Vegan rjómalagað sítrónupasta

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rjómalöguðu sítrónupasta með vegan parmesanosti, steinselju og chiliflögum. Rétturinn er virkilega einfaldur og fljólegur og bragðast alveg einstaklega vel. Hvort sem þú vilt elda eitthvað gott í kvöldmatinn hversdagslega eða ætlar að halda matarboð er sítrónupasta tilvalinn réttur. Ég mæli með að bera pastað fram með gómsætu brauði og njóta!

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife og í pastaréttinn notaði ég Prosociano ostinn frá þeim sem er vegan parmesanostur. Hann er dásamlega góður og passar fullkomlega með allskonar pastaréttum. Við systur elskum vörurnar frá Violife og notum þær mjög mikið í okkar daglega lífi. Prosociano osturinn er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég nota hann í nánast allt sem ég útbý.

Ég notaði spaghetti að þessu sinni en það er líka gott að nota t.d. linguine eða rigatoni. Passið að sjóða pastað bara þar til það er “al dente” svo það verði ekki klístrað og mjúkt. Já, og munið að salta pastavatnið vel!!

Sósan er einföld og það tekur enga stund að útbúa hana, en hún er svakalega góð. Hún inniheldur:

smjörlíki
ólífuolíu
hvítlauk
chiliflögur
sítrónubörk
sítrónusafa
vegan parmesanost
örlítið af vatninu sem pastað er soðið upp úr
salt og pipar

Pastað er svo að lokum toppað með steinselju. Svo gott!

Ég hef verið í miklu pastastuði undanfarið. Ég er t.d. alltaf á leiðinni að deila með ykkur uppáhalds vodkapastanu mínu sem ég elda mikið. Ætli ég verði ekki að drífa mig í því í næstu viku. Við erum með allskonar góðar uppskriftir af pasta hérna á blogginu nú þegar og ég mæli með því að kíkja á ÞETTA ofnbakaða pestópasta sem Júlía útbjó í haust og hefur svo sannarlega slegið í gegn!

Eins og við systur höfum talað mikið um uppá síðkastið ætlum við árið 2022 að vera duglegari að birta uppskriftir af allskonar kvöldmat. Við fáum svo oft spurningar um hvort við getum ekki sýnt meira af hversdagslegum mat og svoleiðis og við lofum að gera meira af því. Að sjálfsögðu munu koma gómsætar kökur og fl. en við höfum oft verið lélegar í að birta “venjulegan mat” svo við erum mjög spenntar fyrir því og tökum alltaf fagnandi á móti allskonar fyrirspurnum og áskorunum!

Ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin og ef þið prófið að elda hana, eða einhverja aðra uppskrift af blogginu, væri ótrúlega gaman ef þið taggið okkur á Instagram. Það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar!

Rjómalagað vegan sítrónupasta

Hráefni:

  • 400 gr pasta - ég notaði spaghetti

  • 3 hvítlauksgeirar

  • Safi og börkur úr einni sítrónu

  • Chiliflögur eftir smekk. Það er svo misjafnt hversu mikið fólk þolir

  • 2,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1,5 dl vatn sem pastað hefur verið soðið í

  • Rifinn prosociano (vegan parmesan frá Violife) eftir smekk. Þetta finnst mér líka vera svolítið smekksatriði. Ég notaði sirka 1/2 ost í sósuna og toppaði svo með aðeins meira. Það þarf allavega ekki meira en einn ost en það eru ekki allir sem vilja hafa svo mikið af parmesan en mér finnst það gera sósuna virkilega góða og “creamy”

  • Salt og pipar

  • Fersk steinselja að toppa með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum þar til það er “al dente” og sigtið þá vatnið frá. ATHUGIÐ að það þarf að taka frá 1.5 dl af vatninu og nota í sósuna. Munið að salta pastavatnið vel.

  2. Setjið ólífuolíu og smjörlíki í pott, pressið hvítlauk og steikið hann í 30 - 60 sekúndur. Hann á að mýkjast en á ekki að taka á sig brúnan lit.

  3. Rífið sítrónubörk út í pottinn (geymið smá ef þið viljið nota til að toppa pastað með) og kreistið sítrónusafann og hrærið saman við hvítlaukinn ásamt chiliflögunum og leyfið þessu að eldast í nokkrar sekúndur.

  4. Hellið rjómanum útí ásamt salti og pipar og leyfið rjómanum að hitna vel.

  5. Hellið vatninu frá pastanu út í og hrærið.

  6. Bætið pastanu út í sósuna (ekki hella sósunni út í pastað því þá er erfiðara að sjá til þess að þetta verði nógu “creamy”) og passið að sósan þekji pastað vel.

  7. Toppið með prosociano og steinselju og berið fram með góðu brauði.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Í dag deili ég með ykkur fyrstu uppskrift ársins en það eru þessar gómsætu amerísku pönnukökur með sítrónu og birkifræjum. Þykkar, dúnmjúkar og einstaklega braðgóðar. Pönnukökurnar eru hinn FULLKOMNI helgarmorgunmatur og passa vel með dögurði. Þær eru líka geggjaðar með kaffinu. Það tekur enga stund að skella í pönnsurnar og það er virkilega auðvelt að útbúa þær.

Sítrónur og birkifræ eru skemmtileg blanda. Við erum nú þegar með uppskrift af gómsætri sítrónuköku með birkifræjum og rjómaostakremi hérna á blogginu. Mér hefur alltaf þótt birkifræ góð en það er ekki langt síðan ég smakkaði þau í fyrsta sinn í sætum bakstri. Áður hafði ég einungis borðað þau í allskonar brauði, rúnstykkjum, beyglum og fl. En þau eru svo sannarlega ekki síður góð í sætum kökum og bakstri.

Í gær listaði ég niður 10 vinsælustu uppskrftirnar á blogginu árið 2021. Uppskriftin okkar af amerískum pönnukökum var ein af þeim vinsælustu og ég skil það vel. Pönnukökur slá einhvernveginn alltaf í gegn. Ég er mikið fyrir þessar þunnu íslensku en finnst amerískar líka mjög góðar. Eitt af því besta við þær síðarnefndu er að það er mun auðveldara að baka þær. Pönnukökudeigið er þykkt og það er létt að flippa þeim. Þær eru þessvegna skotheldar og fljótlegar.

Sjáið þessi fallegu birkifræ. Í deiginu er bæði sítrónusafi og sítrónubörkur sem gefur pönnukökunum dásamlegt bragð.

Ég toppaði pönnsurnar með því sem mér þykir best, þeyttum hafrarjóma, sultu og auðvitað fullt af hlynsírópi!

Ég neyddist að sjálfsögðu til að taka eina svona klassíska pönnukökumynd þar sem ég skar í gegnum allan pönnukökustaflann. Ég hló upphátt á meðan ég tók þessa mynd því ég myndi aldrei borða pönnukökur svona. Ég vil toppa hverja einustu pönnsu með allskonar góðgæti.

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Hráefni:

  • 5 dl hveiti (ca 300 gr). Smá tips: þegar ég nota dl mál til að mæla hveiti legg ég það á borðið og nota matskeið til að moka hveitinu yfir í málið. Með því kemst ég hjá því að pressa of miklu hveiti í dl málið og fæ alltaf sama magn.

  • 2 msk sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 dl birkifræ

  • Pínulítið salt

  • 3 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk

  • 2,5 dl sojajógúrt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk bráðið smjörlíki sem hefur fengið að kólna aðeins (plús meira til að steikja upp úr)

  • Safi og rifinn börkur úr einni sítrónu

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í skál. Ég bæti yfirleitt birkifræjunum seinast út í þegar ég hef blandað hinum þurrefnunum saman.

  2. Hrærið saman í aðra skál restinni af hráefnunum.

  3. Hellið blautu hráefnunum saman við þau þurru og hrærið saman með písk.

  4. Hitið smjörlíki á pönnu við meðalhita.

  5. Steikið hverja pönnuköku þangað til bubblur myndast á yfirborðinu og botninn hefur fengið fallegan gylltan lit, flippið þá pönnukökunni og steikið þar til hin hliðin hefur einnig fengið fallegan lit.

  6. Berið fram með því sem ykkur dettur í hug. Þeyttum vegan rjóma, sultu, hlynsírópi, vegan “nutella”, ávöxtum.. listinn er endalaus.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Munið að tagga okkur á instagram ef þið gerið pönnsurnar eða einhverjar aðrar uppskriftir af blogginu okkar. Það gerir okkur alltaf jafn ótrúlega glaðar!

-Helga María

10 vinsælustu uppskriftirnar okkar árið 2021!

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Í dag langar okkur að taka saman okkar 10 vinsælustu uppskriftir árið 2021. Við erum orðlausar yfir því hversu mörg þið eruð sem lesið bloggið okkar í hverjum mánuði og hversu mikinn kærleika þið sýnið okkur allan ársins hring. Það gefur okkur svo gríðarlega mikið að heyra hvað ykkur finnst uppskriftirnar góðar. Öll skilaboð og athugasemdir sem við fáum frá ykkur hlýa virkilega um hjartarætur. Við gætum ekki verið heppnari með lesendur og fylgjendur. TAKK!

En á morgun birtum við fyrstu uppskrift ársins en í dag lítum við yfir liðið ár og sjáum hvað sló mest í gegn á blogginu! Við birtum þær ekki í neinni sérstakri röð heldur listum bara þær 10 vinsælustu!

Klassíska súkkulaðitertan okkar!

Þessi uppskrift er ein af okkar allra fyrstu hérna á blogginu og er á hverju ári á listanum yfir þær 10 vinsælustu. Við getum sagt að þessi kaka er sú allra mest bakaða á blogginu. Við skiljum vel af hverju. Hún er einföld, skotheld en á sama tíma gríðarlega bragðgóð og mjúk. Júlía tók sig til og myndaði kökuna aftur. Eins og ég sagði var þetta ein af okkar allra fyrstu uppskriftum og ljósmyndahæfileikar okkar hafa sem betur fer skánað töluvert síðan 2016 svo okkur fannst kominn tími til að fríska aðeins upp á færsluna. Uppskriftin er þó að sjálfsögðu ennþá sú sama, fyrir utan það að Júlía bætti inn í færsluna uppskrift af gómsætu súkkulaðiganache. Uppskrift af kökunni finniði HÉR!

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum!

Önnur uppskrift sem lendir alltaf á top 10 listanum á blogginu er heita aspas rúllubrauðið okkar. Þessi uppskrift er einnig ein af okkar fyrstu uppskriftum og ég man að ég var uppi í sumarbústað þegar ég ákvað skyndilega að prófa að skella í aspasbrauðrétt. Ég hafði ekki prófað að gera svoleiðis í mörg ár en hugsaði að það gæti ekki verið svo erfitt. Brauðrétturinn kom heldur betur vel út og smakkaðist alveg eins og mig hafði minnt. Ég brunaði á Selfoss með réttinn heim til ömmu og lét hana og Júlíu smakka og þeim fannst hann æðislega góður. Meira að segja ömmu sem er oft frekar skeptísk á vegan mat, allavega á þeim tíma. Daginn eftir gerði ég hann svo aftur og myndaði. Athugið að myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftin á blogginu er gömul og myndirnar líka. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem mig dauðlangar að mynda aftur. Júlía verður eiginlega að taka það að sér þar sem ég fæ ekki rúllubrauðið hérna í Svíþjóð. Uppskriftina af brauðréttinum finniði HÉR!

Döðlukaka með karamellusósu og ís!

Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mér og það kom mér eiginlega á óvart hversu vinsæl hún varð. Við höfðum aldrei verið beðnar um uppskrift af svona köku að ég held. Ég man eftir því að hafa séð marga baka svona fyrir einhverjum árum síðan en finnst ég aldrei vera vör við það lengur. Döðlukakan er virkilega gómsæt og mjúk og með karamellusósunni og vanilluís er þetta fullkominn eftirréttur. Ég mæli virkilega með því að prófa ef þið hafið aldrei gert það. Ég held ég verði að skella í hana bráðum. Ég gerði þessa færslu snemma árið 2019. Ég fæ mikla nostalgíu þegar ég sé þessa mynd því ég man að á þessum tíma 2018-2019 elskaði ég að prófa nýjar og spennandi uppskrift. Ég veganæsaði allar kökur sem mér datt í hug og var svo forvitin í eldhúsinu. Mér líður stundum eins og ég sakni þess tíma svolítið. Ég er enn forvitin og elska að gera uppskriftir en á þessum tíma lærði ég svo mikið af því sem ég kann núna í eldhúsinu og var svo gríðarlega stolt eftir hverja einustu færslu. En jæja nóg um það. Kakan er æði! Uppskriftina finniði HÉR!

Ofnbakað pasta með rauðu pestói!

Þessi fáránlega einfaldi og gómsæti pastaréttur sló í gegn á blogginu okkar á þessu ári. Eitt af því sem við systur höfum mikið rætt um að bæta okkur í er að pósta meira af hefðbundnum heimilislegum kvöldmat. Við elskum að veganæsa allskonar kökur og hátíðarrétti, eins og þið hafið líklega flest tekið eftir, en gleymum oft að birta “venjulegan mat”. Það sem við sjálfar eldum okkur í kvöldmat. Við tókum okkur svolítið á með það á síðastliðnu ári og það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum 2022 að gera ennþá meira af. Þessi pastaréttur er einmitt fullkominn kvöldmatur. Öllu hráefni er skellt í eldfast mót eða pott og eldað saman. Útkoman er dásamleg. Uppskriftina finniði HÉR!

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum!

Möffins sem smakkast eins og á kaffihúsi. Hvað get ég sagt? Þetta eru þær allra bestu möffinskökur sem ég hef bakað. Það er kjánalegt að segja það en ég er virkilega stolt af þessari uppskrift. Ég man að það fór mikill tími og mikil orka í að búa uppskriftina til. Ég prófaði hana nokkrum sinnum og vildi alls ekki að þær væru þurrar. Eftir nokkrar tilraunir urðu þær alveg eins og ég vildi hafa þær. En það voru ekki bara kökurnar sem tóku nokkrar tilraunir heldur tók ég heilan dag í að mynda þær og myndirnar komu hræðilega út. Ég man að ég tók þær á brúnum bakgrunni og brúnu litirnir runnu saman í eitt. Daginn eftir tók ég mig saman og myndaði þær aftur og varð mun ánægðari með útkomuna. Uppskriftina finniði HÉR!

Mexíkósúpa!

Næst á dagskrá er ein önnur uppskrift sem lendir alltaf með þeim 10 vinsælustu á hverju ári. Mexíkósúpan sem Júlía birti árið 2017. Þessa súpu höfum við systur eldað svo oft og fáum aldrei leið á henni. Þetta er hin fullkomna súpa til að elda fyrir matarboð, afmæli eða aðrar samkomur þar sem sniðugt er að bera fram súpu. Hún er matarmikil, gómsæt og hægt að toppa hana með allskonar góðu. Við fengum fyrir einhverjum árum síðan skilaboð frá konu sem sagðist hafa eldað súpuna fyrir landbúnaðaráðherra Noregs og að hann hafi orðið yfir sig hrifinn. Það voru ein skemmtilegustu skilaboð sem við höfum fengið. Uppskriftina finniði HÉR!

Amerískar pönnukökur!

Við erum ekki hissar á því að amerískar pönnukökur séu á top 10 listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar okkar. Við systur elskum að baka pönnukökur og gerum pönnsur óspart í morgunmat um helgar. Uppskriftina birtum við í byrjun 2017 og hana er einnig að finna í bókinni okkar. Psst. Það gæti mögulega verið ný pönnukökuuppskrift á leiðinni á bloggið ekki seinna en á morgun!! Myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftina finniði HÉR!

Hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu!

Djúsí og gómsætur hamborgari. Eitthvað sem allir elska. Við gerðum þessa uppskrift saman sumarið 2019. Ég var komin til Íslands til að dvelja þar yfir sumarið og við vorum að hefjast handa við að mynda uppskriftirnar fyrir bókina okkar. Við byrjuðum á því að mynda nokkrar uppskriftir fyrir bloggið og þessi gómsæti borgari var einn af þeim. Þetta var byrjun á dásamlegu sumri. Við mynduðum bókina og þroskuðumst mikið í okkar vinnu við það. Við byrjuðum líka að þróa uppskriftina af veganistuborgaranum sem er seldur á Hamborgarafabrikkunni. Mér hlýnar um hjartað við að sjá þessa færslu og við að sjá að ykkur líki hún svona vel. Uppskriftina finniði HÉR!

