Vegan vanilluhringir

IMG_9973-3.jpg

Nú er desember genginn í garð og við getum glaðar sagt að við höfum beðið eftir þessum mánuði lengi. Ekki bara afþví við erum jólabörn heldur einnig vegna þess að nú er bókin okkar komin út. Bókin heitir Úr eldhúsinu okkar og er gefin út af Björt bókaútgáfu.
Við erum enn á fullu í skólanum að klára próf og verkefni annarinnar svo við reynum eftir bestu getu að halda okkur aðeins niðri á jörðinni en í raun erum við lengst uppi í skýjunum. Við höfum aldrei unnið jafn hart að neinu eins og bókinni okkar og við erum svo ótrúlega ánægðar með hana.

IMG_9959.jpg

En í dag ætlum við að deila með ykkur uppskrift af vanilluhringjum. Mamma okkar bakar alltaf svona smákökur og er uppskriftin okkar innblásin af hennar uppskrift. Eins og komið fram hefur áður erum við í samstarfi við Naturli í desember og þessi færsla er sú þriðja í því samstarfi. Smjörlíkið þeirra hefur reynst okkur gríðarlega vel í jólabakstrinum í ár. Smjörlíkið er 100% vegan, lífrænt og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði smjör sem er dásamlegt á brauð og heitir smörbar en svo nýlega hófu þau að framleiða smjörlíki til baksturs og steikingar en það heitir vegan block. Bæði eru þau dásamlega góð og mikið notuð á okkar heimilum.

IMG_9962-2.jpg

Upprunalega hugmyndin var að gera eina stóra smákökufærslu með nokkrum sortum en ég ákvað að gera frekar sér færslur fyrir hverja sort svo auðveldast sé að finna þær. Ég ákvað að byrja á vanilluhringjum og þeir eru ekkert smá góðir. Ég bakaði þá í fyrsta sinn um daginn og mamma var tilbúin í símanum og hjálpaði mér. Ég hélt þetta yrði alveg svakalega flókið en svo var þetta ekkert mál. Næsta sort kemur svo á bloggið á næstu dögum.

IMG_9969-3.jpg

Ég útvegaði mér hakkavél svo það yrði sem auðveldast að útbúa hringina. Ég viðurkenni að mér leið svolítið kjánalega í búðinni þegar ég keypti hakkavélina þar sem ég er vegan og hélt aldrei að ég myndi þurfa svoleiðis vél. Þið megið því endilega koma með skemmtilegar hugmyndir fyrir mig af einhverju sem hægt er að nýta vélina í hehe. Kannski hægt að útbúa í henni baunabuff eða eitthvað slíkt?

IMG_9971-2.jpg

Nú er aðeins að róast í skólanum hjá mér svo ef allt gengur upp þá mun ég ná að pósta uppskriftum af öðru en bara bakstri fyrir jólin. Ég ætla að gera mitt allra besta. Nú þegar erum við með allskonar skemmtilegar uppskriftir í veislu- og hátíðaréttir. Þar eru heitir brauðréttir, brauðtertur, tartalettur, innbakað Oumph og margt fleira. Það ættu allavega flestir að finna eitthvað við sitt hæfi á blogginu okkar og í bókinni. Okkur finnst eiginlega fátt skemmtilegra en að útbúa vegan hátíðarétti. Við vonum innilega að ykkur eigi eftir að líka vanilluhringirnir vel og endilega látið okkur vita ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu núna í desember.

IMG_9978-2.jpg

Vegan vanilluhringir (sirka fjórar plötur)

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1/4 tsk hjartasalt

  • 350 gr kalt Naturli smjörlíki

  • 3 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2-1 msk vegan mjólk

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  2. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í skálina ásamt restinni af hráefnunum.

  3. Hnoðið vel saman með höndunum.

  4. Plastið deigið inn og setjið í ísskáp í eina klukkustund.

  5. Hitið á meðan ofninn í 170°c.

  6. Setjið deigið í hakkavél og hafið stjörnuna á. Margir sem eiga hrærivélar eiga svona stykki sem hægt er að setja á og það virkar mjög vel líka. Ég las einhversstaðar að eins sé hægt að nota sprautupoka en þar sem deigið er hnoðað gæti það verið svolítið erfiðara.

  7. Útbúið lengjur og mótið hringi. Ég hef hverja lengju um 8-9 cm.

  8. Bakið í 7-10 mínútur. Passið að fylgjast vel með þeim eftir svona 7 mínútur svo þeir ofbakist ekki.

  9. Kælið vel áður en þeir eru settir í stamp eða skál.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

-Veganistur

 
naturlilogo.png
 


-þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-