Fylltar sætar kartöflur með Oumph!

Oumph! er eitt af uppáhalds spari matnum mínum. Þegar við Ívar ætlum aðeins að leyfa okkur, t.d. um helgar eða þegar okkur langar bara í eitthvað extra djúsí eldum við oft eitthvað með Oumphi. Fyrir þá sem vita ekki hvað Oumph! er, þá er það soyjakjöt sem líkist svolítið kjúklingi og er virkilega gott og þægilegt. Það besta við það er að það er alveg ótrúlega hollt! Innihaldslýsingin samanstendur af soyja, vatni og olíu, sem er fáránlegt miðað við áferðina á bitunum og því getur maður borðað það áhyggjulaust. En einnig hentar það virkilega mörgum þar sem það er, ásamt því að vera vegan, líka glúteinlaust.

Ég hef rosalega mikið notað Oumph! þegar ég er að fá fólk í mat sem er ekki vegan og þá hef ég gert alls konar hefðbunda rétti sem að ég veit að gestirnir eru vanir að borða og skipt kjötinu út fyrir Oumph!. Þetta hefur lang oftast slegið rosalega í gegn og flestum finnst Oumphið alveg ótrúlega gott! Ég mæli því klárlega með því að leyfa sem flestum í kringum ykkur að smakka þar sem það hefur oftar en einu sinni verið svoleiðis hjá mér að einhver hefur haldið að þetta væri kjúklingur.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur er alveg ótrúlega einföld og mjög þægilegt að henda í ef manni langar í eitthvað rosalega gott en er kannski ekkei mjög mikið fyrir að hanga í eldhúsinu í marga tíma. Ég hef oft séð svona fylltar sætar kartöflur og þá lang oftast með kjúkling og því datt mér í hug einn daginn að skella í eitthvað svipað með Oumphi. Ég ákvað að hafa mexíkóska kryddblöndu með og því er þetta með mexíkósku ívafi og það má alveg nota fyllingu í vefjur eða með salati líka.

Hráfeni:

  • 1 pakki Oumph! the strip

  • 1 meðalstór sæt kartafla

  • 1/4 græn paprika

  • 1/4 rauð paprika

  • 1/2 laukur

  • 5-6 frekar litlir sveppir

  • Mexíkósk kryddblanda (hægt að nota þessa hér að neðan en kaupa taco krydd út í búð og blanda með 1 dl af vatni)

    • 1 msk tómatpúrra

    • 1-2 hvítlauksrif

    • 1 tsk cumin

    • 1 tsk paprika

    • 1 tsk þurrkað oregano

    • 1/2 tsk kóríander

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 cayenne pipar

    • 1 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur

    • 1 msk limesafi

    • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna þvert yfir í tvennt og bakið í 40 mínútur við 200°C með sárið niður. Gott er að stinga nokkur göt með hníf í kartöfluhýðið áður en hún fer í ofnin.

  2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er þiðið og bætið þá niðurskornu grænmetinu við. Steikið þetta saman í allt að 15 mínútum eða þar til grænmetið er orðið vel mjúkt.

  3. Blandið kryddblönduna í litla skál og hellið út í. Hrærið vel svo allt grænmetið og Oumphið sé vel balndað með kryddunum og steikið á meðal hita í aðrar 15 mínútur. Gott að hafa lok yfir ef svoleiðis er á pönnunni.

  4. Skafið innan úr miðjunni á sætu kartöflunum þegar þær eru tilbúnar og gerið sá holu í þær. Passið samt að það sé smá brún eftir en ekki bara hýðið. Mér finnst gott að hræra því sem skafað er úr með smá salti og bera fram með matnum. 

  5. Setjið fyllinguna í kartöflunar og berið fram með kasjú-avokadó sósunni sem er hérna fyrir neðan, salati og sætkartöflustöppunni.

IMG_8970.jpg

Kasjú-avokadósósa

  • 1 þroskað avokadó

  • 1 dl kasjúhnetur

  • 1 hvílauksrif

  • 1/2 tsk gróft sinnep

  • safi úr hálfu lima (1-2 msk)

  • 1 dl haframjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í blandara eða matvinnsluvél og vinnið vel saman þar til alveg slétt. Fínt að bæta við smá mjólk ef erfitt er að ná sósunni alveg sléttri.

Njótið vel
-Júlía Sif