Dásamleg vegan lasagnasúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan lasagnasúpu. Súpan inniheldur allt sem gott lasagna inniheldur, svo sem tómata, vegan hakk, lasagnaplötur, grænmeti, gómsæt ítölsk krydd og mikið af hvítlauk. Þetta er hin fullkomna súpa að elda á köldum vetrardegi. Hún vermir svo sannarlega líkama og sál.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði vegan hakkið frá þeim. Við höfum lengi unnið með Anamma og erum gríðarlega stoltar af því. Vörurnar frá þeim eru svo góðar og hakkið frá þeim, bæði þetta “hefðbundna” og formbar hakkið nota ég svakalega mikið í mína matargerð. Ég hef eldað marga rétti með Anamma hakkinu fyrir vegan vini og vini sem borða kjöt og þeir hafa alltaf slegið í gegn. Þessi súpa er akkúrat dæmi um slíkan rétt.

Við erum með uppskrift af lasagnasúpu í bókinni okkar en þessi sem ég deili í dag er að mörgu leyti ólík. Mig langaði að gera hana aðeins meira eins og alvöru lasagna og ég er mjög stolt af útkomunni. Hún er virkilega bragðgóð og mettandi og ég er viss um að hún verður elduð oft í kvöldmatinn á mínu heimili á næstunni. Ég mæli með að gera hvítlauksbrauð með súpunni en uppskrift að svoleiðis brauði er að finna HÉR!

Eins og ég sagði hér að ofan inniheldur súpan gómsæt ítölsk krydd og ég notaði:

Oregano
Basiliku
Timían
Rósmarín
Majoram

Kryddin passa fullkomlega við tómatana og rjómann og gera súpuna svo dásamlega góða!

Vegan lasagna súpa

Hráefni:

  • Olía og/eða smjörlíki að steikja uppúr

  • 1 meðalstór laukur

  • 6 hvítlauksgeirar

  • 2 meðalstórar gulrætur

  • 2 sellerístiklar

  • 1 msk oregano

  • 1 msk þurrkuð basilika

  • 1 tsk rósmarín

  • 1 tsk timían

  • 1 tsk majoram

  • pínu chiliflakes

  • 2 msk sojasóa

  • 325 gr hakk frá Anamma (1 lítill poki)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar (hver dós 400g)

  • 1 líter vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1 msk balsamikedik

  • 3 lárviðarlauf

  • 6 lasagnaplötur

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur að setja í að lokum (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið olíu/smjörlíki í potti.

  2. Saxið laukinn og bætið út í og steikið þar til hann mýkist.

  3. Skerið niður gulrætur og sellerí og bætið út í ásamt pressuðum eða rifnum hvítlauksgeirum og steikið í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist.

  4. Bætið út í pottinn kryddunum, hakkinu og sojasósunni og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið tómötunum og vatninu út í og setjið balsamikedik, lárviðarlaufin og grænmetiskraftinn út í líka og leyfið þessu að ná suðu.

  6. Brjótið þá lasagnaplötur út í og leyfið súpunni að malla í 15-20 mínútur og verið viss um að lasagnaplöturnar séu orðnar mjúkar.

  7. Hellið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Leyfið súpunni að hitna þar til hún nær næstum því suðu, takið þá af hellunni, stráið vegan osti yfir og hrærið honum saman við svo hann bráðni. Það má að sjálfsögðu sleppa ostinum ef þið viljið en mér finnst það gott.

  8. Berið fram með góðu brauði og toppið með t.d. ferskri basíliku og vegan parmesanosti.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin vel!

-Helga María

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Vegan grænmetisbollur með grænu pestó

Nú er komið nýtt ár og því fylgir að sjálfsögðu veganúar. Margir hafa sett sér ný markmið og sumir með það markmið að gerast vegan eða minnka dýraafurðaneyslu. Okkur finnst þessi mánuður alltaf jafn skemmtilegur og fáum við mikið að skilaboðum frá fólki sem er að byrja að vera vegan sem er alltaf jafn gaman. Við ætlum því að sjálfsögðu að vera duglegar að deila með ykkur nýjum sem gömlum uppskriftum núna í janúar sem og alls konar öðrum fróðleik. Við mælum að sjálfsögðu með að allir fylgi okkur á Instagram þar sem við erum duglegar að sýna frá alls konar vegan tengdu.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er af ótrúlega auðveldum og hollum grænmetisbollum með grænu pestói. Þessar bollur eru virkilega bragðgóðar og hægt er að bera þær fram á alls konar vegu. Það er einnig auðvelt að gera þær í stóru magni og mæli ég með að gera til dæmis þrefalda eða fjórfalda uppskrift og setja í frysti. Ég elska að eiga til góða og holla rétti í frystinum sem ég get gripið í þegar ég hef ekki mikinn tíma til að elda.

Í bollunum er, ásamt hnetum og baunum, grænt pestó sem gerir þær ótrúlega bragðmiklar og góðar. það þarf því ekkert að krydda þær aukalega þar sem basil-hvítlauksbragðið af pestóinu skín vel í gegn. Bollurnar eru stútfullar af góðum næringarefnum úr baununum og hnetunum og auðvelt er að gera þær glútenlausar með því að nota glútenlaust brauðrasp.

Bollurnar má bera fram á ótal vegu. Ég ber þær mjög oft fram með rjómapasta, en þá sýð ég gott pasta, geri einfalda rjómasósu á pönnu með vegan rjóma, rjómaosti, hvítlauk og grænmetiskrafti. Velti pastanu síðan upp úr sósunni og ber bollurnar fram með. Þá mæli ég með að hafa grænt pestó með sem hægt er að setja út á og jafnvel vegan parmesanost og hvítlauksbrauð.

Bollurnar henta einnig fullkomlega með kaldri sósu og grænmeti, hvort sem það er í pítubrauði, vefju eða með hrísgrjónum til dæmis. Þær má einnig borða kaldar og henta því mjög vel sem nesti.

Pestó grænmetisbollur (20-24 litlar bollur)

  • 1 dós pinto baunir

  • sirka 2 bollar eða 2 lúkur spínat, eða eftir smekk

  • 1 dl malaðar kasjúhnetur

  • 1/2 krukka grænt vegan pestó frá Sacla Italia

  • 1/4 laukur

  • 1 1/2 dl brauðrasp

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vinna kasjúhneturnar í blandara eða matvinnsluvél þar til fínmalaðar, setjið til hliðar.

  2. Setjið spínatið í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið, bætið pinto baununum út í og maukið gróflega saman.

  3. Saxið laukinn mjög smátt og hrærið öllum hráefnunum saman í skál.

  4. Mótið kúlur eða buff úr deiginu en það á að vera þannig að þið getið meðhöndlað það í höndunum. Ef það er of blautt má bæta aðeins við af brauðraspi.

  5. Bakið við 200°C í 20 mínútur.

-Tillögur af því hvernig bera megi fram bollurnar má finna í færslunni hér að ofan. Njótið vel.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Linsubauna "Shepert's pie"

IMG_9897.jpg

Mér finnst ég alltaf byrja þessar færslur á að tala um veðrið en það hefur snjóað af og til á landinu síðustu daga og hef ég þurft að skafa nánast alla morgna síðustu vikuna svo það er eiginlega bara ekki annað hægt. Matarvenjur mínar fara líka bara svo rosalega eftir veðri einhvernveginn, en það er akkúrat þess vegna sem ég ákvað að deila með ykkur þessari tilteknu uppskrift núna.

IMG_9874.jpg
IMG_9875.jpg

Uppskriftin er af svokallari “Sherpert’s pie” en ég held að það sé ekki mikil hefð fyrir því að fólk eldi þennan rétt hérna á Íslandi. Ég kynntist honum allavega ekki fyr en eftir að ég varð vegan þar sem það er mjög auðvelt að gera vegan útgáfu af alls konar svona bökum. Þessi útgáfu er mín uppáhalds en fyllingin er svo góð að það væri eiginlega hægt að borða hana á jólunum að mínu mat. Ég set rauðvín í sósuna sem gerir hana eitthvað svo hátíðlega og svo er kartöflumús líka í svo miklu uppáhaldi hjá mér.

Mér finnst þessi rétturinn vera fullkomin þegar það er kalt úti og tikkar í öll boxin yfir þennan svokallaða “comfort food”. Mér finnst líka einhvern veginn aldrei jafn skemmtilegt að kaupa gænmeti og á haustin þegar það er svo extra ferskt og mikið úrval í búðum, og því ákvað ég að hafa réttin stútfullan af fallegu grænmeti. Það má að sjálfsögðu nýta nánast hvaða grænmeti sem er í hann, sleppa einhverju eða skipta út eftir smekk hvers og eins. Ég set oft sveppi eða brokkolí út í ef ég á það til en mér finnst mikilvægast að það séu laukur, gulrætur og baunir í honum.

Uppistaðan í bökunni eru síðan linsubaunirnar en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær draga svo vel í sig bragð og finnst mér áferðin á þeim einhvern veginn betri en á flestum öðrum baunum. Ég notaði baunirnar frá Oddpods þar sem það er svo einfalt að geta bara hent þeim út á pönnuna beint úr pakkningunni. Einnig eru baunirnar frá Oddpods soðnar upp úr grænmetiskrafti en það finnst mér gera þær bragðbetri en aðrar baunir og hentar það sérstaklega vel í rétti eins og þennan.

IMG_9917.jpg

Ég mæli með að elda stóra böku, en þessi uppskrift dugar fyrir 4-5 fullorðna, þar sem hún er eiginlega bara ennþá betri daginn eftir.

Linsubaunafylling:

  • 2 pakkar brúnar linsur frá Oddpods

  • 2-3 msk ólífuolía

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 3 gulrætur

  • 3 stilkar sellerí

  • 1 dl frosnar grænar baunir

  • 250 ml vatn + 1 msk hveiti hrist saman

  • 250 ml hafrarjómi

  • 1 sveppateningur

  • 1 msk dijon sinnep

  • 3 msk eða ein lítil dós tómatpúrra

  • 1-2 msk soyasósa

  • 1/2 dl rauðvín

  • 2 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður allt grænmeti í litla kubba.

  2. Steikið upp úr ólífuolíu þar til grænmetið fer að mýkjast

  3. Bætið baununum út í ásamt smá salti og pipar og steikið í nokkrar mínútur í viðbót á meðalhita.

  4. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman. Leyfið suðunni að koma upp og sjóðið í u.þ.b. 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar

  5. Setjið í eldfast mót, útbúið kartfölumúsina og dreyfið henni jafnt yfir. Bakið við 200°C í 15 mínútur eða þar til kartöflumúsin verður fallega gyllt að ofan.

  6. Passið að taka lárviðarlaufin úr þegar bakan er borðuð.

Kartöflumús

  • 1 kg kartöflur

  • 150 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 1-2 dl haframjólk

  • vel af salti (eftir smekk)

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn þegar stungið er gaffli í þær.

  2. Afhýðið kartöflurnar og stappið saman með kartöflustappara eða setjið í gegnum kartöflupressu.

  3. Setjið kartöflurnar, smjörlíki og 1 dl af mjólk saman í pott og hrærið vel í á lágum hita. Bætið við salti og haframjólk eftir þörfum.

-Við mælum með að bera réttinn fram með fersku salati og hvítlauksbrauði en það má líka bera hann fram einan og sér.

- Þessi færsla er í samstarfi við OddPods á Íslandi -

 
Oddpods-logo---edited.png
 

Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Tómat og ostapasta með Violife "feta"osti.

Fyrir um það bil ári síðan, þegar Covid var ný byrjað og ég lá heima í nokkrar vikur eftir aðgerð, “downloadaði” ég í fyrsta skipti Tik Tok forritinu. Ég var MJÖG fljót að þefa uppi alls konar matar og baksturs “aðganga” en ég get legið yfir skemmtilegum matarmyndböndunum á Tik Tok oft tímunum saman. Það hafa ótal matar “trend” sprottið upp á forritinu sem ég elska að fylgja og prófa að gera sjálf heima hjá mér.

Fyrir ekki svo löngu fór ég, og líklegast flestir sem eru á samfélagsmiðlum, að sjá endalaust af mjög auðveldri pastauppskrift á netinu sem samanstóð af tómötum, hvítlauk og fetaosti. Ég vissi strax að ég yrði að gera þessa uppskrift vegan með violife greek white block ostinum þar sem ég hef mjög góða reynslu af honum. Ég prófaði að gera vegan útgáfu af pastanu fyir u.þ.b. mánuði síðan og er þetta ein sú auðveldasta uppskrift sem ég veit um.

Pastað kom ótrúlega vel út með vegan ostinum og eftir að ég deildi með ykkur myndbandi af því á Instagram fékk ég fullt af spurningum út í uppskriftina svo ég ákvað að koma henni hérna inn fyrir ykkur. Ég hef eldað þennan rétt margoft síðustu vikurnar og mér finnst þetta vera fullkomin réttur þegar ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn eða nenni ekki að elda. Ég einfaldlega hendi pasta í pott, restinni af hráefnunum inn í ofn og blanda þessu síðan saman hálftíma seinna. Alveg fullkomið þegar það er mikið að gera.

IMG_0183.jpg

Hréfni (fyrir 4):

  • 300 gr pasta

  • 4 msk olífuolía

  • u.þ.b. 300 gr af kirsuberjatómötum eða öðrum litlum tómötum

  • 1 pakki violife greek white block

  • 3 hvítlauksrif

  • 1 msk óregano eða aðrar ítalskar jurtir

  • Smá fersk basilíka (má sleppa)

  • Vel af salti

Aðferð:

  1. Setjið ólífuolíu, tómatana í hvítlauksrifin í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn. Ég hef hvítlauksrifin heil með hýðinu á. Hrærið tómatana saman við olíuna og myndið síðan gat í miðju mótinu fyrir ostin. Leggið heilan ost í mitt formið og hellið örlítið af olíu yfir hann. Stráið saltinu og óreganóinu yfir ostinn og tómatana.

  2. Bakið í 200°C heitum ofni í 25-30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tómatarnir orðnir vel grillaðir að ofan.

  3. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum á meðan að tómatarnir og osturinn eru í ofninum.

  4. Takið ostinn úr ofninum, pressið hvílauksrifin úr hýðinu og takið það frá. Stappið tómatana og hvítlaukinn vel saman við gríska ostinn og hellið síðan pastanum út í og blandið vel saman. Rífið nokkur basilíkulauf yfir og bætið við smá salti ef ykkur finnst það þurfa.

IMG_0179.jpg

-Njótið vel og takk fyrir að lesa. <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á íslandi

 
violife-logo-1.png
 

Mexíkóskar chorizo kjötbollur

Eins og flestir sem skoða bloggið okkar eða fylgjast með okkur á Instagram vita, þá elskum við systur mexíkóskan mat mjög mikið. Ég er líklega með einhvers konar mexíkóskan mat í kvöldmatinn í hverri viku og er ég alltaf að prófa að gera nýjar útfærslur á uppáhalds uppskriftunum mínum.

Ég er lengi búin að ætla að gera uppskrift af einhvers konar kjötbollum með svörtu doritosi og eftir að ég gerði ofnbakað nachos með chorizo pylsunum frá Anamma í fyrra datt mér í hug að þær myndu passa fullkomlega í kjötbollurnar.

Ég notaði því formbar hakkið frá Anamma, sem er lang besta hakkið til að gera bollur og borgara að mínu mati, ásamt chorizo pylsunum í bollurnar. Þessi tvenna kom virkilega vel út en pylsurnar eru mjög bragðmiklar og gera bollurnar extra bragðgóðar.

