Kanilsnúðar með eplum og rjómaostakremi

IMG_2371-4.jpg

Hæ! :)

Ég vona að þið hafið það gott. Hérna í Piteå er allt á kafi í snjó og kuldinn yfirleitt í kringum mínus 10 gráður. Ég nýt vetrarins í botn og finnst snjórinn gera allt svo fallegt. Á köldum vetrardögum sem þessum finnst mér fátt betra en að baka eitthvað gott og bjóða vinum í kaffi. Ég bý á stúdentagörðum svo vinirnir búa allir annað hvort í sama húsi eða í húsunum í kring, svo hjá mér er yfirleitt opið hús og eitthvað bakkelsi í boði.

Uppskrift dagsins er einmitt tilvalið að baka þegar von er á gestum í kaffi. Þessir kanilsnúðar eru ekki bara kanilsnúðar, heldur eru epli í fyllingunni og ofan á er svo rjómaostakrem og ristaðar möndlur. Ég held ég hafi sjaldan bakað eitthvað jafn gott.

IMG_0002-9.jpg

Ég hef ekki gert bloggfærslu síðan í sumar. Lífið mitt tók miklum breytingum í byrjun haustsins og ég þurfti að taka mér smá pásu í kjölfarið. Nú er ég þó virkilega spennt að koma til baka og fannst tilvalið að byrja á þessum dúnmjúku snúðum, þeir eru algjört sælgæti. Ég bauð vinum mínum, Hans og Malin. uppá kaffi og snúða um helgina. Þau gáfu þeim heldur betur góð meðmæli; “Helga, þessir snúðar eru betri en kynlíf” sagði Malin og Hans bætti við “Já, Helgaaaa, þetta eru bestu snúðar sem ég hef nokkurntíman smakkað!!” Það er ekkert annað hehe.

IMG_0004-6.jpg

Ég get ekki lofað ykkur að snúðarnir séu betri en kynlíf en góðir eru þeir!

IMG_0008-2.jpg

Í nokkrar vikur hefur mig langað að baka eitthvað gott með eplum. Það var svo einn morguninn sem mér datt í hug að útbúa kanilsnúða og hafa epli í fyllingunni og vissi ég vildi hafa möndlur með, annað hvort í fyllingunni eða ofan á. Ég ákvað á endanum að rista möndluflögur og strá ofan á eftir að þeir komu úr ofninum og útkoman var akkúrat eins og ég hafði vonað. Það er örugglega líka mjög gott að saxa niður möndlur og hafa í fyllingunni.

Ef ykkur þykja epli ekki góð er auðvitað ekkert mál að sleppa þeim. Það er líka hægt að nota hugmyndaflugið og gera einhverja nýja og spennandi fyllingu. Hvítt súkkulaði og appelsínufylling hljómar t.d. mjög vel finnst mér hehe.

IMG_0011-3.jpg

Ég held ég verði að sækja mér einn snúð úr frystinum og borða á meðan ég skrifa þessa færslu heh.

Rjómaostakremið er svo punkturinn yfir i-ið að mínu mati. Það gerir snúðana extra safaríka og góða. Já, ég skrifaði hér að ofan að þeir séu algjört sælgæti, ég meinti það bókstaflega. Gott bakkelsi er mitt uppáhalds nammi!

IMG_2363.jpg

Kanilsnúðar með eplum og rjómaostakremi

Snúðarnir:

  • 8-10 dl hveiti (byrjið á 8 og bætið svo við eftir þörfum)

  • 1 pakki þurrger

  • 1 og 1/2 dl sykur

  • örlítið salt

  • 5 dl plöntumjólk

  • 100 gr smjörlíki

  • 1 tsk kardimommudropar

Aðferð:

  1. Bætið öllum þurrefnum í stóra skál

  2. Bræðið smjörlíki í potti og bætið mjólkinni saman við. Mjólkin þarf ekki að hitna mikið, heldur vera við líkamshita.

  3. Hellið blöndunni saman við þurrefnin ásamt kardimommudropum

  4. Bætið við meira hveiti ef þarf. Ég held ég hafi á endanum notað um 9 dl. Deigið má ekki vera of þurrt, þið eigið að geta stunduð hreinum fingri ofan í án þess að deig klessist við hann. Hnoðið deigið létt.

