Vegan smjördeigspylsuhorn
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan smjördeigspylsuhorn. Þetta er að okkar mati hinn fullkomni pinnamatur í partýið og veisluna, forréttur í matarboðið eða partur af helgarbrunch. Hornin eru líka tilvalin sem nesti í ferðalagið!
Þetta er einn af þessum skemmtilegu partýréttum sem tekur enga stund að útbúa en kemur virkilega á óvart. Smjördeigi er einfaldlega vafið utan um vegan pylsur, penslað með plöntumjólk, toppað með everything bagel kryddi og bakað í ofninum. Okkur finnst gott að bera hornin fram með tómatsósu.
Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma og við notuðum að sjálfsögðu pylsurnar frá þeim í bitana. Við höfum elskað vörurnar frá Anamma í mörg ár og erum virkilega stoltar að fá að vinna með þeim.
Við elskum að gera góða partýrétti og smárétti og hér á blogginu er fjöldinn allur af góðgæti sem hægt er að gera fyrir slík tilefni. Þessi pylsuhorn eru einstaklega skemmtileg vegna þess að þau passa bæði í fullorðinspartý og barnaafmæli. Við mælum virkilega með.
Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin!
Vegan smjördeigspylsuhorn

Gómsæt vegan smjördeigspylsuhorn, sem eru að okkar mati hinn fullkomni pinnamatur í partýið og veisluna, forréttur í matarboðið eða partur af helgarbrunch. Hornin eru líka tilvalin sem nesti í ferðalagið!
Hráefni:
- Vegan pylsur frá Anamma
- Vegan smjördeig, við notuðum kallt upprúllað smjördeig, en það er auðvitað hægt að kaupa frosið og láta það þiðna.
- Plöntumjólk
- Everything bagel krydd, eða gróft salt og sesamfræ
Aðferð:
- Hitið ofninn í 210°c.
- Leyfið pylsunum að þiðna svo hægt sé að skera þær. Skerið hverja pylsu í tvennt.
- Skerið smjördeigið niður svo hægt sé að rúlla hverjum pylsubita í deigið svo að það séu tvö lög af smjördeigi utan um hvern bita.
- Penslið með plöntumjólk og stráið "everything bagel" kryddi yfir.
- Bakið í 12-14 mínútur.
-Þessi færsla er gerð í samstarfi við Anamma á Íslandi-