvöldið áður og leyfa því að liggja í henni yfir nótt. Mér finnst mjög gott að leggja tófúið í maríneringu í renndum plastpoka, þeir fást meðal annars í Ikea. Ef þið eigið ekki svoleiðis er fínt að nota bara box. 

  5. Smyrjið tófúið með smá olíu og leggið á grillið. Ég leyfi því að grillast frekar vel á báðum hliðum. Ef þið eigið ekki grill eða eruð ekki í stuði til að grilla hef ég líka eldað tófúsneiðarnar í ofni og á pönnu og bæði er svakalega gott. 

Vegan hrásalat

  • 1 dl vegan mæjónes

  • 1/4 hvítkálshaus

  • 2-3 gulrætur, fer alfarið eftir stærð. Þegar magnið af gulrótum er orðið svipað og af hvítkálinu passar það fínt.

  • 1/4 agave síróp

  • salt eftir smekk

  1. Byrjið á því að útbúa mæjó. Ef þið eruð í engu stuði fyrir svoleiðis fæst vegan mæjónes frá merkinu "Just mayo" í Hagkaup. Hinsvegar lofa ég því að það er algjörlega þess virði að vippa þessu upp heima hjá sér. Uppáhalds uppskriftin mín inniheldur:

  • 1 bolla ósæta sojamjólk - helst við stofuhita. Sojamjólkin frá Provamel í rauðu fernunni þykir mér frábær í þetta. 

  • 2 tsk eplaedik

  • Olíu eftir þörfum

  • 1/4 tsk dijon sinnep

  • salt og pipar eftir smekk

    Blandið saman sojamjólk og eplaediki vel með töfrasprota (blandar og rafmagnsþeytari virkar líka). Hellið olíu útí í mjórri bunu og leyfið sprotanum að vinna á meðan. Hellið olíunni út í þar til blandan er orðin þykk eins og mæjónes. blandið svo sinnepinu og saltinu út í. Ég tek það fram að þessi uppskrift gerir svolítið stórt magn af mæjónesi svo að það fer líklega ekki allt í hrásalatið. Hægt er að geyma það í boxi/krukku inni í ísskáp í viku.

2. Skerið niður hvítkálið og gulræturnar mjööög þunnt. Ef þið eigið mandólín eða julienne skera er frábært að nota svoleiðis. 

3. Setið grænmetið í skál og blandið mæjónesi útí þar til ykkur finnst nóg komið. Smakkið til og bætið salti og pipar út í eftir þörfum.

Samloka með grilluðu tófú og hrásalati

  • 2 ristaðar brauðsneiðar

  • 2 grillaðar tófúsneiðar

  • Grænmeti að vild. Ég notaði kálblað, tómatsneiðar og rauðlauk

  • BBQ sósa

  • Hrásalat

  1. Ristið tvær brauðsneiðar og smyrjið aðra þeirra vel með BBQ sósu

  2. Raðið á brauðsneiðina því grænmeti sem þið viljið

  3. Leggið tófúsneiðarnar ofan á

  4. Bætið ofan á eins miklu hrásalati og ykkur lystir

  5. Lokið samlokunni og njótið.

Það er rosalega mismunandi hvaða meðlæti ég útbý en að þessu sinni bakaði ég kartöflur og sætar kartöflur í ofninum og raðaði sveppum og rauðlauk á grillspjót, smurði með BBQ sósu og grillaði í sirka 20 mínútur. Þessi djúsí samloka er æðisleg og ég er viss um að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

Helga María