Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Döðlupestó og auðveldir pestó snúðar

Ég er alltaf mjög hrifin af fallegum ostabökkum þegar ég sé myndir af þeim og hefur mér lengi langað að prófa að gera svona bakka sjálf. Mér fannst því tilvalið að gera fallegan ostabakka með döðlupestó uppskrift sem ég er búin að vera að elska síðustu vikur. Þetta pestó er svo ótrúlega einfalt og það þarf engin sérstök tæki eins og matvinnsluvél eða slíkt til að útbúa það.

Ég ákvað kaupa alls konar vegan osta sem mér finnst góðir og hafa síðan ávexti, grænt pestó og ólífur líka. Þessi ostabakki kom ótrúlega vel út og mér finnst þetta vera fullkominn bakki til að bera fram í veislum eða bara þegar ég fæ vini í heimsókn.

Ég notaði nýja vegan chilli pestóið frá Sacla Italia sem er alveg einstaklega gott að mínu mati en það er þó smá sterkt svo það er ekkert mál að nota rauða pestóið eða til dæmi eggaldin pestóið frá þeim í staðinn til að gera það aðeins mildara.

IMG_9537.jpg
IMG_9546.jpg

Hráefni:

  • 1 dl svartar ólífur

  • 1 dl saxaðar döðlur

  • 1 dl kasjúhnetur

  • 1 dl söxuð fersk steinselja

  • 1 hvítlauksgeiri

  • Salt

  • Ein krukka chilli pestó frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Saxið gróflega niður ólífurnar, döðlurnar, kasjúhneturnar og ferska steinselju.

  2. Merjið hvítlaukinn og blandið öllum hráefnunum saman í skál.

Þetta perstó hentar fullkomlega með til dæmis góðu kexi, brauði eða bara nánast hverju sem er. Ég prófaði einnig að amyrjaum vel af pestóinu á smjördeigsplötur rúlla þeim upp í snúða og baka í ofni þar til þeir urðu fallega gylltir til að útbúa gómsæta smjördeigssnúða.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi.

 
logo Sacla.jpg
 

Vegan partýplatti - kryddostur, kex og salat

IMG_0105-3.jpg

Ég elska að halda partý. Í hvert sinn sem ég býð fólki í heimsókn vil ég helst útbúa heilt veisluborð af kræsingum og oftar en ekki þarf Siggi að stoppa mig og draga mig niður á jörðina. Eins finnst mér alveg ómögulegt að koma tómhent í heimsókn til annarra og baka því yfirleitt eitthvað gott. Ég hef ekki alltaf verið svona en þetta byrjaði þegar ég varð vegan. Mér þótti mikilvægt að sýna fólki hversu góður vegan matur getur verið og lengi vel var það svoleiðis að ef mér var boðið í mat eða veislur þá þurfti ég að sjá um minn mat sjálf þar sem flestir héldu að það væri of erfitt að útbúa vegan mat. Þetta var árið 2011, löngu áður en úrvalið af spennandi vegan hráefnum varð svona gott. Ég vandist því að mæta með mat í allskyns heimsóknir og oftar en ekki þótti fólki svakalega spennandi að smakka það sem ég mætti með. Með tímanum hefur þetta svo orðið að vana hjá mér og nú elska ég að bjóða fólki í heimsókn og útbúa skemmtilega partýrétti og allskonar kökur.

Þessi færsla er einmitt ætluð þeim sem vilja bjóða uppá skemmtilega partýrétti um jólin eða áramótin eða jafnvel útbúa góðan veislubakka sem forrétt um hátíðirnar. Sem betur fer hefur hugarfar fólks almennt breyst mikið hvað varðar vegan mat og flestir vita að ekkert mál er að borða gómsætan hátíðarmat án dýraafurða. Þó eru enn sumir sem halda að vegan jól þýði að þeir þurfi að fórna einhverju og er þessi veislubakki tilvalinn til að koma fólki rækilega á óvart.

IMG_0083.jpg

Það var mikil áskorun að gera þessa færslu því á þessum tíma ársins er dagsbirta af skornum skammti hérna í Piteå. Í dag var nánast alveg dimmt í eldhúsinu fyrir utan pínuitla ljósglætu alveg við gluggann og ég gerði mitt besta til að nýta hana. Það er synd að minn uppáhalds tími til að blogga sé akkúrat þegar skilyrðin eru sem verst. Ég læt það þó ekki á mig fá og held ótrauð áfram að útbúa gómsætar uppskriftir.

IMG_0092-3.jpg

Þessar uppskriftir eru báðar virkilega einfaldar og fljótlegar en þó skiptir máli að þær séu gerðar svolítið fyrirfram. Osturinn þarf helst að fá að sitja í ísskáp í nokkrar klukkustundir og salatið er einnig betra þegar það fær að sitja í ísskápnum og draga í sig bragðið frá kryddunum. Allt annað á disknum er svo bara smekksatriði og hægt er að leika sér endalaust með það. Ég t.d. held að laufabrauðið úr bókinni okkar væri fullkomið á partýbakkann og dásamlegt með bæði salatinu og ostinum.

Ég var fyrst svolítið á báðum áttum með að birta færslu sem inniheldur svona mikið af tilbúnum vegan vörum. En eftir því sem ég hugsaði meira um það áttaði ég mig á því að það er ekkert að því að birta svoleiðis færslu. Það er oft sett svolítil krafa á okkur sem erum vegan að búa allt til frá grunni og nota ekkert tilbúið. Ég hef stundum rekist á athugasemdir við uppskriftir annarra grænkera þar sem þau eru gagnrýnd fyrir það að nota t.d. tilbúinn rjómaost í stað þess að gera hann sjálf, en ég hef aldrei séð athugasemdir þar sem fólk er beðið um að útbúa sinn eiginn rjómaost úr kúamjólk í stað þess að kaupa tilbúinn. Það er enginn skömm af því að kaupa tilbúnar vörur og þegar það eru jól og við erum öll á fullu í eldhúsinu er svakalega gott að geta útbúið eitthvað einfalt til að bjóða uppá.

IMG_0106-3.jpg

Ég vona innilega að þið prófið að útbúa þennan dásamlega partýbakka og látið okkur endilega vita hvernig ykkur og öðrum líkar við uppskriftirnar.

IMG_0107-3.jpg
IMG_0118-2.jpg

Vegan kryddostur (2 stk)

  • 3 öskjur (samtals 450 gr) hreinn vegan rjómaostur (ég notaði Oatly)

  • 2 dl rifinn vegan ostur (ég notaði Violife)

  • 2 msk vegan majónes. Ég nota heimagert því það er virkilega einfalt og mér finnst það langbest. Það þarf líka majónes í salatið hér að neðan svo ég geri tvöfalda uppskrift af þessu hér

  • 2 msk smjörlíki frá Naturli - vegan block

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1,5 dl saxaður vorlaukur (bara græni parturinn)

  • 2-3 tsk tabasco sósa (mæli með að byrja á því að setja 2 og bæta svo við eftir þörf)

  • 1 tsk sojasósa

  • salt eftir smekk

Utan um ostinn

  • 2 dl saxaðar hnetur (ég notaði möndlur því Siggi er með ofnæmi fyrir öðrum hnetum. Pekanhnetur og valhnetur passa örugglega mjög vel líka)

  • svartur pipar eftir smekk

  • gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Bætið restinni ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  3. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  4. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  5. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr söxuðu möndlunum og kryddunum.

Vegan kjúklingasalat með karrý

Þetta salat gerði ég upprunalega fyrir skonsubrauðtertu. Það er ekkert smá gott og karrýið gerir salatið enn betra að mínu mati. Það má þó sleppa því. Ég gerði þetta salat fyrir partý um daginn og það sló bókstaflega í gegn.

  • 1 pakki vegan filébitar frá Hälsans Kök

  • Sirka 5-6 dl vegan majónes. Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér langbest að útbúa mitt eigið majónes og ef þið ætlið að gera bæði salatið og ostana mæli ég með því að tvöfalda þessa uppskrift. Ef þið ætlið aðeins að útbúa salatið myndi ég gera eina og hálfa uppskrift

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrý

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

Ég vona innilega að þið njótið. Eins og þið sjáið kannski þá hef ég bætt við linkum á margar vörur í færslunni svo auðvelt sé að sjá hvernig þær líta út. Ég mæli með að opna hvern link í nýjum glugga svo það sé sem þægilegast þegar þið skoðið færsluna.

-Veganistur

Vegan skonsubrauðterta

IMG_3058-2.jpg

Uppskrift dagsins er af þessari dásamlegu skonsubrauðtertu. Mörgum finnst tilhugsunin kannski svolítið skrítin, en ég lofa ykkur því að þetta passar fullkomlega saman. Mér þótti ekkert smá gaman að útbúa þessa fallegu brauðtertu og salatið sem er á milli er algjört lostæti. Ég hef oft gert það áður og það er dásamlegt á ritzkex og í allskonar samlokur.

IMG_3008-2.jpg

Ég veit að það eru sumir sem hafa alltaf borðað svona skonsutertur og aðrir sem aldrei hafa smakkað þær. Tengdamamma mín útbýr oft svoleiðis en í okkar fjölskyldu voru alltaf þessar hefðbundnu löngu brauðtertur, en þegar ég fór að tala um þetta við mömmu um daginn sagði hún mér að hún hafi oft fengið skonsutertu hjá ömmu sinni þegar hún var barn. Þar sem ég hafði aldrei smakkað svoleiðis ákvað ég að gúggla aðeins og sjá hvað fólk væri að setja á milli og hvernig þetta liti út. Ég fann ekkert svakalega margar uppskriftir og eiginlega engar myndir af svoleiðis, en hinsvegar virðist það vera svo að margir hafi alist upp við að borða svona og geri enn í dag. Síðan við opnuðum bloggið okkar höfum við fengið mikinn áhuga á að veganvæða klassískar uppskriftir, eins og þið flest kannski hafið tekið eftir, og þessi skemmtilega brauðterta er frábær viðbót í safnið.

IMG_3014-3.jpg

Við erum nú þegar með eina uppskrift af brauðtertu á blogginu, en sú uppskrift er ein af þeim fyrstu á blogginu. Vegan skinkan sem við notuðum í þá uppskrift fæst ekki lengur, en í dag eru aðrar tegundir til sem passa alveg jafn vel í salatið. Það er að sjálfsögðu líka hægt að gera “betra en túnfisksalat” uppskriftina okkar og setja á svona brauðtertu auk þess sem aspas- og sveppafylling væri pottþétt fullkomin. Möguleikarnir eru endalausir.

Það kemur fyrir þegar ég útbý rétti fyrir bloggið að ég nýt mín svo mikið og tek svo mikið magn af myndum að ég á erfitt með að velja og langar að hafa þær allar með. Stundum hef ég orðið svolítið hrædd um að færslurnar verði of langar í kjölfarið. Í dag var svoleiðis dagur, en mér fannst svo gaman að mynda þessa tertu að ég á erfitt með að velja og hafna, og þið verðið bara að sætta ykkur við allt myndaflóðið.

IMG_3027.jpg
IMG_3034.jpg

Það eru mörg tilefni framundan til þess að búa til þessa gómsætu brauðtertu, en páskarnir eru á næsta leiti og fermingarnar líka. Þrátt fyrir að það sé allt á kafi í snjó hérna í Piteå ákvað ég að reyna að skreyta tertuna svolítið sumarlega því ég er komin í vorskap. Ég viðurkenni að ég var frekar stressuð fyrir því að skreyta hana og til að vera viss um að ég eyðilegði tertuna ekki smurði ég mæjónesi á disk og æfði mig að skreyta svoleiðis áður en ég lagði í sjálfa tertuna. Ég held barasta að ég sé nokkuð ánægð með lokaútkomuna.

IMG_3045.jpg

Eruði með einhverjar fleiri skemmtilegar hugmyndir að vegan salötum til að setja á svona brauðtertu? Ég væri mikið til í að prufa að gera fleiri útgáfur!

IMG_3053.jpg

Skonsubrauðterta

  • 5 skonsur (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan “kjúklingasalat” (uppskrift fyrir neðan)

  • Mæjónes til að smyrja ofan á

  • Grænmeti til að skreyta með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa salatið. Það er nefnilega frekar mikilvægt að mínu mati að leyfa því að standa í svolitla stund svo það taki vel í sig allt bragð. Ég set það yfirleitt í ísskápinn í minnst klukkustund og helst alveg þrjár.

  2. Bakið skonsurnar og leyfið þeim að kólna.

  3. Setjið saman brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur lystir.

Vegan “kjúklingasalat”

  • Vegan mæjónes. Ég gerði eina og hálfa uppskrift af þessu ótrúlega góða vegan mæjónesi. Ég notaði það allt í salatið fyrir utan smá sem ég tók frá til að smyrja ofan á kökuna. Ég var svo fljótfær að ég fattaði ekki að mæla magnið af mæjónesinu fyrir ykkur sem kaupið tilbúið í stað þess að gera sjálf, en ég held það hafi verið um 3 bollar. Ég lofa að gera mæjóið sem fyrst aftur og uppfæra færsluna þá með nákvæmu magni, en ein og hálf uppskrift af því sem ég póstaði hérna með er fullkomið magn.

  • 1 pakki filébitar frá Hälsans Kök

  • Vorlaukur eftir smekk (ég setti 1 dl og fannst það passlegt en myndi jafnvel setja aðeins meira næst)

  • Gular baunir eftir smekk (ég notaði líka 1 dl af þeim og ég kaupi frosnar og leyfi þeim að þiðna. Mér þykja þær mun betri en þessar í dós.)

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Leyfið bitunum að þiðna í smá stund og steikið þá svo létt á pönnu upp úr olíu og smá salti. Takið af pönnunni og rífið þá í sundur með höndunum eða tveimur göfflum. Það er auðvitað hægt að skera þá bara niður í bita, en mér finnst gott að taka tvo gaffla og rífa bitana aðeins niður með þeim. Mér finnst það gefa þeim góða áferð fyrir salatið.

  2. Útbúið mæjónesið og takið smá af því frá til að smyrja ofan á kökuna. Blandið bitunum saman við mæjóið.

  3. Skerið niður vorlaukinn og blandið saman við ásamt restinni af hráefnunum.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund ef kostur er á.

Skonsur

  • 5 dl hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 6-7 dl jurtamjólk. Mér finnst oft fara mikið eftir því hvernig mjólk og hvaða hveiti ég nota. Ég byrja yfirleitt á því að setja 5 dl og sé hversu þykkt deigið er og bæti svo við eftir þörf. Í dag notaði ég 7 dl af sojamjólk. Deigið á að hafa sömu þykkt og amerískar pönnukökur (semsagt þykkara en t.d íslenskar pönnsur)

  • 2 msk olía

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum.

  2. Bætið við blautefnunum og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  3. Útbúið úr deiginu 5 stórar og þykkar pönnukökur. Ég á ekki pönnukökupönnu svo ég notaði venjulega pönnu í svipaðri stærð og passaði að þær væru allar jafn stórar. Deigið er akkúrat passlegt fyrir 5 pönnsur.

  4. Leyfið þeim að kólna áður en tertan er sett saman.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel. Ef þið gerið brauðtertuna þætti okkur ekkert smá gaman að heyra hvað ykkur finnst. Við minnum á að við erum á Instagram og facebook líka fyrir ykkur sem hafið áhuga á að fylgja okkur þar.

-Veganistur

Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.