Heimsins besta vegan gulrótarkaka með rjómaostakremi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu gulrótarköku. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Í þetta sinn bakaði ég kökuna í skúffuformi sem er 42x29x4 cm. Það er þó ekkert mál að baka hana í tveimur 24 cm hringlaga formum. En ég elska allt sem er fljótlegt og einfalt svo ég baka oftast í þessu stóra formi, sérstaklega ef ég er að baka fyrir hóp af fólki. Ég veit vel að þriggja hæða tertur eru mun fallegri, en það er miklu minna vesen að baka, bera fram og borða kökur gerðar í skúffuformi. Svo ég vel þægindin yfirleitt fram yfir útlit. Ég vil taka það fram að hér er Helga að skrifa því Júlía er, eins og þið flest vitið, meistari í að gera fallegar margra hæða tertur.

Ég lýg ekki þegar ég segi að þessi kaka slær í gegn hvar sem hún er borin fram. Ég birti hana fyrir yfir ári síðan á sænska blogginu mínu og hún hefur verið langvinsælasta uppskriftin þar síðan. Ég vona að hún hitti í mark hjá ykkur líka.

Ef þið hafið áhuga á að baka fleiri góðar kökur mæli ég með eftirfarandi:

Vegan rjómaterta með jarðarberjum

Klassíska súkkulaðitertan okkar (hér sjáum við dæmi um hversu fallegar kökur Júlía bakar. Ég baka þessa uppskrift yfirleitt í skúffuformi heh)

Stór súkkulaðibitakaka með karamellusósu

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin!

-Helga María

Heimsins besta vegan gulrótarkaka

Heimsins besta vegan gulrótarkaka
Fyrir: 10-12
Höfundur: Helga María
Hin fullkomna gulrótarköka. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Hráefni:

  • 7.5 dl hveiti
  • 3.5 dl sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 msk kanill
  • 5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)
  • 6 dl rifnar gulrætur
  • 1.5 tsk vanilludropar
  • 1.5 msk eplaedik
  • 1.5 dl bragðlaus matarolía
Rjómaostakrem
  • 200 gr vegan rjómaostur
  • 100 smjörlíki við stofuhita
  • 500 gr flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c.
  2. Hellið olíu og sykri í stóra skál og hrærið.
  3. Bætið restinni af blautu hráefnunum við og hrærið saman.
  4. Bætið þurrefnunum við og hrærið þar til deigið er laust við kjekki.
  5. Bætið rifnum gulrótum út í og hrærið varlega saman við með sleikju.
  6. Hellið í annaðhvort skúffuform klætt smjörpappír (mitt er 42x29x4 cm) eða tvö 24 cm hringlaga form.
  7. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til kökupinni kemur hreinn út.
  8. Látið kökuna kólna og gerið kremið á meðan.
  9. Gerið kremið með því að hræra hráefnunum saman í hrærivél og setjið á kökuna þegar hún hefur kólnað.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Vegan smjördeigspylsuhorn

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan smjördeigspylsuhorn. Þetta er að okkar mati hinn fullkomni pinnamatur í partýið og veisluna, forréttur í matarboðið eða partur af helgarbrunch. Hornin eru líka tilvalin sem nesti í ferðalagið!

Þetta er einn af þessum skemmtilegu partýréttum sem tekur enga stund að útbúa en kemur virkilega á óvart. Smjördeigi er einfaldlega vafið utan um vegan pylsur, penslað með plöntumjólk, toppað með everything bagel kryddi og bakað í ofninum. Okkur finnst gott að bera hornin fram með tómatsósu.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma og við notuðum að sjálfsögðu pylsurnar frá þeim í bitana. Við höfum elskað vörurnar frá Anamma í mörg ár og erum virkilega stoltar að fá að vinna með þeim.

Við elskum að gera góða partýrétti og smárétti og hér á blogginu er fjöldinn allur af góðgæti sem hægt er að gera fyrir slík tilefni. Þessi pylsuhorn eru einstaklega skemmtileg vegna þess að þau passa bæði í fullorðinspartý og barnaafmæli. Við mælum virkilega með.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin!

Vegan smjördeigspylsuhorn

Vegan smjördeigspylsuhorn
Höfundur: Veganistur
Gómsæt vegan smjördeigspylsuhorn, sem eru að okkar mati hinn fullkomni pinnamatur í partýið og veisluna, forréttur í matarboðið eða partur af helgarbrunch. Hornin eru líka tilvalin sem nesti í ferðalagið!

Hráefni:

  • Vegan pylsur frá Anamma
  • Vegan smjördeig, við notuðum kallt upprúllað smjördeig, en það er auðvitað hægt að kaupa frosið og láta það þiðna.
  • Plöntumjólk
  • Everything bagel krydd, eða gróft salt og sesamfræ

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 210°c.
  2. Leyfið pylsunum að þiðna svo hægt sé að skera þær. Skerið hverja pylsu í tvennt.
  3. Skerið smjördeigið niður svo hægt sé að rúlla hverjum pylsubita í deigið svo að það séu tvö lög af smjördeigi utan um hvern bita.
  4. Penslið með plöntumjólk og stráið "everything bagel" kryddi yfir.
  5. Bakið í 12-14 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Þessi færsla er gerð í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Dásamleg vegan aspasstykki

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgáfa af klassíska heita brauðréttinum. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu. Betra gerist það ekki!

Að mínu mati er heitur brauðréttur alveg jafn mikilvægur á veisluborðið og kökur og tertur. Ég man að ég var eiginlega mest spennt fyrir aspasbrauðréttunum af öllum kræsingunum sem voru í boði í fjölskylduboðunum þegar ég var yngri. Yfirleitt var brauðrétturinn gerður í eldföstu móti eða í rúllubrauði. Í dag ætlum við að gera hann aðeins öðruvísi.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í brauðréttinn. Úrvalið af vegan mat í Hagkaup er einstaklega gott og þar er hægt að fá allt sem þarf í góða veislu eða önnur hátíðarhöld. Við erum virkilega stoltar að fá að vinna með þeim.

Aspasstykki smakkaði ég fyrst þegar ég vann í Bakarameistaranum yfir jólafríið mitt þegar ég var unglingur. Ég hef ekki smakkað svoleiðis síðan en hef séð síðustu ár að það hefur verið vinsælt að útbúa heitan brauðrétt í baguettebrauði. Í fyrra útbjó Júlía ótrúlega girnilegan heitan brauðrétt með vegan beikoni og ostum og birti hérna á blogginu. Ég ákvað því núna að prófa að gera útgáfu af aspasstykki og ég varð virkilega ánægð með útkomuna.

þegar ég sit og skrifa þetta er föstudagurinn langi og því tilvalið að útbúa brauðréttinn fyrir sína nánustu um páskana til að fá smá pásu frá súkkulaðinu. Hér á blogginu finnurðu ótal uppskriftir sem eru fullkomnar fyrir páskahátíðina. Hér koma nokkrar:

Vegan terta með jarðarberjarjóma

Vegan wellington með Oumph og portobellosveppum

Sítrónukaka með birkifræjum og rjómaostakremi

Fyllingin passar í tvö löng baguette, það má líka skera niður brauð, setja í eldfast mót og blanda fyllingunni við og setja rifinn ost eins og í meira hefðbundnum brauðrétti. Ég mæli samt mikið með því að prófa að gera svona aspasstykki.

Vegan aspasstykki

Vegan aspasstykki
Höfundur: Veganistur
Vegan aspasstykki með sveppum og osti. Mín nýja uppháldsútgráfa af klassíska heita brauðréttinum sem við þekkjum öll. Stökkt og gott baguette brauð fyllt með gómsætri aspasfyllingu.

Hráefni:

  • 2 baguettebrauð
  • 25 gr vegan smjör
  • 150 gr sveppir
  • 1 dós vegan rjómaostur (Ég notaði Oatly påmackan)
  • 1 dl vegan matreiðslurjómi (Notaði Oatly iMat)
  • 1 dós niðursoðinn aspas (2-3 msk af vökvanum notaður líka)
  • 1 tsk eplaedik (má sleppa, en mæli með að hafa)
  • 1 sveppateningur
  • 1 Violife epic mature cheddarostur eða annar vegan ostur
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Paprikukrydd og þurrkuð steinselja að toppa brauðið með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c undir og yfir hita.
  2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu upp úr vegan smjöri.
  3. Bætið rjómaosti, rjóma, eplaediki og aspasvökva út í og hrærið.
  4. Myljið sveppatening út í og hrærið og leyfið fyllingunni að byrja að bubbla. Saltið og piprið eftir smekk.
  5. Skerið aspasinn niður og bætið út í. Rífið ostinn og setjið helminginn af honum í fyllinguna. Hrærið þar til osturinn hefur bráðnað í fyllingunni.
  6. Skerið toppinn af baguettebrauðunum og deilið fyllingunni í þau. Toppið með restinni af ostuinum, smá grófu salti, paprikukryddi og þurrkaðri steinselju. Það má sleppa kryddunum, mér fannst þau passa vel við.
  7. Hitið brauðið í 15-20 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið tekið á sig smá lit.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Úr deiginu koma tvær lengjur svo það er hægt að gera fleiri tvær tegundir af fyllingu. Kanillengjan er skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Uppskriftin af sjálfu brauðinu er hefðbundin kanilsnúðauppskrift. Það er því ekkert mál að gera snúða í staðinn. Ég mæli þó auðvitað með því að þið prófið að gera kanillengju. Hún er svooo góð.

Ég hnoða deigið í hrærivél og leyfi því svo að hefast í sirka klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð. Mitt tips er að hafa deigið ekki of þurrt. Það á að fá glansandi áferð og vera svolítið klístrað án þess að festast við fingurinn þegar honum er potað í deigið. Athugið að hafa fingurinn hreinan því ef það er nú þegar deig á honum þá festist allt auðveldlega.

Fyllinguna gerði ég úr smjörlíki, púðursykri, kanil og hlynsírópi. Ég stráði svo yfir niðurskornum pekanhnetum. Virkilega góð og passar fullkomlega í lengjuna. Þar sem uppskriftin gefur tvær lengjur finnst mér gaman að gera mismunandi fyllingu og finnst geggjað að setja til dæmis vegan nutella og hakkaðar heslihnetur. Ég get trúað því að bláberjasulta passi vel og þá myndi ég trúa því að það sé gott að gera sítrónuglassúr og setja ofan á. Í raun eru möguleikarnir endalausir.

Þegar ég var búin að rúlla upp deiginu skar ég það langsum svo úr komu tvær lengjur. Ég lét sárin snúa upp og fléttaði deigið saman og festi saman við endana.

Ef þið hafið áhuga á fleiri snúðauppskriftum mælum við mikið með þessum geggjuðu kanilsnúðum með eplum og rjómaostakremi.

Ég lagði deigið í brauðform sem ég hafði klætt með smjörpappír og leyfði því að hefast aftur í sirka klukkutíma. Því næst bakaði ég lengjuna í ofninum og á meðan hún bakaðist gerði ég síróp úr vatni og sykri sem ég penslaði svo yfir um leið og ég tók lengjuna úr ofninum. Það getur kannski litið út eins og það sé erfitt að gera kanillengju en í raun er það virkilega einfalt. Það erfiðasta er að bíða á meðan hún kólnar svo hægt sé að bera hana fram. Hún má auðvitað vera svolítið volg ennþá en það er gott að leyfa henni að kólna vel áður en hún er skorin.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þér líki uppskriftin vel! <3

-Helga María

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Hráefni:

  • 350 gr hveiti
  • 350 gr brauðhveiti (má skipta því út fyrir venjulegt hveiti)
  • 10 gr þurrger
  • 150 gr sykur (plús 1 dl til að gera síróp)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 tsk salt
  • 4 dl vegan mjólk
  • 100 gr smjörlíki
Fylling (passar fyrir tvær lengjur)
  • 200 gr smjörlíki við stofuhita
  • 1 og 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk hlynsíróp
  • 2 msk kanil
  • 2 dl niðurskornar pekanhnetur

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti. Bætið mjólkinni út í og leyfið blöndunni að ná 37°c. Hellið í hrærivélarskál.
  2. Stráið þurrgeri í mjólkina, hrærið því við og leyfið að standa í nokkrar mínútur þar til myndast froða ofan á.
  3. Bætið sykri og salti út í og hrærið saman við.
  4. Hellið helmingnum af hveitinu út í og hnoðið í hrærivélinni þar til hráefnin hafa blandast vel saman. Bætið þá restinni af hveitinu út í og hnoðið með hrærivélinni í 10 mínútur. Deigið á að sleppa frá skálinni.
  5. Smyrjið örlítilli olíu í aðra skál og færið deigið yfir í hana. Leggið viskastykki eða plastfilmu yfir og leyfið að hefast í klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
  6. Hitið ofninn í 180°c á undir og yfir hita.
  7. Takið loftið úr deiginu þegar þið hafið hefað það með því að smyrja örlítilli olíu á handarbakið og þrýstið krepptum hnefa létt í deigið.
  8. Færið deigið á borð og deilið því í tvennt. Byrjið á því að gera aðra lengjuna með því að fletja út deigið þar til það er um 1/2 cm þykkt. Sjá mynd að ofan til að sjá hvernig deigið mitt leit út. Smyrjið fyllingunni á og stráið yfir niðurskornum pekanhnetum.
  9. Rúllið upp deiginu og skerið í tvennt langsum svo úr komi tvær lengjur. Látið sárin snúa upp og fléttið þeim saman og festið við endana.
  10. Gerið hina lengjuna og setjið á þá fyllingu sem þið viljið hafa.
  11. Færið lengjurnar varlega yfir í sitt hvort hrauðform klætt með smjörpappír og bakið í 40-50 mínútur eða þar til þær eru bakaðar í gegn og hefur fengið fallegan lit að ofan. Það er auðvitað hægt að leggja þær á bökunarplötu ef þið eigið ekki brauðform.
  12. Á meðan þið bakið lengjurnar er tilvalið að gera sírópið sem þið penslið yfir þær þegar þær koma úr ofninum. Það er gert með því að blanda 1 dl sykri og 1 dl vatni í pott og hita á hellu þar til sykurinn hefur leyst upp.
  13. Takið lengjurnar út og penslið yfir þær. Leyfið þeim að kólna áður en þær eru skornar.
Fyllingin
  1. Þeytið saman smjörlíki, sykri, kanil og hlynsírópi.
  2. Skerið pekanhneturnar niður
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Smjördeigsbökur með vegan ostum og vínberjasultu

Í dag deilum við með ykkur dásamlega góðum smjördeigsbökum með vegan fetaosti, rjómaosti, vínberjasultu, timían og balsamikediki. Skemmtilegar bökur sem gott er að bjóða uppá í veislunni, partýinu eða vínkvöldinu. Bökurnar henta t.d. vel við tilefni þar sem kex, ostar og sulta eru á boðstólnum. Blanda af söltu, sætu og súru. Fullkomið!

Hugmyndin að bökunum kom í síðustu viku þegar ég útbjó þeyttan fetaost. Ég tók fram gómsætu vínberjasultuna frá St. dalfour og smurði henni á kex með þeytta fetaostinum. Guðdómleg blanda. Færsla dagsins er einmitt í samstarfi við St. Dalfour og við erum ótrúlega spenntar fyrir því að vinna með þeim. Við höfum í mörg ár notað sulturnar þeirra við allskyns tilefni. Virkilega góðar gæðasultur. Nýlega komu á markað þrjár nýjar bragðtegundir og við ætlum á næstu vikum að kynna þær fyrir ykkur. Í dag kynnum við til leiks vínberjasultuna. Þar sem ég bý í Svíþjóð stendur Vindruva á sultukrukkunni en á sultunni heima stendur French grape.

Kex, vegan ostar og sulta. Eitthvað sem ég gæti borðað daglega. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og ákvað að nota smjördeig. Ég mæli eindregið með því að þið prófið. Þetta er svo dásamlega gott.

Keypt smjördeig er oftar en ekki vegan. Það inniheldur sjaldan smjör en þess í stað olíur. Það er því oftast laust við allar mjólkurafurðir. Það er þó mikilvægt að lesa vel á umbúðirnar til að vera viss.

Ég útbjó bökurnar í muffinsformi, eins og við gerum með hátíðarOumphið okkar. Það er bæði einfalt að útbua þær á þann hátt og líka þægilegt að vera þær fram. Auk ostanna og sultunnar setti ég í þær ferskt timían, ólífuolíu, balsamikedik, salt og pipar. NAMM!

Smjördeigsbökur með vegan fetaosti, rjómaosti og sultu

Hráefni:

  • 1 pakki vegan smjördeig, annaðhvort frosið eða upprúllað kælt

  • 1 krukka vínberjasulta frá St. Dalfour (Ath í verslunum á íslandi heitir bragðtegundin French grape)

  • 1 pakki vegan fetaostur

  • 1 dolla vegan rjómaostur

  • Ferskt timían

  • Ólífuolía

  • Balsamikedik

  • Salt og pipar

  • Vegan mjólk til að pennsla bökurnar með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Takið smjördeigið úr frystinum og látið það þiðna svona nánast alveg. Það á að vera kallt ennþá samt þegar þið meðhöndlið það. Ef þið notið kælt deig, takið það út svona 5 mínútum áður en þið ætlið að nota það.

  3. Ef þið notið kælt deig, rúllið því út og skerið eins og ég gerði á myndinni að ofan. Ég fékk 9 bökur úr mínu deigi. Ef þið notið fryst mæli ég með því að fletja hverja plötu örlítið út og skipta henni svo í tvo ferninga.

  4. Leggið smjördeigið í muffinsform og fyllið. Ég setti 1 tsk rjómaost, 1 tsk fetaost, 1 tsk sultu, nokkra dropa af ólífuolíu, nokkra dropa af ediki, smá timían, salt og pipar í hverja. Það má auðvitað setja aðeins meira, ég þurfti að hafa í huga að þær yrðu fínar fyrir mynirnar. En ég mæli þó með að fylla þær ekki of mikið.

  5. Lokið bökunum með því að klípa saman hornin og pennslið með mjólkinni

  6. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Látið kólna svolítið áður en þið berið fram.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 


Vegan ostahorn með aspas og sveppum

IMG_0333-4.jpg

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætum ostahornum með sveppa- og aspasfyllingu. Þessi ostahorn eru fullkomin til að taka með sér í ferðalagið eða bjóða uppá í veislum. Þau bragðast eins og uppáhalds heiti brauðrétturinn okkar og við erum vissar um að þau munu slá í gegn við allskonar tilefni.

IMG_0296-3.jpg

Svona horn er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með og breyta til hvað varðar fyllingu. Færsla dagisins er í samstarfi með Violife og í aspashornin notuðum við bæði hreina rjómaostinn þeirra og rifinn ost. Vegan ostarnir og rjómaostarnir eru svo fullkomnir í svona horn en Violife framleiða allskonar spennandi bragðtegundir. Við gætum t.d. ímyndað okkur að bæði hvítlauks- og jurtarjómaosturinn og chilirjómaosturinn séu æðislegir í svona horn. Af sneiddu ostunum væri svo örugglega æði að nota t.d. þann með sveppabragði og þann með “kjúklingabragði”.

Það er langt síðan við systur hittumst síðast og blogguðum saman. Ég (Helga) bý í Svíþjóð svo við erum vanar að þurfa að vinna svolítið i sitthvoru lagi. Núna er ég þó á landinu og því höfum við getað tekið okkur smá tíma í að blogga. Það er alltaf jafn gaman þegar við vinnum saman og það minnir okkur á það hversu dýrmætt það er að við rekum þessa síðu saman, sem í fyrstu átti bara að vera lítið “hobbí”, en er í dag orðið svo stór hluti af lífinu okkar.

IMG_0309.jpg

Við hlökkum til að heyra hvað ykkur finnst um aspashornin og hvort þau munu klárast jafn fljótt og þau gerðu hjá okkur. Eins megiði endilega deila með okkur ef þið prófið að gera aðra fyllingu í hornin og hvernig það kom út. Við elskum að fá nýjar og skemmtilegar hugmyndir.

IMG_0342-3.jpg

Ostahorn með aspas og sveppum

Hornin sjálf:

  • 8-10 dl hveiti (byrjið á 8 og bætið svo við eftir þörfum)

  • 1 pakki þurrger

  • 1 msk sykur

  • 1 tsk salt

  • 5 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti og bætið mjólkinni saman við. Mjólkin þarf ekki að hitna mikið, heldur vera við líkamshita.

  2. Hellið mjólkurblöndunni í stóra skál og stráið þurrgerinu saman við. Leyfið því að standa í nokkrar mínútur eða þar til það byrjar að freyða svolítið.

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí.

  4. Bætið við meira hveiti ef þarf. Ég held ég hafi á endanum notað um 9 dl. Deigið má ekki vera of þurrt, þið eigið að geta stunduð hreinum fingri ofan í án þess að deig klessist við hann. Hnoðið deigið létt. Ef þið notið hrærivél er fínt að miða við að deigið sé tilbúið þegar það byrjar að losna frá skálinni.

  5. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma í skál með viskustykki eða plastfilmu yfir.

  6. Hitið ofninn í 200°c

  7. Skiptið deiginu í tvennt ef þið viljið hafa hornin frekar stór en í fernt ef þið viljið hafa þau minni (við gerðum stór) og fletjið út hvern helming fyrir sig í hring. Skerið niður í sneiðar (sjá mynd að ofan), setjið fyllingu á og stráið rifnum Violife osti yfir. Passið ykkur að setja ekki alltof mikið af fyllingu í hvert því það þarf að vera hægt að rúlla þessu upp án þess að allt velli úr. Rúllið upp frá breiðari endanum.

  8. Smyrjið með örlítilli vegan mjólk og stráið yfir einhverju sem ykkur þykir gott. Við notuðum sesamgaldur frá pottagöldrum en það er líka gott að strá yfir sesamfræjum, grófu salti eða jafnvel rifnum Violife osti.

  9. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til hornin hafa fengið gylltan og fínan lit.

  10. Leyfið þeim að kólna svolítið áður en þau eru borin fram.

Aspas- og rjómaostafylling:

  • Olía til steikingar

  • 2 öskjur hreinn rjómaostur frá Violife

  • 1 dós grænn aspas plús 1 msk safi úr dósinni

  • 100 gr sveppir

  • 1 sveppakraftur

  • Salt og pipar ef þarf. Sveppakrafturinn er saltur svo smakkið til svo að þetta verði ekki of salt.

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu

  2. Saxið sveppina smátt og steikið á pönnunni

  3. Saxið aspasinn líka aðeins og bætið á pönnuna

  4. Myljið sveppakraftinn og bætið á pönnuna ásamt 1 msk af aspas safanum

  5. Takið af pönnunni og leyfið að kólna aðeins

  6. Setjið rjómaostinn í skál og bætið sveppa- og aspasblöndunni út í og hrærið saman.

  7. Bætið salti og pipar ef ykkur finnst þurfa.

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María og Júlía Sif

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Þessi uppskrift er ein af fyrstu vegan kökuuppskriftum sem við systur þróuðum og birti Helga hana fyrst fyrir mörgum árum á gömu bloggi sem hún var með. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag nota flestir okkar vina og fjölskyldumeðlima þessa uppskrift þegar þeir baka súkkulaðikökur þar sem þeim finnst ótrúlega þægilegt að geta boðið upp á köku sem hentar vegan fólki og er laus við flesta ofnæmisvalda.

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör í flestum búðum í dag og einnig er smjörlíki nánast alltaf vegan. Við notumst þó mest við smjörlíki í kremið þar sem það heldur vel stífleika og gerir smjörkremið fallegt og þægilegt að vinna með.

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  Flestir verða yfirleitt hissa yfir því hvað kökurnar eru mjúkar, sætar og gómsætar en verður þó yfirleitt mög hissa þegar það fær þau svör að kakan sé ekki endilega holl. Það er nefnilega ennþá mjög margir sem setja enn samansem merki á milli vegan og hollustu.

Svo ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur og hefur frá því að hún var lítil haft mjög gaman af því að skreyta kökur fallega og fylgja nýjustu “trendunum” í kökuskreytingum. Þeir sem hafa fylgst með blogginu í einhvern tíma muna líklegast vel eftir rósaköku myndunum sem voru áður við þessa uppskrift en var það mikið “trend” í kökuskreytingum þegar við útbjuggum hana fyrst. Nú hefur þó margt breyst og er mikið í tísku núna að gera háar fallegar kökur með súkkulaði sem lekur niður með hliðunum. Okkur fannst því nauðsynlegt að nýta tækifærið og uppfæra þessa vinsælu uppskrift með nýjum fallegum myndum.

Við bættum við súkkulaði ganache sem við notuðum sem fyllingu á milli kökubotnanna og til að láta leka fallega niður með hliðum kökunnar. Það þarf þó alls ekki að hafa það með og er kakan virkilega góð með smjörkreminu einu og sér. Við mælum þó með að allir prófi að setja ganache á milli með kreminu því það tekur kökuna alveg á næsta stig. Uppskriftin af því er að sjálfsögðu hér að neðan.

IMG_0212.jpg

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache
Höfundur: Veganistur
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 30 Min: 50 Min
Klassísku súkkulaðikökubotnarnir hafa verið ein vinsælasta uppskriftin okkar frá upphafi. Þessi uppskrift er fullkomin í afmæliskökuna, sem skúffukaka eða í muffinsform.

Hráefni:

Súkkulaðikökubotnar
  • 3 bollar hveiti
  • 2 bollar Dan sukker sykur
  • 1/2 bolli kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar vatn (eða 2 bollar kallt kaffi)
  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 msk eplaedik
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  • 400g smjörlíki eða vegan smjör við stofuhita
  • 500g Dan sukker flórsykur
  • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanilludropar
  • 50g suðusúkkulaðisúkkulaði
Súkkulaði ganache
  • 50 gr suðusúkkulaði eða það súkkulaði sem hver og einn kýs að nota.
  • 50 gr vegan þeytirjómi

Aðferð:

Súkkulaðikökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
  2. Blandið þurrefnum saman í skál
  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
  4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 20-24 cm hringlaga kökuform eða þrjú 15 cm kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti, lítilli skúffu eða sem bollakökur.
  5. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í botnana.
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er vel mjúkt og loftkennt.
  2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman.
  3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða.
  4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á.
  5. Ath. Ef gera á þriggja hæða köku og skreyta hana þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Okkur þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og ef það er afgangur þá frystum við það og notum seinna.
Súkkulaði ganache
  1. Brjótið súkkulaðið niður og skerið það í litla bita og setjið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  2. Vigtið rjómann og hellið honum út í skálina. Það er ekki sniðugt að slumpa þessa uppskrift þar sem við viljum fá ákveðna áferð á súkkulaðið svo hægt sé að vinna með það.
  3. Setjið súkkulaðið og rjóman í örbylgjuofn og hitið í 20 sekúndur. Takið út og hrærið til í skálinni. Setjið súkkulaði blönduna aftur í örbylgjuofn í 10 sekúndur í einu þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Það er best að hræra mjög vel í skálinni á milli þess sem blandan er hituð, helst með litlum sósupísk eða gaffli.
  4. Ef nota á ganache a milli botnanna er best að setja fyrst vel af smjörkremi á neðri botninn, dreifa vel úr því og búa síðan til holu í kremið í miðjunni. Ganache’ið þarf að fá að kólna aðeins og er honum síðan hellt í holuna og næsti botn settur yfir.
  5. Til að láta það lekur niður með hliðum kökunnar er mikilvægt að kæla kökuna tilbúna í allavega 30 mínútur áður. Leyfið einnig ganache’inum að kólna aðeins og prófið að láta það leka niður hliðina á glasi t.d. áður en þið byrjið á kökunni. Súkkulaði ganache’ið á að leka hægt og rólega niður glasið þegar það er tilbúið. Ef það lekur hratt í mjög mjórri bunu er það enn of heitt.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin við Nathan og Olsen -

download.png

Vegan rjómaterta með jarðarberjum

IMG_1865-4.jpg

Hæ. Vonandi hafiði það gott.

Hérna í Piteå er svo sannarlega komið sumar. Sólin hefur skinið daglega síðustu vikur sem bætir svo sannarlega upp fyrir myrkrið sem ríkir hérna á veturna. Í gær fór hitinn upp í þrjátíu stig og bærinn safnaðist saman við vatnið og fólk ýmist baðaði sig eða lá og sólaði sig. Eiginlega ættum við Siggi að vera á Íslandi. Við hlökkuðum mikið til að eyða sumrinu saman á Íslandi í fyrsta skipti í mörg ár, en í kjölfar aðstæðna breyttust plönin og við verðum hér í staðinn. Löngu hlýju sólardagarnir eru svolítil huggun og við ætlum að njóta sumarsins hérna eins vel og við getum.

Á miðvikudaginn er 17. júní og í tilefni af því deili ég með ykkur hinni fullkomnu sumarköku með jaðrarberjarjóma sem tilvalið er að baka fyrir fjölskyldu og vini á þjóðhátíðardaginn. Botninn er dúnmjúkur og hentar í allskonar ljósar tertur en ég ákvað í þetta sinn að gera jarðarberjarjómakrem og úr varð besta rjómaterta sem ég hef bakað.

IMG_1725-2.jpg

Þessi kökubotn er að mínu mati hinn fullkomni ljósi botn. Hægt er að gera úr honum ótrúlega margar góðar kökur, eins og möndluköku, eplaköku, sjónvarpsköku og allskonar rjómatertur. Núna eru búðirnar fullar af gómsætum nektarínum svo ég er að spá í að prófa að gera nektarínuköku á næstunni.

IMG_1728.jpg

Ég var lengi að velta því fyrir mér hvernig ég vildi hafa tertuna og ætlaði fyrst að gera hana svakalega flotta á mörgum hæðum. Eftir þvi sem ég velti þessu lengur fyrir mér hallaðist ég frekar að því að gera köku í skúffuforminu mínu. Í hvert skipti sem ég baka fyrir veislur nota ég þetta form. Mér finnst það mun hentugara. Bæði er það fljótlegra og einfaldara og svo er bæði þægilegra að skera kökuna í sneiðar og að borða hana. Formið sem ég nota er 42x29x4 cm að stærð og er nákvæmlega eins og þetta form sem fæst í Byggt og búið. Það hefur reynst mér svo vel við baksturinn og ég elska smellulokið á því sem gerir það virkilega þægilegt að taka köku með sér eitthvert. Ef þið viljið baka kökuna í hringlaga formi myndi ég giska á að það sé best að skipta deiginu í tvö 24 cm form.

Jarðarberjarjómakremið er svo gott að ég gæti borðað það með skeið. Í rauninni fannst mér það svo gott að ég frysti smá part af því akkúrat til að borða með skeið heh. Mig langaði að sjá hvernig það kæmi út fryst og hvort það mögulega gæti gengið sem fylling í frysta ostaköku og það gerir það svo sannarlega. Með þvi að bæta við einum rjómaosti í viðbóð yrði þetta fullkomin fryst sumarleg ostakaka. Til að kremið þeytist sem best mæli ég með þeytirjómanum frá Aito. Hann þeytist svakalega vel og heldur forminu. Alpro rjóminn virkar líka og kremið er alveg jafn gott með honum, en mér finnst formið ekki verða jafn flott. Aito fæst í Bónus og Krónunni.

IMG_1815-5.jpg

Með því að baka kökuna í skúffuforminu þarf ekkert að gera til að skreyta hana annað en að smyrja rjómanum á og toppa með ferskum jarðarberjum, eða öðrum ávöxtum ef maður vill. Margra hæða rjómatertur eru sannarlega fallegar og myndast dásamlega vel, en ég vel yfirleitt þægindi fram yfir útlit. Að baka kökuna svona gerir það að verkum að hún er virkilega einföld og engin hætta á að hún mistakist eða líti ekki jafn vel út og maður ætlaði sér.

Mér hefur líka þótt þægilegt þegar ég býð fólki uppá köku að geta skorið niður í minni sneiðar, sérstaklega þegar ekki er til nóg af diskum og maturinn borðaður af servíettum.

Ég er virkilega ánægð með þessa gómsætu vegan rjómatertu. Mig langaði að hafa hana hátíðlega og það tókst algjörlega að mínu mati. Ég hef aldrei verið aðdáandi af gamaldags tertum með niðursoðnum ávöxtum og vildi því gera tertu sem ég sjálf myndi glöð borða. Fersk sumarjarðarber virkilega geta ekki klikkað að mínu mati.

IMG_1867-3.jpg

Rjómaterta með jarðarberjum

Hráefni:

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 7,5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 2 dl rapsolía eða önnur bragðlaus olía

  • 1,5 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí og hrærið saman þar til engir kekkir eru.

  4. Klæðið formið með bökunarpappír. Mér finnst gott að smyrja smá smjörlíki í botninn og hliðarnar og þá festist bökunarpappírinn vel við formið. Eins og ég tók fram hér að ofan nota ég form sem er 42x29x4 cm.

  5. Hellið deiginu út í formið og bakið í miðjum ofni í 30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út þegar þið stingið í hana. Ég myndi kíkja á hana eftir 25 mínútur.

  6. Látið kökuna kólna alveg áður en þið setjið kremið á hana.

Jarðarberjakrem:

  • 500 gr. fersk jarðarber (þegar ég prufubakaði kökuna fann ég hvergi fersk ber og notaði því frosin sem ég leyfði að þiðna fyrst og það var líka mjög gott)

  • 1 ferna þeytirjómi frá Aito (það virkar líka að nota þann frá Alpro en Aito þeytist mun betur að mínu mati)

  • 2 tsk sítrónusafi

  • 1 dolla Oatly rjómaostur (påmackan)

  • 2 dl flórsykur

  • 2 msk vanillusykur

Aðferð:

  1. Mér finnst gott að gera kremið frekar tímanlega þannig að það getið fengið að standa í kæli í allavega klukkutíma. Það er jafnvel sniðugt að byrja kannski á kreminu en annars dugir að gera það um leið og kakan fer í ofninn og hafa það í ísskápnum þar til kakan hefur kólnað.

  2. Hellið rjómanum og sítrónusafanum í skál og þeytið í hrærivél eða rafmagnsþeytara þar til rjóminn er orðinn þykkur. Setjið hann í ísskápinn á meðan þið gerið restina.

  3. Setjið rjómaost, flórsykur og vanillusykur í aðra skál og þeytið saman þar til það hefur blandast vel. Leggið til hliðar

  4. Stappið hluta af jarðarberjunum og takið restina frá til að skreyta með. Ég held ég hafi notað sirka 350 gr í kremið og restin fór ofan á. Þið ráðið í raun alveg hvernig þið viljið hafa það.

  5. Blandið rjómaostakreminu og stöppuðu berjunum varlega saman við rjómann þar til allt er vel blandað.

  6. Kælið þar til kakan er orðin köld.

  7. Smyrjið kreminu á kökuna og raðið berjunum yfir. Þessi kaka er mjög góð við stofuhita en hún er líka svakalega góð beint úr kælinum.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

Helga María.

Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Afmælis brunch + tvær uppskriftir

Ég átti 21. árs afmæli í vikunni og ákvað að bjóða vinum mínum í smá brunch um helgina. Ég var búin að ákveða fyrir löngu að halda upp á afmælið mitt þar sem ég hef ekki gert það í mörg ár. Ég ætlaði að halda partý og bjóða öllum og hafa rosa gaman en þar sem ég er alls ekki djamm manneskja hætti ég fljótt við það þegar ég fór að hugsa þetta betur. Ég alveg elska að elda eins og þið vitið líklegast öll en það sem mér finnst eiginlega ennþá skemmtilegra er að leyfið öðrum að njóta með mér. Ég ákvað því að bjóða þeim í brunch þar sem að það er svo rosalega vinsælt hjá öllum núna.

Mér fannst tilvalið að gera smá bloggfærslu úr þessu til þess að sýna ykkur að það er ekkert mál að gera risastóran og góðan brunch með alls konar góðgæti þó maður sé vegan. Engin af vinum mínum sem komu er vegan en auðvitað var allt sem var í boði vegan og þeim fannst þetta ótrúlega gott og söknuðu einskis. Það þarf því engin að vera hræddur við að bjóða bara uppá vegan bakkelsi í boðum þar sem að lang flestir eru ekki einu sinni að fara að átta sig á því! Ég ætla því að deila með ykkur því sem ég bauð upp á ásamt tveimur uppskriftum.

 

Matseðilinn í afmælis brunchinum var eftirfarandi:

Amerískar pönnukökur m/bönunum, jarðaberjum og sírópi
Heimabakað brauð
Fræbrauð
Hummus & Pestó
Kasjú ostakaka
Bakaðar baunir
Pinto-villisveppapylsur
Gulrótarmuffis
Súkkulaðimuffins
Vatsmelónur & appelsínur

Epla og engifer safi
Appelsínusafi
Súkkulaði haframjólk

Hér fyrir neðan ætla ég að deila með ykkur uppskriftunum af pinto-villisveppapylsum og mjög einföldu heimabökuðu brauði.

Ernubrauð

Erna er í tengdafjölskyldunni minni en hún á heiðurinn af þessu brauði. Þetta brauð er svo ótrúlega einfalt og gott að það er bakaðr fyrir hverja einustu veislu í jfölskyldunni. Það er hægt að leika sér með það eins og hugurinn girnist en ég set oft ólífur og sólþurrkaðar tómata í það eða hvítlauk. Hérna kemur uppskrift af hinu hefðbundna brauði en hægt er að bæta við eftir eigin höfði.

Hráefni:

  • 1/2 lítri volgt vatn

  • 3 tsk þurrger

  • 1 msk salt

  • 600 gr hveiti

  • olía og gróft salt til að smyrja

Aðferð:

  1. Setjið volgt vatn í skál og dreyfið þurrgerinu yfir. Leyfið þessu að standa í 5 mínútur áður en haldið er lengra.

  2. Bætið hveitinu og saltinu útí. (Ef setja á eitthvað fleira í brauðið er best að bæta því útí á þessu stigi, áður en deigið er hrært saman.)

  3. Hrærið deigið með sleif þar til hveitið er alveg blandað, sem sagt ekkert þurrt hveiti eftir. Setjið plastfilmu eða poka yfir skálina og leyfið henni að standa í ísskáp í 8 klukkustundir eða yfir nótt.

  4. Hellið deiginu beint á plötu, smyrjið með olíu og dreyfið vel af salti yfir. Bakið við 200°C í 50 mínútur eða þar til brauðið er gullið að ofan.

Pinto-villisveppapylsur

Ég ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

  • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)

  • 2 msk olía 

  • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)

  • 1/2 meðalstór laukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 3 sólþurrkaðir tómatar

  • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

  1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.

  2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 

  3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.

  4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur. 

Takk fyrir mig
-Júlía Sif

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

  • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)

  • 130 gr vegan smjör

  • 1/2 bolli púðursykur

  • 100 gr lakkrís

  • 2 1/2 bolli rice krispies (á Íslandi fæst því miður ekki lengur vegan rice krispies frá Kellogs, en það er hægt að nota poppað kínóa pöffs sem fæst í Nettó. Eins höfum við prófað að kaupa kornflex frá öðrum merkjum en Kellogs og það virkar vel líka)

  • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita.

  2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.

  3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman.

  4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita.

Njótið vel

-Júlía Sif

 

 

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Síðastliðin ár hefur mér þótt virkilega gaman að prufa mig áfram með allskonar uppskriftir. Þegar ég tók út dýraafurðir varð það að svolitlu sporti hjá mér að veganæsa rétti sem mér þóttu góðir. Hinsvegar lagði ég einhvernveginn aldrei í að útbúa vegan heitan brauðrétt. Ég held að það hafi verið vegna þess að svona brauðréttir voru virkilega eitt það besta sem ég fékk, og ég var mögulega hrædd um að valda sjálfri mér vonbrigðum. Ég prufaði það svo í fyrsta sinn í gær og ég eiginlega trúi ekki að ég hafi verið vegan í rúm 5 ár og farið í gegnum afmælisveislur og jólaboð og svona án þess að gera svona brauðrétt. Þetta er bæði fáránlega einfalt og smakkast aaalveg eins og þessir sem ég var vön að elska sem barn. Ég bauð ömmu minni uppá réttinn, sem er langt frá því að vera vegan, og henni þótti hann gjörsamlega æðislegur. Það eitt og sér er nógu góð staðfesting á því að þetta hafi heppnast vel hjá mér!

Í brauðréttinn nota ég meðal annars heimagerða mæjónesið mitt. Uppskriftina birti ég í annarri færslu í sumar og hérna er linkur á hana. Það er að sjálfsögðu hægt að kaupa vegan mæjónes útum allt en það er mun ódýrara að gera sitt eigið og alveg jafn gott, ef ekki betra. Ég á það til að mikla fyrir mér hlutina og ég frestaði því lengi að prufa að gera mæjó, aðallega því mér fannst það hljóma eins og svaka vesen en það er einmitt hlægilega einfalt. 

Annað hráefni sem mér þykir mikivægt í uppskriftinni er sveppakrafturinn. Hann gefur réttinum æðislegt bragð sem kemur í stað sveppasúpunnar frá Campbell/sveppasmurostsins sem ég notaði alltaf í brauðrétti áður en ég varð vegan. Það fást bæði sveppateningar frá Kallo og frá Knorr hér á landi. Ef þið notið þennan frá Knorr þarf alls ekki að salta fyllinguna því krafturinn er vel saltur. Ég hef ekki prufað að nota þennan frá Kallo svo ég er ekki viss hversu mikið salt er í honum. Að sjálfsögðu smakkið þið bara og finnið hvort ykkur finnst vanta salt. 

