Vegan kókoskonfekt

IMG_1921-3.jpg

Áður en ég gerðist vegan var konfekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst æðislegt þegar ég fékk heimagert konfekt í jólagjöf, en ég er ein af þeim sem elska heimatilbúnar gjafir. Það er ekkert mál að gera gott vegan konfekt, en það halda margir að eina leiðin til þess sé að gera það úr döðlum og hnetum. Við erum með eina uppskrift af dásamlegum möndlu- og döðlukúlum hér á blogginu, en í dag ætla ég að gera vegan konfekt sem er einfaldlega bara nammi. Ég hef ákveðið að sýna ykkur þrjár uppskriftir næstu daga, sem eru fullkomnar í jólapakkann. Þetta eru allt einfaldar og ótrúlega gómsætar uppskriftir sem slá í gegn, sama hvort fólk er vegan eða ekki. Í dag ætla ég að birta þá fyrstu, og það eru heimagerðir “Bounty” bitar.

Þessir bitar koma þvílíkt á óvart, því þeir minna svo ótrúlega mikið á Bounty súkkulaði. Það tók enga stund að búa þá til og ég naut mín í botn með jólatónlist og kertaljós. Ég er komin í jólafrí og er gríðarlega þakklát að hafa tíma núna fyrir jólin til að gera skemmtilegar uppskriftir. Í fyrra hafði ég engan tíma og missti því svolítið af mínum uppáhalds tíma, sem eru vikurnar fyrir jól, þegar jólastressið er ekki orðið svo mikið og enn er hægt að dunda sér við jólastússið. Núna ætla ég því að njóta þess að gera súper kósý hérna heima og prufa mig áfram með skemmtilegar jólauppskriftir.

IMG_1888.jpg
IMG_1894-2.jpg

Eitt af okkar markmiðum er að sýna öllum að það er ekkert mál að halda jól án þess að borða dýraafurðir. Það er hægt að útbúa vegan útgáfu af nánast öllu og ef ekki, þá er hægt að finna eitthvað annað í staðinn. Við erum með gott úrval af hátíðaruppskriftum hérna á blogginu og ætlum að reyna eins og við getum að koma út nokkrum góðum jólauppskriftum núna á næstu vikum. Eins er æðislegt að sjá hvað fyrirtæki og veitingastaðir eru orðin dugleg að framleiða vegan mat. Það eru ekkert alltof mörg ár síðan við borðuðum hnetusteik í öll mál yfir allar hátíðir og vorum orðnar ansi þreyttar á henni þegar kom að gamlárskvöldi, eins og hnetusteikin er nú góð. Nú er hægt að velja úr ótal skemmtilegum og hátíðlegum uppskriftum og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um jólin.

IMG_1905.jpg

Vegan kókosbitar (ca 20 stykki)

  • 3,5 dl kókosmjöl

  • 1,5 dl Alpro þeytirjómi - Ekki þeyta hann samt

  • 1/2 dl kókosolía

  • 1/2 tsk vanillusykur

  • 2 msk flórsykur

  • Örlítið salt

  • 200-220 g súkkulaði - Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri fullkomið utan um kúlurnar.

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál kókosmjöli, flórsykri, vanillusykri og salti

  2. Bætið í skálina rjómanum og kókosolíunni og blandið öllu vel saman

  3. Rúllið upp í kúlur eða stykki, raðið á smjörpappír og setjið í frystinn í 30 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði

  5. Veltið kókosbitunum upp úr súkkulaðinu. Leggið bitana á smjörpappír og kælið þar til súkkulaðið er orðið hart.


Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaði er eitt af því sem gerir veturinn betri. Það er fátt jafn gott eftir göngutúr í kuldanum en hentar líka fullkomlega á köldum sunnudagsmorgnum þegar mann langar ekkert frekar en að kúra uppi í sófa í náttfötum vafin í teppi! 

Margir halda að það sé mun fljótlegra að útbúa heitt kakó úr tilbúnu kakódufti, eins og Swiss miss, og verða því svekktir að komast að því að Swiss miss er alls ekki vegan. Að okkar mati er heitt súkkulaði gert "frá grunni" mun betra og meira alvöru. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa og er algjörlega þess virði.

Mjólkin frá Oatly er alveg frábær. Þau framleiða meðal annars mjólk sérstaklega gerða fyrir kaffi. Hún freyðir betur og er svolítið þykkari. Ég notaði hana í heita súkkulaðið og það kom virkilega vel út. Oatly fæst í krónunni. 
Sykurpúðarnir fást í Gló í Fákafeni og koma bæði svona litlir og einnig stærri. Þeir eru mjög góðir og pössuðu mjög vel við kakóið. 

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1L kaffimjólk frá Oatly - eða önnur jurtamjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

Valfrjálst: 

  • Jurtarjómi frá Soyatoo, fyrir þá sem vilja þeyttan rjóma með heita súkkulaðinu (fæst í Gló Fákafeni)

  • Vegan sykurpúðar (Fást í Gló Fákafeni)

 

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp.

  3. Saltið eftir smekk

Berið fram með sykurpúðum, þeyttum jurtarjóma eða bara eitt og sér. Uppskriftin er fyrir sirka 4-5.

Vona að þið njótið
Helga María

Innbakað hátíðarOumph!

Þegar gerast skal vegan er það oft jólamaturinn sem þvælist hvað mest fyrir fólki. Hvað skal borða á jólunum? er spurning sem við fáum ótrúlega oft á hverju ári. Flestir eiga margar góðar jólaminningar og tengjast þær nánast allar mat. Margir eru mjög vanafastir og líður illa við tilhugsunina um að borða eitthvað annað en það sem þau eru vön á jólunum. Við systur komumst hinsvegar að því að jólin verða alveg jafn hátíðleg og eftirminnileg sama hvað við borðum. Vegan matur er nefnilega ekki síðri öðrum mat líkt og margir virðast oft halda. 

Við höfum báðar prófað margt, annars vegar rétti sem hafa heppnast mjög vel og hins vegar rétti sem hafa endað í ruslinu. Ein jólin var það hnetusteik sem brann við, önnur jólin hnetusteik sem var óæt og fleira þess háttar. Svo hafa það verið gómsætar sveppasúpur sem hinir í fjölskyldunni geta ekki staðist og mjög gómsætar hnetusteikur. Við höfum komist að því að það skiptir í rauninni litlu máli hvað við borðum á jólnum, svo lengi sem það er gott.  Eftir þónokkuð mörg veganjól, áramót, páska og fleiri hátíðir höfum við þó loksins fundið rétt sem okkur finnst vera fullkomin fyrir hátíðirnar. 

Helga kynntist Oumph! vörunum á undan flestum Íslendingum þar sem hún bjó í Svíþjóð, en þaðan er varan upprunalega. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph! er þá er það soyjakjöt sem inniheldur einungis soyja, vatn og olíu og er lang besta soyjakjötið á markaðnum í dag að okkar mati. Helga ákvað eftir að hafa kynnst þessari vöru að gera einhvern rétt úr henni um jólin í fyrra.  Tengdamamma hennar var að innbaka einhvers konar kjöt í smjördeigi og fannst henni tilvalið að prófa bara eitthvað þess háttar með Oumphinu.

Það kom ekkert smá vel út og vörum við staðráðnar í því að fyrir jólin í ár myndum við deila uppskriftinni með ykkur. Við fundum rosalega mikla þörf fyrir uppskrift af einhverju öðru en hnetusteik fyrir þessi jól. Hnetusteik er algengasti jólamatur grænmetisæta og sumir skiljanlega komnir með smá leið á henni. Júlía er að minnsta kosti spennt fyrir því að borða eitthvað annað þessi jóla eftir að hafa borðað hnetusteikina á aðfangadag, annan í jólum, gamlárskvöld og nýársdag í fyrra.  

Innbakað hátíðarOumph! (10 bökur)

  • 1 poki OumphI (annað hvort the chunk eða garlic and thyme)

  • 1-2 skallotlaukar

  • 3 hvítlauksrif

  • 2-4 blöð grænkál, allt eftir smekk

  • 1 tsk rósmarín

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1 dl Oatly-hafrarjómi

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 sveppateningur

  • 1 pakki Findus smjördeig

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna þar til auðvelt er að skera það í litla bita. Saxið einnig niður laukinn og grænkálið og setjið til hliðar.

  2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er vel heitt og setjið síðan laukinn, grænkálið og hvítlaukinn útí ásamt kryddunum.

  3. Steikið þetta í nágóðan tíma, eða um 10 - 15 mínútur, áður en rjómanum, sveppakraftinum og sinnepinu er bætt út í.

  4. Leyfið fyllingunni að hitna vel áður en slökkt er undir, en rjóminn þarf ekki að sjóða.

  5. Fletjið hverju smjördeigsplötu örlítið út (ekki hafa áhyggjur þó þið eigið ekki kökukefli, við redduðum okkur með glerflösku hehe) og skerið í tvennt. Leggið hvern ferhyrning af smjördeigi í eitt hólf á möffinsskúffu og setjið sirka 2 msk af fyllingunni ofan í. Festið öll fjögur hornin vel saman.

  6. Penslið hverja böku með þeirra plöntusmjólk sem er til hverju sinni, það má einnig nota afgangin af hafrarjómanum og bakið við 190 °C í 20 til 30 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Við bárum innbakaða Oumphið fram með brúnuðum kartöflum, rauðvínssveppasósu, grænum baunum og rauðkáli.

Rauðvíns-sveppasósa

  • 100 gr sveppir

  • 1 peli Oatly-hafrarjómi (250ml)

  • 1 msk rauðvín

  • 1/2 sveppateningur

  • salt og pipar

  • 2 msk hveiti

  • 3/4 dl vatn

  1. Steikið sveppina þar þeir eru mjúkir og svolítið vökvi myndast.

  2. Bætið rjóma, rauðvíni, sveppateningi, salti og pipar á í pottinn og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur,

  3. Hristið eða þeytið saman með písk vatninu og hveitinu þar til alveg kekklaust og hellið út í í mjórri bunu á meðan hrært er stanslaust í súpunni.

  4. Leyfið suðunni að koma aftur upp og slökkvið undir.

Brúnaðar kartöflur (10-12 litlar)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Njótið vel
-Veganistur

 

 

Vegan lagterta

Jólaundirbúningurinn heldur áfram hjá okkur systrum og enn einu sinni sannast það að maður þarf ekki dýraafurðir til að njóta matarins sem fylgir þessari hátíð. Núna í nóvember prófuðum við í fyrsta skipti síðan við gerðumst vegan að gera lagtertu. við gerðum okkur þó ekki miklar vonir og vissum í raun ekki alveg út í hvað við værum að fara.

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og sáum að þær voru ekkert rosalega flóknar. Uppistaðan í þeim flestum var u.þ.b. sú sama en auðvitað innihéldu þær allar egg. Við ákváðum að þróa okkar eigin uppskrift og nota aquafaba í staðin fyrir egg. 

Aquafaba er orðið flestum kunnungt en það notum við t.d. í marengsuppskriftirnar okkar. Júlía bakaði köku fyrir jólin í fyrra sem minnti mikið á lagtertu og notaði aquafaba í hana og því ákváðum við bara að halda okkur við það. En fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós.

Það að baka lagtertu er alls ekki eins flókið og við héldum. Ástæðan fyrir því að okkur hafði ekki dottið í hug að baka lagtertu áður er sú að við borðuðum ekki mikið af henni í æsku. Hún var aldrei bökuð heima og því ekki mjög stór partur af okkar jólum. Núna í vetur höfum við samt mikið verið að gæla við þessa hugmynd þar sem kakan er svo rosalega jólaleg.

Einnig fundum við fyrir svolítilli eftirspurn eftir uppskrift af þessari köku og við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa skellt í hana. Við erum núna búnar að prófa uppskriftina nokkrum sinnum og hefur hún alltaf heppnast mjög vel.

Hráefni:

  • 150 gr vegan smjör (við notum Krónu smjörlíki)

  • 3 dl sykur

  • 6 msk aquafaba

  • 7 1/2 dl hveiti

  • 2 tsk kanill

  • 1 1/2 tsk negull

  • 1 1/2 tsk matarsódi

  • 1 msk kakó

  • 2 1/2 dl plöntumjólk (við notum Oatly haframjólkina)

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið og sykurinn í hrærivél og bætið síðan aquafaba útí. Þeytið þetta þar til létt og ljóst.

  2. Blandið þurrefnunum saman í aðra skál.

  3. Bætið því út í smjörhræruna ásamt mjólkinni og hrærið saman.

  4. Skiptið deginu jafnt í tvennt og bakið tvo botna í 18 mínútur við 175°C. Botnarnir eiga að vera u.þ.b. 25 x 35 cm. Skerið hvorn botn í tvennt svo þið hafið fjóra botna og smyrjið smjörkreminu jafnt á milli þeirra.

Smjörkrem:

  • 200 gr vegan smjör

  • 3 msk aquafaba

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 pakki flórsykur (500 gr)

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í hrærivel og þeytið vel saman.

  2. Smyrjið á milli botnanna.

Njótið vel!
-Veganistur

Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

  • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif

Vegan lakkrístoppar

Nú nálgast jólin óðfluga og flestir farnir að huga að jólabakstrinum. Við systurnar erum að sjálfsögðu engin undantekning. Þegar við gerðumst vegan bjuggumst við ekki við því að baka lakkrístoppa aftur. Vegan marengs var eitthvað sem fólk almennt hafði ekki hugmynd um að hægt væri að gera. Það var svo fyrir sirka tveimur árum að aquafaba, próteinríki vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós, uppgvötaðist. Það var frakkinn Joël Roessel sem fann upp á þessarri snilld. Aquafaba gjörsamlega breytti lífi vegan fólks um allan heim. Nú geta þeir sem kjósa að borða ekki egg eða eru með ofnæmi fyrir eggjum notið þess að borða til dæmis marengstertur og mæjónes svo eitthvað sé nefnt. 

Síðustu jól bökuðum við lakkrístoppa í fyrsta skipti síðan við urðum vegan. Við vorum örlítið skeptískar í fyrstu og vildum ekki gera okkur of miklar vonir. Við urðum því heldur betur hissa þegar lakkrístopparnir komur úr ofninum og smökkuðust nákvæmlega eins og þeir gömlu góðu sem við vorum vanar að borða áður fyrr. 

Við þróuðum uppskriftina sjálfar og birtum á facebooksíðunni okkar en hún vakti strax mikla lukku. Uppskriftin er virkilega einföld og hefur slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað toppana hjá okkur. Það er að sjálfsögðu vel hægt að bjóða öllum uppá lakkrístoppana, hvort sem fólk er vegan eða ekki, því það er enginn munur á þeim. 

Við erum á fullu að safna góðum hátíðaruppskriftum á bloggið okkar sem henta vel fyrir jólin og í allskonar veislur. 
Núna erum við til dæmis komnar með

Marengstertu
Aspasbrauðrétt
Döðlunammi
Súkkulaðiköku

... Og það er margt fleira á leiðinni. 
 

IMG_6712-2.jpg

Vegan Lakkrístoppar

  • 9 msk aquafaba

  • 300g púðursykur

  • 150g lakkrískurl

  • 150g suðusúkkulaði

 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°c

  2. Þeytið aquafaba í hrærivél þar til vökvinn verður alveg stífur, eða í sirka 15-20 mínútur

  3. Bætið púðursykrinum hægt út í, það er fínt að setja bara eina matskeið í einu og þeytið á meðan

  4. Hrærið vel og lengi, alveg í aðrar 20 mínútur

  5. Slökkvið á hrærivélinni og blandið lakkrísnum útí, ásamt brytjuðu súkkulaðinu, varlega með sleif.

  6. Bakið lakkrístoppana í 15-17 mínútur. Leyfið þeim að kólna í svolítinn tíma á plötunni eftir að þið takið þá út.

Vonum að þið njótið 

-Veganistur