Þeyttur vegan fetaostur með sólþurrkuðum tómötum, basilíku og möndlum

Í dag deilum við með ykkur fljótlegum og gómsætum rétti sem er fullkominn sem forréttur, smáréttur, millimál eða partýréttur. Þeyttur vegan fetaostur toppaður með allskonar góðgæti. Að okkar mati bestur borinn fram með nýbökuðu brauði eða góðu kexi.

Færsla dagsins er unnin i samsarfi við Violife á Íslandi og í uppskriftina notum við greek white ostinn þeirra sem minnir a fetaost og rjómaostinn. Ég passa að eiga þessa tvo osta alltaf til í ísskápnum því þeir eru svo hentugir. Rjómaostinn nota ég mikið á brauð, í súpur, sósur og í krem. Fetaostinn myl ég ofan á allskonar matrétti og sallöt. Að þeyta þá saman gerir kraftarverk og er svo dásamlega gott og hægt að toppa með þvi sem mann lystir.

Það tekur innan við 10 mínútur að setja saman þennan rétt. Ég elska allt sem er einfalt og fljótlegt og þetta er svo sannarlega bæði. Á sama tíma er rétturinn bragðgóður og skemmtilegur. Þetta er akkúrat eitthvað sem ég myndi bjóða uppá sem forrétt í matarboðinu eða skella þessu saman þegar ég fæ óvænta gesti og bera fram með góðu brauði og jafnvel víni.

Það er hægt að toppa ostinn með því sem mann lystir og ég hef prófað allskonar útgáfur. Það sem ég hafði í þetta sinn var:

  • Sólþurrkaðir tómatar

  • Basilíka

  • Ristaðar og saltaðar möndlur

  • Ólífuolía

  • Sítrónubörkur

  • Hlynsíróp

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Ég vona að þið njótið og endilega látið okkur vita ef þið prófið að gera þeytta fetaostinn, hvort sem þið toppið hann eins og við eða prófið að gera hann öðruvisi. Við ELSKUM að heyra frá ykkur!

Þeyttur vegan fetaostur (miðaður sem forréttur fyrir 2-4)

Hráefni:

  • 1 pakki (200gr) greek white fetaosturinn frá Violife

  • 100 gr rjómaosturinn frá Violife (creamy original flavor)

  • 2-4 msk ósæt sojamjólk eða haframjólk - byrjið á 2 msk og sjáið hvort það þarf að bæta meiru við

  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

  1. Setjið allt í matvinnsluvél og blandið þar til áferðin er mjúk

  2. Setjið i skál og toppið með því sem ykkur þykir gott.

Ég toppaði með:

  • Söxuðum sólþurrkuðum tómötum

  • Söxuðum ristuðum og söltuðum möndlum

  • Saxaðri basilíku

  • Ólífuolíu og olíu frá sólþurrkuðu tómötunum

  • Sítrónuberki

  • Hlynsírópi

  • Chiliflögum

  • Salti og pipar

Magnið af hverju setti ég eftir smekk. Myndi fara varlega í sítrónubörkinn og sírópið og setja frekar minna fyrst og bæta svo við. Mér finnst líka gott að setja út á ofnbakaðan lauk og hvítlauk og ólífur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel! <3

-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi-