Vegan vanilluhringir

IMG_9973-3.jpg

Nú er desember genginn í garð og við getum glaðar sagt að við höfum beðið eftir þessum mánuði lengi. Ekki bara afþví við erum jólabörn heldur einnig vegna þess að nú er bókin okkar komin út. Bókin heitir Úr eldhúsinu okkar og er gefin út af Björt bókaútgáfu.
Við erum enn á fullu í skólanum að klára próf og verkefni annarinnar svo við reynum eftir bestu getu að halda okkur aðeins niðri á jörðinni en í raun erum við lengst uppi í skýjunum. Við höfum aldrei unnið jafn hart að neinu eins og bókinni okkar og við erum svo ótrúlega ánægðar með hana.

IMG_9959.jpg

En í dag ætlum við að deila með ykkur uppskrift af vanilluhringjum. Mamma okkar bakar alltaf svona smákökur og er uppskriftin okkar innblásin af hennar uppskrift. Eins og komið fram hefur áður erum við í samstarfi við Naturli í desember og þessi færsla er sú þriðja í því samstarfi. Smjörlíkið þeirra hefur reynst okkur gríðarlega vel í jólabakstrinum í ár. Smjörlíkið er 100% vegan, lífrænt og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði smjör sem er dásamlegt á brauð og heitir smörbar en svo nýlega hófu þau að framleiða smjörlíki til baksturs og steikingar en það heitir vegan block. Bæði eru þau dásamlega góð og mikið notuð á okkar heimilum.

IMG_9962-2.jpg

Upprunalega hugmyndin var að gera eina stóra smákökufærslu með nokkrum sortum en ég ákvað að gera frekar sér færslur fyrir hverja sort svo auðveldast sé að finna þær. Ég ákvað að byrja á vanilluhringjum og þeir eru ekkert smá góðir. Ég bakaði þá í fyrsta sinn um daginn og mamma var tilbúin í símanum og hjálpaði mér. Ég hélt þetta yrði alveg svakalega flókið en svo var þetta ekkert mál. Næsta sort kemur svo á bloggið á næstu dögum.

IMG_9969-3.jpg

Ég útvegaði mér hakkavél svo það yrði sem auðveldast að útbúa hringina. Ég viðurkenni að mér leið svolítið kjánalega í búðinni þegar ég keypti hakkavélina þar sem ég er vegan og hélt aldrei að ég myndi þurfa svoleiðis vél. Þið megið því endilega koma með skemmtilegar hugmyndir fyrir mig af einhverju sem hægt er að nýta vélina í hehe. Kannski hægt að útbúa í henni baunabuff eða eitthvað slíkt?

IMG_9971-2.jpg

Nú er aðeins að róast í skólanum hjá mér svo ef allt gengur upp þá mun ég ná að pósta uppskriftum af öðru en bara bakstri fyrir jólin. Ég ætla að gera mitt allra besta. Nú þegar erum við með allskonar skemmtilegar uppskriftir í veislu- og hátíðaréttir. Þar eru heitir brauðréttir, brauðtertur, tartalettur, innbakað Oumph og margt fleira. Það ættu allavega flestir að finna eitthvað við sitt hæfi á blogginu okkar og í bókinni. Okkur finnst eiginlega fátt skemmtilegra en að útbúa vegan hátíðarétti. Við vonum innilega að ykkur eigi eftir að líka vanilluhringirnir vel og endilega látið okkur vita ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu núna í desember.

IMG_9978-2.jpg

Vegan vanilluhringir (sirka fjórar plötur)

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1/4 tsk hjartasalt

  • 350 gr kalt Naturli smjörlíki

  • 3 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2-1 msk vegan mjólk

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  2. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í skálina ásamt restinni af hráefnunum.

  3. Hnoðið vel saman með höndunum.

  4. Plastið deigið inn og setjið í ísskáp í eina klukkustund.

  5. Hitið á meðan ofninn í 170°c.

  6. Setjið deigið í hakkavél og hafið stjörnuna á. Margir sem eiga hrærivélar eiga svona stykki sem hægt er að setja á og það virkar mjög vel líka. Ég las einhversstaðar að eins sé hægt að nota sprautupoka en þar sem deigið er hnoðað gæti það verið svolítið erfiðara.

  7. Útbúið lengjur og mótið hringi. Ég hef hverja lengju um 8-9 cm.

  8. Bakið í 7-10 mínútur. Passið að fylgjast vel með þeim eftir svona 7 mínútur svo þeir ofbakist ekki.

  9. Kælið vel áður en þeir eru settir í stamp eða skál.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

-Veganistur

 
naturlilogo.png
 


-þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-


Hvít lagterta með sultu

IMG_9934.jpg

Þá er komið að annarri uppskriftinni okkar í samstarfi við Naturli. Í þetta sinn deilum við með ykkur dásamlegri uppskrift af hvítri lagtertu. Lagtertan hefur ýmis nöfn, randalína, vínarterta, lagkaka og örugglega fleiri, en ég ákvað að hér skuli hún heita hvít lagterta.

Eins og við nefndum í síðustu færslu ætlum við að útbúa fjórar dásamlegar uppskriftir af jólabakstri þar sem við notum vegan smjörlíkið frá Naturli. Smjörlíkið er að sjálfsögðu vegan en það er líka lífrænt og útbúið úr Sea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar fullkomlega í bakstur og til steikingar. Mikilvægt er þó að ruglast ekki á hinu smjörinu þeirra (smörbar), en það er til að smyrja á brauð. Bæði smjörin og hinar vörurnar þeirra notum við gríðarlega mikið og erum við því ekkert smá ánægðar að vera í samstarfi við Naturli fram að jólum. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni, Melabúðinni og Fjarðarkaup.

Þegar ég byrjaði að vinna að uppskriftinni uppgvötaði ég að lagtertan hefur ekki bara ýmis nöfn, heldur er mjög mismunandi hvernig hún er gerð. Sumir vilja hana hrærða á meðan aðrir hafa hana hnoðaða og svo er hún ýmist smurð með rabbabarasultu, sveskjusultu, jarðarberjasultu, smjörkremi, smjörkremi og sultu, súkkulaðikremi… listinn heldur áfram.
Síðan ég flutti erlendis hef ég saknað rabbabarasultunnar mikið. Ég veit vel að ég gæti gert mína eigin en hef ekki enn komið mér í það. Ég var fremur ómöguleg yfir því að geta ekki notað hana í lagtertuna, en mamma huggaði mig með því að segja mér frá því að í okkar fjölskyldu hafi lengi verið hefð að nota jarðarberjasultu því hér áður fyrr var hún talin fínni og var því notuð til hátíðarbrigða. Ég jafnaði mig svo almennilega þegar ég smakkaði lagtertuna mína með jarðarberjasultunni því hún er ekkert smá góð.

IMG_9888.jpg

Mamma gerir alltaf hrærða lagtertu en tengdamamma hnoðaða svo ég prufaði að gera bæði og fannst hún koma betur út hjá mér hnoðuð. Þær voru báðar ótrúlega góðar en fannst hnoðaða aðeins meira skothelld. Ég nota aquafaba (kjúklingabaunavökva) í staðinn fyrir egg og það virkar mjög vel í þessa uppskrift. Aquafaba er vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós. Hann er sigtaður frá baununum og er próteinríkur og virkar því eins og eggjahvítur í margar uppskriftir.

IMG_9895.jpg

Ég vona að ykkur þyki þessi lagterta jafn góð og mér. Það eru mörg ár síðan ég smakkaði svona hvíta lagtertu síðast og ég saknaði hennar ekkert svakalega. Eins varð Siggi ekkert rosalega spenntur þegar ég sagði honum að ég ætlaði að baka svoleiðis fyrir bloggið. En við urðum bæði svo hissa þegar við smökkuðum kökuna því hún er svooo góð. Mér finnst hún alveg jafn góð og þessi brúna og mun héðan í frá baka báðar fyrir jólin.

IMG_9928-2.jpg

Þegar ég sit og skrifa þetta er Júlía stödd á bókamessunni í Hörpu að kynna bókina okkar sem kemur í búðir eftir tæpar tvær vikur. Ég viðurkenni að á svona stundum er erfitt að vera stödd í öðru landi og geta ekki tekið fyllilega þátt en ég er samt gríðarlega hamingjusöm og þakklát. Stundum vildi ég bara að ég gæti verið á mörgum stöðum í einu. Ég hlakka þó gríðarlega til að koma í janúar og halda útgáfuhóf og taka þátt í veganúar á Íslandi.

Hvít lagterta

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 250 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 1 tsk vanilludropar

  • 6 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi. Sjá útskýringu á því hvað það er hér að ofan)

  • 2 msk vegan mjólk

  • Sulta eftir smekk til að smyrja. Ég notaði jarðarberjasultu og það fóru sirka 400 gr alls á kökuna.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið þurrefnunum saman.

  3. Bætið mjólk, aquafaba og vanilludropum út í og myljið smjörlíkið út í.

  4. Hnoðið saman. Sjálf á ég ekki hrærivél svo ég notaði hnoðarana á rafmagnsþeytaranum til að koma deiginu aðeins saman og tók svo við með höndunum. Það er þó líklega þægilegast að nota hrærivél.

  5. Skiptið deiginu í akkúrat tvo hluta og fletjið þá út á tvær ofnplötur. Mínir botnar urðu sirka 28x32 cm hvor.

  6. Bakið botnanna í 20 mínútur. Ég fylgdist vel með þeim og þar sem ofninn minn er stundum svolítið lélegur og er ekki með blástur þá tók ég efri botninn út aðeins á undan hinum sem ég færði svo aðeins ofar í nokkrar mínútur.

  7. Leyfið botnunum að kólna og skerið þá svo í tvennt langsum (sjá mynd að ofan). Smyrjið botnanna og leggið þá saman.

  8. Ég gerði þau mistök þegar ég gerði kökuna fyrst að reyna að skera hana niður í sneiðar um leið og ég setti hana saman. Botnarnir voru þó svo harðir að sultan kreistist út til hliðanna og allt fór svolítið í klessu. Ég hringdi því í mömmu og tengdamömmu og fékk ráð. Kakan mýkist þegar hún fær að standa í svolitla stund og botnarnir draga í sig sultuna og þá er ekkert mál að skera hana. En til að fá sem fallegastar sneiðar bentu þær mér á að gott sé að skera kökuna hálf frosna. Það gerði ég í þetta sinn. Ég tók hana út frystinum um klukkustund áður en ég vildi skera hana niður. Þegar hún var hálf þiðnuð lagði ég hana upp á hlið og skar sneiðarnar svoleiðis. Þannig náði ég mjög fínum sneiðum.

Takk fyrir að lesa og njótið!
Veganistur

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-