Ég ætla að breyta lífi mínu - 2. kafli

IMG_9687.jpg

Síðasta vika hefur verið áhugaverð. Mér hefur að mörgu leyti liðið eins og ég sé að fá tækifæri til að byrja upp á nýtt. Tækifæri til að sleppa frá mér öllum þeim hugmyndum og skoðunum um það hver ég er og hvað ég get og get ekki. Það er nefnilega magnað að stoppa um stund og átta sig á því að hausinn á manni setur manni gríðarlega mikil takmörk. Við göngum í gegnum lífið með rödd í höfðinu sem stoppar ekki. Hún gefur okkur endalaust af óumbeðnum ráðum og tjáir okkur skoðanir sínar á öllum sköpuðum hlutum. Ef röddin í höfðinu á okkur væri önnur manneskja værum við löngu búin að segja henni að hypja sig. Hver vill umgangast einhvern allar stundir sem talar við okkur á sama hátt og röddin í höfðinu á það til að gera? Við getum ekki þaggað niður í röddinni og þess vegna er svo mikilvægt að gera hana að okkar besta vini. Svo það sé á hreinu, þá er ég að tala um hugsanir okkar. Við hugsum allan liðlangan daginn og oft um eitthvað sem skiptir voðalega litlu máli eða jafnvel lætur okkur líða virkilega illa. Oft er líka erfitt að greina á milli staðreynda og svo okkar upplifunum á hlutunum, sem eru þegar allt kemur til alls, bara okkar upplifun. 

Síðan ég birti síðustu færslu hef ég upplifað margar og miklar tilfinningar, þó eiginlega bara jákvæðar. Ég viðurkenni að ég var svolítið hrædd um að ekkert myndi breytast hjá mér og þessi árs skuldbinding mín myndi verða að engu. Í dag er ég síður en svo hrædd um það og ég get sagt að ég hafi ekki upplifað jafn góða viku í langan tíma. Mér líður á margan hátt eins og ég sé önnur manneskja. Ekki vegna þess að ég er skyndilega allt öðruvísi en ég var áður heldur vegna þess að með því að taka ákvörðun um að breyta lífi mínu, og segja frá því á blogginu og á snappinu okkar, líður mér eins og ég hafi klifið vegg sem ég taldi mig ekki komast yfir. Eins fékk ég fjöldann allan af skilaboðum frá fólki sem annaðhvort vildi sýna mér stuðning eða jafnvel taka þátt í þessu átaki með mér og ég get ekki lýst því hvað mér þykir vænt um það. 

IMG_9839.jpg

Í síðustu viku

  • Vaknaði ég fyrir klukkan 9 á hverjum degi
  • Klæddi ég mig í föt á hverjum degi og kósýgallinn hefur fengið smá hvíld
  • Átti ég yndislegt símtal við Katrínu litlu systur mína.
  • Átti ég yndislegt símtal við ömmu mína
  • Prufaði ég mig áfram með kökuuppskrift sem kemur á bloggið á næstu dögum
  • Mætti ég á kóræfingu og æfði mig vel fyrir hana
  • Fór ég á kaffihús, las ljóð, drakk gott kaffi og spjallaði við Sigga
  • Fór ég í spennandi atvinnuviðtal varðandi sumarvinnu
  • Gekk ég frá eftir mig jafn óðum og leið ég kjölfarið mun betur í umhverfinu mínu
  • Minnti mig á það daglega að ég ber ábyrgð á lífinu mínu og þó ég hafi ekki fullkomna stjórn á því sem kemur fyrir mig, hef ég stjórn á því hvernig ég bregst við því. 
  • Þvoði ég á mér andlitið á hverju kvöldi fyrir svefninn
  • Hlustaði ég mikið á tónlist og uppgvötaði frábæra nýja hljómsveit
  • Borðaði ég næringarríkan mat og keypti engar óþarfa umbúðir
  • Datt ég tvisvar í hálkunni og langaði ekki að hverfa inn í sjálfa mig!!

Það sem mér tókst ekki nógu vel í síðustu viku en ætla að gera betur þessa viku:

  • Ég gaf mér ekki tíma á kvöldin þar sem ég lagði frá mér símann. Ég er að reyna að vera meira meðvituð um símanotkunina og það er virkilega áhugavert hvað ég á það til að teygja mig í símann þegar mér leiðist
  • Ég borðaði enga máltíð án þess að hafa afþreyingu. Ég hef áttað mig á því að ég er alltaf með Snapchat, Instagram, Youtube myndbönd, hlaðvörp eða hljóðbækur í gangi á meðan ég borða og mig langar að breyta því
  • Ég póstaði ekki Instagram myndum jafn oft og ég ætlaði mér
  • Ég gerði ekki uppskriftarfærslu 
  • Ég hreyfði mig ekkert að viti, en það er þó vegna þess að ég er að jafna mig eftir snúinn ökkla og tók ákvörðun um að taka því rólega síðustu vikuna. Ég fór samt eitthvað út úr húsi alla dagana og er ánægð með það. 
IMG_9716-2.jpg

Þessa vikuna ætla ég að:

  • Halda áfram þeim daglegu venjum sem ég hef náð að tileinka mér síðustu vikuna 
  • Halda áfram með lagið sem ég hef verið að búa til síðustu daga
  • Skrifa meira
  • Lesa fleiri ljóð
  • Gera tvær uppskriftafærslur sem ég er búin að undirbúa
  • Hitta vini okkar Sigga um helgina
  • Undirbúa samstarfið sem við Júlía erum að fara í
  • Hreyfa mig daglega, hvort sem það er að fara í ræktina, göngutúr eða gera æfingar hérna heima
  • Fara á allavega eitt kaffihúsadeit með sjálfri mér 
  • Halda áfram að þykja svona vænt um sjálfa mig 
  • MUNA að það er eðlilegt að ekki séu allir dagar fullkomnir. Ég er ekki að reyna að vera fullkomin eða glöð alla daga, það eru óraunhæfar kröfur sem gagnast engum
  • Færa lögheimilið mitt!! Kommon Helga, þú hefur haft endalausan tíma til að gera þetta
IMG_9700.jpg

Ég hlakka til að heyra í ykkur að viku liðinni! 

Helga María

 

Ég ætla að breyta lífi mínu - 1. kafli

Ég sá myndband um daginn sem hafði mikil áhrif á mig. Í myndbandinu segir ung kona frá því hvernig hún ætli að breyta lífi sínu á 365 dögum. Í kjölfarið fór ég að skoða líf mitt og sérstaklega þá hluti sem ég er ósátt við en hef ekki gert mikið til þess að breyta. Á síðustu dögum hef ég smám saman áttað mig á því hvernig ég hef beðið eftir því að lífið segi mér hvenær röðin sé komin að mér. Þá muni allt sem þarf að laga í mínu lífi kippast í liðinn og ég verði betri manneskja, með betri venjur og betra hugarfar. 

IMG_9595-2.jpg

Ég hef í rauninni eytt gríðarlegum tíma í að haga mér og hugsa eins og það sé ekki í mínum verkahring að búa mér til það líf sem ég vil lifa, svona eins og að með því að viðurkenna að ábyrgðin sé virkilega mín þurfi ég að standa upp og gera eitthvað í því, sem er auðvitað ekki jafn þægilegt og að sitja heima og bíða eftir að lífið banki uppá og bjóði manni í einhverskonar allsherjar "make-over." 
  Eftir að hafa horft á myndbandið, hugsað um það í nokkra daga, horft á það aftur, og svo einu sinni enn, ákvað ég að taka Dottie til fyrirmyndar og skora á sjálfa mig að breyta lífi mínu næstu 365 daga og leyfa ykkur að fylgjast með. Ég er ekki að tala um áramótaheit sem ég gleymi eftir viku, heldur er ég að tala um það að leggja mig alla fram, í fyrsta sinn á ævinni, við að laga það sem ég hef viljað laga en aldrei komið mér í. 
   Síðustu ár hef ég verið óánægð með margt í lífinu mínu og margt í eigin fari en það er einmitt ákveðið vandamál út af fyrir sig. Ég hef nefnilega verið föst í því að einblína einungis á það sem ég er ósátt við og það sem ég vil HÆTTA að gera í stað þess að hugsa um hvernig ég get bætt nýjum og jákvæðum venjum inn í lífið mitt. Næstu 365 daga ætla ég hinsvegar að einbeita mér að því að tileinka mér jákvæðar venjur sem ég tel að muni gera mér og fólkinu í kringum mig gott. Í stað þess að hugsa stanslaust um það sem ég vil hætta að gera ætla ég að hugsa um það sem ég vil byrja að gera. Ég ætla að gera mitt besta, en ætla á sama tíma að muna að "mitt besta" getur breyst frá degi til dags og að þó mér gangi verr í dag en í gær þýðir það ekki að ég sé að standa mig illa eða að mér sé að misheppnast. 

En þrátt fyrir að dagsformið sé og muni alltaf vera misjafnt er það víst að dagurinn í dag er dagurinn sem ég ætla alltaf að muna. 14. mars 2018. Dagurinn sem ég ákvað að taka ábyrgð á eigin lífi og leggja í fyrsta skipti mikla vinnu í að byggja upp það líf sem ég vil lifa og búa mér til þær jákvæðu venjur sem ég tel að munu hjálpa mér að vera hamingjusöm og heilbrigð.  Hér eru nokkur dæmi um venjur sem mig hefur dauðlangað að tileinka mér en aldrei tekið almennilega ákvörðun um að virkilega reyna að gera:

image_6483441 (3).jpg

Það er sagt að það taki allt frá tveimur vikum til tvo mánuði að mynda nýjar venjur. Eins og sá tími virðist oft líða löturhægt þegar maður einbeitir sér að því að breyta venjum sínum til hins betra, þá flýgur tíminn þegar kemur að því að mynda sér "ósiði" eða minna heilbrigðar venjur. Dæmi um það er þegar ég byrja að hreyfa mig. Eftir að hafa mætt í ræktina í fjóra daga í röð finnst mér ég hafa svitnað og púlað mánuðum saman, en svo tek ég varla eftir því þegar ég hef verið í sömu kósýbuxunum næstu fjóra daga límd við sófann. 

Þegar við fluttum til Svíþjóðar þótti mér erfitt hvað ég var mikið ein. Ég þekkti mjög fáa og var oft einmana. Það var þó fljótt að venjast, og svo hætti einveran að vera mér erfið og fór að vera þægileg.  Fyrr en varði var hún orðin það sem ég þekkti best. Ég vandist því líka hratt að þurfa lítið að fara út úr húsi svo kósýgallinn varð ákveðinn einkennisklæðnaður sem gerði það að verkum að oft varð mér lítið úr verki yfir daginn. Ég hef nefnilega komist að því að þegar ég klæði mig eins og ég sé á leið í vinnuna þá líður mér eins og ég sé í vinnunni og er minna líkleg til þess að sitja á sófanum og horfa á Youtube í marga klukkutíma. 

IMG_9671.jpg

Næsta árið mun ég ekki einungis einbeita mér að daglegum venjum heldur einnig stærri hlutum og markmiðum. ég ætla að gera fjóra lista; 

  • Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu
  • Það sem ég vil áorka yfir vikuna
  • Það sem ég vil gera daglega
  • Það sem ég ætla að gera í dag

Listarnir munu líklega breytast eitthvað þegar líður á árið en ég mun leyfa ykkur að fylgjast með því. 

