Rjómapasta með grænu pestói og hvítlauksbrauði

IMG_8090 copy.jpg

Þeir sem hafa fylgt okkur systur í einhvern tíma ættu að vita að rjómapasta er einn af okkar uppáhalds réttum. Það er eitthvað við pasta og góða rjómasósu sem gerir þennan rétt ómótstæðilegan. Að okkar mati er nauðsynlegt að bera hann fram með góðu hvítlauksbrauði. Ég hef verið að prófa mig áfram með nýjar uppskriftir síðustu vikur og ákvað að prófa að nota æðislega græna pestóið sem kemur í nýju vegan vörulínunni frá Sacla Italia og tók það venjulega rjómapastað á nýjar hæðir.

Ég ákvað að nota fá og góð hráefni þar sem að sósan er ótrúlega bragðmikil og góð og vildi ég ekki eitthvað bragðmikið grænmeti á móti. Að mínu mati er nauðsynlegt að hafa mikið af hvítlauk í sósunni. Annað hráefni má alveg leika sér með og nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég ákvað að setja lauk, soyjakjöt og spínat.

Ég geri þetta pasta við öll tækifæri, hvort sem það er bara kósýkvöld heima eða þegar ég er fá vini eða fjölskyldu í mat og ég get lofað ykkur að þessi réttur slær í gegn hjá öllum. Fólk biður yfirleitt um uppskriftina eftir að hafa borðað þennan rétt og því fannst mér tilvalið að deila henni með ykkur hérna.

Það sem er þó best við þennan rétt er hvað hann er auðveldur og tekur stuttan tíma að útbúa, öll hráefnin fara saman á pönnu og svo soðið pasta sett út í. Það geta því allir eldað þennan rétt og er mjög auðvelt að elda mikið magn af honum í einu.

IMG_8078.jpg

Hráefni (fyrir fjóra):

  • Tagliatelle fyrir 4 ( sirka 400 gr) (passa að kaupa eggjalaust)

  • 2-3 hvítlauksrif

  • 1 lítill laukur eða 1/2 stór

  • lúkka af spínati

  • 200 gr soyjakjöt

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt og pipar

  • 2-3 msk næringarger

  • 1/2 teningur eða 1 msk grænmetiskraftur

  • 250-350 ml vegan rjómi ( ég notaði Aito en hann er svolítið þykkur svo ég set um 1 dl af vatni með) ( má alveg setja meiri rjóma ef fólk við meirra creamy pasta)

  • 1 dl Sacla vegan grænt pestó

  • Fersk basilíka ef vill (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í stóran pott ásamt smá olíu og salti og leyfa suðunni að koma upp.

  2. Þegar suðan er komin upp sjóðið það tagliatelle eftir leiðbeiningum á pakkanum (passa að kaupa eggjalaust tagliatelle)

  3. Skerið hvítlaukinn, laukinn og soyjakjötið niður og steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til það fer að mýkjast og verða fallega gyllt.

  4. Kryddið grænemtið og soyjakjötið með paprikuduftinu, laukduftinu og salti og pipar eftir smekk.

  5. Bætið rjómanum, pestóinu, næringargerinu og kraftinum út í ásamt spínatinu og hrærið vel saman við kjötið og grænmetið.

  6. Leyfið þessu að sjóða í nokkrar mínútur og bætið síðan soðnu pastanu út í og berið fram ásamt ferskum basil og hvítlauksbrauði.

Njótið vel og takk fyrir að lesa <3

IMG_8090.jpg

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia

 
logo Sacla.jpg