Ernubrauð

Þetta einfalda brauð er í miklu uppáhaldi hjá okkur. Það er fullkomið fyrir veislur, matarboð eða bara hversdagslega. Það besta við brauðið er bæði hvað það er ótrúlega bragðgott og hversu ódýrt og einfalt er að búa það til, en einnig hvað það býður uppá marga möguleika. Það er nefnilega hægt að leika sér endalaust með það. Okkur þykir til dæmis rosalega gott að bæta í deigið ólífum, hvítlauk og sólþurrkuðum tómötum (sem er fullkomið með allskonar pastaréttum), en einnig er gott að bæta við uppáhalds fræjunum sínum eða jafnvel hvítlauksdufti og karrý. 

IMG_0623-5.jpg

Hráefni:

  • 1/2 líter volgt vatn

  • 3 tsk þurrger

  • 1 msk salt

  • 600 gr hveiti

  • Olía til að pennsla yfir og gróft salt til að dreifa yfir

Aðferð:

  1. Setjið volgt vatn í skál og dreyfið þurrgerinu yfir. Leyfið þessu að standa í 5 mínútur áður en haldið er lengra.

  2. Bætið hveitinu og saltinu útí. (Ef þið ætlið að bæta einhverju í brauðið er best að bæta því útí á þessu stigi, áður en deigið er hrært saman.)

  3. Hrærið deigið með sleif þar til hveitið er alveg blandað, sem sagt ekkert þurrt hveiti eftir

  4. Setjið plastfilmu eða poka yfir skálina og leyfið henni að standa í ísskáp í 8 klukkustundir eða yfir nótt.

  5. Hellið deiginu beint á plötu (ekki móta það), pennslið með olíu og dreyfið vel af grófu salti yfir. Bakið við 200°C í 50 mínútur eða þar til brauðið er gullið að ofan.

Njótið vel
-Veganistur

Afmælis brunch + tvær uppskriftir

Ég átti 21. árs afmæli í vikunni og ákvað að bjóða vinum mínum í smá brunch um helgina. Ég var búin að ákveða fyrir löngu að halda upp á afmælið mitt þar sem ég hef ekki gert það í mörg ár. Ég ætlaði að halda partý og bjóða öllum og hafa rosa gaman en þar sem ég er alls ekki djamm manneskja hætti ég fljótt við það þegar ég fór að hugsa þetta betur. Ég alveg elska að elda eins og þið vitið líklegast öll en það sem mér finnst eiginlega ennþá skemmtilegra er að leyfið öðrum að njóta með mér. Ég ákvað því að bjóða þeim í brunch þar sem að það er svo rosalega vinsælt hjá öllum núna.

Mér fannst tilvalið að gera smá bloggfærslu úr þessu til þess að sýna ykkur að það er ekkert mál að gera risastóran og góðan brunch með alls konar góðgæti þó maður sé vegan. Engin af vinum mínum sem komu er vegan en auðvitað var allt sem var í boði vegan og þeim fannst þetta ótrúlega gott og söknuðu einskis. Það þarf því engin að vera hræddur við að bjóða bara uppá vegan bakkelsi í boðum þar sem að lang flestir eru ekki einu sinni að fara að átta sig á því! Ég ætla því að deila með ykkur því sem ég bauð upp á ásamt tveimur uppskriftum.

 

Matseðilinn í afmælis brunchinum var eftirfarandi:

Amerískar pönnukökur m/bönunum, jarðaberjum og sírópi
Heimabakað brauð
Fræbrauð
Hummus & Pestó
Kasjú ostakaka
Bakaðar baunir
Pinto-villisveppapylsur
Gulrótarmuffis
Súkkulaðimuffins
Vatsmelónur & appelsínur

Epla og engifer safi
Appelsínusafi
Súkkulaði haframjólk

Hér fyrir neðan ætla ég að deila með ykkur uppskriftunum af pinto-villisveppapylsum og mjög einföldu heimabökuðu brauði.

Ernubrauð

Erna er í tengdafjölskyldunni minni en hún á heiðurinn af þessu brauði. Þetta brauð er svo ótrúlega einfalt og gott að það er bakaðr fyrir hverja einustu veislu í jfölskyldunni. Það er hægt að leika sér með það eins og hugurinn girnist en ég set oft ólífur og sólþurrkaðar tómata í það eða hvítlauk. Hérna kemur uppskrift af hinu hefðbundna brauði en hægt er að bæta við eftir eigin höfði.

Hráefni:

  • 1/2 lítri volgt vatn

  • 3 tsk þurrger

  • 1 msk salt

  • 600 gr hveiti

  • olía og gróft salt til að smyrja

Aðferð:

  1. Setjið volgt vatn í skál og dreyfið þurrgerinu yfir. Leyfið þessu að standa í 5 mínútur áður en haldið er lengra.

  2. Bætið hveitinu og saltinu útí. (Ef setja á eitthvað fleira í brauðið er best að bæta því útí á þessu stigi, áður en deigið er hrært saman.)

  3. Hrærið deigið með sleif þar til hveitið er alveg blandað, sem sagt ekkert þurrt hveiti eftir. Setjið plastfilmu eða poka yfir skálina og leyfið henni að standa í ísskáp í 8 klukkustundir eða yfir nótt.

  4. Hellið deiginu beint á plötu, smyrjið með olíu og dreyfið vel af salti yfir. Bakið við 200°C í 50 mínútur eða þar til brauðið er gullið að ofan.

Pinto-villisveppapylsur

Ég ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

  • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)

  • 2 msk olía 

  • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)

  • 1/2 meðalstór laukur

  • 2 hvítlauksrif

  • 3 sólþurrkaðir tómatar

  • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

  1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.

  2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 

  3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.

  4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur. 

Takk fyrir mig
-Júlía Sif

Uppáhalds linsubaunasúpan

Linsubaunir eru æðislegt hráefni sem hægt er að nýta í allskonar gómsæta rétti. Þær eru stútfullar af næringu og það tekur enga stund að elda þær. Þegar ég gerðist vegan var linsubaunasúpa eitt af því fyrsta sem ég lærði að elda. Súpan var þó langt frá því að vera jafn góð hjá mér og hún er í dag, enda eru rúmleg fimm ár síðan og ég hef prufað allskonar útgáfur sem hafa heppnast misvel. Ég get sagt að nú sé ég komin með súpu sem ég er virkilega ánægð með og myndi stolt bjóða uppá til dæmis í matarboðum. 

Það er mjög mismunandi hvaða grænmeti ég hef í súpunni. Ég myndi segja að linsubaunasúpa sé einmitt tilvalinn matur til að útbúa þegar maður á fullt af grænmeti í ísskápnum sem er hálfklárað og jafnvel orðið lúið. Það er rosalega gott að setja í súpuna t.d sellerí, papriku, gulrætur, sætar kartöflur eða rifið hvítkál. Ég ákvað þó að hafa þetta súper einfalt í dag og notaði tvær tegundir af lauk og spínat. 

Einn stærsti kosturinn við súpugerð er hversu lítið þarf að hafa fyrir eldamennskunni. Það er að sjálfsögðu mismunandi eftir uppskriftum en þær súpur sem ég geri eru yfirleitt virkilega þægilegar og einfaldar. Mér þykir bara eitthvað svo heillandi að geta skellt hráefni í pott og leyft því að malla án þess að þurfa mikið að skipta mér af. 

Hráefni:

  • 1 bolli saxaður laukur

  • 1 bolli niðurskorinn blaðlaukur

  • 2-3 pressaðir hvítlauksgeirar - ég notaði 2 stóra

  • Olía til steikingar

  • 2 tsk túrmerik

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk garam masala

  • 1 bolli ósoðnar rauðar linsubaunir

  • 1 dós kókosmjólk

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

  • 4 bollar vatn

  • 1 grænmetisteningur

  • Safi úr 1/2 lime

  • 150 g spínat

  • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja laukinn, blaðlaukinn og hvítlaukinn uppúr olíu í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins. 

  2. Bætið túrmerik, cumin og garam masala útí, hrærið saman við laukinn í sirka mínútu

  3. Setjið restina af hráefnunum (fyrir utan spínatið og lime safann) og leyfið súpunni að malla í sirka 20 mínútur á miðlungs hita

  4. Slökkvið á hellunni og bætið spínati, lime safa, salti og pipar útí pottinn. Hrærið aðeins og leyfið spínatinu að mýkjast. 

  5. Berið súpuna fram eina og sér eða með því sem ykkur lystir. Mér finnst súpan passa mjög vel með góðu súrdeigsbrauði. 

Vona að þið njótið
Helga María

Fjórir auðveldir chia-grautar

Mér finnst ótrúlega þægilegt að gera mér chia-graut á kvöldin til að taka með mér í vinnuna daginn eftir. Það er svolítið síðan ég byrjaði að búa mér til grauta en fyrst um sinn flækti ég það mikið fyrir mér og grautarnir innihéldu mörg hráefni. Síðan þá hef ég þróað þá mikið og ákvað ég að deila með ykkur hversu einföld uppskriftin er orðin. Hver grautur inniheldur einungis þrjú hráefni. Það eru á markaðnum í dag alls konar tegudnri af plöntumjólk með alls konar mismunandi bragði. Mér finnst tilvalið að nota bragðbætta mjólk í grautinn minn til að auðvelda fjölbreyttni, en þá fæ ég ekki leið á grautnum. Ég ákvað að nota uppáhalds mjólkina mína í þetta skiptið en það er haframjólkin frá sænska merkinu Oatly.

Hefðbundni grauturinn

Þessi grautur er æðislegur og ótrúlega hollur. Vanillan er alls ekki nauðsynleg en hún gerir mjög gott bragð sem passar æðislega við peruna.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly haframjólk

  • Örlítið af lífrænni vanillu (má sleppa)

  • 1/2 pera

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum, mjólkinni og vanillunni. 

  2. Skerið peruna í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í allavega 30 mínútur í ísskáp áður en hann er borðaður. Ég geri minn á kvöldin og læt að bíða í ísskáp yfir nóttina.

 

Bleiki grauturinn

Ótrúlega góður grautur en það að hann sé bleikur gerir hann ennþá betri. 

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly jarðaberja drykkjarjógúrt

  • 1/2 - 1 epli

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og jógúrtinni

  2. Skerið eplið í litla bita og bætið út í.

  3. Leyfið grautnum að sitja í ísskáp í minns 30 mínútur. Ég geri minn á kvöldin og hef hann í ísskápnum yfir nótt.

 

 

 

Suðræni grauturinn

Þessi er uppáhalds grauturinn minn en ég er mjög mikið fyrir mangó. Hann bókstaflega kitlar bragðlaukana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 1 ferna Oatly mangó og appelsínu drykkjarjógúrt (230 ml)

  • 1/2 mangó

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og drykkjarjógúrtinni

  2. Skerið mangóið í litla bita og setjið út í

  3. Leyfið grautnum að sitja í minnst 30 mín í ísskáp. Ég geri minn á kvöldið og leyfi honum að sitja yfir nótt.

 

 

Helgar grauturinn

Þessi grautur er tilvalinn fyrir laugardagsmorgnanna þar sem manni líður bókstaflega eins og maður sé að borða súkkulaðibúðing. Mér finnst súkkulaði og bananar passa fullkomlega saman og þess vegna toppaði ég hann með niðurskornum banana.

Hráefni:

  • 3 msk chiafræ

  • 250 ml Oatly súkkulaðimjólk

  • 1/2 - 1 banani

Aðferð:

  1. Hrærið saman chiafræunum og mjólkinni.

  2. skerið bananan í litla bita og blandið saman við

  3. Leyfið grautnum að sitja í að minnsta kosti 30 mínútur eða yfir nótt.

Þeytingur með mangó og spínati

Mér hefur alltaf þótt spínat og kál virkilega bragðgott. Ég borðaði eiginlega allt grænmeti sem barn. Ég man að ég var ekki mikið fyrir tómata og sveppi en það kom með aldrinum. Ég var þó ekki alin upp við að borða grænmeti, ég man hvað ég suðaði oft í mömmu og bað hana að hafa oftar salat með matnum. Það var bara alls ekkert svo algengt á þessum tíma. Þau skipti sem ferskt salat var með matnum var yfirleitt þegar mamma hélt matarboð eða þegar við grilluðum. Ég tengdi því ferskt salat við svokallaðan veislumat. 
 

Þrátt fyrir að vera svo heppin að þykja spínat og grænkál lostæti, eru ekki allir með sama smekk. Mörgum þykir virkilega erfitt að koma fersku salati ofan í sig og það á oft við um börn. Besta lausnin við því er að "plata" ofan í sig grænmetið. Þeytingar eru ein besta leiðin til þess. Þú getur búið til gómsætan banana-berjaþeyting og sett handfylli af spínati útí og treystu mér, þú munt ekki finna bragðið af spínatinu.

Þessi þeytingur er einstaklega frískandi og minnir mig alltaf á sumrið. Eins og ég sagði fyrir ofan er ég mikið fyrir grænmeti og leyfi því að vera svolítið áberandi í mínum þeytingum og söfum. Fyrir ykkur sem eruð minna fyrir bragðið af grænmetinu myndi ég mæla með því að sleppa gúrkunni og láta spínatið nægja. Fyrir ykkur sem finnst frískandi og gott að finna "græna" bragðið er þeytingurinn fullkominn eins og hann er. 

Hráefni

  • 1 banani 

  • 1 bolli frosið mangó (ananas virkar líka)

  • Handfylli af spínati

  • 1/4 gúrka

  • Safi úr 1/2 lime

  • 1/2 tsk túrmerik

  • Örlítið af svörtum pipar

  • 1-2 bollar vatn (það er virkilega mismunandi hversu þykka fólk vill hafa þeytingana sína. Mér þykir gott að hafa minn svolítið þykkan. Ég mæli með því að setja minna til að byrja með og bæta vatni útí eftir þörfum þar til maður finnur sína þykkt)

Aðferð

  1. Skellið öllum hráefnunum í blandara og blandið þar til hann er silkimjúkur.

  2. Njótið! 

Blandari - Blendtec 725

Helga María

Bolludags-gerbollur og þrenns konar fyllingar

Bolludagurinn er að mínu mati mjög góð tilbreyting í hversdagsleikanum svona rétt eftir áramótin. Dagur sem snýst um að gúffa í sig sætabrauði, hver tekur ekki á móti svoleiðis mánudegi fagnandi?
Bollur eru hins vegar oftast ekki vegan, að minnsta kosti ekki þessar sem við þekkjum úr bakaríum og búðum landsins. Það eru þó einhverjir staðir farnir að selja vegan bollur á bolludaginn.

Nú í ár ákvað ég að baka bollur í fysta skipti síðan ég gerðist vegan, og hef því ekki fengið bolludagsbollur í fimm ár.  Ég skil ekkert í mér að hafa ekki prufað að baka þær fyrr því það var virkilega einfalt og bollurnar ótrúlega gómsætar. Ég ákvað að gera gerbollur þar sem ég var með mjög gott gerbolludeig í huga. Bollurnar urðu mjög loftkenndar og mjúkar og hvet ég því alla til að prófa bollubakstur heima þetta árið. Bollurnar má alveg geyma í nokkra daga en þær eru þó lang bestar samdægur

Hráefni:

  • 1 3/4 dl plöntumjólk (ég notaði haframjólk)

  • 50 gr plöntusmjör

  • 2 tsk þurrger + 1 tsk sykur

  • örlítið salt

  • 1/2 tsk vanilludropar

  • 50 gr sykur

  • 250 gr hveiti

Aðferð:

  1. Setjið mjólkina og smjörið í pott og hitið þar til smjörið er bráðnar. Hrærið stanslaust í á meðan.

  2. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna þar til hún er við líkamshita (sirka 37°C). Ég athuga hitan með því að stinga fingrinum ofan í mjólkina en þegar ég finn ekki fyrir neinum hitabreytingum er mjólkin sirka við réttan hita.

  3. Stráið þurrgerinu yfir mjólkina og einni teskeið af sykri og leyfið þessu að standa í tíu mínútur.

  4. Setjið restina af hráefnunum útí og hrærið saman. Hnoðið deigið í dágóða stund annað hvort í höndunum eða í hrærivél. Deigið á að vera heldur blautt en samt auðvelt að meðhöndla með höndunum án þess að það klessist mjög mikið.

  5. Leyfið deiginu að hefast í skál með hreinu viskustykki yfir í allavega klukkutíma áður en litlar kúlur eru myndaðar og settar á bökunarplötu. Bollurnar eiga alls ekki að vera of stórar þar sem þær stækka vel í ofninum. Það koma u.þ.b. 12-14 bollur úr deiginu. Leyfið bollunum að hefast á plötunni í tuttugu til þrjátíu mínútur í viðbót áður en þær eru bakaðar í 15 mínútur við 180°C.

IMG_8563.jpg

Ég ákvað að gera þrjár mismunandi fyllingar í bollurnar að þessu sinni, en það er auðvitað líka hægt að skella bara sultu og rjóma á þær og njóta. Ég mæli með að taka aðeins innan úr bollunum áður en sett er á þær svo rjóminn renni ekki allur út þegar þær eru borðaðar.

Hindberja-chia sulta

  • 2 dl frosinn hindber

  • 1 msk síróp

  • 1 msk chiafræ

  • 1/2 dl vatn

Aðferð

  1. Hitið hindberinn og síróp í potti þar til dágóður vökvi hefur myndast.

  2. Blandið saman chiafræunum og vatni og leyfið því að standa í allavega 10 mínútur. Chiafræin bólgna út og þá verður þetta eins konar hlaup.

  3. Blandið chiahlaupinu út í hindberin þegar þau hafa kólnað.

 

Súkkulaði glassúr

  • 1 dl flórsykur

  • 1 msk kakó

  • vatn

Aðferð

  1. Blandið saman flórsykri og kakó í skál.

  2. Bætið við vatni eftir þörfum sirka 1 msk í einu.

 

Karamella

  • 1/2 dl smjör

  • 1/2 dl sykur

  • 1 dl síróp

  • 1/2 dl plönturjómi (ég notaði hafrarjóma)

Aðferð

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið að sjóða við vægan hita í u.þ.b. 20-30 mínútur og hrærið vel í á meðan.

  2. Leyfið karamellunni og kólna áður en hún er sett á bollurnar en þegar hún kólna þykknar hún.

Ég bar karamellubollurnar fram með soyatoo rjóma, niðurskornum jarðaberjum og jarðaberjasúkkulaðihjúp

 

 

 

Lakkríssósa

  • 1 dl niðurskornar lakkrísreimar

  • vatn

Aðferð

  1. Setjið lakkrísinn í lítinn pott og sirka hálfan dl af vatni.

  2. Hitið þetta þar til lakkrísinn er bráðnaður, en það þarf að hræra vel í á meðan.

  3. Bætið út í vatni á meðan að lakkrísinn bráðnar ef þarf.

Ég bar lakkrísbollurnar fram með soyatoo rjóma, lakkrískurli, súkkulaðispæni og dökkum súkkulaðihjúp.

 

 

Vonandi njótiði vel
-Júlía Sif

Kínóa og haframjöls laugardagsnammi

Ég elska að eyða tíma í eldhúsinu en um helgar þegar ég hef tíma langar mig oft að búa til eitthvað gott með kaffinu. Mér datt í hug þessa helgina að gera gömlu góðu rice krispies kökurnar sem allir þekkja örugglega vel. 

Það er örlítið vandasamt að finna vegan rice krispies hér á landi en það er þó til. Ég hef bara fundið það í Nettó en þeir virðast einungis selja vegan útgáfuna. Það sem þarf að passa þegar leita á af vegan úgáfunni er að ekki sé viðbætt D-vítamín í morgunkorninu. Ég átti því miður ekki rice krispies og nennti ekki út í búð þar sem ég vissi að ég ætti örugglega eitthvað sem ég gæti notað í staðin. 

Ég fann í skápunum hjá mér poppað kínóa og haframjöl og ákvað að prófa að nota það. Það kom ótrúlega vel út og er nammið hollara fyrir vikið. Ég ákvað því aðeins að breyta þessari hefðbundnu uppskrift og reyna að gera hana örlítið hollari. Ég skipti smjöri út fyrir kókosolíu og sykrinu fyrir kókospálmasykur og síróp, en þetta átti nú einu sinni að vera nammi. Ég ákvað svo að setja smá hnetusmjör útí þar sem ég átti það til og datt í hug að það myndi gefa mjög gott bragð.

Hráefni:

  • 150 ml kókosolía

  • 80 gr gott dökkt súkkulaði (ég notaði 70% súkkulaði)

  • 1/2 dl kókospálmasykur

  • 2 msk agave síróp

  • 1 dl hnetusmjör (ég nota hnetusmjörið frá Sollu)

  • 4 dl poppað kínóa

  • 3 dl haframjöl

Aðferð:

  1. Bræðið saman við lágan hita súkkulaði, kókospálmasykur og síróp. Það þarf að passa að hræra stanslaust í sykrinum því hann brennur mjög auðveldlega.

  2. Þegar sykurinn er bráðin setjið kókosolíuna útí og hitið þar til suðan kemur upp. Hrærið ennþá stanslaust í blöndunni svo hún brenni ekki.

  3. Takið pottið af hellinn um leið og suðan kemur upp og hrærið hnetusmjörinu út í. Leyfið blöndunni að kólna í 5-10 mínútur svo hún þykkni örlítið. 

  4. Hellið út í kínóanu og haframjölinu og hrærið vel svo það sé allt blandað í súkkulaðinu.

  5. Hellið blöndunni í eldfastmót, en það er mjög gott að hafa smjörpappír undir. Leyfið namminu að vera í frysti í 40-60 mínútur, áður en það er tekið út og skorið í bita.

Súkkulaði prótínstykki

Ég er búin að vera soldið að taka matarræðið mitt í gegn núna í janúar, eftir allt sukkið fyrir jólin. En nú er það orðið svoleiðis hérna á Íslandi að úrvalið af vegan mat, skyndibita, sætindum og bara öllu tilheyrandi er orðið svo gífurlega mikið að það er mjög auðvelt að týna sér í óhollum og næringarsnauðum kostum. Mér fannst því komin tími til að taka nokkur skref til baka og hugsa meira um það hvað ég set ofan í mig. Þegar við systur byrjuðum þetta vegan ferðalag okkar áttum við heima saman og þá var úrvalið af óhollum vegan mat ekki neitt. Við borðuðum því alveg ótrúlega hollt alla daga og sukk var bara eiginlega ekki í boði. Ég er mikið farin að sakna þess, þar sem maður var alltaf stútfullur af orku og leið alveg ótrúlega vel. Ekki misskilja þetta samt, ég er mjög ánægð með sukk úrvalið, það þarf bara aðeins að passa sig að gleyma ekki að næra líkaman almennilega líka.

Ég vissi þó að ég þyrfti að finna eitthvað sem mér fannst gott til að grípa í þegar sætindalöngunin færi að láta bera á sér. Þegar við Ívar vorum að ferðast fyrir ári kynntumst við Clif bar. Við boðuðum mjög mikið af þeim þar sem þeir fengust víða og voru mjög næringaríkir og góðir. Mér datt því í hug að reyna að búa til eitthvað svipað. Einhver svona góð orkustykki sem væru holl og næringarík.

Það er þó hægt að fá fjöldan allan af tilbúnum næringarstykkjum í flestum búðum, sum mjög góð og önnur síðri, en þau hafa það öll sameiginlegt að vera alveg virkilega dýr. Mig kítlaði því mikið í fingurna að reyna að gera eitthvað svona sjálf heima. Það sparar manni alltaf hellings pening að búa til hlutina sjálfur og svo finnst mér alveg frábært að vita alveg upp á hár hvað er í matnum sem ég er að borða.

Eins og mér datt í hug var alls ekki flókið að gera stykkin sjálfur og það tók enga stund. Þau heppnuðust líka alveg ótrúlega vel og hafa verið til hérna heima síðan ég bakaði þau fyrst í byrjun janúar. Við tökum þessi stykki með okkur út um allt, en þau hafa oft bjargað okkur þegar maginn hefur verið sár og við að flýta okkur eitthvað. Það er fyrir öllu að hafa eitthvað gott til að grípa í og vita á sama tíma að það er stútfullt af hollri og góðri næringu.

Hráefni:

  • 15 fersk­ar döðlur

  • 1 dl haframjólk

  • 1 msk. möndl­u­smjör

  • 2 tsk. kó­kospálma­syk­ur (eða sæta að eig­in vali)

  • 1/ - 1 msk. hrákakó

  • 1/ dl veg­an-súkkulaðiprótein (við notuðum hráa próteinið frá Sun warri­or)

  • 2 msk. hör­fræmjöl

  • 1 1/ dl trölla­hafr­ar (við not­umst við glút­en­lausa hafra)

  • 1 dl poppað kínóa (en það færst í heilsubúðum sem og hagkaup og nettó)

  • 1/ dl kó­kos­mjöl

  • 30 gr 70% súkkulaði

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka stein­ana úr öll­um döðlun­um.

  2. Setjið döðlur, haframjólk, möndl­u­smjör, kó­kospálma­syk­ur, kakó og prótein í bland­ara eða mat­vinnslu­vél og blandið þar til þetta verður að sléttu mauki.

  3. Hrærið mauk­inu sam­an við hafr­ana, kínóað, kó­kos­mjölið og súkkulaðið með sleif þar til það er vel blandað sam­an.

  4. Það má bæði rúlla deig­inu í kúl­ur og borða hrá­ar eða móta í stykki og baka við 180°C í 15 mín­út­ur. Ég mæli með að prófa hvort tveggja og finna út hvað ykk­ur finnst best.

Njótið vel
-Júlía Sif

Ómótstæðileg Ella - Sætkartöflubrúnkur

Við systur fengum að gjöf bókina Ómótstæðileg Ella rétt fyrir jól. Eftir að hafa átt bókina í svolítinn tíma og prófað að elda og baka úr henni fannst okkur vert að tala aðeins um hana hérna á blogginu. Við höfum fylgst með Ellu á samfélagsmiðlum í dágóðan tíma og getum svo sannarlega sagt að hún sé algjör snillingur í eldhúsinu. Það er sko enginn leikur að elda og baka úr svona hollum og heilnæmum hráefnum og láta það heppnast svona ótrúlega vel og girnilega.

Vegna þess hversu vel okkur hefur líkað bókin ætlum við systur, ásamt forlaginu Angústúra, að gefa tvö eintök af henni. Það eina sem þarf að gera til að komast í pottinn er að setja athugasemd við þessa færslu hér að neðan. Við lofum að enginn verður svikinn af þessari bók en allar uppskriftirnar í henni eru auðvitað vegan, fyrir utan nokkrar þar sem notast er við hunang. Það er þó ekkert vandamál að skipta hunangi út fyrir aðra sætu en við notumst þá aðallega við agave- og hlynsíróp.

Bókin hefur að geyma alveg ótrúlega mikið af æðislegum fróðleik og girnilegum uppskriftum en sætkartöflubrúnkurnar urðu strax ein af okkar uppáhalds. Þessi kaka er svo holl að það væri hægt að borða hana í morgunmat, hádegismat og kvöldmat. Maður myndi þó ekki trúa því þegar maður smakkar hana en hún uppfyllir svo sannarlega sætindaþörfina og bragðast eins og hefðbundin heit súkkulaðikaka.

Við höfum gert þessa köku nokkrum sinnum, boðið vinum og vandamönnum uppá hana og fengið góðar viðtökur. Þess vegna ætlum við að deila með ykkur uppskriftinni af þessari æðislega köku hérna fyrir neðan. Við systur erum þó örlítið erfiðar þegar kemur að því að fylgja uppskrift og auðvitað þurftum við aðeins að bæta við hana. Það er þó alls ekki nauðsynlegt þar sem kakan er æðisleg eins og hún er í bókinni.

Hráefni: úr uppskriftinni koma 10-12 brúnkur

  • 2 miðlungstórar sætar kartöflur (600 gr)

  • 14 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)

  • 2/3 stór bolli malaðar möndlur (80 gr)

  • 1/2 stór bolli bókhveiti- eða hýðishrísmjöl (100 gr) (við notum bókhveitimjöl)

  • 4 msk hrákakó

  • 3 msk hlynsíróp

  • saltklípa

  • (ég bætti útí 30 gr af söxuðum heslihnetum og 60 gr af dökku appelsínusúkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 180°C (blástur 160°C)

  2. Skrælið sætu kartöflurnar. Skerið þær í bita og gufusjóðið í 20 mínútur, þar til þær verða mjög mjúkar.

  3. Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn og byrjaðar að detta í sundur blandið þið þær í matvinnsluvél ásamt steinlausum döðlum þar til þetta verður að mjúku deigi.

  4. Blandið þeim hráefnum sem eftir eru saman í skál, áður en þið hrærið sætu kartöflunum og döðlunum vel saman við.

  5. Setjið bökunarpappír í eldfast mót, hellið deiginu í það og bakið í um 20 - 30 mínútur, þar til þið getið stungið í kökuna með gaffli og hann kemur þurr út. Losið kökuna úr forminu og leyfið henni að kólna í um 10 mínútur. Það skiptir miklu máli þar sem brúnkurnar þurfa þenna tíma til að loða saman.

Njótið vel og munið að skrifa athugasemt fyrir neðan til að eiga möguleika á að vinna bókina.
-Veganistur

Vegan mac & cheese

unnamed (11).jpg

Mac and cheese er réttur sem fæstir íslendingar alast upp við að borða. Við eigum ekki einu sinni til íslenskt nafn yfir réttinn. Makkarónur með osti gæti gengið en það hljómar ekkert svakalega spennandi. Við systur höfum ekki oft smakkað mac and cheese og Í þau fáu skipti höfum við ekki skilið hæpið. Ekki fyrr en við smökkuðum vegan útgáfu þar sem ostasósan var búin til úr graskeri og kasjúhnetum. Eins og það hljómar nú furðulega smakkast það virkilega vel. Við vissum strax að við yrðum að búa til uppskrift innblásna af þeirri hugmynd. 

Rétturinn gæti ekki verið einfaldari, nema kannski ef sósan væri úr dufti og kæmi úr pakka, en þó munar ekki miklu. Þessi pínulitla auka-fyrirhöfn er algörlega þess virði því þetta er bæði virkilega bragðgott og svo er sósan næringarrík og inniheldur einungis holl og góð hráefni. 

Mac and cheese er vanalega ekkert svakalega hollur réttur en í þessu tilfelli er hann það. Margir þola illa hvítt hveiti en það er hægt að nota hvaða pasta sem er með þessari sósu. Fyrir ykkur sem borðið ekki glútein er að sjálfsögðu ekkert mál að nota glúteinlaust pasta, við höfum margoft notað svoleiðis og það er nákvæmlega enginn munur á bragðinu.

 

Hráefni

  • 450g butternut grasker

  • 350g pasta

  • 150g kasjúhnetur

  • 1/2 laukur - við notuðum lítinn lauk. Ef ykkar er í stærri kanntinum mælum við með að nota 1/4

  • 1/4 haus brokkólí

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 3 msk næringarger

  • 1 dl jurtamjólk að eigin vali - við notuðum haframjólk frá Oatly

  • 2 tsk pasta rossa krydd frá Santa maria (eða annað sambærilegt krydd)

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk sítrónusafi

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð

  1. Leggið kasjúhneturnar í bleyti í að minnsta kosti klukkustund. Það er mjög fínt að setja þær í bleyti kvöldið áður og leyfa þeim að liggja yfir nótt svo þær séu orðnar vel mjúkar. Þetta fer allt eftir blandaranum sem þið eigið. Því betri sem hann er, því styttra þurfa þær að liggja í bleyti.

  2. Skerið graskerið niður í teninga og gufusjóðið í 15-20 mínútur

  3. Mýkið laukinn á pönnu

  4. Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum á pakkanum

  5. Steikið brokkólí á pönnu í nokkrar mínútur

  6. Setjið öll hráefnin fyrir utan pastað og brokkólíið í blandara og blandið vel.

  7. Setjið pastað í stóra skál ásamt brokkólíinu, hellið sósunni útí og hrærið saman.

  8. Okkur þykir gott að bera þetta fram með ristuðu brauði

Vonum að þið njótið!
Veganistur

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

  • 2 bollar hveiti

  • 2 msk sykur

  • 4 tsk lyftiduft

  • Smá salt

  • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk

  • 4 msk olía

  • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita

  2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál

  3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru

  4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið

  5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María

Vegan brauðterta

Brauðtertur voru virkilega vinsælar hér áður fyrr. Varla kom það fyrir að maður færi í veislu þar sem ekki voru bornar á borð fallega skreyttar brauðtertur. Svo virðist sem þær séu að detta úr tísku og persónulega datt okkur aldrei í hug að reyna að "veganæsa" slíka uppskrift. Fyrir ári fórum við svo að taka eftir ákveðnu "trendi" á sænskum facebookhóp þar sem meðlimir hópsins kepptust við að útbúa fallegustu vegan brauðtertuna, eða ,,smörgåstårta¨ eins og hún er kölluð á sænsku. Þar sem okkur þykir skemmtilegt að sýna ykkur hversu auðvelt er að útbúa vegan útgáfur af því sem manni þykir gott að borða ákváðum við að útbúa vegan brauðtertu og getum sagt ykkur að hún kom okkur virkilega mikið á óvart.

Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annarsvegar tófú "eggjasalat" og hinsvegar "skinkusalat" með reyktri vegan skinku. Bæði salötin smakkast virkilega vel og skinkusalatið munum við hiklaust gera við fleiri tilefni.

Það er einfalt að gera brauðtertu og við erum hissa á því að hafa ekki dottið það í hug fyrr. Hver og einn getur að sjálfsögðu gert þá fyllingu sem hann langar en við erum mjög ánægðar með þessi salöt. Reykta vegan skinkan sem við notuðum gefur brauðtertunni skemmtilega jólalegt bragð. 

Eitt af því skemmtilegasta við að "veganæsa" klassískar uppskriftir er hvað fólk verður vanalega hissa yfir því að þetta sé vegan. Fólk á það til að halda að vegan matur smakkist ekki eins vel og sé minna spennandi. Þessvegna er svo skemmtilegt að sjá svipinn á fólki þegar það uppgvötar að því hefur svo sannarlega skjátlast. 

Það er gaman að heyra hversu margir eru farnir að gera uppskriftirnar okkar. Við höfum fengið sendar myndir þar sem fólk hefur bakað súkkulaðikökuna okkar eða gert aspasbrauðið fyrir ættingja og vini sem eru vegan. Fyrir nokkrum árum þótti fólki yfirleitt mjög stressandi að fá vegan manneskju í matarboð eða veislu því flestir vissu ekkert hvað þeir gætu boðið þeim uppá. Nú er þetta loksins að breytast og fólk farið að sjá hversu auðvelt það er að útbúa vegan rétti. Brauðtertan er einmitt tilvalinn réttur til þess að mæta með í veislu til þess að sýna öðrum að veganismi stoppar mann ekkert í því að borða góðan og fallegan mat. Við vegan fólkið getum svo sannarlega belgt okkur út um jólin á smákökum, lakkrístoppum, súkkulaðitertum og brauðréttum alveg eins og aðrir. 

Hráefni

Vegan brauðterta

  • 1 pakki af brauðtertubrauði

  • Vegan eggjasalat (uppskrift fyrir neðan)

  • Vegan skinkusalat (uppskrift fyrir neðan)

  • Auka mæjónes til að smyrja á tertuna (við gerum okkar mæjónes sjálfar, það er hægt að kaupa margar týpur af vegan mæjó til dæmis í Hagkaup og Gló fákafeni en okkur þykir alltaf miklu betra að gera okkar eigin. Það tekur innan við 5 mínútur og smakkast æðislega. Uppskriftin okkar er HÉR og tvöföld uppskrift passar fullkomlega í brauðtertuna, bæði í salötin og til að smyrja utan um tertuna)

  • Grænmeti til að skreyta. Það fer að sjálfsögðu bara eftir smekk og hugmyndaflugi hvað fólk kýs að hafa ofan á tertunni. Við notuðum graslauk, steinselju, kirsuberjatómata, gúrku og radísur. 

1. Leyfið brauðinu að þiðna og skerið skorpuna af

2. Smyrjið salötunum á hverja brauðsneið fyrir sig

3. Smyrjið vegan mæjónesi utan um brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur dettur í hug

4. Ef þið hafið tök á er fínt að leyfa tertunni að fara í ísskáp í svolítinn tíma en þá er þægilegra að skera hana, hinsvegar er það bara aukaatriði og skiptir engu hvað bragðið varðar. 

Salat 1 - Tófú "eggjasalat"

  • 1 tófústykki (við kaupum tófúið sem fæst í Bónus)

  • Örlítil olía til steikingar

  • 1/2 tsk túrmerik

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • 1 msk sítrónusafi

  • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes. 

  • 1 dl hreint sojajógúrt frá Sojade (jógúrtin fæst í Bónus og Hagkaup og ein dolla af stærri gerðinni er nóg í bæði salötin)

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1 msk smátt skorinn graslaukur

  • salt og pipar eftir smekk

1. Brjótið tófúið niður á pönnu og steikið létt uppúr smá olíu, kryddum og sítrónusafa.

2. Leyfið tófúhrærunni að kólna í nokkrar mínútur, setjið hana í stóra skál og blandið mæjó, jógúrt, sinnepi og graslauk saman við. 

Salat 2 - Vegan skinkusalat

  • 1 dós blandað grænmeti frá Ora

  • 1 bréf vegan skinka (Við notuðum reyktu skinkuna frá Astrid och Aporna sem kom nýlega í Hagkaup. Auk þess fæst góð skinka frá Veggyness í Nettó)

  • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes

  • 1 dl hreina jógúrtin frá Sojade

  • 1/2 tsk hlynsíróp

  • salt eftir smekk

1. Skerið skinkuna í bita og blandið öllu saman í skál.

 

 

Við vonum að þið njótið! 
Veganistur

 

 

Heitt súkkulaði

Heitt súkkulaði er eitt af því sem gerir veturinn betri. Það er fátt jafn gott eftir göngutúr í kuldanum en hentar líka fullkomlega á köldum sunnudagsmorgnum þegar mann langar ekkert frekar en að kúra uppi í sófa í náttfötum vafin í teppi! 

Margir halda að það sé mun fljótlegra að útbúa heitt kakó úr tilbúnu kakódufti, eins og Swiss miss, og verða því svekktir að komast að því að Swiss miss er alls ekki vegan. Að okkar mati er heitt súkkulaði gert "frá grunni" mun betra og meira alvöru. Það tekur innan við 10 mínútur að útbúa og er algjörlega þess virði.

Mjólkin frá Oatly er alveg frábær. Þau framleiða meðal annars mjólk sérstaklega gerða fyrir kaffi. Hún freyðir betur og er svolítið þykkari. Ég notaði hana í heita súkkulaðið og það kom virkilega vel út. Oatly fæst í krónunni. 
Sykurpúðarnir fást í Gló í Fákafeni og koma bæði svona litlir og einnig stærri. Þeir eru mjög góðir og pössuðu mjög vel við kakóið. 

Hráefni:

  • 175g suðusúkkulaði

  • 2 dl vatn

  • 1L kaffimjólk frá Oatly - eða önnur jurtamjólk

  • Smá salt

  • Kanilstöng

Valfrjálst: 

  • Jurtarjómi frá Soyatoo, fyrir þá sem vilja þeyttan rjóma með heita súkkulaðinu (fæst í Gló Fákafeni)

  • Vegan sykurpúðar (Fást í Gló Fákafeni)

 

Aðferð:

  1. Setjið vatnið í pott og brjótið súkkulaðið ofan í. Hrærið vel í pottinum á meðan súkkulaðið bráðnar í vatninu

  2. Hellið mjólkinni út í pottinn ásamt kanilstönginni og leyfið suðunni að koma upp.

  3. Saltið eftir smekk

Berið fram með sykurpúðum, þeyttum jurtarjóma eða bara eitt og sér. Uppskriftin er fyrir sirka 4-5.

Vona að þið njótið
Helga María

Innbakað hátíðarOumph!

Þegar gerast skal vegan er það oft jólamaturinn sem þvælist hvað mest fyrir fólki. Hvað skal borða á jólunum? er spurning sem við fáum ótrúlega oft á hverju ári. Flestir eiga margar góðar jólaminningar og tengjast þær nánast allar mat. Margir eru mjög vanafastir og líður illa við tilhugsunina um að borða eitthvað annað en það sem þau eru vön á jólunum. Við systur komumst hinsvegar að því að jólin verða alveg jafn hátíðleg og eftirminnileg sama hvað við borðum. Vegan matur er nefnilega ekki síðri öðrum mat líkt og margir virðast oft halda. 

Við höfum báðar prófað margt, annars vegar rétti sem hafa heppnast mjög vel og hins vegar rétti sem hafa endað í ruslinu. Ein jólin var það hnetusteik sem brann við, önnur jólin hnetusteik sem var óæt og fleira þess háttar. Svo hafa það verið gómsætar sveppasúpur sem hinir í fjölskyldunni geta ekki staðist og mjög gómsætar hnetusteikur. Við höfum komist að því að það skiptir í rauninni litlu máli hvað við borðum á jólnum, svo lengi sem það er gott.  Eftir þónokkuð mörg veganjól, áramót, páska og fleiri hátíðir höfum við þó loksins fundið rétt sem okkur finnst vera fullkomin fyrir hátíðirnar. 

Helga kynntist Oumph! vörunum á undan flestum Íslendingum þar sem hún bjó í Svíþjóð, en þaðan er varan upprunalega. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph! er þá er það soyjakjöt sem inniheldur einungis soyja, vatn og olíu og er lang besta soyjakjötið á markaðnum í dag að okkar mati. Helga ákvað eftir að hafa kynnst þessari vöru að gera einhvern rétt úr henni um jólin í fyrra.  Tengdamamma hennar var að innbaka einhvers konar kjöt í smjördeigi og fannst henni tilvalið að prófa bara eitthvað þess háttar með Oumphinu.

Það kom ekkert smá vel út og vörum við staðráðnar í því að fyrir jólin í ár myndum við deila uppskriftinni með ykkur. Við fundum rosalega mikla þörf fyrir uppskrift af einhverju öðru en hnetusteik fyrir þessi jól. Hnetusteik er algengasti jólamatur grænmetisæta og sumir skiljanlega komnir með smá leið á henni. Júlía er að minnsta kosti spennt fyrir því að borða eitthvað annað þessi jóla eftir að hafa borðað hnetusteikina á aðfangadag, annan í jólum, gamlárskvöld og nýársdag í fyrra.  

Innbakað hátíðarOumph! (10 bökur)

  • 1 poki OumphI (annað hvort the chunk eða garlic and thyme)

  • 1-2 skallotlaukar

  • 3 hvítlauksrif

  • 2-4 blöð grænkál, allt eftir smekk

  • 1 tsk rósmarín

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1 dl Oatly-hafrarjómi

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 sveppateningur

  • 1 pakki Findus smjördeig

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna þar til auðvelt er að skera það í litla bita. Saxið einnig niður laukinn og grænkálið og setjið til hliðar.

  2. Steikið Oumphið upp úr smá olíu þar til það er vel heitt og setjið síðan laukinn, grænkálið og hvítlaukinn útí ásamt kryddunum.

  3. Steikið þetta í nágóðan tíma, eða um 10 - 15 mínútur, áður en rjómanum, sveppakraftinum og sinnepinu er bætt út í.

  4. Leyfið fyllingunni að hitna vel áður en slökkt er undir, en rjóminn þarf ekki að sjóða.

  5. Fletjið hverju smjördeigsplötu örlítið út (ekki hafa áhyggjur þó þið eigið ekki kökukefli, við redduðum okkur með glerflösku hehe) og skerið í tvennt. Leggið hvern ferhyrning af smjördeigi í eitt hólf á möffinsskúffu og setjið sirka 2 msk af fyllingunni ofan í. Festið öll fjögur hornin vel saman.

  6. Penslið hverja böku með þeirra plöntusmjólk sem er til hverju sinni, það má einnig nota afgangin af hafrarjómanum og bakið við 190 °C í 20 til 30 mínútur eða þar til gullinbrúnar.

Við bárum innbakaða Oumphið fram með brúnuðum kartöflum, rauðvínssveppasósu, grænum baunum og rauðkáli.

Rauðvíns-sveppasósa

  • 100 gr sveppir

  • 1 peli Oatly-hafrarjómi (250ml)

  • 1 msk rauðvín

  • 1/2 sveppateningur

  • salt og pipar

  • 2 msk hveiti

  • 3/4 dl vatn

  1. Steikið sveppina þar þeir eru mjúkir og svolítið vökvi myndast.

  2. Bætið rjóma, rauðvíni, sveppateningi, salti og pipar á í pottinn og látið sjóða í u.þ.b. 15 mínútur,

  3. Hristið eða þeytið saman með písk vatninu og hveitinu þar til alveg kekklaust og hellið út í í mjórri bunu á meðan hrært er stanslaust í súpunni.

  4. Leyfið suðunni að koma aftur upp og slökkvið undir.

Brúnaðar kartöflur (10-12 litlar)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Njótið vel
-Veganistur

 

 

Vegan lagterta

Jólaundirbúningurinn heldur áfram hjá okkur systrum og enn einu sinni sannast það að maður þarf ekki dýraafurðir til að njóta matarins sem fylgir þessari hátíð. Núna í nóvember prófuðum við í fyrsta skipti síðan við gerðumst vegan að gera lagtertu. við gerðum okkur þó ekki miklar vonir og vissum í raun ekki alveg út í hvað við værum að fara.

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og sáum að þær voru ekkert rosalega flóknar. Uppistaðan í þeim flestum var u.þ.b. sú sama en auðvitað innihéldu þær allar egg. Við ákváðum að þróa okkar eigin uppskrift og nota aquafaba í staðin fyrir egg. 

Aquafaba er orðið flestum kunnungt en það notum við t.d. í marengsuppskriftirnar okkar. Júlía bakaði köku fyrir jólin í fyrra sem minnti mikið á lagtertu og notaði aquafaba í hana og því ákváðum við bara að halda okkur við það. En fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós.

Það að baka lagtertu er alls ekki eins flókið og við héldum. Ástæðan fyrir því að okkur hafði ekki dottið í hug að baka lagtertu áður er sú að við borðuðum ekki mikið af henni í æsku. Hún var aldrei bökuð heima og því ekki mjög stór partur af okkar jólum. Núna í vetur höfum við samt mikið verið að gæla við þessa hugmynd þar sem kakan er svo rosalega jólaleg.

Einnig fundum við fyrir svolítilli eftirspurn eftir uppskrift af þessari köku og við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa skellt í hana. Við erum núna búnar að prófa uppskriftina nokkrum sinnum og hefur hún alltaf heppnast mjög vel.

Hráefni:

  • 150 gr vegan smjör (við notum Krónu smjörlíki)

  • 3 dl sykur

  • 6 msk aquafaba

  • 7 1/2 dl hveiti

  • 2 tsk kanill

  • 1 1/2 tsk negull

  • 1 1/2 tsk matarsódi

  • 1 msk kakó

  • 2 1/2 dl plöntumjólk (við notum Oatly haframjólkina)

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið og sykurinn í hrærivél og bætið síðan aquafaba útí. Þeytið þetta þar til létt og ljóst.

  2. Blandið þurrefnunum saman í aðra skál.

  3. Bætið því út í smjörhræruna ásamt mjólkinni og hrærið saman.

  4. Skiptið deginu jafnt í tvennt og bakið tvo botna í 18 mínútur við 175°C. Botnarnir eiga að vera u.þ.b. 25 x 35 cm. Skerið hvorn botn í tvennt svo þið hafið fjóra botna og smyrjið smjörkreminu jafnt á milli þeirra.

Smjörkrem:

  • 200 gr vegan smjör

  • 3 msk aquafaba

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 pakki flórsykur (500 gr)

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í hrærivel og þeytið vel saman.

  2. Smyrjið á milli botnanna.

Njótið vel!
-Veganistur

Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

  • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif

Rjómalöguð sveppasúpa í brauðskál

IMG_6705.jpg

Á veturna eru súpur og kássur algjörir bjargvættir. Það er fátt meira kósí en ylvolg súpa eftir langan og kaldan dag. Við ætlum að vera duglegar að deila með ykkur góðum súpuuppskriftum í vetur, en í dag ætlum við að sýna ykkur sveppasúpu uppskriftina okkar sem er ein af okkar eftirlætis súpum. 

Súpur eru ekki einungis þægilegar vegna þess að þær ylja manni á köldum dögum, heldur einnig vegna þess að við eldamennskuna þarf yfirleitt bara einn pott og eitthvað til að hæra með. Oftar en ekki er gott að skella hráefnunum í pottinn og leyfa þeim að malla í svolítinn tíma á lágum hita án þess að þurfa mikið að skipta sér af. Eins og okkur þykir gaman að eyða tíma í eldhúsinu er oft rosalega fínt að geta gert fljótlegan, bragðgóðan og næringarríkan mat án mikillar fyrirhafnar. Það skemmtilegasta við þessa súpu er það að hún hentar fullkomlega sem kvöldmatur á venjulegu miðvikudagskvöldi en hentar einnig einkar vel sem forréttur við hvaða tilefni, eins og til dæmis sem forréttur á aðfangadagskvöld. 

Við erum duglegar að gera sveppasúpu við allskonar tilefni.  Við höfum mikið borðað hana á hátíðum og Júlía bar hana til dæmis fram í útskriftarveislunni sinni. Hún er klassísk og það finnst flestum hún góð svo hún hentar til dæmis vel fyrir tilefni þar sem ekki eru allir vegan, því fæstir finna nokkurn bragðmun. Eini munurinn er sá að jurtarjóminn er alls ekki jafn þungur í magann og hinn hefðbundni og við getum lofað ykkur að fólk mun ekki kvarta yfir því. 

Við ákváðum að prufa að bera súpuna fram í brauðsskál. Við keyptum súrdeigsbrauð í Passion bakaríi og einfaldlega skárum ofan af brauðinu, tókum það mesta innan úr og stungum í ofnin á 200°C í sirka 10 mínútur svo skálin yrði ekki blaut í gegn.

Þar sem brauðið var heldur stórt komst nóg af súpu í það fyrir okkur tvær. Næst ætlum við að reyna að finna aðeins minni brauð svo maður geti fengið sína eigin brauðskál. Við þurfum þó varla að taka það fram að brauðskálin er engin nauðsyn, hún var gerð einungis uppá gamanið en kom virkilega vel út. Við mælum þó sterklega með súrdeigsbrauðunum úr Passion bakarí, hvort sem þið viljið nota þau sem skálar eða einfaldlega njóta þess að borða það með súpunni. 

Hráefni:

  • 100 gr vegan smjör

  • 1/2 til 1 laukur (við notuðum hálfan stóran)

  • 200 gr frosin villisveppablanda

  • 250 (1 pakki) sveppir

  • hveitiblanda (2 kúfullar msk hveiti + 1 dl vatn hrisst saman)

  • 1 til 2 greinar ferskt timian

  • 1 tsk þurrkað timian

  • salt og pipar

  • 1 sveppateningur

  • 1 til 2 tsk grænmetiskraftur

  • 250 ml vatn

  • 750 ml Oatly haframjólk

  • 500 ml (tvær fernur) Oatly hafrarjómi

Aðferð:

  1. Leyfið frosnu sveppunum að þiðna í nokkrar mínútur. Skerið þá svo niður ásamt fersku sveppunum og saxið laukinn.

  2. Bræðið smjörið í potti og bætið sveppunum og lauknum saman við. Steikið við lágan hita í dágóðan tíma eða u.þ.b. 15 mínútur. 

  3. Nýtið tímann á meðan í að sjóða vatn í katli eða öðrum potti. Þetta er ekki nauðsynlegt en okkur þykir gott að búa til grænmetissoð með því að sjóða vatn, hella því í skál og leyfa kraftinum að leysast almennilega upp í því áður en við hellum því út í pottinn með sveppunum. 

  4. Hristið saman hveitiblönduna þar til engir kekkir eru eftir. Okkur þykir fínt að nota sultukrukku í verkið því þá er engin hætta á að þetta hristist uppúr. Hellið blöndunni hægt útí og hrærið vel í á meðan.

  5. Hellið grænmetissoðinu útí 50 ml í einu og hrærið vel í á meðan svo ekki myndist kekkir í súpuna. Leyfið suðunni svo að koma upp og hellið síðan mjólkinni útí. 

  6. Látið súpuna malla í 15-20 mínútur áður en rjóminn fer útí.  Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort vantar meira af kryddum. 

  7. Hellið hafrarjómanum útí, leyfið suðunni að koma upp, slökkvið undir og berið fram. 

  8. Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum t.d. oft á jólunum, er fínt að geyma það að setja rjómann útí þar til hún er hituð upp rétt áður en það á að borða hana.

  9. Það má auðvitað mauka súpuna með töfrasprota ef þess er kosið en við kjósum að gera það ekki.

Vonandi njótið þið vel! 
-Veganistur

Vegan lakkrístoppar

Nú nálgast jólin óðfluga og flestir farnir að huga að jólabakstrinum. Við systurnar erum að sjálfsögðu engin undantekning. Þegar við gerðumst vegan bjuggumst við ekki við því að baka lakkrístoppa aftur. Vegan marengs var eitthvað sem fólk almennt hafði ekki hugmynd um að hægt væri að gera. Það var svo fyrir sirka tveimur árum að aquafaba, próteinríki vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós, uppgvötaðist. Það var frakkinn Joël Roessel sem fann upp á þessarri snilld. Aquafaba gjörsamlega breytti lífi vegan fólks um allan heim. Nú geta þeir sem kjósa að borða ekki egg eða eru með ofnæmi fyrir eggjum notið þess að borða til dæmis marengstertur og mæjónes svo eitthvað sé nefnt. 

Síðustu jól bökuðum við lakkrístoppa í fyrsta skipti síðan við urðum vegan. Við vorum örlítið skeptískar í fyrstu og vildum ekki gera okkur of miklar vonir. Við urðum því heldur betur hissa þegar lakkrístopparnir komur úr ofninum og smökkuðust nákvæmlega eins og þeir gömlu góðu sem við vorum vanar að borða áður fyrr. 

Við þróuðum uppskriftina sjálfar og birtum á facebooksíðunni okkar en hún vakti strax mikla lukku. Uppskriftin er virkilega einföld og hefur slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað toppana hjá okkur. Það er að sjálfsögðu vel hægt að bjóða öllum uppá lakkrístoppana, hvort sem fólk er vegan eða ekki, því það er enginn munur á þeim. 

Við erum á fullu að safna góðum hátíðaruppskriftum á bloggið okkar sem henta vel fyrir jólin og í allskonar veislur. 
Núna erum við til dæmis komnar með

Marengstertu
Aspasbrauðrétt
Döðlunammi
Súkkulaðiköku

... Og það er margt fleira á leiðinni. 
 

IMG_6712-2.jpg

Vegan Lakkrístoppar

  • 9 msk aquafaba

  • 300g púðursykur

  • 150g lakkrískurl

  • 150g suðusúkkulaði

 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°c

  2. Þeytið aquafaba í hrærivél þar til vökvinn verður alveg stífur, eða í sirka 15-20 mínútur

  3. Bætið púðursykrinum hægt út í, það er fínt að setja bara eina matskeið í einu og þeytið á meðan

  4. Hrærið vel og lengi, alveg í aðrar 20 mínútur

  5. Slökkvið á hrærivélinni og blandið lakkrísnum útí, ásamt brytjuðu súkkulaðinu, varlega með sleif.

  6. Bakið lakkrístoppana í 15-17 mínútur. Leyfið þeim að kólna í svolítinn tíma á plötunni eftir að þið takið þá út.

Vonum að þið njótið 

-Veganistur

Fullkomið grænmetis lasanga

Ég varð snemma ástfangin af ítölskum mat. Það var eitthvað við pasta, pizzur, tómatlagaðar sósur og þessar einstöku kryddjurtir sem heillaði mig. Ég held að pasta hafi alltaf verið einn af mínum uppáhalds mat, hvort sem það var pasta með kjötsósu, lasanga, kalt pastasalat eða pestópasta. Það er eitthvað við þennan rétt, hann getur bæði verið svo látlaus með einfaldri sósu en á sama tíma svo fínn með aðeins meiri tíma og ást.

Í þetta skiptið ætlum við þó að deila með ykkur uppskrift á einföldu, klassísku grænmetislasanga. Það er langt síðan við fengum fyrst fyrirspurn um að gera lasagna uppskrift.  Lasagna er réttur sem maður getur leikið sér endalaust með. Það skiptir eiginlega ekki máli hvaða grænmeti maður notar, það verður alltaf gómsætt. Þessi uppskrift er mjög hefðbundin og þægileg, en við stefnum á að birta uppskriftir af alls kyns mismunandi útgáfum af þessum skemmtilega rétt í framtíðinni. 

I uppskriftina notuðum við meðal annars Violife rjómaost sem gefur réttinum mjög skemmtilegt bragð. Brúnu linsubaunirnar gera líka mikið fyrir réttinn að okkar mati. Grænmetið er hinsvegar smekksatriði. Það er að sjálfsögðu hægt að nota bara það sem er til í ísskápnum en við ákváðum að nota það sem er í uppáhaldi hjá okkur að þessu sinni. 

það halda margir að það sé rosalegt vesen að útbúa lasagna en í rauninni er það verulega einfalt. Það er tekur kannski smá stund að setja það saman en það er skemmtilegt og algjörlega þess virði. 

Það sem er hins vegar mjög þægilegt við lasanga er að það er í góðu lagi að undirbúið það daginn áður en það skal borið fram. Því hentar það fullkomlega þegar maður fær fólk í mat því maður getur haft það tilbúið í ísskápnunm og skellt því í ofninn rétt áður en gestina ber að garði. Ekkert uppvask eða stress.

Hráefni:

  • 1/2 bolli þurrar brúnar linsur

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 2 til 3 hvítlauksgeirar

  • 1/2 til 1 paprika

  • 1 meðalstór laukur

  • 3 gulrætur

  • hálfur meðalstór blómkálshaus

  • 1 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 3 msk tómatpúrra

  • 1 msk þurrkuð basilíka

  • 1 msk þurrkað oregano

  • 2 msk grænmetiskraftur

  • salt og pipar

  • spínat

  • 1 dós violife rjómaostur með kryddjurtabragði (herbs)

  • lasanga plötur (passa að þær innihaldi ekki egg)

  • vegan ostur (við notuðum ost frá merkinu follow your heart sem fæst í Gló)

Aðferð

  1. Byrjið á því að skola linsurnar vel og sjóða upp úr einni matskeið af grænmetiskrafti í 40 mínútur. Á meðan er gott að undirbúa fyllinguna.

  2. Skerið gulrætur, papriku og lauk venjulega niður en blómkálið er best að saxa mjög smátt svo það líkist örlítið hakki. Steikið grænmetið með kryddunum og hvítlauknum þangað til það mýkist aðeins. Þegar grænmeti sem nota á í fyllingar og pottrétti líkt og í þessari uppskrift er algjör óþarfi að steikja það upp úr olíu en okkur finnst best að nota bara nokkrar msk af vatni.

  3. Bætið niðursoðnum tómötum og tómatpúrru útí ásamt grænmetiskraftinum. Látið suðuna koma upp og setjið þá soðnar linsurnar saman við og smakkið til með salti og pipar. Leyfið fyllingunni að sjóða í um 10 mínútur og bræðið rjómaostinn í potti á lágum hita á meðan. Það þarf að hræra vel í rjómaostinum á meðan svo hann brenni ekki við.

  4. Setjið í eldfast mót, fyllingu, spínat, lasangaplötur og síðast þunnt lag af rjómaostinum. Endurtakið þrisvar til fjórum sinnum þar til mótið er nánast fullt. Endið síðan á fyllingu og setjið ostin yfir hana.

  5. Bakið í 190°C heitum ofni í 20-25 mínútur.

Lasanga smakkast einstaklega vel borið fram með góðu fersku salati og hvítlauksbrauði, en það er þó alveg nóg eitt og sér.

Vegan döðlunammi

Þegar halda á veislur, hvort sem þær eru stórar eða litlar, boð eða bara þegar fólk ber að garði langar manni að geta boðið uppá eitthvað. Þá er gott að eiga eitthvað auðvelt, sem hægt er að henda í á örstundu eða grípa úr frystinum. Þessir döðlubitar henta ótrúlega vel með kaffinu, bæði um miðjan daginn og sem eitthvað sætt eftir matinn í boðinu. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera með eitthvað rosalega flókið svo að það slái í gegn. Þess vegna elska ég þessa uppskrift, hún er ótrúlega einföld en hittir alltaf beint í mark.

Hráefni:

  • 250 gr ferskar döðlur (u.þ.b. einn bolli þegar búið er að taka steinana úr)

  • 130 gr vegan smjör

  • 1/2 bolli púðursykur

  • 100 gr lakkrís

  • 2 1/2 bolli rice krispies (á Íslandi fæst því miður ekki lengur vegan rice krispies frá Kellogs, en það er hægt að nota poppað kínóa pöffs sem fæst í Nettó. Eins höfum við prófað að kaupa kornflex frá öðrum merkjum en Kellogs og það virkar vel líka)

  • 150 gr suðusúkkulaði (1 1/2 plata)

Aðferð

  1. Saxið döðlurnar og setjið í pott ásamt smjörinu og sykrinum og bræðið yfir meðalhita.

  2. Látið sjóða á vægum hita í 7-9 mínútur, eða þar til döðlurnar eru vel bráðnaðar.

  3. Saxið lakkrísinn í smátt kurl og blandið saman við rice krispies í skál. Þegar karamellan er tilbúinn er henni hellt yfir krispies'ið og þessu blandað vel saman.

  4. Ég rúllaði mínu nammi upp í kúlur og hjúpaði ýmist með muldu krispies'i eða súkkulaði en einnig er hægt að dreifa blöndunni þétt í eldfast mót og hella bráðnu súkkulaði yfir. Þá er það látið sitja í frystinum í allt að klukkutíma áður en það er skorið í bita.

Njótið vel

-Júlía Sif