 

Það sem ég vil hafa áorkað að ári liðnu

  • Ég ætla að vera komin langt með að vinna úr erfiðum minningum og lífsreynslum sem hafa fylgt mér til dagsins í dag og haft hamlandi áhrif á mig
  • Ég ætla að vera farin að tala reiprennandi sænsku 
  • Ég ætla að vera orðin örugg með að tala við ókunnuga án þess að finnast ég þurfa að biðjast afsökunar á því hver ég er og hvernig ég er
  • Ég ætla að vera búin að ná mun betri líkamlegri heilsu og muna að þó ég sé með vanvirkan skjaldkirtil er ég ekki fórnarlamb sjúkdómsins
  • Ég ætla að vera búin að kaupa mér nýja Canon vél því mín er eldgömul og lúin
  • Ég ætla, ásamt Júlíu, að vera búin að gera handrit að matreiðslubók! 
  • Ég ætla að læra að elska sjálfa mig og vera í kjölfarið betur fær um að sýna fólkinu í kringum mig ást og umhyggju
  • Ég ætla fyrst og fremst að vera ég sjálf og muna alla daga að þó ég eigi slæman dag sé engin ástæða til að brjóta mig niður eða finnast mér vera að mistakast

Það sem ég vil áorka vikulega

  • Blogga í hverri viku - Birta bæði uppskriftarfærslu og vikulegar færslur um þessa áskorun
  • Hringja í ömmu í hverri viku
  • Hringja í systkini mín í hverri viku
  • Mæta á kóræfingar
  • Versla vel inn eftir skipulagi til að eiga nóg af næringarríkum mat yfir vikuna
  • Elda nýja uppskrift í hverri viku
  • Skrifa að minnsta kosti eitt ljóð í hverri viku
  • Fara á kaffihúsadeit með sjálfri mér einu sinni í viku með tölvuna mína og skrifa

Það sem ég vil gera daglega

  • Vakna fyrir klukkan 9 alla daga
  • Hugleiða í allavega 10 mínútur (mér líður svo miklu betur þegar ég geri það)
  • Fara eitthvað út úr húsi daglega, þrátt fyrir að hafa ekkert sérstakt erindi
  • Hreyfa mig eitthvað daglega, hvort sem það er að fara í göngutúr eða í ræktina
  • Pósta mynd á Instagram á hverjum degi
  • Klæða mig eins og ég sé á leið í vinnuna þó ég sé bara að fara að vinna heima 
  • Gefa mér hálftíma á hverju kvöldi áður en ég fer að sofa þar sem ég kíki ekkert á símann
  • Þvo á mér andlitið á hverjum degi
  • Skrifa daglega punkta og hugleiðingar um hvernig mér gengur að breyta lífi mínu - vera hreinskilin
  • Hafa hreint og fínt þegar ég fer að sofa á kvöldin
  • Vaska upp strax eftir kvöldmatinn svo ekkert uppvask sé þegar ég vakna daginn eftir
  • Muna að taka skjaldkirtilslyfin mín á hverjum degi

Það sem ég ætla að gera í dag (14. mars 2018)

  • Vera farin á fætur klukkan 9
  • Fara í eins kalda sturtu og ég þoli (treystið mér, manni líður svo vel eftir á)
  • Klára að skrifa þessa færslu og koma henni í loftið
  • Pósta mynd á Instagram
  • Fara á sóprana kóræfingu
  • Elda kvöldmat handa okkur Sigga
  • Ryksuga íbúðina og þurrka af
  • Þvo á mér andlitið í lok dagsins
IMG_9698-2.jpg

Ég hlakka til að leyfa ykkur að fylgjast með, en fyrst og fremst er ég að gera þetta fyrir sjálfa mig. Tilhugsunin um að birta þessa færslu hræðir mig örlítið því um leið og hún er komin í loftið er ekki aftur snúið. Hinsvegar er það mögnuð tilfinning að vita að frá og með þessarri stundu muni allt breytast. Ég er ekki að búast við því að lífið verði allt í einu dans á rósum og ég skælbrosandi alla daga, en ég veit fyrir víst að ég mun í fyrsta skipti leggja mig alla fram við að búa mér til það líf sem ég vil lifa og það er mögnuð tilfinning. Ef mér mistekst hryllilega get ég í fyrsta sinn sagt að ég hafi allavega reynt mitt besta. 

Helga María