Vegan Domino's pizza!
/Janúar hefur fljótt orðið stærsti mánuður grænkera með átakinu Veganúar. Með hverju ári fjölgar þáttakendum Veganúar gríðarlega og í kjölfarið hafa veitingastaðir og matvöruverslanir brugðist við með fjölbreyttara úrvali. Nú í ár taka Domino's þátt í fyrsta skipti, okkur og öðrum til mikillar gleði, og bjóða upp á vegan ost á pizzurnar sínar. Það hafa margir beðið eftir því að geta keypt sér glóðvolga pizzu á þriðjudagstilboði með vegan osti.
Domino's býður upp á einn vegan botn en það er sá lauflétti. Á matseðlinum er að finna Grænmetisparadís, en á henni eru kirsuberjatómatar, spínat, sveppir, svartar ólífur, hvítlaukur og rauðlaukur. Hingað til hefur verið hægt að fá hana vegan með því að sleppa ostinum en vegan osturinn setur algjörlega punktinn yfir i-ið. Auk hennar setti Júlía saman sína eigin pizzu og á henni var rauðlaukur, sveppir, ólífur, nachos og bbq sósa. Báðar pizzurnar smökkuðust æðislega sérstaklega með hvítlauksolíunni sem okkur þykir ómissandi á pizzu. Eins og er bjóða Domino's einungis upp á vegan ost í janúar af tilefni Veganúar en vonandi ef viðtökur eru góðar halda þau honum á matseðlinum.
Hver er þín uppáhalds vegan samsetning á pizzu?
þessi færsla er unnin í samstarfi við Domino's