Svo kom að því að ég gat keypt mér nýja myndavél. Það var seinasta haust. Ég gat þó ekki keypt mér dýra vél en fann á tilboði Canon EOS 200d sem er bara þessi hefðbundna Canon vél. Skjárinn er mun stærri en á þeirri gömlu, ég get tekið hann út og snúið honum, tekið upp myndbönd og notast við snertiskjá ef ég vil (ekkert af þessu var hægt á hinni). Auk þess eru gæðin miklu betri en á þessari gömlu. Ég notast enn við 50 mm linsuna mína og elska hana. Í desember keypti ég mér svo aðra borðfilmu sem þessar myndir eru teknar á.
Í janúar gaf gamla tölvan mín sig og með hjálp bróður míns keypti ég mér nýja Macbook tölvu eftir að hafa notað hina í 9 ár. Skyndilega gat ég unnið myndirnar í alvöru Lightroom forriti og þurfti ekki að endurræsa tölvuna tvisvar á meðan ég vann myndirnar og bloggaði. Ég viðurkenni að við þetta jókst ánægjan mín af því að mynda og blogga gríðarlega. Með tímanum hef ég líka eignast meira af fallegum diskum og öðrum “props” sem flott er að mynda á. Að lokum keypti ég mér ódýrt matarborð úr viði og við Siggi pússuðum það til og notuðum á það dökkan viðarbæs. Ég vildi að borðið liti svolítið vel notað út svo við höfum gert ýmislegt til að “skemma” það. Borðið nota ég þegar ég vil hafa myndirnar svolítið meira “moody”. Ég er mjög ánægð með útkomuna og nú loksins eftir allan þennan tíma líður mér eins og ég hafi í höndunum góð tól til að hjálpa mér að bæta mig í að taka myndir.
Ég get þó sagt ykkur að það sem hefur kennt mér mest er að læra sjálf að vinna myndir og skilja hvernig myndavélin virkar. Ég hefði getað átt allt það flottasta og fínasta en það eitt hefði ekki hjálpað mér að taka flottar myndir. Ég er alltaf að læra og núna uppá síðkastið hef ég dembt mér í að skilja betur hvernig ég vinn myndirnar mínar og ég veit að ég á enn margt ólært. Eins hef ég fundið mína eigin “rödd” með því að hætta að bera bloggið okkar saman við blogg annarra. Ég var lengi óörugg og þótti allir betri en ég og það eru vissulega margir betri en ég og munu alltaf vera það, en það hjálpaði mér alls ekki að skoða önnur blogg og bera mig saman við aðra. Með tímanum varð ég meira örugg og í dag skoða ég myndir annarra til að fá innblástur og til að dást af þeim, en ekki til að draga mig niður. Það hefur breytt miklu.
En jæjaaa.. nú kemur uppskriftin!