Hátíðleg aspassúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af æðislega góðri rjómalagaðri aspassúpu. Ótrúlega klassísk og einföld súpa með fáum hráefnum sem hver sem er getur auðveldlega útbúið.

Í okkar fjölskyldu er þessi súpa borin fram í forrétt á aðfangadagskvöld og á hún því mjög sérstakan stað í okkar hjarta. Hún er argjörlega ómissandi fyrir okkur á jólunum en hentar að sjálfsögðu vel hvenær sem er á árinu með góðu brauði.

Færslan er unninn í samstarfi við ORA en okkur finnst sá aspas lang bestur í súpuna. Súpan er bökuð upp frá hveitibollu og mjög einföld í matreiðslu.

Við mælum með að bera súpuna fram með hvítu fransbrauði við hátíðartilefni en það passað ekkert smá vel. Einnig er nauðsynlegt að gera stóran skammt til að eiga afganga á jóladag að okkar mati.

Rjómalöguð hátíðar aspassúpa

Rjómalöguð hátíðar aspassúpa
Fyrir: 4-5 í aðalrétt (um 8 í forrétt)
Höfundur: Veganistur
Eldunartími: 30 Min: 30 Min

Hráefni:

  • 125 gr vegan smjör eða smjörlíki
  • 2 dl hveiti
  • 3 dósir aspas
  • 2 lítrar ósæt hafra eða sojamjólk
  • 1 líter hafrarjómi
  • 3 grænmetisteningar
  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða smjörið í potti.
  2. Bætið hveitinu út í smjörið og hrærið vel saman. Slökkvið undir.
  3. Bætið út í safanum af aspasinum í 3 skömmtum, (Þægilegast er að setja vökvan úr 1 dós í einu) og hrærið vel í á milli með písk svo ekki myndist kekkir. Hrærið þannig að "deigið" sem alveg slétt áður en þið bætið næsta skammti að vökva saman við. (Setjið aspasinn sjálfan til hliðar).
  4. Bætið 1/2 líter af mjólk út í og hrærið vel með písknum. Kveikið aftur undir pottinum á lágum hita.
  5. Bætið restinni af vökvanum saman við, ásamt grænmetisteningum og salti.
  6. Leyfið súpunni að hitna að suðu á lágum hita og hrærið vel í reglulega þar sem súpan getur auðveldlega brunnið við.
  7. Smakkið til með salti og bætið aspasinum saman við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

- Færslan er unnin í samstarfi við ORA -

Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Jólahlaðborð með lítilli fyrirhöfn.

Í fyrra fengum við systur boð um að setja saman vegan jólahlaðborð í samstarfi við Krónuna sem var alveg ótrúlega skemmtilegt. Við vorum því fljótar að ákveða í samvinnu við þau að gera það aftur í ár þar sem þetta er virkilega skemmtileg hefð sem er klárlega komin til að vera á okkar heimili. Það er svo gamana að geta boðið góðum vinum eða fjölskyldu í notalega stund án þess að það þurfi að vera rosaleg fyrirhöfn.

Úrvalið af tilbúnum vegan réttum og vegan hráefnum er orðið svo ótrúlega gott og finnst okkur mjög gaman að geta sett saman svona flott hlaðborð af vegan mat án þess að þurfa að gera allt frá grunni. Framboðið hefur aukist svo mikið síðustu ár að í þetta skiptið þurftum við að velja úr réttum til að bjóða upp á þar sem það var svo mikið gómsætt í boði í Krónunni. Það er því alveg liðin tíð að þurfa að hafa áhyggjur af öllum boðum í gegnum hátíðirnar og þurfa alltaf að vera með eitthvað tilbúið. Það er einfaldlega hægt að hoppa út í búð og grípa með sér vegan steik og meðlæti fyrir næsta boð.

Við vildum hafa hlaðborðið eins einfalt og við gátum og völdum því nánast einungis rétti sem þurfti bara að hita. Það eina sem við gerðu frá grunni var ein ostakúla fyrir ostabakkan og síðan fljótlegt kartöflugratín. VIð ákváðum að prufa að kaupa forsoðnar bökunarkartöflur í gratínið og vá hvað það var mikil snilld. Við notuðum uppskrift sem má finna hérna á blogginu en skárum kartöflurnar bara í skífur. Það þurfti því einungis að baka gratínið í 10 mínútur í ofninum og var það ekkert smá gómsætt. Það er algjörlega fullkomin laust ef ekki gefst mikill tími fyrir eldamennskuna. Við tókum einnig myntu og súkkulaði ísinn frá VegaNice og settum í kökuform og inni frysti. Þegar allt annað var tilbúið tókum við hann út, settum á kökudisk og bráðið súkkulaði yfir. Þar með vorum við komnar með fallega ístertu á mjög einfaldan hátt. Allt annað þurftum við einungis að hita eða setja í fínar skálar og bera fram.

Þessir réttir eru því ekki einungis fullkomnir til að bjóða upp á í hlaðborði heima heldur einnig til að taka með sér í jólaboð þar sem kannski ekki er boðið upp á eitthvað vegan. Eða þá til að benda vinum og fjölskyldu á sem eru að vandræðast með hvað þau geta boðið upp á fyrir vegan fólk. Þá er algjör snilld eða geta sagt þeim hvað sé hægt að kaupa sem einungis þarf að hita.

Það sem við buðum uppá í okkar hlaðborði:

Forréttir:

Ostabakki með hátíðarostunum frá Violife, heimagerðri ostakúlu, chillisultu, kexi, vínberjum og sultuðum rauðlauk. Ostakúlu uppskrift má finna hér, en það eru einnig fleira slíkar á leiðinni.
Sveppasúpa frá HAPP

Aðalréttir:

Oumph wellington.
Gardein savory stuffed turk’y (Fyllt soyjakjötsstykki")

Meðlæti:

Sveppasósa frá HAPP
Fljótlegt kartöflugratín (uppskrift hér, en ég notaði forsoðnar bökunarkartöflur svo gratínið þurfti einungis að baka í 10 mínútur.)
Sætkartöflumús frá Nóatúni
Rauðkál frá Nóatúni
Grænar baunir
Maísbaunir
Vegan laufabrauð frá ömmubakstri
Baguette

Eftirréttir:

R’ISALAMAND frá Naturli
VegaNice Súkkulaði&myntu ís
Vegan piparkökur
Fazer Marianne nammi

Drykkir:

Tilbúið jólaglögg í fernu
Malt og appelsín

Ps. Við erum með gjafaleik á instagram þar sem við gefum tvö 20.000 króna gjafabréf í Krónuna svo þið getið sett saman ykkar eigið hlaðborð. Okkur finnst einnig mjög gaman þegar þið taggið okkur og megið þið endilega tagga okkur og Krónuna ef þið setjið saman ykkar eigið hlaðborð.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fæst allt í hlaðborðið þar -

 
 

Vegan sörur

Ég myndi ekki segja að sörur væri ómissandi partur af jólaundirbúningnum frá mér en ef ég kemst í að baka sörur fyrir jólin þá finnst mér þær virkilega góðar. Það er smá vinna að baka sörur og tekur yfirleytt frekar langan tíma en mér finnst frábært að taka tíma frá fyrir jólin í sörubakstur að plata t.d. vinkonur mínar eða mömmu með mér í sörubaksturinn. Úr verður ótrúlega notaleg stund með fólkinu mínu og baksturinn auðveldari fyrir vikið.

Að gera vegan sörur þarf alls ekki að vera mikið mál. Botnarnir eru gerðir á aðeins öðruvísi hátt en hefðbundar sörur þar sem þeir líkjast aðeins meira marengstoppum en þessum algengustu söru uppskriftum. Það þarf að þeyta aquafaba, sem er vökvin sem er í dós af kjuklingabaunum, vel með sykrinum og bæta síðan möndlunum varlega saman við. Ég hef bæði verið að notast við malaðar möndlur og einnig hakkaðar en mér finnst baksturinn verða aðeins auðveldari ef notaðar eru hakkaðar möndlur. Hitt virkar þó alveg svo ég hvet ykkur til að prófa ykkur einfaldlega áfram. Það er líka sniðugt t.d. að skipa deiginu í tvennt og prufa að setja malaðar í annað og hakkaðar í hitt og sjá hvort kemur betur út.

Hráefni:

  • 1 dl auquafaba (kjúklingabaunavatn)

  • 100 gr sykur

  • 100 gr flórsykur

  • 200 gr hakkaða möndlur (eða malaðar)

Aðferð:

  1. Stífþeytið aquafaba á hæsta styrk í hrærivél þar til það verður að mjög þykkri froðu

  2. Bætið sykrinu og flórsykrinum út í mjög hægt, sirka 1 msk í einu, á meðan að hrærivélin hrærið á háum styrk. Hrærið síðan áfram á háum styrk þar til marengsin verður mjög stífur og hægt að hvolfa skálinni án þess að hann detti eða hreyfist.

  3. Blandið möndlunum mjög varlega saman við með sleif.

  4. Setjið í sprautupoka og sprautið litla botna á bökunarplötu

  5. Bakið við 150°C í 16 mínútur, leyfið botnunum að kólna alveg á plötunni áður en þeir eru teknir upp.

Kremið í fyllinguna

  • 175g vegan smjör eða smjörlíki við stofuhita

  • 1/2 dl síróp

  • 250g flórsykur

  • 1/4 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi

  • 1/2 msk kakó

  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið í hrærivél þar til það er mjúkt

  2. Bætið sírópinu út í, í mjórri bunu.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið vel saman.

  4. Setjið sirka 1 tsk af kremi á hvern botn og setjið botnana í frysti í 30 til 60 mínútur áður en þið dýfið þeim í bráðið súkkulaði til að hjúpa fyllinguna.

Ég var með sirka 100 gr af hvítu,- “mjólkur”- og suðusúkkulaði og hjúpaði kökurnar sitt á hvað.

IMG_9032.jpg

-Njótið vel og gleðilega aðvenntu.

Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -

Rósakál með ristuðum möndlum og appelsínuberki

IMG_2168.jpg

Ég uppgvötaði rósakál fyrir nokkrum árum. Mér hefði eiginega aldrei dottið í hug að mér myndi þykja það gott, því ég hafði oft heyrt frá öðrum að það væri hrikalega vont. Því er ég algjörlega ósammála, og í dag borða ég rósakál í hverri viku. Yftirleitt kaupi ég það frosið og borða sem meðlæti með mat, en um jólin kaupi ég það ferskt og útbý það á aðeins hátíðlegri máta.

IMG_2163-2.jpg

Ég hef smakkað margar skemmtilegar og gómsætar uppskriftir sem innihalda rósakál, eins og gratín og fleira gúrmé. Yfir hátíðirnar er ég þó vanalega með kartöflugratín, sósu og fleira sem inniheldur rjóma eða mæjónes, svo ég vil hafa rósakálið aðeins meira ferskt.

IMG_2166.jpg

Þar sem jólamaturinn getur tekið langan tíma er svo gott að gera meðlæti sem þarfnast ekki mikillar fyrirhafnar. Þetta rósakál er einmitt dæmi um svoleiðis meðlæti en smakkast á sama tíma ótrúlega vel og passar fullkomlega yfir hátíðirnar.

IMG_2174-2.jpg

Rósakál með appelsínuberki og möndlum

  • 400 g ferskt rósakál

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1-2 tsk hlynsíróp

  • 1 dl möndlur

  • 2 msk appelsínusafi

  • börkur af einni appelsínu

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið rósakálið í tvennt og takið botninn af ef hann er mjög stór og harður

  2. Saxið niður möndlurnar og þurrristið á pönnu. Takið frá þegar þær eru orðnar ristaðar

  3. Hitið olíu á pönnu og bætið rósakálinu út á

  4. Steikið það í smá stund þar til það er orðið svolítið gyllt á litinn

  5. Bætið út á pönnuna appelsínusafanum og sírópinu og steikið þar til rósakálið er orðið svolítið dökkt

  6. Bætið þá út á möndlunum, berkinum, salti og pipar og steikið örlítið í viðbót.

  7. Berið fram heitt eða kalt

Njótið

Veganistur