Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rocky road súkkulaði með pistasíuhnetum, heslihnetum, apríkósum og trönuberjum. Súkkulaðið er svo toppað með appelsínuberki og grófu salti og er FULLKOMIÐ fyrir hátíðleg tilefni eins og til dæmis jólin. Þetta nammi tekur sem enga stund að útbúa og er meðal annars tilvalið sem jólagjöf fyrir þá sem vilja gefa góðgæti í jólapakkann.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og í þetta sinn notaði ég pistasísukjarna, trönuber, apríkósur og heslihnetur. Til hamingju selur allskonar hnetur, fræ og þurrkaða ávexti og það skemmtilega við þetta rocky road súkkulaði er að það er hægt að gera það algjörlega eftir sínu höfði. Döðlur, valhnetur, möndlur og ristuð graskersfræ myndu t.d. passa ótrúlega vel.

Ég byrjaði á því að rista hneturnar í nokkrar mínútur því ég vildi hafa þær svolítið stökkar. Það má algjörlega sleppa þessu skrefi, ég hef oft gert þetta án þess að rista hneturnar, en mér finnst mjög gott að gera það.

Ég bræddi súkkulaðið með kókosolíu og hlynsírópi á meðallágum hita og skar hneturnar gróft og klippti apríkósurnar út í og blandaði vel saman.

Ég klæddi lítið form með bökunarpappír og setti blönduna ofan í. Það má nota disk, skál, brauðform, fat eða hvað sem er fyrir súkkulaðið. Ég toppaði með aðeins meira af hnetum, grófu salti og rifnum appelsínuberki og leyfði þessu að kólna.

Þetta sælgæti er alveg guðdómlega gott. Hefðbundið rocky road er gert með því að bræða súkkulaði og blanda því saman við sykurpúða, allskonar nammi og oft kexkökur. Það er bókstaflega sykurbomba og mig langaði að gera eitthvað sem hefði sama “kröns” og á sama tíma eitthvað mjúkt sem kæmi í staðinn fyrir sykurpúðana og apríkósurnar gera það algjörlega. Þær eru svo mjúkar og sætar. Sama má segja um trönuberin. Fullkomið á móti stökku hnetunum. Við erum þó að sjálfsögðu með uppskrift að rocky road súkkulaði hérna á blogginu sem er stútfullt af öllu uppáhalds namminu okkar. Uppskriftin er þó nokkurra ára gömul svo það getur verið að þurfi að skipta einhverjum hráefnum út sem ekki fást lengur.

Súkkulaðið líka extra mjúkt og rjómakennt þar sem ég bræddi það með kókosolíu og hlynsírópi. Það minnir örlítið á trufflur og er alveg dásamlegt.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel!

-Helga María

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum

Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum
Höfundur: Helga María
Dásamlegt vegan rocky road með allskonar hnetum og þurrkuðum ávöxtum. Fullkomið að gera fyrir jólin eða við önnur hátiðleg tilefni

Hráefni:

  • 200 gr gott suðusúkkulaði eða dökkt súkkulaði
  • 30 gr kókosolía
  • 20 gr hlynsíróp
  • 70 gr pistasíukjarnar frá Til hamingju
  • 70 gr heslihnetur frá Til hamingju
  • 50 gr þurrkuð trönuber frá Til hamingju
  • 50 gr þurrkaðar apríkósur frá Til hamingju
  • Gróft salt að toppa með
  • Rifinn appelsínubörkur að toppa með (má sleppa)

Aðferð:

  1. Klæðið form, disk, fat eða skál með bökunarpappír og leggið til hliðar til að nota fyrir súkkulaðið.
  2. Hitið ofninn í 150°c og ristið pistasíukjarnana og heslihneturnar í sirka 5-10 mínútur eða þar til þær eru orðnar stökkar. Passið að brenna þær ekki. (ég tek frá smávegis af hnetunum þegar ég er búin að rista þær sem fara ekki ofan í blönduna heldur toppa ég með þeim í lokinn)
  3. Bræðið súkkulaðið í potti með kókosolíu og hlynsírópi og meðallágum hita. Standið við pottinn og hrærið og passið að súkkulaðið brenni ekki.
  4. Skerið hneturnar niður gróft og bætið út í pottinn (takið frá nokkrar til að toppa með) ásamt trönuberjunum og apríkósunum. Mér finnst best að klippa niður apríkósurnar beint í pottinn. Hrærið vel saman.
  5. Hellið ofan í formið sem þið klædduð með bökunarpappír og toppið með restinni af hnetunum, grófu salti og rifnum appelsínuberki. Leyfið að kólna í kæli eða frysti alveg áður en þið skerið það niður.
  6. Skerið í bita og njótið með öllum sem ykkur þykir vænt um.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og ristuðum pekanhnetum

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af hátíðlegum þeyttum vegan fetaosti toppuðum með fíkjusultu (eða marmelaði), ristuðum pekanhnetum og rósmarín. Þetta er hinn FULLKOMNI forréttur yfir hátíðirnar og passar einnig dásamlega í jólaboðið eða áramótapartýið. Það tekur enga stund að útbúa þessa dásemd og enn styttri tíma að úða henni í sig.

Ég geri reglulega þeyttan fetaost og yfirleitt hef ég þeytt hann með sýrðum rjóma og notað sem meðlæti með mat. Í þetta sinn vildi ég gera hann aðeins hátíðlegri og jólalegri. Ég þeytti hann því með rjómaosti og eftir að hafa smakkað gómsætt fíkjumarmelaði um daginn vissi ég að það myndi passa fullkomlega með fetaostinum. Pekanhneturnar ofan á gerði ég með því að rista þær á pönnu upp úr ólífuolíu, hlynsírópi, sjávarsalti og fersku rósmarín. Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég ristaði hneturnar var ólýsanleg.

Toppurinn yfir i-ið var svo dill og graslaukssnakkið frá Finn crisp, en færsla dagsins er í samstarfi við Finn crisp á Íslandi. Ég er bókstaflega háð þessu snakki og samsetningin af þeytta fetaostinum og snakkinu er dásamleg. Ég á alltaf til poka af snakkinu uppi í skáp vegna þess að það slær alltaf jafn mikið í gegn þegar ég býð vinum uppá það með góðum ostum og sultu.

Ef þú vissir það ekki nú þegar er síðan okkar full af gómsætum uppskriftum að hátíðaruppskriftum fyrir jólin, hvort sem það er fyrir jólabaksturinn, jólaboðið, aðfangadagskvöld eða gamlárspartíið. Ef það er eitthvað sem þér finnst vanta geturðu sent okkur skilaboð og við sjáum hvort við getum ekki reddað því!

Ýttu hér til að finna geggjaðar jólauppskriftir!

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona innilega að þér líki uppskriftin. Ekki hika við að hafa samband við okkur ef það er eitthvað.

-Helga María

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og pekanhnetum

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og pekanhnetum
Höfundur: Helga María
Þeyttur vegan fetaostur toppaður með fíkjusultu (eða marmelaði), ristuðum pekanhnetum og rósmarín. Þetta er hinn fullkomni forréttur yfir hátíðirnar og passar einnig dásamlega í jólaboðið eða áramótapartýið. Það tekur enga stund að útbúa þessa dásemd og enn styttri tíma að úða henni í sig.

Hráefni:

  • 1 stykki vegan fetaostur (ca 200 gr)
  • 1 dolla vegan rjómaostur (ca 150-250 gr)
  • Smá vegan mjólk ef þarf til að mýkja ostinn
  • 1 dl pekanhnetur
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • 2 tsk ferskt rósmarín
  • Gróft sjávarsalt
  • fíkjumarmelaði eða fíkjusulta
  • 1/2-1 tsk balsamikedik (má sleppa)
  • 1-2 pokar dill og graslaukssnakk frá Finn Crisp

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja fetaostinn og rjómaostinn í matvinnsluvél og blanda. Hellið örlítilli mjólk út í ef blandan er of þykk.
  2. Færið fetaostablönduna í skál eða fat sem þið berið fram í.
  3. Skerið niður pekanhnetur og rósmarín og ristið á pönnu upp úr ólífuolíu, hlynsírópi og smá salti í nokkrar mínútur. Takið af hellunni þegar sírópið hefur þykknað og hneturnar orðnar svolítið ristaðar. Það á ekki að taka langan tíma.
  4. Toppið fetaostinn með fíkjumarmelaðinu og bætið svo pekanhnetunum yfir. Setjið balsamikedik yfir og svo nokkra dropa af ólífuolíu og sírópi. Ég bætti svo við smá rósmarín og grófu salti til að skreyta.
  5. Berið fram með dill og graslaukssnakkinu frá Finn Crisp.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er í samstarfi við Finn Crisp á Íslandi-

 
 

Mexíkóskt maískornasalat

Í dag deilum við með ykkur gómsætu og einföldu maískornasalati sem inniheldur papríku, chilli, rauðlauk, kóríander og lime. Þetta bragðmikla salat passar fullkomlega með mexíkóskum mat og grillmat til dæmis.

Salatið er ótrúlega einfalt og tekur aðeins nokkrar mínútur að græja, en það gerir hvaða máltíð sem er ótrúlega góða. Það er einnig einfalt að skipta út grænmetinu fyrir það grænmeti sem hver og einn á til hverju sinni en sú blanda sem er hér, er að okkar mati sú fullkomna.

Uppskriftin er í samstarfi við ORA en það vörumerki þekkja lang flestir íslendingar mjög vel. Maískornin frá ORA má alls ekki vanta í allan mexíkóskan mat að okkar mati og er þetta salat mjög einföld og fljótleg leið til að gera maískorn einstök og spennandi.

Ein af mínúm uppáhalds leiðum til að bera fram salatið er í litlum tacos með til dæmis vegan hakki og guacamole. Það er virkilega einföld en góð máltíð sem lítur út fyrir að vera mjjög “fancy” og er einstaklega gaman að bjóða upp á.

Mexíkóskt maísbaunasalat

Mexíkóskt maísbaunasalat
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 5 Min: 15 Min
Einfalt og gott maískornasalat sem hentar til dæmis með mexíkóskum mat eða alls konar grillmat.

Hráefni:

  • 1 dós ORA Maískorn
  • 1/2 msk vegan smjör eða smjörlíki til steikingar
  • 1/4 rauð papríka
  • 1/4 rauðlaukur
  • 1/2 rautt chilli (takið fræin úr)
  • 1/2 dl ferskt kóríander (má sleppa)
  • safi úr hálfri lime
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • 1 kúfull msk majónes
  • 1 kúfull msk vegan sýrður rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið maísbaunirnar á pönnu uppúr vegan smjöri eða smjörlíki og salti í nokkrar mínútur eða þar til kornin byrja að verða fallega gyllt hér og þar
  2. Setið maískornin í skál og leyfið að kólna aðeins á meðan þið undirbúið restina af grænmetinu
  3. Saxið niður grænmetið og blandið saman við maískornin ásamt restinni af hráefnunum.
  4. Hrærið saman og smakkið til með salti og pipar.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við ORA -

Einföld og fljótleg kúrbítsbuff með kaldri sósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Ég hef verið í miklu kúrbítsstuði síðustu mánuði og finnst gott að nota þau í allskonar matargerð og bakstur. Margir fatta ekki hversu mikið hægt er að gera við zucchini en ég nota það í súpur, pottrétti, buff, ríf það út í hafragraut og kökudeig og elska að skera það niður þunnt og nota sem álegg á pizzu. Möguleikarnir eru virkilega endalausir!

Mér finnst virkilega gott að útbúa allskonar buff heima, hvort sem það eru grænmetisbuff, vegan hakkabuff eða baunabuff. Ég hef gert þessi buff á allskonar hátt. Stundum bæti ég við rifnum gulrótum, kartöflum eða hvítkáli. Ég nota í raun það sem ég á til heima að hverju sinni. Í þetta sinn vildi ég hafa þau frekar einföld en var í stuði til að setja þau í indverskan búning. Ég notaði engifer, túrmerík, garam masala, kóríanderkrydd, kúmmín, frosið kóríander og chili. Útkoman varð dásamleg.

Buffin steiki ég á pönnu upp úr smá olíu en það er auðvitað hægt að baka þau í ofni eða air fryer líka. Ef þið bakið þau mæli ég með því að bæta örlítilli ólífuolíu út í deigið. Ég bar buffin fram með gómsætri kaldri sósu sem ég gerði úr meðal annars vegan sýrðum rjóma, hvítlauk, frosnu kóríander og sítrónusafa. Sósan passar fullkomlega með buffunum að mínu mati. Ég bar einnig fram mangó chutney með en steingleymdi að hafa það með á myndunum því miður, en það kom virkilega vel út með buffunum líka.

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu
Fyrir: 2-3
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Hráefni:

Kúrbítsbuff
  • 100 gr kjúklingabaunahveiti
  • 20 gr hrísgrjónahveiti
  • 400 gr rifinn kúrbítur
  • 2 vorlaukar
  • 1 msk rifið engifer
  • 2 tsk garam masala
  • 1 tsk túrmerík
  • 1 tsk kúmmín
  • 1 tsk kóríanderkrydd
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 msk frosið kóríander
  • chiliflögur
  • salt og pipar
Sósan:
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 2 rifnir eða pressaðir hvítlauksgeirar
  • 2 tsk frosið kóríander
  • 1 tsk laukduft
  • 2 tsk sítrónusafi
  • 2 tsk ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð:

Kúrbítsbuff:
  1. Blandið kjúklingabaunahveiti, hrísgrjónahveiti, kryddum, lyftidufti, salti og pipar í skál.
  2. Rífið niður kúrbít, saxið vorlauk, rífið engifer og bætið út í skálina ásamt frystu kóríander og hrærið saman svo úr verði deig. Ég nota hendurnar við að hræra þessu saman.
  3. Hitið olíu á pönnu, búið til buff og steikið þar til þau fá gylltan lit.
Sósan:
  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með buffunum. Það er mjög gott að gera sósuna snemma svo hún geti fengið að standa aðeins í ísskápnum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin!

-Helga María <3

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Í deilum við með ykkur uppskrift að kúskússalati bornu fram með gómsætum hummus og ristuðum kjúklingabaunum. Fullkomið að bera fram með góðu brauði eins og heimapökuðu pönnubrauði, vefjum eða pítubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og ég notaði kúskús og ristuð graskersfræ frá þeim í salatið. Við elskum vörurnar frá Til hamingju og notum þær mikið í matargerð og bakstur hérna heima.

Kúskús er virkilega þægilegt að nota í matargerð þar sem það krefst lítillar sem engrar fyrirhafnar. Mér finnst best að hella því í skál og hella sjóðandi vatni ásamt ólífuolíu og salti og leggja lok eða disk yfir. Ég leyfi því að standa í 10-15 mínútur og hræri aðeins í því þegar tíminn er hálfnaður. Kúskús er svo hægt að nota á allskonar vegu, t.d. í allskonar salöt, pottrétti og sem meðlæti.

Salatið sem ég gerði í þetta skipti inniheldur kúskús, tómata, papriku, gúrku, rauðlauk, grænar ólífur, ristuð graskersfræ, steinselju, vegan fetaost, ólífuolíu, sítrónusafa, salt og chiliflögur. Einstaklega gott og ferkst hvort sem það er borðað eitt og sér eða með hummus, ristuðum kjúkligabaunum og brauði eins og ég gerði.

Ég einfaldlega smurði hummusnum á stórt fat og toppaði með ristuðu kjúklingabaununum og kúskússalatinu. Svo toppaði ég með chiliolíu, ólífuolíu, reyktri papriku, kúmmin, salti, pipar og aðeins meiri steinselju. Ég bar þetta svo fram með Liba brauði sem ég steikti á pönnu. Dásamlega gott!

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka vel! <3

-Helga María

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kúskússalat
  • 3 dl kúskús frá Til hamingju
  • 4 dl vatn
  • 1 msk ólífuolía + meira til að hella yfir salatið seinna
  • sjávarsalt
  • 1,5 dl ristuð graskersfræ frá Til hamigju
  • 1,5 dl niðurskornir kirsuberjatómatar (ath að grænmetið og magnið sem ég nefni er einungis hugmynd um hvað er hægt að setja í salatið, það má velja bara það sem til er heima eða skipta út hverju sem er)
  • 1,5 dl niðurskorin gúrka
  • 1,5 dl niðurskorin paprika
  • 1,5 dl niðurskornar grænar ólífur
  • 1 dl niðurskorinn rauðlaukur
  • 1,5 dl niðurskorin steinselja
  • 1,5 dl vegan fetaostur
  • Salt og chiliflögur
Hummus
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk kúmmín (má sleppa)
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir sem gott er að toppa hummusinn með: chiliolía, ólífuolía, meira kúmmín, reykt papríkuduft.
Ristaðar kjúklingabaunir
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 msk harissamauk
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1 tsk reykt papríka
  • salt og pipar
  • Olía

Aðferð:

Kúskússalat
  1. Hellið kúskús í stóra skál og hellið sjóðandi vatni yfir ásamt ólífulolíu og salti og leggið lok eða disk yfir. Hrærið í eftir sirka 5 mínútur og svo aftur þegar þið ætlið að bæta restinni af hráefnunum út í.
  2. Leyfið að kólna, bætið svo restinni af hráefnunum saman við og smakkið til með salti og pipar.
Hummus
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með kúskússalatinu og ristuðu kjúklingabaununum.
Ristaðar kjúklingabaunir
  1. Skolið kjúklingabaunirnar í sigti og setjið í skál. Ég reyni að þurrka þær aðeins með viskastykki.
  2. Bætið harissamaukinu og kryddunum saman við.
  3. Steikið upp úr olíu í 10 mínútur eða þar til baunirnar eru orðnar stökkar að utan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er í samstarfi við Til hamingju-

 
 

Bökuð vegan kókosostakaka með rjómaostakremi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að undursamlega góðri bakaðri vegan kókosostaköku toppaðri með dúnmjúku rjómaostakremi og ristuðu kókosmjöli. Hin fullkomna ostakaka að bjóða uppá í matarboðinu, saumaklúbbnum eða við önnur tilefni. Ostakaka slær alltaf í gegn!

Færsla dagsins er í samstarfi við Pólókex frá Frón. Við systur elskum og höfum alltaf elskað Pólókex. Það gladdi okkur mikið þegar við urðum vegan og komumst að því að Póló er vegan. Það var nánast eina kexið sem var laust við mjólk og egg á þeim tíma. Þið vitið það eflaust öll en Póló er kókoskex með súkkulaðihjúp og um leið og þau heyrðu í okkur varðandi samstarf fékk Júlía hugmynd um að gera kókosostaköku og nota Pólókex í botninn.

Það eru nú þegar nokkrar uppskriftir hérna á blogginu af frosnum ostakökum og það var kominn tími til að birta bakaða ostaköku og við vonum svo innilega að ykkur muni líka þessi uppskrift eins mikið og okkur. Pólókexið, kókosfyllingin og rjómaostakremið passar svo ótrúlega vel saman og kexið var svo sannarlega fullkomið í svona botn.

Uppistaðan í sjálfri fyllingunni er silkitófú, kasjúhnetur og condensed kókosmjólk. Það reka eflaust einhverjir upp stór augu við að lesa að kakan innihaldi tófú, en við lofum ykkur að hún smakkast ekkert eins og tófú. Tófúið er notað fyrir áferðina á kökunni og þið finnið ekki bragð af því. Condense kókosmjólk fæst í Krónunni, Nettó og Vegan búðinni og gefur fyllingunni sætt kókosbragð.

Ostakakan er svo toppuð með rjómaostakremi sem er gert úr vegan rjómaosti, þeytirjóma og ristuðu kókosmjöli. Kremið er sett á þegar kakan hefur kólnað. Dásamlega gott!

takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin vel! <3

-Júlía Sif

Bökuð kókósostakaka

Bökuð kókósostakaka
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 30 MinEldunartími: 60 Min: 1 H & 30 M
Unaðsleg bökuð ostakaka með pólókexbotni og kókoskeim.

Hráefni:

Pólókexbotn
  • 200 gr pólókex
  • 60 gr vegan smjör eða smjörlíki
Kókosfylling
  • 300 gr silkitófú
  • 200 gr kasjúhnetur
  • 1 dós condensed kókosmjólk (320 gr)
  • 3/4 dl hlynsíróp
  • 1/2 dl flórsykur
  • 1/4 tsk salt
  • 1 1/2 dl kókosmjöl
Rjómaostakrem
  • 1 dl þeytirjómi
  • 1/2 dl vegan rjómaostur
  • 2-3 msk ristað kókosmjöl

Aðferð:

Pólókex botn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og malið saman
  2. Blandið smjörlíkinu saman við kexið með höndunum þar til það hefur blandast vel saman.
  3. Setjið bökunarpappír í botninn á smelluformi og þjappið fyllingunni vel í botninn.
  4. Bakið við 180°C í 10 mínútur.
  5. Takið úr ofninum og setjið til hliðar þar til fyllingin er tilbúin.
Kókosfylling
  1. Setjið öll hráefnin nema kókosmjölið í öflugan blandara og blandið vel þar til fyllingin verður silkimjúk
  2. Blandið kókosmjölinu saman við með sleikju
  3. Hellið ofan á kexbotninn og bakið við 160°C í 50 mínútur.
  4. Takið kökuna út og leyfið henni að kólna alveg í forminu áður en hún er tekin úr.
  5. Kakan er mjög mjúk þegar hún kemur úr ofninum svo það þarf að láta hana alveg vera þar til hún hefur kólnað alveg, eða í allavega 4 klst.
Rjómaostakrem
  1. Þeytið rjóman og bætið síðan rjómaostinum saman við og þeytið aðeins áfram.
  2. Smyrjið yfir kökuna.
  3. Ristið smá kókosmjöl í nokkrar mínútur á þurri pönnu.
  4. Stráið yfir kökuna og berið fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Pólókex frá Frón-

Gómsæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gnocchisúpa-med-grænmeti-og-baunum

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að gómsætri súpu með gnocchi, baunum og grænmeti. Hin fullkomna haustsúpa að mínu mati. Hún er bæði dásamlega góð, vermir bæði líkama og sál og tekur undir 30 mínútur að útbúa. Ég mæli með því að bera súpuna fram með góðu brauði og toppa með heimagerðum kasjúparmesan.

Gnocchisúpa-med-grænmeti-hráefnamynd

Ég hef alltaf elskað að elda góðar súpur. Það er eitthvað svo róandi við að standa og skera niður grænmeti sem fær svo að malla í stórum potti. Súpur og pottréttir eru einnig frábær leið til að nýta grænmeti, kornvörur og baunir sem til eru heima. Þessi súpa er einmitt dæmi um það. Það er hægt að skipta grænmetinu út fyrir það sem þið eigið til heima, baununum má auðvitað skipta út fyrir aðra tegund af baunum og gnocchi er hægt að skipta út fyrir annað pasta. Mér finnst t.d. mjög gott að brjóta lasagnaplötur út í súpuna.

Hráefnin sem ég notaði í súpuna eru:

  • Niðursoðnir tómatar

  • Laukur

  • Gulrætur

  • Sellerí

  • Hvítlaukur

  • Grænmetiskraftur

  • Gnocchi

  • Cannellini baunir (sem má skipta út fyrir hvaða baunir sem er, t.d. kjúklingabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)

  • Balsamikedik

  • Fersk basílika

  • Ferskt timían

  • Þurrkaðar kryddjurtir

  • Salt, pipar og chiliflögur

Ert þú mikið fyrir súpur og vantar fleiri hugmyndir? Þá eru hérna nokkrar hugmyndir:

Rjómakennd vegan lasagnasúpa

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

Uppáhalds linsubaunasúpan okkar

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin vel!

-Helga María <3

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti

Gósmæt súpa með gnocchi, baunum og grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Ólífuolía eða önnur olía að steikja í
  • 1 meðalstór laukur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 gulrætur
  • 2 sellerístilkar
  • 2 dósir niðursoðnir tómatar
  • 2 grænmetisteningar
  • 1.5 líter vatn
  • 2 tsk balsamikedik
  • 1 tsk þurrkað oregano
  • 1/2 tsk þurrkað marjoram
  • 2 msk ferskt timían
  • 2 msk fersk basílika
  • 1 dós baunir (ég notaði cannellinibaunur en það er ekkert mál að skipta þeim út fyrir t.d. kjúkligabaunir, pintobaunir eða smjörbaunir)
  • 1 pakki (ca 500g) gnocchi - passa að það sé vegan. Ég mæli með því frá Rana

Aðferð:

  1. Skerið niður lauk, gulrætur og sellerí.
  2. Steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið hefur mýkst aðeins.
  3. Pressið hvítlaukinn og steikið í nokkrar mínútur.
  4. Bætið oregano og marjoram út í og hrærið.
  5. Bætið tómötum, vatni, grænmetisteningum, balsamikediki og ferskum jurtum og leyfið súpunni að malla í 15 mínútur.
  6. Bætið gnocchi og baunum saman við og leyfið súpunni að malla í 5 mínútur í viðbót eða þar til gnocchi-ið er mjúkt í gegn.
  7. Berið fram með góðu brauði
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur


Dásamlegar vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlegum vegan vöfflum úr bókhveiti og höfrum. Vöfflurnar eru frábær morgunmatur en á sama tíma fullkomnar að bjóða uppá með síðdegiskaffinu. Toppið með hverju sem ykkur lystir, sultu, rjóma, ávöxtum, jógúrt, hnetum eða ís. Leyfið hugmyndarfluginu að ráða.

Færsla dagsins er í samstarfi við Naturli á Íslandi og í vöfflurnar nota ég bæði vanillu jógúrtina og smjörlíkið frá þeim. Ég nota vörurnar frá Naturli mikið í bakstur og matargerð og finnst bæði smjörlíkið (vegan block) og smjörið (smörbar) bera af þegar kemur að vegan smjöri. Ég er því alltaf jafn stolt að fá að vinna með Naturli.

Undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með að baka úr öðrum tegundum af mjöli en einungins hefðbundu hveiti. Mér hefur þótt það virkilega skemmtilegt og þessar vöfflur komu einmitt úr einni slíkri tilraun. Ég mundi nefnilega að ég hafði fyrir mörgum árum fengið vöfflur á kaffihúsi gerðar úr bókhveiti og í gærmorgun ákvað ég að prófa að útbúa vöfflur úr haframjöli og bókhveiti og útkoman varð þessar virkilega góðu vöfflur sem ég borðaði í morgunmat áður en ég hafðist handa við að baka þær upp á nýtt og mynda ferlið fyrir ykkur.

Hvernig eru bókhveiti og hafravöfflur öðruvísi en þær sem gerðar eru úr hefðbundnu hveiti? Fyrir það fyrsta bragðast þær aðeins öðruvísi þar sem bæði haframjöl og bókhveiti smakkast öðruvísi en hvítt hveiti. Þó þær smakkist ekki nákvæmlega eins fannst mér þær ekki síðri. Ég fékk aðeins meiri “morgunverðarfíling” þegar ég borðaði þær og ætli það sé ekki vegna þess að við tengjum haframjöl oftast við morgunmat. Ég toppaði þær því ekki með sultu og rjóma heldur með jógúrt, hnetusmjöri og ávöxtum svo eitthvað sé nefnt. Ef þú ert frekar í stuði fyrir hefðbundnar vöfflur úr venjulegu hveiti erum við auðvitað með uppskrift af æðislega góðum vegan vöfflum hér.

Nú er haustið að koma, ég finn það. Laufin hérna í Piteå eru farin að skipta um lit og ég finn hvernig ég fyllist lífi í kjölfarið. Ég hlakka til að deila með ykkur gómsætum uppskriftum í haust og vetur. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst erfitt að finna innblástur í matargerð á sumarin. Mér finnst yfirhöfuð erfitt að finna fyrir innblæstri almennt á sumrin og finnst tíminn einhvernveginn standa í stað. Ég fagna því haustsins á hverju ári og finn að hugmyndir af matréttum og bakstri koma svífandi til mín. Hvaðan þær koma veit ég ekki, en ég þakka fyrir pent.

Þema haustsins hér á blogginu verður að miklu leyti matur eldaður frá grunni, matur sem nærir líkama og sál. Matarmiklir réttir stútfullir af grænmeti og baunum og minna af réttum úr tilbúnu vegan kjöti, þó það verði svo sannarlega til staðar líka. Við höfum síðustu ár lagt mikið upp úr að sýna öllum hversu einfalt og gott það er að elda og borða vegan mat. Það er, og hefur, alltaf verið eitt af okkar stóru markmiðum. Að gera mat sem hentar öllum, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Núna í haust viljum við leggja áherslu á að sýna ykkur hversu mikið grænmeti, baunir, tófú, kornvörur og önnu hráefni úr plönturíkinu hafa upp á að bjóða. Fjölbreytileikann sem grænmeti og baunir hafa. Og ekki nóg með það heldur eru það oft þau ódýrustu hráefnin.

En í dag eru það vöfflurnar sem eru í aðalhlutverki. Vöfflur sem ég myndi einmitt segja að næri líkama og sál. Vöfflur sem öll fjölskyldan getur notið í morgunmat og toppað með því sem hverjum og einum þykir best. Sjálf finnst mér best að hafa blöndu af: Sætu, söltu, rjómakenndu, fersku og stökku. Ég held að þetta eigi við um allt sem ég borða. Ferskar jurtir eru mikilvægur partur af öllum mínum máltíðum og ég toppa yfirleitt allan mat með einhverju stökku, hvort sem það eru fræ eða hnetur.

Til að uppfylla öll þessi skilyrði sem ég nefndi hér að ofan toppaði ég vöfflurnar með eftirfarandi:

Eplum og banönum: Sætt og ferskt
Jógúrt: Rjómakennt
Hnetusmjöri: Salt og rjómakennt
Ristuðum möndlum, heslihnetum, hempfræjum og ristuðum kókosflögum: Stökkt (hvaða hnetur og fræ hefðu virkað hérna, ég tók bara allskonar sem ég átti til uppi í skáp)
Kanil: Bara af því hann er svo góður!


Eins og ég segi er þetta eitthvað sem hægt er að leika sér endalaust með og ég mun kannski toppa þær með einhverju allt öðru þegar ég baka þær næst. Mér þætti gaman að heyra hvað þér þykir best á vöfflur?

Ég vona innilega að ykkur líki vöfflurnar og hlakka til að deila með ykkur góðum haustuppskrftum á næstu mánuðum. Endilega heyrið í okkur ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu, við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Hafið það gott! <3

-Helga María

Iljandi vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum

Iljandi vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum
Fyrir: 2-4
Höfundur: Helga María
Þessar dásamlegu vöfflur eru frábær morgunmatur en á sama tíma fullkomnar að bjóða uppá með síðdegiskaffinu. Toppið með hverju sem ykkur lystir, sultu, rjóma, ávöxtum, jógúrt, hnetum eða ís. Leyfið hugmyndarfluginu að ráða.

Hráefni:

  • 100 g bókhveiti (sirka 2 dl)
  • 100 gr mulið haframjöl (sirka 2,5 dl)
  • 1 msk mulin hörfræ eða chiafræ
  • 2 tsk kanill
  • Hafsalt á hnífsoddi
  • 1/4 tsk vanilluduft (má skipta út fyrir vanilludropa)
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl vegan mjólk (má bæta við ef deigið er alveg ótrúlega þykkt, hafið samt í huga að þetta deig er þykkara en hefðbundið vöffludeig)
  • 2,5 dl Joe' kurt vanillujógúrt frá Naturli
  • 50 g vegan block smjörlíki frá Naturli
  • 2 msk hlynsíróp

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja haframjölið í matvinnsluvél eða blandara og myljið.
  2. Myljið hörfæin líka ef þið eigið bara til heil. Ég geri það yfirleitt í kaffikvörn en það virkar auðvitað að nota matvinnsluvél eða blandara.
  3. Setjið í skál ásamt restinni af þurrefnunum og hrærið saman.
  4. Bræðið smjörlíkið og leyfið því að kólna örlítið áður en þið bætið því saman við ásamt restinni af hráefnunum. Mér finnst gott að skilja eftir smá í botninum til að nota til að smyrja vöfflujárnið með. Bætið örlítilli mjólk saman við ef deigið er alveg virkilega þykkt. Passið samt að hræra ekki um of því við viljum ekki að vöfflurnar verði þurrar.
  5. Hitið vöfflujárnið og leyfið deiginu að standa á meðan.
  6. Smyrjið vöfflujárnið með smjörlíki og steikið hverja vöfflu í nokkrar mínútur eða þar til hún hefur fengið gylltan og fínan lit. Ég fékk úr uppskriftinni 4-5 vöfflur.
  7. Berið fram með því sem ykkur lystir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

 
 

Einföld og fljótleg bláberjabaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðri og einfaldri bláberjaböku sem er fullkomin fyrir alla fjölskylduna. Þetta er hinn fullkomni eftirréttur að gera þegar þú vilt gera eitthvað sætt og gott sem tekur stutta stund og þarfnast lítillar sem engrar fyrirhafnar. Ég mæli mikið með að gera þessa gómsætu bláberjaböku úr nýtíndum bláberjum, það er extra gott.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju. Við systur elskum vörurnar frá þeim og skáparnir okkar eru fullir af allskonar þurrvörum frá þeim sem gott er að nota í bakstur eða matargerð. Við erum því einstaklega stoltar yfir því að fá að vinna með þeim.

Þessi uppskrift er ein af þeim sem hægt er að leika sér með. Það má skipta möndlunum út fyrir aðrar hnetur, til dæmis heslihnetur, eða fræ. Frystirinn minn er fullur af gómsætum bláberjum sem ég tíndi í skóginum síðustu vikur og þess vegna fannst mér tilvalið að nota þau í uppskriftina. Það má þó skipta þeim út fyrir til dæmis epli, nektarínur eða önnur ber.

Í uppskriftina nota ég engan hvítan sykur, mér finnst passa betur að setja hlynsíróp. Ég hef líka notað einungis döðlur sem sætu og líka blandað döðlum og smávegis af hlynsírópi. Allt smakkaði það ótrúlega vel, en mér finnst ég fá sem besta áferð með því að nota hlynsírópið.

Þegar ég sagði að uppskriftin væri einföld var ég alls ekki að grínast. Hitið ofninn í 180°c, Blandið í skál haframjöli, muldum möndlum, kókosmjöli, bræddu smjörlíki eða kókosolíu, hlynsírópi, smá salti og kanil. Hellið svo bláberjum í eldfast mót og hrærið maíssterkju og örlitlu hlynsírópi saman við. Toppið með haframjölsblöndunni og bakið í ofni í sirka hálftíma. TILBÚIÐ.

Toppið með vegan vanilluís eða vegan þeyttum rjóma. Ég get ímyndað mér að vegan vanillusósa sé líka virkilega góð með. Borðið sem eftirrétt, millimál, morgunmat jafnvel.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin! <3

-Helga María

Einstaklega fljótleg og góð vegan bláberjabaka

Einstaklega fljótleg og góð vegan bláberjabaka
Fyrir: 6
Höfundur: Helga María
Þessi gómsæta vegan bláberjabaka er hinn fullkomni einfaldi eftirréttur. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamlega góð borin fram með vegan vanilluís eða vegan þeyttum rjóma.

Hráefni:

  • 200 gr haframjöl frá Til hamingju
  • 50 gr kókosmjöl frá Til hamingju
  • 50 gr möndlur frá Til hamingju
  • 1 tsk kanill
  • Smá salt
  • 150 gr vegan smjörlíki
  • 1/2 dl hlynsíróp plús 1 tsk til að setja út í berin
  • 400 gr bláber - frosin eða fersk. Ég notaði frosin ber sem ég tíndi sjálf
  • 1 msk maíssterkja
  • Vegan vanilluís eða vegan þeytirjómi til að bera fram með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c undir og yfir hita.
  2. Blandið saman haframjöli, kókósmjöli, muldum möndlum (ég muldi mínar í matvinnsluvél en það er hægt að hakka þær smátt ef þið eigið ekki svoleiðis vél), kanil og salti í skál.
  3. Bætið við bræddu smjörlíki og hlynsírópi og hrærið saman við.
  4. Setjið bláberin í eldfast mót. Bætið saman við maíssterkju og hlynsírópi og hrærið svo það þekji berin vel.
  5. Stráið haframjölsblöndunni yfir og bakið í ofninum í sirka 30 mínútur eða þar til bakan fær gylltan og fínan lit.
  6. Berið fram með vegan vanilluís eða vegan þeyttum rjóma.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur
 
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Til hamingju-

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, hrásalati og bjórsteiktum lauk

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu vegan steikarsamloku með grilluðu tófú, piparmajó, hrásalati og bjórsteiktum lauk. Samlokan er tilvalin að gera fyrir sumargrillveisluna eða taka með sér í lautarferð. Þetta er samloka sem allir elska, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Ég mæli með því að bera hana fram með góðum frönskum og þessa dagana er ég með æði fyrir vöfflufrönskum.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin í hana þar. Í Krónunni er mikið úrval af vegan mat og hægt að fá allt sem þarf fyrir vegan grillveisluna þar, hvort sem það er fyrir forrétt, aðalrétt, meðlæti eða eftirrétt.

Grillaða tófúið er aðalpersónan í þessari uppskrift. Það er einstaklega gott og hægt að bera fram með nánast hverju sem er. Ef ég er ekki í stuði til að gera samloku finnst mér gott að borða það með grilluðum kartöflum, hrásalati, góðri sósu og salati. Leyndarmálið er að leyfa tófúinu að marínerast í allavega klukkutíma. Ég reyni að pressa það í viskastykki í sirka klukkutíma og hafa það svo í maríneringunni í 3-4 tíma svo það dragi í sig sem mest bragð.

Þetta hljómar kannski tímafrekt en í raun krefst þetta ekki mikillar fyrirhafnar. það tekur enga stund að hræra saman maríneringunni en það er tíminn á milli sem er lengri. Og trúið mér, það er þess virði að gera þetta tímanlega því tófúið verður svo ótrúlega gott.

Á samlokunni er:

Grillað tófú
piparmajó
hrásalat
klettasalat
tómatur
bjórsteiktur laukur.

Þetta er guðdómlega gott og djúsí. Ekta steikarsamloka sem sannar fyrir öllum að vegan grillmatur sé alls ekki síðri öðrum grillmat. Viljiði uppskriftir af góðu grillmeðlæti? Þá mæli ég með þessari færslu sem er stútfull af góðum hugmyndum.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað tófú
  • 1 stk tófú, ca 400-500 gr. (passið að kaupa ekki silken tófú vegna þess að það virkar alls ekki fyrir svona uppskrift)
  • 2 dl sojasósa
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • 1 tsk timían
  • Smá chiliflögur (má sleppa)
  • Brauð fyrir samlokurnar
Köld piparsósa:
  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt
  • 1 dl vegan Krónu majónes
  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1/2 tsk salt
Hrásalat
  • 300 gr rifið hvítkál
  • 200 gr rifnar gulrætur
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 dl vegan krónumajónes
  • 1 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1 tsk eplaedik
  • 1/2 tsk salt
  • Svartur pipar eftir smekk
Bjórsteiktur laukur
  • 3 stórir laukar
  • Olía að steikja upp úr
  • 2 msk sykur
  • 2 msk soyasósa
  • salt og pipar
  • 1/2 dl bjór (ég mæli með peroni libero áfengislausa bjórnum sem er til í Krónunni)

Aðferð:

Grillað tófú:
  1. Takið tófúið úr umbúðunum og kreistið létt svo þið fáið út aðeins af vökvanum. Vefjið tófústykkinu inn í eldhúspappír eða viskastykki og leggið eitthvað þungt yfir, t.d. stóra bók eða pönnu. Leyfið að standa í sirka klukkutíma.
  2. Hrærið saman maríneringunni og hellið í box eða stóra skál. Skerið tófúið í 4 sneiðar og leggið í maríneringuna og leyfið að marínerast í minnst klukkustund. Ég reyni að leyfa því að sitja í maríneringunni í 3-4 tíma svo tófúið dragi í sig sem mest bragð.
  3. Græjið restina af hráefnunum á meðan þið bíðið svo að ekki þurfi að gera meira þegar kemur að því að grilla tófúið.
Köld piparsósa
  1. Hrærið öllu saman í skál.
Hrásalat:
  1. Rífið hvítkálið með ostaskerara.
  2. Rífið gulræturnar.
  3. Skerið laukinn í þunna strimla.
  4. Setjið í skál og hrærið restinni af hráefnunum saman við.
Bjórsteiktur laukur
  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.
  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.
  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónunna-

 
 

Vegan bláberjamöffins með mulningi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af dúnmjúkum og flöffí bláberjamöffins með stökkum mulningi ofan á. Þessar möffins eru fullkomnar í ferðalagið, afmælisveisluna, sunnudagskaffið eða lautarferðina svo eitthvað sé nefnt. Varstu í berjamjó og veist ekkert hvað þú átt að gera við öll bláberin sem þú tíndir? Þá ertu á réttum stað!

Færsla dagsins er í samstarfi við Naturli á Íslandi og í möffinskökurnar notaði ég bæði smjörlíkið frá þeim og vanillujógúrtina. Við systur notum vörurnar frá Naturli mikið í bæði matargerð og bakstur og erum alltaf jafn stoltar af því þegar við vinnum með þeim.

Framundan er tími berjatínslu og við systur erum mjög spenntar að deila með ykkur allskonar bláberjauppskriftum. Fersk bláber eru svo ómótstæðilega góð í bakstur, hvort sem það eru tertur, pönnukökur, bláberjabökur eða einmitt þessar gómsætu möffins.

Ég nota vanillujógúrtina frá Naturli (joe’ kurt) í möffinskökurnar og jógúrtin gefur þeim bæði gott vanillubragð og gerir þær dúnmjúkar. Ég bakaði oft jógúrtmöffins þegar ég var barn og þessar gómsætu möffins minna mig mjög mikið á þær.

Ef þér líkar þessar möffins mælum við með því að prófa þessar geggjuðu kanilmöffins líka

Að lokum er það mulningurinn, toppurinn, krömblið, krönsið. Punkturinn yfir i-ið ef ég má ganga svo langt. Toppurinn fullkomnar dúnmjúkar möffinskökurnar að mínu mati, svo gómsætur og stökkur. Ég geri hann úr smjörlíki, hveiti og sykri og strái yfir deigið áður en ég baka möffinskökurnar. Svo dásamlega gott!

Spurningar og svör:

  1. Má nota frosin bláber í staðinn fyrir fersk?
    Svar: Já, ég hef gert kökurnar með frosnum bláberjum og það eina sem þarf að hafa í huga er að það tekur aðeins lengri tíma að baka þær því berin eru svo köld.

  2. Þarf að nota sojamjólk?
    Svar: Sko, nei í rauninni ekki. EN ég blanda saman sojamjólk og eplaediki og leyfi að standa í nokkrar mínútur þar til hún þykknar. Þetta finnst mér gera kökurnar enn mjúkari, og eplaedikið hefur ekki sömu áhrif á t.d. haframjólk, en ég hef prófað að baka þær með haframjólk og þær komu líka mjög vel út svoleiðis.

  3. Má frysta möffinskökurnar?
    Svar: Já, ég mæli mjög mikið með því að gera það. Það er fátt betra en að eiga möffins í frystinum og geta tekið út hvenær sem er.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel. Ef þið prófið að gera þessa uppskrift eða einhverja aðra af blogginu, munið að tagga okkur á Instagram, það gleður okkur alltaf svo ótrúlega mikið.

Vegan bláberjamöffins

Vegan bláberjamöffins
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 100 gr smjörlíki frá Naturli
  • 2.5 dl sykur
  • 2 msk matarolía
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 dl Joe' kurt vanillujógúrt frá Naturli
  • 1 dl sojamjólk + 1 msk eplaedik (leyfið að standa í 10 mín)
  • 300 gr (5 dl) hveiti. Ef þið mælið í dl munið að þjappa hveitinu ekki í dl málið.
  • 1/2 tsk salt
  • 1 msk lyftiduft
  • 200 gr bláber + 1 msk hveiti
Krömbl
  • 65 gr Naturli smjörlíki
  • 1.5 dl hveiti
  • 1 dl sykur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c á undir og yfir hita
  2. Blandið saman sojamjólk og eplaediki og leggið til hliðar
  3. Bræðið smjörlíkið og hellið í skál ásamt olíu og sykri og hrærið saman með písk
  4. Bætið jógúrt, vanilludropum og sojamjólkinni saman við og hrærið
  5. Hrærið saman í aðra skál hveiti, lyftidufti og salti og sigtið svo saman við blautu hráefnin og hrærið þar til deig myndast en passið að hræra eins lítið og þið mögulega þurfið svo kökurnar verði ekki þurrar.
  6. Setjið bláberin í skál og stráið yfir 1 msk hveiti og veltið berjunum upp úr því. Þetta gerum við svo berin sökkvi ekki á botninn á kökunum.
  7. Bætið saman við deigið og hrærið saman við með sleikju.
  8. Deilið deiginu í sirka 12 pappírs möffinsform. Ég mæli mikið með að setja formin í möffins ofnform (sjá myndir að ofan). Þetta gerir það að verkum að kökurnar halda forminu vel.
  9. Stráið krömblinu yfir (aðferð hér að neðan) og bakið í 20-30 mínútur eða þar til kökurnar hafa fengið gylltan lit að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar stungið er í þær (fyrir utan að hann kemur mögulega blár út). Byrjið að fylgjast með kökunum eftir 20 mínútur. Það fer bæði eftir því hvernig ofn þið eigið og hvort þið notið frosin eða fersk ber hversu langan tíma það tekur að baka kökurnar.
Krömbl
  1. Bræðið smjörlíkið og hellið í skál
  2. Bætið saman við það hveiti og sykri og blandið með höndunum þar til það verður að nokkurskonar mylsnu.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

 
 

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Í dag deilum við með ykkur dásamlegum rjómaostasnúðum með rauðu pestói. Þessir snúðar eru ótrúlega einfaldir en ekkert smá mjúkir og gómsætir. Þeir henta fullkomlega til að eiga í nesti í útileguna, skólan eða bara með kaffinu. Það má leika sér með þessa uppskrift á ótal vegu og hægt er að setja nánast hvað sem hugurinn girnist sem fyllingu í snúðana.

Ég elska að baka sætar kökur, muffins og snúða með kaffinu en oft gleymi ég hvað er ótrúlega gaman að baka ósætt bakkelsi, líkt og þessa dásamlegu snúða. Það er svo fullkomið í kaffitímanum eða í nesti, þegar manni langar ekki endilega bara í eitthvað sætt. Mér finnst einhvern veginn alltaf meiri matur í ósætu bakkelsi. Þessir snúðar eru akkúrat þannig, ég geri þá frekar stóra svo það sé hægt að borða einn og verða ágætlega saddur af honum.

Ég hef síðan ég var barn ELSKAÐ rautt pestó og borðaði það oft eintómt ofan á brauð þegar ég var krakki, sem er kannski örlítið furðulegt, en það skiptir svo sem ekki máli. Ég nota það þó mikið í dag til að bragðbæta alls kyns hluti og er rauða vegan pestóið frá Sacla Italia í mjög miklu uppáhaldi hjá mér, hvort sem það er í pastarétti, súpur, eða í baksturinn. Pestóið hentar fullkomlega með vegan rjómaosti og verða snúðarnir svo mjúkir og djúsí með þessari fyllingu.

Ég baka oft snúðana í eldföstu móti þar sem þeir koma svo fallega út en það má einnig baka þá staka á ofnplötu og hentar það kannski betur ef það á til dæmis að frysta eitthvað af þeim til að geyma. Ég geri oft minni snúða úr helmingnum af deiginu til að eiga í frysti og geta gripið þegar mér vantar eitthvað til að taka með mér eða ef ég fæ óvænta gesti. Það er ekkert þægilegra en að vera með bakkelsi í frysti sem er hægt að henda í ofninn í nokkrar mínútur þegar fólk kemur í heimsókn.

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói

Rjómaostasnúðar með rauðu pestói
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 2 HourEldunartími: 20 Min: 2 H & 20 M

Hráefni:

  • 5 dl plöntumjólk
  • 100 gr vegan smjör eða smjörlíki
  • 1 pakki þurrger
  • 1 tsk sykur
  • 1/2 tsk salt
  • 11-12 dl hveiti
  • 200 gr vegan rjómaostur (t.d. Sheese eða oatly)
  • 1 krukka rautt vegan pestó frá Sacla Italia
  • 2 msk plöntumjólk
  • 1-2 msk beyglukrydd (t.d. sesamgaldur frá pottagöldrum)

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 220°C
  2. Byrjið á því að bræða smjörlíki og bæta síðan mjólkinni út í og saman þar til það er sirka við líkamshita.
  3. Stráið þurrgerinu yfir og sykrinum síðan yfir það og leyfið því að bíða í um 5 mínútur. Þurrgerið ætti aðeins að fara að freyða.
  4. Bætið saltinu og hveitinu saman við og hnoðið saman þar til allt deigið hefur losnað frá skálinnni. Byrjið á því að setja 11 dl af hveiti og bætið síðan út í eftir þörfum.
  5. Leyfið deiginu að hefast í skálinni í u.þ.b. 40 mínútur.
  6. Fletjið deigið út, smyrjið rjómaostinum yfir ásamt pestóinu. Rúllið þétt upp og skerið í bita í þeirri stærð sem hver og einn kýs.
  7. Raðið á plötu eða í eldfast mót og pressið aðeins niður á hvern og einn snúð. Leyfið þeim síðan að hefast í 20 mínútur í viðbót.
  8. Smyrjið smá plöntumjólk á hvern snúð og dreyfið beyglukryddinu yfir.
  9. Bakið í 17 til 20 mínútur eða þar til þeir verða fallega gylltir ofan á.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Mjúkt og gott vegan bananabrauð með valhnetum

Hæhæ!

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu og dúnmjúku vegan bananabrauði með vanhnetum. Það er svosem alveg hægt að kalla þetta bananaköku þar sem það er mun meira í þá áttina, en að einhverri ástæðu hefur nafnið bananabrauð fests svo við höldum okkur við það. Ég ber mitt fram með góðu vegan smjöri og ætli það dugi ekki til að kalla það brauð?!

Hvort sem þú vilt kalla það bananabrauð eða bananaköku skiptir ekki miklu máli, það sem er mikilvægast er að bananabrauðið er dúnmjúkt og bragðast svoo vel. Í uppskriftina notaði ég valhnetur en viku seinna bakaði ég það aftur og skipti þeim út fyrir saxað dökkt súkkulaði. Ég get viðurkennt að mér fannst það ennþá betra með súkkulaði þó það sé að sjálfsögðu virkilega gott með hnetunum!

Ég er ein af þeim sem eiga oft til brúna banana heima og segjast alltaf vera á leiðinni að skella í bananabrauð en koma sér aldrei í það. Héðan í frá mun það ekki gerast aftur. Þessi uppskrift er svo einföld að það er eignilega hlægilegt. Það er hægt að deila deiginu í muffinsform ef maður vill baka það ennþá hraðar. En ég mun aldrei láta banana fara til spillis framar. Nú á ég nokkrar sneiðar af þessu gómsæta brauði í frystinum og það er ekkert jafn gott og að geta tekið út eins og tvær sneiðar þegar maður er í stuði.

Deigið í bananabrauðið er hrært með höndunum svo það er engin þörf á að nota hrærivél. Ég byrja á því að hræra saman sykur, olíu, mjólk, eplaedik, vanilludropa og stappaða banana og sigta svo þurrefnin saman við.

Að lokum bæti ég við niðurskornum valhnetum og hræri samanvið með sleikju. Það er ekkert mál að skipta valhnetunum út fyrir aðrar tegundir af hnetum eða fræjum, rúsínur eða súkkulaði eins og ég nefndi hér að ofan. Það má að sjálfsögðu líka sleppa þeim alveg, bananabrauðið verður alveg jafn gott þrátt fyrir það.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel!

-Helga María

Vegan bananabrauð með valhnetum

Vegan bananabrauð með valhnetum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 4,5 dl hveiti (280 g)
  • 1 dl sykur (100 g)
  • 1/2 dl púðursykur (50 g)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 2 dl vegan mjólk
  • 1 tsk vanilludropar
  • 3 stórir 4 minni þroskaðir bananar
  • 1 msk eplaedik
  • 1 dl matarolía
  • 1 dl niðurskornar valhnetur (má sleppa eða skipta út fyrir t.d. aðrar hnetur, fræ, rúsínur eða súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c undir og yfir hita.
  2. Hrærið saman olíu, vanilludropa, eplaedik, sykur og púðursykur í skál.
  3. Stappið banana með gaffli og bætið út í skálina og hrærið saman við.
  4. Hrærið saman hveiti, lyftiduft, matarsóda og salt í aðra skál.
  5. Sigtið þurrefnin ofan í skálina með blautu hráefnunum og hrærið.
  6. Skerið niður valhnetur (eða annað ef þið viljið skipta þeim út. Má líka sleppa alveg) og hrærið varlega saman við með sleikju.
  7. Hellið deiginu ofan í brauðform klætt með smjörpappír og bakið í 50-60 mínútur eða þar til pinni sem stungið er í kemur hreinn út. Byrjið að fylgjast með brauðinu reglulega eftir 40 mínútur.
  8. Njótið!!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætu grilluðu pönnubrauði með fetaostasósu og grilluðu grænmeti. Hin fullkomna sumaruppskrift. Þetta er matur sem bæði er hægt að undirbúa fyrir fram og taka með sér út að grilla eða útbúa og grilla á staðnum.

Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Krónunni er virkilega gott úrval af góðum vegan grillmat og við erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Grillað grænmeti er að mínu mati eitt það besta við sumarið. Ég gæti glöð borðað það eitt og sér eða með góðri sósu, en í dag vil ég sýna ykkur hvernig er hægt að gera það ennþá betra. Grænmetið sem ég valdi í dag er í raun bara það sem ég átti til heima. Leyfið endilega hugmyndafluginu að ráða. Ég elska t.d. grillaðan aspas, grillað kál, kartöflur, eggaldin.

Ef þú hefur ekki prófað að grilla pönnubrauð þá mæli ég eindregið með því. Það er ekkert smá gott. Þar sem ég vildi hafa þetta uppskrift sem auðvelt er að gera á staðnum, t.d. ef þú ert í útilegu eða bara vilt elda góðan mat úti með vinum eða fjölskyldu, ákvað ég að gera einfalda uppskrift af brauði sem inniheldur lyftiduft í stað þurrgers. Þetta brauð þarf því ekki að hefast heldur er hægt að fletja út og grilla beint.

Fetaostasósan er mitt uppáhalds meðlæti með grillmat þessa dagana. Virkilega virkilega góð. Fyrir stuttu deildi ég með ykkur uppskrift af vegan fetaostasósu sem ég bar fram með steiktum kartöflubátum, en í dag mun ég sýna ykkur hvernig auðveldlega er hægt að útbúa hana án þess að þurfa að nota matvinnsluvél eða önnur raftæki. Þessi sósa er æðisleg með grillaða brauðinu og grænmetinu en passar einnig með öllum grillmat að mínu mati.

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin. Ef þú prófar hana eða aðrar uppskriftir af blogginu þykir okkur alltaf jafn vænt um það ef þú taggar okkur á Instagram! <3

-Helga María

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grænmeti:
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 6 msk ólífuolía (plús meira til að pennsla yfir)
  • 2-3 dl vatn (byrjið á 2 dl og bætið við ef ykkur finnst þurfa)
  • Fetaostasósa (uppskrift hér að neðan)
  • Grænmeti eftir smekk
  • Vegan grænt pestó til að toppa með (má sleppa en er svakalega gott)
  • Salt og pipar
Einföld vegan fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur frá Violife (greek white heitir hann)
  • 1 dós vegan sýrður rjómi (ég notaði Oatly imat fraiche 200ml)
  • ca 2 tsk rifinn sítrónubörkur og 1 tsk safi frá sítrónunni.
  • 2 msk ólífuolía
  • Salt og pipar
Grillað grænmeti:
  • Grænmeti eftir smekk. Ég notaði: Vorlauk, rauðlauk, rauða og gula papriku, sveppi og kúrbít.
  • Olía og krydd eftir smekk. Ég notaði bara olíu, salt og pipar en það er hægt að krydda með öllu því sem mann lystir.

Aðferð:

Grillað pönnubrauð
  1. Blandið saman hráefnunum.
  2. Bætið olíunni og vatninu út í og hnoðið létt
  3. Skerið í 6 bita og mótið kúlur. Leyfið þeim að standa undir viskastykki í 10 mínútur.
  4. Fletjið út, pennslið með ólífuolíu og grillið þar til hvor hlið fyrir sig fær gylltan lit. Það fer eftir grilli og hversu heitt það er en það ætti ekki að taka margar mínútur að grilla hvora hlið fyrir sig.
  5. Setjið undir viskastykki þar til þið berið fram.
  6. Smyrjið á brauðið fetaostasósunni, skerið grænmetið niður og raðið yfir og toppið með grænu pestói, ólífuolíu, salti og pipar.
Vegan fetaostasósa:
  1. Stappið fetaostinn með gaffli og setjið í skál.
  2. Bætið restinni af hráefnunum í skálina og hrærið saman.
  3. Smakkið til og bætið við sítrónu, salti og pipar eftir smekk.
Grillað grænmeti:
  1. Skerið grænmetið niður eins og ykkur finnst best.
  2. Grillið þar til ykkur finnst það orðið tilbúið. Athugið að það er oft mismunandi hversu langan tíma grænmetið þarf. Vorlaukurinn þarf bara örfáar mínútur og kúrbítssneiðarnar þurfa ekki langan tíma heldur. Rauðlaukinn skar ég í 4 bita og þeir þurfa lengri tíma svo þeir séu ekki hráir að innan. Ég er dugleg að fylgjast með og passa að ekkert brenni.
  3. Þetta er samt líka mismunandi eftir grillum svo það er erfitt að segja nákvæmlega.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni þar-

 
 

Stökkir kartöflubátar með gómsætri vegan fetaostasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að stökkum og góðum kartöflubátum bornum fram með vegan fetaostasósu með fersku oregano. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur, hvort sem þið berið hann fram sem forrétt, meðlæti, aðalrétt eða smárétt.

Ég elska kartöflur, hvort sem það er kartöflumús, soðnar kartöflur, steiktar eða djúpsteiktar, ég gæti borðað kartöflur í öll mál. Þessir kartöflubátar eru í top 5 sætunum yfir mínar uppáhalds kartöflur. Þeir eru akkúrat eins og ég vil hafa þá, mjúkir að innan og stökkir og góðir að utan. FULLKOMNIR!

Mitt tips til að gera kartöflubátana fullkomlega stökka að utan og mjúka að innan er að sjóða þá fyrst og baka þá svo í ofninum uppúr góðri ólífuolíu og kryddum. Ég veit að þetta er eitt extra skref en mér finnst algjörlega þess virði að sjóða þá fyrst svo ég mæli virkilega með því.

Þá er það fetaostasósan. Þessi sósa er alveg guðdómlega góð og fullkomin með sumargrillmatnum. Ég á eftir að gera hana aftur og aftur í sumar og bera fram með allskonar grilluðu grænmeti eða góðu ristuðu brauði. Hún er fersk og góð og passar fullkomlega með krydduðum kartöflubátunum. Hráefnin sem ég nota í sósuna eru:

  • Vegan fetaostur

  • Vegan sýrður rjómi

  • Ferskt oregano

  • Sítrónubörkur

  • Ólífuolía

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Það er hægt að leika sér mikið með hráefnin og nota t.d. aðrar jurtir í stað oregano, t.d. kóríander eða basilíku. Eins get ég ímyndað mér að það sé virkilega gott að setja hvítlauk í hana.

Ég get ímyndað mér að sósan sé fullkomin með þessum gómsætu grillspjótum!

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin.

-Helga María

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kartöflubátar:
  • 1 kg kartöflur
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 tsk af hverju kryddi: laukdufti, hvítlauksdufti, paprikudufti og salti
  • Smá svartur pipar
  • Ferskur graslaukur að toppa með eftir ofninn
Fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/4 dl ólífuolía
  • sirka 1-2 msk ferskt oregano
  • sirka 2 tsk rifinn sítrónubörkur
  • Smá salt og chiliflögur
  • Smá chiliolía til að toppa með (má sleppa en ég átti svoleiðis til heima og fannst hún passa mjög vel með)

Aðferð:

Kartöflubátar:
  1. Skerið kartöflurnar niður í báta og sjóðið í 10 mínútur.
  2. Hitið ofninn í 210°c.
  3. Hellið vatninu af kartöflunum og setjið þær í ofnskúffu.
  4. Hellið ólífuolíu og kryddum yfir og hrærið saman svo það þekji kartöflurnar.
  5. Bakið í ofninum í sirka 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru stökkar og hafa fengið á sig gylltan lit.
Fetaostasósa:
  1. Setjið fetaost, sýrðan rjóma og ólífuolíu í matvinnsluvél og blandið.
  2. Bætið sítrónuberki, oregano, salti og chiliflögum saman við og blandið í nokkrar sekúndur.
  3. Smyrjið á stórt fat og toppið með kartöflubátunum, smá chiliolíu og graslauk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Vegan ofnbakað pasta með pestó og rjómaosti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og gómsætum ofnbökuðum pastarétti með grænu pestói og rjómaosti. Pastarétturinn er einstaklega þægilegur og þarfnast lítillar sem engrar fyrirhafnar þar sem pastað eldast í pestórjómasósunni í ofninum. FULLKOMIÐ!

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og í pastaréttinn notaði ég bæði Violife creamy original rjómaostinn og Violife prosociano parmesan ostinn frá þeim. Ákvörðunina að nota parmesanostinn tók ég mjög skyndilega þar sem ég átti hann til í ísskápnum og þessvegna eru umbúðirnar ekki sjáanlegar. Svona líta þær út fyrir ykkur sem hafið ekki séð hann áður. Við systur elskum ostana frá Violife og notum þá daglega í bæði matargerð og ofan á brauð. Við erum því alltaf jafn stoltar og glaðar að fá að vinna með þeim.

Ef þið hafið ekki prófað að baka pasta í ofni mælum við mikið með því að prófa það. Það gerist virkilega ekki einfaldara. Ég kaus að steikja kúrbítinn á pönnu á meðan pastað fékk að malla í ofninum og bætti því svo við pastað ásamt spínatinu þegar stutt var eftir af eldunartímanum. Það gerði ég svo að grænmetið yrði ekki of maukað. Það var í raun það eina sem ég gerði á annarri pönnu, en þar sem ég gat gert það á meðan pastað var í ofninum tók það enga stund.

Að lokum útbjó ég kasjúhnetuparmesan sem ég setti ofan á réttinn þegar ég hafði bætt grænmetinu út í og leyfði réttinum svo að bakast í svolitla stund í viðbót. Ég bókstaflega elska kasjúparmesan. Ég gæti sett hann á allt. Ég geri hann einfaldlega með því að mixa saman kasjúhnetur, næringarger, laukduft, hvítlauksduft og salt. Svo gómstætt. Það má sleppa honum eða skipta út fyrir rifinn ost fyrir ykkur sem eruð með ofnæmi eða nennið ekki að gera kasjúparmesan. Það er líka mjög gott.

Takk kærlega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Elskið þið “one pot” pastauppskriftir? Kíkið þá á þetta gómsæta ofnbakaða pasta með rauðu pestói.

-Helga María

Ofnbakaður vegan pastaréttur með grænu pestói og rjómaosti

Ofnbakaður vegan pastaréttur með grænu pestói og rjómaosti
Höfundur: Helga María
Virkilega einfaldur og góður pastaréttur sem fær að malla í ofninum án mikillar fyrirhafnar!

Hráefni:

  • 500g pasta
  • 850 ml vatn
  • 1,5 grænmetiskraftur
  • 1 askja Violife creamy original rjómaostur
  • 1 krukka vegan grænt pestó
  • 1 kúrbítur
  • 150 gr spínat
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 50 violife prosociano parmesanostur
  • sítrónusafi og börkur af hálfri sítrónu
  • Salt og pipar
  • Kasjúparmesanostur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Setjið pasta, vatn, grænmetiskraft, hvítlauk, sítrónusafa, sítrónubörk, salt og pipar rjómaost og pestó í eldfast mót. Setjið álpappír yfir og eldið við 200°c í 30 mínútur. Hrærið í þegar tíminn er hálfnaður.
  2. Sneiðið niður kúrbítinn og steikið á pönnu á meðan þar till hann fær á sig smá gyltan lit.
  3. Takið eldfasta mótið út úr ofninum, bætið kúrbít, spínati og parmesanosti út og hrærið saman. Stráið kasjúparmesanosti yfir (má líka vera rifinn vegan ostur) og bakið í sirka 20 mínútur í viðbót og hrærið í þegar tíminn er hálfnaður. Það fer svolítið eftir pastanu hversu langan tíma það tekur þannig fylgist með og leyfið því að vera aðeins lengur ef þarf. Ég notaði rigatoni og það þarf svolítið langan tíma. Saltið og piprið meira ef þarf.
  4. Berið fram með t.d. góðu brauði og njótið.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Úr deiginu koma tvær lengjur svo það er hægt að gera fleiri tvær tegundir af fyllingu. Kanillengjan er skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Uppskriftin af sjálfu brauðinu er hefðbundin kanilsnúðauppskrift. Það er því ekkert mál að gera snúða í staðinn. Ég mæli þó auðvitað með því að þið prófið að gera kanillengju. Hún er svooo góð.

Ég hnoða deigið í hrærivél og leyfi því svo að hefast í sirka klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð. Mitt tips er að hafa deigið ekki of þurrt. Það á að fá glansandi áferð og vera svolítið klístrað án þess að festast við fingurinn þegar honum er potað í deigið. Athugið að hafa fingurinn hreinan því ef það er nú þegar deig á honum þá festist allt auðveldlega.

Fyllinguna gerði ég úr smjörlíki, púðursykri, kanil og hlynsírópi. Ég stráði svo yfir niðurskornum pekanhnetum. Virkilega góð og passar fullkomlega í lengjuna. Þar sem uppskriftin gefur tvær lengjur finnst mér gaman að gera mismunandi fyllingu og finnst geggjað að setja til dæmis vegan nutella og hakkaðar heslihnetur. Ég get trúað því að bláberjasulta passi vel og þá myndi ég trúa því að það sé gott að gera sítrónuglassúr og setja ofan á. Í raun eru möguleikarnir endalausir.

Þegar ég var búin að rúlla upp deiginu skar ég það langsum svo úr komu tvær lengjur. Ég lét sárin snúa upp og fléttaði deigið saman og festi saman við endana.

Ef þið hafið áhuga á fleiri snúðauppskriftum mælum við mikið með þessum geggjuðu kanilsnúðum með eplum og rjómaostakremi.

Ég lagði deigið í brauðform sem ég hafði klætt með smjörpappír og leyfði því að hefast aftur í sirka klukkutíma. Því næst bakaði ég lengjuna í ofninum og á meðan hún bakaðist gerði ég síróp úr vatni og sykri sem ég penslaði svo yfir um leið og ég tók lengjuna úr ofninum. Það getur kannski litið út eins og það sé erfitt að gera kanillengju en í raun er það virkilega einfalt. Það erfiðasta er að bíða á meðan hún kólnar svo hægt sé að bera hana fram. Hún má auðvitað vera svolítið volg ennþá en það er gott að leyfa henni að kólna vel áður en hún er skorin.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þér líki uppskriftin vel! <3

-Helga María

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum

Gómsæt vegan kanillengja með hlynsírópi og pekanhnetum
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan kanillengju með hlynsírópi og pekanhnetum. Virkilega bragóð, dúnmjúk og góð. Skemmtileg tilbreyting frá hefðbundnum kanilsnúðum og er einstaklega skemmtilegt að bjóða uppá með kaffinu.

Hráefni:

  • 350 gr hveiti
  • 350 gr brauðhveiti (má skipta því út fyrir venjulegt hveiti)
  • 10 gr þurrger
  • 150 gr sykur (plús 1 dl til að gera síróp)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1/2 tsk salt
  • 4 dl vegan mjólk
  • 100 gr smjörlíki
Fylling (passar fyrir tvær lengjur)
  • 200 gr smjörlíki við stofuhita
  • 1 og 1/2 dl púðursykur
  • 3 msk hlynsíróp
  • 2 msk kanil
  • 2 dl niðurskornar pekanhnetur

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíki í potti. Bætið mjólkinni út í og leyfið blöndunni að ná 37°c. Hellið í hrærivélarskál.
  2. Stráið þurrgeri í mjólkina, hrærið því við og leyfið að standa í nokkrar mínútur þar til myndast froða ofan á.
  3. Bætið sykri og salti út í og hrærið saman við.
  4. Hellið helmingnum af hveitinu út í og hnoðið í hrærivélinni þar til hráefnin hafa blandast vel saman. Bætið þá restinni af hveitinu út í og hnoðið með hrærivélinni í 10 mínútur. Deigið á að sleppa frá skálinni.
  5. Smyrjið örlítilli olíu í aðra skál og færið deigið yfir í hana. Leggið viskastykki eða plastfilmu yfir og leyfið að hefast í klukkutíma eða þar til það hefur tvöfaldast í stærð.
  6. Hitið ofninn í 180°c á undir og yfir hita.
  7. Takið loftið úr deiginu þegar þið hafið hefað það með því að smyrja örlítilli olíu á handarbakið og þrýstið krepptum hnefa létt í deigið.
  8. Færið deigið á borð og deilið því í tvennt. Byrjið á því að gera aðra lengjuna með því að fletja út deigið þar til það er um 1/2 cm þykkt. Sjá mynd að ofan til að sjá hvernig deigið mitt leit út. Smyrjið fyllingunni á og stráið yfir niðurskornum pekanhnetum.
  9. Rúllið upp deiginu og skerið í tvennt langsum svo úr komi tvær lengjur. Látið sárin snúa upp og fléttið þeim saman og festið við endana.
  10. Gerið hina lengjuna og setjið á þá fyllingu sem þið viljið hafa.
  11. Færið lengjurnar varlega yfir í sitt hvort hrauðform klætt með smjörpappír og bakið í 40-50 mínútur eða þar til þær eru bakaðar í gegn og hefur fengið fallegan lit að ofan. Það er auðvitað hægt að leggja þær á bökunarplötu ef þið eigið ekki brauðform.
  12. Á meðan þið bakið lengjurnar er tilvalið að gera sírópið sem þið penslið yfir þær þegar þær koma úr ofninum. Það er gert með því að blanda 1 dl sykri og 1 dl vatni í pott og hita á hellu þar til sykurinn hefur leyst upp.
  13. Takið lengjurnar út og penslið yfir þær. Leyfið þeim að kólna áður en þær eru skornar.
Fyllingin
  1. Þeytið saman smjörlíki, sykri, kanil og hlynsírópi.
  2. Skerið pekanhneturnar niður
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Gulrótarbollakökur með rjómaostakremi

Þessar vegan gulrótabollakökur eru þær bestu, einföldustu og mjúkustu gulrótarbollakökur í heimi. Já, þið heyrðuð það hér. Kökurnar eru bókstaflega ómótstæðilegar og silkimjúkt rjómaostakremið ofan á er svo gott að ég gæti borðað það með skeið. Ertu að halda partý, veislu, matarboð eða einfaldlega í stuði til að baka? Þá eru þessar kökur fullkomnar fyrir þig!

Gulrótarbollakökur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og mínum nánustu. Kökurnar slá undantekningalaust í gegn hvenær sem ég ber þær fram og það hefur orðið hefð hjá mér síðustu ár að baka þær við allskyns tilefni. Bæði eru þær vinsælar hjá öllum sem smakka þær og á sama tíma er virkilega einfalt að búa þær til. Það gerir þær fullkomnar að baka fyrir afmæli, veislur og aðrar samkomur. Eins er þægilegt að bera þær fram þar sem óþarfi er að nota diska og hnífapör við að borða þær.

Þessi færsla var upprunalega skrifuð árið 2017 en ég sá þessar fallegu gulrætur úti í búð um daginn og ákvað að mynda bollakökurnar upp á nýtt. Uppskriftin er þó sú sama þrátt fyrir nýtt og ferkst útlit.

Eins og ég sagði hér að ofan er einstaklega auðvelt að baka þessar gulrótabollakökur. Hráefnunum er hrært saman í skál með písk á einungis nokkrum mínútum.

  1. Þurrefnum blandað saman í skál

  2. Blautu hráefnunum blandað saman við

  3. Gulræturnar rifnar og þeim blandað saman við

  4. Deiginu skipt í möffinsform og bakaðar

Einfaldara gerist það ekki!

Spurningar og svör

  • Er hægt að gera gulrótaköku úr deiginu í staðinn fyrir bollakökur?
    Já, það er ekkert mál. Hægt er að deila deiginu í tvö 24 cm form og gera þannig tveggja hæða köku

  • Er nauðsynlegt að nota eplaedik?
    Eins og þið hafið líklega tekið eftir notum við eplaedik í nánast allar okkar kökuuppskriftir. Við mælum virkilega með því að hafa það í deiginu þar sem edikið vinnur með matarsódanum að því að gera kökuna mjúka og létta.

  • Er hægt að frysta kökurnar?
    Já, það er ekkert mál. Ef þið ætlið að baka kökurnar fyrir fram og bera þær fram seinna mæli ég þó með því að baka þær fyrir og þá frysta þær ef þið kjósið og svo setja kremið á þegar á að bera þær fram.

  • Er hægt að gera kökurnar glúteinlausar?
    Við höfum sjálfar ekki prufað að gera þessar kökur glúteinlausar og þar sem glúteinlaust hveiti virkar oft öðruvísi en venjulegt getum við ekki lofað sömu úkomu.

Ég baka kökurnar í muffins bökunarformi sem ég set pappírsformin ofan í. Það gerir það að verkum að kökurnar halda forminu vel og auðvelt er að sjá til þess að þær verði jafn háar. Ég mæli mikið með því að nota svona form, það er virkilega þægilegt. ég notaði ísskeið til að setja deigið í formið og fyllti það sirka 3/4 til að vera viss um að þær verði ekki of háar.

Rjómaostakremið er klárlega punturinn yfir i-ið. Vegan rjómaosti, smjörlíki, vanilludropum og flórsykri er þeytt saman í skál þar til úr verður silkimjúkt og gott krem sem er fullkomið ofan á gulrótarkökurnar.

Vegan gulrótarbollakökur með rjómaostakremi

Vegan gulrótarbollakökur með rjómaostakremi
Höfundur: Helga María
Þessar vegan gulrótabollakökur eru þær bestu, einföldustu og mjúkustu gulrótarbollakökur í heimi. Já, þið heyrðuð það hér. Kökurnar eru bókstaflega ómótstæðilegar og silkimjúkt rjómaostakremið ofan á er svo gott að ég gæti borðað það með skeið.

Hráefni:

Gulrótarkaka
  • 6 dl hveiti (athugið að þegar ég mæli hveiti þá moka ég hveitinu úr pokanum með skeið og færi yfir í dl málið. Með því passa ég að pressa ekki of miklu hveiti ofan í málið)
  • 2 1/2 dl sykur
  • 3 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 tsk matarsódi
  • 1 msk kanill
  • 1/2 tsk salt
  • 4 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 dl olía
  • 1 msk eplaedik
  • 5 dl rifnar gulrætur
Rjómaostakrem aðferð:
  • 1 dolla Sheese rjómaostur, hreinn (ca 200gr)
  • 100 gr Krónusmjörlíki
  • 2-3 tsk vanilludropar
  • 1 pakki flórsykur (500gr)
  • Valhnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál.
  2. Hrærið haframjólkinni, vanillunni, olíunni og edikinu saman við þar til alveg kekklaust.
  3. Rífið gulræturnar og blandið þeim vel saman við.
  4. Setjið deigið í bollakökuform eða tvo kringlótt form og bakið í 20-25 mínútur í 180°C heitum ofni.
  5. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en að kremið er sett á.
Rjómaostakrem
  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn aðeins einan og sér í hrærivél.
  2. Bætið þar næst smjörlíkinu og vanilludropunum útí og þeytið aðeins saman við.
  3. Setjið síðast flórsykurinn og þeytið kremið þar til fallega slétt og fínt.
  4. Smyrjið eða sprautið kreminu á bollakökurnar eða botnana og njótið.
  5. Við stráðum aðeins af valhnetum yfir kökurnar og fannst það koma alveg æðislega út.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að ofnbökuðu nachosi með vegan hakki, ostasósu og salsasósu. Sannkallað súpernachos. Skemmtilegur, fljótlegur og einfaldur réttur sem gaman er að deila með vinum eða fjölskyldu og passar vel sem til dæmis forréttur, snarl eða kvöldmatur.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og í nachosið notaði ég hakkið frá þeim sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og virkilega mikið notað á mínu heimili. Við systur elskum vörurnar frá Anamma og erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Ég kryddaði hakkið með blöndu af gómsætum mexíkóskum kryddum. Ég notaði tómatpúrru, hvítlauk, kúmín, túrmerík, reykta papríku, oregano. laukduft og chiliduft. Ég bætti svo örlítilli sojasósu við til að gefa réttinum örlítið extra “umame” og að lokum safa úr hálfu lime. Það má að sjálfsögðu nota tilbúna taco kryddblöndu sem fæst í öllum verslunum. Ég gríp oft í svoleiðis krydd sjálf og finnst það mjög gott.

Vegan-nachos-med-anamma-hakki-vegan-osti-vegan-ostasosu

Ég setti nachosflögurnar í eldfast mót og toppaði með hakkinu, heimatilbúinni ostasósu, salsasósu og rifnum vegan osti áður en það fór inn í ofn. Uppskrift af ostasósunni finnurðu HÉR.

Ég bakaði nachosið þar til osturinn bráðnaði og rétturinn hafði fengið á sig örlítið gylltan lit. Það tók ekki langan tíma, um það bil 10 mínútur.

Ég skellti í einfalt guacamole til að toppa réttinn með. Ég nota yfirleitt ferskt avókadó en ég hafði nýlega keypt tvo pakka af frystu avókadó á afslætti og ákvað að prófa að nota það í guacamole og mér fannst það koma mjög vel út.

Ég toppaði nachosið með guacamole, vorlauk, fersku kóríander, vegan sýrðum rjóma og fullt af kreistum limesafa. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott. Ég mæli með t.d. svörtum baunum, maísbaunum, fersku eða niðursoðnu jalapeno, ferskum tómötum, sýrðum rauðlauk.. listinn gæti haldið endalaust áfram.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin. Taggið okkur endilega á Instagram ef þið prófið uppskriftirnar okkar, það gerir okkur svo ótrúlega glaðar.

-Helga María

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María
Einstaklega gott ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu.

Hráefni:

  • 1 poki tortillaflögur
  • 1 poki Anamma hakk (320 g)
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk reykt papríka (má nota venjulegt paprikukrydd ef ykkur líkar ekki reykta bragðið)
  • 1 tsk kúmín
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 dl vatn
  • 2 tsk sojasósa
  • salt og pipar eftir smekk
  • safi úr 1/2 lime
  • 1 krukka salsasósa
  • heimagerð ostasósa eftir smekk (ég notaði sirka helminginn af sósunni á nachosið og notaði svo afganginn á tacos nokkrum dögum seinna. Uppskriftin er hér að neðan).
  • Rifinn vegan ostur eftir smekk
  • Ég toppaði nachosið með: guacamole, fersku kóríander, vorlauk, vegan sýrðum rjóma og limesafa. Hugmyndir af fleira góðgæti að toppa með eru t.d. svartar baunir, maísbaunir, jalapeno, tómatar og sýrður rauðlaukur. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn við 200°c.
  2. Steikið hakkið á pönnu uppúr olíu þar til það mýkist örlítið.
  3. Bætið pressuðum hvítlauk út á og steikið í 2 mínútur í viðbót.
  4. Bætið kryddunum, sojasósunni og vatninu út á og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  5. Kreistið limesafa út á og takið pönnuna af hellunni.
  6. Setjið tortillaflögur í eldfast mót.
  7. Toppið með hakkinu, ostasósu, salsasósu og rifnum osti.
  8. Bakið í ofninum í sirka 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nachosið fengið á sig örlítið gylltan lit.
  9. Takið út og toppið með því sem ykkur lystir.
Guacamole
  1. 2-3 avókadó
  2. 1/2 laukur
  3. 2 hvítlauksgeirar
  4. 1/2 tómatur
  5. 2 msk ferskt kóríander
  6. safi úr 1/2 lime
  7. örlítið af chiliflögum
  8. Salt og pipar eftir smekk
  1. Stappið avókadó gróflega.
  2. Saxið niður lauk og tómat og pressið hvítlauk.
  3. Bætið saman við avókadóið og pressið limesafa út í.
  4. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Einföld vegan ostasósa

Ég deili með ykkur uppskrift af minni uppáhalds vegan ostasósu. Grunnurinn er úr kasjúhnetum og auk þeirra inniheldur sósan hvítlauk, jalapeno, krydd, eplaedik og næringarger. Ostasósan er fullkomin með mexíkóskum mat, svo sem nachos, taco og burrito. Ég elska að bera hana fram með tortillaflögum og salsasósu eða hella henni yfir nachos og baka inni í ofni.

Eins og ég sagði að ofan er þessi ostasósa virkilega góð með mexíkóskum mat. Ef ég myndi gera sósuna til að nota með mat sem ekki er mexíkóskur myndi ég kannski sleppa því að nota jalapeno þar sem það gefur sósunni svolítið þetta “nacho cheese” bragð. Ég hef þó gert sósuna akkúrat eins og hún er hér í ofnbakaðan pastarétt og það var virkilega gott.

Það gæti ekki verið einfaldara að útbúa þessa sósu. öllu er blandað saman í blandara eða matvinnsluvél og útkoman er dásamlega góð silkimjúk sósa sem minnir á ostasósuna sem kemur með nachos í bíó. Ég man að ég elskaði svoleiðis sósu þegar ég var yngri og elska að geta skellt í svipaða sósu heima úr gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Ég vona að ykkur líki ostasósan vel. Endilega deilið með mér hvernig ykkur þykir best að bera sósuna fram. Mér finnst best að borða hana sem ídýfu með tortillaflögum, ofan á ofnbakað nachos eins og þetta HÉR, í tacos eða burrito.

-Helga María

Vegan ostasósa

Vegan ostasósa
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • 3 dl kasjúhnetur (lagðar í bleyti annaðhvort yfir nótt eða í heitu vatni í einn klukkutíma. Fer eftir því hversu öflugan blandara eða matvinnsluvél þið notið)
  • 2 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk (helst ósæt samt)
  • 4 sneiðar jalapeno í krukku
  • 1/2 dl safi úr jalapenokrukkunni
  • 1/2 dl næringarger
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk laukduft
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1/2 tsk túrmerík
  • 2 tsk eplaedik
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Leggið kasjúnhnetur í bleyti. Ég á mjög öflugan blandara svo ég setti þær í bleyti í sjóðandi heitu vatni í klukkutíma. Ef ykkar blandari/matvinnsluvél er kraftminni mæli ég með að hafa þær í bleyti í vatni yfir nótt.
  2. Hellið vatninu af kasjúhnetunum og setjið hneturnar ásamt restinni af hráefnunum í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til úr kemur mjúk sósa. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur