Anamma hátíðarsteik á tvo vegu

IMG_9274.jpg

Þegar ég var yngri var jólamaturinn heilagur fyrir mér. Það var alltaf það nákvæmlega sama í matinn á aðfangadag og því mátti alls ekki breyta. Eftir að ég varð vegan koma hins vegar varla jól nema ég sé með nýjan hátíðarrétt á boðstólnum. Á hverju ári hef ég prófað mig áfram með uppskriftir af alls konar steikum og er oft með fleiri en einn aðalrétt núna í jólamatinn.

Þetta árið er ég búin að vera að prófa mjög einfaldar uppskriftir sem henta einstaklega vel fyrir þá sem eru að byrja að fikra sig áfram í vegan matargerð og þá sem eru kannski að elda vegan mat fyrir vini eða ættingja en eru ekki vegan sjálf. Í þessar steikur þarf engin flókin hráefni og er matreiðslan sjálf einstaklega fljótleg og einföld. Ég gerði sömu steikina á tvo mismunandi vegu og komu þær báðar virkilega vel út. Steikunar henta einnig fullkomlega með hefðbundnu hátíðarmeðlæti sem er nú þegar á borðstólnum á flestum heimilum landsins.

Wellington steik (fyrir 4 til 5)

  • 6 stk Anamma hamborgarar

  • 4-5 kastaníu sveppir eða tveir portobello sveppir

  • 1-2 skarlott laukar eftir stærð

  • 2 stilkar ferskt tímían eða ferskt rósmarín

  • salt og pipar

  • 4 hvítlauksgeirar

  • 50 gr vegan smjör

  • 1-2 msk dijon sinnep

  • 1 rúlla tilbúið vegan smjördeig úr kæli eða frysti

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja sveppina, laukinn, 2 hvítlauksgeira og tímían eða rósmarín af einum stilk í blandara og blandið saman.

  2. Leyfið hamborgunum að þiðna og stappið þá saman og mótið í fallega steik.

  3. Bræðið vegan smjör á pönnu með restinni af hvítlauk og rósamríni eða tímían og steikið síðan hamborgarasteikina á öllum hliðum á pönnunni.

  4. Smyrjið sveppablöndunni á smjördeig, penslið steikina með dijon sinnepinu og rúllið steikinni inn í smjördeigið.

  5. Penslið steikina með smá plöntumjólk eða plöntu rjóma.

  6. Bakið við 200°C í 30 til 35 mínútur eða þar til hún verður fallega gylt að ofan.

Steik með púðursykurgljáa

  • 6 stk Anamma hamborgara

  • 1/2 dl púðursykur

  • 2 msk tómatsósa

  • 2 msk sætt sinnep

  • smá salt

  • 2 ananassneiðar úr dós

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Leyfið hamborgunum að þiðna, stappið þá saman og mótið í langa fallega steik.

  3. Bræðið saman púðursykurinn, tómatsósu og sinnepið.

  4. Setjið vel af púðursykurgljáanum (sirka 2/3) á steikina og bakið í ofni í 15 mínútur.

  5. Takið steikina úr ofninum, smyrjið restinni af gljáanum yfir steikina og setjið tvær ananassneiðar á steikina og bakið í 10 mínútur í viðbót.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ásbjörn Ólafsson, Bitz og Anamma á Íslandi.

anamma_logo.png
vendor_189.png