Stór vegan súkkulaðibitakaka með karamellusósu
/Í dag færi ég ykkur uppskrift af stórri vegan súkkulaðibitaköku með karamellusósu og ís. Kakan er hinn fullkomni desert og mun svo sannarlega stela senunni við ýmis tilefni.
Þessi kaka er virkilega skemmtilegur eftirréttur að bjóða uppá t.d. í matarboðum eða veislum. Hún smakkast eins og venjulegar súkkulaðibitakökur en það er mun auðveldara að útbúa hana og borin fram volg með vanilluís er hún betri en nánast allt annað í heiminum! Já stór orð, en ég stend við þau!
Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar þær vörur sem þarf í uppskriftina. Eins og við höfum nefnt áður er mikið úrval af góðum vegan vörum í Hagkaup og við elskum að versla þar. Ég notaði í þetta sinn suðusúkkulaði í kökuna, en get ímyndað mér að það sé ótrúlega gott að leika sér með uppskrifitina og nota eitthvað af gómsætum vegan súkkulaðistykkjunum sem fást í Hagkaup. Mín uppáhalds eru Jokerz sem er eins og vegan útgáfa af snickers, Twilight sem er eins og Mars og Buccaneer sem er eins og Milky way. Í Hagkaup fást einnig allskonar tegundir af vegan ís sem er góður með kökunni. Við mælum mikið með ísnum frá Oatly og Yosa.
Karamellusósan er sú sama og í uppskriftinni af Döðlukökunni (mæli með að prófa döðlukökuna ef þið hafið ekki gert það). Ég leyfði sósunni þó að þykkna aðeins meira fyrir þessa uppskrift og hún passaði fullkomlega með kökunni og ísnum.
Þegar kakan er borin fram heit er hún svolítið klesst að innan sem mér finnst alveg ótrúlega gott. Það er mikilvægt að baka hana ekki of lengi þvi þá verður hún bara eins og hörð smákaka. Við viljum hafa hana svolítið “gooey!”
Ég vona innilega að þið bakið kökuna og látið okkur vita hvað ykkur finnst. Þið hafið verið dugleg að tagga okkur á Instragram uppá síðkastið og okkur þykir enn og aftur ótrúlega vænt um það.
Takk innilega fyrir að lesa! <3
-Helga María
Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka
Hráefni:
- 200 gr. smjörlíki
- 2 dl púðursykur
- 1,5 dl sykur
- 1 hörfræsegg (1 msk möluð hörfræ + 3 msk vatn)
- 1 tsk vanilludropar
- 5 dl hveiti (Ath að til að fá rétt magn af hveiti mæli ég með að nota skeið til að setja hveitið í dl málið í stað þess að moka upp hveiti með málinu því með því að moka beint upp með dl málinu er hætta á að pakka inn alltof miklu hveiti)
- 1 tsk matarsódi
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 200 gr. saxað suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°c
- Byrjið á því að gera hörfræseggið með því að blanda 1 msk möluðum hörfræjum saman við 3 msk vatn og láta standa í nokkrar mínútur þar til það hefur þykknað svolítið.
- Bræðið smjörlíkið og hrærið saman við púðursykur og sykur með písk.
- Bætið hörfræsegginu og vanilludropunum út í og hrærið saman.
- Hrærið hveiti, lyftidufti, salti og matarsóda saman í aðra skál og bætið út í smjörblönduna í skömmtum og hrærið saman með sleikju eða sleif. Ég bæti hveitinu í skömmtum svo deigið verði ekki of þurrt.
- Saxið súkkulaðið og setjið út í skálina og blandið saman við með sleikju eða sleif. Geymið smá af súkkulaðinu til hliðar sem þið setjið ofan á deigið þegar það er komið í formið.
- Smyrjið steypujárnspönnu eða kökuform með smjörlíki.
- Setjið deigið ofan í og toppið með reistinni af súkkulaðinu.
- Bakið í 20-25 mínútur eða þar til kakan er orðin svolítið gyllt að ofan. Eins og ég sagði hér að ofan er kakan svolítið klesst að innan ef hún er borðuð heit en það er alveg eins og það á að vera.
-Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar vörurnar í uppskriftina-