Bolludags-gerbollur og þrenns konar fyllingar

Bolludagurinn er að mínu mati mjög góð tilbreyting í hversdagsleikanum svona rétt eftir áramótin. Dagur sem snýst um að gúffa í sig sætabrauði, hver tekur ekki á móti svoleiðis mánudegi fagnandi?
Bollur eru hins vegar oftast ekki vegan, að minnsta kosti ekki þessar sem við þekkjum úr bakaríum og búðum landsins. Það eru þó einhverjir staðir farnir að selja vegan bollur á bolludaginn.

Nú í ár ákvað ég að baka bollur í fysta skipti síðan ég gerðist vegan, og hef því ekki fengið bolludagsbollur í fimm ár.  Ég skil ekkert í mér að hafa ekki prufað að baka þær fyrr því það var virkilega einfalt og bollurnar ótrúlega gómsætar. Ég ákvað að gera gerbollur þar sem ég var með mjög gott gerbolludeig í huga. Bollurnar urðu mjög loftkenndar og mjúkar og hvet ég því alla til að prófa bollubakstur heima þetta árið. Bollurnar má alveg geyma í nokkra daga en þær eru þó lang bestar samdægur

Hráefni:

  • 1 3/4 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr plöntusmjör

  • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 50 gr sykur

  • 250 gr hveiti

Aðferð:

  1. Setjið mjólkina og smjörið í pott og hitið þar til smjörið er bráðnar. Hrærið stanslaust í á meðan.

  2. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna þar til hún er við líkamshita (sirka 37°C). Ég athuga hitan með því að stinga fingrinum ofan í mjólkina en þegar ég finn ekki fyrir neinum hitabreytingum er mjólkin sirka við réttan hita.

  3. Stráið þurrgerinu yfir mjólkina og einni teskeið af sykri og leyfið þessu að standa í tíu mínútur.

  4. Setjið restina af hráefnunum útí og hrærið saman. Hnoðið deigið í dágóða stund annað hvort í höndunum eða í hrærivél. Deigið á að vera heldur blautt en samt auðvelt að meðhöndla með höndunum án þess að það klessist mjög mikið.

  5. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Bollurnar eiga alls ekki að vera of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. Það koma u.þ.b. 12-14 bollur úr deiginu. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í tuttugu til þrjátíu mínútur í viðbót áður en þær eru bakaðar í 15 mínútur við 180°C.

IMG_8563.jpg

Ég ákvað að gera þrjár mismunandi fyllingar í bollurnar að þessu sinni, en það er auðvitað líka hægt að skella bara sultu og rjóma á þær og njóta. Ég mæli með að taka aðeins innan úr bollunum áður en sett er á þær svo rjóminn renni ekki allur út þegar þær eru borðaðar.

Hindberja-chia sulta

  • 2 dl frosinn hindber

  • 1 msk síróp

  • 1 msk chiafræ

  • 1/2 dl vatn

Aðferð

  1. Hitið hindberinn og síróp í potti þar til dágóður vökvi hefur myndast.

  2. Blandið saman chiafræunum og vatni og leyfið því að standa í allavega 10 mínútur. Chiafræin bólgna út og þá verður þetta eins konar hlaup.

  3. Blandið chiahlaupinu út í hindberin þegar þau hafa kólnað.

 

Súkkulaði glassúr

  • 1 dl flórsykur

  • 1 msk kakó

  • vatn

Aðferð

  1. Blandið saman flórsykri og kakó í skál.

  2. Bætið við vatni eftir þörfum sirka 1 msk í einu.

 

Karamella

  • 1/2 dl smjör

  • 1/2 dl sykur

  • 1 dl síróp

  • 1/2 dl plönturjómi (ég notaði hafrarjóma)

Aðferð

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið að sjóða við vægan hita í u.þ.b. 20-30 mínútur og hrærið vel í á meðan.

  2. Leyfið karamellunni og kólna áður en hún er sett á bollurnar en þegar hún kólna þykknar hún.

Ég bar karamellubollurnar fram með soyatoo rjóma, niðurskornum jarðaberjum og jarðaberjasúkkulaðihjúp

 

 

 

Lakkríssósa

  • 1 dl niðurskornar lakkrísreimar

  • vatn

Aðferð

  1. Setjið lakkrísinn í lítinn pott og sirka hálfan dl af vatni.

  2. Hitið þetta þar til lakkrísinn er bráðnaður, en það þarf að hræra vel í á meðan.

  3. Bætið út í vatni á meðan að lakkrísinn bráðnar ef þarf.

Ég bar lakkrísbollurnar fram með soyatoo rjóma, lakkrískurli, súkkulaðispæni og dökkum súkkulaðihjúp.

 

 

Vonandi njótiði vel
-Júlía Sif