Súkkulaðijógúrt með pólókex mulningi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum og einföldum morgunmatur sem hentar fullkomlega við betri tilefni, um helgar eða með brönsinum til dæmis. Rétturinn samanstendur af unaðslegri, hollri súkkulaðijógúrt með banana og pólókex mulningi sem bætir smá sætu og krönsi í réttinn.

Úrvalið af vegan jógúrti er orðið mjög gott og fannst mér því tilvalið að gera mjög einfalt tvist á tilbúið jógúrt sem gerir það líkt og það sem heimagert. Frosnu bananarnir gefa smá sætu í jógúrtið og gera það ískalt og ferskt.

Póló kex hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum en það hefur verið vegan frá upphafi. Það er mátulega sætt að mínu mati og virkar fullkomlega með jógúrtinni þar sem hún er ekki sæt. Kexið gefur gott kröns í réttinn og gerir hann smá sparilegan.

Súkkulaðijógúrt með pólókexi

Súkkulaðijógúrt með pólókexi
Fyrir: 2 litlar krukkur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Gómsætt súkkulaðijógúrt með pólókexi og kókosflögum. Æðislegur spari morgunmatur sem hentar fullkomlega um helgar eða með brönsinum til dæmis.

Hráefni:

  • 10 pólókex
  • 1 frosin banani
  • 400 ml hreint vegan skyr eða vegan grískt jógúrt (eða annað þykkt jógúrt)
  • 1 msk kakó
  • Jarðaber og ristaður kókos til að skreyta (eða það sem hver og einn vill nota)

Aðferð:

  1. Setjið í blandara vegan jógúrtið, bananan og kakóið. Blandið þar til jógúrtið verður alveg slétt og laust við alla kekki. Getið þurft að stoppa á milli og skafa niður hliðarnar þar sem blandarinn getur átt erfitt með frosna bananan í byrjun.
  2. Myljið kexið annað hvort í blandara eða með því að setja það í ziplock poka og brjóta það niður.
  3. Setjið smá af kexmulning í krukku eða lítið glas, hálf fyllið glasið með jógúrtinni og setjið síðan meiri kexmulning og að lokum meira jógúrt.
  4. Skreytið með því sem hver og einn vill
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Pólókex/Frón -

 
 

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, marmelaði og ávöxtum

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum. Granólað inniheldur meðal annars haframjöl, hnetur, möndlusmjör og hlynsíróp og kókosjógúrtin er virkilega mettandi og góð. Marmelaðið og ávextirnir gefa síðan ferska og góða sætu.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í jógúrtskálina notaði ég mangó- og ástaraldinmarmelaðið þeirra. Eitt af því sem ég elska mest við St. Dalfour marmelaðið, fyrir utan bragðið að sjálfsögðu, er að það inniheldur ekta ávexti og engan hvítan sykur. Ég kaupi það miklu frekar en hefðbundna sultu því mér finnst það mun ferskara og betra. Þess vegna er ég svo stolt af því að fá að vinna með þeim.

Við borðum jú með augunum og þess vegna finnst mér skemmtilegt að bera einfaldan morgunverð sem þennan fram á fallegan og skemmtilegan hátt. Áttu von á gestum í brunch? Þá er fullkomið að útbúa litlar skálar eða glös af jógúrt, granóla, marmelaði og ávöxtum. Það er fullkomið til að gefa smá ferskleika á móti restinni af brunchinum, sem oft er svolítið djúsí.

Vantar þig fleiri hugmyndir fyrir brunchinn? Prófaðu þá eftirfarandi:

Döðlupestó og pestósnúðar

Gósmætt kjúklingabaunasalat

Bestu vegan vöfflurnar

Vegan pylsuhorn

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin. Endilega taggaðu okkur á Instagram og skrifaðu athugasemd hér undir ef þú prófar. Við elskum að heyra frá ykkur! <3

-Helga María

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum
Höfundur: Helga María
Geggjuð jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Hráefni:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  • Kóksjógúrt
  • Granóla - heimagert eða keypt (uppskrift hér að neðan)
  • Mangó- og ástaraldinmarmelaði frá St. Dalfour
  • Ferskir ávextir eftir smekk. Ég notaði mangó, kiwi og ferskjur. Ég toppaði svo með ristuðum kókosflögum.
Heimagert granóla
  • 4 dl haframjöl
  • 3 dl hnetur að eigin vali (ég notaði möndlur, heslihnetur og pistasíuhnetur)
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl niðurskornar döðlur
  • 2 kúfaðar msk kókosolía
  • 1 kúfuð matskeið möndlusmjör
  • 1,25 dl hlynsíróp
  • smá salt

Aðferð:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  1. Berið annaðhvort fram í skál eða gerið eins og ég og setjið lög af öllu í skál eða glas og toppið með ávöxtum.
Granóla
  1. Hitið ofninn í 150°c
  2. Skerið hneturnar niður og setjið á skál með haframjöli og kókosmjöli.
  3. Setjið kókosolíu, möndlusmjör, hlynsíróp og smá salt í pott og hitið og hrærið í þar til það hefur bráðnað saman.
  4. Bætið út í skálina og hrærið saman við þurrefnin með sleif eða sleikju.
  5. Skerið döðlurnar niður og hrærið saman við.
  6. Bakið í 15 mínútur og hrærið þá varlega saman til að viðhalda "klumpum" í granólanu.
  7. Bakið í 5-10 mínútur í viðbót og takið svo út og látið kólna.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 

Vegan skonsur með smjöri og sítrusmarmelaði

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af nýbökuðum skonsum (e. scones) bornum fram með smjöri og sítrusumarmelaði. Skonsurnar eru virkilega einfaldar og fljótlegar en það tekur innan við 30 mínútur að útbúa þær og þær innihalda 5 hráefni sem flestir eiga alltaf til heima. Fullkomnar að bera fram sem morgunmat um helgar.

Skonsur eru mjög vinsælar hérna í Svíþjóð og einmitt oft bakaðar um helgar. Íslenska nafnið gæti eflaust ruglað einhvern þar sem við þekkjum skonsur sem þykkar pönnukökur. Þessar skonsur minna þó meira á brauð og er hægt að leika sér endalaust með deigið. Það er bæði hægt að hafa þær saltar eins og ég gerði núna eða bæta smá sykri í deigið og jafnvel súkkulaði. Eins má nota jógurt í staðinn fyrir mjólk. Ég hef smakkað sætar scones og þær voru alls ekki síðri.

Eins og ég sagði tekur enga stund að útbúa skonsur og í rauninni er best að hræra og hnoða deigið alls ekki of mikið. Þegar mjólkinni hefur verið bætt út í er best að hræra henni saman við þurrefnin hratt í mjög stutta stund og færa deigið svo yfir á eldhúsborðið og hnoða það létt saman. Það þarf alls ekki að líta fullkomlega slétt út (sjá myndirnar að ofan).

Deiginu skipti ég í tvennt og flet út tvær kökur sirka 2-3 cm þykkar með höndunum. Ég sker svo hverja köku í fjóra bita með hníf og sting í þær með gaffli.

Úr koma þessar gómsætu skonsur sem eru langbestar bornar fram nýbakaðar og volgar. Fullkomnar á morgunverðarborðið um helgina.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour, en þegar ég smakkaði sítrónu- og límónumarmelaðið frá þeim var það fyrsta sem mér datt í hug að það væri örugglega fullkomið á nýbakaðar skonsur. Ég dreif mig inn í eldhús og hófst handa við að prófa og viti menn, ég hafði rétt fyrir mér. Marmelaðið er dásamlega gott og þar sem það inniheldur sítrónur og lime hefur það einstaklega ferskt bragð. Ég smurði góðu vegan smjöri undir og toppaði með marmelaðinu og það var algjör draumur.

