Pikklaður rauðlaukur

Pikklaður rauðlaukur

Pikklaður rauðlaukur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 Min: 15 Min
Pikklaður rauðlaukur er ómótstæðilega góður og hentar með nánast hverju sem er. Það er virkilega einfalt að gera hann heima og endist hann vel í lokuðu íláti í ísskáp.

Hráefni:

Aðferð:

  1. Skerið laukinn niður í þunna strimla. Ekki saxa hann. Ég sker hann í tvennt og svo í strimla.
  2. Blandið sykri, vatni og ediki saman í pott og látið hitna þannig að sykurinn leysist upp.
  3. Setjið laukinn í hreina krukku og hellið vökvanum yfir.
  4. Látið standa í klukkustund.
  5. Laukurinn geymist í allt að 2 vikur í ísskáp.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Tandorri tófúspjót með vegan raita og pönnubrauði

Einföld Tandorri tófúspjót sem eru svo ótrúlega gómsæt og svíkja engan.

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af tandorri tófúspjótum sem hægt er anars vegar að baka í ofni eða skella á grillið. Þessi spjót er svo ótrúlega einfalt að útbúa en bragðast alveg lygilega vel. Ef þið eruð mikið fyrir indverskan mat líkt og við systur verðið þið alls ekki svikin af þessum gómsætu spjótum. Við notuðum æðislega tófúið frá YIPIN en það passar einstaklega vel þar sem það er “extra firm” og heldst þar af leiðandi fullkomlega á grillspjótunum.

Tadorri tófúspjót með pönnubrauði og raita

Tadorri tófúspjót með pönnubrauði og raita
Fyrir: 2
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 30 MinEldunartími: 30 Min: 2 Hour: 3 Hour
Ótrúlega einföld tandorri spjót sem hægt er annað hvort að baka í ofni eða skella á grillið.

Hráefni:

Tandorri tófúspjót
Vegan raita
Einfalt pönnubrauð

Aðferð:

Tandorri tófúspjót
  1. Blandið saman í skál gríska jógúrtinu, tandorri kryddiblöndu, salti og pressuðu hvítlauksrifi.
  2. Skerið hvorn kubb af tófúi í 9 frekar stóra bita
  3. Setjið tófúið út í jógúrtið og veltið því upp út svo það hylji vel.
  4. Setjið plastfilmu yfir og marenerið í ísskáp í að minnsta kosti 2 klukkutíma.
  5. Setjið kubbana á 3-4 grillspjót og bakið í ofni við 210°C í 15 mínútur, takið spjótin út og snúið þeim við og bakið í 15 mínútur í viðbót.
  6. Einnig má grilla spjótin en þá er gott að velta þeim aðeins um svo þau grillist á öllum hliðum.
Vegan raita
  1. Blandið öllum hráefnum saman í skál og hrærið saman.
Einfalt pönnubrauð
  1. Hitið pönnu á frekar háum hita
  2. Blandið saman þurrefnunum.
  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.
  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.
  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.
  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega sumarlegu pastasalati. Þetta salat er virkilega bragðmikið og hentar fullkomlega á sumardegi, hvort sem það er í hádeginu, kvöldmat eða sem millimál. Salatið geymist einnig vel í kæli og er því tilvalið að eiga það til að grípa með sér.

Í salatinu eru alls konar hráefni sem saman gera það einstaklega bragðgott. Ég ákvað að nota stökka bacon bita en þeir eru bragðmiklir og innihalda vel af próteini. Síðan setti ég fetaost til að fá smá “creamy” áferð og milt bragð á móti beikon bitunum. Ferskjurnar bæta síðan við sætu og toppaði ég það síðan með ótrúlega bragðgóðri salat dressingu frá hagkaup sem er slgjört must.

Ég elska svona rétti sem hægt er að gera mikið af í einu og eiga afgang í nesti daginn eftir en þetta salat er einnig alveg fullkomið til að eiga í ísskápnum til að grípa í. Það geymist mjög vel og er gott í tvo daga í ísskáp eftir að það er búið til. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur sem tekur enga stund að græja.

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu
Fyrir: 4
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 12 Hour: 22 Hour
Virkilega sumarlegt og einfalt pastasalat með stökkum "beikon" bitum, ferskjum, vegan fetaosti, fersku grænmeti og hvítlauks vinagrette dressingu.

Hráefni:

  • 300 gr pastaslaufur
  • 150 gr vegan bac*n bits frá oumph
  • sirka 15 gr af vegan smjöri
  • 1 pakki vaxa salatblanda
  • 1 lítill kassi kirsuberjatómatar
  • 1/3 gúrka
  • 1/3 violife fetaosta kubbur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 þroskaðar ferskjur
  • 1 flaska hvítlauks vinagrette dressing frá stonewall kitchen

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningunum á pakkningunum. Kælið pastað vel með köldu vatni þegar það er alveg soðið.
  2. Steikið bac*n bitana upp úr vegan smjöri þar til þeir verða smá stökkir. Setjið til hliðar.
  3. Saxið salatið niður. Skerið gúrkuna, ferskjurnar og fetaostin í kubba. Skerið tómatana og tvennt og saxið rauðlaukinn í mjög þunnar sneiðar.
  4. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið. Hellið sósunni yfir og hrærið vel saman við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin þar -

 
 

Sítrónuostakaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætri og sumarlegri sítrónuostaköku sem slær svo sannarlega í gegn. Kakan hefur virkilega gott sítrónubragð en er á sama tíma mátulega sæt og ekkert smá loftkennd og mjúk. Þessa ostaköku er hinn fullkomni eftirréttur, til dæmis eftir grillmat en hún hentar einnig fullkomlega á veisluborðið eða bara með kaffinu.

Það sem er best við þessa uppskrift er að það þarf ekki að frysta kökuna og best er að útbúa hana í fati eða öðru fallegu móti sem hægt er að bera hana fram í. Það er virkilega einfalt að útbúa kökuna og hana má bera fram samdægurs.

Kakan er svo fallega gul og því er auðvelt að skreyta hana smá til að hún verði mjög falleg á borði og gerir liturinn hana ekkert smá sumarlega. Ég notaði einungis sítrónu sneiðar og smá mynntu til að skreyta mína og kom það mjög fallega út.

Sumarleg sítrónuostakaka

Sumarleg sítrónuostakaka
Höfundur: Veganistur
Sumarleg sítrónuostakaka sem er virkilega gómsæt. Þessi kaka er fullkomin eftirréttur eftir grillmatinn eða bara með kaffinu hvenær sem er. Kökuna er hægt að útbúa sama dag og á að bera hana fram

Hráefni:

Kexbotn
  • 200 gr digestive hafrakex
  • 70 gr bráðið vegan smjör eða smjörlíki
Ostakökufylling
  • 250 ml (1 ferna) oatly þeytirjómi
  • 2 öskjur oatly rjómaostur
  • 1 dl flórsykur
  • börkur af 1 sítrónu
  • safi úr 1/2 sítrónu
Sítrónugljái
  • 1 dl mjólk
  • safi úr 3 sítrónum
  • börkur af 1 sítrónu
  • 1 dl flórsykur
  • 2 msk hveiti

Aðferð:

Kexbotn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður
  2. Bræðið smjörið og hellið út í og blandið aðeins saman
  3. Setjið í botnin á fati eða kökuformi og þrýstið niður í botninn
  4. Geymið í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna
Ostakökufylling
  1. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til hann verður stífþeyttur
  2. Bætið rjómaostinum, flórsykrinum, sítrónusafanum og sítrónuberkinum út í og þeytið aðeins lengur
  3. Hellið yfir kexbotnin of dreifið jafnt yfir formið
  4. Setjið í kæli á meðan þið útbúið sítrónugljáan
  1. Hristið saman mjólkina og hveitið þannig það verði ekki kekkjótt.
  2. Setjið öll hráefnin saman í pott og hitið að suðu
  3. Sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til það þykknar örlítið
  4. Setjið í breiða, grunna skál og leyfið gljáanum að kólna í 30 mínútur áður en þið hellið honum varlega yfir kökuna.
  5. Kælið kökuna í að minnsta kosti 2 klst áður en þið berið hana fram
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Brauðterta með baunasalati

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af klassískri brauðtertu með vegan útgáfu af hangikjöts- og baunasalati í samstarfi við ORA. Þessa brauðtertu má ekki vanta á hvaða veisluborð sem er sem og á hátíðisdögum.

Ég notast við blandað grænmeti frá ORA sem er lykilatriði í baunasalatinu og “bacon bites” til að fá smá reykt bragð í salatið. Þetta salat er virkilega einfalt og má vel bera fram eitt og sér með kexi eða brauði.

Ég elska að bera fram klassíska íslenska rétti sem eru hefðir fyrir í veislum og á hátíðisdögum og eru veisluréttir líkt og brauðtertur iðulega það sem slær mest í gegn. Eins og flestir sem hafa fylgt okkur lengi vita elskum við að deila með ykkur alls konar uppskriftum af veislumat og mæli ég með að þið kíkið einnig á þessa brauðtertuuppskrift sem er virkilega góð.

Brauðterta með baunasalati

Brauðterta með baunasalati
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 Min: 15 Min
Vegan útgáfu af klassískri brauðtertu og "hangikjöts" og baunasalati

Hráefni:

  • 1 dós blandað grænmeti frá ORA
  • 1 dl bacon bites frá Oumph
  • 100 gr vegan majónes (+ 2 msk til að smyrja tertuna)
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt
  • 3 sneiðar brauðtertubrauð
  • Grænmeti eftir smekk til að skreyta

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál majónesinu og sýrða rjómanum
  2. Bætið út í blandaða grænmetinu, beikon bitunum og salti og hrærið saman
  3. Smyrjið helmingnum af salatinu á brauðtertu brauðsneið og setjið aðra ofan á. Smyrjið restinni af salatinu og lokið síðan með þriðju sneiðinni
  4. Smyrjið vegan majónesi ofan á og á allar hliðar tertunnar
  5. Skreytið með fersku grænmeti og kryddjurtum eftir smekk
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við ORA -

Spæsí buffaló vöfflur með nöggum

Næsta laugardag, 25.mars er alþjóðlegi vöffludagurinn og því deilum við með ykkur í dag gómsætri útfærslu af vöfflum með spæsí buffaló nöggum, “ranch” sósu og fersku grænmeti.

Við erum í samstarfi með Hagkaup og því ákvað ég að fara og þangað og athuga úrvalið af vöfflujárnum. Þar sá ég að þau eru að selja vöfflujárnið sem ég var búin að dreyma um lengi en það er járn frá merkinu Wilfa, en það gerir fullkomnar, stórar vöfflur sem henta einstaklega vel í svona “matar”vöfflur.

Ég gerði hefðbundnu uppskriftina okkar af vöfflum sem klikkar aldrei og úr henni komu um það bil 6 stórar vöfflur. Ég ákvað að gera “ranch” dressingu sem er mild og bragðgóð með alls konar kryddjurtum en hún passar fullkomlega á móti buffaló sósunni sem ég notaði á naggana.

Ég ákvað að kaupa naggana frá merkinu peas of heaven en þeir eru soja lausir sem hentar einstaklega vel þar sem dóttir mín er með soja óþol. Það er hins vegar mjög mikið úrval af góðum vegan nöggum í Hagkaup og þessi uppskrift passar með flestum þeirra.

Uppskriftina af vöfflunum sjálfum má finna hér.

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum
Fyrir: 3 stórar vöfflur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 16 Hour: 26 Hour
Einstaklega góðar "matar" vöfflur með spæsi buffaló nöggum, "ranch" sósu og grænmeti.

Hráefni:

Spæsí buffaló vöfflur
  • 3 vöfflur
  • 1 pakki Peas of heaven naggar
  • sirka 1 dl Frank RedHot wings buffaló sósa
  • "Ranch" sósa
  • Fersk salat
  • 1 avócadó
  • 1/2 rauðlaukur
  • Ferskur kóríander
  • Lime
Ranch sósa
  • 2 dl vegan majónes
  • 2 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk niðursaxaður graslaukur
  • 1 tsk dill
  • 1 tsk þurrkuð steinselja eða kóríander
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Gerið vöffludeigið tilbúið
  2. Setjið naggana í ofninn við 200°C og bakið í 16 mínútur
  3. Útbúið "ranch" sósuna eftir uppskrift hér að neðan á meðan að naggarnir bakast
  4. Hitið vöfflujárnið vel og bakið síðan vöfflurnar
  5. Þegar naggarnir eru tilbúnir setjið þá í skál, hellið buffalósósunni yfir og veltið þeim vel upp úr henni.
  6. Skerið rauðlaukinn og avócadóið í þunnar sneiðar
  7. Setjið Ranch sósu, salat, rauðlauk, avócadó, nagga, ferskan kórander og lime sósu á hverja vöfflu.
Ranch sósa
  1. Saxið graslaukinn
  2. Hrærið öllu saman í skál og smakkið til salti og pipar
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Mexíkóskt maískornasalat

Í dag deilum við með ykkur gómsætu og einföldu maískornasalati sem inniheldur papríku, chilli, rauðlauk, kóríander og lime. Þetta bragðmikla salat passar fullkomlega með mexíkóskum mat og grillmat til dæmis.

Salatið er ótrúlega einfalt og tekur aðeins nokkrar mínútur að græja, en það gerir hvaða máltíð sem er ótrúlega góða. Það er einnig einfalt að skipta út grænmetinu fyrir það grænmeti sem hver og einn á til hverju sinni en sú blanda sem er hér, er að okkar mati sú fullkomna.

Uppskriftin er í samstarfi við ORA en það vörumerki þekkja lang flestir íslendingar mjög vel. Maískornin frá ORA má alls ekki vanta í allan mexíkóskan mat að okkar mati og er þetta salat mjög einföld og fljótleg leið til að gera maískorn einstök og spennandi.

Ein af mínúm uppáhalds leiðum til að bera fram salatið er í litlum tacos með til dæmis vegan hakki og guacamole. Það er virkilega einföld en góð máltíð sem lítur út fyrir að vera mjjög “fancy” og er einstaklega gaman að bjóða upp á.

Mexíkóskt maísbaunasalat

Mexíkóskt maísbaunasalat
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 5 Min: 15 Min
Einfalt og gott maískornasalat sem hentar til dæmis með mexíkóskum mat eða alls konar grillmat.

Hráefni:

  • 1 dós ORA Maískorn
  • 1/2 msk vegan smjör eða smjörlíki til steikingar
  • 1/4 rauð papríka
  • 1/4 rauðlaukur
  • 1/2 rautt chilli (takið fræin úr)
  • 1/2 dl ferskt kóríander (má sleppa)
  • safi úr hálfri lime
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • 1 kúfull msk majónes
  • 1 kúfull msk vegan sýrður rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið maísbaunirnar á pönnu uppúr vegan smjöri eða smjörlíki og salti í nokkrar mínútur eða þar til kornin byrja að verða fallega gyllt hér og þar
  2. Setið maískornin í skál og leyfið að kólna aðeins á meðan þið undirbúið restina af grænmetinu
  3. Saxið niður grænmetið og blandið saman við maískornin ásamt restinni af hráefnunum.
  4. Hrærið saman og smakkið til með salti og pipar.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við ORA -

Fylltir kleinuhringir með Violife súkkulaðismyrju

Það er ekkert betra, að mér finnst, en að eyða frídögum og helgum í að baka eitthvað gómsætt. Sérstaklega þegar ég næ að útbúa eitthvað svo einstaklega gott með einföldum hætti. Þessir fylltu kleinuhringir eru án efa ein af þeim uppskriftum sem lítur út fyrir að vera flókin en er svo bara furðu einföld þegar maður lætur vaða.

Ég notaðist ég við hefðbundnu kleinuhringja uppskriftina úr bókinni okkar sem eru svo auðveld og klikkar aldrei. Ég ákvað að fylla snúðana með nýju Violife súkkulaðismyrjunni, og guð minn góður hvað það kom VEL út. Ég vissi strax þegar ég smakkaði súkkulaðismyrjuna að ég yrði að prófa að gera eitthvað extra “djúsí” úr henni og passaði hún fullkomlega í kleinuhringina.

Þessi uppskrift er svo sannarlega orðin ein af mínum uppáhalds núna og get ég ekki beðið eftir að prófa að gera þessa kleinuhringi með alls konar mismunandi fyllingum. Mér dettur einna helst í hug að það sé gott að fylla þá með sultu eða einhverjum góðum vanillubúðing. VIð munum alveg klárlega setja inn fullt af fleiri útfærslum af þessari uppskrift í framtíðinni.

Fylltir kleinuhringir

  • 4 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1 bréf þurrger

  • 8-10 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1 tsk salt

  • 2 l olía til steikingar

  • Súkkulaðifylling:

    • 2 pakkar violife súkkulaðismyrjan

    • 2-3 msk plöntumjólk

Aðferð:

  1. Hitið mjólkinu og smjörlíkið saman í pottið það til smjörlíkið er alveg bráðnað. Leyfið blöndunni að kólna þar til hún er sirka 37°C (blandan á einungis að vera volg eða við líkamshita, ekki heit)

  2. Hellið mjólkinni í stóra skál, bætið vanilludropum út í og stráið þurrgerinu ásamt 1 msk af sykri yfir. Leyfið þessu að standa í um 5-10 mínútur eða þar til vökvinn fer að freyða.

  3. Blandið restinni af þurrefnunum saman við. Best er að byrja á því að setja 8 dl af hveiti og bæta síðan við ef deigið er of blautt.

  4. Hellið deiginu á hreint borð og hnoðið í nokkrar mínútur. Setjið aftur í skál sem viskustykki eða plastfilmu yfir og leyfið því að hefast í um klukkustund.

  5. Skiptið deiginu í tvo hluta. FLetjið annan hlutan út í einu þar til það er u.þ.b. 1 cm að þykkt

  6. Skerið út hring,i en notaði tvenns konar stærðir af glösum til að gera annars vegar stóra hringi og hins vegar svona “mini” útgáfu. Í stóru notaði ég hefðbundið vatnsglas en skotglas í þá minni.

  7. Leggið viskastykki yfir og leyfið þeim að hvíla á meðan þið hitið olíuna.

  8. Hitið olíuna í stórum potti. Mér finnst gott að athuga hvort olía sé tilbúin með því að setja smá bút af afgangs deigi út í og sjá hversu fljótur hann er að bakaðast. Lítill bútur á að fá gullitaða áferð á einungis nokkrum sekúndum. Olían á að vera um 180°C og ef þið eigið mæli til að mæla hitann er það að sjálfsögðu fullkomið.

  9. Steikið kleinuhringina í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Takið þá upp úr og leggið á disk með eldhúsbréfi á svo restinn af olíunni fái að leka í bréfið.

  10. Leyfið kleinuhringjunum að kólna á meðan þið hrærið saman súkkulaðismjörinu og plöntumjólkinni þar til það verður fallega mjúkt og slétt.

  11. Stingið gat í hliðina á hverju kleinuhring og notaði sprautupoka til að sprauta fyllingunni inn í þá. Passið að kleinuhringirnir séu alveg kaldir þegar þið setjið fyllinguna inn í.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi.

 
violife-logo-1.png
 

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Þessi uppskrift er ein af fyrstu vegan kökuuppskriftum sem við systur þróuðum og birti Helga hana fyrst fyrir mörgum árum á gömu bloggi sem hún var með. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag nota flestir okkar vina og fjölskyldumeðlima þessa uppskrift þegar þeir baka súkkulaðikökur þar sem þeim finnst ótrúlega þægilegt að geta boðið upp á köku sem hentar vegan fólki og er laus við flesta ofnæmisvalda.

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör í flestum búðum í dag og einnig er smjörlíki nánast alltaf vegan. Við notumst þó mest við smjörlíki í kremið þar sem það heldur vel stífleika og gerir smjörkremið fallegt og þægilegt að vinna með.

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  Flestir verða yfirleitt hissa yfir því hvað kökurnar eru mjúkar, sætar og gómsætar en verður þó yfirleitt mög hissa þegar það fær þau svör að kakan sé ekki endilega holl. Það er nefnilega ennþá mjög margir sem setja enn samansem merki á milli vegan og hollustu.

Svo ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur og hefur frá því að hún var lítil haft mjög gaman af því að skreyta kökur fallega og fylgja nýjustu “trendunum” í kökuskreytingum. Þeir sem hafa fylgst með blogginu í einhvern tíma muna líklegast vel eftir rósaköku myndunum sem voru áður við þessa uppskrift en var það mikið “trend” í kökuskreytingum þegar við útbjuggum hana fyrst. Nú hefur þó margt breyst og er mikið í tísku núna að gera háar fallegar kökur með súkkulaði sem lekur niður með hliðunum. Okkur fannst því nauðsynlegt að nýta tækifærið og uppfæra þessa vinsælu uppskrift með nýjum fallegum myndum.

Við bættum við súkkulaði ganache sem við notuðum sem fyllingu á milli kökubotnanna og til að láta leka fallega niður með hliðum kökunnar. Það þarf þó alls ekki að hafa það með og er kakan virkilega góð með smjörkreminu einu og sér. Við mælum þó með að allir prófi að setja ganache á milli með kreminu því það tekur kökuna alveg á næsta stig. Uppskriftin af því er að sjálfsögðu hér að neðan.

IMG_0212.jpg

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache
Höfundur: Veganistur
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 30 Min: 50 Min
Klassísku súkkulaðikökubotnarnir hafa verið ein vinsælasta uppskriftin okkar frá upphafi. Þessi uppskrift er fullkomin í afmæliskökuna, sem skúffukaka eða í muffinsform.

Hráefni:

Súkkulaðikökubotnar
  • 3 bollar hveiti
  • 2 bollar Dan sukker sykur
  • 1/2 bolli kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar vatn (eða 2 bollar kallt kaffi)
  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 msk eplaedik
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  • 400g smjörlíki eða vegan smjör við stofuhita
  • 500g Dan sukker flórsykur
  • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanilludropar
  • 50g suðusúkkulaðisúkkulaði
Súkkulaði ganache
  • 50 gr suðusúkkulaði eða það súkkulaði sem hver og einn kýs að nota.
  • 50 gr vegan þeytirjómi

Aðferð:

Súkkulaðikökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
  2. Blandið þurrefnum saman í skál
  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
  4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 20-24 cm hringlaga kökuform eða þrjú 15 cm kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti, lítilli skúffu eða sem bollakökur.
  5. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í botnana.
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er vel mjúkt og loftkennt.
  2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman.
  3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða.
  4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á.
  5. Ath. Ef gera á þriggja hæða köku og skreyta hana þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Okkur þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og ef það er afgangur þá frystum við það og notum seinna.
Súkkulaði ganache
  1. Brjótið súkkulaðið niður og skerið það í litla bita og setjið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  2. Vigtið rjómann og hellið honum út í skálina. Það er ekki sniðugt að slumpa þessa uppskrift þar sem við viljum fá ákveðna áferð á súkkulaðið svo hægt sé að vinna með það.
  3. Setjið súkkulaðið og rjóman í örbylgjuofn og hitið í 20 sekúndur. Takið út og hrærið til í skálinni. Setjið súkkulaði blönduna aftur í örbylgjuofn í 10 sekúndur í einu þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Það er best að hræra mjög vel í skálinni á milli þess sem blandan er hituð, helst með litlum sósupísk eða gaffli.
  4. Ef nota á ganache a milli botnanna er best að setja fyrst vel af smjörkremi á neðri botninn, dreifa vel úr því og búa síðan til holu í kremið í miðjunni. Ganache’ið þarf að fá að kólna aðeins og er honum síðan hellt í holuna og næsti botn settur yfir.
  5. Til að láta það lekur niður með hliðum kökunnar er mikilvægt að kæla kökuna tilbúna í allavega 30 mínútur áður. Leyfið einnig ganache’inum að kólna aðeins og prófið að láta það leka niður hliðina á glasi t.d. áður en þið byrjið á kökunni. Súkkulaði ganache’ið á að leka hægt og rólega niður glasið þegar það er tilbúið. Ef það lekur hratt í mjög mjórri bunu er það enn of heitt.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin við Nathan og Olsen -

download.png

Mexíkóskt lasagna

IMG_1608.jpg

Hæ!

Ég hef hlakkað lengi til að deila með ykkur uppskriftinni af þessu gómsæta mexíkóska lasagna. Þetta er einn af þessum réttum sem er virkilega einfalt að útbúa en smakkast á sama tíma svakalega vel. Það er eitt það besta sem ég veit, að elda einfaldan mat sem samt smakkast ótrúlega vel.

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í þessa uppskrift. Við höfum unnið svolítið með Hagkaup síðustu mánuði og við erum alveg ótrúlega ánægðar með það. Úrvalið hjá þeim af vegan mat er gríðarlega flott og alltaf jafn gaman að sjá eitthvað nýtt og spennandi hjá þeim að prófa.

IMG_1568.jpg

Nú er mánudagur og ný vika að hefjast en eins og hjá mörgum öðrum hafa dagarnir svolítið runnið í eitt síðasta mánuðinn. Það hefur því ekki verið jafn auðvelt að skilja helgina frá skólavikunni. Við Siggi höfum þó reynt að halda okkur við okkar rútínu yfir vikuna og gera eitthvað svolítið öðruvísi um helgar. Við pössum okkur t.d. á því að gera okkur helgarbröns eins og við erum vön og kaupum vel inn fyrir vikuna af mat svo auðvelt sé að gera góðan matseðil. Ég viðurkenni að þetta ástand hefur haft áhrif á mig og ég hef stundum orðið kvíðin yfir þessu öllu saman. Mér hefur því þótt mikilvægt að hafa matarræðið og svefninn í góðu lagi og hef fundið að það gerir gæfumun.

IMG_1580.jpg

Eitt af því sem hefur haldið geðheilsunni minni í lagi síðustu vikur er nýi áhugi minn á súrdeigi. Mér líður hálf kjánalega að segja frá því, það virðast allir annaðhvort vera byrjaðir á fullu í súrdeiginu eða orðnir dauðþreyttir á því að sjá þetta á öllum miðlum. Mig hefur langað að gera súrdegi lengi og um áramótin strengdi ég ein heit. Að læra að gera súrdeigsbrauð. Ég hef svo haldið áfram að fresta því þar til fyrir rúmri viku þegar ég ákvað loksins að slá til og byrja að búa til súr.

Akkúrat viku seinna bakaði ég mitt fyrsta súrdeigsbrauð sem var svo dásamlega gott og fallegt. Í þessum töluðu orðum liggur brauðdeig í hefunarkörfum inni í ísskáp og ég skelli þeim í ofninn á eftir. Ég skil það loksins hvernig fólk getur fengið þetta á heilann. Þegar ég byrjaði að lesa mér til um þetta og skoða allskonar myndbönd fannst mér þetta líta nánast ógerlegt út. Endalaust vesen, súr, levain, “stretch and fold”, formótun, mótun, hefunarkörfur, steypujárnspottur.. Mér fannst nánast eins og allt þetta stúss gæti ekki verið þess virði. EN nú þegar ég hef bakað mitt fyrsta brauð og borðað það fatta ég þetta. Þetta var í fyrsta lagi ekki jafn mikið vesen og ég hélt. Það þarf vissulega að gera ýmislegt en það tekur alltaf lítinn tíma í einu og svo fær þetta að bíða. Í öðru lagi er þetta miklu betra (að mínu mati) en allt annað brauð. Ég get nefnilega ekki keypt nýbakað súrdeigsbrauð þar sem ég bý. Ég get því sagt að ég er mjög spennt fyrir þessu nýja áhugamáli mínu.

IMG_1593.jpg

En færsla dagsins snýst ekki um súrdeigsbrauð heldur þetta gómsæta mexíkóska lasagna. Í stað pasta nota ég tortilla pönnukökur og ofan á lasagnað ákvað ég að setja tortillaflögur sem gaf réttinum þetta góða “crunch”. Þegar það var komið úr ofninum toppaði ég það með lárperu, fljótlegu fersku tómatsalsa, fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma. Þetta gaf réttinum dásamlegan ferskleika. Þetta er hinn fullkomni réttur til að bjóða uppá í matarboði en er líka frábær sem góður kvöldmatur!

IMG_1601.jpg

Mexíkóskt lasagna

Hráefni:

  • Olía til að steikja uppúr

  • 5-6 meðalstórar tortillapönnukökur

  • 1 pakki (ca 300 gr) vegan hakk (þarf ekki að vera nákvæmlega 300 en þeir eru yfirleitt í kringum það. Ég mæli mikið með hakkinu frá Anamma)

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1-1 1/2 paprika

  • 1-2 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk cuminduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • 2 krukkur salsasósa (ég nota þær frá Santa Maria)

  • 2 dl tómatpassata

  • 100 gr svartar baunir úr dós

  • 100 gr maísbaunir (ég mæli með frosnum maísbaununum frekar en þeim í dós)

  • 1 pakki vegan rjómaostur (ég setti helminginn í fyllinguna og restina ofan á áður en ég bakaði lasagnað). Mæli með Oatly

  • salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Tortillaflögur

Hugmyndir af hlutum til að toppa með eftir á:

  • Lárpera

  • Vegan sýrður rjómi. Mæli með Oatly

  • Ferskt tómatsalsa (ég gerði mjög einfalda útgáfu þar sem ég blandaði saman ferskum tómötum, rauðlauk, lime safa, kóríander og salti)

  • Ferskt kóríander

  • Lime safi

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Hitið olíu á pönnu eða í potti.

  3. Bætið hakkinu út í. Vegan hakk má elda beint úr frystinum og þarf því ekki að láta þiðna. Steikið hakkið í nokkrar mínútur.

  4. Saxið rauðlaukinn og pressið hvítlaukinn og bætið út í. Steikið þar til laukurinn hefur mýskt svolítið.

  5. Bætið paprikunni út í og steikið í nokkrar mínútur.

  6. Bætið kryddum út í og hrærið saman við.

  7. Hellið salsaósu og tómatpassata út í og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur.

  8. Skolið svörtu baunirnar í sigti undir vatni til að ná af þeim safanum úr dósinni. Bætið þeim út í fyllinguna ásamt maís og helmingnum af rjómaostinum. Það má vissulega setja hann allan út í en mér fannst mjög gott að spara helminginn og setja ofan á áður en ég setti réttinn í ofninn. Leyfið að malla í sirka 5 mínútur eða þar til rjómaosturinn hefur bráðnað vel í fyllingunni.

  9. Saltið og piprið eftir smekk

  10. Skerið niður tortillapönnukökurnar í ræmur eða eftir því sem passar best í ykkar eldfasta mót.

  11. Setjið fyllingu í botninn á forminu, raðið svo pönnukökum yfir og endurtakið þar til fyllingin er búin.

  12. Stráið örlítið af vegan osti yfir, raðið tortillaflögum yfir ostinn, því næst restinni af rjómaostinum (ég hitaði minn örlítið í litlum potti svo auðvelt væri að setja hann yfir), og á endanum aðeins meira af vegan osti.

  13. Setjið inní ofn og bakið í sirka 25 mínútur eða þar til osturinn ofan á er orðinn gylltur og fínn.

  14. Toppið með því sem ykkur lystir. Þið sjáið mínar hugmyndir hér að ofan, en mér finnst gera mikið fyrir réttinn að bæta þessu ferska yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin vel!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

IMG_1530.jpg

Í dag færi ég ykkur súkkulaði ofan á súkkulaði. Jújú, páskarnir eru nýbúnir, en þessar möffins eru einfaldlega of góðar til að bíða með að deila uppskriftinni með ykkur. Mig langaði að gera klassískar stórar möffins sem minntu á þær sem hægt er að fá á kaffihúsum og eftir smá prufubakstur hefur mér tekist það (að mínu mati).

IMG_1493-2.jpg

Ég bakaði þær í fyrsta sinn um daginn og var ekki alveg nógu ánægð með útkomuna. Bragðið var mjög gott, en áferðin minnti svolítið á brauð. Eftir smá gúggl áttaði ég mig á því að ég hafði líklega hrært þær alltof mikið. Ég var svolítið að prófa mig áfram og notaði rafmagnsþeytarann og bætti við meiri og meiri vökva á meðan ég hrærði. Að sjálfsögðu urðu þær því seigar. Ég hljóp yfir til vinkonu minnar sem smakkaði og var sammála því að áferðin væri ekki alveg nógu góð. Ég dreif mig því að baka þær aftur og þá urðu þær akkúrat eins og ég vildi hafa þær. ,,Ég myndi borga fyrir þessar á kaffihúsi” sagði vinkona mín þegar hún smakkaði nýju kökurnar og það var akkúrat markmiðið.

IMG_1497-2.jpg

Síðustu daga hef ég unnið hörðum höndum að því að útbúa sænska útgáfu af blogginu. Þetta er eitthvað sem ég hef hugsað um lengi. Ég bý jú hérna í Svíþjóð og væri því mikið til í að vera hluti af bloggheiminum hér. Við spáðum í því á sínum tíma að skrifa á ensku til að ná til fólksins hérna líka en okkur þykir vænt um að skrifa á Íslensku og finnst við ná að tengjast ykkur betur þannig. Ég ákvað því eftir mikla umhugsun að opna sænska síðu. Hún er nú komin í loftið og ég hlakka mikið til að takast á við þessa áskorun. Ég hef bara talað sænsku í sirka tvö ár og hef ekki mikla reynslu af því að skrifa á sænsku. Það tekur mig því langan tíma að skrifa færslurnar og mér líður örlítið eins og ég sé að vaða of djúpt, en þetta er á sama tíma mjög spennandi.

Á meðan ég vann að því að búa til sænsku síðuna ákvað ég að fríska uppá þessa síðu. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að búa hana til árið 2016 en hef svo varla snert neitt þegar kemur að útliti síðunnar síðan. Við systur höfum verið svolítið þreyttar á útlitinu í langan tíma. Ég ákvað því að laga hana núna fyrst ég var á annað borð komin á fullt í að búa til aðra síðu. Við erum ótrúlega ánægðar með nýja útlitið, sérstaklega að geta verið með “side bar”. Við vonum að ykkur þyki hún jafn flott og okkur.

IMG_1498 2-2.jpg

Mér líður eins og ég sé á góðum stað þegar kemur að því að blogga og þess vegna held ég að nú sé rétti tíminn í að byrja að blogga á sænsku. Margir halda að bloggferðalagið okkar hafi verið mjög einfalt og allt gengið eins og í sögu, en svo er alls ekki raunin. Mig langar að segja ykkur aðeins frá minni sögu. Þessi færsla verður því aðeins lengri en ég ætlaði mér.

Þegar við stofnuðum veganistur.is hafði ég í yfir ár bloggað á mínu eigin bloggi (sem hét helgamaria.com) og var því ekki alveg reynslulaus. Ég skoðaði mikið af bloggum á þeim tíma og hafði háleit markmið en ég átti ekki jafn fína myndavél eða nýja tölvu og margir sem ég leit upp til.

Ég fékk canon 1000d vél þegar ég varð 18 ára og með henni fylgdi kit-linsa eins og þær kallast. Ég tók allar mínar myndir á þessa vél og linsuna sem fylgdi með henni þangað til í byrjun 2018. Þá fékk ég ódýrustu gerðina af 50mm linsu sem ég notaði við gömlu myndavélina mína og þessi linsa breytti gríðarlega miklu. Allir í kringum mig voru að verða gráhærðir á að hlusta á mig kvarta undan myndavélinni og það lagaðist örlítið þegar ég fékk nýju linsuna. Eins notaðist ég við eldgamla og hæga Macbook pro tölvu og þar sem hún var of gömul til að uppfæra sig notaðist ég við úrelta útgáfu af lightroom til að vinna myndirnar. Allar myndirnar í bókinni okkar eru unnar í þeirri tölvu.

Ég hef lært allt það sem ég kann á þessar græjur og þurfti því að læra að vera þolinmóð. Mér leið alltaf eins og ég gæti ekki alveg náð þeim árangri í myndatökunni sem ég vildi. Bæði því ég átti gömul tæki og tól og eins því ég átti ekkert nema hvítt matarborð og mjög takmarkað magn af “props”. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að vera leið yfir þessu. Hérna er færsla sem sýnir myndirnar sem ég tók á þessum tíma. Ég get varla horft á þessar myndir því ég man hvað mér fannst þær ömurlegar og hvað mér leið illa að pósta þeim (rétturinn er samt geggggjaður). Ég keypti mér svo ódýra filmu sem ég límdi á borðplötu og notaði til að taka allar myndirnar mínar á í svona tvö ár. Ég var farin að hata hana líka. Hérna er færsla með þessari filmu.

IMG_1508-4.jpg

Svo kom að því að ég gat keypt mér nýja myndavél. Það var seinasta haust. Ég gat þó ekki keypt mér dýra vél en fann á tilboði Canon EOS 200d sem er bara þessi hefðbundna Canon vél. Skjárinn er mun stærri en á þeirri gömlu, ég get tekið hann út og snúið honum, tekið upp myndbönd og notast við snertiskjá ef ég vil (ekkert af þessu var hægt á hinni). Auk þess eru gæðin miklu betri en á þessari gömlu. Ég notast enn við 50 mm linsuna mína og elska hana. Í desember keypti ég mér svo aðra borðfilmu sem þessar myndir eru teknar á.

Í janúar gaf gamla tölvan mín sig og með hjálp bróður míns keypti ég mér nýja Macbook tölvu eftir að hafa notað hina í 9 ár. Skyndilega gat ég unnið myndirnar í alvöru Lightroom forriti og þurfti ekki að endurræsa tölvuna tvisvar á meðan ég vann myndirnar og bloggaði. Ég viðurkenni að við þetta jókst ánægjan mín af því að mynda og blogga gríðarlega. Með tímanum hef ég líka eignast meira af fallegum diskum og öðrum “props” sem flott er að mynda á. Að lokum keypti ég mér ódýrt matarborð úr viði og við Siggi pússuðum það til og notuðum á það dökkan viðarbæs. Ég vildi að borðið liti svolítið vel notað út svo við höfum gert ýmislegt til að “skemma” það. Borðið nota ég þegar ég vil hafa myndirnar svolítið meira “moody”. Ég er mjög ánægð með útkomuna og nú loksins eftir allan þennan tíma líður mér eins og ég hafi í höndunum góð tól til að hjálpa mér að bæta mig í að taka myndir.

Ég get þó sagt ykkur að það sem hefur kennt mér mest er að læra sjálf að vinna myndir og skilja hvernig myndavélin virkar. Ég hefði getað átt allt það flottasta og fínasta en það eitt hefði ekki hjálpað mér að taka flottar myndir. Ég er alltaf að læra og núna uppá síðkastið hef ég dembt mér í að skilja betur hvernig ég vinn myndirnar mínar og ég veit að ég á enn margt ólært. Eins hef ég fundið mína eigin “rödd” með því að hætta að bera bloggið okkar saman við blogg annarra. Ég var lengi óörugg og þótti allir betri en ég og það eru vissulega margir betri en ég og munu alltaf vera það, en það hjálpaði mér alls ekki að skoða önnur blogg og bera mig saman við aðra. Með tímanum varð ég meira örugg og í dag skoða ég myndir annarra til að fá innblástur og til að dást af þeim, en ekki til að draga mig niður. Það hefur breytt miklu.

En jæjaaa.. nú kemur uppskriftin!

IMG_1484-7.jpg

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

  • 5 dl hveiti

  • 1 dl kakó

  • 2 dl sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 4,5 dl vegan mjólk

  • 130 gr. smjörlíki bráðið

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 150 gr. suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c. Minn ofn er ekki með blæstri svo ég nota yfir og undir hita.

  2. Blandið þurrefnunum saman í skál.

  3. Bræðið smjörlíkið og hellið í aðra skál ásamt mjólkinni, vanilludropunum og eplaedikinu.

  4. Hellið út í skálina með þurrefnunum og hrærið saman með sleif. Hrærið eins lítið og þið mögulega getið. það mega vera smá kekkir en samt á þetta að vera vel blandað. Eins og ég skrifaði að ofan þá gerði ég þau mistök fyrst að hræra of mikið og kökurnar urðu því seigar. Því er mikilvægt að hræra stutt.

  5. Saxið súkkulaðið í meðalstóra bita. Mér finnst gott að hafa það svolítið “chunky” í þessum kökum. Blandið 3/4 af því í deigið og geymið rest til að setja ofan á kökurnar.

  6. Ég mæli með að setja deigið í sprautupoka og sprauta í möffinsformin eins og sést á einni af myndunum fyrir ofan. Ég hafði í öll þessi ár fyllt möffinsform með skeið með tilheyrandi sulli en með sprautupokanum er þetta mjög einfalt og snyrtilegt.

  7. Bakið í 17-20 mín eða þar til þið getið stungið tannstöngli í og ekkert deig kemur upp með honum (það mun samt líklega koma eitthvað af súkkulaðinu sem er inní)

  8. Leyfið kökunum að kólna aðeins áður en þið borðið þær.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3

Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-


Vegan pizzasnúðar á tvo vegu

IMG_1137-2.jpg

Hæ!

Nú erum við loksins mættar aftur á bloggið eftir svolitla pásu. Mörg ykkar sem lesið færslurnar okkar fylgið okkur líka á samfélagsmiðlum og vitið því hvað við höfum verið að gera síðan um jólin. Við héldum meðal annars útgáfuhóf fyrir bókina okkar í janúar og fórum í allskyns viðtöl til að kynna hana. Ég (Helga) eyddi öllum janúar á Íslandi og það var æðislegt. Við náðum að gera svo margt skemmtilegt saman, bæði í tengslum við bókina og annað.

IMG_1024-2.jpg

Nú er ég hinsvegar komin aftur til Svíþjóðar og eins og staðan er núna er háskólanámið mitt kennt í fjarnámi sem er ekkert svakalega hentugt fyrir okkur sem erum í tónlistarnámi sem snýst mikið um að syngja og spila með öðru fólki. Ég hef verið lítil í mér uppá síðkastið og á þessum skrítnu tímum sakna ég fjölskyldunnar og á svolítið erfitt með alla óvissuna sem ríkir þessa stundina. Það huggar mig þó örlítið að finna hvað við stöndum öll mikið saman og ég reyni að muna að þetta ástand er tímabundið.

Ég hef eytt miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og hef reynt að vera dugleg að sýna frá því á Instagram. Við erum einnig byrjaðar að gera matreiðslumyndbönd og þau finniði á Instagram TV og svo á YouTube þar sem við heitum Veganistur. Ég viðurkenni þó að ég hef saknað þess að blogga og er svakalega glöð að vera loksins komin með uppskrift handa ykkur.

Uppskrift dagsins er af þessum dásamlegu pizzasnúðum. Ég ákvað að gera bæði pizzasnúða og hvítlaukssnúða og guð minn góðurrr hvað þeir eru góðir. Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í snúðana. Í Hagkaup er gríðarlegt úrval af góðum vegan mat og ekkert smá gaman að prófa nýjar og spennandi vörur t.d. úr frystinum þeirra. Ég ákvað að nota Pulled Oumph! í snúðana mína en það er auðvitað hægt að nota eitthvað annað ef þið viljið. Ég mæli þó eindregið með því að þið prófið að nota Oumphið.

IMG_1057.jpg

Eins og ég sagði hér að ofan er ég rosalega glöð að vera loksins að blogga aftur og ég er búin að gera langan lista yfir það sem ég vil gera á næstunni. Ég hef verið svolítið mikið í bakstrinum uppá síðkastið en lofa því að það fer að koma meira af réttum hérna inn sem gott er að elda t.d. í kvöldmat. Þið megið líka alltaf senda okkur ef þið viljið sjá eitthvað sérstakt á blogginu hjá okkur.

Fyllingin í snúðana alls ekki heilög og lítið mál að breyta henni eins og maður vill. Ég hef líka útbúið snúða með sveppum, ólífum og sólþurrkuðum tómötum og þeir voru ekkert smá góðir. Í rauninni virkar að setja bara það sem manni þykir gott á pizzu.

fyrir ofninn.jpg

Hveeersu girnilegir?!

Ég ákvað á seinustu stundu að útbúa hvítlaukssnúða með og var ekki viss um að þeir myndu yfir höfuð heppnast vel. Þeir komu mér þvílíkt á óvart og smökkuðust dásamlega. Það var alveg fullkomið að gera báðar tegundirnar og borða saman.

hvítlaukssmjör.jpg
hrært smjör.jpg

Ég hef oft bakað hvítlauksbrauð heima og mér hefur aldrei þótt það jafn gott og það sem ég panta á veitingastöðum en mér þótti þessir snúðar það. Þeir urðu dúnmjúkir og góðir að innan og voru akkúrat eins og ég vildi hafa þá. Ég mæli því mikið með því að þið prófið.

hvítl. snúðar.jpg

Ég vona að ykkur líki vel og ef þið prófið að baka snúðana megiði endilega láta mig vita hvað ykkur fannst. Við elskum þegar þið eldið og bakið af blogginu og úr bókinni okkar og taggið okkur á instagram svo við sjáum afraksturinn. Okkur þykir svo ótrúlega vænt um það og það gefur okkur mikinn kraft í að halda áfram að útbúa nýjar og spennandi uppskriftir. Síðan bókin okkar kom út höfum við fengið svo mikið af fallegum skilaboðum frá ykkur, við erum ykkur endanlega þakklátar.

En hér kemur uppskriftin loksins!!

IMG_1147.jpg

Pizzadeig:

Hráefni:

  • 320 ml vatn við líkamshita

  • 1/2 pakki þurrger (6 gr)

  • 1 tsk salt

  • 2 msk ólífuolía

  • 450-500 gr hveiti

Aðferð:

  1. Hellið vatninu í skál og stráið þurrgerinu yfir og leyfið því að leysast upp í vatninu

  2. Bætið salti og ólífuolíu út í skálina

  3. Bætið hveitinu við í skömmtum þar til auðvelt er að hnoða deigið án þess að það klessist. Ég bætið því við í skömmtum því það er alltaf hægt að bæta við ef þarf en alls ekki gott að setja of mikið.

  4. Hnoðið deigið og leyfið því svo að hefast í 90 mínútur.

Ég skipti þessu deigi í tvennt og gerði pizzasnúða úr helmingnum og hvítlaukssnúða úr restinni. Ef þið ætlið bara að gera pizzansúða þá tvöfaldiði uppskriftina af fyllingunni.


Pizzasnúðar:

Hráefni:

  • Helmingurinn af pizzadeiginu

  • Pizzasósa eftir smekk

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk. Það er mjög misjafnt hversu mikinn ost fólk vill hafa, en ég notaði Violife og setti sirka 150 grömm á pizzasnúðana og svipað á hvítlauks.

  • Hálf lítil rauð paprika

  • hálfur lítill rauðlaukur

  • Hálfur poki af pulled Oumph!

  • Vegan rjómaostur eftir smekk. Ég notaði påmackan frá Oatly

  • Þurrkað oregano

  • Þurrkuð basilika

  • Gróft salt

  • Fersk basilika til að toppa snúðana með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Fletjið deigið út og passið að hafa svolítið hveiti á borðinu svo deigið festist ekki við það.

  3. Smyrjið eins mikilli sósu og þið viljið á deigið. Mér finnst gott að setja vel af henni.

  4. Stráið ostinum yfir, því næst Oumphinu, og svo grænmetinu.

  5. Setjið rjómaostinn á. Mér finnst best að taka smá með skeið og setja litlar klípur yfir allt deigið.

  6. Stráið kryddunum yfir.

  7. Rúllið upp og skerið í snúða. Það komu sirka 13 snúðar hjá mér og þá tel ég með þessa ljótu úr endunum.

  8. Raðið á ofnsplötu með smjörpappír og bakið í 12-15 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðnir vel gylltir að ofan. Ég byrjaði að fylgjast með mínum eftir svona 10 mínútur.

Hvítlaukssnúðar:

Hráefni:

  • Hinn helmingurinn af pizzadeiginu

  • 100 gr. vegan smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • Rifinn vegan ostur (ég setti sirka 150 gr.)

  • 1 msk þurrkuð steinselja

  • 1 -2 msk saxaður graslaukur

  • Spínat eftir smekk. Ég raðaði bara yfir deigið en mældi ekkert sérstaklega (sjá mynd)

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið smjörlíkið í skál (best að hafa það við stofuhita svo auðvelt sé að hræra það og smyrja)

  2. Pressið eða rífið hvítlaukinn út í og hrærið saman við smjörlíkið ásamt steinseljunni og graslauknum.

  3. Saltið aðeins ef þarf.

  4. Fletjið deigið út og smyrjið hvítlaukssmjörinu á.

  5. Stráið ostinum yfir.

  6. Raðið spínatinu yfir.

  7. Rúllið upp og skerið niður.

  8. Bakið í 12-15 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðnir vel gylltir að ofan. Ég byrjaði að fylgjast með mínum eftir svona 10 mínútur.

Takk fyrir að lesa

Helga <3

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin þar-

Vegan galette með eplum og karamellusósu

IMG_9683.jpg

Jæjaaaa….

Þá erum við loksins mættar aftur eftir nokkra mánaða pásu sem fór að mestu í að útbúa matreiðslubókina okkar sem kemur út í loks ársins. Ég (Helga) er komin aftur til Piteå og byrjuð í skólanum og er hægt og rólega að komast aftur í góða rútínu.

Það hefur sjaldan verið jafn erfitt að byrja að blogga aftur eftir pásu eins og núna. Mér hefur liðið svolítið eins og ég sé uppiskroppa með hugmyndir. Eins og allt það sem ég kunni sé nú þegar á blogginu eða í bókinni okkar. Ég hef því aðeins verið að leika mér í eldhúsinu til að finna aftur sköpunargleðina í matargerðinni. Það hefur verið ljúft að fá smá tíma til að koma mér aftur af stað og á síðustu vikum hafa allskonar hugmyndir kviknað.

IMG_9665.jpg

Ég hef tekið eftir því uppá síðkastið að galette bökur eru í mikilli tísku á Instagram. Það virðist vera eitthvað við ófullkomið og “rustic” útlitið á þeim sem heillar marga matarljósmyndara. Ég var ekki alveg sannfærð þegar ég sá myndir af þessum bökum fyrst. Mér fannst þær líta mjög vel út en skildi ekki alveg æðið. Mig fór þó með tímanum að langa að prófa og ákvað að lesa mér smá til. Galette er franskt orð yfir flata kringlóta köku. Algengt er að galette bökur séu gerðar með því að útbúa bökudeig, fletja það út og leggja yfir það fyllingu sem annað hvort er sæt eða sölt. Endarnir á deiginu eru svo brotnir yfir fyllinguna og bakan bökuð í ofninum.

IMG_9668.jpg

Ég prófaði fyrst að útbúa míní útgáfur fylltar með bláberjum og þær smökkuðust mjög vel, en ég var svolítið óþolinmóð og kældi deigið alltof stutt og notaði smjörlíki við stofuhita í stað þess að hafa það kalt eins og mælt er með að gera. Deigið var því svolítið erfitt að meðhöndla og rifnaði auðveldlega. Ég las mér svo til og fékk nokkur ráð á Instagram og komst að því að mikilvægt er að nota ískalt smjör, ískalt vatn og kæla deigið vel. Ég fór eftir þeim ráðum í dag og bakan varð dásamlega góð og allt annað að meðhöndla deigið.

IMG_9671.jpg

Um daginn kom á markað nýtt smjörlíki frá merkinu Naturli. Vegan “smörbar” smjörið þeirra hefur fengist í svolítinn tíma og hefur bókstaflega slegið í gegn því það er bæði laust við pálmaolíu og bragðast ótrúlega vel. Ég var því svakalega spennt þegar ég frétti að þau framleiddu einnig smjörlíki sem hentar til baksturs og steikingar. Smjörlíkið þeirra er eins og smörbar smjörið laust við pálmaolíu og er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Ég er nú búin að prófa að baka aðeins úr því og það er dásamlega gott. Smörbar smjörið fæst nú þegar í öllum helstu verslunum landsins en smjörlíkið er einnig væntanlegt í verslanir á næstunni.

IMG_9673.jpg

Ég er svakalega spennt að prófa fleiri útgáfur af svona galette bökum. Margir útbúa þær með tómötum og góðum jurtum. Ég sé fyrir mér að það gæti verið dásamlega gott að útbúa fyllingu úr möndlu ricotta osti, ferskum tómötum og toppa svo með ferskum jurtum, sítrónusafa og berki, sjávarsalti og ólífuolíu. Ég myndi þá sleppa sykrinum í botninum og bæta við kannski einhverjum kryddum. Eða hafa hann bara klassískan.

IMG_9684.jpg

Mér þætti gaman að heyra hvort þið hafið einhverjar óskir um uppskriftir núna í vetur. Það fer til dæmis að líða að jólunum, minni uppáhalds árstíð (já jólin eru í mínum bókum heil árstíð), og ég vil að sjálfsögðu útbúa fyrir ykkur eins mikið af gómsætum hátíðaruppskriftum og ég mögulega get! Eins og ég segi hefur pásan verið ansi löng og því þætti mér mjög vænt um ef fólk kæmi með skemmtilegar uppástungur eða áskoranir.

IMG_9689.jpg

Galette með eplum

Botninn

  • 3 og 1/2 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1/2 tsk salt

  • 120 g kalt smjörlíki

  • ca 40 ml ískalt vatn (ég byrja á því að setja 2 msk í einu og bæti svo við eftir þörfum)

  • Möndluflögur til að strá á skorpuna (má sleppa)

  • Aquafaba (kjúklingabaunasafi) til að smyrja skorpuna. Það er líka hægt að nota vegan mjólk.

Fyllingin

  • 3-4 epli (ég notaði 3 og 1/2)

  • 1 dl púðursykur

  • 2 msk sítrónusafi plús smá börkur

  • 1 msk kanill

  • 1/2 tsk malað engifer

  • 1/4 tsk múskat

  • 1 og 1/2 msk hveiti

Karamellusósa

Uppskrift HÉR

Aðferð:

  1. Blandaðu í skál hveiti, sykri og salti.

  2. Skerðu kalt smjörlíki í kubba og notaðu puttana til að brjóta það niður og blanda gróflega við hveitið. Á ensku er þetta útskýrt þannig að smjörið eigi að vera á stærð við “pea” eða græna baun. (Veit ekki aaalveg með þá myndlíkindu á íslensku hehe.)

  3. Bættu ísköldu vatni útí í skömmtum og hrærðu saman með sleif. Ég set nokkrar matskeiðar í einu og bæti svo við eftir þörf.

  4. Stráðu hveiti á borð og færðu deigið yfir á það. Ekki hnoða það mikið en mótaðu úr því kúlu. Pakkaðu henni inní plastfilmu og settu í ísskáp í klukkustund.

  5. Afhýddu eplin og skerðu niður í sneiðar.

  6. Settu þau í stóra skál og hrærðu saman við þau restinni af hráefninum. Legðu til hliðar.

  7. Stráðu hveiti á borð og flettu út deigið í hring. Leggðu fyllinguna á miðja bökuna og hafðu smá spássíu til hliðana svo hægt sé að brjóta deigið aðeins yfir. Það þarf þó ekki að vera mikið pláss, en samt þannig að það nái að pakka fyllingunni aðeins inn.

  8. Brjóttu deigið yfir. Mundu að þetta á ekki að vera fullkomið. Galette bökur eru gerðar til þess að vera svolítið rustic og heimagerðar.

  9. Pennslaðu smá aquafaba eða mjólk yfir skorpuna og stráðu yfir möndluflögum og sykri.

  10. Bakaðu við 190°c í 30-40 mínútur eða þar til bakan er orðin gyllt og fín.

  11. Útbúðu karamellusósuna á meðan.

  12. Leyfið bökunni að kólna í 10 mín áður en hún er skorin. Vanilluís eða vanillusósa er að mínu mati nauðsyn með bökunni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel.

Helga María

Vegan hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu

IMG_6520-5.jpg

Þá er komið að seinni færslunni í samstarfi okkar við Anamma í júní. Eins og við nefndum síðast þá erum við að vinna með nýja hakkið frá þeim sem mótast sérstaklega vel og hentar fullkomlega til að útbúa góða borgara eins og þennan. Í síðustu færslu deildum við með ykkur uppskrift af geggjuðum vegan bollum með ritz kexi og döðlum og við höfum fengið virkilega góð viðbrögð við þeim. Í dag er komið að þessum djúsí borgara sem er geggjaður á grillið eða pönnuna. Þetta nýja hakk er alger “game changer” og við erum ekkert smá ánægðar með að fá að vinna með svona góðar vandaðar vörur. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup og Bónus og svo í ýmsum minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6494-5.jpg

Það er æðislegt að sjá úrvalið af vegan vörum aukast svona gríðarlega eins og gerst hefur síðustu ár. Það er ekkert svo langt síðan vegan borgarar voru alltaf gerðir úr hefðbundnu grænmetisbuffi með tómatsósu. Í dag er hinsvegar hægt að velja á milli allskonar borgara, en þar til fyrir stuttu var svolítið vesen að útbúa heimagerða borgara úr sojahakki. Það breyttist þó algerlega þegar Anamma byrjaði að framleiða nýja hakkið sitt og í dag er ekkert mál að útbúa djúsí heimagerða borgara.

IMG_6497-6.jpg

Við ákváðum að byrja á því að gera svolítið klassíska uppskrift. Uppskrift sem er geggggjuð eins og hún er en býður uppá það að setja hana í eigin búning ef maður vill. Þessa borgara er ekkert mál að grilla og við getum eiginlega lofað ykkur að jafnvel hörðustu kjötætur eiga eftir að elska þá.

IMG_6500-5.jpg

Í þetta skipti útbjuggum við gómsæta hamborgarasósu með borgurum og toppuðum þá einnig með bjórsteiktum lauk sem er ekkert smá góður. Hamborgarasósuna gerum við í hvert skipti sem við gerum okkur borgara. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamleg. Við settum svo hvítlauksmæjónes á borgarann líka, en það var mest til að fá fallega mynd hehe.

IMG_6518-4.jpg

Eins og ég skrifaði að ofan er þessi uppskrift alveg svakalega góð, en það er auðvelt að prufa sig áfram og gera eitthvað aðeins öðruvísi úr henni. Ég hef t.d. stundum sett smá estragon út í og það gefur mjög skemmtilegt bragð. Eins er rosalega gott að blanda út í borgarann vegan fetaosti. Við erum mjög spenntar að heyra hvað ykkur finnst um borgarann og eins hvað ykkur þykir skemmtilegast að útbúa úr þessu frábæra nýja hakki frá Anamma.

IMG_6523-7.jpg

Hamborgarar 4 stykki

  • 440 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 2 tsk kjöt og grillkrydd

  • salt og pipar

  • BBQ sósa til að pennsla yfir (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4 buff út hakkinu (sirka 110 gr hvert buff) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

  4. Pennslið með BBQ sósu áður en borgararnir eru matreiddir ef þið kjósið. Það er alls engin nauðsyn en okkur þykir það svakalega gott.

Hamborgarasósa

  • 1-1 1/2 dl vegan majónes (keypt eða eftir uppskrift hérna af blogginu)

  • 1/2 dl tómatsósa

  • 1/2 dl mjög smátt saxaðar súrar gúrkur

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt

Aðferð:

  1. Saxið súru gúrkurnar mjög smátt.

  2. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál

Bjórsteiktur laukur

  • 2 stórir laukar

  • 1 msk sykur

  • 1 msk soyasósa

  • salt og pipar

  • 2-3 msk bjór

Aðferð:

  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.

  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.

  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.




anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Vegan gnocchi með aspas og spínati

IMG_3109-9.jpg

Uppskrift dagsins er af heimagerðu gnocchi með aspas, hvítlauk, hvítvíni og spínati. Þetta er dásamlega gott og sjálft gnocchiið inniheldur bara þrjú hráefni, kartöflur, hveiti og salt. Það er að sjálfsögðu hægt að nota það í allskonar uppskriftir, bara eins og pasta, en þessi útgáfa er svakalega góð og mér finnst svolítill veitingahúsafílingur í réttinum.

IMG_3081.jpg

Eins og þið kannski sum vitið höfum við Júlía haldið úti veganistur.is í þrjú ár í sumar, en fyrir það vorum við í rúmt ár einungis með Facebook síðu og Instagram. Veganistur áttu fyrst að vera hversdagsleg Facebook síða þar sem við skelltum inn símamyndum af kvöldmatnum okkar án þess að hugsa mikið um það, og sýndum fólki einfaldlega hvað það er auðvelt að vera vegan. Facebook síðan óx mun hraðar en við hefðum haldið og við fórum að fá allskonar fyrirspurnir um hvort við gætum gert uppskriftir af þessu og hinu og smám saman breyttust Veganistur í uppskriftarsíðu.

IMG_3085-3.jpg

Við fórum fljótt að finna fyrir því að fólk væri að fylgjast með og í kjölfarið vildum við leggja meiri vinnu og metnað í bæði uppskriftirnar og myndirnar. Það var svo vorið 2016 að við ákváðum að útbúa alvörunni vefsíðu og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Það sem fyrst átti bara að vera lítið áhugamál hefur orðið að risastórum hluta af lífinu okkar. Í dag eru Veganistur það sem við leggjum hvað mesta vinnu í og höfum mikla ástríðu fyrir. Það eruð þið, lesendur okkar, sem gefið okkur endalausan innblástur og styrk til að gera eins vel og við getum. Ykkur erum við gríðarlega þakklátar.

IMG_3088-3.jpg

Við Júlía stöndum tvær í þessu og sjáum um allt sem viðkemur blogginu samhliða fullu námi og öðrum verkefnum. Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt að útbúa nýtt efni fyrir bloggið, bæði í peningum og tíma talið. Kostnaðurinn er misjafn, en við vöndum valið okkar á samstörfum við önnur fyrirtæki virkilega vel og tókum snemma ákvörðun um að hafa engar auglýsingar að öðru tagi á blogginu. Allur peningur og tími sem við leggjum í bloggið okkar og uppskriftir er fyllilega þess virði og við munum aldrei sjá eftir einni einustu krónu.

IMG_3089-2.jpg

Okkur hafa borist margar fyrirspurnir um hvernig sé hægt að styrkja okkur og hingað til hefur það einungis verið hægt með því að lesa og deila blogginu okkar, og þið hafið svo sannarlega gert það. Við erum virkilega hrærðar yfir því hvað þið eruð mörg sem heimsækið síðuna okkar daglega og látið orðið berast til þeirra sem þið þekkið. Þið eruð æði!

IMG_3091-2.jpg

Við höfum þó ákveðið eftir mikla umhugsun að opna Patreon aðgang fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur. Það er einfaldlega svo við höfum meira frelsi varðandi uppskriftir og þurfum ekki að skipuleggja bloggfærslur einungis útfrá því hvað við eigum mikinn pening hverju sinni. Með því að styrkja okkur hjálpar þú semsagt til við að auka svigrúm og afkastagetu okkar. Eins höfum við lengi verið með uppskriftarbók í maganum og við iðum í skinninu við að koma henni út og deila með ykkur ennþá fleiri ótrúlega spennandi og gómsætum uppskriftum.

Á Patreon síðunni okkar sérðu hvað við bjóðum ykkur í staðinn og eitt af því er aðgangur að lokaðri Facebook grúppu þar sem við Júlía munum elda með ykkur live í hverri viku. Við erum ekkert smá spenntar fyrir því og fyrsta uppskriftin sem ég ætla að gera með ykkur er akkúrat þessi. Ég hlakka ekkert smá til og mun svo deila með ykkur nákvæmri tímasetningu þegar nær dregur.

IMG_3093-2.jpg

Við viljum enn og aftur þakka ykkur fyrir. Þegar við stofnuðum Veganistur höfðum við ekki hugmynd um hvað við myndum fá mikinn stuðning frá ykkur öllum. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

IMG_3106-5.jpg

Gnocchi

  • 2 bollar stappaðar kartöflur

  • 1,5- 2 bollar hveiti

  • 1,5 tsk salt

Það sem fer með á pönnuna

  • Vegan smjör til að steikja uppúr. Ég setti alveg vænan bita.

  • 200 gr aspas. Ég notaði frosinn í þetta sinn

  • Tvær lúkur babyspínat

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 dl hvítvín (má sleppa)

  • Ristaðar furuhnetur til að strá yfir

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflur og afhýðið. Stappið þær vel með kartöflustappara eða gaffi og setjið í stóra skál.

  2. Bætið hveitinu og saltinu saman við. Ég byrjaði á því að setja 1,5 bolla hveiti og bætti svo aðeins við eftir þörf. Hrærið saman við og hafið í huga að þetta verður mjög mjölkennt til að byrja með. Hrærið eins vel og þið getið með sleif og færið svo yfir á borð og notið hendurnar til að hnoða þetta saman í deig.

  3. Skiptið deiginu niður í fjóra hluta, rúllið þá út og skerið sirka 2 cm bita úr þeim.

  4. Það má sleppa þessu skrefi og elda bitana einfaldlega eins og þeir eru þegar búið er að skera þá niður, en ég vildi útbúa smá gnocchi munstur og notaði til þess gaffal. Margir eiga sérstakt bretti sem gerir það mun auðveldara, en ég læt gaffalinn duga. Ég tók bita og flatti hann létt út á gaffalinn og rúllaði svo upp. Ég hefði kannski getað sýnt aðeins skýrari mynd af því hvernig þetta er gert, en það er fullt af myndböndum á youtube sem sýna það mun betur en mér hefði tekist. Passið að strá smá hveiti yfir bitana og láta þá ekki liggja saman á meðan þið gerið þetta því þeir munu festast saman og verða að einni klessu.

  5. Steikið á pönnu hvítlauk, aspas, og spínat uppúr smjörinu. hækkið hitann og hellið hvítvíninu út í og lækkið hitann svo aftur eftir nokkrar mínútur.

  6. Sjóðið vatn í stórum potti og saltið smá. Þegar suðan er vel komin upp skuluði hella gnocchiinu í. Ég myndi ekki setja þá alla í einu þar sem þetta eru svolítið margir bitar. Veiðið bitana upp þegar þeir hafa flotið upp á yfirborðið sem tekur um 90 sekúndur.

  7. Sigtið allt vatn af bitunum og skellið þeim á pönnuna og steikið þá í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

  8. Berið fram með því sem ykkur lystir, en mér finnst alltaf gott að útbúa gómsætt hvítlauksbrauð með.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur <3

Gómsætt vegan Chili

IMG_2655-2.jpg

Eins og ég hef oft talað um hérna á blogginu finnast mér pottréttir og súpur ótrúlega góður matur. Ég elska að geta skellt allskonar hráefnum í pott, leyft þeim að malla og geta svo bara borið fram án frekari fyrirhafnar. Oft er líka bara svo gott að leyfa mat að malla og taka í sig allskonar brögð. Uppskrift dagsins er einmitt af svoleiðis rétti, en ég hef gert þennan chili rétt oft síðastliðin ár og það er löngu orðið tímabært að ég birti hann hérna á blogginu.

IMG_2633-2.jpg

Árið 2016 vann ég um stund á veitingastað í Gautaborg þar sem reglulega var eldað chili. Það var á þessum veitingastað sem ég lærði að setja kakó í chili. Mér fannst tilhugsunin fyrst rosalega skrítin, en í dag finnst mér það ómissandi. Kokkurinn skellti reyndar líka alltaf vænri skvettu af Kóki í pottinn, en ég er ekki alveg komin þangað.

IMG_2639.jpg

Ég nota mjög oft vegan hakk í þennan rétt, en þar sem ég notaði það í síðustu uppskrift þá ákvað ég að nota sveppi í dag. Það er alveg jafn gott, ef ekki betra. Auk þess er rétturinn stútfullur af gómsætum baunum sem gerir chili-ið rosalega mettandi en á sama tíma alls ekki þungt í magann.

IMG_2644-2.jpg

Rétturinn er passlegur fyrir 3-4 og ég elda eiginlega aldrei minna fyrir okkur Sigga þó við séum bara tvö því það er svo gott að eiga afganga. Það er mismunand hvernig ég ber chili fram, en mér finnst eiginlega möst að toppa það með hreinni sojajógúrt eða Oatly sýrðum rjóma. Svo finnst mér alltaf jafn gott að útbúa djúsí hvítlauksbrauð með. Ef þið eruð í svakalegu stuði er geggjað að búa til “chili cheese fries” og toppa franskar með chiliréttinum og fullt af vegan osti.

IMG_2650.jpg

Eitt af því sem einkennir pottrétti oft er að það er hægt að leika sér mikið með réttina. Það er ekkert heilagt hvaða grænmeti er notað, en ég hef oft bara nýtt það sem ég á heima. Mér finnst gott að setja smá papriku í chili eða jafnvel sætar kartöflur ef ég er í svoleiðis stuði. Ég ákvað að hafa uppskriftina í dag eins og mér þykir hún allra best, og mæli mikið með því að prufa hana.

IMG_2651-2.jpg

Vegan Chili (fyrir 3-4)

  • Olía til steikingar

  • 350g sveppir

  • 2 gulir laukar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 sellerístöngull

  • 2 msk tómatpúrra

  • 3 tsk sojasósa

  • 2 tsk balsamik edik

  • 2 msk kakóduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk oregano

  • 1 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 x 400g dósir niðursoðnir tómatar

  • 2 x 400 g dósir baunir (ég notaði 1 dós af svörtum baunum og 1 dós af blönduðum baunum, en ég mæli t.d mikið með að nota nýrnabaunir)

  • 1/2 - 1 tsk sykur

Aðferð:

  1. Skerið sveppina mjög smátt niður, eins smátt og þið getið.

  2. Saxið lauk og hvítlauk niður smátt.

  3. Hellið olíu í heitan pott og bætið lauk og hvítlauk ofan í og leyfið honum að mýkjast í nokkrar mínútur.

  4. Hellið sveppunum út í ásamt smá salti sem hjálpar þeim að svitna smá í pottinum.

  5. Saxið sellerí niður og bætið út í pottinn þegar sveppirnir hafa byrjað að eldast svolítið (eftir 5-10 mínútur).

  6. Bætið kryddunum út í ásamt sojasósunni, balsamik edikinu og tómatpúrrunni og hrærið vel saman í nokkrar mínútur.

  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt baunum og lárviðarlaufi og leyfið að malla í sirka 20 mínútur, því lengur, því betra. Ég mæli með að bæta smá vatni út í með því að hella aðeins í dósirnar af tómötunum ( sirka 250 ml samtals) og nýta þannig allan tómatsafann sem verður eftir í botninum.

  8. Smakkið til og bætið við kryddum, salti og pipar eftir þörf.

  9. Takið lárviðarlaufið úr áður en borið er fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel <3

Veganistur

Vegan döðlukaka með karamellusósu

IMG_2588.jpg

Uppskrift dagsins er af döðluköku með heitri karamellusósu. Þessi kaka kallast á ensku “Sticky toffee pudding” og er alveg dásamlega góð og með karamellusósunni og ísnum er þetta held ég bara besti desert sem ég hef smakkað lengi. Ég hlakka mikið til að bjóða upp á þessa köku næst þegar ég held matarboð.

IMG_2552.jpg

Þegar maður sér orðið “döðlukaka” hugsa margir eflaust fyrst að um sé að ræða holla hráköku. Ég hef allavega lengi tengt döðlur við sykurlausan bakstur og hráfæðinammi, en þessi kaka er langt frá því að vera sykurlaus eða hrá. Upprunalega ætlaði ég mér að gera eitthvað allt annað fyrir bloggið þessa viku, en svo var okkur send fyrirspurn á Instagram í síðustu viku um hvort við gætum gert uppskrift af vegan döðluköku. Ég tók þessari áskorun fagnandi og er ekkert smá ánægð með það. Ég er eiginlega hissa á að mér hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Eins og ég hef sagt áður þykir mér gríðarlega vænt um að fá hugmyndir frá ykkur að uppskriftum til að baka eða elda og verð alltaf mjög spennt þegar ég fæ áskorun um að útbúa eitthvað nýtt.

IMG_2555.jpg

Ég held ég hafi aldrei bakað jafn mikið á jafn stuttum tíma og ég hef gert síðustu vikur. Ég er búin að baka möndluköku þrisvar og bakaði marmarakökuna tvisvar áður en ég birti hana á blogginu. Ég hélt svo afmælisveislu síðustu helgi og bakaði fyrir hana súkkulaðiköku, gulrótarköku og tvo skammta af súkkulaðibitamöffins. Svo á sunnudagskvöld ákvað ég að baka marmarakökuna aftur og sýna á Instastory. Ég er svo búin að baka þessa döðluköku bæði í gær og í dag og á núna fullan frysti af kökum. Ég þarf að vera duglegri að gefa frá mér það sem ég baka svo ég endi ekki á því að borða það allt sjálf. Allar kökurnar sem ég nefni eru að sjálfsögðu hérna á blogginu.

Eins og ég sagði bakaði ég döðlukökuna líka í gær. Ég hafði verið með hugmynd í hausnum um hvernig ég ætlaði að baka hana og var svo bjartsýn að ég ákvað að baka hana í fyrsta sinn og taka myndir fyrir bloggið á sama tíma. Það endaði þannig að ég var mjög óörugg í bakstrinum og myndirnar urðu alls ekki góðar heldur. Í dag er ég mjög fegin að hafa þurft að endurtaka leikinn því þetta gekk miklu betur í dag og bæði kakan og myndirnar komu mun betur út.

IMG_2572.jpg

Þegar ég bakaði kökuna í gær hélt ég fyrst að hún hefði misheppnast, en áttaði mig á því aðeins seinna að svo var ekki. Þegar ég skar hana var hún enn svolítið heit og leit út fyrir að vera svolítið óbökuð í miðjunni. Þó hafði ég stungið í hana og gaffallinn kom hreinn út svo ég skildi ekki alveg af hverju hún var svona klístruð að innan. Ég varð í smá stund alveg hundfúl yfir þessu en þegar kakan hafði kólnað sá ég hvernig hún var nú bara alveg bökuð í gegn. Það var þá sem ég áttaði mig á því að döðlurnar í kökunni gera hana klístraða, og að hún var fullkomlega vel bökuð. Ég hló í svolitla stund að sjálfri mér, bæði því ég hefði átt að fatta þetta, en líka því ég er svo fljót stundum að verða dramatísk. Ég bakaði svo kökuna í dag meðvituð um þetta og hún varð fullkomin.

IMG_2574.jpg

Eitt sem ég breytti þó í dag, sem fór aðeins úrskeiðis í gær er karamellusósan. Í gær varð hún nefnilega rosalega þykk hjá mér svo ég passaði að það gerðist ekki í dag. Málið er að það tekur svolítinn tíma fyrir hana að þykkna og mér fannst ég standa og hræra í henni mjög lengi án þess að nokkuð gerðist, en svo skyndilega byrjaði hún að þykkna og varð rosalega þykk á stuttum tíma. Ekki misskilja mig, sósan var svo góð að ég hefði getað borðað hana með skeið, en það gekk ekkert rosalega vel að hella henni yfir kökuna. Í dag gerði ég uppskriftina alveg eins, en passaði mig að láta hana ekki þykkna svona svakalega. Ég stóð því og hrærði í henni og tók vel eftir því þegar hún fór að þykkna og tók hana af hellunni um leið og hún var komin með þá áferð sem ég vildi.

Ég er mjög ánægð með þessa útkomu og vona svo innilega að ykkur líki vel. Ég hlakka líka til að deila með ykkur uppskriftunum sem eru væntanlegar á næstunni, ég hef ekki verið í svona miklu bloggstuði lengi og vona að það haldist hjá mér. Ég er líka að reyna að vera dugleg á Instagram og þætti mjög vænt um að þið mynduð fylgja okkur þar! <3

IMG_2583.jpg

Hráefni:

  • 250 gr þurrkaðar döðlur

  • 3 dl vatn

  • 1 tsk matarsódi

  • 100 gr smjörlíki við stofuhita

  • 130 gr púðursykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 msk eplaedik

  • 1 dl jurtamjólk


Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Saxið döðlurnar gróft niður og setjið í pott ásamt vatni og sjóðið á lágum hita í 5 mínútur eða þar til þær hafa mýkst svolítið.

  3. Takið þær af hellunni og stappið vel með gaffli, eða kartöflustappara. Það er líka hægt að mauka þær með töfrasprota eða matvinnsluvél, en mér finnst nóg að stappa bara með svona kartöflustappara.

  4. Stráið matarsóda yfir döðlumaukið og blandið honum vel saman við og leyfið að standa í smá stund. Ég geri þetta bara í pottinum sem ég sauð þær í. Maukið mun freyða svolítið þegar matarsódinn er kominn í.

  5. Þeytið smjörlíki og púðursykur þar til blandan er orðin létt og svolítið ljós. Bætið svo restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman.

  6. Smyrjið kökuform. Ég nota eiginlega alltaf kringlótt smelluform sem er 20 cm að stærð og eru uppskriftirnar mínar oftast akkúrat passlegar í það. Ef þið eruð að nota miklu stærra form myndi ég tvöfalda uppskriftina. Ég á t.d eitt 26 cm form sem ég nota voða sjaldan og ég myndi held ég gera þessa uppskrift tvöfalda í það. Ég klippi líka út smá smjörpappír og set í botninn, bara því mér finnst það svo þægilegt.

  7. Bakið kökuna í 40-50 mínútur. Minn ofn er ekki með blæstri og ég bakaði mína köku í 50 mínútur. Ég byrjaði þó að fylgjast með henni eftir 35 mínútur til að vera viss.

Karamellusósa:

  • 1 og 1/2 dl Alpro sojarjómi

  • 120 gr smjörlíki

  • 120 gr púðursykur

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Setjið allt í pott og hrærið vel saman.

  2. Látið suðuna koma upp og hrærið reglulega í pottinum þar til þið fáið þá áferð sem þið viljið. Ég vildi ekki hafa mína of þykka og passaði því í þetta skiptið að hræra ekki alltof lengi. Ég þurfti samt að sýna svolitla þolinmæði því það tók nokkrar mínútur fyrir sósuna að byrja að þykkna, en þegar það gerðist þá þykknaði hún mjög hratt.

Tips: Kakan er ótrúlega góð ein og sér með karamellusósunni, en Guð minn góður hvað vegan vanilluísinn fullkomnaði hana. Mæli því mikið með að kaupa einhvern góðan vegan ís og bera fram með henni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið njótið. Við höfum verið að fá margar myndir á Instagram uppá síðkastið frá fólki sem hefur verið að elda og baka uppskriftir frá okkur, og okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Veganistur <3

Vegan marmarakaka

IMG_2419-3.jpg

Við fengum fyrirspurn fyrir nokkrum dögum um hvort við ættum uppskrift af vegan marmaraköku. Við áttum enga slíka uppskrift svo ég ákvað að slá til og prufa mig áfram með svoleiðis köku og í dag er ég komin með dásamlega góða uppskrift. Kakan er svo ótrúlega góð og er alveg dúnmjúk eins og mér þykir best. Okkur finnst svo skemmtilegt þegar þið sendið okkur hugmyndir af uppskriftum til að prufa. Mér finnst ég oft svo hugmyndasnauð og því er gott að fá smá extra hjálp við að koma sér af stað og reyna eitthvað nýtt.

IMG_2384.jpg

Mér finnst ótrúlega gaman að vera farin að prufa mig áfram með fleiri köku uppskriftir. Ég hef verið svolítið föst í því að baka alltaf það sama fyrir hvert tilefni, og það er þá yfirleitt súkkulaðikakan okkar eða gulrótarkakan. Báðar eru alveg dásamlega góðar, en mér finnst mjög skemmtilegt að hafa úr fleiru að velja. Í síðustu viku birti ég uppskrift af þessari dásamlegu vegan möndluköku og í dag er það þessi æðislega og einfalda marmarakaka. Nú held ég að ég þurfi að fara að skella í eitt risastórt kökuboð.

IMG_2392.jpg

Mér finnst marmarakaka vera hin fullkomna sunnudagskaka og hentar einnig vel að eiga í ísskápnum og fá sér yfir kaffibolla sem síðdegishressingu. Þetta er einmitt svona týpísk kaka sem amma okkar bar á borð með sídegiskaffinu þegar við vorum yngri.

IMG_2394-2.jpg

Eins og ég hef talað um áður er ég enginn bakarameistari og mér finnst mjög erfitt að gera fallega skreyttar kökur á mörgum hæðum (Júlía sér alfarið um svoleiðis meistaraverk). Þegar ég baka fyrir afmælisboð eða önnur tilefni enda ég yfirleitt á að baka kökur í einhverskonar eldföstu móti eða minni útgáfu af ofnskúffu, smyrja yfir þær kremi og skera í kassa. Því finnst mér alltaf svo gott að geta gert einfaldar uppskriftir sem þarf bara að skella í form og hafa litlar áhyggjur af. Þessi uppskrift er dæmi um slíka köku. Það er hægt að pensla yfir hana bræddu súkkulaði ef maður vill eftir að hún hefur kólnað, og leyfa því að harðna, en mér finnst best að hafa hana bara svona.

IMG_2397.jpg

Ég mun klárlega baka þessa köku reglulega. Hún er ekki bara þægileg til að eiga heima heldur líka til að taka með á kaffistofuna í vinnunni eða eitthvað því líkt. Það er auðvelt að skera hana og það þarf ekki diska eða gaffla til að borða hana. Það er líka svo gaman að bjóða fólki upp á bakkelsi sem sýnir að dýraafurðir eru engin nauðsyn þegar kemur að því að baka góðar kökur.

Mér þætti ótrúlega gaman að fá fleiri hugmyndir frá ykkur af uppskriftum til að prufa, hvort sem það er bakstur eða einhver annar matur. Við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Munið líka að tagga okkur á Instagram ef þið gerið uppskriftirnar okkar, það er eitt það skemmtilegasta sem við vitum og gefur okkur enn meiri innblástur til að vera duglegar að blogga.

IMG_2402-2.jpg

Marmarakaka

  • 150 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1,5 dl sykur

  • 4,5 dl hveiti

  • 1/4 tsk salt

  • 1,5 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 4,5 dl jurtamjólk (ég notaði Oatly ikaffe - ef þið notið þynnri mjólk myndi ég byrja á 4 dl og sjá svo hvort þarf meira. Áferðin ætti að vera eins og á myndunum hér að ofan)

  • 1 tsk vanilludropar (það passar líka fullkomlega að hafa kardimommudropa í staðinn fyrir vanillu)

  • 1,5 msk eplaedik

Það sem fer út í brúna deigið:

  • 4,5 tsk kakó

  • 1,5 tsk sykur

  • 1,5 msk kalt vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c - minn ofn er ekki með blæstri svo ég baka á undir- og yfirhita.

  2. Þeytið smjör og sykur þar til það er ljóst og létt.

  3. Sigtið saman við hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið út í mjólk, vanilludropum og eplaediki og þeytið þar til engir kekkir eru. Reynið þó að þeyta eins stutt og mögulegt er.

  4. Takið 1/3 deigsins frá og setjið í aðra skál. Bætið við það kakói, sykri og vatni og hrærið saman.

  5. Smyrjið formið (mitt form er 26 cm á lengd og þessi uppskrift passar fullkomlega í það)

  6. Hellið helmingnum af ljósa deiginu í formið. Bætið svo næstum öllu brúna deiginu ofan á og reistinni af ljósa deiginu ofan á það. Ég setti svo restina af brúna deiginu (sem var alls ekki mikið) ofan á í litlum klípum. Næst tók ég hníf og stakk ofan í kökudeigið og dró hann um til að mynda svona mynstur. Ég er alls enginn snillingur í þessu, en ég var nokkuð ánægð með útkomuna.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer örugglega mikið eftir því hvernig ofn notaður er og hvort fólk hefur blástur á eða ekki. Ég er búin að baka kökuna tvisvar og í bæði skiptin tók það akkúrat klukkutíma fyrir hana að verða tilbúna.

  8. Leyfið kökunni að kólna áður en hún er tekin úr forminu og skorin. Hún má auðvitað vera volg, en leyfið henni allavega að standa í nokkrar mínútur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur

Jólamatur með sænsku ívafi

IMG_2277-2.jpg

Nú hef ég búið í Svíþjóð í nokkur ár og fengið ótrúlega góðan sænskan jólamat. Þess vegna langar mig að deila með ykkur hugmynd af jólamat með sænsku ívafi. Í Svíþjóð er boðið upp á julbord eins og það kallast og er borðið fyllt af allskonar kræsingum. Ég ákvað að útbúa nokkrar uppskriftir sem eru innblásnar af sænsku jólaborði, en það er þó fullt sem vantar hjá mér. Ég hugsaði þessar uppskriftir sem góðar hugmyndir að meðlæti um jólin, eða fyrir þá sem vantar hugmyndir fyrir jólaboðið.

IMG_2244.jpg

Sænskar veganbollur eru eitt af því sem er ómissandi á sænsku vegan jólaborði (ég notaði þær frá Hälsans Kök. Það gæti mörgum þótt það furðulegt og svolítið óhátíðlegt, en þær voru rosalega góðar með öllu meðlætinu. Á borðinu eru svo vanalega “prinskorvar” sem eru litlar pylsur sem steiktar eru á pönnu, og stór jólaskinka. Vegan pylsurnar frá Anamma væru mjög sniðugar sem prinskorv og svo er hægt að gera allskonar í staðinn fyrir jólaskinkuna. Það er bæði hægt að búa til sína eigin úr seitan, kaupa tilbúna úti í búð, eða gera ofnbakað blómkál eða rótarsellerí sem er mjög vinsælt hjá vegan fólki hérna í Svíþjóð.

IMG_2253.jpg

Mér finnst ekkert smá gaman að prufa eitthvað nýtt um jólin. Við sem erum vegan erum í því að búa til nýjar hefðir og vantar oft hugmyndir af einhverju hátíðlegu fyrir jóladag, annan í jólum, gamlárskvöld og öll jólaboðin. Við erum yfirleitt löngu búin að ákveða hvað við ætlum að hafa á aðfangadagskvöld, en þurfum meira að spá í öllum hinum dögunum.

IMG_2255.jpg
IMG_2257-2.jpg

Ég hélt mín fyrstu vegan jól árið 2011 og þá var úrvalið af vegan mat allt annað en þekkist í dag. Þá var það mjög vanalegt að grænkerar borðuðu hnetusteik við öll hátíðleg tilefni. Þegar ég var búin að borða hnetusteikina aðfangadagskvöld, jóladag og annan í jólum var ég oft komin með smá ógeð og fannst því ekkert svakalega spennandi að hafa hana aftur á gamlárs. Í dag erum við svo heppin að hafa endalaust úrval af skemmtilegum vörum og uppskriftum til að prufa eitthvað nýtt.

IMG_2263.jpg

Ég er búin að ákveða að hafa sveppasúpu í forrétt og innbakað Oumph! á aðfangadagskvöld, en uppskriftirnar finniði hér á blogginu. Á jóladag er ég svo að spá í að gera svona sænskt jólaborð en ætla að bæta við heilbakaðri sellerírót með gljáa. Ég er svo að spá í að gera tartaletturnar sem ég birti um daginn á gamlárskvöld. Svo ætlum við að baka lakkrístoppa og mögulega laufabrauð á næstu dögum. Í desert ætla ég að hafa ís einhverja daga, en svo ætla ég að útbúa vegan frysta ostaköku á gamlárs og stefni á að birta uppskrift af henni fyrir áramótin. Við erum þó nú þegar með tvær uppskriftir af gómsætum ostakökum nú þegar á blogginu. Eina svona frysta og aðra úr kasjúhnetum.

IMG_2276.jpg

Vegan jólaborð

Á disknum er ég með:

Kartöflugratín

Rósakál með möndlum og appelsínuberki

Rauðrófu- og eplasalat

Rauðvínssósu

Vegan síld á hrökkbrauði

Vegan kjötbollur frá Hälsans Kök

Grænkál sem ég steikti á pönnu uppúr sinnepi, Oatly rjóma, salti og pipar

Njótið
Veganistur