  5. Leyfið deiginu að hefast í klukkutíma í skál með viskustykki eða plastfilmu yfir.

  6. Skiptið deiginu í tvennt og fletjið út hvern helming fyrir sig. Smyrjið fyllingunni á, rúllið upp og skerið niður.

  7. Leggið snúðana í eldföst mót eða í tvær ofnskúffur, leggið plastfilmu eða viskustykki yfir og látið þá hefast aftur í klukkutíma.

  8. Hitið ofninn á meðan í 200°c. Minn ofn er ekki með blástur svo ég nota undir og yfir hita.

  9. Bakið snúðana í 12-15 mínútur.

  10. Pennslið snúðana með sykurlagi um leið og þið takið þá út. Sykurlagið er gert með því að blanda 1 dl sykri og 1 vatni saman svo að sykurinn leysist upp í vatninu.

  11. Smyrjið rjómaostakreminu yfir. Ég ristaði möndluflögur á pönnu og setti yfir líka. Mér fannst það koma mjög vel út.

Fylling:

  • 200 gr smjörlíki við stofuhita

  • 1 og 1/2 dl púðursykur

  • 1 msk flórsykur

  • 2 msk kanill plús aðeins meira til að strá yfir eplin

  • Epli eftir smekk. Ég skar niður 2 frekar lítil

Aðferð:

  1. þeytið allt saman (fyrir utan eplin)

  2. Skerið niður eplin

Rjómaostakrem:

  • 150 gr vegan rjómaostur (Ég notaði påmackan frá Oatly)

  • 100 gr smjörlíki

  • 250 - 300 gr flórsykur

  • 1 msk vanillusykur

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörlíki og rjómaost.

  2. Bætið saman við flórsykri og vanillusykri og þeytið þar til úr verður mjúkt krem.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið

Helga María

Crunchy rabbabarakaka

IMG_7957.jpg

Haustið og veturinn er líklegast minn uppáhalds tími hvað varðar mat. Það er ekkert betra en góðar súpur, kássur og haustlegar kökur og tengi ég haustið alltaf við slíkan mat. Nú þegar haustið er handan við hornið er þessi gómæsta rabbabarakaka hin fullkomna kaka fyrir kósý helgarbakstur eða sem eftirréttur í gott matarboð.

IMG_7887.jpg

Mér finnst rabbabari ótrúlega góður og fannst því fullkomið að gera mjúka rabbabara köku með “crunchy” toppi þessa vikuna. Það kom mér þó á óvart hversu erfitt er að finna rabbabara út í búð þar sem ég átti alls ekki í vandræðum með að þefa hann uppi hvar sem er þegar ég var barn.

IMG_7897.jpg
IMG_7901.jpg

Ég kíkti í Hagkaup en ég fékk skilaboð um að einhverjir hefðu séð hann þar fyrr í sumar en þau áttu hann ekki til ennþá. Ég fékk einhver skilaboð um að hann fengist í frú Laugu en ég kíkti ekki þangað þar sem mamma vinkonu minnar var svo góð að gefa mér einn poka sem hún átti í frysti.

Það er þó allt í góðu ef þú finnur ekki rabbabara eða jafnvel finnst hann ekki góður þar sem það má alveg nota aðra ávexti í staðinn. Epli passa til dæmis ótrúlega vel með þessari uppskrift og ég gæti trúað því að hindber eða bláber gætu gætu gert það líka en ég ætla klárlega að prófa það á næstunni.

Þessi kaka er því fullkomin grunnur til að leika sér með en ég elska slíkar uppskriftir. Kakan er bökuð í lítilli skúffu sem er 30x20 cm en það má líka baka hana í venjulega hringformi en þá þarf að helminga uppskriftina.

IMG_7952.jpg

Hráefni:

  • 150 gr niðurskorinn rabbabari

  • 1 dl sykur

  • 150 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 dl sykur

  • 5 dl hveiti

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

  • 5 dl mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 175° C

  2. Skerið rabbabaran í sneiðar og blandið einum dl af sykri saman við bitana. Setjið til hliðar á meðan deigið er undirbúið.

  3. Þeytið saman sykur og smjör með rafmagnsþeytara eða í hrærivél þar til létt og ljóst.

  4. Blandið þurrefnunum saman í annari skál og hellið út í smjörblönduna ásamt mjólkinni, edikinu og vanilludropunum.

  5. Hrærið saman þar til deigið er slétt og laust við kjekki. Ekki hræra deigið of lengi.

  6. Smyrjið form með smjörlíki, olíu eða setjið smjörpappír í botninn. Dreifið úr rabbabaranum í formið og hellið deiginu yfir. Útbúið haframjöls”crumble” og stráið yfir. Bakið í 40 mínútur þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Haframjöls”crumble”

  • 2 dl haframjöl

  • 1 dl hveiti

  • 1 & 1/2 dl púðursykur

  • 100 gr mjúkt vegan smjör eða smjörlíki

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál.

  2. Skerið smjörið í bita og hrærið saman við þurrefnin. Best er að nota bara hendurnar til að ná öllu saman í stóran “klump”. Deigið á að vera frekar þurrt og molna auðveldlega.

  3. Stráið yfir kökuna og bakið í 40 mínútur, þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Kökuna má bera fram heita, beint úr ofninum, með vegan ís eða rjóma eða kalda eina og sér eða með rjóma.

Njótið vel

Vegan rjómaterta með jarðarberjum

IMG_1865-4.jpg

Hæ. Vonandi hafiði það gott.

Hérna í Piteå er svo sannarlega komið sumar. Sólin hefur skinið daglega síðustu vikur sem bætir svo sannarlega upp fyrir myrkrið sem ríkir hérna á veturna. Í gær fór hitinn upp í þrjátíu stig og bærinn safnaðist saman við vatnið og fólk ýmist baðaði sig eða lá og sólaði sig. Eiginlega ættum við Siggi að vera á Íslandi. Við hlökkuðum mikið til að eyða sumrinu saman á Íslandi í fyrsta skipti í mörg ár, en í kjölfar aðstæðna breyttust plönin og við verðum hér í staðinn. Löngu hlýju sólardagarnir eru svolítil huggun og við ætlum að njóta sumarsins hérna eins vel og við getum.

Á miðvikudaginn er 17. júní og í tilefni af því deili ég með ykkur hinni fullkomnu sumarköku með jaðrarberjarjóma sem tilvalið er að baka fyrir fjölskyldu og vini á þjóðhátíðardaginn. Botninn er dúnmjúkur og hentar í allskonar ljósar tertur en ég ákvað í þetta sinn að gera jarðarberjarjómakrem og úr varð besta rjómaterta sem ég hef bakað.

IMG_1725-2.jpg

Þessi kökubotn er að mínu mati hinn fullkomni ljósi botn. Hægt er að gera úr honum ótrúlega margar góðar kökur, eins og möndluköku, eplaköku, sjónvarpsköku og allskonar rjómatertur. Núna eru búðirnar fullar af gómsætum nektarínum svo ég er að spá í að prófa að gera nektarínuköku á næstunni.

IMG_1728.jpg

Ég var lengi að velta því fyrir mér hvernig ég vildi hafa tertuna og ætlaði fyrst að gera hana svakalega flotta á mörgum hæðum. Eftir þvi sem ég velti þessu lengur fyrir mér hallaðist ég frekar að því að gera köku í skúffuforminu mínu. Í hvert skipti sem ég baka fyrir veislur nota ég þetta form. Mér finnst það mun hentugara. Bæði er það fljótlegra og einfaldara og svo er bæði þægilegra að skera kökuna í sneiðar og að borða hana. Formið sem ég nota er 42x29x4 cm að stærð og er nákvæmlega eins og þetta form sem fæst í Byggt og búið. Það hefur reynst mér svo vel við baksturinn og ég elska smellulokið á því sem gerir það virkilega þægilegt að taka köku með sér eitthvert. Ef þið viljið baka kökuna í hringlaga formi myndi ég giska á að það sé best að skipta deiginu í tvö 24 cm form.

Jarðarberjarjómakremið er svo gott að ég gæti borðað það með skeið. Í rauninni fannst mér það svo gott að ég frysti smá part af því akkúrat til að borða með skeið heh. Mig langaði að sjá hvernig það kæmi út fryst og hvort það mögulega gæti gengið sem fylling í frysta ostaköku og það gerir það svo sannarlega. Með þvi að bæta við einum rjómaosti í viðbóð yrði þetta fullkomin fryst sumarleg ostakaka. Til að kremið þeytist sem best mæli ég með þeytirjómanum frá Aito. Hann þeytist svakalega vel og heldur forminu. Alpro rjóminn virkar líka og kremið er alveg jafn gott með honum, en mér finnst formið ekki verða jafn flott. Aito fæst í Bónus og Krónunni.

IMG_1815-5.jpg

Með því að baka kökuna í skúffuforminu þarf ekkert að gera til að skreyta hana annað en að smyrja rjómanum á og toppa með ferskum jarðarberjum, eða öðrum ávöxtum ef maður vill. Margra hæða rjómatertur eru sannarlega fallegar og myndast dásamlega vel, en ég vel yfirleitt þægindi fram yfir útlit. Að baka kökuna svona gerir það að verkum að hún er virkilega einföld og engin hætta á að hún mistakist eða líti ekki jafn vel út og maður ætlaði sér.

Mér hefur líka þótt þægilegt þegar ég býð fólki uppá köku að geta skorið niður í minni sneiðar, sérstaklega þegar ekki er til nóg af diskum og maturinn borðaður af servíettum.

Ég er virkilega ánægð með þessa gómsætu vegan rjómatertu. Mig langaði að hafa hana hátíðlega og það tókst algjörlega að mínu mati. Ég hef aldrei verið aðdáandi af gamaldags tertum með niðursoðnum ávöxtum og vildi því gera tertu sem ég sjálf myndi glöð borða. Fersk sumarjarðarber virkilega geta ekki klikkað að mínu mati.

IMG_1867-3.jpg

Rjómaterta með jarðarberjum

Hráefni:

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 7,5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 2 dl rapsolía eða önnur bragðlaus olía

  • 1,5 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí og hrærið saman þar til engir kekkir eru.

  4. Klæðið formið með bökunarpappír. Mér finnst gott að smyrja smá smjörlíki í botninn og hliðarnar og þá festist bökunarpappírinn vel við formið. Eins og ég tók fram hér að ofan nota ég form sem er 42x29x4 cm.

  5. Hellið deiginu út í formið og bakið í miðjum ofni í 30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út þegar þið stingið í hana. Ég myndi kíkja á hana eftir 25 mínútur.

  6. Látið kökuna kólna alveg áður en þið setjið kremið á hana.

Jarðarberjakrem:

  • 500 gr. fersk jarðarber (þegar ég prufubakaði kökuna fann ég hvergi fersk ber og notaði því frosin sem ég leyfði að þiðna fyrst og það var líka mjög gott)

  • 1 ferna þeytirjómi frá Aito (það virkar líka að nota þann frá Alpro en Aito þeytist mun betur að mínu mati)

  • 2 tsk sítrónusafi

  • 1 dolla Oatly rjómaostur (påmackan)

  • 2 dl flórsykur

  • 2 msk vanillusykur

Aðferð:

  1. Mér finnst gott að gera kremið frekar tímanlega þannig að það getið fengið að standa í kæli í allavega klukkutíma. Það er jafnvel sniðugt að byrja kannski á kreminu en annars dugir að gera það um leið og kakan fer í ofninn og hafa það í ísskápnum þar til kakan hefur kólnað.

  2. Hellið rjómanum og sítrónusafanum í skál og þeytið í hrærivél eða rafmagnsþeytara þar til rjóminn er orðinn þykkur. Setjið hann í ísskápinn á meðan þið gerið restina.

  3. Setjið rjómaost, flórsykur og vanillusykur í aðra skál og þeytið saman þar til það hefur blandast vel. Leggið til hliðar

  4. Stappið hluta af jarðarberjunum og takið restina frá til að skreyta með. Ég held ég hafi notað sirka 350 gr í kremið og restin fór ofan á. Þið ráðið í raun alveg hvernig þið viljið hafa það.

  5. Blandið rjómaostakreminu og stöppuðu berjunum varlega saman við rjómann þar til allt er vel blandað.

  6. Kælið þar til kakan er orðin köld.

  7. Smyrjið kreminu á kökuna og raðið berjunum yfir. Þessi kaka er mjög góð við stofuhita en hún er líka svakalega góð beint úr kælinum.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

Helga María.

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

IMG_1530.jpg

Í dag færi ég ykkur súkkulaði ofan á súkkulaði. Jújú, páskarnir eru nýbúnir, en þessar möffins eru einfaldlega of góðar til að bíða með að deila uppskriftinni með ykkur. Mig langaði að gera klassískar stórar möffins sem minntu á þær sem hægt er að fá á kaffihúsum og eftir smá prufubakstur hefur mér tekist það (að mínu mati).

IMG_1493-2.jpg

Ég bakaði þær í fyrsta sinn um daginn og var ekki alveg nógu ánægð með útkomuna. Bragðið var mjög gott, en áferðin minnti svolítið á brauð. Eftir smá gúggl áttaði ég mig á því að ég hafði líklega hrært þær alltof mikið. Ég var svolítið að prófa mig áfram og notaði rafmagnsþeytarann og bætti við meiri og meiri vökva á meðan ég hrærði. Að sjálfsögðu urðu þær því seigar. Ég hljóp yfir til vinkonu minnar sem smakkaði og var sammála því að áferðin væri ekki alveg nógu góð. Ég dreif mig því að baka þær aftur og þá urðu þær akkúrat eins og ég vildi hafa þær. ,,Ég myndi borga fyrir þessar á kaffihúsi” sagði vinkona mín þegar hún smakkaði nýju kökurnar og það var akkúrat markmiðið.

IMG_1497-2.jpg

Síðustu daga hef ég unnið hörðum höndum að því að útbúa sænska útgáfu af blogginu. Þetta er eitthvað sem ég hef hugsað um lengi. Ég bý jú hérna í Svíþjóð og væri því mikið til í að vera hluti af bloggheiminum hér. Við spáðum í því á sínum tíma að skrifa á ensku til að ná til fólksins hérna líka en okkur þykir vænt um að skrifa á Íslensku og finnst við ná að tengjast ykkur betur þannig. Ég ákvað því eftir mikla umhugsun að opna sænska síðu. Hún er nú komin í loftið og ég hlakka mikið til að takast á við þessa áskorun. Ég hef bara talað sænsku í sirka tvö ár og hef ekki mikla reynslu af því að skrifa á sænsku. Það tekur mig því langan tíma að skrifa færslurnar og mér líður örlítið eins og ég sé að vaða of djúpt, en þetta er á sama tíma mjög spennandi.

Á meðan ég vann að því að búa til sænsku síðuna ákvað ég að fríska uppá þessa síðu. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að búa hana til árið 2016 en hef svo varla snert neitt þegar kemur að útliti síðunnar síðan. Við systur höfum verið svolítið þreyttar á útlitinu í langan tíma. Ég ákvað því að laga hana núna fyrst ég var á annað borð komin á fullt í að búa til aðra síðu. Við erum ótrúlega ánægðar með nýja útlitið, sérstaklega að geta verið með “side bar”. Við vonum að ykkur þyki hún jafn flott og okkur.

IMG_1498 2-2.jpg

Mér líður eins og ég sé á góðum stað þegar kemur að því að blogga og þess vegna held ég að nú sé rétti tíminn í að byrja að blogga á sænsku. Margir halda að bloggferðalagið okkar hafi verið mjög einfalt og allt gengið eins og í sögu, en svo er alls ekki raunin. Mig langar að segja ykkur aðeins frá minni sögu. Þessi færsla verður því aðeins lengri en ég ætlaði mér.

Þegar við stofnuðum veganistur.is hafði ég í yfir ár bloggað á mínu eigin bloggi (sem hét helgamaria.com) og var því ekki alveg reynslulaus. Ég skoðaði mikið af bloggum á þeim tíma og hafði háleit markmið en ég átti ekki jafn fína myndavél eða nýja tölvu og margir sem ég leit upp til.

Ég fékk canon 1000d vél þegar ég varð 18 ára og með henni fylgdi kit-linsa eins og þær kallast. Ég tók allar mínar myndir á þessa vél og linsuna sem fylgdi með henni þangað til í byrjun 2018. Þá fékk ég ódýrustu gerðina af 50mm linsu sem ég notaði við gömlu myndavélina mína og þessi linsa breytti gríðarlega miklu. Allir í kringum mig voru að verða gráhærðir á að hlusta á mig kvarta undan myndavélinni og það lagaðist örlítið þegar ég fékk nýju linsuna. Eins notaðist ég við eldgamla og hæga Macbook pro tölvu og þar sem hún var of gömul til að uppfæra sig notaðist ég við úrelta útgáfu af lightroom til að vinna myndirnar. Allar myndirnar í bókinni okkar eru unnar í þeirri tölvu.

Ég hef lært allt það sem ég kann á þessar græjur og þurfti því að læra að vera þolinmóð. Mér leið alltaf eins og ég gæti ekki alveg náð þeim árangri í myndatökunni sem ég vildi. Bæði því ég átti gömul tæki og tól og eins því ég átti ekkert nema hvítt matarborð og mjög takmarkað magn af “props”. Ég eyddi gríðarlegum tíma í að vera leið yfir þessu. Hérna er færsla sem sýnir myndirnar sem ég tók á þessum tíma. Ég get varla horft á þessar myndir því ég man hvað mér fannst þær ömurlegar og hvað mér leið illa að pósta þeim (rétturinn er samt geggggjaður). Ég keypti mér svo ódýra filmu sem ég límdi á borðplötu og notaði til að taka allar myndirnar mínar á í svona tvö ár. Ég var farin að hata hana líka. Hérna er færsla með þessari filmu.

IMG_1508-4.jpg

Svo kom að því að ég gat keypt mér nýja myndavél. Það var seinasta haust. Ég gat þó ekki keypt mér dýra vél en fann á tilboði Canon EOS 200d sem er bara þessi hefðbundna Canon vél. Skjárinn er mun stærri en á þeirri gömlu, ég get tekið hann út og snúið honum, tekið upp myndbönd og notast við snertiskjá ef ég vil (ekkert af þessu var hægt á hinni). Auk þess eru gæðin miklu betri en á þessari gömlu. Ég notast enn við 50 mm linsuna mína og elska hana. Í desember keypti ég mér svo aðra borðfilmu sem þessar myndir eru teknar á.

Í janúar gaf gamla tölvan mín sig og með hjálp bróður míns keypti ég mér nýja Macbook tölvu eftir að hafa notað hina í 9 ár. Skyndilega gat ég unnið myndirnar í alvöru Lightroom forriti og þurfti ekki að endurræsa tölvuna tvisvar á meðan ég vann myndirnar og bloggaði. Ég viðurkenni að við þetta jókst ánægjan mín af því að mynda og blogga gríðarlega. Með tímanum hef ég líka eignast meira af fallegum diskum og öðrum “props” sem flott er að mynda á. Að lokum keypti ég mér ódýrt matarborð úr viði og við Siggi pússuðum það til og notuðum á það dökkan viðarbæs. Ég vildi að borðið liti svolítið vel notað út svo við höfum gert ýmislegt til að “skemma” það. Borðið nota ég þegar ég vil hafa myndirnar svolítið meira “moody”. Ég er mjög ánægð með útkomuna og nú loksins eftir allan þennan tíma líður mér eins og ég hafi í höndunum góð tól til að hjálpa mér að bæta mig í að taka myndir.

Ég get þó sagt ykkur að það sem hefur kennt mér mest er að læra sjálf að vinna myndir og skilja hvernig myndavélin virkar. Ég hefði getað átt allt það flottasta og fínasta en það eitt hefði ekki hjálpað mér að taka flottar myndir. Ég er alltaf að læra og núna uppá síðkastið hef ég dembt mér í að skilja betur hvernig ég vinn myndirnar mínar og ég veit að ég á enn margt ólært. Eins hef ég fundið mína eigin “rödd” með því að hætta að bera bloggið okkar saman við blogg annarra. Ég var lengi óörugg og þótti allir betri en ég og það eru vissulega margir betri en ég og munu alltaf vera það, en það hjálpaði mér alls ekki að skoða önnur blogg og bera mig saman við aðra. Með tímanum varð ég meira örugg og í dag skoða ég myndir annarra til að fá innblástur og til að dást af þeim, en ekki til að draga mig niður. Það hefur breytt miklu.

En jæjaaa.. nú kemur uppskriftin!

IMG_1484-7.jpg

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

  • 5 dl hveiti

  • 1 dl kakó

  • 2 dl sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 4,5 dl vegan mjólk

  • 130 gr. smjörlíki bráðið

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 150 gr. suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c. Minn ofn er ekki með blæstri svo ég nota yfir og undir hita.

  2. Blandið þurrefnunum saman í skál.

  3. Bræðið smjörlíkið og hellið í aðra skál ásamt mjólkinni, vanilludropunum og eplaedikinu.

  4. Hellið út í skálina með þurrefnunum og hrærið saman með sleif. Hrærið eins lítið og þið mögulega getið. það mega vera smá kekkir en samt á þetta að vera vel blandað. Eins og ég skrifaði að ofan þá gerði ég þau mistök fyrst að hræra of mikið og kökurnar urðu því seigar. Því er mikilvægt að hræra stutt.

  5. Saxið súkkulaðið í meðalstóra bita. Mér finnst gott að hafa það svolítið “chunky” í þessum kökum. Blandið 3/4 af því í deigið og geymið rest til að setja ofan á kökurnar.

  6. Ég mæli með að setja deigið í sprautupoka og sprauta í möffinsformin eins og sést á einni af myndunum fyrir ofan. Ég hafði í öll þessi ár fyllt möffinsform með skeið með tilheyrandi sulli en með sprautupokanum er þetta mjög einfalt og snyrtilegt.

  7. Bakið í 17-20 mín eða þar til þið getið stungið tannstöngli í og ekkert deig kemur upp með honum (það mun samt líklega koma eitthvað af súkkulaðinu sem er inní)

  8. Leyfið kökunum að kólna aðeins áður en þið borðið þær.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3