Vegan ofnbakað gnocchi bolognese

Vegan bolognese með gnocchi, bakað í ofni, borið fram með gómsætu brauði. Að mínu mati hinn fullkomni kósý haustréttur. Einfalt og gott og hentar vel sem hversdagsmatur og sem fínni kvöldmatur. Ég ELSKA mat sem passar bæði sem kvöldmatur á mánudagskvöldi og í matarboð helgarinnar.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði hakkið þeirra í þessa gómsætu bolognese sósu. Við elskum vörurnar frá Anamma og notum þær mikið í okkar eldamennsku. Hakkið er fullkomið í þennan rétt og bolognesesósan passar með hvaða pasta sem er. Ég notaði gnocchi því mig langaði að breyta aðeins til og finnst það gott. Ég prófaði sósuna líka með tagliatelle um daginn og það var dásamlega gott.

Ofnbakað pasta finnst mér bæði þægilegt og skemmtilegt að elda. Það er góð tilbreyting frá t.d. hefðbundnu “hakki og spaghetti” en er bæði einfaldara og fljótlegra en lasagna. Mér finnst algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera gott bolognese og eins og ég sagði hér að ofan er hægt að bera hakksósuna fram með hvaða pasta sem er. Við fyrstu sýn lítur kannski út eins og sósan innihaldi ekki grænmeti, en það gerir hún svo sannarlega og grænmetið spilar stórt hlutverk í bragði sósunnar að mínu mati. Ég set í hana gulrætur, sellerí, lauk og hvítlauk. Og til að fá sem best bragð finnst mér mikilvægast að mixa grænmetið eða skera það mjög smátt.

Ein af ástæðunum fyrir því að ég elska að útbúa ofnbakað pasta er hversu hentugt það er. Ég geri það yfireitt í stóru góðu steypujárnspönnunni minni sem ég get skellt í ofninn og þarf því bara eina pönnu í eldamennskuna. Eða ég skipti því niður beint í glernestisboxin mín, baka í þeim í ofninum og get svo hitað upp í boxinu ef ég vil taka matinn með mér sem nesti eða eiga fljótlegan hádegismat heima.

Mér finnst gott brauð algjört möst með pasta og gómsætt hvítlauksbrauð er yfirleitt eitthvað sem ég vel að bera fram með nánast hvaða pastarétti sem er. Vegan parmesanostur er líka uppáhald hjá mér. Í dag er hægt að kaupa góðan tilbúinn vegan parmesan úti í búð en fyrir ykkur sem eigið erfitt með að nálgast hann mæli ég með þessum hérna heimagerða parmesan.

Ég vona innilega að þið njótið og munið að tagga okkur á Instagram ef þið eldið uppskriftirnar okkar, okkur þykir ekkert smá vænt um það.

Ofnbakað bolognese með gnocchi ( fyrir 3-4)

Hráefni

  • 500 gr gnocchi (passið að lesa vel á umbúðirnar hvort það er vegan. Sum merki innihalda egg)

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 1 gulrót

  • 1 sellerístöngull

  • 4 hvítlauksgeirar

  • 3 msk tómatpúrra

  • 325 gr vegan hakk frá Anamma (bæði formbar og það hefðbundna passa)

  • 2 tsk oregano

  • 1 tsk þurrkuð basílika

  • 1 tsk möluð fennelfræ

  • 1 lárviðarlauf

  • 1 grænmetisteningur

  • 250 ml vatn

  • 1 dl rauðvín

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

  • 1-2 msk sojasósa

  • 2 msk balsamikedik

  • 1,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Chili explosion krydd (má sleppa)

  • Vegan rjómaostur eða rifinn vegan ostur að toppa með

Gott að bera fram með: Basíliku, vegan parmesan og gott baguette

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Setjið gulrót, lauk og sellerí í matvinnsluvél og mixið þar til það er næstum maukað (sjá mynd að ofan). Ef þið eigið ekki svoleiðis vél mæli ég með því að rífa gulrótina og saxa hitt mjög smátt.

  3. Hitið olíu á stórri pönnu og steikið grænmetið í nokkrar mínútur eða þar til það fær á sig smá lit. Pressið hvítlaukinn, bætið honum á pönnuna og steikið í sirka 2 mínútur í viðbót

  4. Bætið hakkinu, oregano, þurrkaðri basíliku, fennelfræjum og tómatpúrru á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið víninu út á pönnuna og leyfið því að eldast svolítið.

  6. Bætið við niðursoðnum tómötum, vatni, grænmetiskrafti, lárviðarlaufi, sojasósu og balsamikediki og leyfið að malla í 15-20 mínútur eða þar til sósan hefur þykknað og fengið dekkri lit. Ég elska að leyfa minni að malla við vægan hita eins lengi og mögulegt er þegar ég er ekki að flýta mér.

  7. Bætið gnocchi út í og leyfið þvi að eldast í sósunni í 10 mínútur. Bætið svo matreiðslurjómanum út í og smakkið til. Saltið og piprið eftir þörf. Toppið með vegan rjómaosti, eða rifnum vegan osti og bakið í ofninum í sirka 20 mínútur eða þar til osturinn hefur fengið á sig fínan dökkan lit.

  8. Berið fram með basíliku, vegan parmesan og góðu brauði

Takk fyrir að lesa og njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Smjördeigsbökur með vegan ostum og vínberjasultu

Í dag deilum við með ykkur dásamlega góðum smjördeigsbökum með vegan fetaosti, rjómaosti, vínberjasultu, timían og balsamikediki. Skemmtilegar bökur sem gott er að bjóða uppá í veislunni, partýinu eða vínkvöldinu. Bökurnar henta t.d. vel við tilefni þar sem kex, ostar og sulta eru á boðstólnum. Blanda af söltu, sætu og súru. Fullkomið!

Hugmyndin að bökunum kom í síðustu viku þegar ég útbjó þeyttan fetaost. Ég tók fram gómsætu vínberjasultuna frá St. dalfour og smurði henni á kex með þeytta fetaostinum. Guðdómleg blanda. Færsla dagsins er einmitt í samstarfi við St. Dalfour og við erum ótrúlega spenntar fyrir því að vinna með þeim. Við höfum í mörg ár notað sulturnar þeirra við allskyns tilefni. Virkilega góðar gæðasultur. Nýlega komu á markað þrjár nýjar bragðtegundir og við ætlum á næstu vikum að kynna þær fyrir ykkur. Í dag kynnum við til leiks vínberjasultuna. Þar sem ég bý í Svíþjóð stendur Vindruva á sultukrukkunni en á sultunni heima stendur French grape.

Kex, vegan ostar og sulta. Eitthvað sem ég gæti borðað daglega. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og ákvað að nota smjördeig. Ég mæli eindregið með því að þið prófið. Þetta er svo dásamlega gott.

Keypt smjördeig er oftar en ekki vegan. Það inniheldur sjaldan smjör en þess í stað olíur. Það er því oftast laust við allar mjólkurafurðir. Það er þó mikilvægt að lesa vel á umbúðirnar til að vera viss.

Ég útbjó bökurnar í muffinsformi, eins og við gerum með hátíðarOumphið okkar. Það er bæði einfalt að útbua þær á þann hátt og líka þægilegt að vera þær fram. Auk ostanna og sultunnar setti ég í þær ferskt timían, ólífuolíu, balsamikedik, salt og pipar. NAMM!

Smjördeigsbökur með vegan fetaosti, rjómaosti og sultu

Hráefni:

  • 1 pakki vegan smjördeig, annaðhvort frosið eða upprúllað kælt

  • 1 krukka vínberjasulta frá St. Dalfour (Ath í verslunum á íslandi heitir bragðtegundin French grape)

  • 1 pakki vegan fetaostur

  • 1 dolla vegan rjómaostur

  • Ferskt timían

  • Ólífuolía

  • Balsamikedik

  • Salt og pipar

  • Vegan mjólk til að pennsla bökurnar með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Takið smjördeigið úr frystinum og látið það þiðna svona nánast alveg. Það á að vera kallt ennþá samt þegar þið meðhöndlið það. Ef þið notið kælt deig, takið það út svona 5 mínútum áður en þið ætlið að nota það.

  3. Ef þið notið kælt deig, rúllið því út og skerið eins og ég gerði á myndinni að ofan. Ég fékk 9 bökur úr mínu deigi. Ef þið notið fryst mæli ég með því að fletja hverja plötu örlítið út og skipta henni svo í tvo ferninga.

  4. Leggið smjördeigið í muffinsform og fyllið. Ég setti 1 tsk rjómaost, 1 tsk fetaost, 1 tsk sultu, nokkra dropa af ólífuolíu, nokkra dropa af ediki, smá timían, salt og pipar í hverja. Það má auðvitað setja aðeins meira, ég þurfti að hafa í huga að þær yrðu fínar fyrir mynirnar. En ég mæli þó með að fylla þær ekki of mikið.

  5. Lokið bökunum með því að klípa saman hornin og pennslið með mjólkinni

  6. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Látið kólna svolítið áður en þið berið fram.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 


Buffaló blómkálsborgari með gráðaostasósu

Mér finnst fátt betra um helgar en góður “helgar”matur. Við borðum yfirleitt pizzu eða hamborgara á föstudögum og elska ég að finna upp nýjan góðar borgara uppskriftir. Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er svo sannarlega ekki af verri endanum en það er buffaló blómkáls borgari með Blue cheese sósunni frá Sacla Italia

Eftir að ég smakkaði blue cheese sósuna fyrst þá hef ég elskan að gera buffaló blómkálsvængi en þessi sósa passar alveg fullkomlega með buffalósósu. Mig langaði þó að gera þessa uppskrift eða svitaða uppskrift sem væri aðeins meiri máltíð einhvern veginn og datt þá í hug að gera eins konar buff úr blómkáli sem hægt væri að nýta í borgara með þessari frábæru sósu.

Blómkálsbuffin er ótrúlega einfalt að gera og er í rauninni gert nákvæmlega eins og blómkálsvængir, nema blómkálið er einfaldlega skorið í sneiðar. Það má því alveg nota sömu uppskrift til að gera vængi eða jafnvel nýta þessa uppskrift sem eins konar blómkálssteik og bera fram með sósunni, salati og kartöflum til dæmis.

Hráefni (4 borgarar) :

  • 4 vegan hamborgarabrauð

  • 4 buffaló blómkálsbuff

  • 1 krukka vegan blue ch**se sósa frá Sacla Italia

  • Vegan hrásalat

  • Ferskt grænmeti

  • Franskar eða ofnbakað kartöflur

Aðferð:

  1. Útbúið blómkálsbuffin eftir uppskrift hér að neðan.

  2. Útbúið hrásalatið

  3. Bakið kartöflur eða franskar í ofni eða útbúið það meðlæti sem hver og einn vill hafa með.

  4. Berið fram og njótið.

Buffaló blómkálsbuff

  • 1 stór blómkálshaus

  • 1 bolli hveiti

  • 2 tsk laukduft

  • 2 tsk hvítlauksduft

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 msk oregano

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk pipar

  • 1 bolli haframjólk (bætið við smá auka ef ykkur finnst hveitiblandan og þykk)

  • 1 dl buffalósósa eða önnur hot sauce

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 200°C

  2. Blandið öllum þurrefnum saman í skál og hellið síðan haframjólkinni út í og hrærið vel.

  3. Skerið blómkálið í þykkar sneiðar með stönglinum svo sneiðin haldist heil. Snyrtið vel í kringum stylkin og minnkið hans eins mikið og hægt er án þess að sneiðin detti í sundur. Ég byrja á því að skera hausinn beint í tvennt og næ síðan tveimur sneiðum úr hvorum helming.

  4. Veltið hverri sneið upp úr hveitiblöndunni. Hitið vel af olíu á pönnu þar til hún verður vel heit. Ég set svi mikið að það sé sirka 1 og 1/2 cm af olíu í pönnunni. Steikið hverja blómkálssneið í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til fallega gylltar á báðum hliðum.

  5. Hellið buffaló sósunni í breiða, grunna skál og veltið hverri blómkálssneið upp úr henni.

  6. Setjið á bökunarpappír og bakið í 200°C heitum ofni í 10 mínútur á hvorri hlið, sem sagt 20 mínútur samtals.

Hrásalat

  • 1 dl vegan majónes

  • 1 dl þunnt skorið hvítkál

  • 1 dl þunnt skorið ferskt rauðkál

  • 2 litlar eða 1 meðalstór gulrót

  • 1 tsk agave síróp

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið og rauðkálið í mjög þunnar sneiðar.

  2. Rífið niður gulræturnar.

  3. Blandið öllum hréfnum saman í skál. Saltið eftir smekk

-Njótið vel

- Færslan er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

Falafel úr chana dal baunum

Síðan ég varð ólétt hef ég verið mikið að prófa mig áfram með fleiri baunarétti og svona aðeins “hollari” fæðu. Ég myndi segja að mataræðið mitt sé nú alveg frekar hollt yfir höfuð en ég á það til að elda mikið af soyakjöti og plana flestar máltíðir í kringum slík hráefni. Ég hugsa að partur af því sé til komið vegna þess að fyrst þegar við systur urðum vegan var lítið til að slíkum vörum og samanstóð mataræðið okkar eingöngu af grænmeti, ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum. Þar af leiðandi opnaðist alveg nýr heimur fyir mér þegar vegan kjöt fór að vera í boði.

En eftir að ég varð ólétt hef ég aðeins verið að reyna að fara til baka og gera fleiri rétti úr minna unnum vörum og hef því verið að koma baunum meira og meira inn í mataræðið mitt aftur þar sem þær eru alveg stútfullar af góðri næringu, próteini, trefjum og alls kona góðu. Ég er þó alls ekki að segja að vegan “kjöt” sé óhollt og borða ég það yfirleitt eitthvað á hverjum degi líka.

Mér hefur fundist mjög gaman að leika mér með allskonar baunir síðustu mánuði og þá sérstaklega baunirnar frá Oddpods en við erum búnar að vera í samstarfi með þeim síðan í sumar. Baunirnar eru svo frábærar þar sem þær er hægt að nota á svo marga vegu og er hægt að leika sér með nánast hvaða baunir sem er í alls konar mismunandi réttum. Það sem mér finnst vera mikill plús við þetta merki er að það er hægt að fá baunir líkt og brúnar linsur og chana dal baunirnar sem ég nota í þessari uppskrift forsoðnar, en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast slíkt hérna heima. Þessar baunir þarf yfirleitt að leggja í bleyti og sjóða sjálfur. Oddpods baunirnar koma hins vegar tilbúnar til neyslu beint úr pokanum og eru þær soðnar upp úr vatni og grænmetiskrafti sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.

Nú er ég í vaktavinnu og er því oft heima í hádeginu hina og þessa daga og því finnst mér nauðsynlegt að kunna að gera góða, fljótlega rétti í hádeginu þegar ég á t.d. ekki afganga frá því kvöldinu áður eða eitthvað slíkt. Auðveldar grænmetisbollur sem taka enga stund eru alveg fullkomnar í svona fljótlega rétti og er þessi uppskrift alveg einstaklega góð þar sem hún er SVO auðveld og tekur innan við 15 mínútur að græja. Þær má einnig nota á svo marga vegu, t.d. með góðu salati, í pítubrauði eða í vefjur. Það er líka svo frábært að það er hægt að nota hvaða baunir sem er í hana og því alltaf hægt að grípa í þessa uppskrift sama hvaða baunir eru til. Í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur uppskrift með Chana dal baununum frá Oddpods en það eru gular “split peas” líkt og notað er í baunasúpu.

Hráefni:

  • 1 poki Chana dal baunir frá Oddpods

  • 1 hvítlauksrif

  • 1 msk ferskt kóríander

  • 1 msk ferksur graslaukur

  • 1 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk kúminduft

  • 2-3 msk ferskur sítrónusafi

  • salt

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til fínt duft. Tekur einungis um 2-3 mínútur í góðum blandara.

  2. Mótið í bollur, buff eða það sem hentar hverju sinni.

  3. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni í 12-15 mínútur við 200°C.

  4. Berið fram með tzaziki sósu og salati eða í pítúbrauði, vefju eða sem borgari.

Tzatziki sósa

  • 1 bolli hreint jógúrt (mín uppáhalds eru Oatly Turkisk havregurt eða hreina sojade)

  • 2 msk rifin gúrka

  • 1/2 hvítlauksrif

  • salt

  • 1 msk ferskur sítrónusafi

  • 1 msk niðursaxað ferskt dill

Aðferð:

  1. Rífið gúrkuna niður og pressið hvítlaukinn eða saxið bæði mjög smátt. Saxið dillið.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til með salti.

-Njótið vel og endilega kíkið á instagram hjá okkur en þar er stutt myndband af því hvernig ég geri bollurnar.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

 
 

Þeyttur vegan fetaostur með sólþurrkuðum tómötum, basilíku og möndlum

Í dag deilum við með ykkur fljótlegum og gómsætum rétti sem er fullkominn sem forréttur, smáréttur, millimál eða partýréttur. Þeyttur vegan fetaostur toppaður með allskonar góðgæti. Að okkar mati bestur borinn fram með nýbökuðu brauði eða góðu kexi.

Færsla dagsins er unnin i samsarfi við Violife á Íslandi og í uppskriftina notum við greek white ostinn þeirra sem minnir a fetaost og rjómaostinn. Ég passa að eiga þessa tvo osta alltaf til í ísskápnum því þeir eru svo hentugir. Rjómaostinn nota ég mikið á brauð, í súpur, sósur og í krem. Fetaostinn myl ég ofan á allskonar matrétti og sallöt. Að þeyta þá saman gerir kraftarverk og er svo dásamlega gott og hægt að toppa með þvi sem mann lystir.

Það tekur innan við 10 mínútur að setja saman þennan rétt. Ég elska allt sem er einfalt og fljótlegt og þetta er svo sannarlega bæði. Á sama tíma er rétturinn bragðgóður og skemmtilegur. Þetta er akkúrat eitthvað sem ég myndi bjóða uppá sem forrétt í matarboðinu eða skella þessu saman þegar ég fæ óvænta gesti og bera fram með góðu brauði og jafnvel víni.

Það er hægt að toppa ostinn með því sem mann lystir og ég hef prófað allskonar útgáfur. Það sem ég hafði í þetta sinn var:

  • Sólþurrkaðir tómatar

  • Basilíka

  • Ristaðar og saltaðar möndlur

  • Ólífuolía

  • Sítrónubörkur

  • Hlynsíróp

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Ég vona að þið njótið og endilega látið okkur vita ef þið prófið að gera þeytta fetaostinn, hvort sem þið toppið hann eins og við eða prófið að gera hann öðruvisi. Við ELSKUM að heyra frá ykkur!

Þeyttur vegan fetaostur (miðaður sem forréttur fyrir 2-4)

Hráefni:

  • 1 pakki (200gr) greek white fetaosturinn frá Violife

  • 100 gr rjómaosturinn frá Violife (creamy original flavor)

  • 2-4 msk ósæt sojamjólk eða haframjólk - byrjið á 2 msk og sjáið hvort það þarf að bæta meiru við

  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

  1. Setjið allt í matvinnsluvél og blandið þar til áferðin er mjúk

  2. Setjið i skál og toppið með því sem ykkur þykir gott.

Ég toppaði með:

  • Söxuðum sólþurrkuðum tómötum

  • Söxuðum ristuðum og söltuðum möndlum

  • Saxaðri basilíku

  • Ólífuolíu og olíu frá sólþurrkuðu tómötunum

  • Sítrónuberki

  • Hlynsírópi

  • Chiliflögum

  • Salti og pipar

Magnið af hverju setti ég eftir smekk. Myndi fara varlega í sítrónubörkinn og sírópið og setja frekar minna fyrst og bæta svo við. Mér finnst líka gott að setja út á ofnbakaðan lauk og hvítlauk og ólífur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel! <3

-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi-