Amerískar pönnukökur
/Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best.
Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu.
Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur.
Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl
Hráefni:
2 bollar hveiti
2 msk sykur
4 tsk lyftiduft
Smá salt
2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk
4 msk olía
1 tsk vanilludropar eða vanillusykur
Aðferð:
Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita
Blandið þurrefnum saman í stóra skál
Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru
Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið
Berið fram með því sem ykkur lystir.
Vona að þið njótið
Helga María