Fljótlegt kartöflusalat með rauðu pestói

Uppskrift dagsins er af kartöflusalati með rauðu pestói, radísum, vorlauk, ristuðum furuhnetum, sítrónusafa og sítrónuberki. Kartöflusalatið er einstaklega fljótlegt og passar bæði sem aðalréttur eða sem meðlæti með t.d. góðum grillmat.

Færsla dagsins er í samstarfi við Sacla á Íslandi og við notuðum rauða tómatpestóið þeirra í kartöflusalatið. Þessi uppskrift er jafn góð með rauðu og grænu pestói en við vorum í stuði fyrir það rauða í þetta sinn. Við elskum pestóin og sósurnar frá Sacla og erum alltaf jafn spenntar fyrirn því að fá að vinna með þeim.

Oft eru kartöflusalöt gerð úr soðnum kartöflum og majónesi, en við vildum breyta út af vananum og bökuðum kartöflurnar í ofni upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Eins slepptum við því alfarið að setja majónes í salatið og vildum hafa það aðeins léttara.

Í salatið settum við þunnt skornar radísur, vorlauk og ferska basiliku. Planið var að hafa klettasalat líka, en við gleymdum því. Ég get ímyndað mér að það komi mjög vel út í salatinu. Sítrónusafinn og börkurinn gefa salatinu mjög ferskt og gott bragð.

Ristuðu furuhneturnar gefa salatinu svo þetta extra “krisp.” Það má að sjálfsögðu skipta þeim út fyrir t.d. kasjúhnetur, valhnetur, graskers- eða sólblómafræ. Ég mæli þó mikið með að hafa eitthvað stökkt í salatinu.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin. Endilega skellið kommenti undir færsluna ef þið prófið.

-Veganistur

Kartöflusalat með rauðu pestói

Kartöflusalat með rauðu pestói
Höfundur: Helga María
Fljótlegt kartöflusalat með rauðu pestói, radísum, vorlauk, ristuðum furuhnetum, sítrónusafa og sítrónuberki. Kartöflusalatið er einstaklega fljótlegt og passar bæði sem aðalréttur eða sem meðlæti með t.d. góðum grillmat.

Hráefni:

  • 1 kg af íslenskum kartöflum
  • Olía að steikja upp úr
  • Salt og pipar
  • 3/4 krukka af rauðu eða grænu vegan pestó frá Sacla
  • 1 poki af radísum (ca 125 gr)
  • 1-2 vorlaukar
  • Fersk basilika eftir smekk
  • 1 msk sítrónusafi
  • Börkur af hálfri sítrónu
  • Ristaðar furuhnetur eftir smekk
  • Ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn i 220°c.
  2. Skerið kartöflurnar í tvennt, stráið olíu, salti og pipar yfir og bakið á ofnplötu í 30 mínútur eða þar til þær hafa fengið gylltan lit og eru mjúkar í gegn.
  3. Skerið niður vorlauk og basiliku og sneiðið radísurnar.
  4. Leyfið kartöflunum að kólna aðeins og setjið þær svo í stóra skál ásamt pestói, grænmetinu, sítrónusafa og rifnum sítrónuberki.
  5. Ristið furuhneturnar í nokkrar mínútur á pönnu og passið að þær brenni ekki.
  6. Toppið salatið með ólífuolíu, furuhnetum, salti og pipar. Smakkið til hvort þið viljið bæta einhverju við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Sacla á Íslandi-

 
 

Haustlegt kartöflusalat með Ceasar dressingu

IMG_9761.jpg

Ég held að það sé óhætt að segja að það sé komið haust og þar af leiðandi er fullt af fersku og góðu grænmeti í búðum akkúrat núna. Ég elska að gera góða rétti úr rótargrænmeti á haustinn og finnst það alltaf fylgjast haustinu á mínu heimili. Kartöflur eru eitt af þeim hráefnum sem er sérstaklega gott á haustinn að mínu mati og ef það er einhver matur sem ég held að ég gæti lifað alfarið á, þá eru það kartöflur. Ég bókstaflega elska kartöflur, hvort sem þær eru soðnar, ofnbakaðar, maukaðar í kartfölumús eða bara hvernig sem er.

IMG_9756.jpg

Einn af mínum uppáhalds réttum með kartöflum er kartöflusalat. Ég elska að hafa eitthvað í matinn sem passar með kartöflusalat til að geta haft það sem meðlætii. Þetta salat er engu líkt og það er svo gott að það er nánast hægt að borða það eitt og sér. Það má einnig bæta út í það t.d. linsubaunum og meira af salati og þá er það orðið máltíð út af fyrir sig. Ég hins vegar elska að hafa sem mest af kartöflum og sem minnst af einhverju öðru og ef ég á að segja alveg eins og er stelst ég oft í að setja afgang af salatinu ofan á brauð og borða það þannig.

IMG_9777.jpg

Salatið er einstaklega einfalt í undirbúningi, þar sem ég notast við Ceasar dressinguna frá Sacla Italia og þarf þar með ekki að krydda neitt aukalega nema mögulega setja smá salt. Það er þó best að smakka salatið til fyrst þar sem “reyktu bitarnir” eru einnig saltir.

IMG_9757.jpg

Hráefni

  • 500 gr kartöflur

  • Klettasalat, sirka 2 bollar

  • 2-3 litlir vorlaukar

  • 1 dl smokey bites frá Oumph

  • 1/2 dl ristaðar furuhnetur

  • salt ef þarf

  • 1/2 flaska vegan Ceasar sósa frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í bita, stærðin má vera eftir smekk, og sjóðið í um 10 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Ég hef hýðið á kartöflunum en það má að sjálfsgöðu taka það af.

  2. Saxið niður vorlaukinn og klettasalatið.

  3. Steikið reyktu bitana í nokkrar mínútur á pönnu, takið til hliðar og ristið síðan furuhneturnar á sömu pönnu þar til þær verða fallega gylltar.

  4. Leyfið öllum hráefnum að kólna aðeins.

  5. Blandið öllu saman í skál og hellið dressingunni yfir. Hrærið vel saman og smakkið til hvort að þurfi að salta aukalega.

-Njótið vel og takk fyrir að lesa.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
logo Sacla.jpg
 

Grillaðar vegan pylsur á þrenns konar vegu

IMG_0438.jpg

Í dag er föstudagur og því finnst mér tilvalið að deila með ykkur líklega síðustu grillfærslu sumarsins. Þetta sumar er búið að líða alveg ótrúlega hratt og er erfitt að trúa því að núna séu skólar að komast á fullt. Núna í lok ágúst finnst mér því fullkomið að deila með ykkur þessari færslu sem inniheldur mismunandi tillögur af því hvernig bera megi fram Anamma pylsurnar. Anamma pylsurnar eru í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum og elskum við að grilla þær því það er svo einfalt og þægilegt. Þær eru einnig fullkomin matur til að taka með sér í útilegur eða í grillveislur til vina eða fjölskyldu.

IMG_0455-2.jpg

Ég elska hefðbundnar pylsur með tómatsósu, steiktum lauk og sinnepi en finnst einnig alveg ótrúlega skemmtilegt að leika mér með mismunandi hráefni og matreiða pylsurnar á ólíka vegu. Það má breyta réttinum alveg með því að setja aðrar sósur eða góð salöt á pylsurnar. Það má undirbúa öll hráefnin í þessari færslu fyrirfram þar sem þau eru öll mjög einföld og taka með sér í lautarferð eða hvar sem planið er að grilla.

IMG_0459-2.jpg

Þessi hefðbundna:

  • Anamma pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Sinnep (ég nota yfirleitt bæði pylsusinnep og sætt sinnep)

  • Heimagert kartöflusalat (uppskrift neðst í færslunni)

  • Pylsubrauð

Aðferð:

  1. Útbúið kartöflusalatið eftir uppskriftinni neðst í þessari færslu.

  2. Grillið pylsurnar í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til þær fá fallega gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðinn og raðið hráefnunum á eins og hver og einn vill.

BBQ pylsur:

  • Anamma pylsur með bbq sósu

  • Chilli majónes

  • Grænt salat

  • Hrásalat

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat, uppskriftina af því má finna neðst í þessari færslu.

  2. Pennslið pylsurnar með bbq sósu og grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pylsurnar frá fallegar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

IMG_0462-2.jpg

Þessi mexíkóska:

  • Anamma pylsur

  • Mangósalsa (uppskrift neðst í færslunni)

  • Guacamole (uppskrift neðst í færslunni)

  • Grænt salat

  • Sýrður rjómi

  • Svart Doritos

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa mangósalsað og guacamole sem er hér neðst í færslunni.

  2. Grillið pyslurnar í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til þær fá fallegar gylltar rákir.

  3. Hitið pylsubrauðin og raðið hráefnunum í eftir smekk.

Kartöflusalat

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

Mangó salsa

  • 1 dl niðurskorið mangó

  • 1 dl niðurkorið papríka

  • 1/2 dl niðursaxaður rauðlaukur

  • safi úr hálfri lime

  • Salt eftir smekk

  • Ferskt kóríander eftir smekk (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið niður grænmetið og mangóið í litla bita.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál.

  3. Saltið eftir smekk.

Guacamole

  • 2-3 stór avocado

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • 1 tómatur

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Safi úr 1/2 lime

  • Ferstk kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að stappa avocadoin vel saman með gaffli

  2. Saxið niður tómat og rauðlauk og pressið hvítlauk

  3. Blandið öllum hráefnum saman við avocadómaukið og hrærið vel saman.

  4. Saltið og piprið eftir smekk

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi -

 
anamma_logo.png
 

Vegan kartöflusalat og grillaðar "pylsur"

Ég, líkt og flestir sem ég þekki reyndar, elska fátt meira en íslenska sumarið. Það er eitthvað svo ótrúlega magnað við þessar björtu sumarnætur þegar minningarnar verða til einhverveginn að sjálfu sér. Þetta sumar hefur einkennst af mörgu ótrúlega skemmtilegu en eitt af því er grillmatur. Við erum búin að grilla mjög mikið, bæði í útilegum og hérna heima. En í þetta skiptið ætla ég að deila með ykkur uppáhalds útilegugrillmatnum mínum þetta sumarið.

Fyrr í vor kom á markaðinn sýrður rjómi frá Oatly og það fyrsta sem mér datt í hug að gera var vegan kartöflusalat, en það hafði ég aldrei gert áður. Ég hef reyndar aldrei verið mikið fyrir kartöflusalat, það var aldrei með grillmat heima hjá mér þegar ég var yngri. Hins vegar varð Ívar, kærastinn minn, vegan um áramótin og er þetta því hans fyrsta vegan sumar. Hann borðaði oft kartöflusalat og ég ákvað því strax að prófa að gera svoleiðis fyrir hann. 

Ég hafði mjög litla hugmynd um hvað væri í kartöflusalati en eftir að hafa lesið á nokkrar dollur í búðinni virtist þetta ekki vera svo flókið. Og það var rétt hjá mér, þetta var eiginlega bara lygilega einfalt en sló svo sannarlega í gegn hjá Ívari. Síðan þá höfum við haft heimagert kartöflusalat með okkur í allar útilegur og það hefur alltaf verið mjög vinsælt. Ég ætla því að deila með ykkur uppkriftinni ásamt því hvað ég set á útilegu grillpylsuna mína.

Hráefni:

  • 500 gr kartöflur

  • 2 dl vorlaukur (einnig hægt að nota blöndu af venjulegum lauk og graslauk)

  • 3/4 dl vegan majónes

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 msk gróft sinnep

  • 2 tsk sítrónusafi

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar, skerið í litla bita og gufusjóðið í 20 mínútur. Það er líka alveg hægt að sjóða kartöflurnar venjulega og flysja og skera niður þegar þær hafa kólnað.

  2. Saxið vorlaukinn og blandið öllu nema kartöflunum saman í skál. Setjið kartöflurnar út í þegar þær hafa kólnað alveg.

  3. Berið fram með hverju sem er, en salatið passar auðvitað sérstaklega vel með öllum grilluðum mat.

Dórupylsa

  • Pylsubrauð

  • Veggyness pylsur

  • Tómatsósa

  • Steiktur laukur

  • Hrár laukur

  • Kálblöð

  • Kartöflusalat

  • Sinnep

Aðferð:

  1. Grillið pylsurnar og útbúið kartöflusalatið

  2. Raðið hráefnunum í pylsubrauð eftir eigin höfði og njótið

-Júlía Sif