Þessi uppskrift er alls ekki flókin og má nota hana til að gera bollur, borgara eða sem einskonar “fyllingu” ofan á nachos eða í quesadilla. Ég bakaði mínar í ofni og bar þær fram með hrísgrjónum og guacamole en það er einnig mjög gott að steikja þær og nota í vefjur.

IMG_9884.jpg

Hráefni (fyrir 4-5) :

  • 350 gr formbar anamma hakk

  • 2 stk chorizo pylsur frá anamma

  • 1/2 rauðlaukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 1/2 dl rifinn vegan ostur

  • 1/2 dl mulið svart doritos

  • 1/2 dl niðursaxað kóríander

  • 1 msk mexíkósk kryddblanda (t.d. taco krydd eða mexican fiesta

  • 1 tsk salt.

Aðferð:

  1. Leyfið Anamma hakkinu og chorizo pylsunum að þiðna áður en byrjað er að hræra restinni af hráefnunum saman við. Ég nota oftast örbylgjuofn til að þíða “kjötið”.

  2. Saxið niður rauðlaukinn og kóríanderinn, myljið svarta doritosið og pressið hvítlaukinn.

  3. Stappið chorizo pylsurnar með gaffli og hrærið saman við hakkið ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Mótið bollur eða fjóra hamborgara úr hakkinu.

  5. Steikið bollurnar eða hamborgarana upp úr smá ólífuolíu í nokkrar mínútur á hverri hlið eða eldið þær í bakarofni í sirka 15 mínútur við 210°C.

  6. Ég hrærði 1 krukku af salsasósu saman við 1/2 dl af vatni, hellti yfir bollurnar og setti rifin vegan ost yfir. Þetta bakaði ég síðan í 15 mínútur í 210°C heitan ofn.

Það er fullkomið að bera þessar bollur fram með hrísgrjónum, guacamole og fersku salati eða með því meðlæti sem hver og einn kýs að nota.

Þessi uppskrift hentar fullkomlega í að gera mexíkóska hamborgara en ég setti quacamole, salsasósu, ferskt grænmeti, jalapeno og tortilla flögur á minn borgara.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi.

 
anamma_logo.png
 

Hollt og gott Enchilada úr korter í 4 kælinum í Krónunni │ Veganistur x Krónan │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingabaunasalat úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki fajitas grænmeti úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki hrísgrjón með sveppum úr korter í 4 kælinum

  • 1 krukka tómat og ólífusalsa úr korter í 4 kælinum eða venjuleg salsasósa

  • safi úr hálfu lime

  • 6-8 maís tortilla pönnukökur (má líka nota venjulegar tortillakökur)

  • 100-150 ml vegan rjómaostur

  • Avókadósalat

    • 2-3 avókadó

    • 2 stórir tómatar eða um 6 litlir

    • safi úr hálfu lime

    • salt og pipar

    • ferskt kóríander

Aðferð:

  1. Hitið ofninn við 200°C

  2. Blandið kjúklingabaunasalati, fajitas grænmeti og hrísgjrónum saman í skál ásamt salsanum, geymið 2-3 msk af salsa til að smyrja yfir réttinn í lokin.

  3. Smyrjið hverja tortilla köku með smá vegan rjómaosti, setjið fyllingu inn í, rúllið upp og raðið í eldfast mót.

  4. Smyrjið smá rjómaosti og salsa yfir hverja rúllu fyrir sig.

  5. Bakið í ofninum í 20 mínútur.

  6. Útbúið avókadó salatið með því að skera niður avókadó og tómata og hræra það saman með lime safanum, salti og pipar og sökuðu fersku kóríander.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna

KRONAN-merki.png

Veganistur X Krónan │ Einfaldur ofnréttur úr Korter í 4 kælinum í Krónunni │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki svartbaunabuffborgari frá Korter í 4

  • 1 pakki Kartöflusalat frá Korter í 4

  • 1 pakki piparsósa frá Toro

  • Nokkrar gulrætur

  • 1-2 msk olía

  • Einfalt salat

    • Kál

    • Gúrka

    • Tómatar

    • Kryddjurtadressing frá Korter í 4

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Takið borgarana úr pakkanum, setjið þá í skál og blandið saman. Skiptið í fjóra hluta og mótið úr þeim fjórar pylsur.

