Vegan kjötbollur með ritz og döðlum

IMG_6487.jpg

Við erum loksins mættar aftur með nýja uppskrift fyrir ykkur. Síðustu mánuðir hafa verið ansi viðburðarríkir, en við vildu einbeita okkur að því að klára önnina í skólanum og gera það eins vel og við gætum. Júlía tók nokkur próf og Helga hélt tvo lokatónleika og spilaði nokkur gigg. En nú eru skólarnir komnir í sumarfrí og við báðar byrjaðar á fullu í sumarvinnunum okkar. Ég (Helga) er stödd á Íslandi og verð þar í sumar þar sem það eru mjög spennandi verkefni framundan hjá okkur systrum. Við hlökkum mikið til að deila því öllu með ykkur og ég viðurkenni það alveg að það er svakalega gott að fá smá tíma núna í sumar til að sinna Veganistum saman en ekki úr sitthvoru landinu.

IMG_6489.jpg

Í júní erum við í samstarfi við Anamma, en það vita það flestir sem hafa skoðað bloggið okkar eða fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum að við elskum vörurnar þeirra. Ég byrjaði að fylgjast svolítið með þessu fyrirtæki þegar ég flutti til Svíþjóðar, en þau eru einmitt þaðan, og mér finnst allt svo frábært sem þau eru að gera. Þau framleiða pylsur, borgara, bollur, falafel, hakk og fleira, en í fyrra kom frá þeim ein vara sem bókstaflega setti allt á hvolf í Svíþjóð. Það var nefnilega nýja hakkið þeirra sem heitir á sænsku “formbar färs” og er sojahakk sem hefur þann eiginleika að einstaklega auðvelt er að móta úr því það sem maður vill. Það hefur lengi verið svolítið tímafrekt að útbúa heimagerða vegan borgara úr vegan hakki vegna þess að það þarf að setja út í það eitthvað sem er bindandi. Hinsvegar er engin þörf á því þegar kemur að þessu nýja hakki sem þýðir að nú er hægt að útbúa dásamlega góða borgara, kjötbollur eða bara það sem mann langar úr vegan hakki. Nú er þetta hakk loksins komið til Íslands og er bókstaflega fullkomið til að útbúa eitthvað gott á grillið í sumar. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup, Bónus og fleiri minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6452.jpg

Það virkar bæði að móta eitthvað úr hakkinu, en einnig að steikja það beint á pönnu. Þegar á að móta úr því þarf að taka það út sirka klukkutíma fyrir og leyfa því að þiðna svona nokkurnveginn alveg. Mér þykir best að eiga við það þegar það er nánast þiðið en samt enn ískalt. Hinsvegar þegar á að steikja það beint á pönnu þá er best að hafa það alveg frosið þegar byrjað er að steikja. Það eru svo auðvitað skýrar leiðbeiningar aftan á pakkanum.

IMG_6460.jpg

Ég hef útbúið ýmsar gerðir af bollum úr hakkinu, en oft skelli ég bara hakki, söxuðum lauk, dökkri sojasósu, smá sinnepi, salti og pipar í skál og rúlla úr því bollur. Þetta er alveg dásamlega gott og týpískur hversdagsmatur. Í dag ætlum við að deila með ykkur alveg ótrúlega góðri uppskrift af bollum sem eru bæði góðar sem kvöldmatur og einnig sem pinnamatur við ýmis tilefni. Það tekur enga stund að rúlla þessar bollur og útkoman er alveg frábær.

Við vonum innilega að þið prufið þessa uppskrift. Við munum svo gera aðra á næstu dögum og hlökkum til að deila henni með ykkur. Eins vonum við að þið getið fyrirgefið okkur þessa fjarveru síðustu mánuði, en við ætlum í sumar að vera duglegar á Instagram og hlökkum svo til að segja ykkur betur frá komandi verkefnum.

IMG_6482.jpg

Kjötbollur

  • 450 gr formbar hakk frá anamma

  • 100 gr ritzkex

  • 1 dl saxaður vorlaukur

  • 2 hvítlauksgeirar eða 2 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 bolli döðlur

  • salt og pipar

  • kjöt og grillkrydd

  • 2 msk matarolía eða vegan smjör

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti sirka klukkustund áður byrjað er að vinna með það.

  2. Saxið laukinn og döðlurnar mjög smátt og setjið í skál ásamt hakkinu og kryddunum.

  3. Myljið ritzkexið vel, t.d. í matvinnsluvél eða í höndunum og setjið út í hakkið.

  4. Hrærið saman og mótið litlar kúlur úr hakkdeiginu.

  5. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni við 180°C í 12-14 mínútur

Rjómaostasósa

  • 1 bolli vegan rjómaostur (t.d. rjómaostur frá YOSA)

  • 1 bolli plönturjómi (t.d. hafrarjómi frá yosa)

  • 1/2 bolli saxaður vorlaukur

  • 1 grænmetisteningur

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og steikið upp úr örlítilli olíu eða vegan smjöri í nokkrar mínútur.

  2. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið þar til rjómaosturinn hefur bráðnað saman við rjóman.

  3. Sjóðið sósuna í 10 til 15 mínútur.

  4. Hægt er að þykkja sósuna með hveitiblöndu (hveiti og vatn hrisst saman) ef þess er óskað

Takk fyrir að lesa og við vonum innilega að þið njótið!
-Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-