Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Heimagerður grænmetiskraftur

IMG_0932.jpg

Í framhaldi af matarsóunarfærslunni sem ég skrifaði fyrir nokkrum vikum langaði mig aðeins að halda áfram með sama málefni. Í samstarfi við Nettó ákvað ég því að nú myndi ég deila með ykkur hvernig ég geri heimagerðan grænmetiskraft úr grænmetisafgöngum sem annars endar í ruslinu á lang flestum heimilum. Líkt og ég hef mikið talað um hef ég verið að reyna að taka mig á í sambandi við matarsóun. Mér finnst alevg frábært hversu margir eru orðnir meðvitaðir um matarsóun en Nettó hefur, að mér finnst, staðið sig virkilega vel í þessum málum en þau hafa t.d. verið að selja matvörur sem eru að nálgast síðasta söludag á afslætti, gefið súpu úr útlitsgölluðu og "þreyttu" grænmeti víðsvegar um landið í sumar og núna í september hafa þau verið að gefa taupoka í stað plastpoka í verslunum sínum. Þau settu sér skilvirk markmið og hafa með þeim náð að minnka rusl og sóun frá verslunum sínum um töluvert magn. Þetta finnst mér góð hvatning og hef ég trú á að ég geti t.d. gert það sama. Ef þið viljið lesa um mín markmið gegn matarsóun er hægt að gera það hér. 

IMG_0977.jpg

Þar sem að ég bý í leiguhúsnæði og hef ekki aðgang að moltu eða kost á að útbúa mér moltu var vanalega mikið af grænmetisafgöngum að fara í ruslið hjá mér. Þá er ég aðallega að tala um hýði og enda og þess háttar sem ekki er notað í matinn. Ég flokka mikið og nánast það eina sem fór í ruslið hjá mér var grænmeti en ruslið var oft fljótt að fyllast af hýði og endum og svoleiðis þar sem að ég elda mjög mikið.Ég var aðeins farin að hugsa að það hlyti að vera eitthvað annað sem hægt væri að gera við þetta afgangs grænmeti og datt ekki mikið í hug. Einn daginn rak ég hins vegar augun í myndband á netinu þar sem sýnt var hvernig hægt væri að nota þetta grænmeti í kraft og mér fannst þetta strax alveg frábær hugmynd.

IMG_1042.jpg

Þetta leit svo ótrúlega auðveldlega út að við systur ákváðum báðar að prófa. Ég verð að segja að ég hafði ekki svakalega mikla trú á þessu þar sem mér fannst ólíklegt að þetta yrði eins bragðmikið og venjulegur kraftur sem hægt er að kaupa út í búð. Soðið varð hins vegar alveg ótrúlega bragðmikið og gott og finnst mér mikill kostur að hægt sé að ákveða saltmagnið alveg eftir því hvað hver og einn vill. Það er alveg ótrúlega auðvelt að búa það til en mér finnst líka alltaf svo mikill kostur þegar ég veit nákvæmlega hvað er í matnum mínu.

IMG_1099.jpg

Hráefni:

  • Grænmetisafgangar, hýði, endar og þess háttar

  • vatn

  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Best er að taka bara allt hýði og þess háttar sem fellur til af grænmeti í þónokkurn tíma og frysta í annað hvort frostþolinni skál eða frystipoka. 

  2. Þegar komið er ágætis magn eða sirka meðalfullur stór pottur er grænmetið sett í pott ásamt vatni svo það fljóti aðeins yfir. Salti bætt út í eftir smekk en ég set vel af salti þar sem mér finnst gott að hafa saltan kraftog salta matinn þá minna á móti.

  3. Grænmetið er soðið í vatninu við vægan hita í klukkutíma til einn og halfan. Fínt er að smakka eftir sirka hálftíma og bæta við salti ef þarf.

  4. Grænmetið er sigtað frá og gott er að þrýsta vel á það svo allur vökvi fari úr því. Leyfið soðinu að kólna alveg og frystið í klakaboxum. Krafturinn ætti að vera bragðmikill að nóg að nota einn til tvo klaka í hvern rétt.

IMG_1117.jpg

-Njótið vel
Júlía Sif Ragnarsdóttir

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó.

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó.