Súkkulaði- og kókostart með Pólókexbotni

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætri súkkulaði- og kókostart með Pólókexbotni. Hinn fullkomni eftirréttur sem mun slá í gegn í matarboðinu, veislunni eða bara fyrir framan sjónvarpið. Fyllingin er dúnamjúk á meðan botninn er stökkur og góður. Ofan á er svo gómsætt súkkulaðiganache. Dásamlega gott!

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Frón og við notum pólókex í botninn. Við höfum unnið með Frón í svolítinn tíma og okkur finnst alltaf jafn gaman að prófa nýjar hugmyndir með Pólókexinu. Það hefur verið í miklu uppáhaldi hjá okkur síðan við urðum vegan 2011. Á þeim tíma var Pólókex eitt af fáum tegundum af kexi sem var vegan. Það hefur því alltaf átt sérstakan stað í okkar hjarta og við elskum að nota það í eftirrétti og fleira.

Í botninn þarf einungis tvö hráefni; Pólókex og smjörlíki. Kexið er malað í matvinnsluvél og bræddu smjörlíki hrært saman við. Blöndunni er svo þrýst í botninn á tart formi og bakað í 8 mínútur. Gæti virkilega ekki verið einfaldara.

Fyllingin er svo gerð með því að þeyta vanillusósu og bæta svo sykri, condenced kókosmjólk og bráðnu súkkulaði saman við í mjórri bunu á meðan þið þeytið á meðalstyrk. Fyllingunni er svo helt yfir botninn þegar hann hefur fengið að kólna og sett í frysti í sirka hálftíma áður en súkkulaðiganachinu er helt yfir.

Kakan er svo látin standa í frysti í sirka fjóra tíma. Það er gott að leyfa henni svo að standa í sirka hálftíma áður en skorið er í hana!

Útkoman er þessi dásamlega rjómakennda og góða súkkulaði- og kókostart. Við lofum ykkur að hún veldur ekki vonbrigðum!

Við vonum svo innilega að þið prófið og að ykkur líki vel! <3

Súkkulaði og kókostart með pólókexbotni

Súkkulaði og kókostart með pólókexbotni
Fyrir: 10
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 MinEldunartími: 8 Min: 4 Hour: 4 H & 23 M
Dúnamjúk og ljúffeng súkkulaðitart með kókoskeim og pólókex botni

Hráefni:

Pólókexbotn
  • 200 gr pólókex
  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki
Súkkulaðikókos fylling
  • 1 ferna vanillusósa sem þeytist
  • 1 dós condenced coconut milk
  • 150 gr suðusúkkulaði
  • salt á hnífsoddi
Súkkulaðiganache
  • 1 dl vegan rjómi
  • 100 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

Pólókexbotn
  1. Hitið ofnin í 180°C
  2. Byrjið á því að mala kexið niður í matvinnsluvél eða blandara.
  3. Bræðið smjörlíkið og hrærið saman við kexið.
  4. Þrýstið kexinu í botninu á "tart" kökuformi sem og upp alla kannta svo það þekji formið vel.
  5. Bakið í 8 mínútur.
  6. Taka úr ofninum og leyfið botninum að kólna alveg áður en fyllingin fer ofan í.
Súkkulaðikókos fylling
  1. Byrjið á því að þeyta vanillusósuna þar til hún verður vel loftkennd
  2. Bætið saltinu, kókosmjólkinni og bráðnu súkkulaðinu saman við í mjóum bunum á meðan þið þeytið á meðalstyrk. Þeytið aðeins áfram.
  3. Hellið fyllingunni yfir pólókex botnin þegar hann hefur fengið að kólna alveg.
  4. Setjið í frysti í 30 mínútur áður en þið hellið súkkulaði ganache ofan á.
  5. Frystið í kökuna í að minnsta kosti 4 klst áður en hún er borin fram.
  6. Best er að taka kökuna úr frysti, taka hana strax úr forminu og leyfa henni að hvíla í 30 mínútur áður en hún er borin fram.
Súkkulaðiganache
  1. Hitið rjóman í litlum potti þar til hann fer aðeins að bubla.
  2. Taka af hitanum og hellið súkkulaði dropum eða söxuðu súkkulaði út í, látið rjóman þekja súkkulaðið alveg og leyfið þessu að hvíla í 5 mínútur.
  3. Hrærið vel saman þar til allt súkkulaðið er bráðið.
  4. Hellið yfir kökuna og dreyfið úr, setjið kökuna aftur í frysti.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Frón-