  3. Hellið olíu í eldfast mót og leggið pylsurnar í mótið ásamt kartöflusalatinu og niðuskornum gulrótum. Stráið grófu salti yfir og setjið í ofninn í sirka 12 mínútur

  4. Útbúið sósuna á meðan eftir leiðbeiningum á pakkanum.

  5. Skerið niður salat, kál, gúrku og tómatata og setjið í skál. Hellið yfir kryddjurtadressingunni og blandið saman.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Lasagna rúllur með Sacla Italia sósum.

Uppskrift vikunnar er af fullkomnum kósý heimilismat. Ég elska að elda pottrétti og góða ofnrétti þegar fer að hausta og núna er akkúrat sá tími ársins sem mikið af grænmeti er sem best. Því er fullkomið að elda góða grænmetisrétti sem hafa grænmeti í aðalhlutverki. Mig langaði akkúrart að gera þannig rétt núna í vikunni þar sem ég hef mikið verið að deila “kjöt”líkis uppskriftum síðustu vikur.

Þessar nýju vegan sósur frá Sacla Italia eru fullkomnar í ítalska matargerð og gera þær eldamennsku extra einfalda og þægilega. Ég ákvað að fara smá óhefðbundna leið að lasagna í þetta skiptið og gera lasagna rúllur en það kom ekkert smá á óvart hvað það var auðvelt og hversu vel það kom út. Þessi réttur er svo ótrúlega fallegur í fatinu og svo þægilegt að skammta hverjum og einum, sér rúllu.

Í þetta skiptið fór ég aðeins óhefðbundnari leið með hvítu sósuna en í staðin fyrir að gera hvíta sósu frá grunni eða nota rjómaost líkt og ég hef oft gert áður ákvað ég að nota frábæru CH**SE sósuna frá Sacla. Ég prófaði mig áfram með tófu þar sem mér fannst vanta smá upp á áferðina á réttinum og koma það fullkomlega út að stappa eða mylja niður tófú og hræra ostasósunni saman við. Áferðin minnir svolítið á kotasælu en það var alltaf notuð kotasæla í lasagna á mínu heimili þegar ég var lítil.

Hráefni

  • 8-9 lasagna plötur

  • Fylling:

    • 1 dl linsubaunir

    • 1 sveppakraftur

    • 2-3 hvítlauksgeirar

    • 1/2 kúrbítur

    • 1/2 laukur

    • 2-3 gulrætur

    • 2-3 sellerístangir

    • 2 msk ítalskar juritr (t.d. oreganó, basil og smá tímían blandað saman)

    • 1 teningur grænmetiskraftur

    • salt og pipar

    • 2 krúkkur Vegan Bolognese sósa frá Sacla

    • 1-2 dl vatn

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

  • Hvít sósa

    • 1 krukka VEGAN CH**SE sósan frá Sacla Italia

    • 100 gr tófú

    • 2-3 dl eða sirka 2 lúkur af spínati

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk laukduft

    • 2 msk þurrkurð steinselja

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja linsubaunirnar, sveppakraftin og vel af vatni í pott og sjóða í sirka 20 mínútur.

  2. ´Á meðan að linsurnar sjoða skerið allt grænmetið ´í fyllinguna niður ´í sm´áa teninga og pressið hvítlaukinn. Steikið grænmetið upp úr olía í góðar 10 mínútur á vægum hita eða þar til það fer að mýkjast vel. Bætið ítölsku jurtunum, salti og pipar út í og hrærið saman við ásamt linsubaunum. Steikið þetta áfram í nokkrar mínútur í viðbót.

  3. Bætið Bolognese sósunum út í ásamt 1-2 dl af vatni og leyfið suðunni að koma upp. Smakkið til og slökkvið síðan undir.

  4. Myljið tófúfið í skál með höndunum eða stappið það vel með gaffli og saxið spínatið niður frekar smátt.

  5. Hrærið ölum hráefnunum fyrir hvítu sósunni saman við tófúið og spínatið og setjið til hliðar

  6. Setjið vel af vatni í stóran pott ásamt smá olíu og salti og látið suðuna koma upp. Þegar vatnið fer að sjóða setjið þá lasagna plöturnar eina af annari út í vatnið og leyfið þeim að sjóða í 6-8 mínútur.

  7. Setjið lasagna plöturnar yfir í volgt vatn og passið að þær séu ekki fastar saman. Ef þær festast aðeins saman er ekki mál að taka þær varlega í sundur ofan í volgu vatni.

  8. Setjið smá fyllingu í botninn á eldföstu móti

  9. Takið eina lasagnaplötu í einu, smyrjið á hana vel af hvítri sósu og síðan fyllingu og rúllið henni varlega upp og raðið þessu þétt saman í eldfasta mótið.

  10. Geymið örlítið af fyllingu og hvítri sósu til að smyrja aðeins yfir og stráið síðan ostinum yfir allt saman í lokinn ef fólk kýs að nota ost.

  11. Bakið í ofni við 220°C í 10 til 15 mínútur eða þar til efsta lagið er orðið fallega gyllt.

Það er alveg ótrúlega skemmtilegt að útbúa þennan rétt og hann kemur fólki alltaf á óvart þar sem hann er svo fallegur í fatinu og ótrúlega brgaðgóður. Ég mæli með því að bera hann fram með góðu salati og hvítlauksbrauði.

-Njótið vel

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi

 
Sacla_HR.png
 

Mac and cheese ofnréttur.

Í þessum rétti blöndum við saman Mac and cheese uppskriftinni okkar og hakksósu úr lasagna. Þessi blanda kom okkur heldur betur á óvart og erum við ótrúlega ánægðar með útkomuna. Rétturinn er einfaldur og og þetta er hinn fullkomni heimilsmatur.

1/2 uppskrift Mac and cheese

Hakksósa:

  • 2 pakkar anamma hakk

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill haus brokkolí (eða annað grænmeti sem hentar hverjum og einum)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 2-3 msk tómatpúrra

  • 2 msk eða 1 teningur grænmetiskraftur

  • 1 msk oregano

  • 1 msk basilíka

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hvítlauk og lauk upp úr smá olíu.

  2. Bætið brokkolíinu og hakkinu út á pönnuna og steikið í 5 til 10 mínútur.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og leyfið suðunni að koma upp.

  4. Smakkið til með kryddum og salti og pipar.

Aðferð og eldun:

  1. Útbúið Mac and cheese og hellið í botnin á eldföstu móti.

  2. Útbúið hakksósuna og setjið yfir pastað.

  3. Stráið vegan osti yfir.

  4. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðin fallega gylltur að ofan.

Við bárum réttinn fram með hvítlauksbrauðinu okkar en það er alveg ómissandi að okkar mati.

IMG_2219-3.jpg
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
10159%2B%25281%2529.jpg

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fást öll hráefnin sem í hana þarf.-

-Færslan er einnig í samstarfi við Bitz á Íslandi.-

Vikumatseðill 16. til 21. apríl

20170716_210154.jpg

Vikumatseðill 16.apríl til 21.apríl

Mánudagur:
Mexíkógrýta, kartöflumús og Oatly sýrður rjómi

Þriðjudagur:
Spagetti og vegan kjötbollur með tómatpastasósu og hvítlauksbrauði

Miðvikudagur:
Falafelbollur, salat og góður hummus.

Fimmtudagur:
Baunasúpa með kartöflum og rófum.

Föstudagur:
Gardein "kjúklingaborgari" með hvítlauksmajó og kartfölubátum

Laugardagur:
Pizza!
 

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg