Auðveldir grill borgarar

Það er nauðsynlegt að eiga alla vegana eina skothelda hamborgara uppskrift á sumrin. Ég ákvað þar sem að það fer að styttast í vorið og sumarið og margir farnir að grilla að henda í eina slíka núna í páskafríinu. Það er ekkert mál að fá vegan borgara út í búð nú til dags en það er samt eitthvað við það að bera fram ljúfenga, heimagerða borgara.

Ég man þegar ég var yngri gerði ég stundum heimagerða borgara úr hakki sem voru ekki svo flóknir og þar sem mikið er til að vegan hakki nú til dags ákvað ég að útbúa borgara úr slíku, þar sem það er alveg ótrúlega einfalt og fljótlegt. Ég valdi nýjasta hakkið á markaðnum en það er hakk frá merkinu Linda McCartney og fæst í Bónus og Hagkaup. Ástæðan fyrir því að ég valdi það hakk er að það kemur í kílóa pakkningum og er fyrir vikið ódýrara en annað sem ég hef fundið.

Þegar ég geri heimagerð buff og bollur finnst mér lang best að gera mikið í einu og frysta frekar en að gera bara akkúrat það sem verður borðað. Úr þessari uppskrift koma 10 stórir borgarar en ég geri oftast eins marga borgara og ég þarf og rúlla svo litlar kjötbollur úr restinni og frysti. Þá get ég skellt þeim í ofnin einhvern tíman þegar tími til að undirbúa kvöldmat er takmarkaður.

Það er tilvalið að skella þessum á grillið í sumar en þeir eru ótrúlega vinsælir hjá mér hvort sem það er hjá grænkerum eða öðrum. Karamellaður laukur og bbq sósa gera þá virkilega bragðgóða og hakkið gerir mjög góða áferð. Ég hef hvern hamborgara stóran eða allt að 130gr en sú stærð hefur mér fundist best, en ég reikna oftast ekki með meira en einum á mann þar sem flestir virðast mátulega saddir eftir þessa stærð.

Mér finnst ofnbakaðar kartöflur vera algjör nauðsyn með góðum borgara en það er ótrúlega einfalt að útbúa svoleiðis. Ég einfaldlega sker kartöflurnar í þá stærð sem að mér finnst best, hvort sem það eru litlar franskar eða bátar. Svo helli ég örlítilli olíu og kryddblöndu yfir, og baka í ofninum við 210°C í u.þ.b. hálftíma. Þau krydd sem ég nota oftast eru: salt, pipar, laukduft, hvítlauksduft og paprikuduft.

Write here...

Write here...

Hráefni (10 stórir borgarar):

  • 600 gr Linda McCartney hakk + 300 ml vatn

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur, smátt skorin

  • 3 hvítlauksrif, pressuð

  • 1 tsk tímían

  • salt og pipar

  • 75 ml bbq sósa

  • 1/2-1 tsk cayenne pipar

  • 1 - 1 1/2  dl malað haframjöl

  • Valfrjálst: góð kryddblanda að eigin vali en ég setti 2 msk af best á allt kryddi frá pottagöldrum.

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu með vatninu þar til það er heitt og farið að mýkjast vel. Tekur ekki mikið meira en 5 mínútur. Setjið hakkið í blandara eða matvinnsluvél og blandið í smá stund í einu þar til hakkið verður aðeins fínna, en þetta hakk er frekar gróft. Þegar búið er að blanda þetta lítur þetta út eins og frekar þurrt kjörfarst. Setjið hakkið í skál og til hliðar.

  2. Skerið laukinn smátt og pressið hvílaukinn á pönnu og steikið með tímíani þar til laukurinn mýkist vel. Ég steiki upp úr smá vatni en það má alveg nota olíu.

  3. Setjið í blandarann eða matvinnsluvélina baunirnar, bbq sósuna og kryddinn, og blandið þar til alveg maukað. Bætið því ásamt lauknum og haframjölinu út í hakkið og hrærið saman. Ég byrja á að setja 1 dl af haframjöli og ef degið er of blautt til að móta buff með höndunum bæti ég 1/2 dl við.

  4. Mótið buff úr deiginu en það koma 10, 130 gr borgarar úr einni uppskrift. Eins og ég sagði fyrir ofan er hægt að gera rúmlega af buffum eða litlar bollur úr afganginum og frysta.

  5. Bakið í ofni við 180°C í 25-30 mínútur ef það á að bera þá fram strax, en mér finnst það koma betur út þegar þeir eru eldaðir beint en að steikja þá. Ég hins vegar geri deigið oftast fyrirfram og set borgarana þá í 15 mínútur í ofninn, tek þá út og leyfi þeim að kólna alveg. Ef ég ætla að bera þá fram á næstu dögum set ég þá bara í ísskápin og steiki svo á pönnu eða set þá á grillið, þegar þar að kemur. Annars skelli ég þeim bara í frystin og tek út sirka tveimur tímum áður en ég steiki þá. Ég mæli ekki með að setja deigið beint á grill þar sem það er soldið mjúkt og blautt.

Ég bar borgarana að þessu sinni fram með ofnbökuðum kartöflum, fersku grænmeti, steiktum sveppum, bbq sósu og hvítlauksósu, en það er hægt að leika sér á óteljandi vegu með sósur og meðlæti. Ég ætla að láta uppskriftina af hvítlaukssósunni fylgja með.

Hvílaukssósa:

  • 200 ml vegan majónes (uppskrift af heimagerðu er hér)

  • 1/2 hvílauksgeiri

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1-2 tsk þurrkuð steinselja 

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman og leyfið að standa í ísskáp í 20-30 mín áður en borið fram.