Milt grænmetiskarrý
/Þessi karrýréttur er ótrúlega góður. Ég geri hann yfirleitt bara úr því grænmeti sem ég á hverju sinni en mér finnst lykilatriði að í réttinum séu, allavega kartöflur eða grasker og einhvers konar baunir, hvort sem það eru nýrnarbaunir eða linsur. Svo lengi sem sósan er eins og flýtur vel yfir grænmetið er hægt að nýta nánast hvaða grænmeti sem er út í, rétturinn verður alltaf ótrúlega góður.
Hráefni:
Það grænmeti sem ég átti þessu sinni:
1 laukur
4 hvítlauksrif
rúmlega 1 paprika
1/2 lítil rófa
1/2 sæt kartafla
3 meðalstórar kartöflur
1/2 lítill hvítkálshaus
2 tómatar
1 dl frosnar grænar baunir
1 bolli frosnar sykurbaunir
hálfur poki spínat
3-4 msk milt karrý
1 msk paprikuduft
1 msk þurrt tímían
1/4 tsk kanill
salt og pipar
2 bollar linsur
1/2 lítri vatn
4 msk rapunzel grænmetiskraftur
2 dósir angelmark kókosmjólk
1 dós niðursoðnir tómatar
Aðferð:
Steikið lauk og hvítlauk. Þegar ég geri kássur og súpur finnst mér best að steikja bara upp úr vatni í smá tíma. Þá bæti ég bara meira og meira vatni út í ef laukurinn fer að festast við pottinn.
Bætið kryddunum út í ásamt smá vatni í viðbót og hrærið við.
Setjið linsurnar og 1/2 líter af vatni út í og leyfið suðunni að koma upp. Mér finnst gott að skera restina af grænmetinu niður á meðan að linsurnar sjóða. Leyfið linsunum að sjóða í allavega 10 mínútur og setjið svo restina af grænmetinu út í, að undanskildu spínatinu.
Bætið út í kóksmjólkinni, tómötunum og grænmetiskraftinum og leyfið suðunni að koma upp.
Sjóðið kássuna í allavega 30 mínútur. Gott að smakka til eftir 10-15 mínútur og krydda meira ef þarf.
Bætið spínatinu út í og hrærið því saman við rétt áður en kássan er borin fram.
Ég ber réttinn oftast fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.
- Júlía Sif