Vegan ofnbakað pasta með pestó og rjómaosti
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og gómsætum ofnbökuðum pastarétti með grænu pestói og rjómaosti. Pastarétturinn er einstaklega þægilegur og þarfnast lítillar sem engrar fyrirhafnar þar sem pastað eldast í pestórjómasósunni í ofninum. FULLKOMIÐ!
Uppskrift dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og í pastaréttinn notaði ég bæði Violife creamy original rjómaostinn og Violife prosociano parmesan ostinn frá þeim. Ákvörðunina að nota parmesanostinn tók ég mjög skyndilega þar sem ég átti hann til í ísskápnum og þessvegna eru umbúðirnar ekki sjáanlegar. Svona líta þær út fyrir ykkur sem hafið ekki séð hann áður. Við systur elskum ostana frá Violife og notum þá daglega í bæði matargerð og ofan á brauð. Við erum því alltaf jafn stoltar og glaðar að fá að vinna með þeim.
Ef þið hafið ekki prófað að baka pasta í ofni mælum við mikið með því að prófa það. Það gerist virkilega ekki einfaldara. Ég kaus að steikja kúrbítinn á pönnu á meðan pastað fékk að malla í ofninum og bætti því svo við pastað ásamt spínatinu þegar stutt var eftir af eldunartímanum. Það gerði ég svo að grænmetið yrði ekki of maukað. Það var í raun það eina sem ég gerði á annarri pönnu, en þar sem ég gat gert það á meðan pastað var í ofninum tók það enga stund.
Að lokum útbjó ég kasjúhnetuparmesan sem ég setti ofan á réttinn þegar ég hafði bætt grænmetinu út í og leyfði réttinum svo að bakast í svolitla stund í viðbót. Ég bókstaflega elska kasjúparmesan. Ég gæti sett hann á allt. Ég geri hann einfaldlega með því að mixa saman kasjúhnetur, næringarger, laukduft, hvítlauksduft og salt. Svo gómstætt. Það má sleppa honum eða skipta út fyrir rifinn ost fyrir ykkur sem eruð með ofnæmi eða nennið ekki að gera kasjúparmesan. Það er líka mjög gott.
Takk kærlega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Elskið þið “one pot” pastauppskriftir? Kíkið þá á þetta gómsæta ofnbakaða pasta með rauðu pestói.
-Helga María
Ofnbakaður vegan pastaréttur með grænu pestói og rjómaosti
Virkilega einfaldur og góður pastaréttur sem fær að malla í ofninum án mikillar fyrirhafnar!
Hráefni:
- 500g pasta
- 850 ml vatn
- 1,5 grænmetiskraftur
- 1 askja Violife creamy original rjómaostur
- 1 krukka vegan grænt pestó
- 1 kúrbítur
- 150 gr spínat
- 3 hvítlauksgeirar
- 50 violife prosociano parmesanostur
- sítrónusafi og börkur af hálfri sítrónu
- Salt og pipar
- Kasjúparmesanostur (má sleppa)
Aðferð:
- Setjið pasta, vatn, grænmetiskraft, hvítlauk, sítrónusafa, sítrónubörk, salt og pipar rjómaost og pestó í eldfast mót. Setjið álpappír yfir og eldið við 200°c í 30 mínútur. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
- Sneiðið niður kúrbítinn og steikið á pönnu á meðan þar till hann fær á sig smá gyltan lit.
- Takið eldfasta mótið út úr ofninum, bætið kúrbít, spínati og parmesanosti út og hrærið saman. Stráið kasjúparmesanosti yfir (má líka vera rifinn vegan ostur) og bakið í sirka 20 mínútur í viðbót og hrærið í þegar tíminn er hálfnaður. Það fer svolítið eftir pastanu hversu langan tíma það tekur þannig fylgist með og leyfið því að vera aðeins lengur ef þarf. Ég notaði rigatoni og það þarf svolítið langan tíma. Saltið og piprið meira ef þarf.
- Berið fram með t.d. góðu brauði og njótið.
-Þessi uppskrift er í samstarfi við Violife á Íslandi-