Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum
/Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rocky road súkkulaði með pistasíuhnetum, heslihnetum, apríkósum og trönuberjum. Súkkulaðið er svo toppað með appelsínuberki og grófu salti og er FULLKOMIÐ fyrir hátíðleg tilefni eins og til dæmis jólin. Þetta nammi tekur sem enga stund að útbúa og er meðal annars tilvalið sem jólagjöf fyrir þá sem vilja gefa góðgæti í jólapakkann.
Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og í þetta sinn notaði ég pistasísukjarna, trönuber, apríkósur og heslihnetur. Til hamingju selur allskonar hnetur, fræ og þurrkaða ávexti og það skemmtilega við þetta rocky road súkkulaði er að það er hægt að gera það algjörlega eftir sínu höfði. Döðlur, valhnetur, möndlur og ristuð graskersfræ myndu t.d. passa ótrúlega vel.
Ég byrjaði á því að rista hneturnar í nokkrar mínútur því ég vildi hafa þær svolítið stökkar. Það má algjörlega sleppa þessu skrefi, ég hef oft gert þetta án þess að rista hneturnar, en mér finnst mjög gott að gera það.
Ég bræddi súkkulaðið með kókosolíu og hlynsírópi á meðallágum hita og skar hneturnar gróft og klippti apríkósurnar út í og blandaði vel saman.
Ég klæddi lítið form með bökunarpappír og setti blönduna ofan í. Það má nota disk, skál, brauðform, fat eða hvað sem er fyrir súkkulaðið. Ég toppaði með aðeins meira af hnetum, grófu salti og rifnum appelsínuberki og leyfði þessu að kólna.
Þetta sælgæti er alveg guðdómlega gott. Hefðbundið rocky road er gert með því að bræða súkkulaði og blanda því saman við sykurpúða, allskonar nammi og oft kexkökur. Það er bókstaflega sykurbomba og mig langaði að gera eitthvað sem hefði sama “kröns” og á sama tíma eitthvað mjúkt sem kæmi í staðinn fyrir sykurpúðana og apríkósurnar gera það algjörlega. Þær eru svo mjúkar og sætar. Sama má segja um trönuberin. Fullkomið á móti stökku hnetunum. Við erum þó að sjálfsögðu með uppskrift að rocky road súkkulaði hérna á blogginu sem er stútfullt af öllu uppáhalds namminu okkar. Uppskriftin er þó nokkurra ára gömul svo það getur verið að þurfi að skipta einhverjum hráefnum út sem ekki fást lengur.
Súkkulaðið líka extra mjúkt og rjómakennt þar sem ég bræddi það með kókosolíu og hlynsírópi. Það minnir örlítið á trufflur og er alveg dásamlegt.
Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel!
-Helga María
Vegan rocky road með pistasíuhnetum og trönuberjum
Hráefni:
- 200 gr gott suðusúkkulaði eða dökkt súkkulaði
- 30 gr kókosolía
- 20 gr hlynsíróp
- 70 gr pistasíukjarnar frá Til hamingju
- 70 gr heslihnetur frá Til hamingju
- 50 gr þurrkuð trönuber frá Til hamingju
- 50 gr þurrkaðar apríkósur frá Til hamingju
- Gróft salt að toppa með
- Rifinn appelsínubörkur að toppa með (má sleppa)
Aðferð:
- Klæðið form, disk, fat eða skál með bökunarpappír og leggið til hliðar til að nota fyrir súkkulaðið.
- Hitið ofninn í 150°c og ristið pistasíukjarnana og heslihneturnar í sirka 5-10 mínútur eða þar til þær eru orðnar stökkar. Passið að brenna þær ekki. (ég tek frá smávegis af hnetunum þegar ég er búin að rista þær sem fara ekki ofan í blönduna heldur toppa ég með þeim í lokinn)
- Bræðið súkkulaðið í potti með kókosolíu og hlynsírópi og meðallágum hita. Standið við pottinn og hrærið og passið að súkkulaðið brenni ekki.
- Skerið hneturnar niður gróft og bætið út í pottinn (takið frá nokkrar til að toppa með) ásamt trönuberjunum og apríkósunum. Mér finnst best að klippa niður apríkósurnar beint í pottinn. Hrærið vel saman.
- Hellið ofan í formið sem þið klædduð með bökunarpappír og toppið með restinni af hnetunum, grófu salti og rifnum appelsínuberki. Leyfið að kólna í kæli eða frysti alveg áður en þið skerið það niður.
- Skerið í bita og njótið með öllum sem ykkur þykir vænt um.