Smákökur með tvöföldu súkkulaði og sjávarsalti

Það kemur örugglega engum á óvart að jólin eru uppáhalds tími ársins hjá okkur systrum og þá sérstaklega hvað varðar mat. Við systur erum búnar að eyða síðustu vikum í að prófa og mynda nýjar hátíðlegar uppskriftir og það mun svo sannarlega ekki vanta nýjar jólauppskriftir á blogginu hjá okkur í ár. Fyrsta hátíðlega færslan eru þessar ótrúlega góðu súkkulaðismákökur með tvöföldu súkkulaði.

Smákökurnar eru einskonar “brownie” smákökur og eru þær alveg stútfullar af súkkulaði, ótrúlega mjúkar og gómæstar. Þær eru nánast eins og gott konfekt og henta því einstaklega vel með kaffibollan eða jafnvel eftir góða máltíð.

Ég notaði cocospread súkkulaðismyrjuna frá violife í kökurnar sem gerir þær extra mjúkar og bragðgóðar, en síðan er stráð örlítið af sjávarsalti yfir hverja köku sem dregur enn frekar fram djúpa súkkulaðibragðið. Við mælum með að allir prófi þessar kökur og fylgist með okkur næstu vikur þar sem við munum birta mikið af nýjum uppskriftum.

Hráefni:

  • 1 dolla violife cocospread (150 gr)

  • 50 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 100 gr suðusúkkulaði

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðursykur

  • 2 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 2 msk kakóduft

  • 150 gr saxað suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða smjörlíki og 100 gr suðusúkkulaði í potti við lágan hita eða yfir vatnsbaði.

  2. Þeytið saman cocospread, sykur og púðursykur í hrærivél eða með handþeytara í 4-5 mínútur

  3. Hellið súkkulaðismjör blöndunni hægt út í sykurblönduna og hafið hrærivélina í gangi á meðan á lágri stillingu.

  4. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið síðan saman við blautu hráefnin.

  5. Saxið 150 gr af suðusúkkulaði og bætið út í deigið.

  6. Kælið deigið í að minnsta kosti 4 klst eða yfir nótt.

  7. Mótið í litlar kúlur og bakið við 180°C í 8-10 mínútur. Leyfið þeim að kólna á plötunni áður en þið takið þær af.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur á instagram þegar þið eruð að baka uppskriftirnar okkar. <3

- Færslan er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Nektarínu grillbaka á hvolfi

IMG_9450.jpg

Grill eftirréttir finnst mér alltaf jafn skemmtilegir. Ég hugsa að ég noti aldrei jafn mikið af ákvextum í eftirrétti og þegar ég er að gera rétt á grillinu. Grillaðir ávextir eru svo ótrúlega góðir og verða eitthvað svo extra sætir og safaríkir. Ég elska að henda banönum og ananas sneiðum á grillið og borða með góðum ís og kannski súkkulaði en það er svo þægilegur og einfaldur eftirréttur.

IMG_9442.jpg

Þessi baka er ekki síður auðveld og svo er hún svo ótrúlega falleg þegar búið er að hvolfa henni. Mesta snilldin við hana er að það er hægt að nota hvaða ávexti með hugurinn girnist. Mér finnst passa fullkomlega að nota epli, perur eða góð ber en í þetta skipti deili ég með ykkur uppskrift þar sem ég nota nektarínur. Það er hægt að fá nektarínur í öllum búðum akkúrat núna og þær passa svo vel í þennan rétt. Þær verða svo safaríkar og sætar þegar þær bakast á grillinu.

IMG_9445.jpg
IMG_9447.jpg

Þessi baka er einnig svo mikil snilld þar sem notast er við keypt deig og niðurskorna ávexti svo það er auðvelt að skera ávextina niður og setja í box, kaupa deigið og taka þetta með sér hvert sem er. Bakan er bökum í álbakka en það þarf að passa vel að kaupa ekki álbakka með götum því þá mun allur safi leka niður í grillið. Ég ber kökuna fram með góðm vegan ís en akkúrat núna er ísinn frá Jude´s sem fæst í Krónunni í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér svo ég notaðist við vanilluísinn frá þeim. Það má alveg vera með bragðmeiri ís með eða bæta jafnvel súkkulaði með í bökuna. Ef það er gert þarf að passa að setja súkkulaðið ekki neðst í bakkan því þá gæti það brunnið. Það er best að strá því yfir ávextina áður en deigið er sett yfir.

IMG_9451.jpg

Hráefni:

  • 5-6 nektarínur

  • 1 askja hindber

  • 1 askja brómber

  • 1/2 dl sykur

  • 1 pakki upprúllað smjördeig úr Krónunni.

Aðferð:

  1. Skolið og skerið niður nektarínurnar.

  2. Setjið alla ávextina í skál og stráið sykrinum yfir og blandið saman (þessu má alveg sleppa þar sem ávextirnir verða mjög sætir á grillinu. Mér finnst bakan þó verða extra gómsæt ef það er settur smá sykur).

  3. Hellið ávextunum í álbakka og dreifið vel úr.

  4. Rúllið út deiginu og stingið í það nokkur göt með gaffli. Leggið deigið yfir álbakkan og skerið meðfram bakkanum. Klemmið deigið aðeins við kanntana á bakkanum.

  5. Setjið grillið á meðallága stillingu og hafið grillið sem mest lokað á meðan bakan er á grillinu. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til deigið verður fallega gyllt að ofan.

  6. Takið bökuna af grillinu og leyfið henni að standa í 5-10 mínútur áður en henni er hvolft á disk. Best er að setja bakkan á stóran disk og setja annan stóran disk yfir og hvolfa bökunni þannig.

  7. Berið fram með góðum vegan ís eða vegan þeyttum rjóma.

-Njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Þessi uppskrift er ein af fyrstu vegan kökuuppskriftum sem við systur þróuðum og birti Helga hana fyrst fyrir mörgum árum á gömu bloggi sem hún var með. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag nota flestir okkar vina og fjölskyldumeðlima þessa uppskrift þegar þeir baka súkkulaðikökur þar sem þeim finnst ótrúlega þægilegt að geta boðið upp á köku sem hentar vegan fólki og er laus við flesta ofnæmisvalda.

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör í flestum búðum í dag og einnig er smjörlíki nánast alltaf vegan. Við notumst þó mest við smjörlíki í kremið þar sem það heldur vel stífleika og gerir smjörkremið fallegt og þægilegt að vinna með.

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  Flestir verða yfirleitt hissa yfir því hvað kökurnar eru mjúkar, sætar og gómsætar en verður þó yfirleitt mög hissa þegar það fær þau svör að kakan sé ekki endilega holl. Það er nefnilega ennþá mjög margir sem setja enn samansem merki á milli vegan og hollustu.

Svo ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur og hefur frá því að hún var lítil haft mjög gaman af því að skreyta kökur fallega og fylgja nýjustu “trendunum” í kökuskreytingum. Þeir sem hafa fylgst með blogginu í einhvern tíma muna líklegast vel eftir rósaköku myndunum sem voru áður við þessa uppskrift en var það mikið “trend” í kökuskreytingum þegar við útbjuggum hana fyrst. Nú hefur þó margt breyst og er mikið í tísku núna að gera háar fallegar kökur með súkkulaði sem lekur niður með hliðunum. Okkur fannst því nauðsynlegt að nýta tækifærið og uppfæra þessa vinsælu uppskrift með nýjum fallegum myndum.

Við bættum við súkkulaði ganache sem við notuðum sem fyllingu á milli kökubotnanna og til að láta leka fallega niður með hliðum kökunnar. Það þarf þó alls ekki að hafa það með og er kakan virkilega góð með smjörkreminu einu og sér. Við mælum þó með að allir prófi að setja ganache á milli með kreminu því það tekur kökuna alveg á næsta stig. Uppskriftin af því er að sjálfsögðu hér að neðan.

IMG_0212.jpg

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache
Höfundur: Veganistur
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 30 Min: 50 Min
Klassísku súkkulaðikökubotnarnir hafa verið ein vinsælasta uppskriftin okkar frá upphafi. Þessi uppskrift er fullkomin í afmæliskökuna, sem skúffukaka eða í muffinsform.

Hráefni:

Súkkulaðikökubotnar
  • 3 bollar hveiti
  • 2 bollar Dan sukker sykur
  • 1/2 bolli kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar vatn (eða 2 bollar kallt kaffi)
  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 msk eplaedik
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  • 400g smjörlíki eða vegan smjör við stofuhita
  • 500g Dan sukker flórsykur
  • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanilludropar
  • 50g suðusúkkulaðisúkkulaði
Súkkulaði ganache
  • 50 gr suðusúkkulaði eða það súkkulaði sem hver og einn kýs að nota.
  • 50 gr vegan þeytirjómi

Aðferð:

Súkkulaðikökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
  2. Blandið þurrefnum saman í skál
  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
  4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 20-24 cm hringlaga kökuform eða þrjú 15 cm kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti, lítilli skúffu eða sem bollakökur.
  5. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í botnana.
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er vel mjúkt og loftkennt.
  2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman.
  3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða.
  4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á.
  5. Ath. Ef gera á þriggja hæða köku og skreyta hana þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Okkur þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og ef það er afgangur þá frystum við það og notum seinna.
Súkkulaði ganache
  1. Brjótið súkkulaðið niður og skerið það í litla bita og setjið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  2. Vigtið rjómann og hellið honum út í skálina. Það er ekki sniðugt að slumpa þessa uppskrift þar sem við viljum fá ákveðna áferð á súkkulaðið svo hægt sé að vinna með það.
  3. Setjið súkkulaðið og rjóman í örbylgjuofn og hitið í 20 sekúndur. Takið út og hrærið til í skálinni. Setjið súkkulaði blönduna aftur í örbylgjuofn í 10 sekúndur í einu þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Það er best að hræra mjög vel í skálinni á milli þess sem blandan er hituð, helst með litlum sósupísk eða gaffli.
  4. Ef nota á ganache a milli botnanna er best að setja fyrst vel af smjörkremi á neðri botninn, dreifa vel úr því og búa síðan til holu í kremið í miðjunni. Ganache’ið þarf að fá að kólna aðeins og er honum síðan hellt í holuna og næsti botn settur yfir.
  5. Til að láta það lekur niður með hliðum kökunnar er mikilvægt að kæla kökuna tilbúna í allavega 30 mínútur áður. Leyfið einnig ganache’inum að kólna aðeins og prófið að láta það leka niður hliðina á glasi t.d. áður en þið byrjið á kökunni. Súkkulaði ganache’ið á að leka hægt og rólega niður glasið þegar það er tilbúið. Ef það lekur hratt í mjög mjórri bunu er það enn of heitt.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin við Nathan og Olsen -

download.png

Sítrónukaka með birkifræjum og rjómaostakremi

IMG_0099.jpg

LOKSINS er aðeins farið að birta til og vorið að koma, þó svo að það sé skítakuldi og smá snjór af og til. En þessi tími árs er í MIKLU uppáhaldi hjá mér, með meiri birtu og sól og sumarið einhvern vegin rétt handan við hornið.

Mér fannst því tilvalið að skella í eina sumarlega köku sem er að mínu mati fullkomin fyrir páskana líka. Hún er fallega gul og ótrúleqa fersk og góð á bragðið.

Ég hef mikið séð svona kökur á netinu og erlendis en ekki eins oft hérna á Íslandi og er því búin að vera að fullkomna vegan útgáfu af þessari köku. Það var þó smá bras að komast yfir birkifræ hér á andi en ég fann þau loksins í Krónunni. Það má þó alveg sleppa þeim í þessari uppskrift ef þau eru ekki til út í búð eða á heimilu fyrir. Ég mæli þó með að prófa að kaupa birkifræin og nota þau í kökuna en þau koma með skemmtilegt “twist” á áferðina og síðan eru þau fullkomin ofan á heimabakað brauð, þó svo að það sé annað mál.

kakan er í grunnin hin fullkomna vanillukaka og ef sleppt er sítrónunni og fræjunum er hægt að nota þessa uppskrift sem grunn í alls konar kökur. Í þessari útgáfu gefur sítrónusafinn og börkurinn ótrúlega ferkst og gott bragð og er kakan alveg ótrúlega sumarleg og góð. Hún passar að mínu mati líka fullkomlega með íslatte, ef við viljum missa okkur alveg í sumarfýlingnum.

IMG_0079.jpg

Sítrónubotnar með birki

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 5 1/2 dl plöntumjólk

  • 2 dl matarolía eða önnur bragðlaus olía

  • safi og börkur af 1 sítrónu

  • 2 msk eplaedik

  • 2-3 msk birkifræ

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 180 gráður.

  2. Byrjið á því að balnda saman í skál plöntu mjólkinni, sítrónusafanum og berkinum ásamt edikinu og leggið til hliðar.

  3. Hrærið þurrefnin saman í aðra skál, bætið síðan út í mjólkurblöndunni og olíunni og hrærið vel saman.

  4. Bætið birkifræunum saman við og hrærið aðeins.

  5. Skiptið í tvö 24 cm form eða þrjú 18 cm form og bakið í ofninum í 30 mínútur, eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í einn botninn.

Rjómaostakrem með sítrónu (miðað við þriggja hæða köku)

  • 250 gr hreinn vegan rjómaostur (t.d. oatly)

  • 400 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 pakkar flórsykur. (ég vil hafa kremið mjög stíft til að skreyta með því en þá minnka sykurinn ef hver og einn vill)

  • safi úr 1/2 sítrónu

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta smjörlíkið vel eitt og sér í hrærivél eða með handþeytara.

  2. Bætið rjómaostinum út í og þeytið vel saman við smjörlíkið.

  3. Bætið flórsykri út í ásamt sítrónusafanum og þeytið vel.

  4. Skreytið kökuna eins og hver og einn vill.

-Njótið vel og takk fyrir að lesa <3

Auðvelt foccacia brauð og fylltir smjördeigsnúðar │ Veganistur TV │ 5.þáttur

Auðvelt Foccasia brauð

  • 5 dl hveiti

  • 2 1/2 tsk þurrger

  • 1/2 tsk salt

  • 2 1/2 dl volgt vatn (sirka við líkamshita)

  • Filippo Berio Olífuolía

Aðferð:

  1. Setjið hveitið, þurrger og salt í stóra skál og hrærið aðeins saman.

  2. gerið holu í miðjuna á skálinni og hellið vatninu í holuna.

  3. Hrærið deiginu saman með sleif þar til allt er komið vel saman og ekkert þurrt hveiti er eftir í skálinni.

  4. Hellið smá ólífuolía í kringum deigið og flettið því aðeins í höndunum.

  5. Setjið plastfilmu, disk eða annað “lok” yfir skálinni (passa að hafa ekki alveg lofþétt lok") og geymið deigið í ísskáp í 10 til 12 tíma eða yfir nótt.

  6. Setjið ólífuolíu yfir deigið og hendurnar þegar það hefur fengið að hvíla nægilega lengi í ísskápnum og veltið því aðeins í skálinni og hellið því síðan í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn og leyfið því að hvíla í tvo til fjóra tíma eða þar til það hefur náð að fylla út í mótið eða pönnuna.

  7. Hellið olíu yfir deigið og hendur einu sinni enn og gerið “göt” hér og þar í deigið með fingrunum.

  8. Stráið vel af grófu salti yfir brauðið og bakið í 40 mínútur í 200°C heitum ofni eða þar til brauðið er orðið fallega gyllt að ofan.

  9. Leyfið brauðinu að kólna aðeins áður en það er skorið eða í allavega hálftíma.

  10. Brauðið má bera fram eitt og sér en þá má líka skera það þversum í gegn og nýta það í góðar samlokur.

  11. Einnig er gott að setja t.d. ólífur og sólþurrkaða tómata yfir deigið áður en það er bakað.

Fylltir smjördeigs snúðar með Oatly rjómaosti

  • Tilbúið vegan smjördeig (fæst bæði í kæli og í frysti)

  • 1 askja Oatly rjómaostur (Påmacken)

  • 1 tsk laukduft

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • örlítið salt

  • 2-3 msk saxaður ferskur graslaukur

  • 3-4 sveppir

  • 1 lúka klettasalat

Aðferð:

  1. Leyfið smjördeiginu aðeins að þyðna (ef notað er frosið deig þ.a.s.)

  2. Hrærið saman í skál rjómaostinum, hvítlauk, laukdufti, salti og graslauk.

  3. Saxið niður sveppina

  4. Smyrjið deigið með vel af rjómaostinum.

  5. Stráið sveppunum og klettasalatinu yfir degið.

  6. Rúllið deiginu upp og skerið í sirka 2 cm þykka bita.

  7. Raðið á ofnplötu með smjörpappír og ýtið aðeins ofan á snúðana með höndunum eða sleikju.

  8. Smyrjið snúðana með smá oatly mjólk og stráið yfir þá sesamfræum.

  9. Bakið í 200°C heitum ofni í sirka 20 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðin fallega gylltir.

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
Oatly_logo_svart.png
 
KRONAN-merki.png
 

Hollar prótein smákökur

Síðustu vikur (eða mánuði…) hef ég líkt og flestir verið mikið heima, mikið að vinna í tölvunni og dagarnir oft lengri en venjulega. Ég hef mikið verið að “mönnsa” og borða mishollan mat yfir daginn og þá sérstaklega þegar ég sit við tölvuna allan daginn. Matarræðið hefur því ekki alveg verið upp á tíu og ég enda oft á að borða mikið af óhollum mat, nammi, vegan bakkelsi og fleiru í þá áttinu. Ég ákvað því í síðustu viku að reyna að koma mér aðeins út úr því og reyna að búa til hollari valkosti heima til að borða í millimál og grípa í þegar mig langar í eitthvað við tölvuna yfir daginn. Ein af uppskriftunum sem ég er búin að vera að gera yfir daginn eru þessar hollu, góðu prótein smákökur sem er virkilega bragðgóðar og innihalda cookies and creme prótein sem passar fullkomlega með hinum hráefnunum. Þær eru mjög einfaldar og urðu til úr hráefnum sem ég átti bara hérna heima og eru hráefni sem flestir eiga í eldhúsinu. Þær uppfylla alveg þessar

Hráefni:

  • 1 bolli hafrar

  • 1 1/2 tsk lyftiduft

  • 2 skeiðar Cookies and Cream prótein frá PEAK (ég fékk mitt á TrueFitness.is)

  • 1 banani

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2 dl síróp

  • 1 dl haframjólk

  • 1 dl saxað súkkulaði

Aðferð:

  1. Malið hafrana í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að fínu mjöli

  2. Blandið höfrunum, lyftiduftinu og próteininu saman í skál

  3. Stappið bananan vel niður í mauk.

  4. Setjið restina af hráefnunum fyrir utan súkkulaðið út í þurrefnin og hrærið saman.

  5. Blandið súkkulaðinu út í deigið

  6. Skiptið í sex stórar kökur á bökunarpappír og smyrjið þær aðeins út þar sem kökurnar bráðna ekki út í ofninum líkt og hefðbundnar súkkulaðibitakökur.

  7. Bakið við 175°C í 12-14 mínútur.

Próteinið er gjöf frá TrueFitness.is

Crunchy rabbabarakaka

IMG_7957.jpg

Haustið og veturinn er líklegast minn uppáhalds tími hvað varðar mat. Það er ekkert betra en góðar súpur, kássur og haustlegar kökur og tengi ég haustið alltaf við slíkan mat. Nú þegar haustið er handan við hornið er þessi gómæsta rabbabarakaka hin fullkomna kaka fyrir kósý helgarbakstur eða sem eftirréttur í gott matarboð.

IMG_7887.jpg

Mér finnst rabbabari ótrúlega góður og fannst því fullkomið að gera mjúka rabbabara köku með “crunchy” toppi þessa vikuna. Það kom mér þó á óvart hversu erfitt er að finna rabbabara út í búð þar sem ég átti alls ekki í vandræðum með að þefa hann uppi hvar sem er þegar ég var barn.

IMG_7897.jpg
IMG_7901.jpg

Ég kíkti í Hagkaup en ég fékk skilaboð um að einhverjir hefðu séð hann þar fyrr í sumar en þau áttu hann ekki til ennþá. Ég fékk einhver skilaboð um að hann fengist í frú Laugu en ég kíkti ekki þangað þar sem mamma vinkonu minnar var svo góð að gefa mér einn poka sem hún átti í frysti.

Það er þó allt í góðu ef þú finnur ekki rabbabara eða jafnvel finnst hann ekki góður þar sem það má alveg nota aðra ávexti í staðinn. Epli passa til dæmis ótrúlega vel með þessari uppskrift og ég gæti trúað því að hindber eða bláber gætu gætu gert það líka en ég ætla klárlega að prófa það á næstunni.

Þessi kaka er því fullkomin grunnur til að leika sér með en ég elska slíkar uppskriftir. Kakan er bökuð í lítilli skúffu sem er 30x20 cm en það má líka baka hana í venjulega hringformi en þá þarf að helminga uppskriftina.

IMG_7952.jpg

Hráefni:

  • 150 gr niðurskorinn rabbabari

  • 1 dl sykur

  • 150 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 dl sykur

  • 5 dl hveiti

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

  • 5 dl mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 175° C

  2. Skerið rabbabaran í sneiðar og blandið einum dl af sykri saman við bitana. Setjið til hliðar á meðan deigið er undirbúið.

  3. Þeytið saman sykur og smjör með rafmagnsþeytara eða í hrærivél þar til létt og ljóst.

  4. Blandið þurrefnunum saman í annari skál og hellið út í smjörblönduna ásamt mjólkinni, edikinu og vanilludropunum.

  5. Hrærið saman þar til deigið er slétt og laust við kjekki. Ekki hræra deigið of lengi.

  6. Smyrjið form með smjörlíki, olíu eða setjið smjörpappír í botninn. Dreifið úr rabbabaranum í formið og hellið deiginu yfir. Útbúið haframjöls”crumble” og stráið yfir. Bakið í 40 mínútur þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Haframjöls”crumble”

  • 2 dl haframjöl

  • 1 dl hveiti

  • 1 & 1/2 dl púðursykur

  • 100 gr mjúkt vegan smjör eða smjörlíki

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál.

  2. Skerið smjörið í bita og hrærið saman við þurrefnin. Best er að nota bara hendurnar til að ná öllu saman í stóran “klump”. Deigið á að vera frekar þurrt og molna auðveldlega.

  3. Stráið yfir kökuna og bakið í 40 mínútur, þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Kökuna má bera fram heita, beint úr ofninum, með vegan ís eða rjóma eða kalda eina og sér eða með rjóma.

Njótið vel

Vegan marmarakaka

IMG_2419-3.jpg

Við fengum fyrirspurn fyrir nokkrum dögum um hvort við ættum uppskrift af vegan marmaraköku. Við áttum enga slíka uppskrift svo ég ákvað að slá til og prufa mig áfram með svoleiðis köku og í dag er ég komin með dásamlega góða uppskrift. Kakan er svo ótrúlega góð og er alveg dúnmjúk eins og mér þykir best. Okkur finnst svo skemmtilegt þegar þið sendið okkur hugmyndir af uppskriftum til að prufa. Mér finnst ég oft svo hugmyndasnauð og því er gott að fá smá extra hjálp við að koma sér af stað og reyna eitthvað nýtt.

IMG_2384.jpg

Mér finnst ótrúlega gaman að vera farin að prufa mig áfram með fleiri köku uppskriftir. Ég hef verið svolítið föst í því að baka alltaf það sama fyrir hvert tilefni, og það er þá yfirleitt súkkulaðikakan okkar eða gulrótarkakan. Báðar eru alveg dásamlega góðar, en mér finnst mjög skemmtilegt að hafa úr fleiru að velja. Í síðustu viku birti ég uppskrift af þessari dásamlegu vegan möndluköku og í dag er það þessi æðislega og einfalda marmarakaka. Nú held ég að ég þurfi að fara að skella í eitt risastórt kökuboð.

IMG_2392.jpg

Mér finnst marmarakaka vera hin fullkomna sunnudagskaka og hentar einnig vel að eiga í ísskápnum og fá sér yfir kaffibolla sem síðdegishressingu. Þetta er einmitt svona týpísk kaka sem amma okkar bar á borð með sídegiskaffinu þegar við vorum yngri.

IMG_2394-2.jpg

Eins og ég hef talað um áður er ég enginn bakarameistari og mér finnst mjög erfitt að gera fallega skreyttar kökur á mörgum hæðum (Júlía sér alfarið um svoleiðis meistaraverk). Þegar ég baka fyrir afmælisboð eða önnur tilefni enda ég yfirleitt á að baka kökur í einhverskonar eldföstu móti eða minni útgáfu af ofnskúffu, smyrja yfir þær kremi og skera í kassa. Því finnst mér alltaf svo gott að geta gert einfaldar uppskriftir sem þarf bara að skella í form og hafa litlar áhyggjur af. Þessi uppskrift er dæmi um slíka köku. Það er hægt að pensla yfir hana bræddu súkkulaði ef maður vill eftir að hún hefur kólnað, og leyfa því að harðna, en mér finnst best að hafa hana bara svona.

IMG_2397.jpg

Ég mun klárlega baka þessa köku reglulega. Hún er ekki bara þægileg til að eiga heima heldur líka til að taka með á kaffistofuna í vinnunni eða eitthvað því líkt. Það er auðvelt að skera hana og það þarf ekki diska eða gaffla til að borða hana. Það er líka svo gaman að bjóða fólki upp á bakkelsi sem sýnir að dýraafurðir eru engin nauðsyn þegar kemur að því að baka góðar kökur.

Mér þætti ótrúlega gaman að fá fleiri hugmyndir frá ykkur af uppskriftum til að prufa, hvort sem það er bakstur eða einhver annar matur. Við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Munið líka að tagga okkur á Instagram ef þið gerið uppskriftirnar okkar, það er eitt það skemmtilegasta sem við vitum og gefur okkur enn meiri innblástur til að vera duglegar að blogga.

IMG_2402-2.jpg

Marmarakaka

  • 150 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1,5 dl sykur

  • 4,5 dl hveiti

  • 1/4 tsk salt

  • 1,5 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 4,5 dl jurtamjólk (ég notaði Oatly ikaffe - ef þið notið þynnri mjólk myndi ég byrja á 4 dl og sjá svo hvort þarf meira. Áferðin ætti að vera eins og á myndunum hér að ofan)

  • 1 tsk vanilludropar (það passar líka fullkomlega að hafa kardimommudropa í staðinn fyrir vanillu)

  • 1,5 msk eplaedik

Það sem fer út í brúna deigið:

  • 4,5 tsk kakó

  • 1,5 tsk sykur

  • 1,5 msk kalt vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c - minn ofn er ekki með blæstri svo ég baka á undir- og yfirhita.

  2. Þeytið smjör og sykur þar til það er ljóst og létt.

  3. Sigtið saman við hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt og hellið út í mjólk, vanilludropum og eplaediki og þeytið þar til engir kekkir eru. Reynið þó að þeyta eins stutt og mögulegt er.

  4. Takið 1/3 deigsins frá og setjið í aðra skál. Bætið við það kakói, sykri og vatni og hrærið saman.

  5. Smyrjið formið (mitt form er 26 cm á lengd og þessi uppskrift passar fullkomlega í það)

  6. Hellið helmingnum af ljósa deiginu í formið. Bætið svo næstum öllu brúna deiginu ofan á og reistinni af ljósa deiginu ofan á það. Ég setti svo restina af brúna deiginu (sem var alls ekki mikið) ofan á í litlum klípum. Næst tók ég hníf og stakk ofan í kökudeigið og dró hann um til að mynda svona mynstur. Ég er alls enginn snillingur í þessu, en ég var nokkuð ánægð með útkomuna.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer örugglega mikið eftir því hvernig ofn notaður er og hvort fólk hefur blástur á eða ekki. Ég er búin að baka kökuna tvisvar og í bæði skiptin tók það akkúrat klukkutíma fyrir hana að verða tilbúna.

  8. Leyfið kökunni að kólna áður en hún er tekin úr forminu og skorin. Hún má auðvitað vera volg, en leyfið henni allavega að standa í nokkrar mínútur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur

Bláberjasæla

IMG_1739.jpg

Síðan skólinn byrjaði höfum við verið alveg á kafi og hefur bloggið því aðeins setið á hakanum í haust. Ég (Helga) byrjaði í bachelor námi í jazzsöng hérna í Piteå, sem hefur verið stór draumur síðan ég var barn. Það hefur verið æðislegt og ég get sagt að ég hef ekki verið svona hamingjusöm lengi. Á sama tíma hef ég þurft að læra að skipuleggja tímann minn upp á nýtt. Síðustu ár hef ég haft gríðarlega mikinn tíma og hef því getað ráðið því sjálf hvernig ég eyði deginum. Það hefur því orðið mikil breyting hjá mér síðustu mánuði, og ég er enn að læra að nýta tímann vel svo ég nái að koma öllu fyrir sem ég vil gera. Ég hef þó líka þurft að sætta mig við að ég get ekki endilega gert allt sem mig langar á hverjum degi. Ég viðurkenni að ég hef stundum verið svolítið svekkt yfir því og ég fæ oft samviskubit yfir því að geta ekki verið nógu dugleg í öllu sem ég vil. Í hinum fullkomna heimi myndi ég standa mig gríðarlega vel í skólanum, vera alltaf vel undirbúin þegar ég syng með tríóinu mínu, blogga einu sinni í viku, vera dugleg að pósta á Instagram, snappa, hreyfa mig, nota eins lítið plast og ég get, lesa meira… og listinn heldur áfram. Ég hef sem betur fer áttað mig á því að ég er að setja alltof mikla pressu á sjálfa mig, og er að vinna í því að sleppa tökunum aðeins svo ég nái að njóta þess sem ég er að gera. Það gengur svona misvel hjá mér, en ég finn að þetta er allt á réttri leið.

IMG_1709.jpg

Ég hef komist að því að þegar ég blogga ekki lengi missi ég allt sjálfstraust og mikla hlutina gríðarlega fyrir mér. Allt í einu finnst mér ég ekkert kunna að blogga lengur og fresta því endalaust að taka fram myndavélina og skella í einhverja gómsæta uppskrift. Í hvert skipti sem ég upplifi þetta þarf ekki meira til en að byrja á einni færslu og þá byrjar þetta að rúlla. Í gær ákvað ég að setjast niður og gera vikumatseðil og birta á blogginu. Það eitt og sér var nóg til þess að kveikja í mér. Þegar ég vaknaði í morgun komst ekkert annað að en þessi dásamlega bláberjasæla sem ég hef ætlað mér að birta hérna á blogginu í sirka tvær vikur. Ég rauk fram úr og hófst handa. Ég mundi strax af hverju ég blogga, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og ég gleymi stund og stað á meðan. Allar áhyggjur af prófum, tónleikum og verkefnum hurfu á meðan ég bakaði og myndaði og það er akkurat það sem ég þurfti á að halda eftir annasamar vikur.

Uppskriftin af bláberjasælunni er ótrúlega einföld, eins og flest sem við deilum hérna á blogginu. Hún bragðast dásamlega, fyllir húsið guðdómlegum ilmi og gefur fullkominn haustfíling. Sælan minnir vissulega svolítið á hjónabandssælu, en þar sem ég nota bláber er hún ekki alveg eins. Ég leyfði henni að kólna alveg áður en ég bar hana fram, aðallega svo ég gæti auðveldlega skorið hana fyrir myndatökuna. Þó er líka hægt að bera hana fram volga og þá er æðislegt að hafa þeyttan soja- eða kókosrjóma eða vegan ís með.

IMG_1725.jpg

Bláberjablanda:

(ATH: bollin sem ég notaði er 2,5 dl)

  • 680 gr frosin bláber

  • Safi úr einni sítrónu

  • 1/2 bolli sykur

  • 2 msk hveiti

  • 1 msk maíssterkja

Krömbl:

  • 3 bollar hveiti

  • 3 bollar haframjöl

  • 2 bollar púðursykur. Ég pressaði hann lauslega

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 og 1/2 bolli smjörlíki. Ég bræddi 1 bolla og blandaði saman við deigið og muldi svo niður 1/2 bolla af köldu smjörilíki og hnoðaði saman við með höndunum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C

  2. Leyfið bláberjunum að þiðna alveg og hellið þeim svo í sigti til að losna við allan auka vökva. Ég kreisti berin einnig örlítið í sigtinu til að taka af smá af safanum, samt bara aðeins.

  3. Blandið berjunum saman við restina af hráefnunum fyrir berjablönduna í blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota. Blandann verður svolítið þunn, en hún mun þykkna í ofninum.

  4. Blandið saman þurrefnunum fyrir krömblið og hellið svo útí bráðna smjörinu og blandið saman með sleif. Brjótið svo út í kalda smjörið og hnoðið saman með höndunum. Ef ykkur finnst deigið mjög þurrt mæli ég með að bæta við örlitlu smjöri.

  5. Hellið tveimur þriðju af deiginu í eldfast mjót og pressið því í botninn. Ég lagði bökunarpappír í formið mitt svo það væri auðveldara að ná sneiðunum upp úr. Eldfasta mótið sem ég notaði er 21x31 cm.

  6. Bakið botninn í 10 mínútur og takið svo út.

  7. Hellið bláberjablöndunni yfir og myljið svo restina af krömblinu yfir.

  8. Bakið í 25-30 mínútur

  9. Hægt er að bera þetta fram volgt, en ef þið viljið ná fallegum sneiðum úr þessu mæli ég með því að leyfa sælunni að kólna.

Vonum að þið njótið :)

veganisturundirskrift.jpg

Íslenskar pönnukökur

IMG_4569-3.jpg

Þessi færsla er gerð í samstarfi við Heiðu, fyrstu íslensku jurtamjólkina og jafnframt því fyrstu fersku jurtamjólkina sem seld er á landinu. Mjólkin er úr höfrum og er hituð á lægra hitastigi en önnur jurtamjólk sem gerir hana enn bragðbetri og gæðameiri. Þar sem mjólkin er ferskvara er mikilvægt að geyma hana í kæli. Heiða fæst bæði ósæt og með örlítill sætu, er undursamlega rjómakennd og bragðgóð og við mælum eindregið með því að styrkja íslenska framleiðslu þar sem hún er mun umhverfisvænni fyrir vikið. Heiða fæst í öllum helstu matvörubúðum landsins.

IMG_4597.jpg

Okkur fannst tilvalið að útbúa klassíska íslenska uppskrift úr mjólkinni og það kom ekkert annað til greina en ekta íslenskar pönnukökur. Við höfum það sem hefð að baka eitthvað gott um helgar. Það er svo róandi að taka sér tíma í eldhúsinu á laugardags- eða sunnudagsmorgni, hlusta á skemmtilegt hlaðvarp og baka eitthvað gómsætt sem fyllir íbúðina góðum ilmi. Við vorum lengi smeykar við að baka íslenskar pönnsur og gerðum alltaf þessar þykku amerísku, sem varla er hægt að klúðra. Það var því ekki fyrr en mamma tók sig til og bakaði vegan útgáfu af íslenskum pönnukökum handa Helgu, sem við áttuðum okkur á því að þessar íslensku eru eiginlega ómissandi og auðveldar í bakstri. 

IMG_4602.jpg

Þessi uppskrift er æði og á mamma okkar heiðurinn af henni. Við elskum að rúlla þeim upp með sykri eða fylla þær af þeyttum vegan rjóma og sultu. Að þessu sinni útbjó Júlía súkkulaðisósu sem hún stráði yfir ásamt ferskum jarðarberjum og flórsykri. Þetta kom ekkert smá vel út. Heiða var alveg fullkomin í baksturinn og það er yndislegt að geta loksins keypt íslenska jurtamjólk sem er dásamlega bragðgóð og ekki skemmir fyrir hvað umbúðirnar eru fallegar. 

IMG_4599.jpg

Hráefni:

  • 8 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2,5 dl eplamauk

  • 100 gr brætt smjörlíki

  • 8-10 dl haframjólkin frá Heiðu

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnum saman í skál.

  2. Bætið við mjólkinni, brædda smjörlíkinu, eplamaukinu og vanilludropunum.

  3. Steikið á háum hita upp úr smá smjörlíki.

Berið fram með því sem ykkur lystir. Júlía bræddi súkkulaði og blandaði saman við örlita mjólk og helti yfir pönnsurnar sínar. Það kom mjög vel út. 

-Veganistur

39295002_297353777512105_765831551215730688_n.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Heiðu-