Stór vegan súkkulaðibitakaka með karamellusósu

IMG_1367-2.jpg

Í dag færi ég ykkur uppskrift af stórri vegan súkkulaðibitaköku með karamellusósu og ís. Kakan er hinn fullkomni desert og mun svo sannarlega stela senunni við ýmis tilefni.

IMG_1285.jpg

Þessi kaka er virkilega skemmtilegur eftirréttur að bjóða uppá t.d. í matarboðum eða veislum. Hún smakkast eins og venjulegar súkkulaðibitakökur en það er mun auðveldara að útbúa hana og borin fram volg með vanilluís er hún betri en nánast allt annað í heiminum! Já stór orð, en ég stend við þau!

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar þær vörur sem þarf í uppskriftina. Eins og við höfum nefnt áður er mikið úrval af góðum vegan vörum í Hagkaup og við elskum að versla þar. Ég notaði í þetta sinn suðusúkkulaði í kökuna, en get ímyndað mér að það sé ótrúlega gott að leika sér með uppskrifitina og nota eitthvað af gómsætum vegan súkkulaðistykkjunum sem fást í Hagkaup. Mín uppáhalds eru Jokerz sem er eins og vegan útgáfa af snickers, Twilight sem er eins og Mars og Buccaneer sem er eins og Milky way. Í Hagkaup fást einnig allskonar tegundir af vegan ís sem er góður með kökunni. Við mælum mikið með ísnum frá Oatly og Yosa.

IMG_1311.jpg

Karamellusósan er sú sama og í uppskriftinni af Döðlukökunni (mæli með að prófa döðlukökuna ef þið hafið ekki gert það). Ég leyfði sósunni þó að þykkna aðeins meira fyrir þessa uppskrift og hún passaði fullkomlega með kökunni og ísnum.

Þegar kakan er borin fram heit er hún svolítið klesst að innan sem mér finnst alveg ótrúlega gott. Það er mikilvægt að baka hana ekki of lengi þvi þá verður hún bara eins og hörð smákaka. Við viljum hafa hana svolítið “gooey!”

IMG_1356.jpg

Ég vona innilega að þið bakið kökuna og látið okkur vita hvað ykkur finnst. Þið hafið verið dugleg að tagga okkur á Instragram uppá síðkastið og okkur þykir enn og aftur ótrúlega vænt um það.

IMG_1349.jpg

Takk innilega fyrir að lesa! <3

-Helga María

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka
Höfundur: Helga María
Eldunartími: 30 MinHeildartími: 30 Min

Hráefni:

  • 200 gr. smjörlíki
  • 2 dl púðursykur
  • 1,5 dl sykur
  • 1 hörfræsegg (1 msk möluð hörfræ + 3 msk vatn)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 5 dl hveiti (Ath að til að fá rétt magn af hveiti mæli ég með að nota skeið til að setja hveitið í dl málið í stað þess að moka upp hveiti með málinu því með því að moka beint upp með dl málinu er hætta á að pakka inn alltof miklu hveiti)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 200 gr. saxað suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c
  2. Byrjið á því að gera hörfræseggið með því að blanda 1 msk möluðum hörfræjum saman við 3 msk vatn og láta standa í nokkrar mínútur þar til það hefur þykknað svolítið.
  3. Bræðið smjörlíkið og hrærið saman við púðursykur og sykur með písk.
  4. Bætið hörfræsegginu og vanilludropunum út í og hrærið saman.
  5. Hrærið hveiti, lyftidufti, salti og matarsóda saman í aðra skál og bætið út í smjörblönduna í skömmtum og hrærið saman með sleikju eða sleif. Ég bæti hveitinu í skömmtum svo deigið verði ekki of þurrt.
  6. Saxið súkkulaðið og setjið út í skálina og blandið saman við með sleikju eða sleif. Geymið smá af súkkulaðinu til hliðar sem þið setjið ofan á deigið þegar það er komið í formið.
  7. Smyrjið steypujárnspönnu eða kökuform með smjörlíki.
  8. Setjið deigið ofan í og toppið með reistinni af súkkulaðinu.
  9. Bakið í 20-25 mínútur eða þar til kakan er orðin svolítið gyllt að ofan. Eins og ég sagði hér að ofan er kakan svolítið klesst að innan ef hún er borðuð heit en það er alveg eins og það á að vera.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur
 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar vörurnar í uppskriftina-

Mac and cheese ofnréttur.

Í þessum rétti blöndum við saman Mac and cheese uppskriftinni okkar og hakksósu úr lasagna. Þessi blanda kom okkur heldur betur á óvart og erum við ótrúlega ánægðar með útkomuna. Rétturinn er einfaldur og og þetta er hinn fullkomni heimilsmatur.

1/2 uppskrift Mac and cheese

Hakksósa:

  • 2 pakkar anamma hakk

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill haus brokkolí (eða annað grænmeti sem hentar hverjum og einum)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 2-3 msk tómatpúrra

  • 2 msk eða 1 teningur grænmetiskraftur

  • 1 msk oregano

  • 1 msk basilíka

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hvítlauk og lauk upp úr smá olíu.

  2. Bætið brokkolíinu og hakkinu út á pönnuna og steikið í 5 til 10 mínútur.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og leyfið suðunni að koma upp.

  4. Smakkið til með kryddum og salti og pipar.

Aðferð og eldun:

  1. Útbúið Mac and cheese og hellið í botnin á eldföstu móti.

  2. Útbúið hakksósuna og setjið yfir pastað.

  3. Stráið vegan osti yfir.

  4. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðin fallega gylltur að ofan.

Við bárum réttinn fram með hvítlauksbrauðinu okkar en það er alveg ómissandi að okkar mati.

IMG_2219-3.jpg
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
10159%2B%25281%2529.jpg

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fást öll hráefnin sem í hana þarf.-

-Færslan er einnig í samstarfi við Bitz á Íslandi.-

Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-


Vegan pizzasnúðar á tvo vegu

IMG_1137-2.jpg

Hæ!

Nú erum við loksins mættar aftur á bloggið eftir svolitla pásu. Mörg ykkar sem lesið færslurnar okkar fylgið okkur líka á samfélagsmiðlum og vitið því hvað við höfum verið að gera síðan um jólin. Við héldum meðal annars útgáfuhóf fyrir bókina okkar í janúar og fórum í allskyns viðtöl til að kynna hana. Ég (Helga) eyddi öllum janúar á Íslandi og það var æðislegt. Við náðum að gera svo margt skemmtilegt saman, bæði í tengslum við bókina og annað.

IMG_1024-2.jpg

Nú er ég hinsvegar komin aftur til Svíþjóðar og eins og staðan er núna er háskólanámið mitt kennt í fjarnámi sem er ekkert svakalega hentugt fyrir okkur sem erum í tónlistarnámi sem snýst mikið um að syngja og spila með öðru fólki. Ég hef verið lítil í mér uppá síðkastið og á þessum skrítnu tímum sakna ég fjölskyldunnar og á svolítið erfitt með alla óvissuna sem ríkir þessa stundina. Það huggar mig þó örlítið að finna hvað við stöndum öll mikið saman og ég reyni að muna að þetta ástand er tímabundið.

Ég hef eytt miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og hef reynt að vera dugleg að sýna frá því á Instagram. Við erum einnig byrjaðar að gera matreiðslumyndbönd og þau finniði á Instagram TV og svo á YouTube þar sem við heitum Veganistur. Ég viðurkenni þó að ég hef saknað þess að blogga og er svakalega glöð að vera loksins komin með uppskrift handa ykkur.

Uppskrift dagsins er af þessum dásamlegu pizzasnúðum. Ég ákvað að gera bæði pizzasnúða og hvítlaukssnúða og guð minn góðurrr hvað þeir eru góðir. Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í snúðana. Í Hagkaup er gríðarlegt úrval af góðum vegan mat og ekkert smá gaman að prófa nýjar og spennandi vörur t.d. úr frystinum þeirra. Ég ákvað að nota Pulled Oumph! í snúðana mína en það er auðvitað hægt að nota eitthvað annað ef þið viljið. Ég mæli þó eindregið með því að þið prófið að nota Oumphið.

IMG_1057.jpg

Eins og ég sagði hér að ofan er ég rosalega glöð að vera loksins að blogga aftur og ég er búin að gera langan lista yfir það sem ég vil gera á næstunni. Ég hef verið svolítið mikið í bakstrinum uppá síðkastið en lofa því að það fer að koma meira af réttum hérna inn sem gott er að elda t.d. í kvöldmat. Þið megið líka alltaf senda okkur ef þið viljið sjá eitthvað sérstakt á blogginu hjá okkur.

Fyllingin í snúðana alls ekki heilög og lítið mál að breyta henni eins og maður vill. Ég hef líka útbúið snúða með sveppum, ólífum og sólþurrkuðum tómötum og þeir voru ekkert smá góðir. Í rauninni virkar að setja bara það sem manni þykir gott á pizzu.

fyrir ofninn.jpg

Hveeersu girnilegir?!

Ég ákvað á seinustu stundu að útbúa hvítlaukssnúða með og var ekki viss um að þeir myndu yfir höfuð heppnast vel. Þeir komu mér þvílíkt á óvart og smökkuðust dásamlega. Það var alveg fullkomið að gera báðar tegundirnar og borða saman.

hvítlaukssmjör.jpg
hrært smjör.jpg

Ég hef oft bakað hvítlauksbrauð heima og mér hefur aldrei þótt það jafn gott og það sem ég panta á veitingastöðum en mér þótti þessir snúðar það. Þeir urðu dúnmjúkir og góðir að innan og voru akkúrat eins og ég vildi hafa þá. Ég mæli því mikið með því að þið prófið.

hvítl. snúðar.jpg

Ég vona að ykkur líki vel og ef þið prófið að baka snúðana megiði endilega láta mig vita hvað ykkur fannst. Við elskum þegar þið eldið og bakið af blogginu og úr bókinni okkar og taggið okkur á instagram svo við sjáum afraksturinn. Okkur þykir svo ótrúlega vænt um það og það gefur okkur mikinn kraft í að halda áfram að útbúa nýjar og spennandi uppskriftir. Síðan bókin okkar kom út höfum við fengið svo mikið af fallegum skilaboðum frá ykkur, við erum ykkur endanlega þakklátar.

En hér kemur uppskriftin loksins!!

IMG_1147.jpg

Pizzadeig:

Hráefni:

  • 320 ml vatn við líkamshita

  • 1/2 pakki þurrger (6 gr)

  • 1 tsk salt

  • 2 msk ólífuolía

  • 450-500 gr hveiti

Aðferð:

  1. Hellið vatninu í skál og stráið þurrgerinu yfir og leyfið því að leysast upp í vatninu

  2. Bætið salti og ólífuolíu út í skálina

  3. Bætið hveitinu við í skömmtum þar til auðvelt er að hnoða deigið án þess að það klessist. Ég bætið því við í skömmtum því það er alltaf hægt að bæta við ef þarf en alls ekki gott að setja of mikið.

  4. Hnoðið deigið og leyfið því svo að hefast í 90 mínútur.

Ég skipti þessu deigi í tvennt og gerði pizzasnúða úr helmingnum og hvítlaukssnúða úr restinni. Ef þið ætlið bara að gera pizzansúða þá tvöfaldiði uppskriftina af fyllingunni.


Pizzasnúðar:

Hráefni:

  • Helmingurinn af pizzadeiginu

  • Pizzasósa eftir smekk

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk. Það er mjög misjafnt hversu mikinn ost fólk vill hafa, en ég notaði Violife og setti sirka 150 grömm á pizzasnúðana og svipað á hvítlauks.

  • Hálf lítil rauð paprika

  • hálfur lítill rauðlaukur

  • Hálfur poki af pulled Oumph!

  • Vegan rjómaostur eftir smekk. Ég notaði påmackan frá Oatly

  • Þurrkað oregano

  • Þurrkuð basilika

  • Gróft salt

  • Fersk basilika til að toppa snúðana með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Fletjið deigið út og passið að hafa svolítið hveiti á borðinu svo deigið festist ekki við það.

  3. Smyrjið eins mikilli sósu og þið viljið á deigið. Mér finnst gott að setja vel af henni.

  4. Stráið ostinum yfir, því næst Oumphinu, og svo grænmetinu.

  5. Setjið rjómaostinn á. Mér finnst best að taka smá með skeið og setja litlar klípur yfir allt deigið.

  6. Stráið kryddunum yfir.

  7. Rúllið upp og skerið í snúða. Það komu sirka 13 snúðar hjá mér og þá tel ég með þessa ljótu úr endunum.

  8. Raðið á ofnsplötu með smjörpappír og bakið í 12-15 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðnir vel gylltir að ofan. Ég byrjaði að fylgjast með mínum eftir svona 10 mínútur.

Hvítlaukssnúðar:

Hráefni:

  • Hinn helmingurinn af pizzadeiginu

  • 100 gr. vegan smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • Rifinn vegan ostur (ég setti sirka 150 gr.)

  • 1 msk þurrkuð steinselja

  • 1 -2 msk saxaður graslaukur

  • Spínat eftir smekk. Ég raðaði bara yfir deigið en mældi ekkert sérstaklega (sjá mynd)

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið smjörlíkið í skál (best að hafa það við stofuhita svo auðvelt sé að hræra það og smyrja)

  2. Pressið eða rífið hvítlaukinn út í og hrærið saman við smjörlíkið ásamt steinseljunni og graslauknum.

  3. Saltið aðeins ef þarf.

  4. Fletjið deigið út og smyrjið hvítlaukssmjörinu á.

  5. Stráið ostinum yfir.

  6. Raðið spínatinu yfir.

  7. Rúllið upp og skerið niður.

  8. Bakið í 12-15 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðnir vel gylltir að ofan. Ég byrjaði að fylgjast með mínum eftir svona 10 mínútur.

Takk fyrir að lesa

Helga <3

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin þar-

Hátíðlegar morgunverðarbökur úr smjördeigi

IMG_0147.jpg

Nú er innan við vika í að jólin gangi í garð og í nótt fljúgum við Siggi til Noregs og eyðum jólunum með fjölskyldunni hans. Við erum orðin svakalega spennt að komast í smá jólafrí saman eftir annasamt haust. Ég er ekki byrjuð að pakka, en það var mér mikilvægt að koma þessarri færslu frá mér áður en við förum. Ég ætla nefnilega að deila með ykkur uppskrift af dásamlegum fylltum morgunverðarbökum úr smjördeigi sem eru fullkomnar í jólabrönsinn.

IMG_0119.jpg

Ég var búin að ákveða að útbúa einhverja uppskrift með smjördeigi fyrir jólin en var ekki alveg viss hvað ég vildi gera. Við erum nú þegar með geggjaða uppskrift af innbökuðu Oumph! hérna á blogginu og sveppawellington í bókinni okkar. Eins er fjöldinn allur af geggjuðum hugmyndum af wellington á netinu og það er hægt að kaupa nokkrar tegundir tilbúnar. Mér fannst því meira spennandi að gera eitthvað annað en hefðbundinn aðalrétt fyrir jólin. Mér datt í hug að útbúa eitthvað gott og hátíðlegt sem væri hugsað sem morgunmatur/hádegismatur yfir hátíðirnar. Í bökunum eru steiktar kartöflur, tófúhræra, Oumph! og bechamel sósa.

IMG_0123.jpg

Ég prufukeyrði uppskriftina um daginn og sýndi aðeins frá því í Instastory. Þar spurði ég fylgjendur okkar hvaða meðlæti þeim dytti í hug að væri gott með bökunum. Flestir stungu uppá hefðbundnu bröns meðlæti og svo fékk ég allskonar nýjar og skemmtilegar hugmyndir líka. Að lokum sá ég að það skiptir í raun ekki miklu máli hvaða meðlæti ég hef í færslunni, því það er misjafnt hvað fólki þykir gott. Ég ákvað að hafa þetta svolítið eins og stóran og góðan bröns og það var fullkomið.

Í þetta skiptið notaði ég upprúllað kælt smjördeig þar sem ég fann hvergi fryst vegan smjördeig hérna í Piteå. Á Íslandi er þó held ég auðveldara að finna það í frysti en ég hef þó rekist á vegan smjördeig í kæli í Hagkaup. flest keypt smjördeig er vegan því það inniheldur smjörlíki en ekki smjör en það er mikilvægt að lesa á pakkann. Þau merki sem ég veit að fást á Íslandi og eru vegan eru Findus og TC bröd. Það eru örugglega til fleiri tegundir sem ég man ekki eftir.

IMG_0132.jpg

Ég elska að gera smjördeigsbökur í möffinsskúffu. Það er bæði þægilegt að útbúa þær og skemmtilegt að bera þær fram. Það er pottþétt hægt að gera þær fallegri en mér finnst það skipta litlu máli og eiginlega bara betra að hafa þær heimilislegar og fínar.

IMG_0135.jpg

Þetta verður síðasta uppskriftin okkar núna fyrir jólin en ég ælta að gera mitt allra besta að gefa ykkur eina uppskrift á milli jóla og nýárs af desert sem er geggjaður fyrir gamlárskvöld. Við erum með nokkrar uppskriftir á blogginu sem gætu verið góðar sem eftirréttir en svo erum við með uppskrift af risalamande og súkkulaðibúðing í bókinni okkar sem eru hinir fullkomnu hátíðareftirréttir. En eins og ég segi ætla ég að reyna að birta eina fyrir gamlárskvöld.

IMG_0143.jpg

Ég flýg svo til Íslands í byrjun janúar og ég get ekki beðið eftir því að koma heim og halda útgáfuhóf fyrir bókina og gera allskonar skemmtilegt með Júlíu í tilefni veganúar. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi tímum!

Morgunverðarbökur - 12 bökur

  • 6 plötur fryst smjördeig (2 stykki upprúllað smjördeig ef þið kaupið svoleiðis)

  • 1 pakki Oumph! - Ég notaði garlic & thyme

  • 1 tsk liquid smoke (má sleppa en ég mæli með að hafa það með)

  • 300 gr kartöflur

  • Olía til steikingar

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Tófúhræra (uppskrift hér að neðan)

  • Bechamelsósa (uppskrift hér að neðan

Aðferð:

  1. Takið Oumph úr frystinum og leyfið því að þiðna þar til hægt er að skera það í litla bita.

  2. Skrælið kartöflurnar og skerið í litla bita.

  3. Hitið olíu á tveimur pönnum. Ef þið eigið bara eina pönnu geriði þetta hvort á eftir öðru.

  4. Steikið kartöflurnar þar til þær eru mjúkar í gegn. Saltið þær og passið að fylgjast vel með þeim því kartöflur eiga það til að festast svolítið við pönnuna. Takið kartöflurnar af pönnunni og leggið til hliðar þegar þær eru tilbúnar.

  5. Steikið á meðan Oumph uppúr olíu og bætið á pönnuna salti og liquid smoke. Takið af pönnunni og leggið til hliðar þegar bitarnir eru eldaðir í gegn. Ekki þrífa pönnuna.

  6. Bætið aðeins meira af olíu á pönnuna sem þið steiktuð Oumph á og útbúið tófúhræru eftir leiðbeiningunum að neðan.

  7. Útbúið bechamelsósuna eftir leiðbeiningum hér að neðan.

  8. Blandið tófúhrærunni, Oumphinu, kartöflunum og sósunni saman í stóra skál. Saltið ef þarf. Ég salta allt frekar vel á meðan ég geri það og vil hafa þessa blöndu bragðmikla og góða.

  9. Ef þið notið fryst smjördeig mæli ég með að taka það út þannig plöturnar nái að þiðna svolítið áður en það er notað. Þó eiga þær ekki að vera orðnar alveg þiðnar því þá er erfiðara að vinna með smjördeigið. Það er svolítið erfitt að útskýra en þið munuð skilja þegar þið byrjið að vinna með þetta. fletjið hverja plötu aðeins út og skerið í tvennt þannig úr komi tveir ferhyrningar. Ef þið notið upprúllað kælt deig rúllið það út og skerið fyrst í tvennt langsum og svo í þrennt þannig úr komi sex kassar. Þið sjáið á einni af myndunum fyrir ofan hvernig ég gerði. Uppskriftin af fyllingunni passar í 12 bökur.

  10. Bakið við 200°c í 20 mínútur eða þar til þetta er orðið fallega gyllt að ofan.

Tófúhræra

  • 1 pakki tófú (sirka 400-450 gr)

  • olía til steikingar

  • 1 tsk hvítlauskduft

  • 1 tsk laukduft

  • 1/2 tsk túrmerik

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • 1/2 teningur sveppakraftur

  • 3 msk vatn eða sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu.

  2. Opnið tófúið og helið vatninu af því. Myljið tófúið á pönnuna.

  3. Bætið við restinni af hráefnunum og blandið vel saman.

  4. Smakkið til og bætið við kryddum ef þarf.

Bechamelsósa

  • 2 msk smjörlíki

  • 2 msk hveiti

  • 3-4 dl ósæt sojamjólk

  • 2-3 msk næringarger

  • Örlítið af hvítum pipar

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Setið smjörlíki í pott og bræðið.

  2. Bætið hveiti saman við og hrærið vel saman með písk.

  3. Hellið mjólkinni út í 1 dl í einu og hrærið vel á milli.

  4. Bætið næringargeri og kryddum út í og smakkið til.

Hugmyndir af meðlæti:

  • Sveppir steiktir uppúr olíu, hvítlauk og salti

  • Tómatar bakaðir í ofni með olíu, timían, rósmarín, grófu salti og svörtum pipar

  • Bakaðar baunir

  • Klettasalat

  • Vínber

  • Heimagerður kryddostur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

-Veganistur

Vegan partýplatti - kryddostur, kex og salat

IMG_0105-3.jpg

Ég elska að halda partý. Í hvert sinn sem ég býð fólki í heimsókn vil ég helst útbúa heilt veisluborð af kræsingum og oftar en ekki þarf Siggi að stoppa mig og draga mig niður á jörðina. Eins finnst mér alveg ómögulegt að koma tómhent í heimsókn til annarra og baka því yfirleitt eitthvað gott. Ég hef ekki alltaf verið svona en þetta byrjaði þegar ég varð vegan. Mér þótti mikilvægt að sýna fólki hversu góður vegan matur getur verið og lengi vel var það svoleiðis að ef mér var boðið í mat eða veislur þá þurfti ég að sjá um minn mat sjálf þar sem flestir héldu að það væri of erfitt að útbúa vegan mat. Þetta var árið 2011, löngu áður en úrvalið af spennandi vegan hráefnum varð svona gott. Ég vandist því að mæta með mat í allskyns heimsóknir og oftar en ekki þótti fólki svakalega spennandi að smakka það sem ég mætti með. Með tímanum hefur þetta svo orðið að vana hjá mér og nú elska ég að bjóða fólki í heimsókn og útbúa skemmtilega partýrétti og allskonar kökur.

Þessi færsla er einmitt ætluð þeim sem vilja bjóða uppá skemmtilega partýrétti um jólin eða áramótin eða jafnvel útbúa góðan veislubakka sem forrétt um hátíðirnar. Sem betur fer hefur hugarfar fólks almennt breyst mikið hvað varðar vegan mat og flestir vita að ekkert mál er að borða gómsætan hátíðarmat án dýraafurða. Þó eru enn sumir sem halda að vegan jól þýði að þeir þurfi að fórna einhverju og er þessi veislubakki tilvalinn til að koma fólki rækilega á óvart.

IMG_0083.jpg

Það var mikil áskorun að gera þessa færslu því á þessum tíma ársins er dagsbirta af skornum skammti hérna í Piteå. Í dag var nánast alveg dimmt í eldhúsinu fyrir utan pínuitla ljósglætu alveg við gluggann og ég gerði mitt besta til að nýta hana. Það er synd að minn uppáhalds tími til að blogga sé akkúrat þegar skilyrðin eru sem verst. Ég læt það þó ekki á mig fá og held ótrauð áfram að útbúa gómsætar uppskriftir.

IMG_0092-3.jpg

Þessar uppskriftir eru báðar virkilega einfaldar og fljótlegar en þó skiptir máli að þær séu gerðar svolítið fyrirfram. Osturinn þarf helst að fá að sitja í ísskáp í nokkrar klukkustundir og salatið er einnig betra þegar það fær að sitja í ísskápnum og draga í sig bragðið frá kryddunum. Allt annað á disknum er svo bara smekksatriði og hægt er að leika sér endalaust með það. Ég t.d. held að laufabrauðið úr bókinni okkar væri fullkomið á partýbakkann og dásamlegt með bæði salatinu og ostinum.

Ég var fyrst svolítið á báðum áttum með að birta færslu sem inniheldur svona mikið af tilbúnum vegan vörum. En eftir því sem ég hugsaði meira um það áttaði ég mig á því að það er ekkert að því að birta svoleiðis færslu. Það er oft sett svolítil krafa á okkur sem erum vegan að búa allt til frá grunni og nota ekkert tilbúið. Ég hef stundum rekist á athugasemdir við uppskriftir annarra grænkera þar sem þau eru gagnrýnd fyrir það að nota t.d. tilbúinn rjómaost í stað þess að gera hann sjálf, en ég hef aldrei séð athugasemdir þar sem fólk er beðið um að útbúa sinn eiginn rjómaost úr kúamjólk í stað þess að kaupa tilbúinn. Það er enginn skömm af því að kaupa tilbúnar vörur og þegar það eru jól og við erum öll á fullu í eldhúsinu er svakalega gott að geta útbúið eitthvað einfalt til að bjóða uppá.

IMG_0106-3.jpg

Ég vona innilega að þið prófið að útbúa þennan dásamlega partýbakka og látið okkur endilega vita hvernig ykkur og öðrum líkar við uppskriftirnar.

IMG_0107-3.jpg
IMG_0118-2.jpg

Vegan kryddostur (2 stk)

  • 3 öskjur (samtals 450 gr) hreinn vegan rjómaostur (ég notaði Oatly)

  • 2 dl rifinn vegan ostur (ég notaði Violife)

  • 2 msk vegan majónes. Ég nota heimagert því það er virkilega einfalt og mér finnst það langbest. Það þarf líka majónes í salatið hér að neðan svo ég geri tvöfalda uppskrift af þessu hér

  • 2 msk smjörlíki frá Naturli - vegan block

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1,5 dl saxaður vorlaukur (bara græni parturinn)

  • 2-3 tsk tabasco sósa (mæli með að byrja á því að setja 2 og bæta svo við eftir þörf)

  • 1 tsk sojasósa

  • salt eftir smekk

Utan um ostinn

  • 2 dl saxaðar hnetur (ég notaði möndlur því Siggi er með ofnæmi fyrir öðrum hnetum. Pekanhnetur og valhnetur passa örugglega mjög vel líka)

  • svartur pipar eftir smekk

  • gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Bætið restinni ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  3. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  4. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  5. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr söxuðu möndlunum og kryddunum.

Vegan kjúklingasalat með karrý

Þetta salat gerði ég upprunalega fyrir skonsubrauðtertu. Það er ekkert smá gott og karrýið gerir salatið enn betra að mínu mati. Það má þó sleppa því. Ég gerði þetta salat fyrir partý um daginn og það sló bókstaflega í gegn.

  • 1 pakki vegan filébitar frá Hälsans Kök

  • Sirka 5-6 dl vegan majónes. Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér langbest að útbúa mitt eigið majónes og ef þið ætlið að gera bæði salatið og ostana mæli ég með því að tvöfalda þessa uppskrift. Ef þið ætlið aðeins að útbúa salatið myndi ég gera eina og hálfa uppskrift

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrý

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

Ég vona innilega að þið njótið. Eins og þið sjáið kannski þá hef ég bætt við linkum á margar vörur í færslunni svo auðvelt sé að sjá hvernig þær líta út. Ég mæli með að opna hvern link í nýjum glugga svo það sé sem þægilegast þegar þið skoðið færsluna.

-Veganistur

Smákökur með súkkulaðidropum

IMG_0071-3.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri smákökuuppskrift. Í síðustu viku birti ég uppskrift af vanilluhringjum og nú deili ég með ykkur gómsætum smákökum með súkkulaðidropum. Bæði vanilluhringirnir og súkkulaðidropakökurnar eru einskonar vegan útgáfa af uppskriftum frá mömmu. Það minnir mig fátt meira á jólin en handskrifaðar uppskriftir úr gömlu bókunum hennar. Uppskriftir sem hún fékk hjá ömmu og hafa fylgt fjölskyldunni lengi. Þar sem ég bý erlendis og get ekki flett uppskriftarbókunum hennar hefur hún þurft að taka myndir af blaðsíðunum og senda mér. Svo þarf hún helst að vera laus akkúrat þegar ég ætla að baka til þess að hjálpa mér og gefa mér ráð. Hún fær því að taka þátt í smákökutilraunum mínum þó við séum í sitthvoru landinu.

IMG_0046.jpg

Þessi færsla er sú fjórða í samstarfi við Naturli og það hefur verið ótrúlega gaman að útbúa góðan jólabakstur og nota í það smjörlíkið þeirra. Smjörlíkið er vegan og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði vegan smjör sem er fullkomið á brauð og svo smjörlíki til baksturs. Eins framleiða þau allskonar vegan matrvöru og dásamlega góðan ís sem er hinn fullkomni jóladesert.

IMG_0048-2.jpg

Nú erum við komnar með ansi gott úrval af jólabakstri á blogginu og svo enn meira í bókinni okkar sem er nýkomin út. Í bókinni eru til dæmis uppskriftir af mömmukökum, piparkökum og laufabrauði. Það er svo magnað að hugsa til þess að fyrir nokkrum árum hafi fólk almennt haldið að ekki væri hægt að baka góðar vegan jólasmákökur. Það eru heldur ekkert svakalega mörg ár síðan erfitt var að finna vegan smjörlíki í baksturinn. Í dag sem betur fer er ekkert mál að vera vegan allan ársins hring og við grænkerarnir getum borðað yfir okkur af allskyns kræsingum. Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri hátíðlegum uppskriftum í desember.

IMG_0055-4.jpg

Ég sit með Blonde Redhead í eyrunum og hugsa til þess hversu þakklát ég er fyrir öll fallegu skilaboðin sem okkur hefur borist síðan bókin okkar kom út. Þetta ár hefur verið það allra besta sem ég hef lifað hingað til, en á sama tíma virkilega krefjandi og oft hef ég átt erfitt með að finna góðan balans. Ég efast í sífellu um það sem ég geri. Ég er hrædd um að gera mistök, valda fólki vonbrigðum og bara almennt standa mig ekki nógu vel. Ég talaði aðeins um það á Instagram um helgina hvernig ég ætla að reyna að vera duglegri að sýna ykkur á bakvið tjöldin þegar ég er að blogga og prófa mig áfram í eldhúsinu. Ég nefnilega deili með ykkur færslunum þegar þær eru tilbúnar, með myndum og öllu, en í raun er ýmislegt sem á sér stað áður en sjálf færslan er tilbúin. Ég hef oftar en ekki þurft að prófa hverja uppskrift nokkrum sinnum áður en ég finn nákvæmlega hvernig ég vil hafa hana og í þau skipti sem uppskriftirnar mistakast hjá mér fyllist ég vonleysi og langar að hætta við allt saman. Eins hef ég oft útbúið uppskrift og tekið myndir en verið óánægð með myndirnar sjálfar, eða jafnvel eitthvað pínulítið smáatriði og endað á að gera allt uppá nýtt. Það er svo auðvelt að birta fínustu myndirnar, fullkláraðar uppskriftir og einhvernveginn líta út fyrir að vera manneskja sem er með allt á hreinu. Sama á við um bókina okkar. Okkur leið nánast allan tíman sem við unnum að henni eins og við værum að falla á tíma og eins og allt myndi mistakast. Ég er aðeins meira dramatísk en Júlía svo hún náði oftar en ekki að koma mér út úr þessu hugarfari í sumar þegar við unnum að bókinni og ég reyni auðvitað sjálf að hafa hemil á þessum tilfinningum. Ég er stanslaust að vinna í sjálfri mér og þá aðallega í því að hætta að vera svona hrædd við að gera mistök þegar kemur að hlutunum sem skipta mig mestu máli. Þá á ég helst við jazzinn og svo allt sem viðkemur Veganistum. Ég ætla á næstkomandi ári að leyfa ykkur að fylgjast með því hvernig mér tekst til.

IMG_0059-3.jpg

Það er því við hæfi að láta ykkur vita af því að þessa uppskrift þurfti ég að gera þrisvar til að verða ánægð með hana. Þrátt fyrir mikinn pirring og vonleysi í þau skipti sem uppskriftin var ekki alveg nógu góð er ég himinlifandi í dag yfir því að hafa gefið mér tíma í að prófa mig áfram með hana því útkoman er dásamleg. Þessar kökur eru akkúrat eins og ég vildi hafa þær og ég vona innilega að þið verðið jafn ánægð með þær og ég.

IMG_0073-4.jpg

Smákökur með súkkulaðidropum

  • 200 gr smjörlíki frá Naturli (takið það út úr ísskáp svona klukkustund áður en þið ætlið að baka)

  • 100 gr sykur

  • 100 gr púðursykur

  • 250 gr hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • 20 gr kókosmjöl

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk aquafaba (vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • Dökkir súkkulaðidropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 150°C.

  2. Blandið þurrefnunum í skál.

  3. Skerið smjörið í kubba og bætið í skálina ásamt aquafaba.

  4. Hnoðið vel saman með höndunum. Bætið meira hveiti ef þetta er alltof klesst. Þetta á að vera frekar blautt en samt auðvelt að rúlla í kúlur. Bara svona eins og deig af súkkulaðibitakökum.

  5. Rúllið í kúlur og raðið á ofnskúffu klædda með bökunarpappír. Ég hef kúlurnar frekar litlar svo kökurnar verði ekki of stórar.

  6. Bakið í 10-12 mínútur. Takið út og raðið súkkulaðidropanum strax á á meðan kökurnar eru heitar.

  7. Leyfið þeim að kólna vel áður en þið setjið þær í stamp eða skál. Það tekur svolitla stund fyrir súkkulaðidropann að harða aftur.


Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!
- Veganistur <3

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

Vegan vanilluhringir

IMG_9973-3.jpg

Nú er desember genginn í garð og við getum glaðar sagt að við höfum beðið eftir þessum mánuði lengi. Ekki bara afþví við erum jólabörn heldur einnig vegna þess að nú er bókin okkar komin út. Bókin heitir Úr eldhúsinu okkar og er gefin út af Björt bókaútgáfu.
Við erum enn á fullu í skólanum að klára próf og verkefni annarinnar svo við reynum eftir bestu getu að halda okkur aðeins niðri á jörðinni en í raun erum við lengst uppi í skýjunum. Við höfum aldrei unnið jafn hart að neinu eins og bókinni okkar og við erum svo ótrúlega ánægðar með hana.

IMG_9959.jpg

En í dag ætlum við að deila með ykkur uppskrift af vanilluhringjum. Mamma okkar bakar alltaf svona smákökur og er uppskriftin okkar innblásin af hennar uppskrift. Eins og komið fram hefur áður erum við í samstarfi við Naturli í desember og þessi færsla er sú þriðja í því samstarfi. Smjörlíkið þeirra hefur reynst okkur gríðarlega vel í jólabakstrinum í ár. Smjörlíkið er 100% vegan, lífrænt og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði smjör sem er dásamlegt á brauð og heitir smörbar en svo nýlega hófu þau að framleiða smjörlíki til baksturs og steikingar en það heitir vegan block. Bæði eru þau dásamlega góð og mikið notuð á okkar heimilum.

IMG_9962-2.jpg

Upprunalega hugmyndin var að gera eina stóra smákökufærslu með nokkrum sortum en ég ákvað að gera frekar sér færslur fyrir hverja sort svo auðveldast sé að finna þær. Ég ákvað að byrja á vanilluhringjum og þeir eru ekkert smá góðir. Ég bakaði þá í fyrsta sinn um daginn og mamma var tilbúin í símanum og hjálpaði mér. Ég hélt þetta yrði alveg svakalega flókið en svo var þetta ekkert mál. Næsta sort kemur svo á bloggið á næstu dögum.

IMG_9969-3.jpg

Ég útvegaði mér hakkavél svo það yrði sem auðveldast að útbúa hringina. Ég viðurkenni að mér leið svolítið kjánalega í búðinni þegar ég keypti hakkavélina þar sem ég er vegan og hélt aldrei að ég myndi þurfa svoleiðis vél. Þið megið því endilega koma með skemmtilegar hugmyndir fyrir mig af einhverju sem hægt er að nýta vélina í hehe. Kannski hægt að útbúa í henni baunabuff eða eitthvað slíkt?

IMG_9971-2.jpg

Nú er aðeins að róast í skólanum hjá mér svo ef allt gengur upp þá mun ég ná að pósta uppskriftum af öðru en bara bakstri fyrir jólin. Ég ætla að gera mitt allra besta. Nú þegar erum við með allskonar skemmtilegar uppskriftir í veislu- og hátíðaréttir. Þar eru heitir brauðréttir, brauðtertur, tartalettur, innbakað Oumph og margt fleira. Það ættu allavega flestir að finna eitthvað við sitt hæfi á blogginu okkar og í bókinni. Okkur finnst eiginlega fátt skemmtilegra en að útbúa vegan hátíðarétti. Við vonum innilega að ykkur eigi eftir að líka vanilluhringirnir vel og endilega látið okkur vita ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu núna í desember.

IMG_9978-2.jpg

Vegan vanilluhringir (sirka fjórar plötur)

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1/4 tsk hjartasalt

  • 350 gr kalt Naturli smjörlíki

  • 3 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2-1 msk vegan mjólk

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  2. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í skálina ásamt restinni af hráefnunum.

  3. Hnoðið vel saman með höndunum.

  4. Plastið deigið inn og setjið í ísskáp í eina klukkustund.

  5. Hitið á meðan ofninn í 170°c.

  6. Setjið deigið í hakkavél og hafið stjörnuna á. Margir sem eiga hrærivélar eiga svona stykki sem hægt er að setja á og það virkar mjög vel líka. Ég las einhversstaðar að eins sé hægt að nota sprautupoka en þar sem deigið er hnoðað gæti það verið svolítið erfiðara.

  7. Útbúið lengjur og mótið hringi. Ég hef hverja lengju um 8-9 cm.

  8. Bakið í 7-10 mínútur. Passið að fylgjast vel með þeim eftir svona 7 mínútur svo þeir ofbakist ekki.

  9. Kælið vel áður en þeir eru settir í stamp eða skál.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

-Veganistur

 
naturlilogo.png
 


-þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-


Hvít lagterta með sultu

IMG_9934.jpg

Þá er komið að annarri uppskriftinni okkar í samstarfi við Naturli. Í þetta sinn deilum við með ykkur dásamlegri uppskrift af hvítri lagtertu. Lagtertan hefur ýmis nöfn, randalína, vínarterta, lagkaka og örugglega fleiri, en ég ákvað að hér skuli hún heita hvít lagterta.

Eins og við nefndum í síðustu færslu ætlum við að útbúa fjórar dásamlegar uppskriftir af jólabakstri þar sem við notum vegan smjörlíkið frá Naturli. Smjörlíkið er að sjálfsögðu vegan en það er líka lífrænt og útbúið úr Sea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar fullkomlega í bakstur og til steikingar. Mikilvægt er þó að ruglast ekki á hinu smjörinu þeirra (smörbar), en það er til að smyrja á brauð. Bæði smjörin og hinar vörurnar þeirra notum við gríðarlega mikið og erum við því ekkert smá ánægðar að vera í samstarfi við Naturli fram að jólum. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni, Melabúðinni og Fjarðarkaup.

Þegar ég byrjaði að vinna að uppskriftinni uppgvötaði ég að lagtertan hefur ekki bara ýmis nöfn, heldur er mjög mismunandi hvernig hún er gerð. Sumir vilja hana hrærða á meðan aðrir hafa hana hnoðaða og svo er hún ýmist smurð með rabbabarasultu, sveskjusultu, jarðarberjasultu, smjörkremi, smjörkremi og sultu, súkkulaðikremi… listinn heldur áfram.
Síðan ég flutti erlendis hef ég saknað rabbabarasultunnar mikið. Ég veit vel að ég gæti gert mína eigin en hef ekki enn komið mér í það. Ég var fremur ómöguleg yfir því að geta ekki notað hana í lagtertuna, en mamma huggaði mig með því að segja mér frá því að í okkar fjölskyldu hafi lengi verið hefð að nota jarðarberjasultu því hér áður fyrr var hún talin fínni og var því notuð til hátíðarbrigða. Ég jafnaði mig svo almennilega þegar ég smakkaði lagtertuna mína með jarðarberjasultunni því hún er ekkert smá góð.

IMG_9888.jpg

Mamma gerir alltaf hrærða lagtertu en tengdamamma hnoðaða svo ég prufaði að gera bæði og fannst hún koma betur út hjá mér hnoðuð. Þær voru báðar ótrúlega góðar en fannst hnoðaða aðeins meira skothelld. Ég nota aquafaba (kjúklingabaunavökva) í staðinn fyrir egg og það virkar mjög vel í þessa uppskrift. Aquafaba er vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós. Hann er sigtaður frá baununum og er próteinríkur og virkar því eins og eggjahvítur í margar uppskriftir.

IMG_9895.jpg

Ég vona að ykkur þyki þessi lagterta jafn góð og mér. Það eru mörg ár síðan ég smakkaði svona hvíta lagtertu síðast og ég saknaði hennar ekkert svakalega. Eins varð Siggi ekkert rosalega spenntur þegar ég sagði honum að ég ætlaði að baka svoleiðis fyrir bloggið. En við urðum bæði svo hissa þegar við smökkuðum kökuna því hún er svooo góð. Mér finnst hún alveg jafn góð og þessi brúna og mun héðan í frá baka báðar fyrir jólin.

IMG_9928-2.jpg

Þegar ég sit og skrifa þetta er Júlía stödd á bókamessunni í Hörpu að kynna bókina okkar sem kemur í búðir eftir tæpar tvær vikur. Ég viðurkenni að á svona stundum er erfitt að vera stödd í öðru landi og geta ekki tekið fyllilega þátt en ég er samt gríðarlega hamingjusöm og þakklát. Stundum vildi ég bara að ég gæti verið á mörgum stöðum í einu. Ég hlakka þó gríðarlega til að koma í janúar og halda útgáfuhóf og taka þátt í veganúar á Íslandi.

Hvít lagterta

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 250 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 1 tsk vanilludropar

  • 6 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi. Sjá útskýringu á því hvað það er hér að ofan)

  • 2 msk vegan mjólk

  • Sulta eftir smekk til að smyrja. Ég notaði jarðarberjasultu og það fóru sirka 400 gr alls á kökuna.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið þurrefnunum saman.

  3. Bætið mjólk, aquafaba og vanilludropum út í og myljið smjörlíkið út í.

  4. Hnoðið saman. Sjálf á ég ekki hrærivél svo ég notaði hnoðarana á rafmagnsþeytaranum til að koma deiginu aðeins saman og tók svo við með höndunum. Það er þó líklega þægilegast að nota hrærivél.

  5. Skiptið deiginu í akkúrat tvo hluta og fletjið þá út á tvær ofnplötur. Mínir botnar urðu sirka 28x32 cm hvor.

  6. Bakið botnanna í 20 mínútur. Ég fylgdist vel með þeim og þar sem ofninn minn er stundum svolítið lélegur og er ekki með blástur þá tók ég efri botninn út aðeins á undan hinum sem ég færði svo aðeins ofar í nokkrar mínútur.

  7. Leyfið botnunum að kólna og skerið þá svo í tvennt langsum (sjá mynd að ofan). Smyrjið botnanna og leggið þá saman.

  8. Ég gerði þau mistök þegar ég gerði kökuna fyrst að reyna að skera hana niður í sneiðar um leið og ég setti hana saman. Botnarnir voru þó svo harðir að sultan kreistist út til hliðanna og allt fór svolítið í klessu. Ég hringdi því í mömmu og tengdamömmu og fékk ráð. Kakan mýkist þegar hún fær að standa í svolitla stund og botnarnir draga í sig sultuna og þá er ekkert mál að skera hana. En til að fá sem fallegastar sneiðar bentu þær mér á að gott sé að skera kökuna hálf frosna. Það gerði ég í þetta sinn. Ég tók hana út frystinum um klukkustund áður en ég vildi skera hana niður. Þegar hún var hálf þiðnuð lagði ég hana upp á hlið og skar sneiðarnar svoleiðis. Þannig náði ég mjög fínum sneiðum.

Takk fyrir að lesa og njótið!
Veganistur

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -

Vegan galette með eplum og karamellusósu

IMG_9683.jpg

Jæjaaaa….

Þá erum við loksins mættar aftur eftir nokkra mánaða pásu sem fór að mestu í að útbúa matreiðslubókina okkar sem kemur út í loks ársins. Ég (Helga) er komin aftur til Piteå og byrjuð í skólanum og er hægt og rólega að komast aftur í góða rútínu.

Það hefur sjaldan verið jafn erfitt að byrja að blogga aftur eftir pásu eins og núna. Mér hefur liðið svolítið eins og ég sé uppiskroppa með hugmyndir. Eins og allt það sem ég kunni sé nú þegar á blogginu eða í bókinni okkar. Ég hef því aðeins verið að leika mér í eldhúsinu til að finna aftur sköpunargleðina í matargerðinni. Það hefur verið ljúft að fá smá tíma til að koma mér aftur af stað og á síðustu vikum hafa allskonar hugmyndir kviknað.

IMG_9665.jpg

Ég hef tekið eftir því uppá síðkastið að galette bökur eru í mikilli tísku á Instagram. Það virðist vera eitthvað við ófullkomið og “rustic” útlitið á þeim sem heillar marga matarljósmyndara. Ég var ekki alveg sannfærð þegar ég sá myndir af þessum bökum fyrst. Mér fannst þær líta mjög vel út en skildi ekki alveg æðið. Mig fór þó með tímanum að langa að prófa og ákvað að lesa mér smá til. Galette er franskt orð yfir flata kringlóta köku. Algengt er að galette bökur séu gerðar með því að útbúa bökudeig, fletja það út og leggja yfir það fyllingu sem annað hvort er sæt eða sölt. Endarnir á deiginu eru svo brotnir yfir fyllinguna og bakan bökuð í ofninum.

IMG_9668.jpg

Ég prófaði fyrst að útbúa míní útgáfur fylltar með bláberjum og þær smökkuðust mjög vel, en ég var svolítið óþolinmóð og kældi deigið alltof stutt og notaði smjörlíki við stofuhita í stað þess að hafa það kalt eins og mælt er með að gera. Deigið var því svolítið erfitt að meðhöndla og rifnaði auðveldlega. Ég las mér svo til og fékk nokkur ráð á Instagram og komst að því að mikilvægt er að nota ískalt smjör, ískalt vatn og kæla deigið vel. Ég fór eftir þeim ráðum í dag og bakan varð dásamlega góð og allt annað að meðhöndla deigið.

IMG_9671.jpg

Um daginn kom á markað nýtt smjörlíki frá merkinu Naturli. Vegan “smörbar” smjörið þeirra hefur fengist í svolítinn tíma og hefur bókstaflega slegið í gegn því það er bæði laust við pálmaolíu og bragðast ótrúlega vel. Ég var því svakalega spennt þegar ég frétti að þau framleiddu einnig smjörlíki sem hentar til baksturs og steikingar. Smjörlíkið þeirra er eins og smörbar smjörið laust við pálmaolíu og er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Ég er nú búin að prófa að baka aðeins úr því og það er dásamlega gott. Smörbar smjörið fæst nú þegar í öllum helstu verslunum landsins en smjörlíkið er einnig væntanlegt í verslanir á næstunni.

IMG_9673.jpg

Ég er svakalega spennt að prófa fleiri útgáfur af svona galette bökum. Margir útbúa þær með tómötum og góðum jurtum. Ég sé fyrir mér að það gæti verið dásamlega gott að útbúa fyllingu úr möndlu ricotta osti, ferskum tómötum og toppa svo með ferskum jurtum, sítrónusafa og berki, sjávarsalti og ólífuolíu. Ég myndi þá sleppa sykrinum í botninum og bæta við kannski einhverjum kryddum. Eða hafa hann bara klassískan.

IMG_9684.jpg

Mér þætti gaman að heyra hvort þið hafið einhverjar óskir um uppskriftir núna í vetur. Það fer til dæmis að líða að jólunum, minni uppáhalds árstíð (já jólin eru í mínum bókum heil árstíð), og ég vil að sjálfsögðu útbúa fyrir ykkur eins mikið af gómsætum hátíðaruppskriftum og ég mögulega get! Eins og ég segi hefur pásan verið ansi löng og því þætti mér mjög vænt um ef fólk kæmi með skemmtilegar uppástungur eða áskoranir.

IMG_9689.jpg

Galette með eplum

Botninn

  • 3 og 1/2 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1/2 tsk salt

  • 120 g kalt smjörlíki

  • ca 40 ml ískalt vatn (ég byrja á því að setja 2 msk í einu og bæti svo við eftir þörfum)

  • Möndluflögur til að strá á skorpuna (má sleppa)

  • Aquafaba (kjúklingabaunasafi) til að smyrja skorpuna. Það er líka hægt að nota vegan mjólk.

Fyllingin

  • 3-4 epli (ég notaði 3 og 1/2)

  • 1 dl púðursykur

  • 2 msk sítrónusafi plús smá börkur

  • 1 msk kanill

  • 1/2 tsk malað engifer

  • 1/4 tsk múskat

  • 1 og 1/2 msk hveiti

Karamellusósa

Uppskrift HÉR

Aðferð:

  1. Blandaðu í skál hveiti, sykri og salti.

  2. Skerðu kalt smjörlíki í kubba og notaðu puttana til að brjóta það niður og blanda gróflega við hveitið. Á ensku er þetta útskýrt þannig að smjörið eigi að vera á stærð við “pea” eða græna baun. (Veit ekki aaalveg með þá myndlíkindu á íslensku hehe.)

  3. Bættu ísköldu vatni útí í skömmtum og hrærðu saman með sleif. Ég set nokkrar matskeiðar í einu og bæti svo við eftir þörf.

  4. Stráðu hveiti á borð og færðu deigið yfir á það. Ekki hnoða það mikið en mótaðu úr því kúlu. Pakkaðu henni inní plastfilmu og settu í ísskáp í klukkustund.

  5. Afhýddu eplin og skerðu niður í sneiðar.

  6. Settu þau í stóra skál og hrærðu saman við þau restinni af hráefninum. Legðu til hliðar.

  7. Stráðu hveiti á borð og flettu út deigið í hring. Leggðu fyllinguna á miðja bökuna og hafðu smá spássíu til hliðana svo hægt sé að brjóta deigið aðeins yfir. Það þarf þó ekki að vera mikið pláss, en samt þannig að það nái að pakka fyllingunni aðeins inn.

  8. Brjóttu deigið yfir. Mundu að þetta á ekki að vera fullkomið. Galette bökur eru gerðar til þess að vera svolítið rustic og heimagerðar.

  9. Pennslaðu smá aquafaba eða mjólk yfir skorpuna og stráðu yfir möndluflögum og sykri.

  10. Bakaðu við 190°c í 30-40 mínútur eða þar til bakan er orðin gyllt og fín.

  11. Útbúðu karamellusósuna á meðan.

  12. Leyfið bökunni að kólna í 10 mín áður en hún er skorin. Vanilluís eða vanillusósa er að mínu mati nauðsyn með bökunni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel.

Helga María

Einn af þessum notalegu dögum

IMG_6798-7.jpg

Í dag er mánudagur. Frídagur verslunarmanna. Ég sit við eldhúsborðið í íbúðinni á Eggertsgötu sem ég er að leigja í sumar. Nánast allir sem ég þekki yfirgáfu borgina yfir helgina en ég tók meðvitaða ákvörðun um að fara ekkert. Mér líkaði tilhugsunin um að eiga rólega helgi mér sjálfri mér. Ég byrjaði daginn á að útbúa mér kaffi og smurði tvær flatkökur og borðaði úti á svölum. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér hvað flatkökur ættu eftir að verða mér dýrmætar þegar ég flytti erlendis. Þær eru eitt það sem ég sakna mest frá Íslandi og ég hef borðað ógrynni af þeim í sumar.

Ég átti notalega verslunarmannahelgi. Á laugardaginn tók ég sjálfa mig á stefnumót og eyddi deginum í miðborginni og gerði nákvæmlega bara það sem mig langaði. Ég rölti niður í bæ með tónlist í eyrunum og kíkti í Kolaportið í fyrsta sinn í nokkur ár. Ég borðaði skál mánaðarins á Gló á Laugavegi. Mexíkóskál. Skoðaði mig svo aðeins meira um og hélt svo heim. Um kvöldið fór ég út á lífið og kom seint heim svo ég leyfði mér því að eiga rólegan sunnudag sem fór að mestu í að gráta yfir Queer Eye. Í dag er ég svo búin að þvo þvott og gera fínt í íbúðinni.

unnamed (1).jpg

Nú sit ég hér við eldhúsborðið og var rétt í þessu að setja á plötuna Night Lights með Gerry Mulligan. Mér þykir gott að hlusta á Mulligan þegar ég les eða skrifa og þessi ákveðna plata fær mig til að hugsa um haustið. Mína uppáhalds árstíð. Árstíðina þar sem sem allt fær svo fallegan lit og loftið verður ferskt og svalt. Ég hef ekki alltaf haft ástæðu til að hlakka til haustsins. Ég held ég hafi sjaldan haft jafn margar ástæður og nú. Eftir nokkur ár í Svíþjóð get ég loksins sagt, án þess að finnast ég vera að segja ósatt, að þar eigi ég heima og að þar eigi ég líf og framtíð. Eftir tæpan mánuð flýg ég heim til Sigga og allra vina minna. Skólinn byrjar og mér finnst ég fullkomlega tilbúin að takast á við þau spennandi verkefni og tækifæri sem bíða mín. Ég gaf sjálfri mér loforð um að þetta skólaárið ætli ég að þora að taka meira pláss sem tónlistarkona og byrja að trúa því að ég eigi plássið skilið. “Hah, gangi þér vel” heyri ég sjálfa mig segja í hljóði.

Það er kominn ágúst. Fimmti ágúst, tvöþúsundognítján. Sumarið hefur liðið hraðar en nokkurtíman fyrr. Þetta sumarið bý ég á Íslandi. Ég hef ekki eytt sumrinu á Íslandi síðan fyrir fjórum árum og því hefur mér svolítið liðið eins og ég sé í löngu fríi. En bráðum er sumarið búið og ég flýg heim til Piteå. Ég hlakka mikið til. Þegar ég er komin heim til Sigga mun ég svo sitja við eldhúsborðið á Ankarskatavägen og minnast sumarsins sem er það besta sem ég hef átt í mörg ár. En ekki alveg strax, því enn er tæpur mánuður eftir af Íslandsdvölinni. Ágúst. Mánuðurinn þar sem við Júlía skilum af okkur öllu efni fyrir bókina okkar. Bókina sem okkur hefur dreymt svo lengi um að búa til. Framundan eru vikur sem munu að mestu einkennast af skrifum og myndatökum og bakstri og eldamennsku. Og ég gæti ekki verið hamingjusamari.

Helga María

Vegan hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu

IMG_6520-5.jpg

Þá er komið að seinni færslunni í samstarfi okkar við Anamma í júní. Eins og við nefndum síðast þá erum við að vinna með nýja hakkið frá þeim sem mótast sérstaklega vel og hentar fullkomlega til að útbúa góða borgara eins og þennan. Í síðustu færslu deildum við með ykkur uppskrift af geggjuðum vegan bollum með ritz kexi og döðlum og við höfum fengið virkilega góð viðbrögð við þeim. Í dag er komið að þessum djúsí borgara sem er geggjaður á grillið eða pönnuna. Þetta nýja hakk er alger “game changer” og við erum ekkert smá ánægðar með að fá að vinna með svona góðar vandaðar vörur. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup og Bónus og svo í ýmsum minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6494-5.jpg

Það er æðislegt að sjá úrvalið af vegan vörum aukast svona gríðarlega eins og gerst hefur síðustu ár. Það er ekkert svo langt síðan vegan borgarar voru alltaf gerðir úr hefðbundnu grænmetisbuffi með tómatsósu. Í dag er hinsvegar hægt að velja á milli allskonar borgara, en þar til fyrir stuttu var svolítið vesen að útbúa heimagerða borgara úr sojahakki. Það breyttist þó algerlega þegar Anamma byrjaði að framleiða nýja hakkið sitt og í dag er ekkert mál að útbúa djúsí heimagerða borgara.

IMG_6497-6.jpg

Við ákváðum að byrja á því að gera svolítið klassíska uppskrift. Uppskrift sem er geggggjuð eins og hún er en býður uppá það að setja hana í eigin búning ef maður vill. Þessa borgara er ekkert mál að grilla og við getum eiginlega lofað ykkur að jafnvel hörðustu kjötætur eiga eftir að elska þá.

IMG_6500-5.jpg

Í þetta skipti útbjuggum við gómsæta hamborgarasósu með borgurum og toppuðum þá einnig með bjórsteiktum lauk sem er ekkert smá góður. Hamborgarasósuna gerum við í hvert skipti sem við gerum okkur borgara. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamleg. Við settum svo hvítlauksmæjónes á borgarann líka, en það var mest til að fá fallega mynd hehe.

IMG_6518-4.jpg

Eins og ég skrifaði að ofan er þessi uppskrift alveg svakalega góð, en það er auðvelt að prufa sig áfram og gera eitthvað aðeins öðruvísi úr henni. Ég hef t.d. stundum sett smá estragon út í og það gefur mjög skemmtilegt bragð. Eins er rosalega gott að blanda út í borgarann vegan fetaosti. Við erum mjög spenntar að heyra hvað ykkur finnst um borgarann og eins hvað ykkur þykir skemmtilegast að útbúa úr þessu frábæra nýja hakki frá Anamma.

IMG_6523-7.jpg

Hamborgarar 4 stykki

  • 440 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 2 tsk kjöt og grillkrydd

  • salt og pipar

  • BBQ sósa til að pennsla yfir (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4 buff út hakkinu (sirka 110 gr hvert buff) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

  4. Pennslið með BBQ sósu áður en borgararnir eru matreiddir ef þið kjósið. Það er alls engin nauðsyn en okkur þykir það svakalega gott.

Hamborgarasósa

  • 1-1 1/2 dl vegan majónes (keypt eða eftir uppskrift hérna af blogginu)

  • 1/2 dl tómatsósa

  • 1/2 dl mjög smátt saxaðar súrar gúrkur

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt

Aðferð:

  1. Saxið súru gúrkurnar mjög smátt.

  2. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál

Bjórsteiktur laukur

  • 2 stórir laukar

  • 1 msk sykur

  • 1 msk soyasósa

  • salt og pipar

  • 2-3 msk bjór

Aðferð:

  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.

  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.

  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.




anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Vegan kjötbollur með ritz og döðlum

IMG_6487.jpg

Við erum loksins mættar aftur með nýja uppskrift fyrir ykkur. Síðustu mánuðir hafa verið ansi viðburðarríkir, en við vildu einbeita okkur að því að klára önnina í skólanum og gera það eins vel og við gætum. Júlía tók nokkur próf og Helga hélt tvo lokatónleika og spilaði nokkur gigg. En nú eru skólarnir komnir í sumarfrí og við báðar byrjaðar á fullu í sumarvinnunum okkar. Ég (Helga) er stödd á Íslandi og verð þar í sumar þar sem það eru mjög spennandi verkefni framundan hjá okkur systrum. Við hlökkum mikið til að deila því öllu með ykkur og ég viðurkenni það alveg að það er svakalega gott að fá smá tíma núna í sumar til að sinna Veganistum saman en ekki úr sitthvoru landinu.

IMG_6489.jpg

Í júní erum við í samstarfi við Anamma, en það vita það flestir sem hafa skoðað bloggið okkar eða fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum að við elskum vörurnar þeirra. Ég byrjaði að fylgjast svolítið með þessu fyrirtæki þegar ég flutti til Svíþjóðar, en þau eru einmitt þaðan, og mér finnst allt svo frábært sem þau eru að gera. Þau framleiða pylsur, borgara, bollur, falafel, hakk og fleira, en í fyrra kom frá þeim ein vara sem bókstaflega setti allt á hvolf í Svíþjóð. Það var nefnilega nýja hakkið þeirra sem heitir á sænsku “formbar färs” og er sojahakk sem hefur þann eiginleika að einstaklega auðvelt er að móta úr því það sem maður vill. Það hefur lengi verið svolítið tímafrekt að útbúa heimagerða vegan borgara úr vegan hakki vegna þess að það þarf að setja út í það eitthvað sem er bindandi. Hinsvegar er engin þörf á því þegar kemur að þessu nýja hakki sem þýðir að nú er hægt að útbúa dásamlega góða borgara, kjötbollur eða bara það sem mann langar úr vegan hakki. Nú er þetta hakk loksins komið til Íslands og er bókstaflega fullkomið til að útbúa eitthvað gott á grillið í sumar. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup, Bónus og fleiri minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6452.jpg

Það virkar bæði að móta eitthvað úr hakkinu, en einnig að steikja það beint á pönnu. Þegar á að móta úr því þarf að taka það út sirka klukkutíma fyrir og leyfa því að þiðna svona nokkurnveginn alveg. Mér þykir best að eiga við það þegar það er nánast þiðið en samt enn ískalt. Hinsvegar þegar á að steikja það beint á pönnu þá er best að hafa það alveg frosið þegar byrjað er að steikja. Það eru svo auðvitað skýrar leiðbeiningar aftan á pakkanum.

IMG_6460.jpg

Ég hef útbúið ýmsar gerðir af bollum úr hakkinu, en oft skelli ég bara hakki, söxuðum lauk, dökkri sojasósu, smá sinnepi, salti og pipar í skál og rúlla úr því bollur. Þetta er alveg dásamlega gott og týpískur hversdagsmatur. Í dag ætlum við að deila með ykkur alveg ótrúlega góðri uppskrift af bollum sem eru bæði góðar sem kvöldmatur og einnig sem pinnamatur við ýmis tilefni. Það tekur enga stund að rúlla þessar bollur og útkoman er alveg frábær.

Við vonum innilega að þið prufið þessa uppskrift. Við munum svo gera aðra á næstu dögum og hlökkum til að deila henni með ykkur. Eins vonum við að þið getið fyrirgefið okkur þessa fjarveru síðustu mánuði, en við ætlum í sumar að vera duglegar á Instagram og hlökkum svo til að segja ykkur betur frá komandi verkefnum.

IMG_6482.jpg

Kjötbollur

  • 450 gr formbar hakk frá anamma

  • 100 gr ritzkex

  • 1 dl saxaður vorlaukur

  • 2 hvítlauksgeirar eða 2 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 bolli döðlur

  • salt og pipar

  • kjöt og grillkrydd

  • 2 msk matarolía eða vegan smjör

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti sirka klukkustund áður byrjað er að vinna með það.

  2. Saxið laukinn og döðlurnar mjög smátt og setjið í skál ásamt hakkinu og kryddunum.

  3. Myljið ritzkexið vel, t.d. í matvinnsluvél eða í höndunum og setjið út í hakkið.

  4. Hrærið saman og mótið litlar kúlur úr hakkdeiginu.

  5. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni við 180°C í 12-14 mínútur

Rjómaostasósa

  • 1 bolli vegan rjómaostur (t.d. rjómaostur frá YOSA)

  • 1 bolli plönturjómi (t.d. hafrarjómi frá yosa)

  • 1/2 bolli saxaður vorlaukur

  • 1 grænmetisteningur

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og steikið upp úr örlítilli olíu eða vegan smjöri í nokkrar mínútur.

  2. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið þar til rjómaosturinn hefur bráðnað saman við rjóman.

  3. Sjóðið sósuna í 10 til 15 mínútur.

  4. Hægt er að þykkja sósuna með hveitiblöndu (hveiti og vatn hrisst saman) ef þess er óskað

Takk fyrir að lesa og við vonum innilega að þið njótið!
-Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Vegan gnocchi með aspas og spínati

IMG_3109-9.jpg

Uppskrift dagsins er af heimagerðu gnocchi með aspas, hvítlauk, hvítvíni og spínati. Þetta er dásamlega gott og sjálft gnocchiið inniheldur bara þrjú hráefni, kartöflur, hveiti og salt. Það er að sjálfsögðu hægt að nota það í allskonar uppskriftir, bara eins og pasta, en þessi útgáfa er svakalega góð og mér finnst svolítill veitingahúsafílingur í réttinum.

IMG_3081.jpg

Eins og þið kannski sum vitið höfum við Júlía haldið úti veganistur.is í þrjú ár í sumar, en fyrir það vorum við í rúmt ár einungis með Facebook síðu og Instagram. Veganistur áttu fyrst að vera hversdagsleg Facebook síða þar sem við skelltum inn símamyndum af kvöldmatnum okkar án þess að hugsa mikið um það, og sýndum fólki einfaldlega hvað það er auðvelt að vera vegan. Facebook síðan óx mun hraðar en við hefðum haldið og við fórum að fá allskonar fyrirspurnir um hvort við gætum gert uppskriftir af þessu og hinu og smám saman breyttust Veganistur í uppskriftarsíðu.

IMG_3085-3.jpg

Við fórum fljótt að finna fyrir því að fólk væri að fylgjast með og í kjölfarið vildum við leggja meiri vinnu og metnað í bæði uppskriftirnar og myndirnar. Það var svo vorið 2016 að við ákváðum að útbúa alvörunni vefsíðu og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Það sem fyrst átti bara að vera lítið áhugamál hefur orðið að risastórum hluta af lífinu okkar. Í dag eru Veganistur það sem við leggjum hvað mesta vinnu í og höfum mikla ástríðu fyrir. Það eruð þið, lesendur okkar, sem gefið okkur endalausan innblástur og styrk til að gera eins vel og við getum. Ykkur erum við gríðarlega þakklátar.

IMG_3088-3.jpg

Við Júlía stöndum tvær í þessu og sjáum um allt sem viðkemur blogginu samhliða fullu námi og öðrum verkefnum. Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt að útbúa nýtt efni fyrir bloggið, bæði í peningum og tíma talið. Kostnaðurinn er misjafn, en við vöndum valið okkar á samstörfum við önnur fyrirtæki virkilega vel og tókum snemma ákvörðun um að hafa engar auglýsingar að öðru tagi á blogginu. Allur peningur og tími sem við leggjum í bloggið okkar og uppskriftir er fyllilega þess virði og við munum aldrei sjá eftir einni einustu krónu.

IMG_3089-2.jpg

Okkur hafa borist margar fyrirspurnir um hvernig sé hægt að styrkja okkur og hingað til hefur það einungis verið hægt með því að lesa og deila blogginu okkar, og þið hafið svo sannarlega gert það. Við erum virkilega hrærðar yfir því hvað þið eruð mörg sem heimsækið síðuna okkar daglega og látið orðið berast til þeirra sem þið þekkið. Þið eruð æði!

IMG_3091-2.jpg

Við höfum þó ákveðið eftir mikla umhugsun að opna Patreon aðgang fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur. Það er einfaldlega svo við höfum meira frelsi varðandi uppskriftir og þurfum ekki að skipuleggja bloggfærslur einungis útfrá því hvað við eigum mikinn pening hverju sinni. Með því að styrkja okkur hjálpar þú semsagt til við að auka svigrúm og afkastagetu okkar. Eins höfum við lengi verið með uppskriftarbók í maganum og við iðum í skinninu við að koma henni út og deila með ykkur ennþá fleiri ótrúlega spennandi og gómsætum uppskriftum.

Á Patreon síðunni okkar sérðu hvað við bjóðum ykkur í staðinn og eitt af því er aðgangur að lokaðri Facebook grúppu þar sem við Júlía munum elda með ykkur live í hverri viku. Við erum ekkert smá spenntar fyrir því og fyrsta uppskriftin sem ég ætla að gera með ykkur er akkúrat þessi. Ég hlakka ekkert smá til og mun svo deila með ykkur nákvæmri tímasetningu þegar nær dregur.

IMG_3093-2.jpg

Við viljum enn og aftur þakka ykkur fyrir. Þegar við stofnuðum Veganistur höfðum við ekki hugmynd um hvað við myndum fá mikinn stuðning frá ykkur öllum. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

IMG_3106-5.jpg

Gnocchi

  • 2 bollar stappaðar kartöflur

  • 1,5- 2 bollar hveiti

  • 1,5 tsk salt

Það sem fer með á pönnuna

  • Vegan smjör til að steikja uppúr. Ég setti alveg vænan bita.

  • 200 gr aspas. Ég notaði frosinn í þetta sinn

  • Tvær lúkur babyspínat

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 dl hvítvín (má sleppa)

  • Ristaðar furuhnetur til að strá yfir

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflur og afhýðið. Stappið þær vel með kartöflustappara eða gaffi og setjið í stóra skál.

  2. Bætið hveitinu og saltinu saman við. Ég byrjaði á því að setja 1,5 bolla hveiti og bætti svo aðeins við eftir þörf. Hrærið saman við og hafið í huga að þetta verður mjög mjölkennt til að byrja með. Hrærið eins vel og þið getið með sleif og færið svo yfir á borð og notið hendurnar til að hnoða þetta saman í deig.

  3. Skiptið deiginu niður í fjóra hluta, rúllið þá út og skerið sirka 2 cm bita úr þeim.

  4. Það má sleppa þessu skrefi og elda bitana einfaldlega eins og þeir eru þegar búið er að skera þá niður, en ég vildi útbúa smá gnocchi munstur og notaði til þess gaffal. Margir eiga sérstakt bretti sem gerir það mun auðveldara, en ég læt gaffalinn duga. Ég tók bita og flatti hann létt út á gaffalinn og rúllaði svo upp. Ég hefði kannski getað sýnt aðeins skýrari mynd af því hvernig þetta er gert, en það er fullt af myndböndum á youtube sem sýna það mun betur en mér hefði tekist. Passið að strá smá hveiti yfir bitana og láta þá ekki liggja saman á meðan þið gerið þetta því þeir munu festast saman og verða að einni klessu.

  5. Steikið á pönnu hvítlauk, aspas, og spínat uppúr smjörinu. hækkið hitann og hellið hvítvíninu út í og lækkið hitann svo aftur eftir nokkrar mínútur.

  6. Sjóðið vatn í stórum potti og saltið smá. Þegar suðan er vel komin upp skuluði hella gnocchiinu í. Ég myndi ekki setja þá alla í einu þar sem þetta eru svolítið margir bitar. Veiðið bitana upp þegar þeir hafa flotið upp á yfirborðið sem tekur um 90 sekúndur.

  7. Sigtið allt vatn af bitunum og skellið þeim á pönnuna og steikið þá í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

  8. Berið fram með því sem ykkur lystir, en mér finnst alltaf gott að útbúa gómsætt hvítlauksbrauð með.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur <3

Vegan skonsubrauðterta

IMG_3058-2.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu skonsubrauðtertu. Mörgum finnst tilhugsunin kannski svolítið skrítin, en ég lofa ykkur því að þetta passar fullkomlega saman. Mér þótti ekkert smá gaman að útbúa þessa fallegu brauðtertu og salatið sem er á milli er algjört lostæti. Ég hef oft gert það áður og það er dásamlegt á ritzkex og í allskonar samlokur.

IMG_3008-2.jpg

Ég veit að það eru sumir sem hafa alltaf borðað svona skonsutertur og aðrir sem aldrei hafa smakkað þær. Tengdamamma mín útbýr oft svoleiðis en í okkar fjölskyldu voru alltaf þessar hefðbundnu löngu brauðtertur, en þegar ég fór að tala um þetta við mömmu um daginn sagði hún mér að hún hafi oft fengið skonsutertu hjá ömmu sinni þegar hún var barn. Þar sem ég hafði aldrei smakkað svoleiðis ákvað ég að gúggla aðeins og sjá hvað fólk væri að setja á milli og hvernig þetta liti út. Ég fann ekkert svakalega margar uppskriftir og eiginlega engar myndir af svoleiðis, en hinsvegar virðist það vera svo að margir hafi alist upp við að borða svona og geri enn í dag. Síðan við opnuðum bloggið okkar höfum við fengið mikinn áhuga á að veganvæða klassískar uppskriftir, eins og þið flest kannski hafið tekið eftir, og þessi skemmtilega brauðterta er frábær viðbót í safnið.

IMG_3014-3.jpg

Við erum nú þegar með eina uppskrift af brauðtertu á blogginu, en sú uppskrift er ein af þeim fyrstu á blogginu. Vegan skinkan sem við notuðum í þá uppskrift fæst ekki lengur, en í dag eru aðrar tegundir til sem passa alveg jafn vel í salatið. Það er að sjálfsögðu líka hægt að gera “betra en túnfisksalat” uppskriftina okkar og setja á svona brauðtertu auk þess sem aspas- og sveppafylling væri pottþétt fullkomin. Möguleikarnir eru endalausir.

Það kemur fyrir þegar ég útbý rétti fyrir bloggið að ég nýt mín svo mikið og tek svo mikið magn af myndum að ég á erfitt með að velja og langar að hafa þær allar með. Stundum hef ég orðið svolítið hrædd um að færslurnar verði of langar í kjölfarið. Í dag var svoleiðis dagur, en mér fannst svo gaman að mynda þessa tertu að ég á erfitt með að velja og hafna, og þið verðið bara að sætta ykkur við allt myndaflóðið.

IMG_3027.jpg
IMG_3034.jpg

Það eru mörg tilefni framundan til þess að búa til þessa gómsætu brauðtertu, en páskarnir eru á næsta leiti og fermingarnar líka. Þrátt fyrir að það sé allt á kafi í snjó hérna í Piteå ákvað ég að reyna að skreyta tertuna svolítið sumarlega því ég er komin í vorskap. Ég viðurkenni að ég var frekar stressuð fyrir því að skreyta hana og til að vera viss um að ég eyðilegði tertuna ekki smurði ég mæjónesi á disk og æfði mig að skreyta svoleiðis áður en ég lagði í sjálfa tertuna. Ég held barasta að ég sé nokkuð ánægð með lokaútkomuna.

IMG_3045.jpg

Eruði með einhverjar fleiri skemmtilegar hugmyndir að vegan salötum til að setja á svona brauðtertu? Ég væri mikið til í að prufa að gera fleiri útgáfur!

IMG_3053.jpg

Skonsubrauðterta

  • 5 skonsur (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan “kjúklingasalat” (uppskrift fyrir neðan)

  • Mæjónes til að smyrja ofan á

  • Grænmeti til að skreyta með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa salatið. Það er nefnilega frekar mikilvægt að mínu mati að leyfa því að standa í svolitla stund svo það taki vel í sig allt bragð. Ég set það yfirleitt í ísskápinn í minnst klukkustund og helst alveg þrjár.

  2. Bakið skonsurnar og leyfið þeim að kólna.

  3. Setjið saman brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur lystir.

Vegan “kjúklingasalat”

  • Vegan mæjónes. Ég gerði eina og hálfa uppskrift af þessu ótrúlega góða vegan mæjónesi. Ég notaði það allt í salatið fyrir utan smá sem ég tók frá til að smyrja ofan á kökuna. Ég var svo fljótfær að ég fattaði ekki að mæla magnið af mæjónesinu fyrir ykkur sem kaupið tilbúið í stað þess að gera sjálf, en ég held það hafi verið um 3 bollar. Ég lofa að gera mæjóið sem fyrst aftur og uppfæra færsluna þá með nákvæmu magni, en ein og hálf uppskrift af því sem ég póstaði hérna með er fullkomið magn.

  • 1 pakki filébitar frá Hälsans Kök

  • Vorlaukur eftir smekk (ég setti 1 dl og fannst það passlegt en myndi jafnvel setja aðeins meira næst)

  • Gular baunir eftir smekk (ég notaði líka 1 dl af þeim og ég kaupi frosnar og leyfi þeim að þiðna. Mér þykja þær mun betri en þessar í dós.)

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Leyfið bitunum að þiðna í smá stund og steikið þá svo létt á pönnu upp úr olíu og smá salti. Takið af pönnunni og rífið þá í sundur með höndunum eða tveimur göfflum. Það er auðvitað hægt að skera þá bara niður í bita, en mér finnst gott að taka tvo gaffla og rífa bitana aðeins niður með þeim. Mér finnst það gefa þeim góða áferð fyrir salatið.

  2. Útbúið mæjónesið og takið smá af því frá til að smyrja ofan á kökuna. Blandið bitunum saman við mæjóið.

  3. Skerið niður vorlaukinn og blandið saman við ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund ef kostur er á.

Skonsur

  • 5 dl hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 6-7 dl jurtamjólk. Mér finnst oft fara mikið eftir því hvernig mjólk og hvaða hveiti ég nota. Ég byrja yfirleitt á því að setja 5 dl og sé hversu þykkt deigið er og bæti svo við eftir þörf. Í dag notaði ég 7 dl af sojamjólk. Deigið á að hafa sömu þykkt og amerískar pönnukökur (semsagt þykkara en t.d íslenskar pönnsur)

  • 2 msk olía

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum.

  2. Bætið við blautefnunum og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  3. Útbúið úr deiginu 5 stórar og þykkar pönnukökur. Ég á ekki pönnukökupönnu svo ég notaði venjulega pönnu í svipaðri stærð og passaði að þær væru allar jafn stórar. Deigið er akkúrat passlegt fyrir 5 pönnsur.

  4. Leyfið þeim að kólna áður en tertan er sett saman.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel. Ef þið gerið brauðtertuna þætti okkur ekkert smá gaman að heyra hvað ykkur finnst. Við minnum á að við erum á Instagram og facebook líka fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgja okkur þar.

-Veganistur

10 skemmtilegir hlutir að gera sem kosta lítinn sem engan pening

Hugmyndina af þessari færslu fékk ég um daginn þegar ég var að reyna að lista niður hugmyndir af skemmtilegum hlutum fyrir okkur Sigga að gera sem ekki kosta mikinn pening. Það er magnað hvað ég gleymi því fljótt að það er hægt að fara út úr húsi og gera sér glaðan dag án þess að eyða fullt af pening. Ég ákvað að skrifa niður 10 hluti sem hægt er að gera með vinum sínum, maka, fjölskyldu eða bara með sjálfum sér.

1. Njóta í fallegri náttúru
Það er svo æðislegt að útbúa kaffi í brúsa og samlokur og fá sér göngutúr um einhvern fallegan stað eins og Elliðarárdal eða Heiðmörk. Það þarf oft að keyra svolítinn spöl til að komast á svona staði og ef nokkrir fara saman er ekkert mál að deila bensínkostnaði, og þá er það alls ekki dýrt. Eftir að ég flutti til Norður Svíþjóðar hef ég komist að því að það er aldrei of kalt fyrir “lautarferð.” Hérna grillar fólk í snjónum. Á sumrin er svo endalaust af möguleikum á skemmtilegum gönguferðum, bíltúrum út í sveit og fjallgöngum, jafnvel þó það þurfi oft að klæða sig vel. Eins er ótrúlega gaman, ef maður hefur góðan tíma, að keyra kannski klukkutíma út úr borginni og heimsækja litla bæi eins og Eyrarbakka og skoða fallegu gömlu húsin og taka skemmtilegar myndir.

2. Spila spil
Eitt af því sem ég geri sjaldan og vildi að ég gerði oftar er að taka spilastokk eða önnur skemmtileg spil með á kaffihús og spila. Það er undantekningalaust ótrúlega gaman og gerir kaffihúsadeitin enn meira spennandi. Við mæðgurnar áttum til dæmis ótrúlega kósý kvöld á bar í Edinborg um daginn, þar sem við spiluðum saman Olsen olsen upp og niður. Á mörgum kaffihúsum fæst uppáhelt kaffi fyrir innan við 500 kr þar sem boðið er upp á fría áfyllingu. Það getur verið virkilega gaman að setjast með vinum og spila. Eins er líka bara geggjað að halda spilakvöld heima. Ein skemmtilegustu kvöld sem ég hef átt með vinum eru spilakvöld, og það er oft hægt að fá lánuð ný og spennandi spil ef maður vill aðeins breyta til.

3. Halda Pálínuboð eða elda saman
Við vinir mínir höfum stundum haldið “matarboð” þar sem allir í hópnum taka með sér eitthvað sem til er í ísskápnum og elda úr því eitthvað gott. Þetta er mjög ódýrt og yfirleitt miklu skemmtilegra en þessi hefðbundnu matarboð þar sem einhver eldar og býður svo öllum hinum í mat, auk þess sem þetta er oft mun meira kósý. Við útbjuggum t.d ótrúlega góða vegan borgara um daginn þar sem einn tók með sér kartöflur og sætar sem við bökuðum í ofninum, ein átti allt sem þurfti í sjálfan borgarann og önnur átti borgarabrauð í frystinum. Ég átti allt í heimagerða hamborgarasósu og eitthvað grænmeti. Það var eitthvað svo heimilislegt að elda og borða öll saman og það urðu til virkilega skemmtilegar samræður á meðan.

IMG_2843-3.jpg

4. Stofna leshóp
Ég er nýbyrjuð í leshóp sem mun hittast einu sinni í mánuði. Þetta er eitthvað sem mig hefur alltaf langað að gera og er rosalega spennt fyrir þessu. Það er ekkert mál að redda sér bókum annað hvort á bókasafninu eða fá að láni svo það er engin þörf á því að kaupa allar bækurnar glænýjar. Leshópurinn mun hittast í fyrsta skipti núna á sunnudaginn og ég hlakka mikið til. Mér finnst svo gaman að lesa en gef mér svo sjaldan tíma í það þessa dagana. Því finnst mér frábært að hafa eitthvað svona sem hvetur mig til þess. Stelpurnar í leshópnum eru líka frábærar og það verður svo gaman að kynnast þeim enn betur. Við munum mest lesa á sænsku og það verður frábær leið til að ná enn betri tökum á tungumálinu.

5. Finna ókeypis tónleika eða aðra viðburði og fara á
Það eru oft allskonar skemmtilegir ókeypis viðburðir í Norræna húsinu og eins er Listaháskólinn oft með mjög áhugaverða og skemmtilega viðburði sem eru ókeypis. Ég fór mikið á ljóðakvöld þegar ég bjó heima og reyndi að fylgjast með því þegar höfundar voru að lesa upp verkin sín. Það er oft hægt að finna margt skemmtilegt með því að skoða viðburðina sem koma upp á Facebook. Það er t.d. frábær leið til að kynnast böndum sem maður hefur aldrei hlustað á. Nokkrar af mínum uppáhalds íslensku hljómsveitum og tónlistarmönnum hef ég fundið alveg óvart með því að mæta á tónleika hjá þeim án þess að vita við hverju var að búast.

6. Búa til heimagert barsvar (pub quiz)
Þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert með vinum mínum. Þar sem ég er í tónlistarháskóla er tónlist oftar en ekki þema keppninnar, en það er að sjálfsögðu hægt að útbúa hvernig quiz sem er. Ef keppnin á að snúast um tónlist geta til dæmis tveir úr vinahópnum útbúið lagalista á Spotify og samið spurningar. Síðan er hægt að skipta hópnum í tvö eða fleiri lið. Ef fólk vill drekka áfengi er tilvalið að kaupa ódýra bjóra í ríkinu eða jafnvel hreinsa til úr skápunum og búa til góða kokteila. Það eiga oft margir flösku af sterku áfengi sem aldrei er tilefni til að opna og því snilld að nýta það í að útbúa skemmtilega kokteila með vinunum.

IMG_2906.jpg

7. Fara á bókasafnið
Mörgum finnst þetta kannski óspennandi hlutur að gera, en ég mæli samt með að prufa. Það er ótrúlega kósý að taka með te eða kaffi í brúsa og annað hvort læra, vinna í tölvunni eða blaða í skemmtilegum bókum. Það gerir oft gríðarlega mikið fyrir mig að komast út úr húsi og breyta til þegar ég er að vinna eða læra heima. Þrátt fyrir að maður ætli að sitja og skrifa og drekka kaffi, sem vissulega er hægt að gera bara við eldhúsborðið, þá fæ ég að minnsta kosti oft á tilfinninguna að ég einbeiti mér betur að því sem ég er að gera og komi meiru í verk þegar ég klæði mig og rölti á bókasafnið. Ég tek oft með mér smá nesti og tek pásur inn á milli þar sem ég skoða skemmtilegar bækur.

8. Halda bíómaraþon með skemmtilegu þema
Þetta er mjög gaman að gera annað hvort tvö eða fleiri. Við Siggi höfum stundum haft bíómaraþon á grámyglulegum sunnudögum, en við höfum meðal annars haft “ljótumynda þema” þar sem við horfðum á myndir sem þekktar eru fyrir að vera einstaklega lélegar. Eins höfum við líka haft Steve Martin þema, sem var mjög áhugavert. Það er hægt að útbúa ótrúlega kósý bíókvöld, kveikja á kertum og finna til púða og teppi, leggja í púkk fyrir kartöfluflögum og gosi, eða poppa í potti og njóta í botn.

IMG_2890.jpg

9. Heimsækja ættingja sem þú hittir sjaldar en þú vildir
Það kostar ekkert að heimsækja ömmu, blaða í gömul myndaalbúm og drekka kaffi. Oftar en ekki gefur það manni ótrúlega mikið að eiga góðar samræður og styrkja tengslin við fólkið í lífinu sínu. Amma okkar Júlíu er mikill gestgjafi og vill alltaf bjóða gestum uppá eitthvað gott. Henni hefur hinsvegar þótt mjög erfitt að vita hvað hægt er að bjóða okkur systrum eftir að við urðum vegan svo við höfum stundum útbúið eitthvað sjálfar og tekið með. Ég hef þó gert miklu minna af því en ég vildi. Júlía hefur nokkrum sinnum bakað súkkulaðikökuna okkar og ég hef útbúið aspas rúllubrauðið okkar og ömmu þótti bæði auðvitað svakalega gott.

10. Syngja í kór
Okei, þetta er kannski ekki fyrir alla en það eru til ótrúlega margir mismunandi kórar sem henta mismunandi fólki. Það þarf alls ekki að fara í inntökupróf í alla kóra. Það syngja ekki allir kórar klassíska tónlist, oft er sungin popp tónlist eða dægurtónlist. Kórar æfa flestir einu sinni í viku og á kóræfingum kynnist maður frábæru fólki og skemmtilegri tónlist. Stundum er ársgjald fyrir meðlimi, en það er aldrei hátt.

Takk fyrir að lesa. Mér þætti svo ótrúlega gaman að heyra ykkar hugmyndir að hlutum sem kosta lítinn sem engan pening

-Veganstur <3

Vegan rjómabollur að sænskum sið (semlur)

IMG_2799-4.jpg

Bolludagur Svía (fettisdagen) er næsta þriðjudag, daginn eftir að hann er haldinn hátíðlegur á Íslandi, en sænska rjómabollan kallast semla. Á Íslandi fást bollurnar bara á bolludaginn og kannski einhverjir afgangar næstu daga eftir, en hérna í Svíþjóð byrja kaffihús og bakarí að selja semlur um miðjan janúar. Svíar eru sjúkir í bollurnar og borða þær mikið alveg frá því þær byrja að seljast og fram að bolludeginum.

Mér finnst sænsku bollurnar æðislegar. Deigið er eins og af gerbollunum sem við þekkjum, en þau setja mulda kardimommu út í bolludeigið sem mér finnst alveg svakalega gott. Á Íslandi erum við vön að borða bollurnar okkar með sultu, rjóma og glassúr, en Svíarnir borða sínar fylltar með möndlumassa og rjóma og strá flórsykri yfir. Ég man að mér fannst þessar sænsku bollur ekkert hljóma svakalega spennandi fyrst, en þær eru alveg gríðarlega góðar, ekkert síðri en þær sem við borðum heima.

IMG_2755.jpg

Möndlumassa kaupir maður tilbúinn úti í búð hérna í Svíþjóð, en þar sem hann fæst ekki tilbúinn á Íslandi ákvað ég að búa til ótrúlega góðan og einfaldan möndlumassa sjálf. Þeir sem ekki eiga matvinnsluvél eða góðan blandara geta líka rifið niður 400g af marsípani og blandað saman við 1 dl af jurtamjólk. Möndlumassi og marsípan er þó ekki alveg sami hluturinn, en marsípan inniheldur minna af möndlum og meiri af sykri. Ég er þó viss um að marsípan væri mjög gott í svona fyllingu.

IMG_2773.jpg

Ég notaði rjómann frá Alpro á bollurnar. Mér finnst hann rosalega góður, en hann verður ekki alveg jafn stífur og hefðbundinn rjómi. Ég er búin að lesa mikið um að fólk setji stundum pínulítið af lyftidufti út í hann þegar það þeytir og að það hjálpi honum að stífna, og ég var að spá í að prufa það í dag, en átti svo ekki til lyftiduft svo það verður að fá að bíða. Ef þið ákveðið að prufa væri ég mikið til í að heyra hvort það breytir einhverju.

IMG_2784-2.jpg

Uppskriftin af bollunum er ekkert smá einföld. Það er auðvitað hægt að sleppa kardimommunni ef þið viljið gera bollurnar eins og íslenskar rjómabollur, en ég mæli samt svo mikið með að prufa þessar sænsku. Eins og ég segi er uppskriftin ótrúlega einföld og það er ekkert mál að skella bara í tvö deig og gera bæði íslenskar og sænskar. Halló, bolludagurinn er einu sinni á ári, live a little!

Þegar ég var búin að baka bollurnar og mynda þær hljóp ég yfir til vinar míns sem er líka vegan. Þar sem kaffihúsin í Piteå bjóða ekki upp á vegan semlor þá datt mér í hug að hann yrði spenntur að fá tvær heimabakaðar. Ég viðurkenni að ég var mjög stressuð um að honum þætti þær ekkert spes og að ég þyrfti meiri æfingu til að geta gert góðar semlor sem stæðust væntingar svíana sem hafa borðað bollurnar alla ævi. Hann át þær báðar upp til agna og sagðist ekki hafa fengið svona góðar semlor í mörg ár og gaf þeim A+. Ég varð ekkert smá ánægð með þá einkunn.

IMG_2811-2.jpg

Ef þið gerið bollurnar okkar, værum við ekkert smá ánægðar ef þið sendið okkur myndir. Bolludagurinn hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki síst vegna þess að daginn eftir er sprengidagurinn, sem er bókstaflega uppáhalds dagurinn minn. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað það hljómar skringilega, komandi frá vegan manneskju, en mér finnst sprengidagssúpan alveg jafn góð vegan. Við erum með æðislega góða uppskrift af saltOumph! og baunum sem ég er ekkert smá spennt að elda næsta þriðjudag.

IMG_2825-2.jpg

Sænskar semlur

  • 2 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr smjörlíki

  • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk mulin kardimomma

  • 50 gr sykur

  • 250 gr hveiti

  • Smá jurtamjólk til að pensla með

Aðferð:

  1. Hitið mjólk og smjörlíki saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað og hrærið í á meðan. Hellið blöndunni svo í skál og leyfið að standa þar til hún er við líkamshita, eða um 37°c.

  2. Stráið þurrgerinu yfir ásamt 1 tsk sykri og leyfið að standa í 10 mínútur.

  3. Blandið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman. Ef deigið er of blautt blandið við það smá meira hveiti á meðan þið hnoðið þar til þið fáið rétta áferð. Deigið á að vera svolítið blautt, en þó auðvelt að að meðhöndla án þess að það sé festist við fingurna. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og sprungulaust.

  4. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Passið að hafa bollurnar ekki of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. það komu 10 bollur úr uppskriftinni hjá mér í dag, en þær voru svona meðalstórar. Ég gerði aðeins minni bollur í fyrra og þá komu alveg 14 bollur hjá mér. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í allavega hálftíma í viðbót, penslið þær svo með plöntumjólk og bakið í 15 mínútur við 180°C.

Möndlumassi

  • 5 dl möndlumjöl

  • 3 dl flórsykur

  • 5 msk aquafaba (það er vökvinn sem fylgir með kjúklingabaunum í dós)

  • 2-3 msk plöntumjólk eða vegan rjómi

  • Pínu möndludropar. Ég setti í litlu kryddskeiðina mína sem er 1 ml

Aðferð:

  1. Hellið öllu í matvinnsluvél eða góðan blandara og blandið þar til mjúkt. Þetta á að vera þykkt, en þó auðvelt að meðhöndla.

  2. Leyfið að standa við stofuhita. Ég setti þetta strax í sprautupoka sem gerði það auðvelt að fylla bollurnar.

Bollan sett saman

  • Bollurnar

  • Möndlumassinn

  • 1 ferna Alpro jurtarjómi

  • Flórsykur

Til að setja saman bollurnar klippti ég þríhirning úr lokinu og tók aðeins innan úr. Svo sprautaði ég möndlumassa inn í, sprautaði svo þreyttum rjóma yfir, lagði lokið á og sigtaði flórsykur yfir. Það er að sjálfsögðu líka hægt að skera þær í tvennt, en svona gera Svíarnir þetta svo ég ákvað að slá til, mest upp á lúkkið hehe.

Vona innilega að ykkur líki vel <3
-Veganistur

Gómsætt vegan Chili

IMG_2655-2.jpg

Eins og ég hef oft talað um hérna á blogginu finnast mér pottréttir og súpur ótrúlega góður matur. Ég elska að geta skellt allskonar hráefnum í pott, leyft þeim að malla og geta svo bara borið fram án frekari fyrirhafnar. Oft er líka bara svo gott að leyfa mat að malla og taka í sig allskonar brögð. Uppskrift dagsins er einmitt af svoleiðis rétti, en ég hef gert þennan chili rétt oft síðastliðin ár og það er löngu orðið tímabært að ég birti hann hérna á blogginu.

IMG_2633-2.jpg

Árið 2016 vann ég um stund á veitingastað í Gautaborg þar sem reglulega var eldað chili. Það var á þessum veitingastað sem ég lærði að setja kakó í chili. Mér fannst tilhugsunin fyrst rosalega skrítin, en í dag finnst mér það ómissandi. Kokkurinn skellti reyndar líka alltaf vænri skvettu af Kóki í pottinn, en ég er ekki alveg komin þangað.

IMG_2639.jpg

Ég nota mjög oft vegan hakk í þennan rétt, en þar sem ég notaði það í síðustu uppskrift þá ákvað ég að nota sveppi í dag. Það er alveg jafn gott, ef ekki betra. Auk þess er rétturinn stútfullur af gómsætum baunum sem gerir chili-ið rosalega mettandi en á sama tíma alls ekki þungt í magann.

IMG_2644-2.jpg

Rétturinn er passlegur fyrir 3-4 og ég elda eiginlega aldrei minna fyrir okkur Sigga þó við séum bara tvö því það er svo gott að eiga afganga. Það er mismunand hvernig ég ber chili fram, en mér finnst eiginlega möst að toppa það með hreinni sojajógúrt eða Oatly sýrðum rjóma. Svo finnst mér alltaf jafn gott að útbúa djúsí hvítlauksbrauð með. Ef þið eruð í svakalegu stuði er geggjað að búa til “chili cheese fries” og toppa franskar með chiliréttinum og fullt af vegan osti.

IMG_2650.jpg

Eitt af því sem einkennir pottrétti oft er að það er hægt að leika sér mikið með réttina. Það er ekkert heilagt hvaða grænmeti er notað, en ég hef oft bara nýtt það sem ég á heima. Mér finnst gott að setja smá papriku í chili eða jafnvel sætar kartöflur ef ég er í svoleiðis stuði. Ég ákvað að hafa uppskriftina í dag eins og mér þykir hún allra best, og mæli mikið með því að prufa hana.

IMG_2651-2.jpg

Vegan Chili (fyrir 3-4)

  • Olía til steikingar

  • 350g sveppir

  • 2 gulir laukar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 sellerístöngull

  • 2 msk tómatpúrra

  • 3 tsk sojasósa

  • 2 tsk balsamik edik

  • 2 msk kakóduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk oregano

  • 1 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 x 400g dósir niðursoðnir tómatar

  • 2 x 400 g dósir baunir (ég notaði 1 dós af svörtum baunum og 1 dós af blönduðum baunum, en ég mæli t.d mikið með að nota nýrnabaunir)

  • 1/2 - 1 tsk sykur

Aðferð:

  1. Skerið sveppina mjög smátt niður, eins smátt og þið getið.

  2. Saxið lauk og hvítlauk niður smátt.

  3. Hellið olíu í heitan pott og bætið lauk og hvítlauk ofan í og leyfið honum að mýkjast í nokkrar mínútur.

  4. Hellið sveppunum út í ásamt smá salti sem hjálpar þeim að svitna smá í pottinum.

  5. Saxið sellerí niður og bætið út í pottinn þegar sveppirnir hafa byrjað að eldast svolítið (eftir 5-10 mínútur).

  6. Bætið kryddunum út í ásamt sojasósunni, balsamik edikinu og tómatpúrrunni og hrærið vel saman í nokkrar mínútur.

  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt baunum og lárviðarlaufi og leyfið að malla í sirka 20 mínútur, því lengur, því betra. Ég mæli með að bæta smá vatni út í með því að hella aðeins í dósirnar af tómötunum ( sirka 250 ml samtals) og nýta þannig allan tómatsafann sem verður eftir í botninum.

  8. Smakkið til og bætið við kryddum, salti og pipar eftir þörf.

  9. Takið lárviðarlaufið úr áður en borið er fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel <3

Veganistur

Vegan döðlukaka með karamellusósu

IMG_2588.jpg

Uppskrift dagsins er af döðluköku með heitri karamellusósu. Þessi kaka kallast á ensku “Sticky toffee pudding” og er alveg dásamlega góð og með karamellusósunni og ísnum er þetta held ég bara besti desert sem ég hef smakkað lengi. Ég hlakka mikið til að bjóða upp á þessa köku næst þegar ég held matarboð.

IMG_2552.jpg

Þegar maður sér orðið “döðlukaka” hugsa margir eflaust fyrst að um sé að ræða holla hráköku. Ég hef allavega lengi tengt döðlur við sykurlausan bakstur og hráfæðinammi, en þessi kaka er langt frá því að vera sykurlaus eða hrá. Upprunalega ætlaði ég mér að gera eitthvað allt annað fyrir bloggið þessa viku, en svo var okkur send fyrirspurn á Instagram í síðustu viku um hvort við gætum gert uppskrift af vegan döðluköku. Ég tók þessari áskorun fagnandi og er ekkert smá ánægð með það. Ég er eiginlega hissa á að mér hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Eins og ég hef sagt áður þykir mér gríðarlega vænt um að fá hugmyndir frá ykkur að uppskriftum til að baka eða elda og verð alltaf mjög spennt þegar ég fæ áskorun um að útbúa eitthvað nýtt.

IMG_2555.jpg

Ég held ég hafi aldrei bakað jafn mikið á jafn stuttum tíma og ég hef gert síðustu vikur. Ég er búin að baka möndluköku þrisvar og bakaði marmarakökuna tvisvar áður en ég birti hana á blogginu. Ég hélt svo afmælisveislu síðustu helgi og bakaði fyrir hana súkkulaðiköku, gulrótarköku og tvo skammta af súkkulaðibitamöffins. Svo á sunnudagskvöld ákvað ég að baka marmarakökuna aftur og sýna á Instastory. Ég er svo búin að baka þessa döðluköku bæði í gær og í dag og á núna fullan frysti af kökum. Ég þarf að vera duglegri að gefa frá mér það sem ég baka svo ég endi ekki á því að borða það allt sjálf. Allar kökurnar sem ég nefni eru að sjálfsögðu hérna á blogginu.

Eins og ég sagði bakaði ég döðlukökuna líka í gær. Ég hafði verið með hugmynd í hausnum um hvernig ég ætlaði að baka hana og var svo bjartsýn að ég ákvað að baka hana í fyrsta sinn og taka myndir fyrir bloggið á sama tíma. Það endaði þannig að ég var mjög óörugg í bakstrinum og myndirnar urðu alls ekki góðar heldur. Í dag er ég mjög fegin að hafa þurft að endurtaka leikinn því þetta gekk miklu betur í dag og bæði kakan og myndirnar komu mun betur út.

IMG_2572.jpg

Þegar ég bakaði kökuna í gær hélt ég fyrst að hún hefði misheppnast, en áttaði mig á því aðeins seinna að svo var ekki. Þegar ég skar hana var hún enn svolítið heit og leit út fyrir að vera svolítið óbökuð í miðjunni. Þó hafði ég stungið í hana og gaffallinn kom hreinn út svo ég skildi ekki alveg af hverju hún var svona klístruð að innan. Ég varð í smá stund alveg hundfúl yfir þessu en þegar kakan hafði kólnað sá ég hvernig hún var nú bara alveg bökuð í gegn. Það var þá sem ég áttaði mig á því að döðlurnar í kökunni gera hana klístraða, og að hún var fullkomlega vel bökuð. Ég hló í svolitla stund að sjálfri mér, bæði því ég hefði átt að fatta þetta, en líka því ég er svo fljót stundum að verða dramatísk. Ég bakaði svo kökuna í dag meðvituð um þetta og hún varð fullkomin.

IMG_2574.jpg

Eitt sem ég breytti þó í dag, sem fór aðeins úrskeiðis í gær er karamellusósan. Í gær varð hún nefnilega rosalega þykk hjá mér svo ég passaði að það gerðist ekki í dag. Málið er að það tekur svolítinn tíma fyrir hana að þykkna og mér fannst ég standa og hræra í henni mjög lengi án þess að nokkuð gerðist, en svo skyndilega byrjaði hún að þykkna og varð rosalega þykk á stuttum tíma. Ekki misskilja mig, sósan var svo góð að ég hefði getað borðað hana með skeið, en það gekk ekkert rosalega vel að hella henni yfir kökuna. Í dag gerði ég uppskriftina alveg eins, en passaði mig að láta hana ekki þykkna svona svakalega. Ég stóð því og hrærði í henni og tók vel eftir því þegar hún fór að þykkna og tók hana af hellunni um leið og hún var komin með þá áferð sem ég vildi.

Ég er mjög ánægð með þessa útkomu og vona svo innilega að ykkur líki vel. Ég hlakka líka til að deila með ykkur uppskriftunum sem eru væntanlegar á næstunni, ég hef ekki verið í svona miklu bloggstuði lengi og vona að það haldist hjá mér. Ég er líka að reyna að vera dugleg á Instagram og þætti mjög vænt um að þið mynduð fylgja okkur þar! <3

IMG_2583.jpg

Hráefni:

  • 250 gr þurrkaðar döðlur

  • 3 dl vatn

  • 1 tsk matarsódi

  • 100 gr smjörlíki við stofuhita

  • 130 gr púðursykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 msk eplaedik

  • 1 dl jurtamjólk


Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Saxið döðlurnar gróft niður og setjið í pott ásamt vatni og sjóðið á lágum hita í 5 mínútur eða þar til þær hafa mýkst svolítið.

  3. Takið þær af hellunni og stappið vel með gaffli, eða kartöflustappara. Það er líka hægt að mauka þær með töfrasprota eða matvinnsluvél, en mér finnst nóg að stappa bara með svona kartöflustappara.

  4. Stráið matarsóda yfir döðlumaukið og blandið honum vel saman við og leyfið að standa í smá stund. Ég geri þetta bara í pottinum sem ég sauð þær í. Maukið mun freyða svolítið þegar matarsódinn er kominn í.

  5. Þeytið smjörlíki og púðursykur þar til blandan er orðin létt og svolítið ljós. Bætið svo restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

  6. Smyrjið kökuform. Ég nota eiginlega alltaf kringlótt smelluform sem er 20 cm að stærð og eru uppskriftirnar mínar oftast akkúrat passlegar í það. Ef þið eruð að nota miklu stærra form myndi ég tvöfalda uppskriftina. Ég á t.d eitt 26 cm form sem ég nota voða sjaldan og ég myndi held ég gera þessa uppskrift tvöfalda í það. Ég klippi líka út smá smjörpappír og set í botninn, bara því mér finnst það svo þægilegt.

  7. Bakið kökuna í 40-50 mínútur. Minn ofn er ekki með blæstri og ég bakaði mína köku í 50 mínútur. Ég byrjaði þó að fylgjast með henni eftir 35 mínútur til að vera viss.

Karamellusósa:

  • 1 og 1/2 dl Alpro sojarjómi

  • 120 gr smjörlíki

  • 120 gr púðursykur

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Setjið allt í pott og hrærið vel saman.

  2. Látið suðuna koma upp og hrærið reglulega í pottinum þar til þið fáið þá áferð sem þið viljið. Ég vildi ekki hafa mína of þykka og passaði því í þetta skiptið að hræra ekki alltof lengi. Ég þurfti samt að sýna svolitla þolinmæði því það tók nokkrar mínútur fyrir sósuna að byrja að þykkna, en þegar það gerðist þá þykknaði hún mjög hratt.

Tips: Kakan er ótrúlega góð ein og sér með karamellusósunni, en Guð minn góður hvað vegan vanilluísinn fullkomnaði hana. Mæli því mikið með að kaupa einhvern góðan vegan ís og bera fram með henni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið njótið. Við höfum verið að fá margar myndir á Instagram uppá síðkastið frá fólki sem hefur verið að elda og baka uppskriftir frá okkur, og okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Veganistur <3