Hummus með krydduðu hakki

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hummus með krydduðu steiktu hakki, tómötum, lauk, steinselju, ristuðum furuhnetum og ólífuolíu. Þennan rétt er tilvalið að bera fram með volgu pítubrauði, steiktu pönnubrauði eða vefjum. Fullkomið þegar þið viljið gera hummusinn ykkar aðeins matarmeiri.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og við notuðum að sjálfsögðu hakkið frá þeim í uppskriftina. Við notum vörurnar frá Anamma virkilega mikið og hakkið þeirra er að okkar mati það langbesta á veganmarkaðnum. Við erum því alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Við systur elskum að útbúa stóran skammt af hummus og nota á brauð og í matargerð. Það er til dæmis virkilega gott að gera pastasósu úr hummus, en sósan verður virkilega rjómakennd og góð. Eins gerir hann samlokur og vefjur seðjandi og góðar. Í uppskrift dagsins má auðvitað nota keyptan hummus, það er líka dásamlega gott, en við mælum auðvitað mikið með að útbúa hann sjálf því það er bæði betra að okkar mati og ódýrara.

Eins og ég sagði er þetta hin fullkomna leið til að gera hummusinn matarmeiri. Ég smakkaði svipaðan rétt á veitingastað erlendis fyrir mörgum árum og varð mjög hrifin. Mér finnst mjög gott að toppa hummus með allskonar góðgæti.

Ef þið viljið fleiri hugmyndir mæli ég með þessu kúskússallati með hummus og steiktum kjúklingabaunum.

Ofan á hakkið settum við tómata, lauk, tabascosósu, ristaðar furuhnetur, steinselju og slatta af ólífuolíu. Það er auðvitað hægt að toppa með öllu því sem ykkur þykir gott, eða bera fram með salati. Ég get líka ímyndað mér að það sé mjög gott að setja smá tahinisósu yfir allt saman.

Takk kærlega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin.

Veganistur

Hummus með steiktu hakki

Hummus með steiktu hakki
Fyrir: 4-6
Höfundur: Helga María
Dásamlegur hummus með krydduðu steiktu hakki, tómötum, lauk, steinselju, ristuðum furuhnetum og ólífuolíu. Þennan rétt er tilvalið að bera fram með volgu pítubrauði, steiktu pönnubrauði eða vefjum. Fullkomið þegar þið viljið gera hummusinn ykkar aðeins matarmeiri.

Hráefni:

Steikt hakk:
  • Olía að steikja upp úr
  • 1 poki hakk frá Anamma
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk malað kóríanderkrydd
  • 1 tsk malað broddkúmen
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk kanill
  • Salt og pipar
  • 1/2-1 dl vatn
Hummus:
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk broddkúmen
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir að toppa með: Steikta hakkið, tómatar, laukur, tabascosósa, fersk steinselja eða kóríander, ristaðar furuhnetur, ólífuolía.
  • Gott að bera fram með: Pítubrauði, djúpsteiktum pítuflögum, vefjum, steiktu pönnubrauði.

Aðferð:

Steikt hakk:
  1. Hitið olíu á pönnu.
  2. Bætið hakkinu út á og steikið í sirka 2 mínútur.
  3. Bætið pressuðum eða rifnum hvítlauk út á ásamt kryddunum og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið vatninu á pönnuna og steikið þar til það er gufað upp og hakkið orðið tilbúið.
Hummus:
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með hakkinu og því sem ykkur langar í. Hugmyndir sjáiði hér að ofan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, marmelaði og ávöxtum

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum. Granólað inniheldur meðal annars haframjöl, hnetur, möndlusmjör og hlynsíróp og kókosjógúrtin er virkilega mettandi og góð. Marmelaðið og ávextirnir gefa síðan ferska og góða sætu.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í jógúrtskálina notaði ég mangó- og ástaraldinmarmelaðið þeirra. Eitt af því sem ég elska mest við St. Dalfour marmelaðið, fyrir utan bragðið að sjálfsögðu, er að það inniheldur ekta ávexti og engan hvítan sykur. Ég kaupi það miklu frekar en hefðbundna sultu því mér finnst það mun ferskara og betra. Þess vegna er ég svo stolt af því að fá að vinna með þeim.

Við borðum jú með augunum og þess vegna finnst mér skemmtilegt að bera einfaldan morgunverð sem þennan fram á fallegan og skemmtilegan hátt. Áttu von á gestum í brunch? Þá er fullkomið að útbúa litlar skálar eða glös af jógúrt, granóla, marmelaði og ávöxtum. Það er fullkomið til að gefa smá ferskleika á móti restinni af brunchinum, sem oft er svolítið djúsí.

Vantar þig fleiri hugmyndir fyrir brunchinn? Prófaðu þá eftirfarandi:

Döðlupestó og pestósnúðar

Gósmætt kjúklingabaunasalat

Bestu vegan vöfflurnar

Vegan pylsuhorn

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin. Endilega taggaðu okkur á Instagram og skrifaðu athugasemd hér undir ef þú prófar. Við elskum að heyra frá ykkur! <3

-Helga María

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum
Höfundur: Helga María
Geggjuð jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Hráefni:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  • Kóksjógúrt
  • Granóla - heimagert eða keypt (uppskrift hér að neðan)
  • Mangó- og ástaraldinmarmelaði frá St. Dalfour
  • Ferskir ávextir eftir smekk. Ég notaði mangó, kiwi og ferskjur. Ég toppaði svo með ristuðum kókosflögum.
Heimagert granóla
  • 4 dl haframjöl
  • 3 dl hnetur að eigin vali (ég notaði möndlur, heslihnetur og pistasíuhnetur)
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl niðurskornar döðlur
  • 2 kúfaðar msk kókosolía
  • 1 kúfuð matskeið möndlusmjör
  • 1,25 dl hlynsíróp
  • smá salt

Aðferð:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  1. Berið annaðhvort fram í skál eða gerið eins og ég og setjið lög af öllu í skál eða glas og toppið með ávöxtum.
Granóla
  1. Hitið ofninn í 150°c
  2. Skerið hneturnar niður og setjið á skál með haframjöli og kókosmjöli.
  3. Setjið kókosolíu, möndlusmjör, hlynsíróp og smá salt í pott og hitið og hrærið í þar til það hefur bráðnað saman.
  4. Bætið út í skálina og hrærið saman við þurrefnin með sleif eða sleikju.
  5. Skerið döðlurnar niður og hrærið saman við.
  6. Bakið í 15 mínútur og hrærið þá varlega saman til að viðhalda "klumpum" í granólanu.
  7. Bakið í 5-10 mínútur í viðbót og takið svo út og látið kólna.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-