Rúllubrauðið kaupi ég frosið og það fæst í Bónus. Ég leyfi því að þiðna áður en ég nota það og það tekur yfirleitt svona rúmlega hálftíma. Brauðið kemur rúllað upp í plasti og gott er að leggja plastið undir brauðið, smyrja fyllingunni á og nota plastörkina til að rúlla brauðinu upp. Það verður nefnilega svolítið viðkvæmt þegar fyllingin er komin inn í það. 

Í fyrstu ætlaði ég að hafa rifinn vegan ost ofan á brauðinu en átti hann ekki til. Ég smurði því vel af vegan mæjónesinu ofan á og stráði kryddi yfir. Í þetta sinn notaði ég Old bay kryddið en það er líka æðislegt að nota bara paprikuduft. Eftir að hafa prufað þetta finnst mér ostur aaalgjör óþarfi ofan á þetta því mæjóið kemur svolítið út eins og bráðinn ostur og er sjúklega gott! 

Ég er svo ánægð að hafa loksins tekið af skarið og búið til svona heitt brauð. Þessi uppskrift mun svo sannarlega vera notuð mikið í framtíðinni við allskonar tilefni. Mig langar helst að halda veislu bara til þess að geta boðið uppá svona brauðrétt og vegan marengstertuna sem Júlía birti hérna á blogginu fyrir stuttu. Ég vona að ykkur líki uppskriftin og endilega sendið okkur snap (veganistur) ef þið gerið uppskriftirnar okkar, við elskum að fá að fylgjast með ykkur! :)

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum
Höfundur: Helga María
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 20 Min: 40 Min
Heitt rúllubrauð er nauðsynlegt í allar veislur og önnur boð að okkar mati. Þessi uppskrift er algjör klassík með sveppum og aspas og svíkur því engan.

Hráefni:

  • 1 Rúllubrauð.
  • 1 bolli vegan majónes (Plús tvær matskeiðar auka til að smyrja ofan á brauðið áður en það fer í ofninn)
  • 1 sveppateningur.
  • 100 g sveppir
  • Smávegis af olíu til að steikja sveppina uppúr
  • 1/2 dós aspas plús 1 msk af safanum úr dósinni
  • Old bay krydd eða paprikuduft

Aðferð:

  1. 1. Hitið ofninn í 200°c
  2. 2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu í svolítilli olíu í sirka 5 mínútur, eða þar til þeir eru svolítið mjúkir
  3. 3. Bætið mæjónesinu útá pönnuna ásamt sveppakrafi, aspasinum og safanum frá aspasinum og blandið vel saman
  4. 4. Smyrjið fyllingunni í rúllubrauðið og notið plastörkina sem fylgir með til þess að rúlla brauðinu upp.
  5. 5. Smyrjið toppinn á brauðinu með mæjónesi og stráið kryddinu yfir
  6. 6. Bakið í ofninum í 15-20 mínútur. Það fer svolítið eftir því hvernig ofninn er. Endarnir á brauðinu voru orðnir svolítið gylltir þegar það var tilbúið og tók sirka 17 mínútur hjá mér.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Vegan Marengsterta

Marengstertur eru eitthvað sem ég hélt að ég þyrfti að gefa alfarið upp á bátinn þegar ég varð vegan. Mér fannst engar líkur á því að hægt væri að baka tertu sem samanstendur af sykri og eggjahvítu án eggjanna. Svo virðist sem ég hafi haft rangt fyrir mér í þessum efnum þar sem það er ekkert mál að gera marengsbotna án eggjana, en það er nú orðið að einum af mínum uppáhalds kökum. Þetta er gert með svokölluðu aquafaba, en það er soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós. Þessi kaka er því ekki einungis jafn bragðgóð og hin hefðbundna marengsterta heldur líka töluvert ódýrari í framleiðslu. Það er ekki skrítið að marengstertur séu svona vinsælar á veisluborðið en auk þess að vera mjög góðar á bragðið eru þær svo ótrúlega fallegar. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig að ná að fullkomna þessa uppskrift en oftar en ekki hefur uppskriftin sem ég prófaði að baka misheppnast. Ég held þó að ég sé komin nokkuð nálægt því með þessari uppskrift en hún hefur ekki enn misheppnast hjá mér þó ég sé búin að baka hana nokkrum sinnum.

Hráefni:

  • 12 msk aquafaba

  • 220 gr sykur

  • 2 dl mulið kornflex

  • 1/2 tsk lyftiduft

Aðferð:

  1. Þeytið vökvan á hæsta stigi þar til hann verður að stífri, u.þ.b. 15 mínútur. Bætið síðan við einni matskeið af sykrinum í einu á meðan hrært er á miklum hraða. Þeytið þetta tvennt lengi og vel, eða þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan detti úr. þetta tekur allt að 20 mínútum.

  2. Blandið muldu kornflexinu mjög varlega saman við ásamt lyftiduftinu með sleikju.

  3. Bakið marengsin í 50 mínútur við 120°C heitan ofn en ég hef ofninn á blæstri og leyfið botnunum að kólna vel áður en þeir eru teknir af plötunni. Best er að slökkva á ofninum og leyfa botnunum að kólna með honum.

Ég bar marengstertuna mína fram með þeyttum soyatoo rjóma í milli, en í hann setti ég niðurskorin jarðaber og Ichoc núggatsúkkulaði. Bæði rjóminn og súkkulaðið má finna í Nettó. Kökuna skreytti ég svo með heimagerðri vegan karamellu, jarðaberjum og afganginum af súkkulaðinu sem ég reif niður. Jarðaberin og karamellan gera kökuna svo ótrúlega fallega og girnilega en ég lofa að engin sem smakkar hana mun verða fyrir vonbrigðum.

-Júlía Sif