Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Döðlupestó og auðveldir pestó snúðar

Ég er alltaf mjög hrifin af fallegum ostabökkum þegar ég sé myndir af þeim og hefur mér lengi langað að prófa að gera svona bakka sjálf. Mér fannst því tilvalið að gera fallegan ostabakka með döðlupestó uppskrift sem ég er búin að vera að elska síðustu vikur. Þetta pestó er svo ótrúlega einfalt og það þarf engin sérstök tæki eins og matvinnsluvél eða slíkt til að útbúa það.

Ég ákvað kaupa alls konar vegan osta sem mér finnst góðir og hafa síðan ávexti, grænt pestó og ólífur líka. Þessi ostabakki kom ótrúlega vel út og mér finnst þetta vera fullkominn bakki til að bera fram í veislum eða bara þegar ég fæ vini í heimsókn.

Ég notaði nýja vegan chilli pestóið frá Sacla Italia sem er alveg einstaklega gott að mínu mati en það er þó smá sterkt svo það er ekkert mál að nota rauða pestóið eða til dæmi eggaldin pestóið frá þeim í staðinn til að gera það aðeins mildara.

IMG_9537.jpg
IMG_9546.jpg

Hráefni:

  • 1 dl svartar ólífur

  • 1 dl saxaðar döðlur

  • 1 dl kasjúhnetur

  • 1 dl söxuð fersk steinselja

  • 1 hvítlauksgeiri

  • Salt

  • Ein krukka chilli pestó frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Saxið gróflega niður ólífurnar, döðlurnar, kasjúhneturnar og ferska steinselju.

  2. Merjið hvítlaukinn og blandið öllum hráefnunum saman í skál.

Þetta perstó hentar fullkomlega með til dæmis góðu kexi, brauði eða bara nánast hverju sem er. Ég prófaði einnig að amyrjaum vel af pestóinu á smjördeigsplötur rúlla þeim upp í snúða og baka í ofni þar til þeir urðu fallega gylltir til að útbúa gómsæta smjördeigssnúða.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi.

 
logo Sacla.jpg
 

Lasagna rúllur með Sacla Italia sósum.

Uppskrift vikunnar er af fullkomnum kósý heimilismat. Ég elska að elda pottrétti og góða ofnrétti þegar fer að hausta og núna er akkúrat sá tími ársins sem mikið af grænmeti er sem best. Því er fullkomið að elda góða grænmetisrétti sem hafa grænmeti í aðalhlutverki. Mig langaði akkúrart að gera þannig rétt núna í vikunni þar sem ég hef mikið verið að deila “kjöt”líkis uppskriftum síðustu vikur.

Þessar nýju vegan sósur frá Sacla Italia eru fullkomnar í ítalska matargerð og gera þær eldamennsku extra einfalda og þægilega. Ég ákvað að fara smá óhefðbundna leið að lasagna í þetta skiptið og gera lasagna rúllur en það kom ekkert smá á óvart hvað það var auðvelt og hversu vel það kom út. Þessi réttur er svo ótrúlega fallegur í fatinu og svo þægilegt að skammta hverjum og einum, sér rúllu.

Í þetta skiptið fór ég aðeins óhefðbundnari leið með hvítu sósuna en í staðin fyrir að gera hvíta sósu frá grunni eða nota rjómaost líkt og ég hef oft gert áður ákvað ég að nota frábæru CH**SE sósuna frá Sacla. Ég prófaði mig áfram með tófu þar sem mér fannst vanta smá upp á áferðina á réttinum og koma það fullkomlega út að stappa eða mylja niður tófú og hræra ostasósunni saman við. Áferðin minnir svolítið á kotasælu en það var alltaf notuð kotasæla í lasagna á mínu heimili þegar ég var lítil.

Hráefni

  • 8-9 lasagna plötur

  • Fylling:

    • 1 dl linsubaunir

    • 1 sveppakraftur

    • 2-3 hvítlauksgeirar

    • 1/2 kúrbítur

    • 1/2 laukur

    • 2-3 gulrætur

    • 2-3 sellerístangir

    • 2 msk ítalskar juritr (t.d. oreganó, basil og smá tímían blandað saman)

    • 1 teningur grænmetiskraftur

    • salt og pipar

    • 2 krúkkur Vegan Bolognese sósa frá Sacla

    • 1-2 dl vatn

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

  • Hvít sósa

    • 1 krukka VEGAN CH**SE sósan frá Sacla Italia

    • 100 gr tófú

    • 2-3 dl eða sirka 2 lúkur af spínati

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk laukduft

    • 2 msk þurrkurð steinselja

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja linsubaunirnar, sveppakraftin og vel af vatni í pott og sjóða í sirka 20 mínútur.

  2. ´Á meðan að linsurnar sjoða skerið allt grænmetið ´í fyllinguna niður ´í sm´áa teninga og pressið hvítlaukinn. Steikið grænmetið upp úr olía í góðar 10 mínútur á vægum hita eða þar til það fer að mýkjast vel. Bætið ítölsku jurtunum, salti og pipar út í og hrærið saman við ásamt linsubaunum. Steikið þetta áfram í nokkrar mínútur í viðbót.

  3. Bætið Bolognese sósunum út í ásamt 1-2 dl af vatni og leyfið suðunni að koma upp. Smakkið til og slökkvið síðan undir.

  4. Myljið tófúfið í skál með höndunum eða stappið það vel með gaffli og saxið spínatið niður frekar smátt.

  5. Hrærið ölum hráefnunum fyrir hvítu sósunni saman við tófúið og spínatið og setjið til hliðar

  6. Setjið vel af vatni í stóran pott ásamt smá olíu og salti og látið suðuna koma upp. Þegar vatnið fer að sjóða setjið þá lasagna plöturnar eina af annari út í vatnið og leyfið þeim að sjóða í 6-8 mínútur.

  7. Setjið lasagna plöturnar yfir í volgt vatn og passið að þær séu ekki fastar saman. Ef þær festast aðeins saman er ekki mál að taka þær varlega í sundur ofan í volgu vatni.

  8. Setjið smá fyllingu í botninn á eldföstu móti

  9. Takið eina lasagnaplötu í einu, smyrjið á hana vel af hvítri sósu og síðan fyllingu og rúllið henni varlega upp og raðið þessu þétt saman í eldfasta mótið.

