Þeytingur með mangó og spínati
/Mér hefur alltaf þótt spínat og kál virkilega bragðgott. Ég borðaði eiginlega allt grænmeti sem barn. Ég man að ég var ekki mikið fyrir tómata og sveppi en það kom með aldrinum. Ég var þó ekki alin upp við að borða grænmeti, ég man hvað ég suðaði oft í mömmu og bað hana að hafa oftar salat með matnum. Það var bara alls ekkert svo algengt á þessum tíma. Þau skipti sem ferskt salat var með matnum var yfirleitt þegar mamma hélt matarboð eða þegar við grilluðum. Ég tengdi því ferskt salat við svokallaðan veislumat.
Þrátt fyrir að vera svo heppin að þykja spínat og grænkál lostæti, eru ekki allir með sama smekk. Mörgum þykir virkilega erfitt að koma fersku salati ofan í sig og það á oft við um börn. Besta lausnin við því er að "plata" ofan í sig grænmetið. Þeytingar eru ein besta leiðin til þess. Þú getur búið til gómsætan banana-berjaþeyting og sett handfylli af spínati útí og treystu mér, þú munt ekki finna bragðið af spínatinu.
Þessi þeytingur er einstaklega frískandi og minnir mig alltaf á sumrið. Eins og ég sagði fyrir ofan er ég mikið fyrir grænmeti og leyfi því að vera svolítið áberandi í mínum þeytingum og söfum. Fyrir ykkur sem eruð minna fyrir bragðið af grænmetinu myndi ég mæla með því að sleppa gúrkunni og láta spínatið nægja. Fyrir ykkur sem finnst frískandi og gott að finna "græna" bragðið er þeytingurinn fullkominn eins og hann er.
Hráefni
1 banani
1 bolli frosið mangó (ananas virkar líka)
Handfylli af spínati
1/4 gúrka
Safi úr 1/2 lime
1/2 tsk túrmerik
Örlítið af svörtum pipar
1-2 bollar vatn (það er virkilega mismunandi hversu þykka fólk vill hafa þeytingana sína. Mér þykir gott að hafa minn svolítið þykkan. Ég mæli með því að setja minna til að byrja með og bæta vatni útí eftir þörfum þar til maður finnur sína þykkt)
Aðferð
Skellið öllum hráefnunum í blandara og blandið þar til hann er silkimjúkur.
Njótið!
Blandari - Blendtec 725
Helga María