Mjúkt og gott vegan bananabrauð með valhnetum

Hæhæ!

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu og dúnmjúku vegan bananabrauði með vanhnetum. Það er svosem alveg hægt að kalla þetta bananaköku þar sem það er mun meira í þá áttina, en að einhverri ástæðu hefur nafnið bananabrauð fests svo við höldum okkur við það. Ég ber mitt fram með góðu vegan smjöri og ætli það dugi ekki til að kalla það brauð?!

Hvort sem þú vilt kalla það bananabrauð eða bananaköku skiptir ekki miklu máli, það sem er mikilvægast er að bananabrauðið er dúnmjúkt og bragðast svoo vel. Í uppskriftina notaði ég valhnetur en viku seinna bakaði ég það aftur og skipti þeim út fyrir saxað dökkt súkkulaði. Ég get viðurkennt að mér fannst það ennþá betra með súkkulaði þó það sé að sjálfsögðu virkilega gott með hnetunum!

Ég er ein af þeim sem eiga oft til brúna banana heima og segjast alltaf vera á leiðinni að skella í bananabrauð en koma sér aldrei í það. Héðan í frá mun það ekki gerast aftur. Þessi uppskrift er svo einföld að það er eignilega hlægilegt. Það er hægt að deila deiginu í muffinsform ef maður vill baka það ennþá hraðar. En ég mun aldrei láta banana fara til spillis framar. Nú á ég nokkrar sneiðar af þessu gómsæta brauði í frystinum og það er ekkert jafn gott og að geta tekið út eins og tvær sneiðar þegar maður er í stuði.

Deigið í bananabrauðið er hrært með höndunum svo það er engin þörf á að nota hrærivél. Ég byrja á því að hræra saman sykur, olíu, mjólk, eplaedik, vanilludropa og stappaða banana og sigta svo þurrefnin saman við.

Að lokum bæti ég við niðurskornum valhnetum og hræri samanvið með sleikju. Það er ekkert mál að skipta valhnetunum út fyrir aðrar tegundir af hnetum eða fræjum, rúsínur eða súkkulaði eins og ég nefndi hér að ofan. Það má að sjálfsögðu líka sleppa þeim alveg, bananabrauðið verður alveg jafn gott þrátt fyrir það.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel!

-Helga María

Vegan bananabrauð með valhnetum

Vegan bananabrauð með valhnetum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 4,5 dl hveiti (280 g)
  • 1 dl sykur (100 g)
  • 1/2 dl púðursykur (50 g)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 dl vegan mjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 3 stórir 4 minni þroskaðir bananar
  • 1 msk eplaedik
  • 1 dl matarolía
  • 1 dl niðurskornar valhnetur (má sleppa eða skipta út fyrir t.d. aðrar hnetur, fræ, rúsínur eða súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c undir og yfir hita.
  2. Hrærið saman olíu, vanilludropa, eplaedik, sykur og púðursykur í skál.
  3. Stappið banana með gaffli og bætið út í skálina og hrærið saman við.
  4. Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í aðra skál.
  5. Sigtið þurrefnin ofan í skálina með blautu hráefnunum og hrærið.
  6. Skerið niður valhnetur (eða annað ef þið viljið skipta þeim út. Má líka sleppa alveg) og hrærið varlega saman við með sleikju.
  7. Hellið deiginu ofan í brauðform klætt með smjörpappír og bakið í 50-60 mínútur eða þar til pinni sem stungið er í kemur hreinn út. Byrjið að fylgjast með brauðinu reglulega eftir 40 mínútur.
  8. Njótið!!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Vegan vanilluhringir

IMG_9973-3.jpg

Nú er desember genginn í garð og við getum glaðar sagt að við höfum beðið eftir þessum mánuði lengi. Ekki bara afþví við erum jólabörn heldur einnig vegna þess að nú er bókin okkar komin út. Bókin heitir Úr eldhúsinu okkar og er gefin út af Björt bókaútgáfu.
Við erum enn á fullu í skólanum að klára próf og verkefni annarinnar svo við reynum eftir bestu getu að halda okkur aðeins niðri á jörðinni en í raun erum við lengst uppi í skýjunum. Við höfum aldrei unnið jafn hart að neinu eins og bókinni okkar og við erum svo ótrúlega ánægðar með hana.

IMG_9959.jpg

En í dag ætlum við að deila með ykkur uppskrift af vanilluhringjum. Mamma okkar bakar alltaf svona smákökur og er uppskriftin okkar innblásin af hennar uppskrift. Eins og komið fram hefur áður erum við í samstarfi við Naturli í desember og þessi færsla er sú þriðja í því samstarfi. Smjörlíkið þeirra hefur reynst okkur gríðarlega vel í jólabakstrinum í ár. Smjörlíkið er 100% vegan, lífrænt og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði smjör sem er dásamlegt á brauð og heitir smörbar en svo nýlega hófu þau að framleiða smjörlíki til baksturs og steikingar en það heitir vegan block. Bæði eru þau dásamlega góð og mikið notuð á okkar heimilum.

IMG_9962-2.jpg

Upprunalega hugmyndin var að gera eina stóra smákökufærslu með nokkrum sortum en ég ákvað að gera frekar sér færslur fyrir hverja sort svo auðveldast sé að finna þær. Ég ákvað að byrja á vanilluhringjum og þeir eru ekkert smá góðir. Ég bakaði þá í fyrsta sinn um daginn og mamma var tilbúin í símanum og hjálpaði mér. Ég hélt þetta yrði alveg svakalega flókið en svo var þetta ekkert mál. Næsta sort kemur svo á bloggið á næstu dögum.

IMG_9969-3.jpg

Ég útvegaði mér hakkavél svo það yrði sem auðveldast að útbúa hringina. Ég viðurkenni að mér leið svolítið kjánalega í búðinni þegar ég keypti hakkavélina þar sem ég er vegan og hélt aldrei að ég myndi þurfa svoleiðis vél. Þið megið því endilega koma með skemmtilegar hugmyndir fyrir mig af einhverju sem hægt er að nýta vélina í hehe. Kannski hægt að útbúa í henni baunabuff eða eitthvað slíkt?

IMG_9971-2.jpg

Nú er aðeins að róast í skólanum hjá mér svo ef allt gengur upp þá mun ég ná að pósta uppskriftum af öðru en bara bakstri fyrir jólin. Ég ætla að gera mitt allra besta. Nú þegar erum við með allskonar skemmtilegar uppskriftir í veislu- og hátíðaréttir. Þar eru heitir brauðréttir, brauðtertur, tartalettur, innbakað Oumph og margt fleira. Það ættu allavega flestir að finna eitthvað við sitt hæfi á blogginu okkar og í bókinni. Okkur finnst eiginlega fátt skemmtilegra en að útbúa vegan hátíðarétti. Við vonum innilega að ykkur eigi eftir að líka vanilluhringirnir vel og endilega látið okkur vita ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu núna í desember.

IMG_9978-2.jpg

Vegan vanilluhringir (sirka fjórar plötur)

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1/4 tsk hjartasalt

  • 350 gr kalt Naturli smjörlíki

  • 3 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2-1 msk vegan mjólk

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  2. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í skálina ásamt restinni af hráefnunum.

  3. Hnoðið vel saman með höndunum.

  4. Plastið deigið inn og setjið í ísskáp í eina klukkustund.

  5. Hitið á meðan ofninn í 170°c.

  6. Setjið deigið í hakkavél og hafið stjörnuna á. Margir sem eiga hrærivélar eiga svona stykki sem hægt er að setja á og það virkar mjög vel líka. Ég las einhversstaðar að eins sé hægt að nota sprautupoka en þar sem deigið er hnoðað gæti það verið svolítið erfiðara.

  7. Útbúið lengjur og mótið hringi. Ég hef hverja lengju um 8-9 cm.

  8. Bakið í 7-10 mínútur. Passið að fylgjast vel með þeim eftir svona 7 mínútur svo þeir ofbakist ekki.

  9. Kælið vel áður en þeir eru settir í stamp eða skál.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

-Veganistur

 
naturlilogo.png
 


-þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-


Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -

Vegan galette með eplum og karamellusósu

IMG_9683.jpg

Jæjaaaa….

Þá erum við loksins mættar aftur eftir nokkra mánaða pásu sem fór að mestu í að útbúa matreiðslubókina okkar sem kemur út í loks ársins. Ég (Helga) er komin aftur til Piteå og byrjuð í skólanum og er hægt og rólega að komast aftur í góða rútínu.

Það hefur sjaldan verið jafn erfitt að byrja að blogga aftur eftir pásu eins og núna. Mér hefur liðið svolítið eins og ég sé uppiskroppa með hugmyndir. Eins og allt það sem ég kunni sé nú þegar á blogginu eða í bókinni okkar. Ég hef því aðeins verið að leika mér í eldhúsinu til að finna aftur sköpunargleðina í matargerðinni. Það hefur verið ljúft að fá smá tíma til að koma mér aftur af stað og á síðustu vikum hafa allskonar hugmyndir kviknað.

IMG_9665.jpg

Ég hef tekið eftir því uppá síðkastið að galette bökur eru í mikilli tísku á Instagram. Það virðist vera eitthvað við ófullkomið og “rustic” útlitið á þeim sem heillar marga matarljósmyndara. Ég var ekki alveg sannfærð þegar ég sá myndir af þessum bökum fyrst. Mér fannst þær líta mjög vel út en skildi ekki alveg æðið. Mig fór þó með tímanum að langa að prófa og ákvað að lesa mér smá til. Galette er franskt orð yfir flata kringlóta köku. Algengt er að galette bökur séu gerðar með því að útbúa bökudeig, fletja það út og leggja yfir það fyllingu sem annað hvort er sæt eða sölt. Endarnir á deiginu eru svo brotnir yfir fyllinguna og bakan bökuð í ofninum.

IMG_9668.jpg

Ég prófaði fyrst að útbúa míní útgáfur fylltar með bláberjum og þær smökkuðust mjög vel, en ég var svolítið óþolinmóð og kældi deigið alltof stutt og notaði smjörlíki við stofuhita í stað þess að hafa það kalt eins og mælt er með að gera. Deigið var því svolítið erfitt að meðhöndla og rifnaði auðveldlega. Ég las mér svo til og fékk nokkur ráð á Instagram og komst að því að mikilvægt er að nota ískalt smjör, ískalt vatn og kæla deigið vel. Ég fór eftir þeim ráðum í dag og bakan varð dásamlega góð og allt annað að meðhöndla deigið.

IMG_9671.jpg

Um daginn kom á markað nýtt smjörlíki frá merkinu Naturli. Vegan “smörbar” smjörið þeirra hefur fengist í svolítinn tíma og hefur bókstaflega slegið í gegn því það er bæði laust við pálmaolíu og bragðast ótrúlega vel. Ég var því svakalega spennt þegar ég frétti að þau framleiddu einnig smjörlíki sem hentar til baksturs og steikingar. Smjörlíkið þeirra er eins og smörbar smjörið laust við pálmaolíu og er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Ég er nú búin að prófa að baka aðeins úr því og það er dásamlega gott. Smörbar smjörið fæst nú þegar í öllum helstu verslunum landsins en smjörlíkið er einnig væntanlegt í verslanir á næstunni.

IMG_9673.jpg

Ég er svakalega spennt að prófa fleiri útgáfur af svona galette bökum. Margir útbúa þær með tómötum og góðum jurtum. Ég sé fyrir mér að það gæti verið dásamlega gott að útbúa fyllingu úr möndlu ricotta osti, ferskum tómötum og toppa svo með ferskum jurtum, sítrónusafa og berki, sjávarsalti og ólífuolíu. Ég myndi þá sleppa sykrinum í botninum og bæta við kannski einhverjum kryddum. Eða hafa hann bara klassískan.

IMG_9684.jpg

Mér þætti gaman að heyra hvort þið hafið einhverjar óskir um uppskriftir núna í vetur. Það fer til dæmis að líða að jólunum, minni uppáhalds árstíð (já jólin eru í mínum bókum heil árstíð), og ég vil að sjálfsögðu útbúa fyrir ykkur eins mikið af gómsætum hátíðaruppskriftum og ég mögulega get! Eins og ég segi hefur pásan verið ansi löng og því þætti mér mjög vænt um ef fólk kæmi með skemmtilegar uppástungur eða áskoranir.

IMG_9689.jpg

Galette með eplum

Botninn

  • 3 og 1/2 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1/2 tsk salt

  • 120 g kalt smjörlíki

  • ca 40 ml ískalt vatn (ég byrja á því að setja 2 msk í einu og bæti svo við eftir þörfum)

  • Möndluflögur til að strá á skorpuna (má sleppa)

  • Aquafaba (kjúklingabaunasafi) til að smyrja skorpuna. Það er líka hægt að nota vegan mjólk.

Fyllingin

  • 3-4 epli (ég notaði 3 og 1/2)

  • 1 dl púðursykur

  • 2 msk sítrónusafi plús smá börkur

  • 1 msk kanill

  • 1/2 tsk malað engifer

  • 1/4 tsk múskat

  • 1 og 1/2 msk hveiti

Karamellusósa

Uppskrift HÉR

Aðferð:

  1. Blandaðu í skál hveiti, sykri og salti.

  2. Skerðu kalt smjörlíki í kubba og notaðu puttana til að brjóta það niður og blanda gróflega við hveitið. Á ensku er þetta útskýrt þannig að smjörið eigi að vera á stærð við “pea” eða græna baun. (Veit ekki aaalveg með þá myndlíkindu á íslensku hehe.)

  3. Bættu ísköldu vatni útí í skömmtum og hrærðu saman með sleif. Ég set nokkrar matskeiðar í einu og bæti svo við eftir þörf.

  4. Stráðu hveiti á borð og færðu deigið yfir á það. Ekki hnoða það mikið en mótaðu úr því kúlu. Pakkaðu henni inní plastfilmu og settu í ísskáp í klukkustund.

  5. Afhýddu eplin og skerðu niður í sneiðar.

  6. Settu þau í stóra skál og hrærðu saman við þau restinni af hráefninum. Legðu til hliðar.

  7. Stráðu hveiti á borð og flettu út deigið í hring. Leggðu fyllinguna á miðja bökuna og hafðu smá spássíu til hliðana svo hægt sé að brjóta deigið aðeins yfir. Það þarf þó ekki að vera mikið pláss, en samt þannig að það nái að pakka fyllingunni aðeins inn.

  8. Brjóttu deigið yfir. Mundu að þetta á ekki að vera fullkomið. Galette bökur eru gerðar til þess að vera svolítið rustic og heimagerðar.

  9. Pennslaðu smá aquafaba eða mjólk yfir skorpuna og stráðu yfir möndluflögum og sykri.

  10. Bakaðu við 190°c í 30-40 mínútur eða þar til bakan er orðin gyllt og fín.

  11. Útbúðu karamellusósuna á meðan.

  12. Leyfið bökunni að kólna í 10 mín áður en hún er skorin. Vanilluís eða vanillusósa er að mínu mati nauðsyn með bökunni.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel.

Helga María

Vegan rjómabollur að sænskum sið (semlur)

IMG_2799-4.jpg

Bolludagur Svía (fettisdagen) er næsta þriðjudag, daginn eftir að hann er haldinn hátíðlegur á Íslandi, en sænska rjómabollan kallast semla. Á Íslandi fást bollurnar bara á bolludaginn og kannski einhverjir afgangar næstu daga eftir, en hérna í Svíþjóð byrja kaffihús og bakarí að selja semlur um miðjan janúar. Svíar eru sjúkir í bollurnar og borða þær mikið alveg frá því þær byrja að seljast og fram að bolludeginum.

Mér finnst sænsku bollurnar æðislegar. Deigið er eins og af gerbollunum sem við þekkjum, en þau setja mulda kardimommu út í bolludeigið sem mér finnst alveg svakalega gott. Á Íslandi erum við vön að borða bollurnar okkar með sultu, rjóma og glassúr, en Svíarnir borða sínar fylltar með möndlumassa og rjóma og strá flórsykri yfir. Ég man að mér fannst þessar sænsku bollur ekkert hljóma svakalega spennandi fyrst, en þær eru alveg gríðarlega góðar, ekkert síðri en þær sem við borðum heima.

IMG_2755.jpg

Möndlumassa kaupir maður tilbúinn úti í búð hérna í Svíþjóð, en þar sem hann fæst ekki tilbúinn á Íslandi ákvað ég að búa til ótrúlega góðan og einfaldan möndlumassa sjálf. Þeir sem ekki eiga matvinnsluvél eða góðan blandara geta líka rifið niður 400g af marsípani og blandað saman við 1 dl af jurtamjólk. Möndlumassi og marsípan er þó ekki alveg sami hluturinn, en marsípan inniheldur minna af möndlum og meiri af sykri. Ég er þó viss um að marsípan væri mjög gott í svona fyllingu.

IMG_2773.jpg

Ég notaði rjómann frá Alpro á bollurnar. Mér finnst hann rosalega góður, en hann verður ekki alveg jafn stífur og hefðbundinn rjómi. Ég er búin að lesa mikið um að fólk setji stundum pínulítið af lyftidufti út í hann þegar það þeytir og að það hjálpi honum að stífna, og ég var að spá í að prufa það í dag, en átti svo ekki til lyftiduft svo það verður að fá að bíða. Ef þið ákveðið að prufa væri ég mikið til í að heyra hvort það breytir einhverju.

IMG_2784-2.jpg

Uppskriftin af bollunum er ekkert smá einföld. Það er auðvitað hægt að sleppa kardimommunni ef þið viljið gera bollurnar eins og íslenskar rjómabollur, en ég mæli samt svo mikið með að prufa þessar sænsku. Eins og ég segi er uppskriftin ótrúlega einföld og það er ekkert mál að skella bara í tvö deig og gera bæði íslenskar og sænskar. Halló, bolludagurinn er einu sinni á ári, live a little!

Þegar ég var búin að baka bollurnar og mynda þær hljóp ég yfir til vinar míns sem er líka vegan. Þar sem kaffihúsin í Piteå bjóða ekki upp á vegan semlor þá datt mér í hug að hann yrði spenntur að fá tvær heimabakaðar. Ég viðurkenni að ég var mjög stressuð um að honum þætti þær ekkert spes og að ég þyrfti meiri æfingu til að geta gert góðar semlor sem stæðust væntingar svíana sem hafa borðað bollurnar alla ævi. Hann át þær báðar upp til agna og sagðist ekki hafa fengið svona góðar semlor í mörg ár og gaf þeim A+. Ég varð ekkert smá ánægð með þá einkunn.

IMG_2811-2.jpg

Ef þið gerið bollurnar okkar, værum við ekkert smá ánægðar ef þið sendið okkur myndir. Bolludagurinn hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér, ekki síst vegna þess að daginn eftir er sprengidagurinn, sem er bókstaflega uppáhalds dagurinn minn. Ég geri mér fulla grein fyrir því hvað það hljómar skringilega, komandi frá vegan manneskju, en mér finnst sprengidagssúpan alveg jafn góð vegan. Við erum með æðislega góða uppskrift af saltOumph! og baunum sem ég er ekkert smá spennt að elda næsta þriðjudag.

IMG_2825-2.jpg

Sænskar semlur

  • 2 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr smjörlíki

  • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk mulin kardimomma

  • 50 gr sykur

  • 250 gr hveiti

  • Smá jurtamjólk til að pensla með

Aðferð:

  1. Hitið mjólk og smjörlíki saman í potti þar til smjörlíkið hefur bráðnað og hrærið í á meðan. Hellið blöndunni svo í skál og leyfið að standa þar til hún er við líkamshita, eða um 37°c.

  2. Stráið þurrgerinu yfir ásamt 1 tsk sykri og leyfið að standa í 10 mínútur.

  3. Blandið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman. Ef deigið er of blautt blandið við það smá meira hveiti á meðan þið hnoðið þar til þið fáið rétta áferð. Deigið á að vera svolítið blautt, en þó auðvelt að að meðhöndla án þess að það sé festist við fingurna. Hnoðið deigið þar til það verður slétt og sprungulaust.

  4. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Passið að hafa bollurnar ekki of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. það komu 10 bollur úr uppskriftinni hjá mér í dag, en þær voru svona meðalstórar. Ég gerði aðeins minni bollur í fyrra og þá komu alveg 14 bollur hjá mér. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í allavega hálftíma í viðbót, penslið þær svo með plöntumjólk og bakið í 15 mínútur við 180°C.

Möndlumassi

  • 5 dl möndlumjöl

  • 3 dl flórsykur

  • 5 msk aquafaba (það er vökvinn sem fylgir með kjúklingabaunum í dós)

  • 2-3 msk plöntumjólk eða vegan rjómi

  • Pínu möndludropar. Ég setti í litlu kryddskeiðina mína sem er 1 ml

Aðferð:

  1. Hellið öllu í matvinnsluvél eða góðan blandara og blandið þar til mjúkt. Þetta á að vera þykkt, en þó auðvelt að meðhöndla.

  2. Leyfið að standa við stofuhita. Ég setti þetta strax í sprautupoka sem gerði það auðvelt að fylla bollurnar.

Bollan sett saman

  • Bollurnar

  • Möndlumassinn

  • 1 ferna Alpro jurtarjómi

  • Flórsykur

Til að setja saman bollurnar klippti ég þríhirning úr lokinu og tók aðeins innan úr. Svo sprautaði ég möndlumassa inn í, sprautaði svo þreyttum rjóma yfir, lagði lokið á og sigtaði flórsykur yfir. Það er að sjálfsögðu líka hægt að skera þær í tvennt, en svona gera Svíarnir þetta svo ég ákvað að slá til, mest upp á lúkkið hehe.

Vona innilega að ykkur líki vel <3
-Veganistur

Vegan marmarakaka

IMG_2419-3.jpg

Við fengum fyrirspurn fyrir nokkrum dögum um hvort við ættum uppskrift af vegan marmaraköku. Við áttum enga slíka uppskrift svo ég ákvað að slá til og prufa mig áfram með svoleiðis köku og í dag er ég komin með dásamlega góða uppskrift. Kakan er svo ótrúlega góð og er alveg dúnmjúk eins og mér þykir best. Okkur finnst svo skemmtilegt þegar þið sendið okkur hugmyndir af uppskriftum til að prufa. Mér finnst ég oft svo hugmyndasnauð og því er gott að fá smá extra hjálp við að koma sér af stað og reyna eitthvað nýtt.

IMG_2384.jpg

Mér finnst ótrúlega gaman að vera farin að prufa mig áfram með fleiri köku uppskriftir. Ég hef verið svolítið föst í því að baka alltaf það sama fyrir hvert tilefni, og það er þá yfirleitt súkkulaðikakan okkar eða gulrótarkakan. Báðar eru alveg dásamlega góðar, en mér finnst mjög skemmtilegt að hafa úr fleiru að velja. Í síðustu viku birti ég uppskrift af þessari dásamlegu vegan möndluköku og í dag er það þessi æðislega og einfalda marmarakaka. Nú held ég að ég þurfi að fara að skella í eitt risastórt kökuboð.

IMG_2392.jpg

Mér finnst marmarakaka vera hin fullkomna sunnudagskaka og hentar einnig vel að eiga í ísskápnum og fá sér yfir kaffibolla sem síðdegishressingu. Þetta er einmitt svona týpísk kaka sem amma okkar bar á borð með sídegiskaffinu þegar við vorum yngri.

IMG_2394-2.jpg

Eins og ég hef talað um áður er ég enginn bakarameistari og mér finnst mjög erfitt að gera fallega skreyttar kökur á mörgum hæðum (Júlía sér alfarið um svoleiðis meistaraverk). Þegar ég baka fyrir afmælisboð eða önnur tilefni enda ég yfirleitt á að baka kökur í einhverskonar eldföstu móti eða minni útgáfu af ofnskúffu, smyrja yfir þær kremi og skera í kassa. Því finnst mér alltaf svo gott að geta gert einfaldar uppskriftir sem þarf bara að skella í form og hafa litlar áhyggjur af. Þessi uppskrift er dæmi um slíka köku. Það er hægt að pensla yfir hana bræddu súkkulaði ef maður vill eftir að hún hefur kólnað, og leyfa því að harðna, en mér finnst best að hafa hana bara svona.

IMG_2397.jpg

Ég mun klárlega baka þessa köku reglulega. Hún er ekki bara þægileg til að eiga heima heldur líka til að taka með á kaffistofuna í vinnunni eða eitthvað því líkt. Það er auðvelt að skera hana og það þarf ekki diska eða gaffla til að borða hana. Það er líka svo gaman að bjóða fólki upp á bakkelsi sem sýnir að dýraafurðir eru engin nauðsyn þegar kemur að því að baka góðar kökur.

Mér þætti ótrúlega gaman að fá fleiri hugmyndir frá ykkur af uppskriftum til að prufa, hvort sem það er bakstur eða einhver annar matur. Við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Munið líka að tagga okkur á Instagram ef þið gerið uppskriftirnar okkar, það er eitt það skemmtilegasta sem við vitum og gefur okkur enn meiri innblástur til að vera duglegar að blogga.

IMG_2402-2.jpg

Marmarakaka

  • 150 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1,5 dl sykur

  • 4,5 dl hveiti

  • 1/4 tsk salt

  • 1,5 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 4,5 dl jurtamjólk (ég notaði Oatly ikaffe - ef þið notið þynnri mjólk myndi ég byrja á 4 dl og sjá svo hvort þarf meira. Áferðin ætti að vera eins og á myndunum hér að ofan)

  • 1 tsk vanilludropar (það passar líka fullkomlega að hafa kardimommudropa í staðinn fyrir vanillu)

  • 1,5 msk eplaedik

Það sem fer út í brúna deigið:

  • 4,5 tsk kakó

  • 1,5 tsk sykur

  • 1,5 msk kalt vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c - minn ofn er ekki með blæstri svo ég baka á undir- og yfirhita.

  2. Þeytið smjör og sykur þar til það er ljóst og létt.

  3. Sigtið saman við hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið út í mjólk, vanilludropum og eplaediki og þeytið þar til engir kekkir eru. Reynið þó að þeyta eins stutt og mögulegt er.

  4. Takið 1/3 deigsins frá og setjið í aðra skál. Bætið við það kakói, sykri og vatni og hrærið saman.

  5. Smyrjið formið (mitt form er 26 cm á lengd og þessi uppskrift passar fullkomlega í það)

  6. Hellið helmingnum af ljósa deiginu í formið. Bætið svo næstum öllu brúna deiginu ofan á og reistinni af ljósa deiginu ofan á það. Ég setti svo restina af brúna deiginu (sem var alls ekki mikið) ofan á í litlum klípum. Næst tók ég hníf og stakk ofan í kökudeigið og dró hann um til að mynda svona mynstur. Ég er alls enginn snillingur í þessu, en ég var nokkuð ánægð með útkomuna.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer örugglega mikið eftir því hvernig ofn notaður er og hvort fólk hefur blástur á eða ekki. Ég er búin að baka kökuna tvisvar og í bæði skiptin tók það akkúrat klukkutíma fyrir hana að verða tilbúna.

  8. Leyfið kökunni að kólna áður en hún er tekin úr forminu og skorin. Hún má auðvitað vera volg, en leyfið henni allavega að standa í nokkrar mínútur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur

Vegan möndlukaka

IMG_2362.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu möndluköku. Mamma sendi mér pakka í kringum jólin fullan af allskonar glaðningi frá Íslandi og það fylgdu möndludropar með. Mér fannst því tilvalið að útbúa vegan útgáfu af möndluköku þar sem mér þótti hún svo góð þegar ég var yngri. Eins og flestar af okkar köku uppskriftum er þessi virkilega einföld og inniheldur einungis hráefni sem flestir eiga eða geta auðveldlega nálgast. Það er eitthvað svo dásamleg tilfinning sem fylgir því að baka kökur sem maður vandist því að borða sem barn. Við systur fengum stundum möndluköku hjá ömmu þegar við vorum litlar og okkur þótti hún ótrúlega góð og ekki skemmdi fyrir hvað kremið var fallega bleikt.

IMG_2344.jpg

Ég er nýbúin í prófum og hef því lítið geta bloggað síðan um áramótin, en mér fannst þessi kaka fullkomin sem fyrsta uppskriftin á nýju ári. Það er mikið frost í Piteå þessa dagana og því fylgir dásamlega fallegt veður sem er virkilega frískandi ef maður klæðir sig rétt. Ég kemst í svo rómantískt skap þegar veðrið er svona fallegt og finnst því svo gott að taka mér góðan göngutúr með Sigga og gæða okkur svo á kaffibolla og einhverju góðu bakkelsi þegar við komum heim. Þessi kaka er bókstaflega fullkomin til þess þar sem það tekur enga stund að skella í hana. Svo er upplagt að leyfa henni að kólna á meðan maður fer í göngutúrinn og skella svo saman glassúrnum þegar heim er komið.

IMG_2348.jpg

Ég hef alltaf verið rosalega óörugg þegar ég baka því mér finnst svo óþægilegt þegar hlutir mistakast og ég veit ekki af hverju. Nú eru liðin nokkur ár síðan ég byrjaði að blogga og fór að baka meira en það lifir þó alltaf í mér þetta óöryggi frá því ég var unglingur. Meira að segja þegar ég var að prufa mig áfram með þessa köku sendi ég mömmu og Júlíu endalausar spurningar þó þær hafi ekkert útbúið þessa uppskrift (mamma hefur auðvitað oft bakað hefðbundna möndluköku). Þær reyndu þó sitt besta við að hjálpa mér og þegar ég loksins dreif mig í að prófa þá heppnaðist hún fullkomlega og allar þessar áhyggjur mínar til einskis eins og vanalega.

Vegna þess að ég hef sjálf oft verið óörugg við að baka þykir mér svo mikilvægt að hafa uppskriftir á blogginu sem allir geta bakað, bæði þeir sem hafa mikla reynslu af því að baka og þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref og hræddir við að klúðra einhverju. Við erum komnar með þónokkuð margar uppskriftir af dásamlega góðum kökum sem allir geta auðveldlega gert, súkkulaðiköku, eplaköku, möffins, gulrótarköku og fl. Ég hef boðið upp á margar af þessum kökum við allskyns tilefni og þær slá alltaf í gegn. Ég held að þessi muni því ekki valda ykkur vonbrigðum.

IMG_2363.jpg

Ég vil svo enda á að þakka ykkur fyrir allan stuðninginn á líðandi ári. Það er svo gaman að útbúa uppskriftir fyrir ykkur og við fáum svo mikið af fallegum skilaboðum og myndum frá fólki sem er að elda uppskriftir af blogginu. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi ári og hlökkum til að deila með ykkur fleiri skemmtilegum vegan uppskriftum. Við viljum líka minna á að okkur þykir ótrúlega gaman að fá hugmyndir af uppskriftum sem þið viljið sjá á blogginu, svo ekki hika við að heyra í okkur ef það er eitthvað.

IMG_2381-2.jpg

Möndlukaka

  • 1 dl sykur

  • 75 g smjörlíki við stofuhita

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 1 tsk möndludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 og 1/2 dl vegan mjólk (ég notaði Oatly ikaffe mjólkina)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c.

  2. Þeytið sykurinn og smjörlíkið saman með rafmagnsþeytara þar til það er létt og ljóst.

  3. Sigtið ofan í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið restinni af hráefnunum saman við.

  4. Blandið allt saman þar til það er laust við kjekki. Ekki þeyta of lengi samt.

  5. Smyrjið 20 cm smelluform með smjörlíki (Ég skar út smá smjörpappír og lagði í botninn til öryggis, en það er kannski óþarfi. Ég fjarlægði pappírinn svo þegar kakan var orðin köld). Kakan er passleg í 20 cm hringlaga form og ég mæli ekki með því að nota mikið stærra form því kakan gæti þá orðið mjög þunn. Ég ætla að prufa að gera eina og hálfa uppskrift við tækifæri og sjá hvernig það kemur út í stærra formi og ég bæti því þá hérna inn ef það heppnast vel.

  6. Bakið í 25-30 mínutur. Það fer svolítið eftir ofninum. Minn er t.d ekki með blæstri þannig ég bakaði kökuna á undir og yfir hita. Ég myndi allavega byrja að fylgjast með kökunni eftir 20 mínútur.

  7. Látið kökuna kólna áður en þið setjið glassúrinn á hana.



Glassúr

  • 3 dl flórsykur

  • 3 msk heitt vatn

  • 1 msk Ríbena (það er líka hægt að nota vegan rauðan matarlit. Venjulega er rauður matarlitur úr karmín sem er ekki vegan. Það er þó hægt að finna vegan matarlit en ég veit ekki alveg hvar. Mér finnst Ríbena passa fullkomlega)

  • Möndludropar eftir smekk (1/4 tsk fannst mér nóg)

Aðferð:

  1. Blandið saman vatni, möndludropum og Ríbena

  2. Hellið blöndunni saman við flórsykurinn og hrærið vel saman

  3. Ef glassúrinn er ekki nógu bleikur er hægt að bæta örlitlu ríbena í viðbót

  4. Hellið yfir kökuna og berið fram



Takk innilega fyrir að lesa og vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Íslenskar pönnukökur

IMG_4569-3.jpg

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

IMG_4597.jpg

Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri. 

IMG_4602.jpg

Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar. 

IMG_4599.jpg

Hráefni:

  • 8 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2,5 dl eplamauk

  • 100 gr brætt smjörlíki

  • 8-10 dl haframjólkin frá Heiðu

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.

  2. Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.

  3. Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.

Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út. 

-Veganistur

39295002_297353777512105_765831551215730688_n.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-

 

 

Eplakaka að hætti ömmu

IMG_1302.jpg

Þegar ég var yngri þótti mér ekkert betra en kökurnar hennar ömmu. Hún átti alltaf til nokkrar sortir í ísskápnum og nutum við Júlía þess mikið að vera hjá ömmu og afa yfir kaffitímann og borða yfir okkur af brauði og kökum. 

IMG_1230.jpg

Ein af kökunum sem ég borðaði oft hjá ömmu var eplakaka. Hún var í miklu uppáhaldi og mig hefur lengi langað að búa til vegan útgáfu af henni. Nú hef ég loksins látið verða að því og er mjög ánægð með útkomuna. Í kökuna nota ég aquafaba, sem er vökvinn sem fylgir kjúlingabaunum í dós. Vökvinn er próteinríkur og virkar eins og eggjahvítur í margar uppskriftir. Síðan baunavökvinn "uppgvötaðist" hefur verið ótrúlega skemmtilegt að prufa sig áfram með að nota hann í bakstur, og við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir þar sem hann kemur að góðum notum, meðal annars lakkrístoppa og lagtertu. 

IMG_1294.jpg

Ég hef verið að skora á sjálfa mig að baka meira, og það gengur vel. Í langan tíma var ég viss um að ég væri alveg vonlaus bakari og bakaði því ekkert nema súkkulaðikökuna okkar, því hún gæti eiginlega ekki verið einfaldari. Uppá síðkastið hef ég þó komist að því að ég er kannski ekki alveg jafn vonlaus og ég hélt, en ég minni sjálfa mig líka á að það er allt í lagi þó eitthvað misheppnist af og til. Ég er líka farin að prufa mig meira áfram með brauðbakstur og hlakka til að deila einhverjum góðum brauð uppskriftum með ykkur á næstunni. 

IMG_1351.jpg

Eplakaka

  • 3 dl hveiti

  • 2 dl sykur

  • 1 dl aquafaba (vökvinn af kjúklingabaunum í dós)

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk vanilludropar

  • örlitið salt

  • 75 gr smjörlíki (Bæði Krónusmjörlíki og Ljómasmjörlíki eru vegan og henta mjög vel í þessa köku)

  • 1 dl haframjólk

  • 1-2 epli

  • kanilsykur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 175°c

  2. Þeytið saman sykur og aquafaba í sirka 3 mínútur í hrærivél eða með rafmagnsþeytara, þannig það sé hvítt og svolítið froðukennt.

  3. Blandið saman í aðra skál hveiti, salti og lyftidufti.

  4. Bræðið smjörlíki og hellið því útí hrærivélaskálina, ásamt mjólkinni og þurrefnunum.

  5. Hrærið öllu saman þannig engir kekkir séu, en ekki hræra of mikið samt.

  6. Smyrjið form og leggið smjörpappír í botninn ef ykkur finnst það betra. Ég geri það oft til öryggis (mér hefur þótt best að nota 20 cm form og þessi uppskrift passar akkúrat í þá stærð).

  7. Flysjið eplið og skerið í þunnar sneiðar, raðið þeim á kökuna áður en hún fer í ofninn.

  8. Bakið í 30-40 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast. Minn er ekkert svakalega góður og hann hefur engan blástur, svo hún tekur kannski örlítið lengri tíma hjá mér, en ég bakaði hana í alveg 40 mínútur

  9. Ég beið með að strá kanisykrinum yfir þar til það voru sirka 15 mínútur í að kakan yrði tilbúin. Það fer algjörlega eftir smekk fólks hversu mikinn kanilsykur þarf, en ég var alls ekkert að spara hann.

  10. Berið fram með vegan þeyttum rjóma eða ís t.d

Vona að þið njótið :) 

Helga María 

Vegan möffins með súkkulaðibitum

IMG_8854-2.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift af gómsætum súkkulaðibita-möffins. Þessi uppskrift hefur verið í uppáhaldi hjá mér lengi og það var því löngu kominn tími til að skella henni hérna inná bloggið. Þessar möffinskökur minna mig á það þegar ég var barn. Í hvert sinn sem við fórum í ferðalög bakaði mamma möffins sem við tókum með okkur í gömlum Mackintosh stampi. Ég man hvað mér þótti það ótrúlega spennandi. Þessar möffinskökur vekja upp svipaða spennu hjá mér á meðan þær eru í ofninum.

IMG_8754.jpg

Kökurnar hef ég bakað í mörg ár og þær eru einmitt fullkomnar í ferðalagið, afmælisveisluna, brunchinn eða einfaldlega fyrir notalegan dag með fjölskyldunni. Uppskritin er virkilega auðveld og því tilvalin til að baka með krökkunum.  Ég man hvað mér þótti alltaf yndislegt að fá að taka þátt í möffinsbakstrinum með mömmu. 

Webp.net-gifmaker (3).gif

Uppskriftin er ekki einungis einföld, heldur innihalda kökurnar aðeins 7 hráefni sem flestir eiga til uppi í skáp. Þið sem hafið fylgt blogginu okkar í svolítinn tíma vitið að við erum ekki mikið fyrir flóknar uppskriftir sem innihalda alltof mörg hráefni sem enginn þekkir. Við elskum allt sem er einfalt og eru þessar möffins því lýsandi fyrir okkur. Þrátt fyrir einfaldleikann gefa kökurnar ekkert eftir hvað bragðið varðar. Þær eru dúnmjúkar að innan og undursamlega bragðgóðar. 

Þar sem ég fann engin falleg pappírsform fyrir kökurnar ákvað ég að prufa að útbúa mín eigin úr bökunarpappír. Siggi klippti niður fyrir mig sirka 13x13 cm arkir úr pappírnum. Ég mótaði þær með því að leggja þær yfir formin á möffins skúffunni og þrýsta þeim svo niður með bolla sem passaði akkúrat í hólfin. Formin komu mjög skemmtilega út og voru góð tilbreyting frá þessum hefðbundnu pappírsformum. 

IMG_8862-3.jpg

Hráefni:

  • 5 dl hveiti

  • 2 og 1/2 dl sykur

  • 1 msk lyftiduft

  • 2 tsk vanillusykur - eða vanilludropar

  • 100gr vegan smjör - Krónusmjörlíkið hentar mjög vel í þessa uppskrift

  • 3 og 1/2 dl Oatly haframjólk - hvaða jurtamjólk sem er ætti að þó að virka

  • 200gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  3. Bræðið smjörið og hellið því saman við mjólkina.

  4. Hellið blöndunni útí stóru skálina og hrærið vel saman. Ef þið eigið rafmagns handþeytara myndi ég nota hann en þar sem ég á eftir að útvega mér svoleiðis lét ég duga að nota hefðbundinn písk sem virkaði líka vel.

  5. Saxið niður súkkulaðið og hrærið því saman við deigið með sleif.

  6. Deilið deiginu í möffinsformin og bakið í sirka 12-18 mínútur. Ég myndi segja að það komi svona 9-15 kökur úr hverri uppskrift en það fer bara eftir því hversu stórar kökur þið gerið.

  7. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur áður en þær eru bornar fram. Mér þykja kökurnar bestar volgar með glasi af ískaldri Oatly haframjólk. Þær eru samt yndislega góðar líka kaldar.

Vona að þið njótið! :) 

Helga María