Samloka með vegan kjötbollum, steiktum lauk og ostasósu
/Uppskrift dagsins er að þessari dásamlega góðu samloku með vegan kjötbollum, grænu pestói, steiktum lauk og ostasósu. Já, mér er alvara. Þetta er ein D-J-Ú-S-í samloka skal ég segja ykkur! Mjúkt og gott baguette fyllt með allskonar gúmmelaði. Akkúrat eins og ég vil hafa mínar samlokur!
Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði vegan kjötbollurnar þeirra í samlokuna. Ég á alltaf til poka af Anamma kjötbollum í frystinum því það er svo þægilegt að skella þeim á pönnu og bera fram með pasta eða kartöflum og góðri sósu. Í dag langaði mig að gera eitthvað nýtt með bollunum sem ég hef aldrei prufað áður og mig dreymdi um daginn að ég gerði gómsæta samloku með þessum bollum svo ég ákvað að slá til!
Ég byrjaði á því að steikja lauk á pönnu þangað til hann fékk fallegan lit. Lyktin í eldhúsinu þegar maður steikir lauk er dásemd. Ég steikti bollurnar svo á sömu pönnu án þess að þrífa hana á milli. Með því fá bollurnar extra gott bragð og ég þarf ekki að vaska jafn mikið upp. FULLKOMIÐ!
Ég gerði pastasósu og notaði í hana hvítlauk, heila tómata í dós, ítölsk krydd, sojasósu og balsamikedik. Sósa er best þegar hún fær að malla svolítið. Liturinn dekkist og sósan þykknar og brögðin fá að njóta sín betur. Ég leyfði svo bollunum að malla í nokkrar mínútur í sósunni.
Ostasósan sem ég gerði er sósan sem ég notaði í mac & cheese bitana sem ég birti hérna á blogginu í haust. Uppskriftin af þeim finnið þið HÉR! Það er alls ekki nauðsynlegt að útbúa þessa sósu, það má að sjálfsögðu bara strá yfir vegan osti og láta bráðna í ofninum. Ég var í svo miklu stuði í dag svo ég ákvað að prófa að gera sósuna með og mér fannst það koma virkilega vel út.
Ég byrjaði á því að rífa aðeins úr efri hluta brauðsins svo að bollurnar fengju pláss þegar samlokunni er lokað. Ég setti brauðið inní ofn á 200°c í nokkrar mínútur, bara svo það fengi að hitna. Svo smurði ég neðri hlutann með grænu pestói og setti svo Anamma bollur yfir og pastasósu. Því næst hellti ég yfir ostasósu og svo steiktum lauk. Ég lokaði samlokunni svo og setti hana í nokkrar mínútur í ofninn á grill þangað til samlokan varð svolítið krispí að ofan. SVO GOTT!
Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel!
-Helga María
Samloka með vegan kjötbollum, ostasósu og steiktum lauk
Fyrir: 3
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 30 MinHeildartími: 40 Min
Fáránlega djúsí og góð samloka með vegan kjötbollum, pastasósu, grænu pestói, ostasósu og steiktum lauk. Alvöru samloka sem gleður bæði líkama og sál!
Hráefni:
- 3 meðalstór baguette, chiabatta eða annað svipað brauð
- Ólífuolía að steikja upp úr
- Smjörlíki að steikja uppúr (má sleppa og nota bara olíu)
- 1 poki (325 gr) vegan kjötbollur frá Anamma
- 3 meðalstórir laukar
- Vegan grænt pestó eftir smekk
- 1 dós heilir tómatar
- 5 hvítlauksgeirar
- 1 tsk þurrkuð basilika
- 1 tsk þurrkað oregani
- 1/2 tsk þurrkað majoram
- 1/2 tsk möluð fennelfræ (má sleppa en mér finnst þau gefa mjög gott bragð)
- 1/2 tsk balsamikedik
- 1 tsk sojasósa
- Smávegis af chiliflögum (má sleppa)
- salt og pipar eftir smekk
- Ostasósa (uppskrift linkuð með djúpsteiktu mac and cheese bitunum hér fyrir neðan)
Aðferð:
- Byrjið á því að skera laukana í þunna strimla. Ég sker þá í tvennt og sker svo þunna strimla úr hverjum helming.
- Hitið ólífuolíu og örlítið af smjörlíki á pönnu.
- Steikið laukana á pönnunni þar til þeir hafa mýkst og fengið á sig fallegan lit. Ég leyfi þeim að verða svolítið brúnir. Saltið og piprið örlítið.
- Takið laukinn af pönnunni og leggið til hliðar. Þvoið pönnuna ekki heldur bætið við aðeins meira af olíu og smjörlíki og steikið Anamma bollurnar þar til þær hafa fengið smá lit. Þær eiga ekki að steikjast of mikið því þær fá svo að malla í sósunni líka.
- Pressið hvítlauksgeiranna og steikið á pönnu eða í potti upp úr olíu og smjörlíki þar til þeir hafa mýkst.
- Maukið tómatana með höndunum og bætið út á pönnuna. Setjið örlítið af vatni í dósina til að fá restina af tómatsafanum og hellið út á pönnuna.
- Bætið við kryddunum, balsamikediki, sojasósu, salti og pipar og leyfið sósunni að malla þar til hún dekkist og þykkist svolítið.
- Bætið bollunum út í sósuna og leyfið að malla á meðan þið gerið ostasósuna.
- Hitið ofninn í 200°c.
- Rífið örlítið úr efri hluta brauðsins svo bollurnar passi vel inní samlokuna þegar henni er lokað.
- Hitið brauðið í ofninum í örfáar mínútur bara svo það fái að hitna svolítið.
- Smyrjið grænu pestói á neðri hluta brauðsins, bætið svo bollum ofan á og pastasósu, hellið svo svolítið af ostasósu yfir (eða vegan osti ef þið nennið ekki að útbúa sósuna) og að lokum steikta lauknum. Ég reif svolítið af vegan parmesan sem ég átti í ísskápnum yfir líka. Lokið svo samlokunni og setjið hana aftur í ofninn þangað til hún verður krispí. Ég setti á grill og hafði mína í sirka 5 mínútur.
-Þessi færsla er í samstarfi við Anamma á Íslandi-