  10. Geymið örlítið af fyllingu og hvítri sósu til að smyrja aðeins yfir og stráið síðan ostinum yfir allt saman í lokinn ef fólk kýs að nota ost.

  11. Bakið í ofni við 220°C í 10 til 15 mínútur eða þar til efsta lagið er orðið fallega gyllt.

Það er alveg ótrúlega skemmtilegt að útbúa þennan rétt og hann kemur fólki alltaf á óvart þar sem hann er svo fallegur í fatinu og ótrúlega brgaðgóður. Ég mæli með því að bera hann fram með góðu salati og hvítlauksbrauði.

-Njótið vel

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi

 
Sacla_HR.png
 

Kósý laugardagur og einföld Oreo-ostaköku uppskrift

Við systur erum að spá í að fara að sýna ykkur meira af okkar daglega lífi hérna inná, hvað við erum að gera á daginn, hvað við erum að borða, vörur og flíkur sem við erum að nota og bara allt sem okkur langar að deila með ykkur. Ég ákvað því að taka nokkrar myndir yfir daginn minn til að prófa að deila með ykkur.

Ég byrja alla morgna á að fá mér vatnsglas en þennan morguninn gerði ég mér smoothie með vegan próteini, banana, klökum og vatni en það var eiginlega bara því að ég átti ekkert annað til. Smoothie’inn var þó alveg ótrúlega góður! En ég er með Vegan cookies and creme prótein sem er sjúklega gott. Ég drakk smoothie’inn á meðan ég horfði á youtube en ég hef elskað að horfa á VLOGS hjá fólki síðan ég var svona 14 ára. Ég ætla því að deila með ykkur mínum uppáhalds VLOG rásum sem ég er að elska akkúrat núna.

Uppáhalds VLOG channels akkúrat núna:

- THE MICHALACKS (all time uppáhalds)
- ELSA’S WHOLESOME LIFE (þessi er sú eina sem er vegan)
- SARAH’S DAY
- ASPYN AND PARKER
- ARNA PETRA (nýtt fave)

Í hádegismatinn gerði ég mér einfalt pastasalat með sólþurrkuðum tómötum, avocadó, ólífum og gúrku. Sjúklega fljótlegt og gott og ég geri þetta salat mjög oft þegar ég hef lítinn tíma eða nenni ekki að gera einhverja svaka máltíð. Ég er líka með æði fyrir sykurlausu appelsínu akkúrat núna svo ég var að sjálfsögðu með eina slíka með!

Ég fór í afmæli hjá elsku Dóru, bestu vinkonu minni og ákvað að henda í mjög einfalda oreo ostaköku, það besta við þessa uppskrift er að það er hægt að gera hana samdægurs en ég set uppskriftina hér neðst í færslunni. Hún sló algjörlega í gegn en Dóra gerði einnig svampkökuna okkar með jarðaberjarjómanum en uppskriftina af henni má finna hér.

image00015.jpeg

Hún var svo með heimabakaðar bollur (sem ég þarf nauðsynlega að stela uppskriftinni af) og allskonar álegg, pizzasnúða og grænmeti með ídýfu úr vegan sýrðum rjóma. Allt ótrúlega einfalt og gott og svo sannarlega ekkert mál að gera ALL VEGAN veisluborð!

Ótrúlega “vel heppnuð” myndataka með þessum bestu stelpum eins og venjulega. En ég var einnig að kaupa mér þessa ótrúlega fallegu vegan tösku frá HVISK sem ég er ekkert smá ánægð með! (já ég skipti um föt svona 7 sinnum þennan dag…). En þetta var ótrúlega kósý dagur og svo skemmtilegt að fá að njóta afmælisins hennar Dóru saman en hún býr í Danmörku og fór heim tveimur dögum seinna. Ég vona að ykkur hafi fundist þetta skemmtilegt og við munum vera duglegar að setja inn svona persónulegri færslur héðan í frá. Hér kemur síðan uppskritin af kökunni. Njótið vel.

OREO ostakaka sem hægt er að njóta samdægurs

Hráefni:

  • 2-3 pakkar oreo

  • 50 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 pakki hreinn SHEESE rjómaostur

  • 1 ferna AITO þeytirjómi

  • 1/2 dl flórsykur

  • 1 plata hvítt súkkulaði frá ICHOC

  • Ber og súkkulaði eða það sem hver og einn vill til að skreyta

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skilja kremið frá oreo kexinu á tveimur pökkum af kexi (geymið þriðja pakkan til að skreyta).

  2. Bræðið smjörið og blandið saman við kexið. Setjið kexið í eldfastmót og þrýstið því vel ofan í botninn á mótinu. Setjið kexið í blandars eða poka og myljið það þar til það verður að frekar fínnu mylsnu. Setjið mótið í ísskáp á meðan þið útbúið fyllinguna.

  3. Þyetið rjóman í hrærivél eða með handþeytara og setjið til hliðar.

  4. Takið kremið sem þið skildum frá kexinu og bræðið í örbylgju eða yfir vatnsbaði ásamt hvíta súkkulaðinu. Ef súkkulaðið er brætt í örbylgju er best að setja það inn í 30 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.

  5. Setjið rjómaostin og flórsykurinn í hrærivél eða þeytið saman með handþeytara og bætið brædda súkkulaðinu hægt út í. Þeytið þetta á háum styrk þar til blandan verður alveg köld.

  6. Hrærið rjómanum varlega saman við sem sleikju og hellið síðan yfir kexið.

  7. Leyfið kökunni að vera í ísskáp í allavega klukkustund áður en hún er skreytt með því sem hugurinn girnist og borin fram. Ég skreytti mína með oreo kexi, berjum, hvítu súkkulaði og suðursukkulaði.

Project - Drawing 11350016114151990018.png

Mac and cheese ofnréttur.

Í þessum rétti blöndum við saman Mac and cheese uppskriftinni okkar og hakksósu úr lasagna. Þessi blanda kom okkur heldur betur á óvart og erum við ótrúlega ánægðar með útkomuna. Rétturinn er einfaldur og og þetta er hinn fullkomni heimilsmatur.

1/2 uppskrift Mac and cheese

Hakksósa:

  • 2 pakkar anamma hakk

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill haus brokkolí (eða annað grænmeti sem hentar hverjum og einum)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 2-3 msk tómatpúrra

  • 2 msk eða 1 teningur grænmetiskraftur

  • 1 msk oregano

  • 1 msk basilíka

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hvítlauk og lauk upp úr smá olíu.

  2. Bætið brokkolíinu og hakkinu út á pönnuna og steikið í 5 til 10 mínútur.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og leyfið suðunni að koma upp.

  4. Smakkið til með kryddum og salti og pipar.

Aðferð og eldun:

  1. Útbúið Mac and cheese og hellið í botnin á eldföstu móti.

  2. Útbúið hakksósuna og setjið yfir pastað.

  3. Stráið vegan osti yfir.

  4. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðin fallega gylltur að ofan.

Við bárum réttinn fram með hvítlauksbrauðinu okkar en það er alveg ómissandi að okkar mati.

IMG_2219-3.jpg
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
10159%2B%25281%2529.jpg

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fást öll hráefnin sem í hana þarf.-

-Færslan er einnig í samstarfi við Bitz á Íslandi.-

Vegan gnocchi með aspas og spínati

IMG_3109-9.jpg

Uppskrift dagsins er af heimagerðu gnocchi með aspas, hvítlauk, hvítvíni og spínati. Þetta er dásamlega gott og sjálft gnocchiið inniheldur bara þrjú hráefni, kartöflur, hveiti og salt. Það er að sjálfsögðu hægt að nota það í allskonar uppskriftir, bara eins og pasta, en þessi útgáfa er svakalega góð og mér finnst svolítill veitingahúsafílingur í réttinum.

IMG_3081.jpg

Eins og þið kannski sum vitið höfum við Júlía haldið úti veganistur.is í þrjú ár í sumar, en fyrir það vorum við í rúmt ár einungis með Facebook síðu og Instagram. Veganistur áttu fyrst að vera hversdagsleg Facebook síða þar sem við skelltum inn símamyndum af kvöldmatnum okkar án þess að hugsa mikið um það, og sýndum fólki einfaldlega hvað það er auðvelt að vera vegan. Facebook síðan óx mun hraðar en við hefðum haldið og við fórum að fá allskonar fyrirspurnir um hvort við gætum gert uppskriftir af þessu og hinu og smám saman breyttust Veganistur í uppskriftarsíðu.

IMG_3085-3.jpg

Við fórum fljótt að finna fyrir því að fólk væri að fylgjast með og í kjölfarið vildum við leggja meiri vinnu og metnað í bæði uppskriftirnar og myndirnar. Það var svo vorið 2016 að við ákváðum að útbúa alvörunni vefsíðu og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Það sem fyrst átti bara að vera lítið áhugamál hefur orðið að risastórum hluta af lífinu okkar. Í dag eru Veganistur það sem við leggjum hvað mesta vinnu í og höfum mikla ástríðu fyrir. Það eruð þið, lesendur okkar, sem gefið okkur endalausan innblástur og styrk til að gera eins vel og við getum. Ykkur erum við gríðarlega þakklátar.

IMG_3088-3.jpg

Við Júlía stöndum tvær í þessu og sjáum um allt sem viðkemur blogginu samhliða fullu námi og öðrum verkefnum. Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt að útbúa nýtt efni fyrir bloggið, bæði í peningum og tíma talið. Kostnaðurinn er misjafn, en við vöndum valið okkar á samstörfum við önnur fyrirtæki virkilega vel og tókum snemma ákvörðun um að hafa engar auglýsingar að öðru tagi á blogginu. Allur peningur og tími sem við leggjum í bloggið okkar og uppskriftir er fyllilega þess virði og við munum aldrei sjá eftir einni einustu krónu.

IMG_3089-2.jpg

Okkur hafa borist margar fyrirspurnir um hvernig sé hægt að styrkja okkur og hingað til hefur það einungis verið hægt með því að lesa og deila blogginu okkar, og þið hafið svo sannarlega gert það. Við erum virkilega hrærðar yfir því hvað þið eruð mörg sem heimsækið síðuna okkar daglega og látið orðið berast til þeirra sem þið þekkið. Þið eruð æði!

IMG_3091-2.jpg

Við höfum þó ákveðið eftir mikla umhugsun að opna Patreon aðgang fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur. Það er einfaldlega svo við höfum meira frelsi varðandi uppskriftir og þurfum ekki að skipuleggja bloggfærslur einungis útfrá því hvað við eigum mikinn pening hverju sinni. Með því að styrkja okkur hjálpar þú semsagt til við að auka svigrúm og afkastagetu okkar. Eins höfum við lengi verið með uppskriftarbók í maganum og við iðum í skinninu við að koma henni út og deila með ykkur ennþá fleiri ótrúlega spennandi og gómsætum uppskriftum.

Á Patreon síðunni okkar sérðu hvað við bjóðum ykkur í staðinn og eitt af því er aðgangur að lokaðri Facebook grúppu þar sem við Júlía munum elda með ykkur live í hverri viku. Við erum ekkert smá spenntar fyrir því og fyrsta uppskriftin sem ég ætla að gera með ykkur er akkúrat þessi. Ég hlakka ekkert smá til og mun svo deila með ykkur nákvæmri tímasetningu þegar nær dregur.

IMG_3093-2.jpg

Við viljum enn og aftur þakka ykkur fyrir. Þegar við stofnuðum Veganistur höfðum við ekki hugmynd um hvað við myndum fá mikinn stuðning frá ykkur öllum. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

IMG_3106-5.jpg

Gnocchi

  • 2 bollar stappaðar kartöflur

  • 1,5- 2 bollar hveiti

  • 1,5 tsk salt

Það sem fer með á pönnuna

  • Vegan smjör til að steikja uppúr. Ég setti alveg vænan bita.

  • 200 gr aspas. Ég notaði frosinn í þetta sinn

  • Tvær lúkur babyspínat

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 dl hvítvín (má sleppa)

  • Ristaðar furuhnetur til að strá yfir

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflur og afhýðið. Stappið þær vel með kartöflustappara eða gaffi og setjið í stóra skál.

  2. Bætið hveitinu og saltinu saman við. Ég byrjaði á því að setja 1,5 bolla hveiti og bætti svo aðeins við eftir þörf. Hrærið saman við og hafið í huga að þetta verður mjög mjölkennt til að byrja með. Hrærið eins vel og þið getið með sleif og færið svo yfir á borð og notið hendurnar til að hnoða þetta saman í deig.

  3. Skiptið deiginu niður í fjóra hluta, rúllið þá út og skerið sirka 2 cm bita úr þeim.

  4. Það má sleppa þessu skrefi og elda bitana einfaldlega eins og þeir eru þegar búið er að skera þá niður, en ég vildi útbúa smá gnocchi munstur og notaði til þess gaffal. Margir eiga sérstakt bretti sem gerir það mun auðveldara, en ég læt gaffalinn duga. Ég tók bita og flatti hann létt út á gaffalinn og rúllaði svo upp. Ég hefði kannski getað sýnt aðeins skýrari mynd af því hvernig þetta er gert, en það er fullt af myndböndum á youtube sem sýna það mun betur en mér hefði tekist. Passið að strá smá hveiti yfir bitana og láta þá ekki liggja saman á meðan þið gerið þetta því þeir munu festast saman og verða að einni klessu.

  5. Steikið á pönnu hvítlauk, aspas, og spínat uppúr smjörinu. hækkið hitann og hellið hvítvíninu út í og lækkið hitann svo aftur eftir nokkrar mínútur.

  6. Sjóðið vatn í stórum potti og saltið smá. Þegar suðan er vel komin upp skuluði hella gnocchiinu í. Ég myndi ekki setja þá alla í einu þar sem þetta eru svolítið margir bitar. Veiðið bitana upp þegar þeir hafa flotið upp á yfirborðið sem tekur um 90 sekúndur.

  7. Sigtið allt vatn af bitunum og skellið þeim á pönnuna og steikið þá í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

  8. Berið fram með því sem ykkur lystir, en mér finnst alltaf gott að útbúa gómsætt hvítlauksbrauð með.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur <3

Ofnbakað vegan nachos

IMG_5518-2.jpg

Nýlega komu á markaðinn ótrúlega gómsætir sojabitar frá Hälsans kök sem við höfum notað mikið í allskonar uppskriftir. Við erum því heldur betur spenntar að deila með ykkur uppskriftinni af þessu fáránlega bragðgóða súpernachosi, í samstarfi við Hälsans kök á Íslandi. Bitarnir eru algjör snilld og koma meðal annars í staðinn fyrir kjúkling í ýmsa rétti. Mér finnst þeir fullkomnir í vefjur, samlokur, matarmiklar súpur og ofnbakaða rétti svo eitthvað sé nefnt. Það er svo æðislegt að sjá hvernig úrvalið af vegan mat verður flottara og fjölbreyttara með tímanum og þar af leiðandi hversu auðvelt það er að vera vegan og halda samt áfram að borða réttina sem við erum vön að borða og okkur þykja góðir.

IMG_5399 (1)-2.jpg

Þegar ég var í menntaskóla var í mikilli tísku að fara með vinunum annað hvort á Hressingarskálann eða Kaffi París og deila matarmiklu súpernachosi. Síðan þá hefur okkur þótt gaman að prufa okkur áfram með eigin uppskriftir af svipuðum rétti, og ég get stollt sagt að þessi uppskrift er mun betri en þeir sem ég fékk á veitingastöðunum. Þetta er einn af mínum uppáhalds föstudagsréttum og bitarnir eru fullkomnir í nachosið.

Það er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með svona nachos uppskrift og búa til þær sósur sem manni þykja góðar. Þessi uppskrift er samansett af því sem okkur þykir fullkomið saman á svona nachos:

Guacomole
Sýrðum rjóma
Heimagerðri “ostasósu”
Salsasósu
Fersku mangósalasa
Filébitunum frá Hälsans kök krydduðum með taco kryddblöndu
Fersku kóríander.

IMG_5524.jpg

Nachosið lítur vanalega ekki svona vel út hjá okkur, þetta var gert sérstaklega fallegt fyrir myndatökuna. Vanalega setjum við eitt lag af hverju í eldfast mót og pössum að það sé vel af sósu á hverju lagi. Það lítur því yfirleitt frekar subbulega út, en það er partur af stemningunni að okkar mati.

IMG_5573.jpg

Vegan súpernachos:

  • 1 pakki saltaðar tortillaflögur

  • Hälsans Kök bitar í mexíkóskri kryddblöndu

  • 2-3 dl heimagerð ostasósa

  • 1 dós salsasósa

  • 2-3 dl guacamole

  • ferskt mangósalsa

  • vegan sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Setjið í eldfast mót tortilla flögur, bitana, salsasósu og ostasósu í skiptis í þrjú lög.

  2. Hitið í 200°C heitum ofni í 15 til 20 mínútur.

  3. Setjið sýrðan rjóma, mangósalsa og guacamole yfir þegar nachosið er tekið úr ofninum.

  4. Berið fram með restinni af sósunum ef einhverjar verða eftir.




Steiktir Hälsans Kök bitar:

  • 1 pakki hälsans Kök filé bitar

  • 2 msk olía

  • mexíkósk kryddblanda (keypt í bréfi eða heimagerð):

    • 1 msk tómatpúrra

    • 1-2 hvítlauksrif

    • 1 tsk cumin

    • 1 tsk paprika

    • 1 tsk þurrkað oregano

    • 1/2 tsk kóríander

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 cayenne pipar

    • 1 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur

    • 1 msk limesafi

    • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana upp úr olíu þar til þeir hafa hitnað örlítið

  2. Blandið kryddunum saman í skál og hellið yfir. Leyfið þessu að malla saman í 10-15 mínútur.




Heimagerð ostasósa:

  • 3/4 bolli grasker (eða 1/2 bolli kartöflur og 1/4 bolli gulrætur. við höfum búið til úr hvoru tveggja og það smakkast alltaf jafn vel)

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið graskerið (eða kartöflurnar og gulræturnar) og skerið niður. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Sigtið grænmetið frá vatninu og hellið í blandara ásamt restinni af hráefnunum og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)




Mangósalsa:

  • 1 dl smátt skorið mangó

  • 1 dl smátt skornir tómatar

  • saxað ferskt kóríander eftir smekk

  • örlítið ferskt lime kreist yfir

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með nachosinu.




Við vonum að þið njótið!

Veganistur

Logo_HK CMYK board.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hälsans Kök á Íslandi-

Eplakaka að hætti ömmu

IMG_1302.jpg

Þegar ég var yngri þótti mér ekkert betra en kökurnar hennar ömmu. Hún átti alltaf til nokkrar sortir í ísskápnum og nutum við Júlía þess mikið að vera hjá ömmu og afa yfir kaffitímann og borða yfir okkur af brauði og kökum. 

IMG_1230.jpg

Ein af kökunum sem ég borðaði oft hjá ömmu var eplakaka. Hún var í miklu uppáhaldi og mig hefur lengi langað að búa til vegan útgáfu af henni. Nú hef ég loksins látið verða að því og er mjög ánægð með útkomuna. Í kökuna nota ég aquafaba, sem er vökvinn sem fylgir kjúlingabaunum í dós. Vökvinn er próteinríkur og virkar eins og eggjahvítur í margar uppskriftir. Síðan baunavökvinn "uppgvötaðist" hefur verið ótrúlega skemmtilegt að prufa sig áfram með að nota hann í bakstur, og við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir þar sem hann kemur að góðum notum, meðal annars lakkrístoppa og lagtertu. 

IMG_1294.jpg

Ég hef verið að skora á sjálfa mig að baka meira, og það gengur vel. Í langan tíma var ég viss um að ég væri alveg vonlaus bakari og bakaði því ekkert nema súkkulaðikökuna okkar, því hún gæti eiginlega ekki verið einfaldari. Uppá síðkastið hef ég þó komist að því að ég er kannski ekki alveg jafn vonlaus og ég hélt, en ég minni sjálfa mig líka á að það er allt í lagi þó eitthvað misheppnist af og til. Ég er líka farin að prufa mig meira áfram með brauðbakstur og hlakka til að deila einhverjum góðum brauð uppskriftum með ykkur á næstunni. 

IMG_1351.jpg

Eplakaka

  • 3 dl hveiti

  • 2 dl sykur

  • 1 dl aquafaba (vökvinn af kjúklingabaunum í dós)

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk vanilludropar

  • örlitið salt

  • 75 gr smjörlíki (Bæði Krónusmjörlíki og Ljómasmjörlíki eru vegan og henta mjög vel í þessa köku)

  • 1 dl haframjólk

  • 1-2 epli

  • kanilsykur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c

  2. Þeytið saman sykur og aquafaba í sirka 3 mínútur í hrærivél eða með rafmagnsþeytara, þannig það sé hvítt og svolítið froðukennt.

  3. Blandið saman í aðra skál hveiti, salti og lyftidufti.

  4. Bræðið smjörlíki og hellið því útí hrærivélaskálina, ásamt mjólkinni og þurrefnunum.

  5. Hrærið öllu saman þannig engir kekkir séu, en ekki hræra of mikið samt.

  6. Smyrjið form og leggið smjörpappír í botninn ef ykkur finnst það betra. Ég geri það oft til öryggis (mér hefur þótt best að nota 20 cm form og þessi uppskrift passar akkúrat í þá stærð).

  7. Flysjið eplið og skerið í þunnar sneiðar, raðið þeim á kökuna áður en hún fer í ofninn.

  8. Bakið í 30-40 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast. Minn er ekkert svakalega góður og hann hefur engan blástur, svo hún tekur kannski örlítið lengri tíma hjá mér, en ég bakaði hana í alveg 40 mínútur

  9. Ég beið með að strá kanisykrinum yfir þar til það voru sirka 15 mínútur í að kakan yrði tilbúin. Það fer algjörlega eftir smekk fólks hversu mikinn kanilsykur þarf, en ég var alls ekkert að spara hann.

  10. Berið fram með vegan þeyttum rjóma eða ís t.d

Vona að þið njótið :) 

Helga María 

Svartbauna- & sætkartöfluenchilada

IMG_4085-2.jpg

Mexíkóskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi mér. Það er eitthvað svo skemmtilegt við að dúlla sér í alls konar litlum sósum og salötum sem síðan koma saman í fallegar bragðsamsetningu og litadýrð. Ef ég mætti ráða myndi ég örugglega borða tortillaflögur og guacamole í hvert mál, mögulega með smá ostasósu.

IMG_3940.jpg

Þessi réttur er einn af þeim fyrstu sem ég fullkomnaði alveg frá grunni þegar ég varð vegan. Ég hef boðið upp á hann ótrúlega oft undanfarin ár og hefur hann alltaf slegið í gegn. Baunir voru eitt af því sem ég þurfti að venjast svolítið að borða þegar ég varð vegan og fannst ekki mjög spennandi. En á smá tíma lærði ég að meta þær og finnst ekkert skemmtilegra í dag en að leika mér með alls kynns baunir. Svartar baunir eru í miklu uppáhaldi, og þá sérstaklega í mexíkóska rétti en ekki skemmir hvað þær eru fallegar í réttinum með tómötunum og sætu kartöflunum. Þær eru einnig alveg ótrúelga næringaríkar og tikka í mjög mörg box í einu hvað varðar næringarefni.

IMG_4000.jpg

Rétturinn er toppaður með tveimur virkilega góðum sósum sem eru alveg svart og hvítt en passa alveg fullkomlega saman. Þessar sósur eru heimagerð enchilada sósa og heimagerð ostasósa. Ostasósan er ein af okkar uppáhalds sósum og finnst mér hún miklu betri ofan á mexíkóska rétti en rifin ostur. Einnig er hún alveg ótrúlega holl og stutt full af næringarefnum. Sósuna má líka borða eina og sér með tortilla flögum en ég geri alltaf rúmlega af henni svo ég eigi afgang til að narta í með afgangsflögunum.

IMG_4026-2.jpg
IMG_3934.jpg

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

IMG_4047.jpg

Sætkartöflu & svartbauna enchilada:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 1/2 lítil krukka salsasósa

  • 2 msk vegan rjómaostur (oatly passar mjög vel)

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fengið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursoðnum tómötum, salsasósunni, rjómaostinum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og hellið síðan heimagerðu ostasósunni þar yfir. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

Vikumatseðill 16. til 21. apríl

20170716_210154.jpg

Vikumatseðill 16.apríl til 21.apríl

Mánudagur:
Mexíkógrýta, kartöflumús og Oatly sýrður rjómi

Þriðjudagur:
Spagetti og vegan kjötbollur með tómatpastasósu og hvítlauksbrauði

Miðvikudagur:
Falafelbollur, salat og góður hummus.

Fimmtudagur:
Baunasúpa með kartöflum og rófum.

Föstudagur:
Gardein "kjúklingaborgari" með hvítlauksmajó og kartfölubátum

Laugardagur:
Pizza!
 

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan grýta

IMG_2083.jpg
IMG_2122.jpg

Grýta er einn mesti nostalgíumatur sem ég veit um en það var mjög oft í matinn heima hjá mér þegar ég var barn. Rétturinn er virkilega einfaldur en á sama tíma ótrúlega góður sem gerir hann að fullkominni máltíð fyrir köld vetrarkvöld eftir langan dag þegar metnaðurinn er kannski ekki sá allra mesti. Stundum þarf maður virkilega á því að halda að geta bara hent saman hráefnum á pönnu og ekki hugsað neitt sérstaklega um það. 

Ég viðurkenni að grýta var ekki réttur sem að ég hélt að ég myndi borða eftir að ég varð vegan. Ég var þó ekki búin að vera vegan ýkja lengi, þó það hafi alveg verið komið rúmlega eitt ár, þegar ég komst að því að lang flest grýtuduft er vegan. Þá var reyndar ekki mikið um gott vegan hakk á markaðnum og ég hugsaði því ekki oft um að nýta mér slíkt duft. Nú er vegan hakk hins vegar auðfundið í lang flestum búðum og er það líka bara ótrúlega gott. Vegan hakk er eitt af mínu uppáhalds kjötlíki þar sem hakk er notað mikið í góða bragðmikla rétti sem oftast er auðvelt að gera vegan einfaldlega með því að skipta því út fyrir vegan hakk.

IMG_2308.jpg

Hægt er að gera nokkrar útgáfur af þessum rétt. Hann er hægt að gera á mjög einfaldan máta þar sem í raun þarf bara hakk og grýtuduftið, en einnig er hægt að leika sér með hann og bæta alls kynns góðum hráefnum út í. 

Hráefni:

  • Mexíkósk grýta frá Toro

  • 1 poki vegan hakk frá Halsans kök

Það sem mér finnst gott að setja út í:

  • 1 dós nýrnabaunir

  • 1 dl graskersfræ

  • frosnar harricot baunir

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu upp úr smá vatni eða olíu.

  2. Bætið grýtuduftinu út í ásamt vatni eins og nauðsynlegt er samkvæmt pakkanum.

  3. Bætið nýrnabaunum, graskersfræjum og strangjabaunum saman við ef nota á slík hráefni.

  4. Leyfið réttinum að sjóða eins og pakkningarnar segja til um.

Rétturinn stendur vel einn og sér en uppáhalds meðlætið mitt með honum er kartöflumús og sýrður rjómi frá Oatly.

-Júlía Sif

Vikumatseðill 3. til 7. apríl

IMG_0439.jpg

Vikumatseðill 3. apríl til 7. apríl

 

Þriðjudagur:
Salat með kínóa, ofnbökuðu rótargrænmeti og hvítlauksjógúrtsósu

Miðvikudagur:
Hnetusmjörsnúðlur með tofu

Fimmtudagur:
Sætkartöflusúpa með súrdeigsbrauði

Föstudagur:
Supernachos með vegan hakki svörtum baunum, maís, salsa, vegan osti og guacamole

Laugardagur:
Mac and cheese að hætti veganista og hvítlauksbrauð


 

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Súkkulaðiterta með bananakremi

IMG_3403.jpg

Þegar við vorum börn var undantekningarlaust bökuð súkkulaðiterta með bananakremi við öll hátíðleg tilefni. Þessi kaka var í miklu uppáhaldi hjá okkur og við höfum alltaf tengt hana við hátíðir, eins og jól, páska, afmæli og allskonar fjölskylduboð. Það er sem betur fer lítið mál að útbúa vegan útgáfu af þessari gómsætu köku, svo við getum haldið áfram að njóta hennar við hvaða tilefni sem er. 

IMG_3311.jpg

Í kökuna ákváðum við að nota botnana okkar sem eru nú þegar hérna á blogginu. Eftir nokkrar tilraunir til að útbúa nýja uppskrift af súkkulaðibotnum áttuðum við okkur á að enginn af þeim var eins góð, að okkar mati, og sú sem við erum vanar að gera. Í stað þess að setja uppskrift af nýjum botnum sem okkur þykja ekki jafn góðir, ákváðum við að nota bara þá sem eru á blogginu og hafa slegið í gegn síðustu árin. 

IMG_3288.jpg

Þessi kaka er tilvalin fyrir páskana og banana-smjörkremið er svo gott að við gætum borðað það með skeið. Okkur þætti mjög gaman að vita hvort það eru margir sem ólust upp við að borða þessa köku, því við þekkjum ekki marga. Eins og margir hafa kannski tekið eftir þykir okkur virkilega gaman að útbúa vegan útgáfur af allskonar mat sem við ólumst upp við að borða. Ef þið hafið hugmyndir af einhverju sem þið mynduð vilja sjá í vegan útgáfu megið þið endilega koma með tillögur, við elskum að takast á við nýjar áskoranir. 

IMG_3421.jpg
IMG_3443.jpg

Botnarnir: 

  • 3 bollar hveiti

  • 2 bollar sykur

  • 1/2 bolli kakó

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 2 bollar vatn

  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri

2. Blandið þurrefnum saman í skál 

3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu

4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau.  Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 24 cm hringlaga kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti.

5. bakið í 20-30 mínútur

Banakrem: 

  • 150 gr mjúkt smjörlíki

  • 120 gr flórsykur

  • 2 stappaðir bananar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörlíkið þar til það verður vel mjúkt, bætið síðan flórsykrinum út í og þeytið vel

  2. Stappið bananana og hrærið saman við kremið með sleif.

  3. Smyrjið kreminu á milli botnanna.

Súkkulaðikrem:

  • 250 gr smjörlíki

  • 200 gr flórsykur

  • 100 gr brætt suðusúkkulaði

  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörlíkið í hrærivél þar til vel mjúkt, bætið flórsykrinum og vanilludropunum útí og þeytið vel saman.

  2. Bræðið súkkulaðið, hellið útí og þeytið vel saman við.

  3. Smyrjið kreminu vel yfir alla kökuna og á hliðina.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Vikumatseðill 5. - 10.mars

IMG_2306.jpg

Vikumatseðill 5.mars til 10.mars

Mánudagur:
Hnetusmjörsnúðlur með tofu.

Þriðjudagur:
Grjónagrautur með haframjólk, kanilsykri og góðu brauði með vegan osti

Miðvikudagur:
Mexíkógrýta með kartöflumús og Oatly sýrðum rjóma

Fimmtudagur:
Linsurbaunadahl, steikt tofu, hrísgrjón og salat.

Föstudagur:
Oumph borgari með chilli mæjó og kartöflubátum.

Laugardagur:
Rjómapasta með Oumph! og sveppum og "heimagert" hvítlauksbrauð.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan stroganoff - Veganoff

IMG_9530.jpg

Hvað er stroganoff? 

Stroganoff er upprunalega rússneskur réttur og inniheldur nautakjötsbita sem látnir eru malla í brúnni sósu úr sýrðum rjóma og bornir fram með pasta eða hrísgrjónum. Rétturinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina en í dag eru yfirleitt sveppir og laukur í sósunni ásamt dijon sinnepi og einhverskonar súpukrafti. Mig hefur lengi langað að gera vegan útgáfu af þessum rétti en ég smakkaði hann fyrir mörgum árum í Lettlandi og þótti ekkert smá góður. Ég lét loksins verða að því um daginn og útkoman varð æðisleg. 

IMG_9451.jpg

Ég átti til poka af Oumph! í frystinum og afgangs rauðvín svo ég sló til og sé sko ekki eftir því. Ég bið ykkur að taka því ekki illa þótt uppskriftin sé að einhverju leyti ólík hefðbundinni stroganoff uppskrift, en þrátt fyrir að hún sé ekki alveg eins þá er bragðið ekkert síðra. 

IMG_9465.jpg

Ég ætlaði að hafa kóríander í uppskriftinni en þar sem kærastinn minn getur ekki fyrir sitt litla líf borðað ferskt kóríander ákvað ég að setja það frekar út á diskinn og það kom gríðarlega vel út. Ég held það sé sniðugt að gera það bara nema maður sé viss um að allir sem eru í mat borði kóríander. 

Ég ákvað að bera réttinn fram með hrísgrjónum og útbjó túrmerík-grjón. Þau eru einfaldlega gerð með því að hella örlitlu túrmeríkkryddi út í pottinn meðan grjónin eru að sjóða. Bæði verða þau falleg á litinn og kryddið gefur gott bragð. Þó er mikilvægt að setja ekki of mikið heldur strá örlitlu þannig grjónin verði fallega gul. 

IMG_9515.jpg

Hráefni:

  • 1 poki Oumph! the chunk (Ég notaði filet sem er nákvæmlega eins nema bara stærra, því ég fann ekki the chunk úti í búð)

  • 1 askja sveppir (250g)

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 msk dijon sinnep

  • 2 tsk tómatpúrra

  • 2,5 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 dl vatn

  • 1/2 dl vegan rauðvín

  • 1 sveppateningur

  • 1/2 msk dökk sojasósa

  • safi úr ca 1/4 sítrónu

  • salt og pipar

  • Kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið Oumphið úr frystinum og leyfið því að þiðna í svona 20 mínútur áður en það er matreitt

  2. Saxið niður laukinn og hvítlaukinn og skerið sveppina niður. Ég hef sveppina í svolítið stærri bitum fyrir þennan rétt. Steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn fær gylltan lit og sveppirnir hafa mýkst vel.

  3. Skerið Oumphið niður í munnbita. Mér finnst gott að gera það svo ég fái aðeins meira úr pakkanum því sumir bitarnir geta verið svolítið stórir. Þið sjáið á myndunum að ofan hversu stórir bitarnir voru hjá mér. Bætið Oumphinu út á pönnuna ásamt tómatpúrrunni og dijon sinnepinu og steikið í nokkrar mínútur

  4. Hellið rauðvíninu út á pönnuna og hækkið hitann á sama tíma í nokkrar mínútur á meðan

  5. Lækkið hitann aftur niður í miðlungs og bætið rjómanum, sýrða rjómanum, vatninu, sveppakraftinum og sojasósunni út á pönnuna. Leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur

  6. Smakkið til með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir áður en þið berið matinn fram.

Berið fram með grjónum eða pasta. Hérna er uppskrift af fljótlegu hvítlauksbrauði sem er einstaklega gott að bera fram með. 

Veganistur

Vikumatseðill 12.feb - 17.feb

IMG_6705.jpg

Vikumatseðill 12.feb til 17.feb

Mánudagur:
Halsans Kök kjötbollur með piparsósu og kartöflumús

Þriðjudagur:
SaltOumph! og baunasúpa

Miðvikudagur:
Tandori sætkartöflu og svartbaunapottréttur, hrísgrjón, Oatly sýrður rjómi og salat

Fimmtudagur:
Kalt pastasalat með fersku grænmeti og sólþurkuðum tómötum

Föstudagur:
Föstudagspizza

Laugardagur:
Sveppasúpa og heimagert brauð

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Kjúklingabaunakarrý

IMG_2023.jpg

Baunir eru dæmi um mat sem ég kunni alls ekki að meta áður en ég varð vegan. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að ég ólst ekki upp við að borða þær, að undanskildum þessum hefðbundnu grænu og gulu baunum sem flestir þekkja. Þegar ég gerðist grænkeri fór ég fljótt að læra að elda baunir og fyrir mér opnaðist nýr heimur. Í dag eru þær í algjöru uppáhaldi hjá mér. 

IMG_1867.jpg

Baunir eru virkilega hollar. Þær innihalda prótín, mikið af trefjum og alls kynns fleirum góðum næringarefnum. Eins finnst varla ódýrari matur í heiminum í dag og henta því vel námsmönnum eins og mér. hægt er að kaupa þurrar baunir og sjóða í stórum skömmtum og frysta t.d, en þær fást einnig tilbúnar í dós og þarfnast þá nánast engrar fyrirhafnar.  Ég viðurkenni að ég mætti vera duglegri að sjóða mínar eigin baunir en það er bara svo ótrúlega auðvelt að kaupa þær tilbúnar í dós.

IMG_1882.jpg
IMG_1926.jpg

Síðustu ár hafa baunir verið virkilega stór partur af mínu mataræði og má segja að ég eldi einhverskonar baunir á hverjum degi. Það eru til ótrúlega margar tegundir af þeim sem allar hafa sína eiginleika og því eru möguleikarnir miklir. Kjúklingabaunir verða oftar en ekki fyrir valinu því þær eru fullkomnar í allskyns rétti, hvort sem það er hummus, falafelbollur, kryddaðar og ristaðar í ofni eða á pönnu, út á salöt eða í pottrétti. 

IMG_1958.jpg

Í þessari viku ákváðum við systur í samstarfi við Krónuna að deila með ykkur einni af okkar einföldustu baunauppskrift. Ég held að það sé einhverskonar karrýpottréttur á matseðlinum okkar í hverri einustu viku en það er vegna þess hversu einfalt og þægilegt er að gera slíka rétti. Það er einnig hægt að gera þennan rétt svo ótrúlega fjölbreyttan að maður fær aldrei leið á honum. Sú útgáfa sem við deilum með ykkur í þessari viku er sú allra einfaldasta en það þarf einungis fjögur hráefni í réttinn, og gengur hann fullkomlega sem máltíð einn og sér en einnig er hægt að hafa alls kyns gott meðlæti með honum.

IMG_1995.jpg

Hráefni:

Aðferð:

  1. saxið laukinn og steikið upp úr örlitlu vatni þar til mjúkur. 

  2. Setjið madras maukið út í, 1/4 ef þið viljið hafa réttinn mildan og meira fyrir sterkari útgáfu.

  3. Hellið vatninu af baununum og bætið þeim útí ásamt kókosmjólkinni og sjóðið í 10 til 15 mínútur

Réttinn má bera fram einan og sér en hann er einnig virkilega góður með hrísgrjónum ,salati og auðveldu pönnubrauði. HÉR er uppskrift af virkilega einföldu brauði.

-Veganistur

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Vikumatseðill 22.-26. janúar

IMG_5558.jpg

Vikumatseðill 22.janúar til 26.janúar

Mánudagur:
Rjómapasta og hvítlauksbrauð

Þriðjudagur:
Grænmetisbuff, soðið bygg, litríkt salat og heimagerð pítusósa - gerð úr vegan mæjónesi, herbs de provence kryddi (frönskum jurtum) og smá salti.

Miðvikudagur:
Linsubaunasúpa

Fimmtudagur:
Fljótlegt kjúklingabaunakarrý (uppskrift kemur á morgun)

Föstudagur:
Taco Fredag, eins og Svíarnir segja: Vefjur með vegan hakki, salsasósu, Oatly sýrðum rjóma, grænmeti og guacomole

veganisturundirskrift.jpg

Heimagerð Pizza

IMG_2187.jpg

Þegar ég segi fólki að einn af mínum uppáhaldsmat sé pizza, verður það oft mjög hissa eða finnst það hljóma mjög óspennandi. Það sér þá oft fyrir sér einhverja hollustupizzu með engu á nema sósu og spínati. Föstudagspizzan okkar lítur hins vegar alls ekki þannig út, þar sem það er orðið ótrúlega auðvelt að fá fullt af alls konar góðum ostum og áleggi svo pizzan verður virkilega bragðgóð og ekki síðri en venjulegar pizzur. Það kemur fólki einnig oft á óvart að pizzadeig líkt og flest brauð er nánast alltaf vegan og því ekkert mál að bæði panta pizzu og fá tilbúið pizzadeig út í búð sem er vegan. Pizzasósa er annað sem er eiginlega alltaf vegan og þetta er því ekkert flóknara en svo að kaupa pizzadeig og álegg og skella því í ofninn.

Webp.net-gifmaker.gif

Við systur ákváðum því í samstarfi við Krónuna að sýna ykkur hvernig við gerum okkar uppáhalds heimagerðu pizzur. Við vildum hafa pizzurnar eins auðveldar og hægt er og notuðumst því við keypt pizzadeig og tilbúna pizzasósu, en það gerum við til að sýna fram á að vegan matargerð geti verið virkilega auðveld og ekki svo frábrugðin annarri matargerð. Við ákvaðum að gera þetta í samstarfi við Krónuna þar sem þau hafa mikið og fjölbreytt úrval af vegan ostum og ættu því allir að geta fundið ost við sitt hæfi. Við settum saman tvær pizzur, eina sem er mjög auðveld og þarf ekki mikið af hráefni og síðan eina örlítið flóknari útgáfu. Það sem okkur finnst hins vegar best við pizzur er að það er hægt að setja nánast allt sem að hugurinn girnist á þær og því oft til eitthvað sniðugt í ísskápnum til að skella á pizzadeig. 

IMG_2216.jpg
IMG_2361.jpg

Auðveld útgáfa:

Aðferð:

  1. Rúllið deiginu út á plötu og dreifið pizzasósunni yfir

  2. Okkur finnst best að setja ostin næst og hitt áleggið síðan þar ofan á, þó er gott að geyma smá ost til að setja síðast en það er ekki nauðsynlegt

  3. Gott er að leyfa Oumphinu aðeins að þiðna og skera það niður áður en því er dreift yfir

  4. Bakið pizzuna í u.þ.b. 20 mínutur við 200°C

Fyrir flóknari útgáfu bætið ofan á:

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar