Hátíðleg aspassúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af æðislega góðri rjómalagaðri aspassúpu. Ótrúlega klassísk og einföld súpa með fáum hráefnum sem hver sem er getur auðveldlega útbúið.

Í okkar fjölskyldu er þessi súpa borin fram í forrétt á aðfangadagskvöld og á hún því mjög sérstakan stað í okkar hjarta. Hún er argjörlega ómissandi fyrir okkur á jólunum en hentar að sjálfsögðu vel hvenær sem er á árinu með góðu brauði.

Færslan er unninn í samstarfi við ORA en okkur finnst sá aspas lang bestur í súpuna. Súpan er bökuð upp frá hveitibollu og mjög einföld í matreiðslu.

Við mælum með að bera súpuna fram með hvítu fransbrauði við hátíðartilefni en það passað ekkert smá vel. Einnig er nauðsynlegt að gera stóran skammt til að eiga afganga á jóladag að okkar mati.

Rjómalöguð hátíðar aspassúpa

Rjómalöguð hátíðar aspassúpa
Fyrir: 4-5 í aðalrétt (um 8 í forrétt)
Höfundur: Veganistur
Eldunartími: 30 Min: 30 Min

Hráefni:

  • 125 gr vegan smjör eða smjörlíki
  • 2 dl hveiti
  • 3 dósir aspas
  • 2 lítrar ósæt hafra eða sojamjólk
  • 1 líter hafrarjómi
  • 3 grænmetisteningar
  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða smjörið í potti.
  2. Bætið hveitinu út í smjörið og hrærið vel saman. Slökkvið undir.
  3. Bætið út í safanum af aspasinum í 3 skömmtum, (Þægilegast er að setja vökvan úr 1 dós í einu) og hrærið vel í á milli með písk svo ekki myndist kekkir. Hrærið þannig að "deigið" sem alveg slétt áður en þið bætið næsta skammti að vökva saman við. (Setjið aspasinn sjálfan til hliðar).
  4. Bætið 1/2 líter af mjólk út í og hrærið vel með písknum. Kveikið aftur undir pottinum á lágum hita.
  5. Bætið restinni af vökvanum saman við, ásamt grænmetisteningum og salti.
  6. Leyfið súpunni að hitna að suðu á lágum hita og hrærið vel í reglulega þar sem súpan getur auðveldlega brunnið við.
  7. Smakkið til með salti og bætið aspasinum saman við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

- Færslan er unnin í samstarfi við ORA -

Rauðrófucarpaccio með klettasalati og vegan parmesanosti (forréttur fyrir 4)

Við kynnum hinn FULLKOMNA forrétt fyrir aðfangadagskvöld - eða við önnur skemmtileg tilefni. Rauðrófucarpaccio með kryddolíu, klettasalati, furuhnetum, balsamikediki og vegan parmesanosti. Einstaklega fallegur og góður forréttur.

Við erum oft spurðar að því hvort við höfum hugmyndir af góðum forrétt fyrir jólin. Við erum vanar að gera sveppasúpu eða aspassúpu, en í ár langaði okkur að breyta aðeins til og útbúa nýja og skemmtilega uppskrift að forrétt.

Rauðrófucarpaccio er ferskur og góður réttur sem við hlökkum til að gera við fleiri skemmtileg tilefni. Við borðum jú alltaf fyrst með augunum svo það er ekki leiðinlegt að kunna bera fram svona fallegan mat.

Rauðrófucarpaccio með gómsætu salati: (forréttur fyrir 4)

  • 2 meðalstórar rauðrófur

  • Góð ólífuolía

  • Villibráðakrydd frá Kryddhúsinu

  • Salt

  • Klettasalat

  • Ristaðar furuhnetur

  • Vegan parmesan ostur frá Violife

  • Balsamikedik

Aðferð:

  1. Byrjið á því að flysja rauðrófurnar. Það er gott að hafa í huga að rauðrófur geta mjög auðveldlega litað tréskurðarbretti og gott er að vera í hönskum þegar þær eru meðhöndlaðar.

  2. Pakkið rauðrófunum ásamt 1 tsk af salti í álpappír og bakið við 180°C í 50 mínútur. Takið út úr ofninum og leyfið þeim að kólna alveg. Ég geri þetta oft snemma um daginn eða jafnvel daginn áður.

  3. Notið mandolín eða mjög beittan hníf til að skera rauðrófurnar niður í mjög þunnar sneiðar, raðið þeim í þunnt þétt lag á stóran disk eða fjóra litla diska.

  4. Hellið ólífuolíu yfir og stráið 1-2 tsk af villibráðakryddinu yfir og nuddið því aðeins á rauðrófuskífurnar, fínt að nota pensil eða bara fingurna.

  5. Stráið klettasalati, furuhnetum, balsamik ediki og parmesan ostinum yfir. Kryddið með smá salti og pipar og berið fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel! <3

-Veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar-

 
 

Jólahlaðborð með lítilli fyrirhöfn.

Í fyrra fengum við systur boð um að setja saman vegan jólahlaðborð í samstarfi við Krónuna sem var alveg ótrúlega skemmtilegt. Við vorum því fljótar að ákveða í samvinnu við þau að gera það aftur í ár þar sem þetta er virkilega skemmtileg hefð sem er klárlega komin til að vera á okkar heimili. Það er svo gamana að geta boðið góðum vinum eða fjölskyldu í notalega stund án þess að það þurfi að vera rosaleg fyrirhöfn.

Úrvalið af tilbúnum vegan réttum og vegan hráefnum er orðið svo ótrúlega gott og finnst okkur mjög gaman að geta sett saman svona flott hlaðborð af vegan mat án þess að þurfa að gera allt frá grunni. Framboðið hefur aukist svo mikið síðustu ár að í þetta skiptið þurftum við að velja úr réttum til að bjóða upp á þar sem það var svo mikið gómsætt í boði í Krónunni. Það er því alveg liðin tíð að þurfa að hafa áhyggjur af öllum boðum í gegnum hátíðirnar og þurfa alltaf að vera með eitthvað tilbúið. Það er einfaldlega hægt að hoppa út í búð og grípa með sér vegan steik og meðlæti fyrir næsta boð.

Við vildum hafa hlaðborðið eins einfalt og við gátum og völdum því nánast einungis rétti sem þurfti bara að hita. Það eina sem við gerðu frá grunni var ein ostakúla fyrir ostabakkan og síðan fljótlegt kartöflugratín. VIð ákváðum að prufa að kaupa forsoðnar bökunarkartöflur í gratínið og vá hvað það var mikil snilld. Við notuðum uppskrift sem má finna hérna á blogginu en skárum kartöflurnar bara í skífur. Það þurfti því einungis að baka gratínið í 10 mínútur í ofninum og var það ekkert smá gómsætt. Það er algjörlega fullkomin laust ef ekki gefst mikill tími fyrir eldamennskuna. Við tókum einnig myntu og súkkulaði ísinn frá VegaNice og settum í kökuform og inni frysti. Þegar allt annað var tilbúið tókum við hann út, settum á kökudisk og bráðið súkkulaði yfir. Þar með vorum við komnar með fallega ístertu á mjög einfaldan hátt. Allt annað þurftum við einungis að hita eða setja í fínar skálar og bera fram.

Þessir réttir eru því ekki einungis fullkomnir til að bjóða upp á í hlaðborði heima heldur einnig til að taka með sér í jólaboð þar sem kannski ekki er boðið upp á eitthvað vegan. Eða þá til að benda vinum og fjölskyldu á sem eru að vandræðast með hvað þau geta boðið upp á fyrir vegan fólk. Þá er algjör snilld eða geta sagt þeim hvað sé hægt að kaupa sem einungis þarf að hita.

Það sem við buðum uppá í okkar hlaðborði:

Forréttir:

Ostabakki með hátíðarostunum frá Violife, heimagerðri ostakúlu, chillisultu, kexi, vínberjum og sultuðum rauðlauk. Ostakúlu uppskrift má finna hér, en það eru einnig fleira slíkar á leiðinni.
Sveppasúpa frá HAPP

Aðalréttir:

Oumph wellington.
Gardein savory stuffed turk’y (Fyllt soyjakjötsstykki")

Meðlæti:

Sveppasósa frá HAPP
Fljótlegt kartöflugratín (uppskrift hér, en ég notaði forsoðnar bökunarkartöflur svo gratínið þurfti einungis að baka í 10 mínútur.)
Sætkartöflumús frá Nóatúni
Rauðkál frá Nóatúni
Grænar baunir
Maísbaunir
Vegan laufabrauð frá ömmubakstri
Baguette

Eftirréttir:

R’ISALAMAND frá Naturli
VegaNice Súkkulaði&myntu ís
Vegan piparkökur
Fazer Marianne nammi

Drykkir:

Tilbúið jólaglögg í fernu
Malt og appelsín

Ps. Við erum með gjafaleik á instagram þar sem við gefum tvö 20.000 króna gjafabréf í Krónuna svo þið getið sett saman ykkar eigið hlaðborð. Okkur finnst einnig mjög gaman þegar þið taggið okkur og megið þið endilega tagga okkur og Krónuna ef þið setjið saman ykkar eigið hlaðborð.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fæst allt í hlaðborðið þar -

 
 

Aspassúpa og hátíðar meðlætið │ Veganistur TV │ 7. þáttur

Aspassúpa

  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 dl hveiti

  • 2 dósir niðursoðinn aspas (soðið og aspasinn)

  • 2 lítrar Oatly Barista mjólkin

  • 4 msk grænmetiskraftur (2 grænmetisteningar)

  • 2 tsk salt

  • 1/2 lítri Oatly iMat matreiðslurjómi

Aðferð:

  1. Bryjið á því að bræða smjörlíki í stórum potti. Þegar smjörlíkið er bráðið setjið hitan á hellunni niður á miðlungs eða lágan hita.

  2. Stráið hveitinu út í smjörið og hrærið það saman í hveitibolli, Bollan á að vera frekar þurr.

  3. Hellið soðinu af tveimur aspadósum í könnu og bætið út í pottinn í nokkrum skömmtum og hrærið vel saman við hveitibollunna. Ekki setja of mikið vökva út í pottinn í einu því þá er líklegra að kekkir myndist í súpunni.

  4. Þegar allt soðið er komið saman við bætið hálfum lítra af mjólkinni saman við og hrærið vel og síðan restinni af mjólkinni.

  5. Bætið grænmetiskrafti og saltinu saman við og leyfið því að hitna þar til suðan kemur upp.

  6. Þegar suðan er komin upp bætið matreiðslurjómanum og aspasinum saman við og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.

  7. Berið fram með hvítu hveitibrauði.

Pipar sveppasósa

  • 25 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 200 gr sveppir

  • 2 tímían stilkar (ferkst)

  • salt og pipar

  • 1 bréf piparsósa

  • 250 ml vatn

  • 2 msk grænmetiskraftur (1 grænmetisteningur)

  • 250 ml Oatly iMat matreiðslurjómi

  • 1 tsk rifsberjahlaup eða rifsberjasulta

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í þunnar sneiðar, kremjið hvítlaukinn og setjið út á heita pönnu mðe vegan smjörinu og tímían stilkunum.

  2. Steikið í nokkrar mínútur þar til að vökvi fer að myndast úr sveppunum.

  3. bætið vatninu, piparsósunni og grænmetiskraftinum út á pönnuna og hrærið saman þar til duftið er alveg komið saman við vatnið.

  4. Bætið rjómanum og rifsberjasultunni saman við og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið í sirka 5 mínútur.

Brúnaðar kartöflur (10 meðalstórar kartöflur)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Eplasalat

  • 2 meðalstór græn epli

  • 1 bolli græn vínber

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl þeyttur vegan rjómi

Aðferð:

  1. Takið hýðið af eplunum og skerið niður í litla kúbba

  2. Skerið vínberin í tvennt

  3. hrærið sýrða rjómanum og þeytta rjómanum saman við ávextina í stórri skál.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
 
KRONAN-merki.png
Oatly_logo_svart.png
 

Hvít lagterta með sultu

IMG_9934.jpg

Þá er komið að annarri uppskriftinni okkar í samstarfi við Naturli. Í þetta sinn deilum við með ykkur dásamlegri uppskrift af hvítri lagtertu. Lagtertan hefur ýmis nöfn, randalína, vínarterta, lagkaka og örugglega fleiri, en ég ákvað að hér skuli hún heita hvít lagterta.

Eins og við nefndum í síðustu færslu ætlum við að útbúa fjórar dásamlegar uppskriftir af jólabakstri þar sem við notum vegan smjörlíkið frá Naturli. Smjörlíkið er að sjálfsögðu vegan en það er líka lífrænt og útbúið úr Sea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar fullkomlega í bakstur og til steikingar. Mikilvægt er þó að ruglast ekki á hinu smjörinu þeirra (smörbar), en það er til að smyrja á brauð. Bæði smjörin og hinar vörurnar þeirra notum við gríðarlega mikið og erum við því ekkert smá ánægðar að vera í samstarfi við Naturli fram að jólum. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni, Melabúðinni og Fjarðarkaup.

Þegar ég byrjaði að vinna að uppskriftinni uppgvötaði ég að lagtertan hefur ekki bara ýmis nöfn, heldur er mjög mismunandi hvernig hún er gerð. Sumir vilja hana hrærða á meðan aðrir hafa hana hnoðaða og svo er hún ýmist smurð með rabbabarasultu, sveskjusultu, jarðarberjasultu, smjörkremi, smjörkremi og sultu, súkkulaðikremi… listinn heldur áfram.
Síðan ég flutti erlendis hef ég saknað rabbabarasultunnar mikið. Ég veit vel að ég gæti gert mína eigin en hef ekki enn komið mér í það. Ég var fremur ómöguleg yfir því að geta ekki notað hana í lagtertuna, en mamma huggaði mig með því að segja mér frá því að í okkar fjölskyldu hafi lengi verið hefð að nota jarðarberjasultu því hér áður fyrr var hún talin fínni og var því notuð til hátíðarbrigða. Ég jafnaði mig svo almennilega þegar ég smakkaði lagtertuna mína með jarðarberjasultunni því hún er ekkert smá góð.

IMG_9888.jpg

Mamma gerir alltaf hrærða lagtertu en tengdamamma hnoðaða svo ég prufaði að gera bæði og fannst hún koma betur út hjá mér hnoðuð. Þær voru báðar ótrúlega góðar en fannst hnoðaða aðeins meira skothelld. Ég nota aquafaba (kjúklingabaunavökva) í staðinn fyrir egg og það virkar mjög vel í þessa uppskrift. Aquafaba er vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós. Hann er sigtaður frá baununum og er próteinríkur og virkar því eins og eggjahvítur í margar uppskriftir.

IMG_9895.jpg

Ég vona að ykkur þyki þessi lagterta jafn góð og mér. Það eru mörg ár síðan ég smakkaði svona hvíta lagtertu síðast og ég saknaði hennar ekkert svakalega. Eins varð Siggi ekkert rosalega spenntur þegar ég sagði honum að ég ætlaði að baka svoleiðis fyrir bloggið. En við urðum bæði svo hissa þegar við smökkuðum kökuna því hún er svooo góð. Mér finnst hún alveg jafn góð og þessi brúna og mun héðan í frá baka báðar fyrir jólin.

IMG_9928-2.jpg

Þegar ég sit og skrifa þetta er Júlía stödd á bókamessunni í Hörpu að kynna bókina okkar sem kemur í búðir eftir tæpar tvær vikur. Ég viðurkenni að á svona stundum er erfitt að vera stödd í öðru landi og geta ekki tekið fyllilega þátt en ég er samt gríðarlega hamingjusöm og þakklát. Stundum vildi ég bara að ég gæti verið á mörgum stöðum í einu. Ég hlakka þó gríðarlega til að koma í janúar og halda útgáfuhóf og taka þátt í veganúar á Íslandi.

Hvít lagterta

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 250 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 1 tsk vanilludropar

  • 6 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi. Sjá útskýringu á því hvað það er hér að ofan)

  • 2 msk vegan mjólk

  • Sulta eftir smekk til að smyrja. Ég notaði jarðarberjasultu og það fóru sirka 400 gr alls á kökuna.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið þurrefnunum saman.

  3. Bætið mjólk, aquafaba og vanilludropum út í og myljið smjörlíkið út í.

  4. Hnoðið saman. Sjálf á ég ekki hrærivél svo ég notaði hnoðarana á rafmagnsþeytaranum til að koma deiginu aðeins saman og tók svo við með höndunum. Það er þó líklega þægilegast að nota hrærivél.

  5. Skiptið deiginu í akkúrat tvo hluta og fletjið þá út á tvær ofnplötur. Mínir botnar urðu sirka 28x32 cm hvor.

  6. Bakið botnanna í 20 mínútur. Ég fylgdist vel með þeim og þar sem ofninn minn er stundum svolítið lélegur og er ekki með blástur þá tók ég efri botninn út aðeins á undan hinum sem ég færði svo aðeins ofar í nokkrar mínútur.

  7. Leyfið botnunum að kólna og skerið þá svo í tvennt langsum (sjá mynd að ofan). Smyrjið botnanna og leggið þá saman.

  8. Ég gerði þau mistök þegar ég gerði kökuna fyrst að reyna að skera hana niður í sneiðar um leið og ég setti hana saman. Botnarnir voru þó svo harðir að sultan kreistist út til hliðanna og allt fór svolítið í klessu. Ég hringdi því í mömmu og tengdamömmu og fékk ráð. Kakan mýkist þegar hún fær að standa í svolitla stund og botnarnir draga í sig sultuna og þá er ekkert mál að skera hana. En til að fá sem fallegastar sneiðar bentu þær mér á að gott sé að skera kökuna hálf frosna. Það gerði ég í þetta sinn. Ég tók hana út frystinum um klukkustund áður en ég vildi skera hana niður. Þegar hún var hálf þiðnuð lagði ég hana upp á hlið og skar sneiðarnar svoleiðis. Þannig náði ég mjög fínum sneiðum.

Takk fyrir að lesa og njótið!
Veganistur

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -

Jólamatur með sænsku ívafi

IMG_2277-2.jpg

Nú hef ég búið í Svíþjóð í nokkur ár og fengið ótrúlega góðan sænskan jólamat. Þess vegna langar mig að deila með ykkur hugmynd af jólamat með sænsku ívafi. Í Svíþjóð er boðið upp á julbord eins og það kallast og er borðið fyllt af allskonar kræsingum. Ég ákvað að útbúa nokkrar uppskriftir sem eru innblásnar af sænsku jólaborði, en það er þó fullt sem vantar hjá mér. Ég hugsaði þessar uppskriftir sem góðar hugmyndir að meðlæti um jólin, eða fyrir þá sem vantar hugmyndir fyrir jólaboðið.

IMG_2244.jpg

Sænskar veganbollur eru eitt af því sem er ómissandi á sænsku vegan jólaborði (ég notaði þær frá Hälsans Kök. Það gæti mörgum þótt það furðulegt og svolítið óhátíðlegt, en þær voru rosalega góðar með öllu meðlætinu. Á borðinu eru svo vanalega “prinskorvar” sem eru litlar pylsur sem steiktar eru á pönnu, og stór jólaskinka. Vegan pylsurnar frá Anamma væru mjög sniðugar sem prinskorv og svo er hægt að gera allskonar í staðinn fyrir jólaskinkuna. Það er bæði hægt að búa til sína eigin úr seitan, kaupa tilbúna úti í búð, eða gera ofnbakað blómkál eða rótarsellerí sem er mjög vinsælt hjá vegan fólki hérna í Svíþjóð.

IMG_2253.jpg

Mér finnst ekkert smá gaman að prufa eitthvað nýtt um jólin. Við sem erum vegan erum í því að búa til nýjar hefðir og vantar oft hugmyndir af einhverju hátíðlegu fyrir jóladag, annan í jólum, gamlárskvöld og öll jólaboðin. Við erum yfirleitt löngu búin að ákveða hvað við ætlum að hafa á aðfangadagskvöld, en þurfum meira að spá í öllum hinum dögunum.

IMG_2255.jpg
IMG_2257-2.jpg

Ég hélt mín fyrstu vegan jól árið 2011 og þá var úrvalið af vegan mat allt annað en þekkist í dag. Þá var það mjög vanalegt að grænkerar borðuðu hnetusteik við öll hátíðleg tilefni. Þegar ég var búin að borða hnetusteikina aðfangadagskvöld, jóladag og annan í jólum var ég oft komin með smá ógeð og fannst því ekkert svakalega spennandi að hafa hana aftur á gamlárs. Í dag erum við svo heppin að hafa endalaust úrval af skemmtilegum vörum og uppskriftum til að prufa eitthvað nýtt.

IMG_2263.jpg

Ég er búin að ákveða að hafa sveppasúpu í forrétt og innbakað Oumph! á aðfangadagskvöld, en uppskriftirnar finniði hér á blogginu. Á jóladag er ég svo að spá í að gera svona sænskt jólaborð en ætla að bæta við heilbakaðri sellerírót með gljáa. Ég er svo að spá í að gera tartaletturnar sem ég birti um daginn á gamlárskvöld. Svo ætlum við að baka lakkrístoppa og mögulega laufabrauð á næstu dögum. Í desert ætla ég að hafa ís einhverja daga, en svo ætla ég að útbúa vegan frysta ostaköku á gamlárs og stefni á að birta uppskrift af henni fyrir áramótin. Við erum þó nú þegar með tvær uppskriftir af gómsætum ostakökum nú þegar á blogginu. Eina svona frysta og aðra úr kasjúhnetum.

IMG_2276.jpg

Vegan jólaborð

Á disknum er ég með:

Kartöflugratín

Rósakál með möndlum og appelsínuberki

Rauðrófu- og eplasalat

Rauðvínssósu

Vegan síld á hrökkbrauði

Vegan kjötbollur frá Hälsans Kök

Grænkál sem ég steikti á pönnu uppúr sinnepi, Oatly rjóma, salti og pipar

Njótið
Veganistur

Rósakál með ristuðum möndlum og appelsínuberki

IMG_2168.jpg

Ég uppgvötaði rósakál fyrir nokkrum árum. Mér hefði eiginega aldrei dottið í hug að mér myndi þykja það gott, því ég hafði oft heyrt frá öðrum að það væri hrikalega vont. Því er ég algjörlega ósammála, og í dag borða ég rósakál í hverri viku. Yftirleitt kaupi ég það frosið og borða sem meðlæti með mat, en um jólin kaupi ég það ferskt og útbý það á aðeins hátíðlegri máta.

IMG_2163-2.jpg

Ég hef smakkað margar skemmtilegar og gómsætar uppskriftir sem innihalda rósakál, eins og gratín og fleira gúrmé. Yfir hátíðirnar er ég þó vanalega með kartöflugratín, sósu og fleira sem inniheldur rjóma eða mæjónes, svo ég vil hafa rósakálið aðeins meira ferskt.

IMG_2166.jpg

Þar sem jólamaturinn getur tekið langan tíma er svo gott að gera meðlæti sem þarfnast ekki mikillar fyrirhafnar. Þetta rósakál er einmitt dæmi um svoleiðis meðlæti en smakkast á sama tíma ótrúlega vel og passar fullkomlega yfir hátíðirnar.

IMG_2174-2.jpg

Rósakál með appelsínuberki og möndlum

  • 400 g ferskt rósakál

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1-2 tsk hlynsíróp

  • 1 dl möndlur

  • 2 msk appelsínusafi

  • börkur af einni appelsínu

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið rósakálið í tvennt og takið botninn af ef hann er mjög stór og harður

  2. Saxið niður möndlurnar og þurrristið á pönnu. Takið frá þegar þær eru orðnar ristaðar

  3. Hitið olíu á pönnu og bætið rósakálinu út á

  4. Steikið það í smá stund þar til það er orðið svolítið gyllt á litinn

  5. Bætið út á pönnuna appelsínusafanum og sírópinu og steikið þar til rósakálið er orðið svolítið dökkt

  6. Bætið þá út á möndlunum, berkinum, salti og pipar og steikið örlítið í viðbót.

  7. Berið fram heitt eða kalt

Njótið

Veganistur

Rauðrófu- og eplasalat

IMG_2189-3.jpg

Þetta salat er alveg rosalega einfalt og þarf varla sér færslu. Ég ákvað þó að skella því hérna inn því þetta er mitt uppáhalds meðlæti yfir jólin. Það er svolítið erfitt að segja hversu mikið þarf af hverju, því það fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég sker niður epli eins og ég vil og sker svo niður rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið verði af þeim og af eplunum. Svo bæti ég vegan mæjónesi út í eins og mér finnst passlegt. Ég ætla að skrifa hér að neðan hversu mikið ég gerði, en ég gerði einfaldlega það sem mér fannst þurfa svo ég ætti nóg í færsluna, en það myndi þó passa fyrir 3-4 held ég.

Rauðrófu- og eplasalat

  • 1 og ½ afhýtt epli

  • Rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið sé af þeim og af eplunum

  • Nokkrar msk heimagert mæjónes,eða eins og mér fannst passlegt. Uppskrift af mæjónesinu er að finna HÉR

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Skerið niður eplin

  2. Skerið niður rauðbeðurnar

  3. Bætið mæjónesinu saman við ásamt salti og pipar

Njótið

Veganistur

Vegan tartalettur á tvo vegu

IMG_2129-5.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum af tartalettum. Það var aldrei hefð á okkar heimili að borða tartalettur og ég held ég hafi bara smakkað þær nokkrum sinnum yfir ævina. Hinsvegar hefur mig lengi langað að prufa að gera tartalettur með góðri vegan fyllingu og í gær lét ég loksins verða af því. Ég ákvað að gera tvær útgáfur, en mér fannst nauðsynlegt að gera eina uppskrift sem minnir á hangikjötsfyllinguna sem margir borða. Ég elska aspasbrauðrétti svo mér fannst ég verða að gera svoleiðis útgáfu líka. Báðar heppnuðust alveg ótrúlega vel og komu mér í þvílíkt hátíðarskap.

IMG_2072-2.jpg

Mér finnst alltaf jafn áhugavert hvað mér finnst margt gott, eftir að ég varð vegan, sem er innblásið af mat sem mér þótti aldrei góður áður fyrr. Hangikjöt, grænar baunir og uppstúf var eitthvað sem mér fannst hreinlega vont allt mitt líf, en þegar ég gerði fyllinguna í gær sem er gerð með salty & smoky Oumph! kom það mér á óvart hversu ótrúlega gott mér þótti þetta. Það eru mörg fleiri dæmi um þetta hjá mér og kokteilsósa er eitt sem er mér efst í huga. Ég skildi aldrei af hverju fólki þótti kokteilsósa góð, en í dag þykir mér vegan kokteilsósa alveg geggjuð.

IMG_2088-3.jpg

Reyndar þegar ég hugsa um það hefur mér aldrei þótt matur jafn góður og eftir að ég gerðist vegan. Ég var aldrei spennt fyrir matnum yfir jólin. Mér þóttu marengstertur og aspasbrauðréttir góðir, en allt hitt þótti mér óspennandi eða vont. Í dag eru jólin í algjöru uppáhaldi og ég er alltaf jafn spennt að baka smákökur, lagtertu og lakkrístoppa. Jólamaturinn hefur líka aldrei verið jafn veglegur hjá mér og síðan ég varð vegan. Úrvalið er orðið svo gríðarlegt og grænkerar þurfa ekki lengur að borða hnetusteik í öll mál yfir hátíðirnar eins og fyrir sjö árum þegar ég hélt mín fyrstu vegan jól.

IMG_2104-2.jpg

Reykta og saltaða Oumphið er virkilega gott og mjög jólalegt. Þegar ég gerði tartaletturnar í gær gerði ég bara hálfa uppskrift af hvorri tegund, svo ég ákvað að prufa að gera vegan útgáfu af hangikjötsalati úr afgöngunum. Það kom auðvitað sjúklega vel út, en ég steikti á pönnu afganginn af oumphinu, skar það mjög smátt niður og blandaði við afgangs mæjónes ásamt grænum baunum úr dós og örlitlu hlynsírópi. Þetta fékk svo að standa í ísskápnum í smá stund og ég fékk smá sjokk yfir því hvað þetta minnti mikið á hangikjötsalat (sem mér einmitt þótti aldrei gott þegar ég borðaði kjöt, en finnst alveg geggjað svona vegan).

IMG_2105-3.jpg

Það eru örugglega margir sem hafa aldrei borðað tartalettur og finnst þetta kannski hljóma óspennandi, en ég mæli mikið með að gefa þeim séns. Sjálfar tartaletturnar minna á smjördeig og eru rosalega góðar með fyllingunni. Ég var smá viss um að mér myndi þykja aspas fyllingin miklu betri en hin, en ég get eiginlega ekki valið á milli, mér fannst þær báðar svo ótrúlega góðar.

IMG_2126-4.jpg

Ég ætla ekki að deila uppskrift af meðlætinu í þessari færslu, en uppskriftin af rauðrófusalatinu er þó væntanleg núna eftir helgi. Rósakálið gerði ég einfaldlega með því að steikja það á pönnu upp úr smá olíu og salti og svo í lokinn bætti ég örlitlu hlynsírópi á pönnuna ásamt appelsínuberki og leyfði rósakálinu að brúnast örlítið í því.

IMG_2122.jpg

Tartalettur með aspas og sveppum

  • 1 bolli vegan mæjónes - Mér finnst laaang best og einfaldast að búa til mitt eigið. Hér er uppskrift af því

  • 150 g sveppir

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1 sveppateningur - Ég notaði sveppakraft frá Knorr

  • 180 g aspas úr dós plús 2 msk af safanum af aspasinum

  • Paprikuduft eftir smekk

  • Tartalettur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 180°C

  2. Skerið sveppina niður og steikið á pönnu upp úr smá olíu þar til þeir eru frekar vel steiktir

  3. Bætið út á pönnuna mæjónesi, aspas, safa af aspasinum og sveppakrafti

  4. Skiptið fyllingunni í tartelettuform og toppið með smá paprikudufti

  5. Hitið í ofninum í ca 15 mínútur eða þar til þetta er farið að taka smá gylltan lit.

Tartalettur með Oumph og uppstúf:

Uppstúf:

  • 2 msk smjörlíki

  • 4 msk hveiti

  • 500 ml vegan mjólk

  • 1-2 msk sykur

  • Salt og pipar (hvítur eða svartur)

  1. Hitið smjörið og hveitið í potti og hrærið vel þannig það myndi smjörbollu

  2. Hellið mjólkinni út í hægt þar til úr verður þykk sósa. Ég skrifaði 500 ml að ofan, en það fer svolítið eftir því hvaða mjólk er notuð. Það þarf þó ekki meira en 500 ml en sumir gætu þurft aðeins minna.

  3. Bætið út í sykri, salti og pipar og smakkið til

Tartalettur með Oumphi, uppstúf, kartöflum og baunum:

  • 1 poki salty & smoky Oumph!

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 2-3 meðalstórar soðnar kartöflur - fer svolítið eftir smekk hversu mikið fólk vill af kartöflum, en ég notaði tvær.

  • Grænar baunir í dós eftir smekk

  • Uppstúf eftir smekk - Það mun líklega verða smá afgangur af uppstúf, en ég mæli með því að blanda smá í einu þar til fyllingin hefur þá áferð sem þið kjósið.

Aðferð:

  1. Steikið oumphið upp úr smá olíu á pönnu og skerið svo niður í smærri bita

  2. Afhýðið kartöflurnar og skerið í svipað stóra bita

  3. Blandið saman í skál ásamt grænum baunum og uppstúf. Mér finnst svolítið erfitt að segja nákvæmt magn af t.d baunum eða uppstúf því það er svo misjafn hvað fólk vill, en ég held ég hafi notað sirka 1 dl af baunum og svo hellti ég sósu saman við þar til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Þið sjáið á einni af myndunum hérna fyrir ofan hvernig fyllingin mín leit út áður en tartaletturnar fóru í ofninn.

  4. Hitið í ofninum í 15 mínútur eða þar til tartaletturnar hafa fengið á sig gylltan lit.

Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Ristaðar jólamöndlur

IMG_2044-3.jpg

Þá er komið að þriðju og síðustu færslunni í þessari litlu jólagjafaseríu minni. Í vikunni hef ég gert tvær konfekt uppskriftir, en ég gerði dásamlegt kókosnammi og súkkulaðitrufflur sem eru með því besta nammi sem ég hef smakkað. Í dag ætla ég ekki að deila konfekti, heldur færi ég ykkur ristaðar jólamöndlur. Þessar möndlur hef ég sjálf gefið nokkrum sinnum í jólagjafir og þær hafa algjörlega slegið í gegn. Það er orðin hefð hjá mér að búa þær til fyrir jólin og ég held það sé ekkert sem lætur heimilið ilma jafn vel og þegar möndlurnar eru í ofninum.

IMG_1994-2.jpg

Ég er með mun fleiri hugmyndir af góðum ætum jólagjöfum, en ákvað að láta þrjár duga í þetta sinn svo ég nái að gera eitthvað annað fyrir jólin. Allar þessar uppskriftir eru ekki bara fullkomnar sem jólagjafir heldur einnig sniðugar til að hafa í skálum yfir jólin og í jólaboðinu. Þær eru líka góðar til að sýna vinum og kunningjum að vegan nammi er alls ekkert síðra en annað sælgæti. Þessar möndlur t.d eru mjög líkar þeim sem maður fær á jólamörkuðum víðsvegar um heim og fólk hefur yfirleitt orðið hissa þegar ég segi því að ég hafi gert þær sjálf.

Ég hef alltaf verið jólabarn, en ég ákvað fyrir nokkrum árum að gera mitt allra besta við að tengja jólin ekki við gríðarlegt stress og pressu til þess að gera allt fullkomið. Ég viðurkenni að í ár hef ég þó upplifað svolítið af þessu. Ég vildi gera íbúðina súper jólalega, gera billjón jólauppskriftir og kaupa sjúklega flottar jólagjafir handa öllum sem ég þekki…

En svo varð ég að minna mig á að þetta er ekki það sem jólin snúast um fyrir mér. Við fljúgum til Noregs núna 17. des svo það hefði varla tekið því að fara að fylla íbúðina okkar af jólaskrauti, og ég reyni að kaupa sem minnst af dóti sem ég hef ekki þörf fyrir. Ég minnti mig líka á að ég blogga því mér finnst það gaman og það eyðileggur bara fyrir mér að setja svona mikla pressu á að ná að gera þúsund uppskriftir fyrir jólin. Þegar ég stoppaði aðeins og andaði náði ég að sjá þetta allt í öðru ljósi sem gerði það að verkum að ég er meira spennt fyrir jólunum en ég hef verið í mörg ár.

IMG_2015.jpg

Hvað jólagjafirnar varðar hef ég oft fengið samviskubit yfir því að geta ekki gefið öllum sem ég vil. Mér hefur liðið eins og ég sé ömurlegasta systir veraldar, því ég hef ekki sent neitt heim til litlu systkinna minna síðustu ár, en mamma hefur verið svo góð að kaupa eitthvað og skrifa nafnið mitt við. Það er svo leiðinlegt að þurfa að skammast sín fyrir að eiga lítinn pening í desember, en ég held að margir námsmenn t.d kannist vel við að eiga lítið eftir af námslánunum þegar fer að líða að jólunum. Auðvitað eru margir aðrir sem eiga lítinn pening fyrir jólagjöfum, en ég er einfaldlega að tala út frá minni reynslu. Ég man að fyrstu jólin sem ég gaf svona jólamöndlur í gjafir fékk ég meiri viðbrögð frá fólkinu í kringum mig en ég hafði fengið áður. Allir urðu himinlifandi og það var enginn sem hugsaði að þetta hlyti að vera því ég ætti ekki pening fyrir einhverju fínna. Möndlur eru sannarlega ekki ódýrar, en allt annað í uppskriftinni er það. Öll kryddin sem ég nota kosta lítið og endast lengi, og svo safnaði ég fallegum krukkum sem ég þvoði vel og fyllti af möndlunum.

IMG_2054.jpg

Mér þætti ótrúlega gaman að heyra hvort þið gefið heimatilbúnar gjafir, og hvort þið hafið fleiri skemmtilegar hugmyndir af ætum jólagjöfum. Eins finnst okkur alltaf jafn gaman þegar þið gerið uppskriftirnar okkar og sendið okkur, eða merkið við okkur á Instagram.

IMG_2027-2.jpg

Ristaðar jólamöndlur

  • 500 g möndlur með hýði

  • 125 g sykur

  • 2 msk aquafaba (vökvinn sem er í dós af kjúklingabaunum - Ég mæli með að nota vökvann af kjúklingabaunum frá Euroshopper sem fást í Bónus, og mér finnst geggjað að nota svo sjálfar baunirnar í þetta dásamlega salat).

  • 1/2 tsk engifer krydd

  • 1/2 tsk allrahanda krydd

  • 1/2 tsk múskat

  • 1 tsk kanill

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hitið bakaraofninn á 135°c.

  2. Skolið möndlurnar með köldu vatni í sigti og látið vatnið renna af þeim áður en þið setjið þær í skál.

  3. Hrærið kjúklingabaunavökvanum saman við möndlurnar ásamt sykrinum og kryddunum.

  4. Smyrjið ofnskúffu með smá olíu, eða leggið á hana bökunarpappír og dreifið vel úr möndlunum yfir.

  5. Bakið möndlurnar í ca 30 mínútur og hrærið í á 10 mín fresti

  6. Leyfið möndlunum að kólna á plötunni eftir að hún er tekin út en hrærið þó reglulega í svo þær festist ekki.

  7. Geymið möndlurnar í loftþettu íláti.

Takk fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör

IMG_1960.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri uppskrift sem hentar fullkomlega sem heimatilbúin jólagjöf. Þessar trufflur eru mögulega besta nammi sem ég hef gert. Þær eru svo ótrúlega ljúffengar og bráðna bókstaflega í munninum. Þetta er svona uppskrift sem smakkast eins og hún sé rosalega flókin, en er í raun virkilega einföld og þægileg. Ég fékk mér kúlu með síðdegiskaffinu og mér leið eins og það væru komin jól.

IMG_1876-5.jpg

Í nóvember héldum við Siggi upp á afmælið hans og nokkrir vinir okkar mættu með litlar flöskur af allskonar líkjör sem þau höfðu keypt í Alko, finnsku vínbúðinni, þegar þau fóru í “roadtrip” í Ikea á landamærunum. Þau skildu eitthvað af því eftir, þar á meðal Cointreau appelsínulíkjör. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég smakkaði Cointreau var að hann yrði ég að nota í uppskrift og datt þá í hug að gera trufflur fyrir jólin. Ég var ekki alveg viss hvernig það myndi koma út, en fannst þó trúlegt að líkjörinn myndi passa mjög vel við súkkulaðið, sem hann gerði svo sannarlega. Það er þó hægt að skipta honum út fyrir annan líkjör sem manni þykir góður, eða bara sleppa honum ef maður vill. Ég gerði annan skammt í morgun þar sem ég notaði Amaretto möndlulíkjör og ætla að gera úr honum kúlur í kvöld. Ég smakkaði fyllinguna áður en hún fór í ísskápinn og hún var guðdómlega góð líka. Það er því hægt að leika sér endalaust með svona trufflur.

IMG_1956.jpg

Eins og ég sagði að ofan eru þessar trufflur fullkomnar sem jólagjöf. Það er ekki bara persónulegt og skemmtilegt að gefa heimatilbúnar gjafir, heldur kemur það einnig í veg fyrir að maður kaupi bara eitthvað til að gefa eitthvað, sem oftar en ekki bætir bara við dótið sem fólk kannski notar lítið. Eins eru margir sem eiga ekkert svakalega mikinn pening um jólin og eiga erfitt með að kaupa gjafir handa öllum sem þau vilja gefa. Við Siggi erum bæði í námi og eigum því oft ekki mikinn pening svona í lok annarinnar. Því finnst mér hugmyndin um að búa til gómsætar gjafir frábær.

IMG_1964.jpg

Ég rúllaði nokkrar kúlur upp úr kakó en ákvað líka að hjúpa nokkrar í súkkulaði. Mér fannst bæði alveg virkilega gott, en þessar súkkulaðihúðuðu voru alveg extra góðar að mínu mati. Ég var smá hrædd um að það yrði erfitt að hjúpa kúlurnar, en ég setti þær í frystinn eftir að ég rúllaði þær upp þannig þær fengu aðeins að stífna áður en ég hjúpaði þær og það varð ekkert mál. Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri örugglega líka mjög gott utan um kúlurnar. Eins held ég að 70% súkkulaði passi rosalega vel því fyllingin er svo sæt.

IMG_1981-2.jpg
IMG_1984.jpg

Súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör (ca 15 stk)

  • 1 dl Alpro þeytirjómi -Ekki þeyta hann samt

  • 25 g smjörlíki

  • 200 g suðusúkkulaði

  • 2 msk Cointreau appelsínulíkjör - Eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður. Eins og ég sagði að ofan passar Amaretto líka fullkomlega í trufflurnar en svo setja margir viskí eða annað áfengi. Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu svoleiðis og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur. Eins er líka smekksatriði hversu mikill líkjör er settur út í. Mér fannst 2 msk alveg passlegt, en svo er hægt að bæta meiru við ef fólk vill.

  • Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar

Aðferð:

  1. Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.

  2. Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.

  3. Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.

  4. Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.

  5. Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst eða yfir nótt.

  6. Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakó gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði mæli ég með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mín og hjúpa þær svo. Ég reif niður appelsínubörk og setti ofan á og mér fannst það koma mjög skemmtilega út.

  7. Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

veganisturundirskrift.jpg

Vegan kókoskonfekt

IMG_1921-3.jpg

Áður en ég gerðist vegan var konfekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst æðislegt þegar ég fékk heimagert konfekt í jólagjöf, en ég er ein af þeim sem elska heimatilbúnar gjafir. Það er ekkert mál að gera gott vegan konfekt, en það halda margir að eina leiðin til þess sé að gera það úr döðlum og hnetum. Við erum með eina uppskrift af dásamlegum möndlu- og döðlukúlum hér á blogginu, en í dag ætla ég að gera vegan konfekt sem er einfaldlega bara nammi. Ég hef ákveðið að sýna ykkur þrjár uppskriftir næstu daga, sem eru fullkomnar í jólapakkann. Þetta eru allt einfaldar og ótrúlega gómsætar uppskriftir sem slá í gegn, sama hvort fólk er vegan eða ekki. Í dag ætla ég að birta þá fyrstu, og það eru heimagerðir “Bounty” bitar.

Þessir bitar koma þvílíkt á óvart, því þeir minna svo ótrúlega mikið á Bounty súkkulaði. Það tók enga stund að búa þá til og ég naut mín í botn með jólatónlist og kertaljós. Ég er komin í jólafrí og er gríðarlega þakklát að hafa tíma núna fyrir jólin til að gera skemmtilegar uppskriftir. Í fyrra hafði ég engan tíma og missti því svolítið af mínum uppáhalds tíma, sem eru vikurnar fyrir jól, þegar jólastressið er ekki orðið svo mikið og enn er hægt að dunda sér við jólastússið. Núna ætla ég því að njóta þess að gera súper kósý hérna heima og prufa mig áfram með skemmtilegar jólauppskriftir.

IMG_1888.jpg
IMG_1894-2.jpg

Eitt af okkar markmiðum er að sýna öllum að það er ekkert mál að halda jól án þess að borða dýraafurðir. Það er hægt að útbúa vegan útgáfu af nánast öllu og ef ekki, þá er hægt að finna eitthvað annað í staðinn. Við erum með gott úrval af hátíðaruppskriftum hérna á blogginu og ætlum að reyna eins og við getum að koma út nokkrum góðum jólauppskriftum núna á næstu vikum. Eins er æðislegt að sjá hvað fyrirtæki og veitingastaðir eru orðin dugleg að framleiða vegan mat. Það eru ekkert alltof mörg ár síðan við borðuðum hnetusteik í öll mál yfir allar hátíðir og vorum orðnar ansi þreyttar á henni þegar kom að gamlárskvöldi, eins og hnetusteikin er nú góð. Nú er hægt að velja úr ótal skemmtilegum og hátíðlegum uppskriftum og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um jólin.

IMG_1905.jpg

Vegan kókosbitar (ca 20 stykki)

  • 3,5 dl kókosmjöl

  • 1,5 dl Alpro þeytirjómi - Ekki þeyta hann samt

  • 1/2 dl kókosolía

  • 1/2 tsk vanillusykur

  • 2 msk flórsykur

  • Örlítið salt

  • 200-220 g súkkulaði - Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri fullkomið utan um kúlurnar.

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál kókosmjöli, flórsykri, vanillusykri og salti

  2. Bætið í skálina rjómanum og kókosolíunni og blandið öllu vel saman

  3. Rúllið upp í kúlur eða stykki, raðið á smjörpappír og setjið í frystinn í 30 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði

  5. Veltið kókosbitunum upp úr súkkulaðinu. Leggið bitana á smjörpappír og kælið þar til súkkulaðið er orðið hart.


Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki vel

Veganistur