Einfalt vegan kartöflugratín

Kartöflugratín. Eitt af mínu uppáhalds meðlæti. Kartöflur, vegan rjómi, vegan ostur, góð krydd. Dásamlega gott!

Ég elska gott meðlæti. Mér þykir stundum meðlætið mikilvægara en aðalrétturinn. Ég myndi t.d. frekar panta mér franskar og vegan kokteilsósu án hamborgara en einungis hamborgara með engum frönskum. Eins myndi ég auðveldlega getað borðað eintómt kartöflugratín. Kartöflugratín, grænar baunir og sveppasósa, dýrindis kvöldmatur. Nei nú er ég kannski farin að ganga aðeins of langt, en þið skiljið hvert ég er að fara. Meðlæti er gríðarlega mikilvægt.

Kartöflugratín er eitt af þessu meðlæti sem passar með öllu. Það getur bæði verið hversdagslegt og hátíðlegt og ég borða það bæði með þriðjudagskvöldmatnum og á aðfangadagskvöld.

Ég gerði þetta gratín sem meðlæti með þessu vegan hakkabuffi um daginn og það var fullkomið saman!

Kartöflugratín

Hráefni:

  • 25 gr. smjörlíki að smyrja í eldfasta mótið

  • 750 gr kartöflur

  • 300 ml vegan matreiðslurjómi

  • 200 ml vegan mjólk (mæli með haframjólk eða ósætri sojamjólk)

  • 2-3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk þurrkað timían

  • Örlítið af hvítum pipar

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Rifinn ostur eftir smekk til að dreyfa yfir. Ég notaði u.þ.b. 70 gr.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c

  2. Smyrjið eldfast mót með smjörlíki

  3. Skerið kartöflurnar niður í mjög þunnar sneiðar. Ég notaði mandólin. Ég leyfði hýðinu að vera á.

  4. Raðið kartöflunum í formið og hellið út á rjómanum, mjólkinni, kryddið og stráið yfir ostinum

  5. Setjið álpappír yfir og leyfið kartöflunum að bakast í 60 mínútur. Mér finnst best að baka þær hægt. Stingið í og sjáið hvort kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Ef ekki, leyfið þeim að bakast aðeins lengur.

  6. Takið þær út, hækkið hitann í 200°c og setjið þær örlítið hærra í ofninn í 10 mínútur svo ofninn fái fínan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið

-Helga María