Lasagna rúllur með Sacla Italia sósum.

Uppskrift vikunnar er af fullkomnum kósý heimilismat. Ég elska að elda pottrétti og góða ofnrétti þegar fer að hausta og núna er akkúrat sá tími ársins sem mikið af grænmeti er sem best. Því er fullkomið að elda góða grænmetisrétti sem hafa grænmeti í aðalhlutverki. Mig langaði akkúrart að gera þannig rétt núna í vikunni þar sem ég hef mikið verið að deila “kjöt”líkis uppskriftum síðustu vikur.

Þessar nýju vegan sósur frá Sacla Italia eru fullkomnar í ítalska matargerð og gera þær eldamennsku extra einfalda og þægilega. Ég ákvað að fara smá óhefðbundna leið að lasagna í þetta skiptið og gera lasagna rúllur en það kom ekkert smá á óvart hvað það var auðvelt og hversu vel það kom út. Þessi réttur er svo ótrúlega fallegur í fatinu og svo þægilegt að skammta hverjum og einum, sér rúllu.

Í þetta skiptið fór ég aðeins óhefðbundnari leið með hvítu sósuna en í staðin fyrir að gera hvíta sósu frá grunni eða nota rjómaost líkt og ég hef oft gert áður ákvað ég að nota frábæru CH**SE sósuna frá Sacla. Ég prófaði mig áfram með tófu þar sem mér fannst vanta smá upp á áferðina á réttinum og koma það fullkomlega út að stappa eða mylja niður tófú og hræra ostasósunni saman við. Áferðin minnir svolítið á kotasælu en það var alltaf notuð kotasæla í lasagna á mínu heimili þegar ég var lítil.

Hráefni

  • 8-9 lasagna plötur

  • Fylling:

    • 1 dl linsubaunir

    • 1 sveppakraftur

    • 2-3 hvítlauksgeirar

    • 1/2 kúrbítur

    • 1/2 laukur

    • 2-3 gulrætur

    • 2-3 sellerístangir

    • 2 msk ítalskar juritr (t.d. oreganó, basil og smá tímían blandað saman)

    • 1 teningur grænmetiskraftur

    • salt og pipar

    • 2 krúkkur Vegan Bolognese sósa frá Sacla

    • 1-2 dl vatn

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

  • Hvít sósa

    • 1 krukka VEGAN CH**SE sósan frá Sacla Italia

    • 100 gr tófú

    • 2-3 dl eða sirka 2 lúkur af spínati

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk laukduft

    • 2 msk þurrkurð steinselja

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja linsubaunirnar, sveppakraftin og vel af vatni í pott og sjóða í sirka 20 mínútur.

  2. ´Á meðan að linsurnar sjoða skerið allt grænmetið ´í fyllinguna niður ´í sm´áa teninga og pressið hvítlaukinn. Steikið grænmetið upp úr olía í góðar 10 mínútur á vægum hita eða þar til það fer að mýkjast vel. Bætið ítölsku jurtunum, salti og pipar út í og hrærið saman við ásamt linsubaunum. Steikið þetta áfram í nokkrar mínútur í viðbót.

  3. Bætið Bolognese sósunum út í ásamt 1-2 dl af vatni og leyfið suðunni að koma upp. Smakkið til og slökkvið síðan undir.

  4. Myljið tófúfið í skál með höndunum eða stappið það vel með gaffli og saxið spínatið niður frekar smátt.

  5. Hrærið ölum hráefnunum fyrir hvítu sósunni saman við tófúið og spínatið og setjið til hliðar

  6. Setjið vel af vatni í stóran pott ásamt smá olíu og salti og látið suðuna koma upp. Þegar vatnið fer að sjóða setjið þá lasagna plöturnar eina af annari út í vatnið og leyfið þeim að sjóða í 6-8 mínútur.

  7. Setjið lasagna plöturnar yfir í volgt vatn og passið að þær séu ekki fastar saman. Ef þær festast aðeins saman er ekki mál að taka þær varlega í sundur ofan í volgu vatni.

  8. Setjið smá fyllingu í botninn á eldföstu móti

  9. Takið eina lasagnaplötu í einu, smyrjið á hana vel af hvítri sósu og síðan fyllingu og rúllið henni varlega upp og raðið þessu þétt saman í eldfasta mótið.

  10. Geymið örlítið af fyllingu og hvítri sósu til að smyrja aðeins yfir og stráið síðan ostinum yfir allt saman í lokinn ef fólk kýs að nota ost.

  11. Bakið í ofni við 220°C í 10 til 15 mínútur eða þar til efsta lagið er orðið fallega gyllt.

Það er alveg ótrúlega skemmtilegt að útbúa þennan rétt og hann kemur fólki alltaf á óvart þar sem hann er svo fallegur í fatinu og ótrúlega brgaðgóður. Ég mæli með því að bera hann fram með góðu salati og hvítlauksbrauði.

-Njótið vel

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi

 
Sacla_HR.png
 

Ofnbakað nachos með CHORIZO pylsum og CH**SE sósunni

IMG_8278.jpg

Þá er komið að enn einni uppskriftinni með mexíkósku þema. Það er ekkert leyndarmál að við systur elskum mexíkóskan mat, hvort sem það er burrito, taco, nachos eða súpur þá klikkar það bara einhvern veginn aldrei! Þessi uppskrift er að sjálfsögðu ótrúlega einföld svo að hver og einn getur útbúið þennan rétt og hann tekur enga stund að verða klár.

Þegar ég fékk í hendurnar þessa ostasósu frá Sacla þá vissi ég strax að ég þyrfti að gera einhvers konar nachos með sósunni þar sem hún er með þessu ostasósu bragði sem er af hefðbundnum ostasósum sem hægt er að kaupa út í búð. Ég vildi gera eitthvað aðeins öðruvísi en venjulega og því ákvað ég að nota þessar æðislegu Chorizo pylsur frá Anamma. Þær eru svo ótrúlega góðar og bragðmiklar að það þarf ekki að gera mikið við þær til að fá bragðmikinn og góðan rétt.

Ég ákvað að stappa pylsurnar niður og gera úr þeim einskonar hakk sem kom ekkert smá vel út! Þessar pyslur eru svo bragðgóðar að það þarf nánast ekkert að krydda réttinn. Þær henta því í alls konar rétti og ég mæli með fólk prófi sig áfram með þær í alls konar mat. Ég notað þær til dæmis ótrúlega mikið í pasta og á pizzur.

ezgif.com-gif-maker.gif

Eins og með nánast alla okkar rétti má að sjálfsögðu leika sér eins og hver og einn vill með þennan rétt og við mælum með að fólk prófi seig áfram sérstaklega með það sem eru sett ofan á réttinn. Það er algjörlega smekkur hvers og eins hvort þið viljið hafa réttinn sterkan eða ekki t.d. og við mælum með að sleppa jalapenoinu ef þið viljið ekki sterkan rétt.

Hráefni

  • 1 poki saltaðar tortillaflögur

  • 1 pakki anamma chorizo pylsur

  • 1 dós tómatpúrra

  • 2 dl vatn

  • 1/2-1 krukka Vegan CH**SE sósan frá Sacla Italia

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1-2 msk jalapeno

  • 1/2 til 1 dl svartar ólífur

  • kirskuberjatómatar

  • 1 Avocadó

  • Kirskuberjatómatar

  • Ferskur kóríander

  • Salsasósa

Aðferð:

  1. Gott er að taka pylsurnar úr frysti nokkrum klukkutímum fyrir svo þær fái tíma til að þiðna

  2. Hitið ofninn við 220°C

  3. Ef pyslurnar eru ekki afþíddar má afþíða þær í örbygljuofni. Setjið pylsurnar í djúpan disk eða skál og stappið þær niður svo þær verði að einskonar mauki.

  4. Steikið pylsurnar í nokkrar mínútur upp úr olíu. Pylsurnar þarf ekkert að krydda þar sem þær eru mjög góðar og bragðmiklar fyrir. Ég setti þó smá salt út á pönnuna þegar ég var að steikja þær

  5. Þegar pylsurnar eru vel steiktar og orðan að eins konar hakki, er tómatpúrran og vatnið sett út á pönnunna og hrærið það vel saman við pylsu”hakkið”. Leyfið þessu að malla í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til sósan er aðeins farin að þykkna.

  6. Hellið tortilla flögunum í eldfast mót.

  7. Hellið síðan hakkinu yfir flögurnar, dreifið rauðlauknum yfir og hellið Vegan CH**SE sósunni yfir allt.

  8. Dreifið ólífunum og jalapeno’nu yfir eða því sem hver og einn kýs að nota.

  9. Bakið í ofninum í 10 til 15 mínútur eða þar ostasósan og snakkið fer að verða fallega gyllt að ofan.

  10. Stráið niðurskornu avókadói, kirsuberjatómötum og kóríander yfir og berið fram með salsasósu eða þeirri sósu sem hver og einn kýs að nota.

Það má leika sér með alls konar hráefni og sósur í þessari uppskrift en þetta er mín uppáhalds útfærsla.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi og Sacla Italia á Íslandi

 
anamma_logo.png
logo Sacla.jpg
 

Mac and cheese ofnréttur.

Í þessum rétti blöndum við saman Mac and cheese uppskriftinni okkar og hakksósu úr lasagna. Þessi blanda kom okkur heldur betur á óvart og erum við ótrúlega ánægðar með útkomuna. Rétturinn er einfaldur og og þetta er hinn fullkomni heimilsmatur.

1/2 uppskrift Mac and cheese

Hakksósa:

  • 2 pakkar anamma hakk

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill haus brokkolí (eða annað grænmeti sem hentar hverjum og einum)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 2-3 msk tómatpúrra

  • 2 msk eða 1 teningur grænmetiskraftur

  • 1 msk oregano

  • 1 msk basilíka

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hvítlauk og lauk upp úr smá olíu.

  2. Bætið brokkolíinu og hakkinu út á pönnuna og steikið í 5 til 10 mínútur.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og leyfið suðunni að koma upp.

  4. Smakkið til með kryddum og salti og pipar.

Aðferð og eldun:

  1. Útbúið Mac and cheese og hellið í botnin á eldföstu móti.

  2. Útbúið hakksósuna og setjið yfir pastað.

  3. Stráið vegan osti yfir.

  4. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðin fallega gylltur að ofan.

Við bárum réttinn fram með hvítlauksbrauðinu okkar en það er alveg ómissandi að okkar mati.

IMG_2219-3.jpg
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
10159%2B%25281%2529.jpg

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fást öll hráefnin sem í hana þarf.-

-Færslan er einnig í samstarfi við Bitz á Íslandi.-

Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-


Gómsætar fylltar paprikur

IMG_2481.jpg

Ég fattaði það um daginn að ég hef ekki póstað neinni “hversdagslegri” uppskrift frá því fyrir jólin. Ég ákvað að bæta úr því í dag og gera gómsæta uppskrift af fylltum paprikum, sem eru fullkomnar sem kvöldmatur á venjulegum virkum degi, en á sama tíma svo ótrúlega bragðgóðar að þær passa vel fyrir fínni tilefni eins og matarboð.

IMG_2443.jpg

Ég hef verið svolítið föst í að elda alltaf það sama síðustu mánuði og ákvað um daginn að breyta því. Mér hafa alltaf þótt fylltar paprikur góðar en mér dettur einhvernveginn aldrei í hug að útbúa þær þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að hafa í matinn. Þessi uppskrift er svo ótrúlega góð og auðvelt að útbúa hana og ég skil ekkert í mér að elda hana ekki oftar. Ég ætla að reyna að vera dugleg að pósta góðum uppskriftum af mat sem ég elda mér hversdagslega. Það gefur mér sjálfri innblástur til að vera hugmyndarík og breyta reglulega til.

IMG_2445.jpg

Ég eyddi síðustu helgi í Edinborg með Júlíu, mömmu okkar og Katrínu litlu systur. Við Júlía vorum auðvitað búnar að finna alla veitingastaði sem okkur langaði að prufa og Katrín hafði orð á því að við tölum varla um annað en mat. Matur var hefur alltaf verið stórt áhugamál hjá Júlíu, en hjá mér gerðist það ekki fyrr en ég varð vegan og byrjaði að blogga. Í dag eigum við það sameiginlegt að hugsa mikið og tala mikið um mat. Við urðum alls ekki fyrir vonbrigðum með vegan matinn í Edinborg og borgin þótti okkur alveg æðisleg. Það er þó alltaf jafn áhugavert að sama hvað það er gott að borða á veitingastöðum, þá er oftast langbest að elda mat heima. Ég verð því alltaf jafn fegin þegar ég kem heim úr svona ferðum og get farið að elda sjálf. Ég tek þó oft með mér hugmyndir og innblástur frá veitingastöðunum sem ég borða á.

IMG_2457.jpg

Ég bar paprikurnar fram með góðu salati og hvítlauksbrauði. Við erum með einfalda og þægilega uppskrift af fljótlegu hvítlausbrauði HÉR. Það þarf enga sósu með paprikunum. Þær eru virkilega bragðmiklar og fyllingin er safarík og góð. Það er þó örugglega gott að strá smá vegan osti yfir áður en þær fara í ofninn, en mér finnst það persónulega óþarfi. Ég nota vegan hakk í réttinn og mæli með hakkinu frá Anamma. Fyrir þá sem ekki vilja sojahakk mæli ég með að nota soðnar brúnar linsubaunir. Mér finnst uppskriftin þó fullkomin með hakkinu.

IMG_2466.jpg

Fylltar paprikur (fyrir fjóra)

  • 4 paprikur

  • Olía til steikingar og til að pennsla paprikurnar

  • 30 g furuhnetur

  • 1 lítill laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 225 g vegan hakk - mæli með því frá Anamma

  • 1 tsk chilliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 msk balsamik edik

  • 250 g ferskir tómatar - skornir niður í grófa bita

  • 2 msk sítrónusafi

  • 2 dl soðin hrísgrjón - Ég notaði brún grjón

  • 40 g tómatpúrra

  • 1,5 msk tapenade úr sólþurrkuðum tómötum. Ég keypti það í Svíþjóð og vona innilega að svoleiðis fáist á Íslandi. Ef ekki, þá er rauða pestóið frá Himneskt mjög gott, en eins er hægt að mauka niður sólþurrkaða tómata.

  • 4 lárviðarlauf

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Skerið toppana af paprikunum og leggið til hliðar.

  3. Pennslið paprikurnar að innan með smá olíu og saltið aðeins. Látið þær standa á meðan þið gerið fyllinguna.

  4. Ristið furuhneturnar á pönnu án olíu í 1-2 mínútur. Leggið til hliðar þegar þær eru orðnar svolítið gylltar.

  5. Hitið olíu í stórum potti. Saxið laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið í pottinum þar til þeir hafa mýkst. Passið að brenna þá ekki.

  6. Bætið hakkinu og kryddunum út í pottinn og hrærið vel í nokkrar mínútur.

  7. Bætið tómötunum í pottinn ásamt 100 ml vatni og latið malla i sirka 10-15 minutur.

  8. Hellið grjónunum (ath að þau eiga að vera soðin þegar þau fara í fyllinguna), edikinu, furuhnetunum og sítrónusafanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.

  9. Hrærið saman tómatpúrru, tapande/pestó og 200 ml heitu vatni í skál.

  10. Hellið helmingnum af blöndunni út í pottinn og hrærið saman við fyllinguna.

  11. Fyllið paprikurnar og raðið þeim í eldfast mót. Leggið toppinn á og pennslið tómatpúrrublöndu yfir. Hellið restinni af blöndunni svo ofan í eldfasta mótið og leggið lárviðarlauf i botninn.

  12. Setjið i ofninn i sirka 35 mínútur eða þar til paprikurnar eru orðnar svolítið dökkar að ofan.

  13. Berið fram með salati, hvítlauksbrauði eða því sem ykkur lystir.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur
-Veganistur

Svartbauna- & sætkartöfluenchilada

IMG_4085-2.jpg

Mexíkóskur matur hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi mér. Það er eitthvað svo skemmtilegt við að dúlla sér í alls konar litlum sósum og salötum sem síðan koma saman í fallegar bragðsamsetningu og litadýrð. Ef ég mætti ráða myndi ég örugglega borða tortillaflögur og guacamole í hvert mál, mögulega með smá ostasósu.

IMG_3940.jpg

Þessi réttur er einn af þeim fyrstu sem ég fullkomnaði alveg frá grunni þegar ég varð vegan. Ég hef boðið upp á hann ótrúlega oft undanfarin ár og hefur hann alltaf slegið í gegn. Baunir voru eitt af því sem ég þurfti að venjast svolítið að borða þegar ég varð vegan og fannst ekki mjög spennandi. En á smá tíma lærði ég að meta þær og finnst ekkert skemmtilegra í dag en að leika mér með alls kynns baunir. Svartar baunir eru í miklu uppáhaldi, og þá sérstaklega í mexíkóska rétti en ekki skemmir hvað þær eru fallegar í réttinum með tómötunum og sætu kartöflunum. Þær eru einnig alveg ótrúelga næringaríkar og tikka í mjög mörg box í einu hvað varðar næringarefni.

IMG_4000.jpg

Rétturinn er toppaður með tveimur virkilega góðum sósum sem eru alveg svart og hvítt en passa alveg fullkomlega saman. Þessar sósur eru heimagerð enchilada sósa og heimagerð ostasósa. Ostasósan er ein af okkar uppáhalds sósum og finnst mér hún miklu betri ofan á mexíkóska rétti en rifin ostur. Einnig er hún alveg ótrúlega holl og stutt full af næringarefnum. Sósuna má líka borða eina og sér með tortilla flögum en ég geri alltaf rúmlega af henni svo ég eigi afgang til að narta í með afgangsflögunum.

IMG_4026-2.jpg
IMG_3934.jpg

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

Vegan Enchilada sósa:

  • 3 msk olía

  • 2 msk hveiti

  • 5 msk tómatpúrra

  • 2 msk chilliduft

  • 1 tsk broddcúmen

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk grænmetiskraftur

  • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.

  2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel

  3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

IMG_4047.jpg

Sætkartöflu & svartbauna enchilada:

  • 1 sæt kartafla

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur

  • 1 paprika

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 2 msk saxaður ferskur kóríander

  • 2 tsk broddcúmen

  • 2 tsk malaður kóríander

  • 2 tsk paprikuduft

  • 1 tsk chilliduft

  • salt og pipar eftir smekk

  • 1/2 dós niðursoðnir tómatar

  • 1/2 lítil krukka salsasósa

  • 2 msk vegan rjómaostur (oatly passar mjög vel)

  • Helmingur af enchilada sósunni

  • 8 maís tortillur

Aðferð:

  1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.

  2. Þegar kartöflurnar hafa fengið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.

  3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursoðnum tómötum, salsasósunni, rjómaostinum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.

  4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og hellið síðan heimagerðu ostasósunni þar yfir. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Vikumatseðill 16. til 21. apríl

20170716_210154.jpg

Vikumatseðill 16.apríl til 21.apríl

Mánudagur:
Mexíkógrýta, kartöflumús og Oatly sýrður rjómi

Þriðjudagur:
Spagetti og vegan kjötbollur með tómatpastasósu og hvítlauksbrauði

Miðvikudagur:
Falafelbollur, salat og góður hummus.

Fimmtudagur:
Baunasúpa með kartöflum og rófum.

Föstudagur:
Gardein "kjúklingaborgari" með hvítlauksmajó og kartfölubátum

Laugardagur:
Pizza!
 

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan grýta

IMG_2083.jpg
IMG_2122.jpg

Grýta er einn mesti nostalgíumatur sem ég veit um en það var mjög oft í matinn heima hjá mér þegar ég var barn. Rétturinn er virkilega einfaldur en á sama tíma ótrúlega góður sem gerir hann að fullkominni máltíð fyrir köld vetrarkvöld eftir langan dag þegar metnaðurinn er kannski ekki sá allra mesti. Stundum þarf maður virkilega á því að halda að geta bara hent saman hráefnum á pönnu og ekki hugsað neitt sérstaklega um það. 

Ég viðurkenni að grýta var ekki réttur sem að ég hélt að ég myndi borða eftir að ég varð vegan. Ég var þó ekki búin að vera vegan ýkja lengi, þó það hafi alveg verið komið rúmlega eitt ár, þegar ég komst að því að lang flest grýtuduft er vegan. Þá var reyndar ekki mikið um gott vegan hakk á markaðnum og ég hugsaði því ekki oft um að nýta mér slíkt duft. Nú er vegan hakk hins vegar auðfundið í lang flestum búðum og er það líka bara ótrúlega gott. Vegan hakk er eitt af mínu uppáhalds kjötlíki þar sem hakk er notað mikið í góða bragðmikla rétti sem oftast er auðvelt að gera vegan einfaldlega með því að skipta því út fyrir vegan hakk.

IMG_2308.jpg

Hægt er að gera nokkrar útgáfur af þessum rétt. Hann er hægt að gera á mjög einfaldan máta þar sem í raun þarf bara hakk og grýtuduftið, en einnig er hægt að leika sér með hann og bæta alls kynns góðum hráefnum út í. 

Hráefni:

  • Mexíkósk grýta frá Toro

  • 1 poki vegan hakk frá Halsans kök

Það sem mér finnst gott að setja út í:

  • 1 dós nýrnabaunir

  • 1 dl graskersfræ

  • frosnar harricot baunir

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu upp úr smá vatni eða olíu.

  2. Bætið grýtuduftinu út í ásamt vatni eins og nauðsynlegt er samkvæmt pakkanum.

  3. Bætið nýrnabaunum, graskersfræjum og strangjabaunum saman við ef nota á slík hráefni.

  4. Leyfið réttinum að sjóða eins og pakkningarnar segja til um.

Rétturinn stendur vel einn og sér en uppáhalds meðlætið mitt með honum er kartöflumús og sýrður rjómi frá Oatly.

-Júlía Sif

Vikumatseðill 3. til 7. apríl

IMG_0439.jpg

Vikumatseðill 3. apríl til 7. apríl

 

Þriðjudagur:
Salat með kínóa, ofnbökuðu rótargrænmeti og hvítlauksjógúrtsósu

Miðvikudagur:
Hnetusmjörsnúðlur með tofu

Fimmtudagur:
Sætkartöflusúpa með súrdeigsbrauði

Föstudagur:
Supernachos með vegan hakki svörtum baunum, maís, salsa, vegan osti og guacamole

Laugardagur:
Mac and cheese að hætti veganista og hvítlauksbrauð


 

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vikumatseðill 5. - 10.mars

IMG_2306.jpg

Vikumatseðill 5.mars til 10.mars

Mánudagur:
Hnetusmjörsnúðlur með tofu.

Þriðjudagur:
Grjónagrautur með haframjólk, kanilsykri og góðu brauði með vegan osti

Miðvikudagur:
Mexíkógrýta með kartöflumús og Oatly sýrðum rjóma

Fimmtudagur:
Linsurbaunadahl, steikt tofu, hrísgrjón og salat.

Föstudagur:
Oumph borgari með chilli mæjó og kartöflubátum.

Laugardagur:
Rjómapasta með Oumph! og sveppum og "heimagert" hvítlauksbrauð.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vikumatseðill 12.feb - 17.feb

IMG_6705.jpg

Vikumatseðill 12.feb til 17.feb

Mánudagur:
Halsans Kök kjötbollur með piparsósu og kartöflumús

Þriðjudagur:
SaltOumph! og baunasúpa

Miðvikudagur:
Tandori sætkartöflu og svartbaunapottréttur, hrísgrjón, Oatly sýrður rjómi og salat

Fimmtudagur:
Kalt pastasalat með fersku grænmeti og sólþurkuðum tómötum

Föstudagur:
Föstudagspizza

Laugardagur:
Sveppasúpa og heimagert brauð

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Heimagerð Pizza

IMG_2187.jpg

Þegar ég segi fólki að einn af mínum uppáhaldsmat sé pizza, verður það oft mjög hissa eða finnst það hljóma mjög óspennandi. Það sér þá oft fyrir sér einhverja hollustupizzu með engu á nema sósu og spínati. Föstudagspizzan okkar lítur hins vegar alls ekki þannig út, þar sem það er orðið ótrúlega auðvelt að fá fullt af alls konar góðum ostum og áleggi svo pizzan verður virkilega bragðgóð og ekki síðri en venjulegar pizzur. Það kemur fólki einnig oft á óvart að pizzadeig líkt og flest brauð er nánast alltaf vegan og því ekkert mál að bæði panta pizzu og fá tilbúið pizzadeig út í búð sem er vegan. Pizzasósa er annað sem er eiginlega alltaf vegan og þetta er því ekkert flóknara en svo að kaupa pizzadeig og álegg og skella því í ofninn.

Webp.net-gifmaker.gif

Við systur ákváðum því í samstarfi við Krónuna að sýna ykkur hvernig við gerum okkar uppáhalds heimagerðu pizzur. Við vildum hafa pizzurnar eins auðveldar og hægt er og notuðumst því við keypt pizzadeig og tilbúna pizzasósu, en það gerum við til að sýna fram á að vegan matargerð geti verið virkilega auðveld og ekki svo frábrugðin annarri matargerð. Við ákvaðum að gera þetta í samstarfi við Krónuna þar sem þau hafa mikið og fjölbreytt úrval af vegan ostum og ættu því allir að geta fundið ost við sitt hæfi. Við settum saman tvær pizzur, eina sem er mjög auðveld og þarf ekki mikið af hráefni og síðan eina örlítið flóknari útgáfu. Það sem okkur finnst hins vegar best við pizzur er að það er hægt að setja nánast allt sem að hugurinn girnist á þær og því oft til eitthvað sniðugt í ísskápnum til að skella á pizzadeig. 

IMG_2216.jpg
IMG_2361.jpg

Auðveld útgáfa:

Aðferð:

  1. Rúllið deiginu út á plötu og dreifið pizzasósunni yfir

  2. Okkur finnst best að setja ostin næst og hitt áleggið síðan þar ofan á, þó er gott að geyma smá ost til að setja síðast en það er ekki nauðsynlegt

  3. Gott er að leyfa Oumphinu aðeins að þiðna og skera það niður áður en því er dreift yfir

  4. Bakið pizzuna í u.þ.b. 20 mínutur við 200°C

Fyrir flóknari útgáfu bætið ofan á:

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Vikumatseðill 2.jan til 6.jan

download (2).jpg

Vikumatseðill 2.janúar til 6.janúar

Þriðjudagur
Kínóasalat með rauðrófum, sólþurrkuðum tómötum og eplum

Miðvikudagur
Hnetusmjörsnúðlur með tofu

Fimmtudagur
Grjónagrautur

Föstudagur
speltpizza með vegan osti, pulled oumph! og grænmeti

Laugardagur 
Blómkáls- og kínóahakk taco með ostasósu, guacamole og sætum kartöflum

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Hrísgrjónanúðlur með hnetusmjörssósu og tofu

IMG_1389.jpg

Þá er veturinn kominn langt á veg og flestir komnir á fullt, rútínan loksins að verða komin á ról aftur og allir á fullu í sínu, allan daginn. Meðlimir fjölskyldunnar fara út á morgnanna hver í sína átt og hittast oft ekki aftur fyr en um kvöldmatarleytið. "En hvað á að hafa í matinn?" Þetta er ein leiðinlegasta umræða sem flestar fjölskyldur þurfa að eiga á hverjum degi. Hvort sem fjölskyldna samanstendur af einni manneskju eða átta þarf alltaf að hafa eitthvað í matinn og bara að ákveða það getur verið mikill hausverkur, hvað þá að þurfa að ákveða það á hverjum einasta degi.

IMG_1252.jpg

Eg sagði þessari spurningu stríð á hendur fyrir nokkrum árum og fór að gera matseðla um helgar fyrir viku í senn sem eg verslaði svo inn fyrir í einni ferð. Þvílíkur léttir að þurfa ekkert að hugsa um það, dag eftir dag, hvað ég eigi að hafa í matinn. Fara bara út í daginn vitandi nákvæmlega hvað á að vera í kvöldmat og að allt sé til í ísskápnum í akkúrat þann rétt. Hins vegar er auðvitað ekki alltaf auðvelt að setja niður á blað 6 máltíðir í einu, það er oft snúið, stundum alveg ótrúlega létt en stundum eins og það séu bara ekki til fleiri réttir í heiminum en tveir eða þrír. Ég er hins vegar komin með ágætis æfingu og enn ágætara gagnasafn af vikumatseðlum og fannst því komin tími til að leyfa ykkur að njóta góðs af. Við systur höfum því ákvaða að gera vikumatseðil að vikulegum færslum hérna á blogginu og vonum að ykkur líki vel.

IMG_1384.jpg
IMG_1386.jpg

Þó eru auðvitað ekki næstum allar uppskriftirnar af réttunum hérna inná blogginu en munum við auðvitað bæta í smátt og smátt og reyna að koma öllum okkar uppáhalds réttum hingað inn. Í þessari viku eru hnetusmjörs-tofu-núðlur á matseðlinum og fannst mér því tilvalið að setja þá uppskrift inn samhliða honum en þessar núðlur eru í algjöru uppaháldi hjá okkur þessa stundina. Þær eru alveg ótrúlega bragðgóðar og matarmiklar, og ekki skemmir fyrir hversu hollar og næringarríkar þær eru í leiðinni.

IMG_1439.jpg
IMG_1461.jpg

Hráefni:

  • 1/2 pakki hrísgrjónanúðlur

  • 1/2 kubbur tofu

  • 1/2 haus brokkoli

  • 1/2 græn paprika

  • u.þ.b. 10 cm af blaðlauk

  • u.þ.b. 1 bolli harricot baunir (ég kaupi frosnar)

  • u.þ.b. 1 bolli hvítkál skorið í þunnar ræmur

  • 4 gulrætur

  • Hnetsmjörssósa:

    • 2 bollar vatn

    • 2-3 msk grænmetiskraftur

    • 4 kúfullar msk hnetusmjör

    • 1 msk tamarisósa

    • 3 hvítlauksgeirar

    • 2 ferskar döðlur (muna að taka steininn úr)

    • 2 tsk rautt karrý mauk (red curry paste)

    • smá sítrónusafi kreystur úr ferskri sítrónu (má alveg sleppa)

    • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að setja vatn í frekar stóran pott og kveikja undir, þá er það farið að sjóða og hægt að setja núðlurnar útí, þegar ég hef undirbúið allt hitt.

  2. Ég sker tofuið niður en mér finnst best að henda því bara inn í ofn eins og það er, ekki með neinu kryddi eða neitt og leyfa því að vera þar á meðan að ég steiji grænmetið og útbý hnetusósuna.

  3. Skerið grænmetið niður eftir smekk og steikið létt upp úr örlitlu vatni

  4. Setjið öll hréfnin fyrir sósuna í blandara ðea matvinnsluvél og blandið vel þar til allt er komið vel saman.

  5. Sjóðið núðlurnar í vatninu eftir leiðbeiningum á pakkningunni.

  6. Takið tófuið út og bætið út á pönnuna með grænmetinu, hellið síðan hnetusósunni yfir það og leyfið suðunni á henni að koma upp. Mér finnst best að leyfa sósunni að malla í 5-7 mínútur áður en ég blanda núðlunum saman við.

  7. Berið réttinn fram einan og sér eða með spírum og muldum salthnetum

Njótið vel

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vikumatseðill 22.okt til 27.okt

IMG_1398.JPG

Matseðill 22-27 október

Sunnudagur:
Pasta með rjómasósu, grænmeti og Oumph!

Mánudagur:
Kókoskarrýpottréttur borin fram með tamaritofu, hrísgrjónum, salati og soyjajógúrt tzaziki sósu.

Þriðjudagur:
Ikeagrænmetisbollur, kartöflur, salat og hvítlauksjógúrtsósa

Miðvikudagur:
Shepert´s pie: pottréttur með grænmeti og linsum borin fram með kartöflumús

Fimmtudagur:
Taco, með blómkálshakki, sætum kartöflum, fersku grænmeti, ostasósu, salsasósu, guacamole og hrásalati.

Föstudagur:
Pizzakvöld: Heimagerð pizza með Oumph!, sveppum, lauk, ólífum og vorlauksrjómaosti.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

 

 



 

Mín ráð til að minnka matarsóun

Eitt af því sem við Ívar fórum mikið að hugsa um þegar við fluttum að heiman var matarsóun. Okkur finnst báðum alveg ótrúlega leiðinlegt að henda mat og því hugsum við mikið um að nýta allt sem við kaupum inn. Mér finnst hafa orðið mikil vitundarvakning um þetta mál í samfélaginu á síðustu árum en margir, jafnt einstaklingar sem og fyrirtæki eru farin að leggja sitt af mörkum hvað matarsóun varðar. Nettó er eitt af þessum fyrirtækjum en þau hafa nú á nokkrum árum dregið verulega úr rusli í verslunum sínum t.d. með því að hafa á afslætti vörur sem eru að nálgast síðasta söludag. Einnig hefur verslunin síðustu ár eldað súpu á menningarnótt úr vörum sem fara að renna út. Súpan er vegan og glútenlaus og finnst mér þetta alveg frábært átak og hlakka ég til að kíkja í súpu til þeirra á laugardaginn. Nettó hafði samband við mig nýlega um samstarf akkúrat um þetta tiltekna málefni og fannst mér það kjörið tækifæri til að segja ykkur þau ráð sem ég hef tileinkað mér á þessu ári til að draga úr þeim mat sem fer í ruslið á mínu heimili. Einnig leynast tvær uppskriftir neðst í færslunni, svo ég mæli með að lesa áfram. Ég versla oft í Nettó en mér finnst grænmetis og ávaxta deildin þar bera af í ferskleika og kaupi ég einnig öll mín vítamín og hreinsiefni þar en það er nú efni í aðra færslu...

1. Frysta.
Ég veit að hérna er ég svo sannarlega ekki að finna upp hjólið en ég held að á flestum heimilum sé til frystir fullur af mat. Ég hef lagt það í vana minn að frysta matvörur sem ég annað hvort veit að ég muni ekki nota áður en þær skemmast eða eru að verða komnar á síðasta neysludag.
Það má einnig oft gera góð kaup á vörum út í búð sem eru að nállgast síðasta söludag.
Vörur sem mér finnst fara einstaklega vel í frysti:
Bananar: Það vita það ekki allir en bananar sem eru orðin vel þroskaðir eru fullkomnir til að setja í frystinn og eiga í ís eða smoothie en þeir eru akkúrat hollastir þegar þeir eru vel þroskaðir. Oft er hægt að fá haug af þroskuðum banönum á mjög góðu verði en mér finnst alltaf eins og ég hafi dottið í lukkupottin þegar ég sé svoleiðis í búð þar sem við borðum mikið af "smoothie'um".
Salat: Annað sem að mér finnst fara vel í frysti eru til dæmis alls konar salat tegundir líkt og spínat og grænkál. Þess háttar salat fæst oft í stórum pokum í búð og skemmist hratt í ísskáp eftir að það er opnað. Ég skelli pokanum beint í frysti ef ég veit að ég muni ekki klára hann stuttu eftir að hann er opnaður. Ég nota svo frosna salatið t.d. í smoothie'a, pottrétti eða lasanga.
Matarafgangar: Það má frysta alls kynns tilbúna rétti en ég hef oft gert stóra skammta af súpum, kássum og lasanga og sett í fyrstinn í skömmtum. Þetta er einstaklega þægilegt fyrir þá sem þurfa að taka með sér nesti í skóla eða vinnu. Þá er hægt að kippa með sér beint úr frystinum á morgnanna ef ekki gefst tími daginn áður til að útbúa eitthvað.

2. Nýta það sem er alveg að skemmast
Það sem endar oftast í ruslinu á heimilum er grænmeti og ávextir. Það finnst mér ekki skrítið þar sem þessar vörur eiga það til að skemmast hratt ef ekki er fylgst vel með. Ég reyni að vera dugleg að fylgjast með grænmetisskúffunni minni og grípa það sem er að skemmast og nota, en mér finnst oft, eftir að ég varð grænmetiæta eins og ég geti falið hvaða grænmeti sem er í nánast öllum réttum, og rétturinn verði samt alltaf svipaður. Einnig reyni ég að kaupa vörur sem eru að nálgast síðasta söludag ef ég veit að ég muni nota þær strax, þær vörur eru oft á afslætti sem er auðvitað algjör plús.

Nokkrir réttir sem ég geri úr grænmeti og ávöxtum sem er alveg að renna út:

  • Bananamuffins úr vel þroskuðum bönunum

  • Pottrétt úr öllum þeim grænmetisafgöngum sem finna má í ísskápnum

  • Súpur úr grænmetinu í ísskápnum

3. Margt má nýta þó það sé komið yfir síðasta söludag.
Margt sem komið er yfir síðasta söludag er allt í lagi að nýta. En ég hef t.d. oft notað linsur, hrísgrjón og fræ sem komin eru yfir síðasta söludag. Einnig nota ég krydd alveg óspart ef ég finn ennþá góða og sterka lykt af þeim. Svo það er algjör óþarfi að hlaupa til og henda hrísgrjóna poka sem er jafnvel kominn tvo til þrjá mánuði fram yfir síðasta söludag því það eru miklar líkur á að það sé í góðu með grjóninn.

4. Skipuleggja sig.
Þetta finnst mér vera algjört lykilatriði svo vörur endi ekki í ruslinu. Á hverjum sunnudegi geri ég matseðil og fer í búð. Ég reyni að versla eingöngu eftir matseðlinum og þá næ ég að nýta nánast allt sem ég kaupi. Ég kíkji í skápana og sé hvað er til og reyni að vinna í kringum það. Oft um helgar á ég í ísskápnum, og þá sérstakelga í grænmetisskúffunni, afganga af hinu og þessu og þá finnst mér t.d. tilvalið að henda í súpu í hádeginu og tæma þá nánast alveg fyrir búðarferðina.

Öðruvísi karrýréttur:

Þessi karrýréttur er ótrúlega góður. Ég geri hann yfirleitt bara úr því grænmeti sem ég á hverju sinni en mér finnst lykilatriði að í réttinum séu, allavega kartöflur eða grasker og einhvers konar baunir, hvort sem það eru nýrnarbaunir eða linsur. Svo lengi sem sósan er eins og flýtur vel yfir grænmetið er hægt að nýta nánast hvaða grænmeti sem er út í, rétturinn verður alltaf ótrúlega góður. 

Hráefni:

  • Það grænmeti sem ég átti þessu sinni:

    • 1 laukur

    • 4 hvítlauksrif

    • rúmlega 1 paprika

    • 1/2 lítil rófa

    • 1/2 sæt kartafla

    • 3 meðalstórar kartöflur

    • 1/2 lítill hvítkálshaus

    • 2 tómatar

    • 1 dl frosnar grænar baunir

    • 1 bolli frosnar sykurbaunir

    • hálfur poki spínat

  • 3-4 msk milt karrý

  • 1 msk paprikuduft

  • 1 msk þurrt tímían

  • 1/4 tsk kanill

  • salt og pipar

  • 2 bollar linsur

  • 1/2 lítri vatn

  • 4 msk rapunzel grænmetiskraftur

  • 2 dósir angelmark kókosmjólk

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

Aðferð:

  1. Steikið lauk og hvítlauk. Þegar ég geri kássur og súpur finnst mér best að steikja bara upp úr vatni í smá tíma. Þá bæti ég bara meira og meira vatni út í ef laukurinn fer að festast við pottinn.

  2. Bætið kryddunum út í ásamt smá vatni í viðbót og hrærið við.

  3. Setjið linsurnar og 1/2 líter af vatni út í og leyfið suðunni að koma upp. Mér finnst gott að skera restina af grænmetinu niður á meðan að linsurnar sjóða. Leyfið linsunum að sjóða í allavega 10 mínútur og setjið svo restina af grænmetinu út í, að undanskildu spínatinu.

  4. Bætið út í kóksmjólkinni, tómötunum og grænmetiskraftinum og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Sjóðið kássuna í allavega 30 mínútur. Gott að smakka til eftir 10-15 mínútur og krydda meira ef þarf.

  6. Bætið spínatinu út í og hrærið því saman við rétt áður en kássan er borin fram.

Ég ber réttinn oftast fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

Bananamuffins:

Þessar geri ég að minnsta kosti einu sinni í viku en þær eru alveg ótrúlega hollar og þroskaðir bananar nýtast mjög vel þar sem það þarf rúmlega 3 í hverja uppskrift. Þær henta fullkomlega í nestisboxið og eru orðnar fastur liður þar hjá okkur.

Hráefni:

  • 1 bolli spelt frá himneskri hollustu

  • 1/2 bolli malað haframjöl frá himneskri hollustu

  • 1 tsk matarsódi

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 bolli stappaðir bananar (rúmlega 3)

  • 1/3 bolli hlynsíróp

  • 1 bolli plöntumjólk

  • 1 bolli saxað súkkulaði eða rúsínur

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál

  2. Bætið öllu nema súkkulaðinu/rúsínunum saman við og hrærið saman. Setjið súkkulaðið/rúsínurnar síðast og blandið við deigið.

  3. Bakið muffinsarnar í 18-20 mín í 175°C heitum ofni.

Vonandi gagnast þessi ráð einhverjum og ég hvet alla til að setja sér markmið fyrir veturinn sem stuðla að því að henda minna af mat.
-Júlía Sif

 

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást öll hráefni þar.

Færslan er unnin í samstarfi við Nettó og fást öll hráefni þar.