Vegan döðlukaka með karamellusósu

IMG_2588.jpg

Uppskrift dagsins er af döðluköku með heitri karamellusósu. Þessi kaka kallast á ensku “Sticky toffee pudding” og er alveg dásamlega góð og með karamellusósunni og ísnum er þetta held ég bara besti desert sem ég hef smakkað lengi. Ég hlakka mikið til að bjóða upp á þessa köku næst þegar ég held matarboð.

IMG_2552.jpg

Þegar maður sér orðið “döðlukaka” hugsa margir eflaust fyrst að um sé að ræða holla hráköku. Ég hef allavega lengi tengt döðlur við sykurlausan bakstur og hráfæðinammi, en þessi kaka er langt frá því að vera sykurlaus eða hrá. Upprunalega ætlaði ég mér að gera eitthvað allt annað fyrir bloggið þessa viku, en svo var okkur send fyrirspurn á Instagram í síðustu viku um hvort við gætum gert uppskrift af vegan döðluköku. Ég tók þessari áskorun fagnandi og er ekkert smá ánægð með það. Ég er eiginlega hissa á að mér hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Eins og ég hef sagt áður þykir mér gríðarlega vænt um að fá hugmyndir frá ykkur að uppskriftum til að baka eða elda og verð alltaf mjög spennt þegar ég fæ áskorun um að útbúa eitthvað nýtt.

IMG_2555.jpg

Ég held ég hafi aldrei bakað jafn mikið á jafn stuttum tíma og ég hef gert síðustu vikur. Ég er búin að baka möndluköku þrisvar og bakaði marmarakökuna tvisvar áður en ég birti hana á blogginu. Ég hélt svo afmælisveislu síðustu helgi og bakaði fyrir hana súkkulaðiköku, gulrótarköku og tvo skammta af súkkulaðibitamöffins. Svo á sunnudagskvöld ákvað ég að baka marmarakökuna aftur og sýna á Instastory. Ég er svo búin að baka þessa döðluköku bæði í gær og í dag og á núna fullan frysti af kökum. Ég þarf að vera duglegri að gefa frá mér það sem ég baka svo ég endi ekki á því að borða það allt sjálf. Allar kökurnar sem ég nefni eru að sjálfsögðu hérna á blogginu.

Eins og ég sagði bakaði ég döðlukökuna líka í gær. Ég hafði verið með hugmynd í hausnum um hvernig ég ætlaði að baka hana og var svo bjartsýn að ég ákvað að baka hana í fyrsta sinn og taka myndir fyrir bloggið á sama tíma. Það endaði þannig að ég var mjög óörugg í bakstrinum og myndirnar urðu alls ekki góðar heldur. Í dag er ég mjög fegin að hafa þurft að endurtaka leikinn því þetta gekk miklu betur í dag og bæði kakan og myndirnar komu mun betur út.

IMG_2572.jpg

Þegar ég bakaði kökuna í gær hélt ég fyrst að hún hefði misheppnast, en áttaði mig á því aðeins seinna að svo var ekki. Þegar ég skar hana var hún enn svolítið heit og leit út fyrir að vera svolítið óbökuð í miðjunni. Þó hafði ég stungið í hana og gaffallinn kom hreinn út svo ég skildi ekki alveg af hverju hún var svona klístruð að innan. Ég varð í smá stund alveg hundfúl yfir þessu en þegar kakan hafði kólnað sá ég hvernig hún var nú bara alveg bökuð í gegn. Það var þá sem ég áttaði mig á því að döðlurnar í kökunni gera hana klístraða, og að hún var fullkomlega vel bökuð. Ég hló í svolitla stund að sjálfri mér, bæði því ég hefði átt að fatta þetta, en líka því ég er svo fljót stundum að verða dramatísk. Ég bakaði svo kökuna í dag meðvituð um þetta og hún varð fullkomin.

IMG_2574.jpg

Eitt sem ég breytti þó í dag, sem fór aðeins úrskeiðis í gær er karamellusósan. Í gær varð hún nefnilega rosalega þykk hjá mér svo ég passaði að það gerðist ekki í dag. Málið er að það tekur svolítinn tíma fyrir hana að þykkna og mér fannst ég standa og hræra í henni mjög lengi án þess að nokkuð gerðist, en svo skyndilega byrjaði hún að þykkna og varð rosalega þykk á stuttum tíma. Ekki misskilja mig, sósan var svo góð að ég hefði getað borðað hana með skeið, en það gekk ekkert rosalega vel að hella henni yfir kökuna. Í dag gerði ég uppskriftina alveg eins, en passaði mig að láta hana ekki þykkna svona svakalega. Ég stóð því og hrærði í henni og tók vel eftir því þegar hún fór að þykkna og tók hana af hellunni um leið og hún var komin með þá áferð sem ég vildi.

Ég er mjög ánægð með þessa útkomu og vona svo innilega að ykkur líki vel. Ég hlakka líka til að deila með ykkur uppskriftunum sem eru væntanlegar á næstunni, ég hef ekki verið í svona miklu bloggstuði lengi og vona að það haldist hjá mér. Ég er líka að reyna að vera dugleg á Instagram og þætti mjög vænt um að þið mynduð fylgja okkur þar! <3

IMG_2583.jpg

Hráefni:

  • 250 gr þurrkaðar döðlur

  • 3 dl vatn

  • 1 tsk matarsódi

  • 100 gr smjörlíki við stofuhita

  • 130 gr púðursykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 msk eplaedik

  • 1 dl jurtamjólk


Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Saxið döðlurnar gróft niður og setjið í pott ásamt vatni og sjóðið á lágum hita í 5 mínútur eða þar til þær hafa mýkst svolítið.

  3. Takið þær af hellunni og stappið vel með gaffli, eða kartöflustappara. Það er líka hægt að mauka þær með töfrasprota eða matvinnsluvél, en mér finnst nóg að stappa bara með svona kartöflustappara.

  4. Stráið matarsóda yfir döðlumaukið og blandið honum vel saman við og leyfið að standa í smá stund. Ég geri þetta bara í pottinum sem ég sauð þær í. Maukið mun freyða svolítið þegar matarsódinn er kominn í.

  5. Þeytið smjörlíki og púðursykur þar til blandan er orðin létt og svolítið ljós. Bætið svo restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

  6. Smyrjið kökuform. Ég nota eiginlega alltaf kringlótt smelluform sem er 20 cm að stærð og eru uppskriftirnar mínar oftast akkúrat passlegar í það. Ef þið eruð að nota miklu stærra form myndi ég tvöfalda uppskriftina. Ég á t.d eitt 26 cm form sem ég nota voða sjaldan og ég myndi held ég gera þessa uppskrift tvöfalda í það. Ég klippi líka út smá smjörpappír og set í botninn, bara því mér finnst það svo þægilegt.

  7. Bakið kökuna í 40-50 mínútur. Minn ofn er ekki með blæstri og ég bakaði mína köku í 50 mínútur. Ég byrjaði þó að fylgjast með henni eftir 35 mínútur til að vera viss.

Karamellusósa:

  • 1 og 1/2 dl Alpro sojarjómi

  • 120 gr smjörlíki

  • 120 gr púðursykur

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Setjið allt í pott og hrærið vel saman.

  2. Látið suðuna koma upp og hrærið reglulega í pottinum þar til þið fáið þá áferð sem þið viljið. Ég vildi ekki hafa mína of þykka og passaði því í þetta skiptið að hræra ekki alltof lengi. Ég þurfti samt að sýna svolitla þolinmæði því það tók nokkrar mínútur fyrir sósuna að byrja að þykkna, en þegar það gerðist þá þykknaði hún mjög hratt.

Tips: Kakan er ótrúlega góð ein og sér með karamellusósunni, en Guð minn góður hvað vegan vanilluísinn fullkomnaði hana. Mæli því mikið með að kaupa einhvern góðan vegan ís og bera fram með henni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið njótið. Við höfum verið að fá margar myndir á Instagram uppá síðkastið frá fólki sem hefur verið að elda og baka uppskriftir frá okkur, og okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Veganistur <3