Vegan rjómalagað sítrónupasta

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rjómalöguðu sítrónupasta með vegan parmesanosti, steinselju og chiliflögum. Rétturinn er virkilega einfaldur og fljólegur og bragðast alveg einstaklega vel. Hvort sem þú vilt elda eitthvað gott í kvöldmatinn hversdagslega eða ætlar að halda matarboð er sítrónupasta tilvalinn réttur. Ég mæli með að bera pastað fram með gómsætu brauði og njóta!

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife og í pastaréttinn notaði ég Prosociano ostinn frá þeim sem er vegan parmesanostur. Hann er dásamlega góður og passar fullkomlega með allskonar pastaréttum. Við systur elskum vörurnar frá Violife og notum þær mjög mikið í okkar daglega lífi. Prosociano osturinn er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég nota hann í nánast allt sem ég útbý.

Ég notaði spaghetti að þessu sinni en það er líka gott að nota t.d. linguine eða rigatoni. Passið að sjóða pastað bara þar til það er “al dente” svo það verði ekki klístrað og mjúkt. Já, og munið að salta pastavatnið vel!!

Sósan er einföld og það tekur enga stund að útbúa hana, en hún er svakalega góð. Hún inniheldur:

smjörlíki
ólífuolíu
hvítlauk
chiliflögur
sítrónubörk
sítrónusafa
vegan parmesanost
örlítið af vatninu sem pastað er soðið upp úr
salt og pipar

Pastað er svo að lokum toppað með steinselju. Svo gott!

Ég hef verið í miklu pastastuði undanfarið. Ég er t.d. alltaf á leiðinni að deila með ykkur uppáhalds vodkapastanu mínu sem ég elda mikið. Ætli ég verði ekki að drífa mig í því í næstu viku. Við erum með allskonar góðar uppskriftir af pasta hérna á blogginu nú þegar og ég mæli með því að kíkja á ÞETTA ofnbakaða pestópasta sem Júlía útbjó í haust og hefur svo sannarlega slegið í gegn!

Eins og við systur höfum talað mikið um uppá síðkastið ætlum við árið 2022 að vera duglegari að birta uppskriftir af allskonar kvöldmat. Við fáum svo oft spurningar um hvort við getum ekki sýnt meira af hversdagslegum mat og svoleiðis og við lofum að gera meira af því. Að sjálfsögðu munu koma gómsætar kökur og fl. en við höfum oft verið lélegar í að birta “venjulegan mat” svo við erum mjög spenntar fyrir því og tökum alltaf fagnandi á móti allskonar fyrirspurnum og áskorunum!

Ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin og ef þið prófið að elda hana, eða einhverja aðra uppskrift af blogginu, væri ótrúlega gaman ef þið taggið okkur á Instagram. Það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar!

Rjómalagað vegan sítrónupasta

Hráefni:

  • 400 gr pasta - ég notaði spaghetti

  • 3 hvítlauksgeirar

  • Safi og börkur úr einni sítrónu

  • Chiliflögur eftir smekk. Það er svo misjafnt hversu mikið fólk þolir

  • 2,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1,5 dl vatn sem pastað hefur verið soðið í

  • Rifinn prosociano (vegan parmesan frá Violife) eftir smekk. Þetta finnst mér líka vera svolítið smekksatriði. Ég notaði sirka 1/2 ost í sósuna og toppaði svo með aðeins meira. Það þarf allavega ekki meira en einn ost en það eru ekki allir sem vilja hafa svo mikið af parmesan en mér finnst það gera sósuna virkilega góða og “creamy”

  • Salt og pipar

  • Fersk steinselja að toppa með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum þar til það er “al dente” og sigtið þá vatnið frá. ATHUGIÐ að það þarf að taka frá 1.5 dl af vatninu og nota í sósuna. Munið að salta pastavatnið vel.

  2. Setjið ólífuolíu og smjörlíki í pott, pressið hvítlauk og steikið hann í 30 - 60 sekúndur. Hann á að mýkjast en á ekki að taka á sig brúnan lit.

  3. Rífið sítrónubörk út í pottinn (geymið smá ef þið viljið nota til að toppa pastað með) og kreistið sítrónusafann og hrærið saman við hvítlaukinn ásamt chiliflögunum og leyfið þessu að eldast í nokkrar sekúndur.

  4. Hellið rjómanum útí ásamt salti og pipar og leyfið rjómanum að hitna vel.

  5. Hellið vatninu frá pastanu út í og hrærið.

  6. Bætið pastanu út í sósuna (ekki hella sósunni út í pastað því þá er erfiðara að sjá til þess að þetta verði nógu “creamy”) og passið að sósan þekji pastað vel.

  7. Toppið með prosociano og steinselju og berið fram með góðu brauði.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Vegan ofnbakað gnocchi bolognese

Vegan bolognese með gnocchi, bakað í ofni, borið fram með gómsætu brauði. Að mínu mati hinn fullkomni kósý haustréttur. Einfalt og gott og hentar vel sem hversdagsmatur og sem fínni kvöldmatur. Ég ELSKA mat sem passar bæði sem kvöldmatur á mánudagskvöldi og í matarboð helgarinnar.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði hakkið þeirra í þessa gómsætu bolognese sósu. Við elskum vörurnar frá Anamma og notum þær mikið í okkar eldamennsku. Hakkið er fullkomið í þennan rétt og bolognesesósan passar með hvaða pasta sem er. Ég notaði gnocchi því mig langaði að breyta aðeins til og finnst það gott. Ég prófaði sósuna líka með tagliatelle um daginn og það var dásamlega gott.

Ofnbakað pasta finnst mér bæði þægilegt og skemmtilegt að elda. Það er góð tilbreyting frá t.d. hefðbundnu “hakki og spaghetti” en er bæði einfaldara og fljótlegra en lasagna. Mér finnst algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera gott bolognese og eins og ég sagði hér að ofan er hægt að bera hakksósuna fram með hvaða pasta sem er. Við fyrstu sýn lítur kannski út eins og sósan innihaldi ekki grænmeti, en það gerir hún svo sannarlega og grænmetið spilar stórt hlutverk í bragði sósunnar að mínu mati. Ég set í hana gulrætur, sellerí, lauk og hvítlauk. Og til að fá sem best bragð finnst mér mikilvægast að mixa grænmetið eða skera það mjög smátt.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska að útbúa ofnbakað pasta er hversu hentugt það er. Ég geri það yfireitt í stóru góðu steypujárnspönnunni minni sem ég get skellt í ofninn og þarf því bara eina pönnu í eldamennskuna. Eða ég skipti því niður beint í glernestisboxin mín, baka í þeim í ofninum og get svo hitað upp í boxinu ef ég vil taka matinn með mér sem nesti eða eiga fljótlegan hádegismat heima.

Mér finnst gott brauð algjört möst með pasta og gómsætt hvítlauksbrauð er yfirleitt eitthvað sem ég vel að bera fram með nánast hvaða pastarétti sem er. Vegan parmesanostur er líka uppáhald hjá mér. Í dag er hægt að kaupa góðan tilbúinn vegan parmesan úti í búð en fyrir ykkur sem eigið erfitt með að nálgast hann mæli ég með þessum hérna heimagerða parmesan.

Ég vona innilega að þið njótið og munið að tagga okkur á Instagram ef þið eldið uppskriftirnar okkar, okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Ofnbakað bolognese með gnocchi ( fyrir 3-4)

Hráefni

  • 500 gr gnocchi (passið að lesa vel á umbúðirnar hvort það er vegan. Sum merki innihalda egg)

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 1 gulrót

  • 1 sellerístöngull

  • 4 hvítlauksgeirar

  • 3 msk tómatpúrra

  • 325 gr vegan hakk frá Anamma (bæði formbar og það hefðbundna passa)

  • 2 tsk oregano

  • 1 tsk þurrkuð basílika

  • 1 tsk möluð fennelfræ

  • 1 lárviðarlauf

  • 1 grænmetisteningur

  • 250 ml vatn

  • 1 dl rauðvín

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

  • 1-2 msk sojasósa

  • 2 msk balsamikedik

  • 1,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Chili explosion krydd (má sleppa)

  • Vegan rjómaostur eða rifinn vegan ostur að toppa með

Gott að bera fram með: Basíliku, vegan parmesan og gott baguette

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Setjið gulrót, lauk og sellerí í matvinnsluvél og mixið þar til það er næstum maukað (sjá mynd að ofan). Ef þið eigið ekki svoleiðis vél mæli ég með því að rífa gulrótina og saxa hitt mjög smátt.

  3. Hitið olíu á stórri pönnu og steikið grænmetið í nokkrar mínútur eða þar til það fær á sig smá lit. Pressið hvítlaukinn, bætið honum á pönnuna og steikið í sirka 2 mínútur í viðbót

  4. Bætið hakkinu, oregano, þurrkaðri basíliku, fennelfræjum og tómatpúrru á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið víninu út á pönnuna og leyfið því að eldast svolítið.

  6. Bætið við niðursoðnum tómötum, vatni, grænmetiskrafti, lárviðarlaufi, sojasósu og balsamikediki og leyfið að malla í 15-20 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og fengið dekkri lit. Ég elska að leyfa minni að malla við vægan hita eins lengi og mögulegt er þegar ég er ekki að flýta mér.

  7. Bætið gnocchi út í og leyfið þvi að eldast í sósunni í 10 mínútur. Bætið svo matreiðslurjómanum út í og smakkið til. Saltið og piprið eftir þörf. Toppið með vegan rjómaosti, eða rifnum vegan osti og bakið í ofninum í sirka 20 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið á sig fínan dökkan lit.

  8. Berið fram með basíliku, vegan parmesan og góðu brauði

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar

djupsteiktir-mac-and-cheese-bitar-tilbunir-a-disk.jpg

Hæ!

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er hinn FULLKOMNI partýmatur. Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar. Svo dásamlega stökkir að utan og djúsí að innan. Bitarnir henta vel sem t.d pinnamatur, meðlæti, snarl eða kvöldmatur. Þeir myndu bókstaflega slá í gegn sem meðlæti með góðum hamborgara eins og þessum HÉR!

Hraefni-fyrir-mac-and-cheese-bita.jpg

Færslan er í samstarfi við Violife á Íslandi en við elskum ostinn frá þeim. Í uppskriftina ákvað ég að nota tvær týpur, Original flavor og Epic mature cheddar. Mér fannst þeir passa svo vel saman í ostasósuna. Það er þó hægt að nota hvaða ost frá þeim sem er. Það er örugglega geggjað að prófa að setja svolítið af rjómaosti líka. Möguleikarnir eru endalausir. Ég vissi að ég vildi nota Epic mature cheddar ostinn til að fá þetta gómsæta cheddar bragð. Ég sé sko ekki eftir því!

Hér í Piteå fæ ég ekki rifna ostinn frá Violife svo ég keypti hann í stykki og reif sjálf. Þið heima búið hinsvegar svo vel að geta keypt hann rifinn svo ég mæli með því. Epic mature osturinn fæst bara í stykkjum þó.

Þennan rétt er hægt að leika sér með og breyta eftir eigin höfði. Ég mæli auðvitað með því að ALLIR prufi að gera djúpsteikta mac and cheese bita, en það er auðvitað hægt að borða matinn beint úr pottinum eða færa hann í eldfast mót, strá yfir t.d. panko brauðraspi og baka í ofni. Ef þið veljið að baka hann í ofni eða borða beint úr pottinum er örugglega gott að bæta við t.d. brokkólí eða öðru grænmeti í hann!

mac-and-cheese-bitar-velt-uppur-jogurti.jpg

Við vitum öll hvað er gaman að koma fólki á óvart með spennandi nýjum réttum sem kannski flestum hefði ekki einu sinni dottið í hug að útbua. Þessir bitar eru akkúrat dæmi um svoleiðis mat. Matur sem stelur senunni við allskonar tilefni!

Djúpsteiktan mat tekur alltaf svolitla stund að útbúa en þrátt fyrir það er virkilega einfalt að útbúa djúpsteiktu mac and cheese bitana. Þeir eru einnig dæmi um mat sem gaman er að útbúa og okkur systrum þykir alltaf jafn spennandi að smakka eitthvað nýtt. Hlökkum mikið til að heyra hvað ykkur finnst!

Tilbunir-mac-and-cheese-bitar-opnir.jpg

Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar (sirka 30 stykki litlir bitar)

Hráefni:

Fyrir sjálfan mac and cheese réttinn:

  • 125 gr makkarónur

  • 20 gr smjörlíki

  • 20 hveiti

  • 3 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 80 gr Violife ostur að eigin vali (ég notaði 40 gr original og 40 gr epic mature cheddar)

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk hvítlauksduft

  • 2 msk næringarger

  • 1/2 tsk eplaedik

  • salt og pipar eftir smekk

Það sem þarf til að velta uppúr og djúpsteikja:

Blautt:

  • Sirka 500 ml hrein vegan jógúrt

  • 1 tsk eplaedik

  • Nokkrir dropar hot sauce (má sleppa en ég mæli með)

Þurrt:

  • 2 dl hveiti

  • 2 dl panko brauðrasp (eða venjulegt brauðrasp ef þið finnið ekki panko)

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 2 tsk hvítlauksduft

  • 2 tsk laukduft

  • 3 tsk paprikuduft

  • 1 tsk oregano krydd

  • 1 tsk timían krydd

  • 1 tsk basilika krydd

  • 1 tsk hvítur pipar

  • svartur pipar eftir smekk

  • Olja að djúpsteikja í (ég notaði 1 líter)

Aðferð:

  1. Sjóðið makkarónurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Saltið vatnið vel.

  2. Bræðið smjörlíki í öðrum potti.

  3. Bætið hveiti út í og hrærið með píski. Leyfið hveitiblöndunni að eldast svolítið og hrærið í á meðan. Við viljum fá burtu bragðið af hráu hveiti en hveitiblandan á þó ekki að verða brún.

  4. Bætið mjólkinni út í sirka 1 dl í einu og hrærið ve á meðan. Þannig fáiði þykka og fína sósu.

  5. Bætið rifna ostinum, eplaediki, laukdufti, hvítlauksdufti, salti og pipar samanvið og hrærið þangað til osturinn er alveg bráðinn.

  6. Hellið vatninu af makkarónunum og bætið þeim út í sósuna ásamt næringargerinu. Saltið og piprið meira ef ykkur finnst þurfa. Þetta má vera svolítið braðgmikið.

  7. Leggið réttinn í box og setjið inn í ísskáp í klukkutíma.

  8. Takið út og myndið litlar bollur. Mér finnst gott að hafa bitana svona sirka 2 munnbita. Þannig fékk ég 30 kúlur. Leggið bollurnar á fat og setjið í frystinn í sirka hálftíma eða þar til bollurnar eru orðnar vel stífar. Þær þurfa ekki að frosna þó.

  9. Undirbúið djúpsteikinguna. Blandið saman jógúrti, eplaediki og sterku sósunni í djúpan disk.

  10. Blandið saman hveiti, panko brauðraspi, lyftidufti og öllum kryddunum í annan djúpan disk.

  11. Hitið olíuna í 180°c.

  12. Veltið bitunum í jógúrtblönduna og svo hveitiblönduna og djúpsteikið þar til bitarnir fá fallegan, dökkan gylltan lit.

  13. Berið fram með t.d. vorlauk og góðri sósu. Ég mæli með salsasósu eða pizzasósu.

Takk kærlega fyrir að lesa og vona að þið njótið!
Ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þið prófið einhverja af réttunum okkar! <3

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Tómat og ostapasta með Violife "feta"osti.

Fyrir um það bil ári síðan, þegar Covid var ný byrjað og ég lá heima í nokkrar vikur eftir aðgerð, “downloadaði” ég í fyrsta skipti Tik Tok forritinu. Ég var MJÖG fljót að þefa uppi alls konar matar og baksturs “aðganga” en ég get legið yfir skemmtilegum matarmyndböndunum á Tik Tok oft tímunum saman. Það hafa ótal matar “trend” sprottið upp á forritinu sem ég elska að fylgja og prófa að gera sjálf heima hjá mér.

Fyrir ekki svo löngu fór ég, og líklegast flestir sem eru á samfélagsmiðlum, að sjá endalaust af mjög auðveldri pastauppskrift á netinu sem samanstóð af tómötum, hvítlauk og fetaosti. Ég vissi strax að ég yrði að gera þessa uppskrift vegan með violife greek white block ostinum þar sem ég hef mjög góða reynslu af honum. Ég prófaði að gera vegan útgáfu af pastanu fyir u.þ.b. mánuði síðan og er þetta ein sú auðveldasta uppskrift sem ég veit um.

Pastað kom ótrúlega vel út með vegan ostinum og eftir að ég deildi með ykkur myndbandi af því á Instagram fékk ég fullt af spurningum út í uppskriftina svo ég ákvað að koma henni hérna inn fyrir ykkur. Ég hef eldað þennan rétt margoft síðustu vikurnar og mér finnst þetta vera fullkomin réttur þegar ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn eða nenni ekki að elda. Ég einfaldlega hendi pasta í pott, restinni af hráefnunum inn í ofn og blanda þessu síðan saman hálftíma seinna. Alveg fullkomið þegar það er mikið að gera.

IMG_0183.jpg

Hréfni (fyrir 4):

  • 300 gr pasta

  • 4 msk olífuolía

  • u.þ.b. 300 gr af kirsuberjatómötum eða öðrum litlum tómötum

  • 1 pakki violife greek white block

  • 3 hvítlauksrif

  • 1 msk óregano eða aðrar ítalskar jurtir

  • Smá fersk basilíka (má sleppa)

  • Vel af salti

Aðferð:

  1. Setjið ólífuolíu, tómatana í hvítlauksrifin í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn. Ég hef hvítlauksrifin heil með hýðinu á. Hrærið tómatana saman við olíuna og myndið síðan gat í miðju mótinu fyrir ostin. Leggið heilan ost í mitt formið og hellið örlítið af olíu yfir hann. Stráið saltinu og óreganóinu yfir ostinn og tómatana.

  2. Bakið í 200°C heitum ofni í 25-30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tómatarnir orðnir vel grillaðir að ofan.

  3. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum á meðan að tómatarnir og osturinn eru í ofninum.

  4. Takið ostinn úr ofninum, pressið hvílauksrifin úr hýðinu og takið það frá. Stappið tómatana og hvítlaukinn vel saman við gríska ostinn og hellið síðan pastanum út í og blandið vel saman. Rífið nokkur basilíkulauf yfir og bætið við smá salti ef ykkur finnst það þurfa.

IMG_0179.jpg

-Njótið vel og takk fyrir að lesa. <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á íslandi

 
violife-logo-1.png
 

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

IMG_0022-2.jpg

Hæ kæru vinir. Vona að þið hafið það gott!

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af ofnbökuðu gnocchi med grænkáli í gómsætri pestórjómasósu. Þetta er einn af þeim réttum sem er einfalt að útbúa en smakkast eins og á veitingastað. Hversu fullkomið?!

IMG_0001_1-4.jpg

Síðustu vikur hef ég fundið ástríðuna mína fyrir matargerð og bakstri koma aftur. Eftir nokkra mánuði þar sem ég nennti ekki einu sinni að hugsa um mat, og borðaði einungis til að næra mig, var ég orðin svolítið áhyggjufull. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tíman fá góða hugmynd aftur í eldhúsinu og hvort ég væri kannski alveg búin að missa áhugann á því að elda mat. Eftir áramótin hefur mér þó liðið mun betur og hef fundið hvernig hugmyndirnar byrja að koma til mín aftur. Það hefur verið yndisleg tilfinning að finna hvernig ég sprett fram úr rúminu til að skrifa niður hugmynd af réttium sem mig langar að prófa.

Þessi réttur var einmitt dæmi um það. Ég lá í rúminu eitthvað kvöldið og þegar ég var í þann mund að sofna sá ég fyrir mér pönnu fulla af gnocchi í rjómakenndri pestósósu. Ég hljóp framúr og skrifaði niður á blað; “Gnocchi, pestó - heimagert, rjómi, hvítvín, sítrónusafi, grænkál eða spínat eða eitthvað svoleiðis”. Daginn eftir keypti ég svo hráefnin í réttinn og prófaði, og útkoman var dásamlega góð.

IMG_0012-4.jpg

Ég komst að því fyrir ekki svo löngu að hægt er að kaupa vegan ferskt gnocchi og ég hoppaði hæð mína af gleði. Á sama tíma og ég elska að útbúa mitt eigið (uppskrift HÉR) þá er það tilbúna alveg ótrúlega gott og einfaldar eldamennskuna til muna. Ég kaupi gnocchi frá Rana og það er 100% vegan. Mörg önnur merki innihalda egg og mjólk svo það er mikilvægt að lesa á pakkninguna til að vera viss. Gnocchi frá Rana fæst í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Melabúðinni!

IMG_0016-4.jpg

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

Hráefni:

  • 500 gr gnocchi, heimagert eða keypt tilbúið

  • olía til að steikja upp úr

  • 1 meðalstór gulur laukur

  • 1 hvítlauksgeiri

  • 150 gr grænkál eða spínat

  • 1.5 tsk oregano

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi. Oatly er minn uppáhalds

  • 1.5 dl þurrt hvítvín

  • 1 dl vatn

  • safi og börkur af hálfri sítrónu

  • 1/2 dl heimagert grænt pestó - uppskrift hér að neðan (Hægt að nota tilbúið úr búð líka og við mælum mikið með pestóinu frá Sacla)

  • chiliflögur eftir smekk

  • rifinn vegan ostur til að toppa með

  • gott brauð að bera fram með. Ég bar réttinn fram með baguettebrauði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita.

  3. Skerið niður laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið þar til hann fær smá lit.

  4. Bætið gnocchi út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Bætið oregano og grænkáli út á og steikið þar til grænkálið hefur mýkst og minnkað aðeins.

  6. Hækkið hitann og bætið hvítvíninu útí og eldið í sirka 3-5 mínútur.

  7. Bætið pestó, rjóma, vatni, sítrónusafa, sítrónuberki og chiliflögum út á og lækkið hitann aftur niður í miðlungshita. Blandið saman og takið af hellunni.

  8. Færið yfir í eldfastmót, nema þið notið pönnu sem hægt er að setja beint inní ofn. Stráið rifnum vegan osti yfir og setjið í ofninn þar til osturinn hefur bráðnað og fengið gylltan lit.

Pestó

Hráefni:

  • 50 gr fersk basilika

  • 1/2 dl furuhnetur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1/2 dl ólífuolía

  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu fyrir utan olíunni saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

  2. Hrærið olíunni saman við.

Takk fyrir að lesa og njótið!

-Helga María