Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-


Hvít lagterta með sultu

IMG_9934.jpg

Þá er komið að annarri uppskriftinni okkar í samstarfi við Naturli. Í þetta sinn deilum við með ykkur dásamlegri uppskrift af hvítri lagtertu. Lagtertan hefur ýmis nöfn, randalína, vínarterta, lagkaka og örugglega fleiri, en ég ákvað að hér skuli hún heita hvít lagterta.

Eins og við nefndum í síðustu færslu ætlum við að útbúa fjórar dásamlegar uppskriftir af jólabakstri þar sem við notum vegan smjörlíkið frá Naturli. Smjörlíkið er að sjálfsögðu vegan en það er líka lífrænt og útbúið úr Sea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar fullkomlega í bakstur og til steikingar. Mikilvægt er þó að ruglast ekki á hinu smjörinu þeirra (smörbar), en það er til að smyrja á brauð. Bæði smjörin og hinar vörurnar þeirra notum við gríðarlega mikið og erum við því ekkert smá ánægðar að vera í samstarfi við Naturli fram að jólum. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni, Melabúðinni og Fjarðarkaup.

Þegar ég byrjaði að vinna að uppskriftinni uppgvötaði ég að lagtertan hefur ekki bara ýmis nöfn, heldur er mjög mismunandi hvernig hún er gerð. Sumir vilja hana hrærða á meðan aðrir hafa hana hnoðaða og svo er hún ýmist smurð með rabbabarasultu, sveskjusultu, jarðarberjasultu, smjörkremi, smjörkremi og sultu, súkkulaðikremi… listinn heldur áfram.
Síðan ég flutti erlendis hef ég saknað rabbabarasultunnar mikið. Ég veit vel að ég gæti gert mína eigin en hef ekki enn komið mér í það. Ég var fremur ómöguleg yfir því að geta ekki notað hana í lagtertuna, en mamma huggaði mig með því að segja mér frá því að í okkar fjölskyldu hafi lengi verið hefð að nota jarðarberjasultu því hér áður fyrr var hún talin fínni og var því notuð til hátíðarbrigða. Ég jafnaði mig svo almennilega þegar ég smakkaði lagtertuna mína með jarðarberjasultunni því hún er ekkert smá góð.

IMG_9888.jpg

Mamma gerir alltaf hrærða lagtertu en tengdamamma hnoðaða svo ég prufaði að gera bæði og fannst hún koma betur út hjá mér hnoðuð. Þær voru báðar ótrúlega góðar en fannst hnoðaða aðeins meira skothelld. Ég nota aquafaba (kjúklingabaunavökva) í staðinn fyrir egg og það virkar mjög vel í þessa uppskrift. Aquafaba er vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós. Hann er sigtaður frá baununum og er próteinríkur og virkar því eins og eggjahvítur í margar uppskriftir.

IMG_9895.jpg

Ég vona að ykkur þyki þessi lagterta jafn góð og mér. Það eru mörg ár síðan ég smakkaði svona hvíta lagtertu síðast og ég saknaði hennar ekkert svakalega. Eins varð Siggi ekkert rosalega spenntur þegar ég sagði honum að ég ætlaði að baka svoleiðis fyrir bloggið. En við urðum bæði svo hissa þegar við smökkuðum kökuna því hún er svooo góð. Mér finnst hún alveg jafn góð og þessi brúna og mun héðan í frá baka báðar fyrir jólin.

IMG_9928-2.jpg

Þegar ég sit og skrifa þetta er Júlía stödd á bókamessunni í Hörpu að kynna bókina okkar sem kemur í búðir eftir tæpar tvær vikur. Ég viðurkenni að á svona stundum er erfitt að vera stödd í öðru landi og geta ekki tekið fyllilega þátt en ég er samt gríðarlega hamingjusöm og þakklát. Stundum vildi ég bara að ég gæti verið á mörgum stöðum í einu. Ég hlakka þó gríðarlega til að koma í janúar og halda útgáfuhóf og taka þátt í veganúar á Íslandi.

Hvít lagterta

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 250 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 1 tsk vanilludropar

  • 6 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi. Sjá útskýringu á því hvað það er hér að ofan)

  • 2 msk vegan mjólk

  • Sulta eftir smekk til að smyrja. Ég notaði jarðarberjasultu og það fóru sirka 400 gr alls á kökuna.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið þurrefnunum saman.

  3. Bætið mjólk, aquafaba og vanilludropum út í og myljið smjörlíkið út í.

  4. Hnoðið saman. Sjálf á ég ekki hrærivél svo ég notaði hnoðarana á rafmagnsþeytaranum til að koma deiginu aðeins saman og tók svo við með höndunum. Það er þó líklega þægilegast að nota hrærivél.

  5. Skiptið deiginu í akkúrat tvo hluta og fletjið þá út á tvær ofnplötur. Mínir botnar urðu sirka 28x32 cm hvor.

  6. Bakið botnanna í 20 mínútur. Ég fylgdist vel með þeim og þar sem ofninn minn er stundum svolítið lélegur og er ekki með blástur þá tók ég efri botninn út aðeins á undan hinum sem ég færði svo aðeins ofar í nokkrar mínútur.

  7. Leyfið botnunum að kólna og skerið þá svo í tvennt langsum (sjá mynd að ofan). Smyrjið botnanna og leggið þá saman.

  8. Ég gerði þau mistök þegar ég gerði kökuna fyrst að reyna að skera hana niður í sneiðar um leið og ég setti hana saman. Botnarnir voru þó svo harðir að sultan kreistist út til hliðanna og allt fór svolítið í klessu. Ég hringdi því í mömmu og tengdamömmu og fékk ráð. Kakan mýkist þegar hún fær að standa í svolitla stund og botnarnir draga í sig sultuna og þá er ekkert mál að skera hana. En til að fá sem fallegastar sneiðar bentu þær mér á að gott sé að skera kökuna hálf frosna. Það gerði ég í þetta sinn. Ég tók hana út frystinum um klukkustund áður en ég vildi skera hana niður. Þegar hún var hálf þiðnuð lagði ég hana upp á hlið og skar sneiðarnar svoleiðis. Þannig náði ég mjög fínum sneiðum.

Takk fyrir að lesa og njótið!
Veganistur

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-