Af hverju nota ég mánabikarinn?
/Ég var 12 ára gömul þegar ég byrjaði fyrst á blæðingum. Á meðan mamma óskaði mér til hamingju með að vera orðin kona hugsaði ég að lífi mínu gæti allt eins verið lokið. Ekki skánaði það svo þegar ég sat með henni inni á baði á meðan hún kenndi mér að nota dömubindi. Mig langaði sko ekkert að þurfa að hafa ,,bleyju" í nærbuxunum í hverjum mánuði það sem eftir yrði. Ég var einnig fyrst af stelpunum í mínum bekk til þess að byrja og fannst það heldur betur skömmustulegt. Ég þoldi ekki þennan tíma mánaðarins, ekki aðeins vegna hræðilegu túrverkjanna sem ég fékk í hvert skipti, heldur einnig vegna þess að dömubindi þóttu mér óþolandi. Þau voru svo þykk og mér fannst alltaf eins og þau sæjust í gegnum buxurnar mínar. Ég lenti svo í nokkrum hræðilegum atvikum á unglingsárunum þar sem dömubindið færðist til og blóð lak í gegnum buxurnar mínar. Þegar maður er 13 ára er fátt jafn pínlegt og slíkar uppákomur.
Þið getið því trúað því hversu ánægð ég var þegar ég uppgvötaði túrtappann. Eða okei, fyrst þegar ég prófaði túrtappa skildi ég ekki alveg hvernig hann virkaði. Ég rétt tillti honum inn sem olli því að ég fann alltaf mikið fyrir honum og t.d það að setjast niður varð mjög sársaukafullt. Ég gafst því upp og þorði ekki að prófa túrtappann aftur fyrr en um ári seinna. Þegar ég hafði lært hvernig hann virkaði var ekki aftur snúið. Vá, þvílík snilld!
Loksins voru dömubindin úr sögunni. Ég gat farið í skólann án þess að hafa áhyggjur af því að blæða í gegn og verða að athlægi. Ég gat loksins farið á túr án þess að þurfa að spá í því að ég væri á túr.
Það sem ég vissi ekki á þeim tíma er að túrtappar eru ekkert sérstaklega hollir og þeir geta jafnvel verið mjög hættulegir. Mamma hafði sagt mér að skipta alltaf yfir í dömubindi fyrir svefninn því það væri alls ekki hollt að vera með sama tappann yfir heila nótt. Ég hlýddi því, svona oftast. Þó gerði ég stundum undantekningar þegar ég gisti annars staðar en heima hjá mér. Ég gleymdi líka oft að skipta um tappa og var með sama tappann mjög lengi yfir daginn, sérstaklega þegar túrinn var léttur. Satt best að segja spáði ég ekkert mikið í því hvort tapparnir væru hollir eða ekki því þeir voru svo ótrúlega þægilegir.
Þegar ég gerðist vegan fór ég þó að setja spurningamerki við túrtappana vegna þess að þeir eru yfirleitt prófaðir á dýrum, hvort sem það eru tapparnir sjálfir eða klórinn sem bómullinn eru þrifinn upp úr. Túrtappar eru heldur ekkert svakalega umhverfisvænir sem truflaði mig líka svolítið. Ég vissi samt ekki alveg hvernig ég ætti að snúa mér í þessu og hélt áfram að nota þá í von um að finna einhverja betri lausn.
Ég kynntist mánabikarnum þegar ég var tvítug. Ég keypti hann í Heilsuhúsinu. Ég hafði heyrt frábæra hluti um bikarinn og var því verulega spennt að prófa. Það sem ég hinsvegar vissi ekki þá er að maður þarf aðeins að læra á hann. Ég var svo ung og óþolinmóð að ég gafst strax upp og hætti að nenna að nota hann. Ég bið ykkur að gera ekki sömu mistök, þetta er fljótt að lærast og þá munuði aldrei vilja fara til baka.
Bikarinn sem ég nota núna keypti ég í Svíþjóð og er frá finnska merkinu Lunette. Bikarinn fæst í Gló Fákafeni og er alveg frábær.
Lunette bikarinn kemur í tveimur stærðum. Minni stærðin er ætluð ungum stelpum sem hafa ekki sofið hjá og stelpum sem fá léttar blæðingar. Stærri gerðin er svo ætluð stelpum sem hafa sofið hjá og þeim sem fá meðal - miklar blæðingar. Ég nota stærri gerðina og finnst hún alveg fullkomin fyrir mig. Það er hægt að fá bikarinn í nokkrum litum en ég keypti þennan glæra.
Hérna er listi yfir nokkra hluti sem ég hefði viljað að einhver segði mér áður en ég keypti mér mánabikar í fyrsta skipti:
1. Á bikarnum er stilkur til þess að auðvelt sé að ná honum út. Stilkurinn er hinsvegar of langur fyrir margar konur og þá þarf að klippa hann til, maður á nefnilega ekki að finna neitt fyrir bikarnum þegar hann er kominn upp. Ég endaði á því að þurfa að klippa minn svolítið niður. Ég mæli með því að klippa bara lítið í einu og finna hvað hentar manni.
2. Það þarf að brjóta bikarinn saman til þess að koma honum inn, það eru til nokkrar aðferðir sem taldar eru bestar til þess. Þetta getur tekið smá æfingu. Mér finnst best að setja hann upp á meðan ég sit á klósettinu eða fara niður í hnébeygju.
Hérna er mynd sem sýnir aðferðina sem ég mér þykir best.
3. Þegar bikarinn er kominn inn þarf hann að opnast vel svo það leki ekki framhjá. Þetta er það sem mér fannst erfiðast. Maður þarf að vera svolítið þolinmóð við þetta.
4. Bikarinn getur færst lengra upp í leggöngin og því getur verið svolítið erfitt að ná honum úr. Fyrst þegar ég lenti í þessu fékk ég vægt taugaáfall. Ég komst samt fljótt að því að maður þarf engar áhyggjur að hafa. Hann fer aldrei svo langt að ekki sé hægt að ná honum niður. Það er nóg að nota kviðvöðvana aðeins og ýta honum þannig niður þar til maður nær taki á honum. Þegar maður nær taki á bikarnum klípur maður um endann á honum til þess að hleypa inn lofti. Þannig er auðveldast að ná honum út.
5. Þegar maður tæmir hann en ætlar að setja inn aftur er best að hella úr honum í klósettið, skola hann með köldu vatni og svo með volgu vatni og örlítilli ilmefnalausri sápu ef maður vill. Í aðstæðum þar sem maður þarf að tæma hann þar sem enginn vaskur er í einrúmi, til dæmis á almenningssalernum, er nóg að þurrka hann með pappír eða jafnvel vera með vatnsflösku með sér sem hægt er að nota til þess að skola hann, svo þrífur maður hann bara betur þegar heim er komið. Ef maður ætlar ekki að nota hann aftur strax er best að þvo hann og geyma svo í pokanum sem hann kemur í.
6. Hjá sumum getur hann lekið örlítið og þá getur verið gott öryggisins vegna að vera með innlegg. Ég hef ekki lent í þessu sjálf en ég hef heyrt að sumar konur lendi í því. Það er mikilvægt að læra á blæðingarnar sínar og finna hversu oft maður þarf að tæma hann á dag þegar túrinn er sem mestur svo maður lendi ekki í því að hann byrji að leka. Ég fæ frekar miklar blæðingar fyrstu tvo dagana en mér dugir samt að tæma hann tvisvar til þrisvar á sólarhring. Sumum þykir samt öruggara að hafa innlegg og fyrir þær sem vilja ekki nota einnota innlegg er hægt að kaupa taubindi og einnig sérstakar nærbuxur fyrir konur á blæðingum sem gerðar eru til þess að leka ekki. Ég mun skrifa færslur um bæði taubindi og nærbuxurnar í náinni framtíð.
7. Það þarf alls ekki að tæma bikarinn í hvert sinn sem maður fer á klósettið og maður getur vel haft hann yfir nótt án þess að hafa áhyggur af því að það sé óhollt eða hættulegt. Óhætt er að hafa bikarinn í allt að 12 klst í einu. Mælt er með því að tæma hann 2-4 sinnum á sólarhring og það fer alfarið eftir því hversu mikið blæðir hjá hverjum og einum hversu oft þarf að tæma hann.
Ég vona að þið prófið að kaupa ykkur bikar. Hann endist í mörg ár ef farið er vel með hann, er umhverfisvænn og 100% vegan. Ég mæli eindregið með því að kaupa sér Lunette bikarinn, hann verður klárlega ykkar besti vinur!
Helga María