Frosin Amaretto ostakaka með ristuðum möndlum!

Árið 2021 var árið sem ég byrjaði að nota áfengi meira í matargerð og bakstur. Ég geri mér grein fyrir því að það er riskí að birta of mikið af svoleiðis uppskriftum því mörgum líkar það verr að gera uppskriftir sem innihalda áfengi og svo er flest áfengi mjög dýrt og fáir sem eiga lager af því og eru ekki spennt fyrir því að kaupa flösku af amaretto til að nota smávegis af því í eina ostakökuuppskrift. Á sama tíma hefur mér þótt gaman að fá að þroskast og læra meira um eldamennsku og ég er glöð þegar ég birti það sem mér þykir gott og skemmtilegt. Ég hef því leyft sjálfri mér að pósta uppskriftum sem innihalda líkjör, hvítvín og fleira í þeim dúr en passað að halda þeim uppskriftum undir takmörkum. Jafnvægið er best. Þessi kaka er sú sem ég kannski naut þess mest að gera á þessu ári. Að sjá hvernig bragðið og útlitið kom út akkúrat eins og ég hafði óskað mér gerði mig ótrúlega glaða og ég er mjög ánægð að sjá þegar þið útbúið hana! Uppskriftina finniði HÉR!

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý!

Síðasta uppskriftin á listanum er þessi gríðarlega fallega og gómsæta núðlusúpa með rauðu karrý og tófú sem Júlía birti á árinu. Súpan er annað dæmi um virkilega góðan kvöldmat. Júlía eyddi þremur mánuðum í Asíu fyrir nokkrum árum og varð mjög hugtekin af tælenskri matargerð. Þessi súpa er innblásin af öllum þeim gómsæta mat sem hún borðaði þar. Einstaklega falleg súpa sem er fullkomin fyrir vetrarmánuðina. Uppskriftina finniði HÉR!

Takk innilega fyrir að lesa og takk enn og aftur fyrir að þið eldið og bakið uppskriftirnar okkar, sendið okkur svo falleg skilaboð og sýnið okkur þennan gríðarlega stuðning. Við erum svo þakklátar fyrir ykkur öll að við erum að springa! <3

-Veganistur

Grillaðar samlokur með vegan kjúklingasalati

Góðan daginn kæru vinir.

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af djúsí grilluðum samlokum með vegan kjúklingasalati og osti. Svo gott að ég gæti grátið!

DSCF1646.jpg

Uppskriftin er í samstarfi við Hellman’s. Vegan majónesið þeirra er eitt það allra besta á markaðnum og er fullkomið í góð sallöt og sósur. Mér finnst gott að eiga alltaf til krukku af majónesinu þeirra svo ég geti skellt í góða pítu- eða hamborgarasósu hvenær sem er. Já, eða þetta gómsæta vegan kjúkligasalat

DSCF1666.jpg

Ég er mikið fyrir majónessalöt og þetta tiltekna salat hefur oft slegið í gegn í mínum veislum og partýum. Ég hef borið það fram með góðu kexi og einn skammtur hverfur yfirleitt á nokkrum mínútum. Salatið er líka frábært í allskonar samlokur og langlokur og ég hef líka gert litlar vefjur sem ég sker niður í munnbita. Allt saman jafn gott!

Hugmyndin um að útbúa grillaðar samlokur með salatinu kom til mín í dag. Ég hafði fyrst hugsað mér að bera það öðruvísi fram fyrir færsluna, en lá svo í rúminu í morgun og fékk þessa hugmynd. Ég vissi ekki hvernig það kæmi út og dreif mig að prófa. Guð minn góður hvað ég er glöð að ég gerði það, ég hef ekki borðað jafn góða samloku lengi.

DSCF1682-2.jpg

Já ég get líka sagt ykkur það að ég gerði mér sérstaka ferð til Luleå, sirka klukkutíma frá mér, bara til þess að kaupa nýtt samlokugrill því ég vildi gera gómsætar samlokur sem minntu svolítið á grillað panini. Ég vildi fá þessar fínu rendur sem koma í þessum ákveðnu grillum. Ég veit að það er kannski svolítið galið, en ég sé svo sannarlega ekki eftir þessum kaupum.

DSCF1703.jpg

Ég hlakka til að heyra hvort þið prófið að gera þessar sjúlluðu samlokur og hvað ykkur finnst!

Hráefni:

Vegan kjúklingasalat með karrý

  • 1 pakki vegan kjúklingabitar

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka vegan Hellman’s majónes

  • 1/2 dl vegan hrein jógúrt eða grísk vegan jógúrt

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrýduft

  • salt og pipar eftir smekk

Hráefni í 3-4 samlokur

  • 6-8 brauðsneiðar

  • 1 skammtur kjúklingasalat

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Vegan smjör til að smyrja samlokurnar að utanverðu (má sleppa)

Gott að bera fram með:

  • Kóríander

  • Pikluðum rauðlauk

  • Frönskum

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

  5. Smyrjið brauðsneiðar með smjöri að utanverðu

  6. Smyrjið salati á og dreifið rifnum osti yfir

  7. Grillið samlokurnar í samlokugrilli eða á pönnu þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið fengið örlítið gylltan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Hellman’s á Íslandi-

 
Hellmann’s-Logo-2015.jpeg
 

Frosin vegan ostakaka með Amaretto, sykruðum möndlum og súkkulaðiganache

Góðan daginn!

Ég vona að þið hafið það gott. Sjálf sit ég við eldhúsborðið og drekk kaffisopa, þakklát fyrir að geta setið inni og unnið á meðan hellirignir úti. Sumarið er að líða undir lok og á þessum nokkrum mánuðum sumarsins hef ég gengið í gegnum miklar breytingar. Í rauninni hefur allt þetta ár haft í för með sér miklar breytingar hjá mér. Allra helst þó eftir að pabbi okkar Júlíu lést í vor. Það hefur opnað fyrir allskonar tilfinningar og spurningar og gert það að verkum að ég lít ýmsa hluti öðrum augum en ég gerði áður. Ég hef alltaf átt það til að ofhugsa aðstæður og festast í áhyggjum yfir hlutum sem ég hef haldið að skipti miklu máli. Hlutum sem virðast skipta máli á því augnabliki, en eru í raun bara smámunir. Ég finn að inni í mér hef ég verið að átta mig á því hversu miklum tíma ég hef eytt í að hafa áhyggjur af og svekkja mig að óþörfu. Á meðan það er að mörgu leyti frelsandi að átta sig á þessu og geta sleppt frá sér því sem hefur verið að taka óþarfa orku, er á sama tíma erfitt að breyta mynstrinu sem hefur verið síðan á unglingsárum.

DSCF1379-5.jpg

Ég hef til dæmis eytt miklum tíma í sumar í að hafa áhyggjur af því hversu fjarverandi ég hef verið á blogginu okkar síðasta árið. Hversu lítið af uppskriftum ég hef deilt með ykkur og hvort ég sé að valda ykkur öllum vonbrigðum. Ykkur sem leitið til okkar í von um að finna nýjar og spennandi uppskriftir. Fyrri hluta ársins nagaði þetta mig mikið og ég var farin að hafa áhyggjur af því að ég hefði nú þegar gert allar þær uppskriftir sem ég mun nokkurntíman gera. Eins og ég væri búin að missa alla kunnáttu í eldhúsinu.

Í sumar hef ég svo unnið að því að breyta hugarfarinu mínu og minna mig á hvers vegna ég byrjaði að blogga og hvers vegna ég elska að vera í eldhúsinu. Ég áttaði mig á því að það er enginn annar en ég sem situr heima hjá sér með áhyggjur af því hvort ég muni elda góðan mat í dag eða blogga. Var þetta virkilega mitt stærsta vandamál? Ég stóð upp, gerði plan og byrjaði að elda og baka og mynda og áður en ég vissi af var ég komin aftur í flæðið sem ég hafði ekki komist í lengi.

DSCF1402-4.jpg

Ég hef hlakkað mikið til að deila með ykkur uppskrift dagsins. Frosin ostakaka með Amaretto, ristuðum og sykruðum möndluflögum og súkkulaðiganache. Að mínu mati hinn fullkomni eftirréttur. Fyrir ykkur sem ekki viljið nota áfengi í kökuna er ekkert mál að sleppa því, setja smá kaffi kannski eða eitthvað annað sem gefur spennandi bragð. Annars get ég ímyndað mér að það sé gott að prófa að setja Kahlúa ef þið hafið ekkert á móti að nota áfengi en eruð minna fyrir möndlulíkjör.

Sykruðu og ristuðu möndlurnar eru að mínu mati punkturinn yfir i-ið. Þær gefa kökunni þetta litla extra og mér þykir nánast undantekningarlaust nauðsynlegt að hafa einhverskonar “crunch” í því sem ég borða.

DSCF1412-5.jpg

Þetta er svo sannarlega eftirréttur sem ég mæli með því að bjóða uppá í matarboði eða veislu. Ef ég væri að halda matarboð í dag myndi ég bjóða uppá þetta gómsæta Tikka masala í aðalrétt og svo ostakökuna í eftirrétt. Hversu gott?!

DSCF1444.jpg

Frosin ostakaka með Amaretto, sykruðum möndlum og súkkulaðiganache

Hráefni:

Botn:

  • 200 gr digestive kex

  • 100 gr vegan smjörlíki

  • 1 msk sykur

Fylling:

  • 2,5 dl vegan þeytirjómi (mæli með þeim frá Oatly. Ein svoleiðis ferna passar í uppskriftina)

  • 300 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl Disaronno Amaretto likjör

  • 1,5 dl sykur

  • 1 msk vanillusykur

Sykraðar möndlur:

  • 2 dl möndluflögur

  • 6 msk sykur

  • 1 msk vegan smjörlíki

  • Pínulítið salt

Súkkulaðiganache:

  • 200 gr suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

  • 1,5 dl vegan þeytirjómi (óþeyttur)

  • Pínulítið salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa botninn með því að mylja niður kexið, annaðhvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í lokaðan nestispoka og brjóta kexið með kökukefli.

  2. Bræðið smjörlíki og hellið útí matvinnsluvélina ásamt sykrinum og púlsið þar til það hefur blandast vel saman við. Ef þið myljið kexið með kökukefli, hellið því þá í skál og blandið smjörlíkinu og sykrinum saman við með sleif.

  3. Setjið bökunarpappír í botninn á 20 cm smelluformi og smyrjið hliðarnar með smjörlíki. Hellið mulda kexinu í formið og þrýstið því í botninn og aðeins uppí hliðarnar. Setjið í frysti á meðan þið útbúið fyllinguna og möndlurnar.

  4. Útbúið möndlurnar með því að hita á pönnu smjörlíki og bæta restinni af hráefnunum saman við.

  5. Hrærið stanslaust á meðal háum hita þar til möndlurnar byrja að taka á sig lit og sykurinn hefur bráðnað. Það tekur smá stund en að lokum verða möndlurnar gylltar og fínar.

  6. Færið strax yfir á bökunarpappír og látið kólna. Brjótið svo í sundur til að nota í kökuna.

  7. þeytið rjómann í stórri skál og leggið til hliðar.

  8. Þeytið restina af hráefnunum fyrir fyllinguna saman í annarri skál.

  9. Bætið þeytta rjómanum útí skálina og blandið varlega saman með sleif eða sleikju.

  10. Takið kökubotninn úr frystinum og setjið fyllinguna í formið. Ég vildi ekki bæta möndlunum út í sjálfa fyllinguna því ég vildi ráða því svolítið sjálf hversu mikið af möndlum ég hafði í. Ég tók frá tæplega helminginn af möndlunum til að toppa kökuna. Ég setti smá fyllingu, stráði svo möndlum yfir, bætti við meiri fyllingu og koll af kolli.

  11. Setjið í frysti í 1-2 klukkutíma

  12. Gerið súkkulaðiganache með því saxa niður súkkulaði.

  13. Hellið þeytirjóma í pott (ekki þeyta hann) og hitið þar til hann er nánast farinn að sjóða.

  14. Setjið súkkulaðið í skál og hellið heita rjómanum saman við. Stráið út í örlitlu salti. hrærið varlega þar til súkkulaðið hefur bráðnað í rjómanum. Takið kökuna úr frystinum, hellið súkkulaðiganache yfir, stráið möndlum yfir og setjið aftur inn í frysti í a.m.k fjóra klukkutíma.

  15. Takið út 30-60 mínútum áður en þið ætlið að bera kökuna fram.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

-Helga María

Möffins með kanilmulningi og glassúr

Góðan daginn!

Ég vona að þið hafið það gott. Sjálf sit ég inni í eldhúsi og drekk fyrsta kaffibolla dagsins. Það er föstudagur og ágúst er hálfnaður. Sumarið hefur verið gott. Hér í Piteå hefur sólin skinið nánast allt sumarið og eins og heima á Íslandi er bjart allan sólarhringinn. Á meðan ég fagna sumrinu á hverju ári eftir langan veturinn þá verð ég að viðurkenna að ég hlakka mikið til haustsins. Þegar það kólnar örlítið og loftið verður ferskt og frískandi. Þegar laufin verða gul og rauð ég get aftur farið að nota þykku peysurnar mínar. Uppskrift dagsins er einmitt innblásin af þrá minni eftir haustinu. Möffins með kanilsykurshvirfli (swirl), toppaðar með kanilmulningi og glassúr.

Eins og ég sagði í síðustu færslu er ég aldrei jafn hugmyndarík í eldhúsinu og á haustin og fram að jólum. Ég get ekki alveg útskýrt hvað það er. Á sumrin er ég yfirleitt alveg hugmyndasnauð og síðan þegar líður að haustinu fer hausinn í gang. Ég þarf að finna leið til að viðhalda þessu frjóa hugmyndaflugi allt árið.

DSCF0666.jpg

Þessar möffins eru dúnmjúkar og “flöffy” með krispí krömbli, eða mulningi, sem er virkilega hin fullkomna blanda að mínu mati. Að lokum eru þær svo toppaðar með vanilluglassúr. Að hugsa sér að fyrir minna en tíu árum hafi fólk haldið að erfitt væri að baka góðar vegan kökur og tertur. Það er sem betur fer liðin tíð!

DSCF0680.jpg

Við erum farnar að skipuleggja uppskriftir haustsins og ég spurði á instagram í gær hvað lesendur okkar vilja sjá á blogginu. Þar fengum við mikið af skemmtilegum hugmyndum sem við erum búnar að skrifa hjá okkur. En við skulum vinda okkur að gómsætu möffinskökunum.

Möffins (12 kökur):

  • 5 dl hveiti

  • 2 og 1/2 dl sykur

  • 1 msk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar

  • 1 dl bragðlaus matarolía

  • 4 dl haframjólk (önnur jurtamjólk virkar líka. Bætið við eftir þörf ef deigið er alltof þykkt)

Kanilsykursblanda:

  • 1 dl púðursykur

  • 1 msk kanill

Kanilmulningur

  • 2 dl hveiti

  • 1 dl púðursykur

  • 1 msk kanill

  • 6 msk bráðið smjörlíki

Glassúr:

  • 3 dl flórsykur

  • 2-3 msk haframjólk (eða önnur jurtamjólk)

  • 1 tsk vanillusykur

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Byrjið á því að búa til kanilsykursblönduna og mulninginn og leggið til hliðar. Bæði er gert með því að blanda hráefnunum í skálar.

  3. Gerið möffinsdeigið með því að blanda saman þurrefnunum í stóra skál, bæta mjólkinni og olíunni saman við og hræra með höndunum. Það er alveg óþarfi að nota rafmagnsþeytara eða hrærivél. Ég nota písk og reyni að hræra ekkert alltof mikið svo kökurnar verði sem mjúkastar.

  4. Leggið möffins pappírform í möffinsskúffu eða á ofnplötu ef þið eigið ekki svona möffinsskúffuform.

  5. Fyllið formin að hálfu með deigi, deilið svo kanilsykursblöndunni niður í formin og hellið möffinsdeigi yfir þar til formið er sirka 3/4 fullt.

  6. Deilið mulningnum niður í formin og munið að það mun líta út fyrir að þetta sé svakalega mikið en það mun ekki líta svoleiðis út þegar kökurnar eru bakaðar.

  7. Bakið í 12-18 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út úr kökunum þegar stungið er í þær.

  8. Útbúið glassúrinn á meðan kökurnar kólna með því að blanda saman hráefnunum í skál. Hellið honum svo yfir kökurnar þegar þær hafa kólnað aðeins.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel!

-Helga María