Möffins með kanilmulningi og glassúr

Góðan daginn!

Ég vona að þið hafið það gott. Sjálf sit ég inni í eldhúsi og drekk fyrsta kaffibolla dagsins. Það er föstudagur og ágúst er hálfnaður. Sumarið hefur verið gott. Hér í Piteå hefur sólin skinið nánast allt sumarið og eins og heima á Íslandi er bjart allan sólarhringinn. Á meðan ég fagna sumrinu á hverju ári eftir langan veturinn þá verð ég að viðurkenna að ég hlakka mikið til haustsins. Þegar það kólnar örlítið og loftið verður ferskt og frískandi. Þegar laufin verða gul og rauð ég get aftur farið að nota þykku peysurnar mínar. Uppskrift dagsins er einmitt innblásin af þrá minni eftir haustinu. Möffins með kanilsykurshvirfli (swirl), toppaðar með kanilmulningi og glassúr.

Eins og ég sagði í síðustu færslu er ég aldrei jafn hugmyndarík í eldhúsinu og á haustin og fram að jólum. Ég get ekki alveg útskýrt hvað það er. Á sumrin er ég yfirleitt alveg hugmyndasnauð og síðan þegar líður að haustinu fer hausinn í gang. Ég þarf að finna leið til að viðhalda þessu frjóa hugmyndaflugi allt árið.

DSCF0666.jpg

Þessar möffins eru dúnmjúkar og “flöffy” með krispí krömbli, eða mulningi, sem er virkilega hin fullkomna blanda að mínu mati. Að lokum eru þær svo toppaðar með vanilluglassúr. Að hugsa sér að fyrir minna en tíu árum hafi fólk haldið að erfitt væri að baka góðar vegan kökur og tertur. Það er sem betur fer liðin tíð!

DSCF0680.jpg

Við erum farnar að skipuleggja uppskriftir haustsins og ég spurði á instagram í gær hvað lesendur okkar vilja sjá á blogginu. Þar fengum við mikið af skemmtilegum hugmyndum sem við erum búnar að skrifa hjá okkur. En við skulum vinda okkur að gómsætu möffinskökunum.

Möffins (12 kökur):

  • 5 dl hveiti

  • 2 og 1/2 dl sykur

  • 1 msk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar

  • 1 dl bragðlaus matarolía

  • 4 dl haframjólk (önnur jurtamjólk virkar líka. Bætið við eftir þörf ef deigið er alltof þykkt)

Kanilsykursblanda:

  • 1 dl púðursykur

  • 1 msk kanill

Kanilmulningur

  • 2 dl hveiti

  • 1 dl púðursykur

  • 1 msk kanill

  • 6 msk bráðið smjörlíki

Glassúr:

  • 3 dl flórsykur

  • 2-3 msk haframjólk (eða önnur jurtamjólk)

  • 1 tsk vanillusykur

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Byrjið á því að búa til kanilsykursblönduna og mulninginn og leggið til hliðar. Bæði er gert með því að blanda hráefnunum í skálar.

  3. Gerið möffinsdeigið með því að blanda saman þurrefnunum í stóra skál, bæta mjólkinni og olíunni saman við og hræra með höndunum. Það er alveg óþarfi að nota rafmagnsþeytara eða hrærivél. Ég nota písk og reyni að hræra ekkert alltof mikið svo kökurnar verði sem mjúkastar.

  4. Leggið möffins pappírform í möffinsskúffu eða á ofnplötu ef þið eigið ekki svona möffinsskúffuform.

  5. Fyllið formin að hálfu með deigi, deilið svo kanilsykursblöndunni niður í formin og hellið möffinsdeigi yfir þar til formið er sirka 3/4 fullt.

  6. Deilið mulningnum niður í formin og munið að það mun líta út fyrir að þetta sé svakalega mikið en það mun ekki líta svoleiðis út þegar kökurnar eru bakaðar.

  7. Bakið í 12-18 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út úr kökunum þegar stungið er í þær.

  8. Útbúið glassúrinn á meðan kökurnar kólna með því að blanda saman hráefnunum í skál. Hellið honum svo yfir kökurnar þegar þær hafa kólnað aðeins.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel!

-Helga María

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

IMG_1530.jpg

Í dag færi ég ykkur súkkulaði ofan á súkkulaði. Jújú, páskarnir eru nýbúnir, en þessar möffins eru einfaldlega of góðar til að bíða með að deila uppskriftinni með ykkur. Mig langaði að gera klassískar stórar möffins sem minntu á þær sem hægt er að fá á kaffihúsum og eftir smá prufubakstur hefur mér tekist það (að mínu mati).

IMG_1493-2.jpg

Ég bakaði þær í fyrsta sinn um daginn og var ekki alveg nógu ánægð með útkomuna. Bragðið var mjög gott, en áferðin minnti svolítið á brauð. Eftir smá gúggl áttaði ég mig á því að ég hafði líklega hrært þær alltof mikið. Ég var svolítið að prófa mig áfram og notaði rafmagnsþeytarann og bætti við meiri og meiri vökva á meðan ég hrærði. Að sjálfsögðu urðu þær því seigar. Ég hljóp yfir til vinkonu minnar sem smakkaði og var sammála því að áferðin væri ekki alveg nógu góð. Ég dreif mig því að baka þær aftur og þá urðu þær akkúrat eins og ég vildi hafa þær. ,,Ég myndi borga fyrir þessar á kaffihúsi” sagði vinkona mín þegar hún smakkaði nýju kökurnar og það var akkúrat markmiðið.

IMG_1497-2.jpg

Síðustu daga hef ég unnið hörðum höndum að því að útbúa sænska útgáfu af blogginu. Þetta er eitthvað sem ég hef hugsað um lengi. Ég bý jú hérna í Svíþjóð og væri því mikið til í að vera hluti af bloggheiminum hér. Við spáðum í því á sínum tíma að skrifa á ensku til að ná til fólksins hérna líka en okkur þykir vænt um að skrifa á Íslensku og finnst við ná að tengjast ykkur betur þannig. Ég ákvað því eftir mikla umhugsun að opna sænska síðu. Hún er nú komin í loftið og ég hlakka mikið til að takast á við þessa áskorun. Ég hef bara talað sænsku í sirka tvö ár og hef ekki mikla reynslu af því að skrifa á sænsku. Það tekur mig því langan tíma að skrifa færslurnar og mér líður örlítið eins og ég sé að vaða of djúpt, en þetta er á sama tíma mjög spennandi.

Á meðan ég vann að því að búa til sænsku síðuna ákvað ég að fríska uppá þessa síðu. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að búa hana til árið 2016 en hef svo varla snert neitt þegar kemur að útliti síðunnar síðan. Við systur höfum verið svolítið þreyttar á útlitinu í langan tíma. Ég ákvað því að laga hana núna fyrst ég var á annað borð komin á fullt í að búa til aðra síðu. Við erum ótrúlega ánægðar með nýja útlitið, sérstaklega að geta verið með “side bar”. Við vonum að ykkur þyki hún jafn flott og okkur.

IMG_1498 2-2.jpg

Mér líður eins og ég sé á góðum stað þegar kemur að því að blogga og þess vegna held ég að nú sé rétti tíminn í að byrja að blogga á sænsku. Margir halda að bloggferðalagið okkar hafi verið mjög einfalt og allt gengið eins og í sögu, en svo er alls ekki raunin. Mig langar að segja ykkur aðeins frá minni sögu. Þessi færsla verður því aðeins lengri en ég ætlaði mér.

Þegar við stofnuðum veganistur.is hafði ég í yfir ár bloggað á mínu eigin bloggi (sem hét helgamaria.com) og var því ekki alveg reynslulaus. Ég skoðaði mikið af bloggum á þeim tíma og hafði háleit markmið en ég átti ekki jafn fína myndavél eða nýja tölvu og margir sem ég leit upp til.

Ég fékk canon 1000d vél þegar ég varð 18 ára og með henni fylgdi kit-linsa eins og þær kallast. Ég tók allar mínar myndir á þessa vél og linsuna sem fylgdi með henni þangað til í byrjun 2018. Þá fékk ég ódýrustu gerðina af 50mm linsu sem ég notaði við gömlu myndavélina mína og þessi linsa breytti gríðarlega miklu. Allir í kringum mig voru að verða gráhærðir á að hlusta á mig kvarta undan myndavélinni og það lagaðist örlítið þegar ég fékk nýju linsuna. Eins notaðist ég við eldgamla og hæga Macbook pro tölvu og þar sem hún var of gömul til að uppfæra sig notaðist ég við úrelta útgáfu af lightroom til að vinna myndirnar. Allar myndirnar í bókinni okkar eru unnar í þeirri tölvu.

Ég hef lært allt það sem ég kann á þessar græjur og þurfti því að læra að vera þolinmóð. Mér leið alltaf eins og ég gæti ekki alveg náð þeim árangri í myndatökunni sem ég vildi. Bæði því ég átti gömul tæki og tól og eins því ég átti ekkert nema hvítt matarborð og mjög takmarkað magn af “props”. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að vera leið yfir þessu. Hérna er færsla sem sýnir myndirnar sem ég tók á þessum tíma. Ég get varla horft á þessar myndir því ég man hvað mér fannst þær ömurlegar og hvað mér leið illa að pósta þeim (rétturinn er samt geggggjaður). Ég keypti mér svo ódýra filmu sem ég límdi á borðplötu og notaði til að taka allar myndirnar mínar á í svona tvö ár. Ég var farin að hata hana líka. Hérna er færsla með þessari filmu.

IMG_1508-4.jpg

Svo kom að því að ég gat keypt mér nýja myndavél. Það var seinasta haust. Ég gat þó ekki keypt mér dýra vél en fann á tilboði Canon EOS 200d sem er bara þessi hefðbundna Canon vél. Skjárinn er mun stærri en á þeirri gömlu, ég get tekið hann út og snúið honum, tekið upp myndbönd og notast við snertiskjá ef ég vil (ekkert af þessu var hægt á hinni). Auk þess eru gæðin miklu betri en á þessari gömlu. Ég notast enn við 50 mm linsuna mína og elska hana. Í desember keypti ég mér svo aðra borðfilmu sem þessar myndir eru teknar á.

Í janúar gaf gamla tölvan mín sig og með hjálp bróður míns keypti ég mér nýja Macbook tölvu eftir að hafa notað hina í 9 ár. Skyndilega gat ég unnið myndirnar í alvöru Lightroom forriti og þurfti ekki að endurræsa tölvuna tvisvar á meðan ég vann myndirnar og bloggaði. Ég viðurkenni að við þetta jókst ánægjan mín af því að mynda og blogga gríðarlega. Með tímanum hef ég líka eignast meira af fallegum diskum og öðrum “props” sem flott er að mynda á. Að lokum keypti ég mér ódýrt matarborð úr viði og við Siggi pússuðum það til og notuðum á það dökkan viðarbæs. Ég vildi að borðið liti svolítið vel notað út svo við höfum gert ýmislegt til að “skemma” það. Borðið nota ég þegar ég vil hafa myndirnar svolítið meira “moody”. Ég er mjög ánægð með útkomuna og nú loksins eftir allan þennan tíma líður mér eins og ég hafi í höndunum góð tól til að hjálpa mér að bæta mig í að taka myndir.

Ég get þó sagt ykkur að það sem hefur kennt mér mest er að læra sjálf að vinna myndir og skilja hvernig myndavélin virkar. Ég hefði getað átt allt það flottasta og fínasta en það eitt hefði ekki hjálpað mér að taka flottar myndir. Ég er alltaf að læra og núna uppá síðkastið hef ég dembt mér í að skilja betur hvernig ég vinn myndirnar mínar og ég veit að ég á enn margt ólært. Eins hef ég fundið mína eigin “rödd” með því að hætta að bera bloggið okkar saman við blogg annarra. Ég var lengi óörugg og þótti allir betri en ég og það eru vissulega margir betri en ég og munu alltaf vera það, en það hjálpaði mér alls ekki að skoða önnur blogg og bera mig saman við aðra. Með tímanum varð ég meira örugg og í dag skoða ég myndir annarra til að fá innblástur og til að dást af þeim, en ekki til að draga mig niður. Það hefur breytt miklu.

En jæjaaa.. nú kemur uppskriftin!

IMG_1484-7.jpg

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

  • 5 dl hveiti

  • 1 dl kakó

  • 2 dl sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 4,5 dl vegan mjólk

  • 130 gr. smjörlíki bráðið

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 150 gr. suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c. Minn ofn er ekki með blæstri svo ég nota yfir og undir hita.

  2. Blandið þurrefnunum saman í skál.

  3. Bræðið smjörlíkið og hellið í aðra skál ásamt mjólkinni, vanilludropunum og eplaedikinu.

  4. Hellið út í skálina með þurrefnunum og hrærið saman með sleif. Hrærið eins lítið og þið mögulega getið. það mega vera smá kekkir en samt á þetta að vera vel blandað. Eins og ég skrifaði að ofan þá gerði ég þau mistök fyrst að hræra of mikið og kökurnar urðu því seigar. Því er mikilvægt að hræra stutt.

  5. Saxið súkkulaðið í meðalstóra bita. Mér finnst gott að hafa það svolítið “chunky” í þessum kökum. Blandið 3/4 af því í deigið og geymið rest til að setja ofan á kökurnar.

  6. Ég mæli með að setja deigið í sprautupoka og sprauta í möffinsformin eins og sést á einni af myndunum fyrir ofan. Ég hafði í öll þessi ár fyllt möffinsform með skeið með tilheyrandi sulli en með sprautupokanum er þetta mjög einfalt og snyrtilegt.

  7. Bakið í 17-20 mín eða þar til þið getið stungið tannstöngli í og ekkert deig kemur upp með honum (það mun samt líklega koma eitthvað af súkkulaðinu sem er inní)

  8. Leyfið kökunum að kólna aðeins áður en þið borðið þær.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3

Vegan möffins með súkkulaðibitum

IMG_8854-2.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af gómsætum súkkulaðibita-möffins. Þessi uppskrift hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi og það var því löngu kominn tími til að skella henni hérna inná bloggið. Þessar möffinskökur minna mig á það þegar ég var barn. Í hvert sinn sem við fórum í ferðalög bakaði mamma möffins sem við tókum með okkur í gömlum Mackintosh stampi. Ég man hvað mér þótti það ótrúlega spennandi. Þessar möffinskökur vekja upp svipaða spennu hjá mér á meðan þær eru í ofninum.

IMG_8754.jpg

Kökurnar hef ég bakað í mörg ár og þær eru einmitt fullkomnar í ferðalagið, afmælisveisluna, brunchinn eða einfaldlega fyrir notalegan dag með fjölskyldunni. Uppskritin er virkilega auðveld og því tilvalin til að baka með krökkunum.  Ég man hvað mér þótti alltaf yndislegt að fá að taka þátt í möffinsbakstrinum með mömmu. 

Webp.net-gifmaker (3).gif

Uppskriftin er ekki einungis einföld, heldur innihalda kökurnar aðeins 7 hráefni sem flestir eiga til uppi í skáp. Þið sem hafið fylgt blogginu okkar í svolítinn tíma vitið að við erum ekki mikið fyrir flóknar uppskriftir sem innihalda alltof mörg hráefni sem enginn þekkir. Við elskum allt sem er einfalt og eru þessar möffins því lýsandi fyrir okkur. Þrátt fyrir einfaldleikann gefa kökurnar ekkert eftir hvað bragðið varðar. Þær eru dúnmjúkar að innan og undursamlega bragðgóðar. 

Þar sem ég fann engin falleg pappírsform fyrir kökurnar ákvað ég að prufa að útbúa mín eigin úr bökunarpappír. Siggi klippti niður fyrir mig sirka 13x13 cm arkir úr pappírnum. Ég mótaði þær með því að leggja þær yfir formin á möffins skúffunni og þrýsta þeim svo niður með bolla sem passaði akkúrat í hólfin. Formin komu mjög skemmtilega út og voru góð tilbreyting frá þessum hefðbundnu pappírsformum. 

IMG_8862-3.jpg

Hráefni:

  • 5 dl hveiti

  • 2 og 1/2 dl sykur

  • 1 msk lyftiduft

  • 2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar

  • 100gr vegan smjör - Krónusmjörlíkið hentar mjög vel í þessa uppskrift

  • 3 og 1/2 dl Oatly haframjólk - hvaða jurtamjólk sem er ætti að þó að virka

  • 200gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  3. Bræðið smjörið og hellið því saman við mjólkina.

  4. Hellið blöndunni útí stóru skálina og hrærið vel saman. Ef þið eigið rafmagns handþeytara myndi ég nota hann en þar sem ég á eftir að útvega mér svoleiðis lét ég duga að nota hefðbundinn písk sem virkaði líka vel.

  5. Saxið niður súkkulaðið og hrærið því saman við deigið með sleif.

  6. Deilið deiginu í möffinsformin og bakið í sirka 12-18 mínútur. Ég myndi segja að það komi svona 9-15 kökur úr hverri uppskrift en það fer bara eftir því hversu stórar kökur þið gerið.

  7. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram. Mér þykja kökurnar bestar volgar með glasi af ískaldri Oatly haframjólk. Þær eru samt yndislega góðar líka kaldar.

Vona að þið njótið! :) 

Helga María 

Mín ráð til að minnka matarsóun

Eitt af því sem við Ívar fórum mikið að hugsa um þegar við fluttum að heiman var matarsóun. Okkur finnst báðum alveg ótrúlega leiðinlegt að henda mat og því hugsum við mikið um að nýta allt sem við kaupum inn. Mér finnst hafa orðið mikil vitundarvakning um þetta mál í samfélaginu á síðustu árum en margir, jafnt einstaklingar sem og fyrirtæki eru farin að leggja sitt af mörkum hvað matarsóun varðar. Nettó er eitt af þessum fyrirtækjum en þau hafa nú á nokkrum árum dregið verulega úr rusli í verslunum sínum t.d. með því að hafa á afslætti vörur sem eru að nálgast síðasta söludag. Einnig hefur verslunin síðustu ár eldað súpu á menningarnótt úr vörum sem fara að renna út. Súpan er vegan og glútenlaus og finnst mér þetta alveg frábært átak og hlakka ég til að kíkja í súpu til þeirra á laugardaginn. Nettó hafði samband við mig nýlega um samstarf akkúrat um þetta tiltekna málefni og fannst mér það kjörið tækifæri til að segja ykkur þau ráð sem ég hef tileinkað mér á þessu ári til að draga úr þeim mat sem fer í ruslið á mínu heimili. Einnig leynast tvær uppskriftir neðst í færslunni, svo ég mæli með að lesa áfram. Ég versla oft í Nettó en mér finnst grænmetis og ávaxta deildin þar bera af í ferskleika og kaupi ég einnig öll mín vítamín og hreinsiefni þar en það er nú efni í aðra færslu...

1. Frysta.
Ég veit að hérna er ég svo sannarlega ekki að finna upp hjólið en ég held að á flestum heimilum sé til frystir fullur af mat. Ég hef lagt það í vana minn að frysta matvörur sem ég annað hvort veit að ég muni ekki nota áður en þær skemmast eða eru að verða komnar á síðasta neysludag.
Það má einnig oft gera góð kaup á vörum út í búð sem eru að nállgast síðasta söludag.
Vörur sem mér finnst fara einstaklega vel í frysti:
Bananar: Það vita það ekki allir en bananar sem eru orðin vel þroskaðir eru fullkomnir til að setja í frystinn og eiga í ís eða smoothie en þeir eru akkúrat hollastir þegar þeir eru vel þroskaðir. Oft er hægt að fá haug af þroskuðum banönum á mjög góðu verði en mér finnst alltaf eins og ég hafi dottið í lukkupottin þegar ég sé svoleiðis í búð þar sem við borðum mikið af "smoothie'um".
Salat: Annað sem að mér finnst fara vel í frysti eru til dæmis alls konar salat tegundir líkt og spínat og grænkál. Þess háttar salat fæst oft í stórum pokum í búð og skemmist hratt í ísskáp eftir að það er opnað. Ég skelli pokanum beint í frysti ef ég veit að ég muni ekki klára hann stuttu eftir að hann er opnaður. Ég nota svo frosna salatið t.d. í smoothie'a, pottrétti eða lasanga.
Matarafgangar: Það má frysta alls kynns tilbúna rétti en ég hef oft gert stóra skammta af súpum, kássum og lasanga og sett í fyrstinn í skömmtum. Þetta er einstaklega þægilegt fyrir þá sem þurfa að taka með sér nesti í skóla eða vinnu. Þá er hægt að kippa með sér beint úr frystinum á morgnanna ef ekki gefst tími daginn áður til að útbúa eitthvað.

2. Nýta það sem er alveg að skemmast
Það sem endar oftast í ruslinu á heimilum er grænmeti og ávextir. Það finnst mér ekki skrítið þar sem þessar vörur eiga það til að skemmast hratt ef ekki er fylgst vel með. Ég reyni að vera dugleg að fylgjast með grænmetisskúffunni minni og grípa það sem er að skemmast og nota, en mér finnst oft, eftir að ég varð grænmetiæta eins og ég geti falið hvaða grænmeti sem er í nánast öllum réttum, og rétturinn verði samt alltaf svipaður. Einnig reyni ég að kaupa vörur sem eru að nálgast síðasta söludag ef ég veit að ég muni nota þær strax, þær vörur eru oft á afslætti sem er auðvitað algjör plús.

Nokkrir réttir sem ég geri úr grænmeti og ávöxtum sem er alveg að renna út:

  • Bananamuffins úr vel þroskuðum bönunum

  • Pottrétt úr öllum þeim grænmetisafgöngum sem finna má í ísskápnum

  • Súpur úr grænmetinu í ísskápnum

3. Margt má nýta þó það sé komið yfir síðasta söludag.
Margt sem komið er yfir síðasta söludag er allt í lagi að nýta. En ég hef t.d. oft notað linsur, hrísgrjón og fræ sem komin eru yfir síðasta söludag. Einnig nota ég krydd alveg óspart ef ég finn ennþá góða og sterka lykt af þeim. Svo það er algjör óþarfi að hlaupa til og henda hrísgrjóna poka sem er jafnvel kominn tvo til þrjá mánuði fram yfir síðasta söludag því það eru miklar líkur á að það sé í góðu með grjóninn.

4. Skipuleggja sig.
Þetta finnst mér vera algjört lykilatriði svo vörur endi ekki í ruslinu. Á hverjum sunnudegi geri ég matseðil og fer í búð. Ég reyni að versla eingöngu eftir matseðlinum og þá næ ég að nýta nánast allt sem ég kaupi. Ég kíkji í skápana og sé hvað er til og reyni að vinna í kringum það. Oft um helgar á ég í ísskápnum, og þá sérstakelga í grænmetisskúffunni, afganga af hinu og þessu og þá finnst mér t.d. tilvalið að henda í súpu í hádeginu og tæma þá nánast alveg fyrir búðarferðina.

Öðruvísi karrýréttur:

Þessi karrýréttur er ótrúlega góður. Ég geri hann yfirleitt bara úr því grænmeti sem ég á hverju sinni en mér finnst lykilatriði að í réttinum séu, allavega kartöflur eða grasker og einhvers konar baunir, hvort sem það eru nýrnarbaunir eða linsur. Svo lengi sem sósan er eins og flýtur vel yfir grænmetið er hægt að nýta nánast hvaða grænmeti sem er út í, rétturinn verður alltaf ótrúlega góður. 

Hráefni:

  • Það grænmeti sem ég átti þessu sinni:

    • 1 laukur

    • 4 hvítlauksrif

    • rúmlega 1 paprika

    • 1/2 lítil rófa

    • 1/2 sæt kartafla

    • 3 meðalstórar kartöflur

    • 1/2 lítill hvítkálshaus

    • 2 tómatar

    • 1 dl frosnar grænar baunir

    • 1 bolli frosnar sykurbaunir

    • hálfur poki spínat

  • 3-4 msk milt karrý

  • 1 msk paprikuduft

  • 1 msk þurrt tímían

  • 1/4 tsk kanill

  • salt og pipar

  • 2 bollar linsur

  • 1/2 lítri vatn

  • 4 msk rapunzel grænmetiskraftur

  • 2 dósir angelmark kókosmjólk

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

Aðferð:

  1. Steikið lauk og hvítlauk. Þegar ég geri kássur og súpur finnst mér best að steikja bara upp úr vatni í smá tíma. Þá bæti ég bara meira og meira vatni út í ef laukurinn fer að festast við pottinn.

  2. Bætið kryddunum út í ásamt smá vatni í viðbót og hrærið við.

  3. Setjið linsurnar og 1/2 líter af vatni út í og leyfið suðunni að koma upp. Mér finnst gott að skera restina af grænmetinu niður á meðan að linsurnar sjóða. Leyfið linsunum að sjóða í allavega 10 mínútur og setjið svo restina af grænmetinu út í, að undanskildu spínatinu.

  4. Bætið út í kóksmjólkinni, tómötunum og grænmetiskraftinum og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Sjóðið kássuna í allavega 30 mínútur. Gott að smakka til eftir 10-15 mínútur og krydda meira ef þarf.

  6. Bætið spínatinu út í og hrærið því saman við rétt áður en kássan er borin fram.

Ég ber réttinn oftast fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

Bananamuffins:

Þessar geri ég að minnsta kosti einu sinni í viku en þær eru alveg ótrúlega hollar og þroskaðir bananar nýtast mjög vel þar sem það þarf rúmlega 3 í hverja uppskrift. Þær henta fullkomlega í nestisboxið og eru orðnar fastur liður þar hjá okkur.

Hráefni:

  • 1 bolli spelt frá himneskri hollustu

  • 1/2 bolli malað haframjöl frá himneskri hollustu

  • 1 tsk matarsódi

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 bolli stappaðir bananar (rúmlega 3)

  • 1/3 bolli hlynsíróp

  • 1 bolli plöntumjólk

  • 1 bolli saxað súkkulaði eða rúsínur

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál

  2. Bætið öllu nema súkkulaðinu/rúsínunum saman við og hrærið saman. Setjið súkkulaðið/rúsínurnar síðast og blandið við deigið.

  3. Bakið muffinsarnar í 18-20 mín í 175°C heitum ofni.

Vonandi gagnast þessi ráð einhverjum og ég hvet alla til að setja sér markmið fyrir veturinn sem stuðla að því að henda minna af mat.
-Júlía Sif

 

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást öll hráefni þar.

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást öll hráefni þar.