Takk fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin

-Helga María

Vegan skonsur

Vegan skonsur
Fyrir: 6-8
Höfundur: Veganistur
Einfaldar og fljótlegar skonsur sem tekur innan við 30 mínútur að útbúa. Þær innihalda 5 hráefni sem flestir eiga alltaf til heima. Fullkomnar að bera fram sem morgunmat um helgar.

Hráefni:

  • 5 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk sykur
  • 60 gr kallt smjörlíki
  • 2 dl vegan mjólk að eigin vali (ég notaði sojamjólk)
  • Hitið ofninn í 250°c undir og yfir hita.
  • Hrærið þurrefnunum saman í stórri skál
  • Skerið niður smjörlíkið og bætið útí og blandið saman við með fingrunum svo deigið verði eins og mylsna.
  • Hellið mjólkinni út í og hrærið hratt og stutt saman. Ekki hafa áhyggjur þó deigið sé klístrað.
  • Stráið hveiti á borð og færið deigið yfir á það. Hnoðið létt i stutta stund. Deilið hveitinu í 2 hluta og mótið kúlu úr hverjum hluta.
  • Setjið smjörpappír á ofnskúffu og fletjið deigið út með höndunum í kringlóttar kökur sirka 2-3 cm að þykkt.
  • Skerið 4 hluta úr deiginu. Það þarf ekki að skera alveg í gegn (sjá mynd að ofan) og stingið í kökuna með gaffli. Bakið í miðjum ofninum í 10-15 mínútur eða þar til þær hafa fengið örlítið gylltan lit.
  • Berið fram með því sem ykkur lystir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur


-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

Dásamlegar vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlegum vegan vöfflum úr bókhveiti og höfrum. Vöfflurnar eru frábær morgunmatur en á sama tíma fullkomnar að bjóða uppá með síðdegiskaffinu. Toppið með hverju sem ykkur lystir, sultu, rjóma, ávöxtum, jógúrt, hnetum eða ís. Leyfið hugmyndarfluginu að ráða.

Færsla dagsins er í samstarfi við Naturli á Íslandi og í vöfflurnar nota ég bæði vanillu jógúrtina og smjörlíkið frá þeim. Ég nota vörurnar frá Naturli mikið í bakstur og matargerð og finnst bæði smjörlíkið (vegan block) og smjörið (smörbar) bera af þegar kemur að vegan smjöri. Ég er því alltaf jafn stolt að fá að vinna með Naturli.

Undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með að baka úr öðrum tegundum af mjöli en einungins hefðbundu hveiti. Mér hefur þótt það virkilega skemmtilegt og þessar vöfflur komu einmitt úr einni slíkri tilraun. Ég mundi nefnilega að ég hafði fyrir mörgum árum fengið vöfflur á kaffihúsi gerðar úr bókhveiti og í gærmorgun ákvað ég að prófa að útbúa vöfflur úr haframjöli og bókhveiti og útkoman varð þessar virkilega góðu vöfflur sem ég borðaði í morgunmat áður en ég hafðist handa við að baka þær upp á nýtt og mynda ferlið fyrir ykkur.

Hvernig eru bókhveiti og hafravöfflur öðruvísi en þær sem gerðar eru úr hefðbundnu hveiti? Fyrir það fyrsta bragðast þær aðeins öðruvísi þar sem bæði haframjöl og bókhveiti smakkast öðruvísi en hvítt hveiti. Þó þær smakkist ekki nákvæmlega eins fannst mér þær ekki síðri. Ég fékk aðeins meiri “morgunverðarfíling” þegar ég borðaði þær og ætli það sé ekki vegna þess að við tengjum haframjöl oftast við morgunmat. Ég toppaði þær því ekki með sultu og rjóma heldur með jógúrt, hnetusmjöri og ávöxtum svo eitthvað sé nefnt. Ef þú ert frekar í stuði fyrir hefðbundnar vöfflur úr venjulegu hveiti erum við auðvitað með uppskrift af æðislega góðum vegan vöfflum hér.

Nú er haustið að koma, ég finn það. Laufin hérna í Piteå eru farin að skipta um lit og ég finn hvernig ég fyllist lífi í kjölfarið. Ég hlakka til að deila með ykkur gómsætum uppskriftum í haust og vetur. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst erfitt að finna innblástur í matargerð á sumarin. Mér finnst yfirhöfuð erfitt að finna fyrir innblæstri almennt á sumrin og finnst tíminn einhvernveginn standa í stað. Ég fagna því haustsins á hverju ári og finn að hugmyndir af matréttum og bakstri koma svífandi til mín. Hvaðan þær koma veit ég ekki, en ég þakka fyrir pent.

Þema haustsins hér á blogginu verður að miklu leyti matur eldaður frá grunni, matur sem nærir líkama og sál. Matarmiklir réttir stútfullir af grænmeti og baunum og minna af réttum úr tilbúnu vegan kjöti, þó það verði svo sannarlega til staðar líka. Við höfum síðustu ár lagt mikið upp úr að sýna öllum hversu einfalt og gott það er að elda og borða vegan mat. Það er, og hefur, alltaf verið eitt af okkar stóru markmiðum. Að gera mat sem hentar öllum, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Núna í haust viljum við leggja áherslu á að sýna ykkur hversu mikið grænmeti, baunir, tófú, kornvörur og önnu hráefni úr plönturíkinu hafa upp á að bjóða. Fjölbreytileikann sem grænmeti og baunir hafa. Og ekki nóg með það heldur eru það oft þau ódýrustu hráefnin.

En í dag eru það vöfflurnar sem eru í aðalhlutverki. Vöfflur sem ég myndi einmitt segja að næri líkama og sál. Vöfflur sem öll fjölskyldan getur notið í morgunmat og toppað með því sem hverjum og einum þykir best. Sjálf finnst mér best að hafa blöndu af: Sætu, söltu, rjómakenndu, fersku og stökku. Ég held að þetta eigi við um allt sem ég borða. Ferskar jurtir eru mikilvægur partur af öllum mínum máltíðum og ég toppa yfirleitt allan mat með einhverju stökku, hvort sem það eru fræ eða hnetur.

Til að uppfylla öll þessi skilyrði sem ég nefndi hér að ofan toppaði ég vöfflurnar með eftirfarandi:

Eplum og banönum: Sætt og ferskt
Jógúrt: Rjómakennt
Hnetusmjöri: Salt og rjómakennt
Ristuðum möndlum, heslihnetum, hempfræjum og ristuðum kókosflögum: Stökkt (hvaða hnetur og fræ hefðu virkað hérna, ég tók bara allskonar sem ég átti til uppi í skáp)
Kanil: Bara af því hann er svo góður!


Eins og ég segi er þetta eitthvað sem hægt er að leika sér endalaust með og ég mun kannski toppa þær með einhverju allt öðru þegar ég baka þær næst. Mér þætti gaman að heyra hvað þér þykir best á vöfflur?

Ég vona innilega að ykkur líki vöfflurnar og hlakka til að deila með ykkur góðum haustuppskrftum á næstu mánuðum. Endilega heyrið í okkur ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu, við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Hafið það gott! <3

-Helga María

Iljandi vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum

Iljandi vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum
Fyrir: 2-4
Höfundur: Helga María
Þessar dásamlegu vöfflur eru frábær morgunmatur en á sama tíma fullkomnar að bjóða uppá með síðdegiskaffinu. Toppið með hverju sem ykkur lystir, sultu, rjóma, ávöxtum, jógúrt, hnetum eða ís. Leyfið hugmyndarfluginu að ráða.

Hráefni:

  • 100 g bókhveiti (sirka 2 dl)
  • 100 gr mulið haframjöl (sirka 2,5 dl)
  • 1 msk mulin hörfræ eða chiafræ
  • 2 tsk kanill
  • Hafsalt á hnífsoddi
  • 1/4 tsk vanilluduft (má skipta út fyrir vanilludropa)
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl vegan mjólk (má bæta við ef deigið er alveg ótrúlega þykkt, hafið samt í huga að þetta deig er þykkara en hefðbundið vöffludeig)
  • 2,5 dl Joe' kurt vanillujógúrt frá Naturli
  • 50 g vegan block smjörlíki frá Naturli
  • 2 msk hlynsíróp

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja haframjölið í matvinnsluvél eða blandara og myljið.
  2. Myljið hörfæin líka ef þið eigið bara til heil. Ég geri það yfirleitt í kaffikvörn en það virkar auðvitað að nota matvinnsluvél eða blandara.
  3. Setjið í skál ásamt restinni af þurrefnunum og hrærið saman.
  4. Bræðið smjörlíkið og leyfið því að kólna örlítið áður en þið bætið því saman við ásamt restinni af hráefnunum. Mér finnst gott að skilja eftir smá í botninum til að nota til að smyrja vöfflujárnið með. Bætið örlítilli mjólk saman við ef deigið er alveg virkilega þykkt. Passið samt að hræra ekki um of því við viljum ekki að vöfflurnar verði þurrar.
  5. Hitið vöfflujárnið og leyfið deiginu að standa á meðan.
  6. Smyrjið vöfflujárnið með smjörlíki og steikið hverja vöfflu í nokkrar mínútur eða þar til hún hefur fengið gylltan og fínan lit. Ég fékk úr uppskriftinni 4-5 vöfflur.
  7. Berið fram með því sem ykkur lystir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

 
 

Fljótlegur vegan bröns

Núna er komin janúar og þó svo að rútínan fari kannski örlítið hægar af stað á mörgum stöðum sökum ástandsins í samfélaginu finnst mér alltaf gott að huga vel að heilsunni á þessum árstíma. Þessi tími er mér oft erfiður, þegar jólin eru búin, mikið myrkur og leiðinlegt veður og frekar langt í sumarið. Mér finnst hjálpa mér að borða góðan og næringarríkan mat og reyna að búa mér til rútínu sem hentar mér. Ég ætla því að deila með ykkur í dag góðum og næringarríkum bröns sem tekur enga stund að útbúa og er fullkomin um helgar eða til að bjóða vinkonum upp á til dæmis.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna en þar var að byrja í sölu þessar frábæru smoothie skálar sem koma tilbúnar með öllum innihaldsefnum í heila skál í hverjum pakka. Flestir eru líklega farnir að þekkja svona smotthie skálar hér á landi þar sem nokkur fyrirtæki sem selja þær hafa byrjað á síðustu árum en það er alveg æði að geta gert svona fallegar og næringarríkar skálar heima hjá sér.

Ég prófaði Tropical Bowl, Acai skálina og Ocean Bowl og eru þær hver annari betri. Þær eru einnig stútfullar af góðri næringu og eru fullkomin morgunmatur eða millimál einar og sér líka.

Ofan á skálarnar setti ég

  • Banana

  • Jarðaber

  • Bláber

  • Ferskan ananas

  • Almond candy möndlusmjör frá Wholey

  • Granóla

  • Kókosmjöl

Með skálunum ákvað ég að bjóða upp á ristaðar beyglur með rjómaosti, avocado og tómötum sem og þessar hollu bananapönnukökurnar. Pönnukökurnar er mjög einfalt að baka og eru þær hveiti og sykurlausar. Þær er einnig auðvelt að gera glútenlausar með því að skipta út venjulegu haframjöli fyrir glútenlaust haframjöl. Þær eru mjög næringarríkar og henta líka fullkomlega fyrir lítil börn. Ég bar pönnukökurnar fram með Wholey Sh*t súkkulaði og heslihnetusmyrju, jarðaberjum og hlynsírópi en það var alveg guðdómlega gott.

Hollar bananapönnukökur

  • 2 dl fínmalað haframjöl

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 stór banani eða 1 og hálfur lítill

  • 2 msk síróp (t.d. agave eða það síróp sem hver og einn kýs, því má líka alveg sleppa)

  • 2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

Aðferð:

  1. Malið haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að alveg fínu mjöli.

  2. Stappið banana vel niður.

  3. Hrærið öllum hráefnum vel saman í skál.

  4. Steikið upp úr góðri olíu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pönnukökurnar verða fallega gylltar.

-Njótið vel og eigið góða helgi.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fæst allt í uppskriftirnar þar -

 
 

Hátíðlegar morgunverðarbökur úr smjördeigi

IMG_0147.jpg

Nú er innan við vika í að jólin gangi í garð og í nótt fljúgum við Siggi til Noregs og eyðum jólunum með fjölskyldunni hans. Við erum orðin svakalega spennt að komast í smá jólafrí saman eftir annasamt haust. Ég er ekki byrjuð að pakka, en það var mér mikilvægt að koma þessarri færslu frá mér áður en við förum. Ég ætla nefnilega að deila með ykkur uppskrift af dásamlegum fylltum morgunverðarbökum úr smjördeigi sem eru fullkomnar í jólabrönsinn.

IMG_0119.jpg

Ég var búin að ákveða að útbúa einhverja uppskrift með smjördeigi fyrir jólin en var ekki alveg viss hvað ég vildi gera. Við erum nú þegar með geggjaða uppskrift af innbökuðu Oumph! hérna á blogginu og sveppawellington í bókinni okkar. Eins er fjöldinn allur af geggjuðum hugmyndum af wellington á netinu og það er hægt að kaupa nokkrar tegundir tilbúnar. Mér fannst því meira spennandi að gera eitthvað annað en hefðbundinn aðalrétt fyrir jólin. Mér datt í hug að útbúa eitthvað gott og hátíðlegt sem væri hugsað sem morgunmatur/hádegismatur yfir hátíðirnar. Í bökunum eru steiktar kartöflur, tófúhræra, Oumph! og bechamel sósa.

IMG_0123.jpg

Ég prufukeyrði uppskriftina um daginn og sýndi aðeins frá því í Instastory. Þar spurði ég fylgjendur okkar hvaða meðlæti þeim dytti í hug að væri gott með bökunum. Flestir stungu uppá hefðbundnu bröns meðlæti og svo fékk ég allskonar nýjar og skemmtilegar hugmyndir líka. Að lokum sá ég að það skiptir í raun ekki miklu máli hvaða meðlæti ég hef í færslunni, því það er misjafnt hvað fólki þykir gott. Ég ákvað að hafa þetta svolítið eins og stóran og góðan bröns og það var fullkomið.

Í þetta skiptið notaði ég upprúllað kælt smjördeig þar sem ég fann hvergi fryst vegan smjördeig hérna í Piteå. Á Íslandi er þó held ég auðveldara að finna það í frysti en ég hef þó rekist á vegan smjördeig í kæli í Hagkaup. flest keypt smjördeig er vegan því það inniheldur smjörlíki en ekki smjör en það er mikilvægt að lesa á pakkann. Þau merki sem ég veit að fást á Íslandi og eru vegan eru Findus og TC bröd. Það eru örugglega til fleiri tegundir sem ég man ekki eftir.

IMG_0132.jpg

Ég elska að gera smjördeigsbökur í möffinsskúffu. Það er bæði þægilegt að útbúa þær og skemmtilegt að bera þær fram. Það er pottþétt hægt að gera þær fallegri en mér finnst það skipta litlu máli og eiginlega bara betra að hafa þær heimilislegar og fínar.

IMG_0135.jpg

Þetta verður síðasta uppskriftin okkar núna fyrir jólin en ég ælta að gera mitt allra besta að gefa ykkur eina uppskrift á milli jóla og nýárs af desert sem er geggjaður fyrir gamlárskvöld. Við erum með nokkrar uppskriftir á blogginu sem gætu verið góðar sem eftirréttir en svo erum við með uppskrift af risalamande og súkkulaðibúðing í bókinni okkar sem eru hinir fullkomnu hátíðareftirréttir. En eins og ég segi ætla ég að reyna að birta eina fyrir gamlárskvöld.

IMG_0143.jpg

Ég flýg svo til Íslands í byrjun janúar og ég get ekki beðið eftir því að koma heim og halda útgáfuhóf fyrir bókina og gera allskonar skemmtilegt með Júlíu í tilefni veganúar. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi tímum!

Morgunverðarbökur - 12 bökur

  • 6 plötur fryst smjördeig (2 stykki upprúllað smjördeig ef þið kaupið svoleiðis)

  • 1 pakki Oumph! - Ég notaði garlic & thyme

  • 1 tsk liquid smoke (má sleppa en ég mæli með að hafa það með)

  • 300 gr kartöflur

  • Olía til steikingar

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Tófúhræra (uppskrift hér að neðan)

  • Bechamelsósa (uppskrift hér að neðan

Aðferð:

  1. Takið Oumph úr frystinum og leyfið því að þiðna þar til hægt er að skera það í litla bita.

  2. Skrælið kartöflurnar og skerið í litla bita.

  3. Hitið olíu á tveimur pönnum. Ef þið eigið bara eina pönnu geriði þetta hvort á eftir öðru.

  4. Steikið kartöflurnar þar til þær eru mjúkar í gegn. Saltið þær og passið að fylgjast vel með þeim því kartöflur eiga það til að festast svolítið við pönnuna. Takið kartöflurnar af pönnunni og leggið til hliðar þegar þær eru tilbúnar.

  5. Steikið á meðan Oumph uppúr olíu og bætið á pönnuna salti og liquid smoke. Takið af pönnunni og leggið til hliðar þegar bitarnir eru eldaðir í gegn. Ekki þrífa pönnuna.

  6. Bætið aðeins meira af olíu á pönnuna sem þið steiktuð Oumph á og útbúið tófúhræru eftir leiðbeiningunum að neðan.

  7. Útbúið bechamelsósuna eftir leiðbeiningum hér að neðan.

  8. Blandið tófúhrærunni, Oumphinu, kartöflunum og sósunni saman í stóra skál. Saltið ef þarf. Ég salta allt frekar vel á meðan ég geri það og vil hafa þessa blöndu bragðmikla og góða.

  9. Ef þið notið fryst smjördeig mæli ég með að taka það út þannig plöturnar nái að þiðna svolítið áður en það er notað. Þó eiga þær ekki að vera orðnar alveg þiðnar því þá er erfiðara að vinna með smjördeigið. Það er svolítið erfitt að útskýra en þið munuð skilja þegar þið byrjið að vinna með þetta. fletjið hverja plötu aðeins út og skerið í tvennt þannig úr komi tveir ferhyrningar. Ef þið notið upprúllað kælt deig rúllið það út og skerið fyrst í tvennt langsum og svo í þrennt þannig úr komi sex kassar. Þið sjáið á einni af myndunum fyrir ofan hvernig ég gerði. Uppskriftin af fyllingunni passar í 12 bökur.

  10. Bakið við 200°c í 20 mínútur eða þar til þetta er orðið fallega gyllt að ofan.

Tófúhræra

  • 1 pakki tófú (sirka 400-450 gr)

  • olía til steikingar

  • 1 tsk hvítlauskduft

  • 1 tsk laukduft

  • 1/2 tsk túrmerik

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • 1/2 teningur sveppakraftur

  • 3 msk vatn eða sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu.

  2. Opnið tófúið og helið vatninu af því. Myljið tófúið á pönnuna.

  3. Bætið við restinni af hráefnunum og blandið vel saman.

  4. Smakkið til og bætið við kryddum ef þarf.

Bechamelsósa

  • 2 msk smjörlíki

  • 2 msk hveiti

  • 3-4 dl ósæt sojamjólk

  • 2-3 msk næringarger

  • Örlítið af hvítum pipar

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Setið smjörlíki í pott og bræðið.

  2. Bætið hveiti saman við og hrærið vel saman með písk.

  3. Hellið mjólkinni út í 1 dl í einu og hrærið vel á milli.

  4. Bætið næringargeri og kryddum út í og smakkið til.

Hugmyndir af meðlæti:

  • Sveppir steiktir uppúr olíu, hvítlauk og salti

  • Tómatar bakaðir í ofni með olíu, timían, rósmarín, grófu salti og svörtum pipar

  • Bakaðar baunir

  • Klettasalat

  • Vínber

  • Heimagerður kryddostur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

-Veganistur

Fjórir auðveldir chia-grautar

Mér finnst ótrúlega þægilegt að gera mér chia-graut á kvöldin til að taka með mér í vinnuna daginn eftir. Það er svolítið síðan ég byrjaði að búa mér til grauta en fyrst um sinn flækti ég það mikið fyrir mér og grautarnir innihéldu mörg hráefni. Síðan þá hef ég þróað þá mikið og ákvað ég að deila með ykkur hversu einföld uppskriftin er orðin. Hver grautur inniheldur einungis þrjú hráefni. Það eru á markaðnum í dag alls konar tegudnri af plöntumjólk með alls konar mismunandi bragði. Mér finnst tilvalið að nota bragðbætta mjólk í grautinn minn til að auðvelda fjölbreyttni, en þá fæ ég ekki leið á grautnum. Ég ákvað að nota uppáhalds mjólkina mína í þetta skiptið en það er haframjólkin frá sænska merkinu Oatly.

Hefðbundni grauturinn

Þessi grautur er æðislegur og ótrúlega hollur. Vanillan er alls ekki nauðsynleg en hún gerir mjög gott bragð sem passar æðislega við peruna.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly haframjólk

  • Örlítið af lífrænni vanillu (má sleppa)

  • 1/2 pera

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum, mjólkinni og vanillunni. 

  2. Skerið peruna í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í allavega 30 mínútur í ísskáp áður en hann er borðaður. Ég geri minn á kvöldin og læt að bíða í ísskáp yfir nóttina.

 

Bleiki grauturinn

Ótrúlega góður grautur en það að hann sé bleikur gerir hann ennþá betri. 

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly jarðaberja drykkjarjógúrt

  • 1/2 - 1 epli

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og jógúrtinni

  2. Skerið eplið í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í ísskáp í minns 30 mínútur. Ég geri minn á kvöldin og hef hann í ísskápnum yfir nótt.

 

 

 

Suðræni grauturinn

Þessi er uppáhalds grauturinn minn en ég er mjög mikið fyrir mangó. Hann bókstaflega kitlar bragðlaukana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly mangó og appelsínu drykkjarjógúrt (230 ml)

  • 1/2 mangó

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og drykkjarjógúrtinni

  2. Skerið mangóið í litla bita og setjið út í

  3. Leyfið grautnum að sitja í minnst 30 mín í ísskáp. Ég geri minn á kvöldið og leyfi honum að sitja yfir nótt.

 

 

Helgar grauturinn

Þessi grautur er tilvalinn fyrir laugardagsmorgnanna þar sem manni líður bókstaflega eins og maður sé að borða súkkulaðibúðing. Mér finnst súkkulaði og bananar passa fullkomlega saman og þess vegna toppaði ég hann með niðurskornum banana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly súkkulaðimjólk

  • 1/2 - 1 banani

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og mjólkinni.

  2. skerið bananan í litla bita og blandið saman við

  3. Leyfið grautnum að sitja í að minnsta kosti 30 mínútur eða yfir nótt.

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María