Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Úr deiginu koma tvær lengjur svo það er hægt að gera fleiri tvær tegundir af fyllingu. Kanillengjan er skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Uppskriftin af sjálfu brauðinu er hefðbundin kanilsnúðauppskrift. Það er því ekkert mál að gera snúða í staðinn. Ég mæli þó auðvitað með því að þið prófið að gera kanillengju. Hún er svooo góð.

Ég hnoða deigið í hrærivél og leyfi því svo að hefast í sirka klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð. Mitt tips er að hafa deigið ekki of þurrt. Það á að fá glansandi áferð og vera svolítið klístrað án þess að festast við fingurinn þegar honum er potað í deigið. Athugið að hafa fingurinn hreinan því ef það er nú þegar deig á honum þá festist allt auðveldlega.

Fyllinguna gerði ég úr smjörlíki, púðursykri, kanil og hlynsírópi. Ég stráði svo yfir niðurskornum pekanhnetum. Virkilega góð og passar fullkomlega í lengjuna. Þar sem uppskriftin gefur tvær lengjur finnst mér gaman að gera mismunandi fyllingu og finnst geggjað að setja til dæmis vegan nutella og hakkaðar heslihnetur. Ég get trúað því að bláberjasulta passi vel og þá myndi ég trúa því að það sé gott að gera sítrónuglassúr og setja ofan á. Í raun eru möguleikarnir endalausir.

Þegar ég var búin að rúlla upp deiginu skar ég það langsum svo úr komu tvær lengjur. Ég lét sárin snúa upp og fléttaði deigið saman og festi saman við endana.

Ef þið hafið áhuga á fleiri snúðauppskriftum mælum við mikið með þessum geggjuðu kanilsnúðum með eplum og rjómaostakremi.

Ég lagði deigið í brauðform sem ég hafði klætt með smjörpappír og leyfði því að hefast aftur í sirka klukkutíma. Því næst bakaði ég lengjuna í ofninum og á meðan hún bakaðist gerði ég síróp úr vatni og sykri sem ég penslaði svo yfir um leið og ég tók lengjuna úr ofninum. Það getur kannski litið út eins og það sé erfitt að gera kanillengju en í raun er það virkilega einfalt. Það erfiðasta er að bíða á meðan hún kólnar svo hægt sé að bera hana fram. Hún má auðvitað vera svolítið volg ennþá en það er gott að leyfa henni að kólna vel áður en hún er skorin.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þér líki uppskriftin vel! <3

-Helga María

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Hráefni:

  • 350 gr hveiti
  • 350 gr brauðhveiti (má skipta því út fyrir venjulegt hveiti)
  • 10 gr þurrger
  • 150 gr sykur (plús 1 dl til að gera síróp)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 tsk salt
  • 4 dl vegan mjólk
  • 100 gr smjörlíki
Fylling (passar fyrir tvær lengjur)
  • 200 gr smjörlíki við stofuhita
  • 1 og 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk hlynsíróp
  • 2 msk kanil
  • 2 dl niðurskornar pekanhnetur

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti. Bætið mjólkinni út í og leyfið blöndunni að ná 37°c. Hellið í hrærivélarskál.
  2. Stráið þurrgeri í mjólkina, hrærið því við og leyfið að standa í nokkrar mínútur þar til myndast froða ofan á.
  3. Bætið sykri og salti út í og hrærið saman við.
  4. Hellið helmingnum af hveitinu út í og hnoðið í hrærivélinni þar til hráefnin hafa blandast vel saman. Bætið þá restinni af hveitinu út í og hnoðið með hrærivélinni í 10 mínútur. Deigið á að sleppa frá skálinni.
  5. Smyrjið örlítilli olíu í aðra skál og færið deigið yfir í hana. Leggið viskastykki eða plastfilmu yfir og leyfið að hefast í klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
  6. Hitið ofninn í 180°c á undir og yfir hita.
  7. Takið loftið úr deiginu þegar þið hafið hefað það með því að smyrja örlítilli olíu á handarbakið og þrýstið krepptum hnefa létt í deigið.
  8. Færið deigið á borð og deilið því í tvennt. Byrjið á því að gera aðra lengjuna með því að fletja út deigið þar til það er um 1/2 cm þykkt. Sjá mynd að ofan til að sjá hvernig deigið mitt leit út. Smyrjið fyllingunni á og stráið yfir niðurskornum pekanhnetum.
  9. Rúllið upp deiginu og skerið í tvennt langsum svo úr komi tvær lengjur. Látið sárin snúa upp og fléttið þeim saman og festið við endana.
  10. Gerið hina lengjuna og setjið á þá fyllingu sem þið viljið hafa.
  11. Færið lengjurnar varlega yfir í sitt hvort hrauðform klætt með smjörpappír og bakið í 40-50 mínútur eða þar til þær eru bakaðar í gegn og hefur fengið fallegan lit að ofan. Það er auðvitað hægt að leggja þær á bökunarplötu ef þið eigið ekki brauðform.
  12. Á meðan þið bakið lengjurnar er tilvalið að gera sírópið sem þið penslið yfir þær þegar þær koma úr ofninum. Það er gert með því að blanda 1 dl sykri og 1 dl vatni í pott og hita á hellu þar til sykurinn hefur leyst upp.
  13. Takið lengjurnar út og penslið yfir þær. Leyfið þeim að kólna áður en þær eru skornar.
Fyllingin
  1. Þeytið saman smjörlíki, sykri, kanil og hlynsírópi.
  2. Skerið pekanhneturnar niður
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur