Gómsætt grænkálssnakk
/Ég gleymi því aldrei þegar ég smakkaði grænkál í fyrsta sinn. Ég hafði enga hugmynd um hvernig ætti að matreiða það svo ég skellti því í skál ásamt allskonar grænmeti og útbjó stærðarinnar salat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér leið þegar ég tók fyrsta bitann. Kálið var gróft, þykkt og stíft. Ég gat með engu móti skilið afhverju grænkálið var svona vinsæl fæða og afhverju fólk borðaði ekki miklu frekar venjulegt iceberg. Ég ákvað því að grænkál væri ekki minn tebolli.
Það leið þó ekki á löngu þar til ég fékk grænkálssalat sem lét mig endurskoða málið. Salatið var mjúkt, yndislega bragðgott og síður en svo erfitt að tyggja. Ég lærði þá að galdurinn til að útbúa gott grænkálssalat er að nudda það vel uppúr góðri dressingu. Síðan þá hefur grænkál verið reglulegur partur af matarræðinu mínu.
Grænkál er hægt að njóta á ýmsa vegu. Auk þess að henta vel í salöt er það góður grunnur í þeytinga og græna safa, en einnig er hægt að útbúa úr því dýrindis grænkálssnakk. Ég viðurkenni að ég hafði ekki mikla trú á því að mér myndi þykja grænkálssnakk neitt svakalega gott. Mér hefði seint dottið í hug að gera snakk úr káli, en var þó svolítið forvitin. Það má með sanni segja að snakkið hafi komið mér gríðarlega á óvart. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni sem ég geri yfirleitt, en hún er bæði einföld og fljótleg.
Grænkálssnakk
Uppskriftin er fyrir tvær ofnplötur
1 búnt grænkál
1 msk olía
2 tsk hvítlauksduft
1 tsk laukduft
Chili flögur eftir smekk
3 msk næringarger
salt eftir smekk
Hitið ofninn á sira 150°c
Þvoið grænkálið, þurrkið það vel, fjarlægið blöðin af stilkunum og rífið hvert blað í nokkra stóra bita
Setjið grænkálið í stóra skál og nuddið olíunni saman við. Passið að hún þekji öll blöði.
Hellið kryddunum og næringargerinu út í og blandið vel saman við kálið
Leggið kálið á ofnplötu með bökunarpappír. Það skiptir máli að dreifa vel úr kálinu og hafa einungis eitt lag á hverri plötu svo snakkið verði stökkt og gott. Þess vegna geri ég frekar tvær plötur ef ég þarf.
Bakið snakkið á 140°c hita í 20-25 mínútur. stundum sný ég plötunni þegar bökunartíminn er hálfnaður en það er samt ekki nauðsynlegt.
Leyfið snakkinu að kólna aðeins á plötunni áður en það er borið fram.
Mér finnst gott að útbúa ídýfu með snakkinu. Uppskriftin af henni er mjög einföld. Ég blanda sýrða rjómanum frá Oatly saman við laukduft, hvítlauksduft, steinselju eða kóríander, salt og pipar. Þessi ídýfa er virkilega góð og hentar mjög vel með grænkálssnakkinu sem og öðru snakki.
Helga María