Sticky teryaki tófú með brokkólí og sesamfræjum
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að guðdómlega góðu sticky teryaki tófú með brokkólí, vorlauk og sesamfræjum. Dásamlega braðgóður, einfaldur og saðsamur réttur sem tekur aðeins 20 mínútur að útbúa og inniheldur örfá hráefni.
Uppskrift dagsins er í samstarfi við Kikkoman á Íslandi og hvítlauks teryakisósan þeirra gegnir lykilhlutverki í réttinum. Það er mikill heiður að fá að vinna með Kikkoman því við systur höfum notað vörurnar frá þeim í mörg ár.
Þessi réttur er einn af þeim sem tekur bókstaflega enga stund að skella í, en smakkast alls ekki svoleiðis. Tófúið er einfaldlega steikt á pönnu ásamt engiferinu, brokkólíið gufusoðið og svo er sósan sett á ásamt maísmjöli. Tófúið er svo borið fram með grjónum, vorlauk, sesamfræjum og kóríander. Einfaldara gerist það ekki!
Við erum spennar að nota Kikkoman teryakisósuna í fleiri rétti. Það er til dæmis hægt að leika sér með þennan rétt og bæta við meira grænmeti. Þunnt skornar gulrætur og paprika myndi til dæmis passa virkilega vel að okkar mati.
Sticky teryaki tófú með brokkolí og sesam fræjum
Hráefni:
- 400 gr tófú
- 4 msk hitaþolin ólífuolía
- 1 cm engifer (sirka 1 tsk þegar búið er að saxa það mjög smátt)
- 1/2 haus brokkolí
- 1 flaska TERIYAKI sauce with roasted garlic frá Kikkoman
- 1 kúfull msk maísmjöl
- sesam fræ, ferskt kóríander og niðursneiddur vorlaukur til að bera fram með réttinum
- U.þ.b. 200 gr hrísgrjón
Aðferð:
- Byrjið á því að sjóða hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á pakkningunum.
- Saxið engifer niður mjög smátt og skerið tófúið í kubba. Skerið brokkolí"blómin" frá stilknum.
- Setjið vatn í pott og leyfið suðunni að koma upp, setjið brokkolíið út í og sjóðið í 7 mínútur.
- Hitið olíuna á pönnu og bætið síðan út á engiferinu og tófúinu ásamt örlítið af salti. Steikið saman þar til tófúið verður fallega gyllt að utan.
- Bætið teriyaki sósunni út á pönnuna ásamt borkkolíinu og leyfið suðunni að koma upp. Stillið helluna á lágan hita og stráið maísmjölinu yfir og hrærið strax vel saman við.
- Berið fram með soðnum hrísgrjónum, sesamfræjum, vorlauk og ferskum kóríander.
Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin!
-Veganistur
-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Kikkoman á Íslandi-