Vegan súkkulaðimús með appelsínukeim

Í dag deilum við með ykkur dásamlega mjúkri og loftkenndri súkkulaðimús úr Síríus suðusúkkulaði, appelsínum og möndlum. Þessi súkkulaðimús er fullkomin eftirréttur fyrir hvaða tilefni sem er, hvort sem það er um hátíðir líkt og jól eða páska, veislur eða hversdagslegri tilefni.

Færslan og uppskriftin eru í samstarfi við Nóa Síríus, en í uppskriftina notum við gamla góða suðusúkkulaðið sem er alltaf nauðsynlegt að eiga til á hverju heimili að okkar mati. Suðusúkkulaðið frá Nóa hefur alltaf verið vegan og hentar því í hvaða vegan matargerð sem er, hvort sem það er bakstur, eftirrétti eða heitt súkkulaði til dæmis.

Páskadagur eru á morgun og fannst okkur því nauðsynlegt að deila með ykkur góðum eftirrétti sem væri fullkomin fyrir páskadag og því kom ekki annað til greina en að gera eftirrétt með súkkulaði. Við vildum að uppskriftin væri einföld og tæki ekki langan tíma þar sem það er nauðsynlegt að slaka á og gera sem minnst á páskadag að okkar mati. Músin inniheldur því fá hráefni sem einungis þarf að þeyta saman og bera fram.

Við ákváðum að hafa appelsínur og möndlur með í músinni til að gera hana ennþá betri á bragðið en okkur finnst appelsínur passa fullkomlega með súkkulaði. Það kemur ekkert smá vel út og gerir músina ferskari og skemmtilegri á bragðið. Það er þó alveg hægt að sleppa því og gera músina ennþá einfaldari. Hún bragðast alveg ótrúlega vel á báða máta.

Við vonum að ykkur líki uppskriftin vel og eins og alltaf megið þið endilega tagga okkur á Instagram ef þið eruð að gera uppskriftir frá okkur þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að fylgjast með.

Gleðilega páska!

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Dásamleg mjúk og loftkennd súkkulaðimús með appelsínukeim sem hentar fullkomlega sem eftirréttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni:

  • 1 ferna vegan þeytirjómi (250 ml)
  • 150 gr Síríus suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
  • Safi úr 1/2 appelsínu
  • Börkur af 1/2 appelsínu
  • 1 dl sykur
  • 1/2 dl hakkaðar möndlur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða með því að setja það í örbylgjuofn í 20 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.
  2. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til stífþeyttur.
  3. Þeytið áfram á meðalhraða og bætið appelsínusafanum, berkinum og sykri út í á meðan.
  4. Hellið súkkulaðinu út í rjóman í mjórri bunu á meðan þið þeytið áfram á meðalhraða. Skafið meðfram hliðum og þeytið þar til allt er komið saman.
  5. Bætið hökkuðum möndlum út í og blandið þeim saman við músina með sleikju.
  6. Fínt er að leyfa músinni að sitja í ísskáp í allavega klukkutíma áður en hún er borin fram en þess þarf þó ekki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Gómsætt vegan ostasalat

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðu vegan ostasalati með majónesi, vínberjum, vorlauk og papríku. Salatið er tilvalið að hafa ofan á gott brauð eða kex og passar fullkomlega að bjóða upp á í veislu, matarboði eða til dæmis saumaklúbbnum.

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og í ostasalatið notuðum við Epic festive platter hátíðarplattann frá þeim. Í plattanum eru þrjár tegundir af gómsætum ostum, mature, smoked og garlic chili. Einstaklega góðir ostar sem eru æðislegir í ostasalatið.

Páskarnir eru um helgina og þeim fylgja yfirleitt matarboð eða aðrir hittingar. Við vildum gera uppskrift af salati sem er geggjað að bjóðan uppá á svoleiðis hittingum og kemur öllum á óvart, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Við getum lofað ykkur að ef þið bjóðið upp á þetta salat verður það klárað á núll einni.

Ég elska að skella í svona einföld salöt og bjóða uppá því það þarf virkilega ekki að gera neitt annað en að skera niður og blanda öllu saman í skál. Við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir af góðum majónessalötum á blogginu sem við mælum með, eins og t.d. þetta kjúklingabaunasalat og vegan karrí “kjúklingasalat”. Hægt er að gera mismunandi salöt í skálar og bera fram með góðu brauði og kexi.

Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel! <3

-Veganistur

Geggjað vegan ostasalat

Geggjað vegan ostasalat
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 MinHeildartími: 10 Min
Æðislega gott vegan ostasalat sem er fullkomið í veisluna, matarboðið eða saumaklúbbinn

Hráefni:

  • 1 kubbur chilli og hvítlauksostur úr ostabakkanum frá Violife
  • 1/2 kubbur epic mature ostur úr ostabakkanum frá Violife
  • 1/2 kubbur epic smoked ostur úr ostabakkanum frá Violife
  • 1/4 rauð papríka
  • 1/4 gul papríka
  • 1 vorlaukur
  • 1/2 dl niðurskorin vínber
  • 3/4 dl vegan majónes
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Skerið ostana í litla kubba.
  2. Saxið niður grænmetið í þá stærð sem þið kjósið.
  3. Hrærið öllu saman í skál.
  4. Berið fram með því sem ykkur þykir gott.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er í samsarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Hátíðlegt grasker með fyllingu og brún sósa

Í dag deili ég með ykkur ótrúlega góðu fylltu butternut graskeri með hátíðlegri linsubaunafyllingu sem inniheldur auk linsubauna, villt hrísgrjón, ferskt tímían, grænmeti, trönuber og valhnetur. Þessi réttur er ótrúlega hátíðlegur og passar því fullkomlega fyrir páskana. Hann má bera fram með helsta hátíðarmeðlæti en uppskrift af brúnni sósu sem hentar fullkomlega með má finna hér.

Í gegnum tíðina höfum við systur reynt að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum sem henta við öll tækifæri. Frá því við urðum vegan höfum við gert sérstaklega mikið upp úr því geta eldað ljúffenga rétti fyrir hátíðir og veislur. Þessi réttur er einn af þeim sem hentar einstaklega vel um hátíðir en í þetta skiptið deilum við með ykkur rétti sem inniheldur einungis grænmeti.

Okkur fannst löngu komin tími á að útbúa uppskrift af góðum grænmetisrétti sem getur virkað við hátíðlegri tilefni en við vissum strax að við vildum hafa ákveðna hluti í huga við þróun réttarins:

1. Ég vildi að innihaldsefnin væru ekki of mörg og alls ekki flókin.

2. Ég vildi að rétturinn myndi passa með öllu hefðbundnu meðlæti sem flestir bera fram með hátíðarmat.

3. Ég vildi að rétturinn gæfi ekki eftir hvað varðar bragð.

Ég elska að gera fóða fyllingu og setja í grænmeti og geri til dæmis oft fylltar papríkur eða kúrbít. Ég hafði hins vegar aldrei prófað að gera fyllt butternut grasker eða það er eitt af uppáhalds grænmetinu mínu. Mér fannst þá mikilvægast að fyllingin væri sérstaklega góð þar sem það er mjög milt bragð af butternut graskeri. Ég ákvað strax að grunnurinn af fyllingunni yrðu hrísgrjón og linsubanir þar sem þau hráefni draga mjög vel í sig bragð af kryddum. Þá valdi ég bragðmikið grænmeti svo sem lauk, sveppi og sellerí og til að gera þetta hátíðlegt bætti ég við trönuberjum og valhnetum.

Ég ákvað að ég vildi eiinig hafa uppskrift af góðri sósu með og fór því í að gera uppskrift af skotheldri brúnni sósu frá grunni. Það er hægt að fá vegan pakkasósu í Krónunni en mig langaði að gera mína eigin uppskrift af heimagerðri sósu og náði ég að gera ótrúlega einfalda sósu sem er einungis úr hráefnum sem eru til í flestum eldhúsum.

Gleðilega páska og vonandi njótið þið vel.

-Júlía Sif

Hátíðlegt grasker með fyllingu

Hátíðlegt grasker með fyllingu
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 30 MinEldunartími: 60 Min: 1 H & 30 M

Hráefni:

  • Meðalstórt butternut grasker
  • 1 bolli soðin villt hrísgrjón frá gestus
  • 1 bolli soðnar brúnar linsur (gott að sjóða upp úr sveppakrafti)
  • 1 stilkur sellerí
  • 6 litlir sveppir
  • 2 litlir skallotlaukar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2-3 greinar ferskt timían
  • salt og pipar
  • 1 dl valhnetur
  • 1/2 dl trönuber
  • 1 dl brauðrasp
  • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 200°C og notist við blástur (180°C með undir- og yfirhita)
  2. Byrjið á því að sjóða hrísgrjón og linsubaunirnar.
  3. Skerið endana af graskerinu sitthvoru meginn og graskerið síðan í tvennt. Skerið innan úr því svo það sé hollt að innan en hafið frekar þykkan kannt allan hringin. (Sjá myndir að ofan)
  4. Saxið niður skallotlauk, hvítlauk, sellerí og sveppi og steikið á pönnu í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist vel.
  5. Bætið út í smátt söxuðum trönuberjum, timíani og valhnetum ásamt hrísgrjónum, linsubaunum og steikið áfram í 4-5 mínútur á meðalhita.
  6. Bætið brauðraspi og vatni út í og hrærið vel saman.
  7. Fyllið báða helmingja af graskerinu mjög vel og pressið vel niður. Lokið graskerinu og bindið það saman með vel blautu snæri eða pakkið því inn í álpappír svo það haldist vel saman
  8. Bakið í miðjum ofni í 60 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar -

 
 

Vegan brún sósa

Brún sósa er eitthvað sem er algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera að okkar mati. Þessi uppskrift er ótrúlega einföld, fljótleg og klikkar aldrei. Innihaldsefnin eru fá og tekur innan við 10 mínútur að útbúa sósuna alveg frá grunni. Sósan hentar fullkomlega með vegan kjötbollum, grænmetisbollum og hrísgrjónaréttum til dæmis eða nánast hverju sem er.

Þessi uppskrift er ein af svona grunn uppskriftunum sem ég gríp til nánast í hverri viku. Það er svo ótrúlega auðvelt að gera einfaldan, fljótlegan kvöldmat, eins og vegan kjötbollur til dæmis, að máltíð með þessari góðu sósu. Þetta er líka uppskrift sem ég á alltaf allt til í og er erfitt að trúa því hversu góð hún er miðað við hversu einfalt og fljótlegt það er að matreiða hana.

Vegan brún sósa

Vegan brún sósa
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )

Hráefni:

  • 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • 1/4 dl næringarger
  • 1/4 dl hveiti
  • 1 msk soyjasósa
  • 1 tsk laukduft
  • 2-3 dropar sósulitur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hrista saman vatnið og hveiti í hristibrúsa eða krukku.
  2. Hellið hveitiblöndunni í pott og bætið öllu nema sósulitnum út í.
  3. Hitið að suðu og hrærið vel í á meðan. Sjóðið í 4-5 mínútur.
  4. Bætið sósulitnum út í, einum dropa í einu þar til sá litur sem þið kjósið kemur fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri

saetkartoflusupa-tilbuin-og-pottur

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að sætkartöflusúpu með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri. Einstaklega braðgóð súpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Sækartöflusúpa hráefni ofan frá. Sætar kartöflur, gulrætur, kókosmjólk, hnetusmjör

Þegar ég varð fyrst vegan var sætkartöflusúpa einn af þeim fáu réttum sem ég kunni að elda. Sú súpa smakkaðist þó ekkert í líkingu við súpuna sem ég deili með ykkur í dag. Það vill svo skemmtilega til að uppskriftin að gömlu súpunni er ennþá hérna inni á blogginu og eina ástæðan fyrir því er sú að fólk virðist elda hana oft. Hún er með vinsælli uppskriftum á blogginu okkar enn í dag. Á þessum árum borðaði ég svo mikið af sætkartöflusúpu að ég hef ekki fengið mig til að snerta hana síðastliðin ár.

Sætkartöflusúpa sætar kartöflur og gulrætur skornar í bita

Ég ákvað þó fyrir stuttu að prófa að gera hana aftur en leggja mitt að mörkum til að gera hana virkilega gómsæta. Ég hef lært mikið um matargerð síðan ég gerði gömlu súpuna fyrir mörgum árum svo ég vissi að ég gæti gert mun betur. Það sem ég vissi var að:

  1. Ég vildi að súpan hefði djúpt og gott bragð en væri ekki bara dísæt súpa með kókosbragði.

  2. Ég vildi hafa hana svolitið þykka og matarmikla svo ég yrði vel södd.

  3. Ég vildi hafa hnetusmjör í henni.

Útkoman var þessi dásamlega góða súpa sem ég get stolt mælt með að þið prófið að gera!

Það er ekki oft sem ég vel að mauka súpurnar mínar. Mér finnst yfirleitt að hafa bita í þeim. Ég fæ t.d. áfall þegar fólk maukar sveppasúpu. En sætkartöflusúpa er ein af þeim fáu súpum sem ég mauka alltaf. Ég vil þó alls ekki hafa hana þunna svo þessi súpa er í þykkari kantinum. Mér finnst mikilvægt að finna að súpan er matarmikil og mettandi.

Sætkartöflusúpa í potti með trésleif ofan í

Eins og ég sagði hér að ofan er auðvelt og fljótlegt að útbúa þessa sætkartöflusúpu. Það gerir hana að mjög hentugum hversdags kvöldmat. Mér finnst hún samt passa mjög vel sem matur um helgar eða jafnvel í matarboðum því hún er svo ljúffeng. Ég myndi mæla með að bera hana fram með þessu hérna fljótlegu heimagerðu pönnubrauði.

Sætkartöflusúpa tilbúin og toppuð með kóríander og jarðhnetum. Hönd heldur á skeið í súpunni

Ég toppaði súpuna með fersku kóriander og ristuðum jarðhnetum. Ég get ímyndað mér að það sé gott að bæta við vegan jógúrt ofan á líka en ég átti hana ekki til.

Sætkartöflusúpa nærmynd af tilbúinni súpu í skál með kóríander og jarðhnetum

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María! <3

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri
Höfundur: Helga María
Einstaklega braðgóð sætkartöflusúpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Hráefni:

  • 2 meðalstórar sætar kartöflur (sirka 600-650 gr)
  • 2 meðalstórar gulrætur (sirka 300 gr)
  • 1 laukur
  • 1 rauður chilipipar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 msk rifið engifer
  • 4 tsk rautt karrýmauk
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dós þykk kókosmjólk (400ml)
  • 1-2 msk sojasósa
  • safi úr 1 lime
  • 1/2 dl hnetusmjör (ég notaði gróft en það má auðvitað nota fínt líka)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt kóríander og salthnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Saxið lauk og steikið uppúr olíu í potti á meðalháum hita þar til hann mýkist
  2. Pressið hvítlauk, rífið engifer, saxið chili og bætið út í pottinn og steikið í smá stund í viðbót. Saltið örlítið.
  3. Bætið karrýmaukinu út í og steikið í sirka 1-2 mínútur á meðan þið hrærið.
  4. Afhýðið sætu kartöflurnar og gulræturnar og bætið út í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, grænmetiskrafti og sojasósu. Látið malla í 15-20 mínútur þar til auðvelt er að stinga í gegnum sætu kartöflurnar og gulræturnar.
  5. Bætið hnetusmjöri og limesafa út í pottinn og mixið súpuna með töfrasprota.
  6. Smakkið til og bætið við salti, pipar eða limesafa ef þarf.
  7. Berið fram með t.d. góðu brauði og toppið með kóríander og fræjum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið veganistur

Samloka með vegan kjötbollum, steiktum lauk og ostasósu

Uppskrift dagsins er að þessari dásamlega góðu samloku með vegan kjötbollum, grænu pestói, steiktum lauk og ostasósu. Já, mér er alvara. Þetta er ein D-J-Ú-S-í samloka skal ég segja ykkur! Mjúkt og gott baguette fyllt með allskonar gúmmelaði. Akkúrat eins og ég vil hafa mínar samlokur!

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði vegan kjötbollurnar þeirra í samlokuna. Ég á alltaf til poka af Anamma kjötbollum í frystinum því það er svo þægilegt að skella þeim á pönnu og bera fram með pasta eða kartöflum og góðri sósu. Í dag langaði mig að gera eitthvað nýtt með bollunum sem ég hef aldrei prufað áður og mig dreymdi um daginn að ég gerði gómsæta samloku með þessum bollum svo ég ákvað að slá til!

Ég byrjaði á því að steikja lauk á pönnu þangað til hann fékk fallegan lit. Lyktin í eldhúsinu þegar maður steikir lauk er dásemd. Ég steikti bollurnar svo á sömu pönnu án þess að þrífa hana á milli. Með því fá bollurnar extra gott bragð og ég þarf ekki að vaska jafn mikið upp. FULLKOMIÐ!

Ég gerði pastasósu og notaði í hana hvítlauk, heila tómata í dós, ítölsk krydd, sojasósu og balsamikedik. Sósa er best þegar hún fær að malla svolítið. Liturinn dekkist og sósan þykknar og brögðin fá að njóta sín betur. Ég leyfði svo bollunum að malla í nokkrar mínútur í sósunni.

Ostasósan sem ég gerði er sósan sem ég notaði í mac & cheese bitana sem ég birti hérna á blogginu í haust. Uppskriftin af þeim finnið þið HÉR! Það er alls ekki nauðsynlegt að útbúa þessa sósu, það má að sjálfsögðu bara strá yfir vegan osti og láta bráðna í ofninum. Ég var í svo miklu stuði í dag svo ég ákvað að prófa að gera sósuna með og mér fannst það koma virkilega vel út.

Ég byrjaði á því að rífa aðeins úr efri hluta brauðsins svo að bollurnar fengju pláss þegar samlokunni er lokað. Ég setti brauðið inní ofn á 200°c í nokkrar mínútur, bara svo það fengi að hitna. Svo smurði ég neðri hlutann með grænu pestói og setti svo Anamma bollur yfir og pastasósu. Því næst hellti ég yfir ostasósu og svo steiktum lauk. Ég lokaði samlokunni svo og setti hana í nokkrar mínútur í ofninn á grill þangað til samlokan varð svolítið krispí að ofan. SVO GOTT!

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki vel!

-Helga María

Samloka með vegan kjötbollum, ostasósu og steiktum lauk

Samloka með vegan kjötbollum, ostasósu og steiktum lauk
Fyrir: 3
Höfundur: Helga María
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 30 MinHeildartími: 40 Min
Fáránlega djúsí og góð samloka með vegan kjötbollum, pastasósu, grænu pestói, ostasósu og steiktum lauk. Alvöru samloka sem gleður bæði líkama og sál!

Hráefni:

  • 3 meðalstór baguette, chiabatta eða annað svipað brauð
  • Ólífuolía að steikja upp úr
  • Smjörlíki að steikja uppúr (má sleppa og nota bara olíu)
  • 1 poki (325 gr) vegan kjötbollur frá Anamma
  • 3 meðalstórir laukar
  • Vegan grænt pestó eftir smekk
  • 1 dós heilir tómatar
  • 5 hvítlauksgeirar
  • 1 tsk þurrkuð basilika
  • 1 tsk þurrkað oregani
  • 1/2 tsk þurrkað majoram
  • 1/2 tsk möluð fennelfræ (má sleppa en mér finnst þau gefa mjög gott bragð)
  • 1/2 tsk balsamikedik
  • 1 tsk sojasósa
  • Smávegis af chiliflögum (má sleppa)
  • salt og pipar eftir smekk
  • Ostasósa (uppskrift linkuð með djúpsteiktu mac and cheese bitunum hér fyrir neðan)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera laukana í þunna strimla. Ég sker þá í tvennt og sker svo þunna strimla úr hverjum helming.
  2. Hitið ólífuolíu og örlítið af smjörlíki á pönnu.
  3. Steikið laukana á pönnunni þar til þeir hafa mýkst og fengið á sig fallegan lit. Ég leyfi þeim að verða svolítið brúnir. Saltið og piprið örlítið.
  4. Takið laukinn af pönnunni og leggið til hliðar. Þvoið pönnuna ekki heldur bætið við aðeins meira af olíu og smjörlíki og steikið Anamma bollurnar þar til þær hafa fengið smá lit. Þær eiga ekki að steikjast of mikið því þær fá svo að malla í sósunni líka.
  5. Pressið hvítlauksgeiranna og steikið á pönnu eða í potti upp úr olíu og smjörlíki þar til þeir hafa mýkst.
  6. Maukið tómatana með höndunum og bætið út á pönnuna. Setjið örlítið af vatni í dósina til að fá restina af tómatsafanum og hellið út á pönnuna.
  7. Bætið við kryddunum, balsamikediki, sojasósu, salti og pipar og leyfið sósunni að malla þar til hún dekkist og þykkist svolítið.
  8. Bætið bollunum út í sósuna og leyfið að malla á meðan þið gerið ostasósuna.
  9. Hitið ofninn í 200°c.
  10. Rífið örlítið úr efri hluta brauðsins svo bollurnar passi vel inní samlokuna þegar henni er lokað.
  11. Hitið brauðið í ofninum í örfáar mínútur bara svo það fái að hitna svolítið.
  12. Smyrjið grænu pestói á neðri hluta brauðsins, bætið svo bollum ofan á og pastasósu, hellið svo svolítið af ostasósu yfir (eða vegan osti ef þið nennið ekki að útbúa sósuna) og að lokum steikta lauknum. Ég reif svolítið af vegan parmesan sem ég átti í ísskápnum yfir líka. Lokið svo samlokunni og setjið hana aftur í ofninn þangað til hún verður krispí. Ég setti á grill og hafði mína í sirka 5 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið veganistur

-Þessi færsla er í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Gómsætt vegan hvítlauksbrauð með bökuðum hvítlauk og jurtum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að virkilega góðu ofnbökuðu hvítlauksbrauði með vegan smjöri, parmesanosti, bökuðum hvítlauk og ferskum jurtum. Einfalt og bragðgott sem meðlæti eða snarl. Hvítlauksbrauðið passar fullkomlega með góðu pasta eða súpu og mun slá í gegn í matarboðinu.

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og ég notaði nýja smjörið og prosociano ostinn frá þeim í hvítlauksbrauðið. Við erum alltaf jafn spenntar fyrir því að vinna með Violife því vörurnar þeirra eru í miklu uppáhaldi hjá okkur!

Í hvítlauksbrauðinu er bakaður hvítlaukur. Allir sem fylgjast með TikTok og Instagram reels hafa líklega séð ótal myndbönd þar sem fólk bakar hvítlauk í ofni, pressar geirana út með fingrunum og notar í allskonar rétti. Ég hef vanalega gert hvítlauksbrauð með því að pressa hvítlaukinn beint út í smjörið en ég bara varð að prófa að baka hann í ofninum fyrst og sjá hvernig það kæmi út.

Útkoman var virkilega góð og hvítlaukurinn fær örlítið mildara og sætara bragð sem gerir hvítlaukssmjörið einstaklega gott. Ég notaði tvo heila hvítlauka og fannst það mjög passlegt í þessa uppskrift.

Ég setti ferskar jurtir í hvítlaukssmjörið og ákvað að nota basíliku og blaðsteinselju sem passa báðar virkilega vel við hvítlaukinn. Það má skipta jurtunum út fyrir sínar uppáhalds. Timían er örugglega mjög gott í hvítlauksbrauð t.d.

Það er auðvitað hægt að gera hvítlauksbrauð á mismunandi vegu en mér finnst alltaf best að skera rákir í brauðið og passa að skera ekki alveg niður. Með því helst brauðið saman og ég treð hvítlaukssmjörinu og prosociano ostinum á milli sem gerir brauðið svo ótrúlega mjúkt og “djúsí” að innan en stökkt og gott að utan. Fullkomið!

Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér gott hvítlauksbrauð passa virkilega vel með góðum pastarétti eða súpu. Ég mæli með að gera brauðið með t.d. þessu gómsæta pestópasta eða uppáhalds tómatsúpunni minni.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin vel! <3

-Helga María

Gómsætt vegan hvítlauksbrauð

Gómsætt vegan hvítlauksbrauð
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 1 Hour: 1 H & 10 M
Virkilega gott ofnbakað hvítlauksbrauð með vegan smjöri, parmesanosti, bökuðum hvítlauk og ferskum jurtum. Einfalt og bragðgott sem meðlæti eða snarl.

Hráefni:

  • 1 stórt baguette
  • 150 gr vegan smjör frá Violife við stofuhita
  • 2 heilir hvítlaukar
  • 1/2 dl fersk blaðsteinselja
  • 1/2 dl fersk basílika
  • 1 msk ólífuolía (plús örlítið til að setja á hvítlaukinn fyrir ofninn)
  • 1/2 tsk salt
  • 2 msk rifinn vegan prosociano ostur frá Violife plús aðeins meira að toppa með (má sleppa eða hafa annan rifinn vegan ost í staðinn)
  • Chiliflögur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.
  2. Skerið toppinn af hvítlauknum, setjið á hann örlítið af salti og pipar og ólífuolíu og vefjið inn í álpappír. Bakið í 40-50 mínútur eða þar til hann hefur fengið fallegan lit.
  3. Setjið smjörið í skál ásamt restinni af hráefnunum og kreistið bakaða hvítlaukinn út í. Hrærið vel og passið að hvítlaukurinn blandist vel. Það er hægt að stappa hann aðeins fyrir svo hann maukist alveg örugglega.
  4. Skerið brauðið í sneiðar en skerið samt ekki alveg niður. Við viljum að brauðið haldist saman. Deilið hvítlaukssmjörinu í rifurnar og troðið aðeins meira af ostinum á milli. Smyrjið svo smjörinu sem safnast saman á köntunum ofan á brauðið.
  5. Bakið í 10-15 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Violife-

 
 

Gómsætar vegan vöfflur!

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðum vegan vöfflum. Þær eru undursamlega stökkar að utan og dúnmjúkar að innan. Það gæti ekki verið auðveldara að skella í vegan vöffludeig og við LOFUM að þær hverfa ofan í mannskapinn á innan við fimmtán mínútum!

Ég elska vöfflur, bæði því mér þykir þær svo dásamlega góðar á bragðið, en líka vegna þess að ég elska að útbúa þær. Ef ég á von á gestum er ég fljót að taka fram vöfflujárnið og steikja nokkrar vöfflur til að bjóða upp á. Það krefst mjög lítillar fyrirhafnar þær og þær slá alltaf rækilega í gegn. Hver elskar ekki að vera boðið uppá nýsteiktar vöfflur?!

Það sem ég geri til að fá vöfflurnar stökkar að utan en mjúkar að innan er að ég nota sódavatn í vöffludeigið. Ég er svo sannarlega ekki að finna upp hjólið þarna heldur er þetta gamalt og gott ráð sem margir svíar nota. Mér finnst þetta gera vöfflurnar einstaklega góðar og mæli mikið með því að prufa.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Krónuna og þar fáið þið allt sem þið þurfið í uppskriftina. Þar er líka frábært úrval af góðum vegan þeytirjóma, vegan ís, vegan súkkulaði og fleiru gómsætu að toppa vöfflurnar með! Algjör snilld!

Hvað er gott á vöfflur?! ALLT myndi ég segja. Nei okei ég ætla að lista nokkur góð “combo”

  • Vegan þeyttur rjómi og rabbabarasulta - klassískt og gott!

  • Vegan vanilluís, vegan “nutella” og jarðarber. Hljómar örlítið klisjukennt en er virkilega gott. Kannski smá ristaðar heslihnetur ofan á???

  • Hnetusmjör, ristaður banani og kanelsykur eða hlynsíróp. Treystið mér!

  • Þeyttur vegan rjómi, fersk ber og hlynsíróp eins og á myndunum. SVO GOTT!

Vegan vöfflur

Hráefni:

  • 4 dl hveiti

  • 2 msk sykur

  • 1/2 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 4 dl vegan mjólk

  • 1 dl sódavatn

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 msk bráðið smjörlíki.

Aðferð:

  1. Sigtið þurrefnin í skál.

  2. Bætið blautu efnunum saman við fyrir utan sódavatnið. Reynið að hræra sem minnst því annars geta vöfflurnar orðið þurrar.

  3. Bætið sódavatninu saman við og hrærið eins lítið og mögulegt er.

  4. Steikið vöfflurnar þar til þær eru gylltar og fallegar

  5. Toppið með öllu sem ykkur þykir gott! Ég setti allskonar vegan ber, Þeytanlega rjómann frá Oatly og hlynsíróp.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel. Munið að tagga okkur á Instagram ef þið prufið uppskriftirnar okkar. Það gerir okkur alltaf jafn glaðar!

-Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og þar fáiði öll hráefni í þessa uppskrift-

 
 

Dásamleg vegan lasagnasúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan lasagnasúpu. Súpan inniheldur allt sem gott lasagna inniheldur, svo sem tómata, vegan hakk, lasagnaplötur, grænmeti, gómsæt ítölsk krydd og mikið af hvítlauk. Þetta er hin fullkomna súpa að elda á köldum vetrardegi. Hún vermir svo sannarlega líkama og sál.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði vegan hakkið frá þeim. Við höfum lengi unnið með Anamma og erum gríðarlega stoltar af því. Vörurnar frá þeim eru svo góðar og hakkið frá þeim, bæði þetta “hefðbundna” og formbar hakkið nota ég svakalega mikið í mína matargerð. Ég hef eldað marga rétti með Anamma hakkinu fyrir vegan vini og vini sem borða kjöt og þeir hafa alltaf slegið í gegn. Þessi súpa er akkúrat dæmi um slíkan rétt.

Við erum með uppskrift af lasagnasúpu í bókinni okkar en þessi sem ég deili í dag er að mörgu leyti ólík. Mig langaði að gera hana aðeins meira eins og alvöru lasagna og ég er mjög stolt af útkomunni. Hún er virkilega bragðgóð og mettandi og ég er viss um að hún verður elduð oft í kvöldmatinn á mínu heimili á næstunni. Ég mæli með að gera hvítlauksbrauð með súpunni en uppskrift að svoleiðis brauði er að finna HÉR!

Eins og ég sagði hér að ofan inniheldur súpan gómsæt ítölsk krydd og ég notaði:

Oregano
Basiliku
Timían
Rósmarín
Majoram

Kryddin passa fullkomlega við tómatana og rjómann og gera súpuna svo dásamlega góða!

Vegan lasagna súpa

Hráefni:

  • Olía og/eða smjörlíki að steikja uppúr

  • 1 meðalstór laukur

  • 6 hvítlauksgeirar

  • 2 meðalstórar gulrætur

  • 2 sellerístiklar

  • 1 msk oregano

  • 1 msk þurrkuð basilika

  • 1 tsk rósmarín

  • 1 tsk timían

  • 1 tsk majoram

  • pínu chiliflakes

  • 2 msk sojasóa

  • 325 gr hakk frá Anamma (1 lítill poki)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar (hver dós 400g)

  • 1 líter vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1 msk balsamikedik

  • 3 lárviðarlauf

  • 6 lasagnaplötur

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur að setja í að lokum (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið olíu/smjörlíki í potti.

  2. Saxið laukinn og bætið út í og steikið þar til hann mýkist.

  3. Skerið niður gulrætur og sellerí og bætið út í ásamt pressuðum eða rifnum hvítlauksgeirum og steikið í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist.

  4. Bætið út í pottinn kryddunum, hakkinu og sojasósunni og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið tómötunum og vatninu út í og setjið balsamikedik, lárviðarlaufin og grænmetiskraftinn út í líka og leyfið þessu að ná suðu.

  6. Brjótið þá lasagnaplötur út í og leyfið súpunni að malla í 15-20 mínútur og verið viss um að lasagnaplöturnar séu orðnar mjúkar.

  7. Hellið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Leyfið súpunni að hitna þar til hún nær næstum því suðu, takið þá af hellunni, stráið vegan osti yfir og hrærið honum saman við svo hann bráðni. Það má að sjálfsögðu sleppa ostinum ef þið viljið en mér finnst það gott.

  8. Berið fram með góðu brauði og toppið með t.d. ferskri basíliku og vegan parmesanosti.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin vel!

-Helga María

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Vegan rjómalagað sítrónupasta

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu rjómalöguðu sítrónupasta með vegan parmesanosti, steinselju og chiliflögum. Rétturinn er virkilega einfaldur og fljólegur og bragðast alveg einstaklega vel. Hvort sem þú vilt elda eitthvað gott í kvöldmatinn hversdagslega eða ætlar að halda matarboð er sítrónupasta tilvalinn réttur. Ég mæli með að bera pastað fram með gómsætu brauði og njóta!

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife og í pastaréttinn notaði ég Prosociano ostinn frá þeim sem er vegan parmesanostur. Hann er dásamlega góður og passar fullkomlega með allskonar pastaréttum. Við systur elskum vörurnar frá Violife og notum þær mjög mikið í okkar daglega lífi. Prosociano osturinn er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana og ég nota hann í nánast allt sem ég útbý.

Ég notaði spaghetti að þessu sinni en það er líka gott að nota t.d. linguine eða rigatoni. Passið að sjóða pastað bara þar til það er “al dente” svo það verði ekki klístrað og mjúkt. Já, og munið að salta pastavatnið vel!!

Sósan er einföld og það tekur enga stund að útbúa hana, en hún er svakalega góð. Hún inniheldur:

smjörlíki
ólífuolíu
hvítlauk
chiliflögur
sítrónubörk
sítrónusafa
vegan parmesanost
örlítið af vatninu sem pastað er soðið upp úr
salt og pipar

Pastað er svo að lokum toppað með steinselju. Svo gott!

Ég hef verið í miklu pastastuði undanfarið. Ég er t.d. alltaf á leiðinni að deila með ykkur uppáhalds vodkapastanu mínu sem ég elda mikið. Ætli ég verði ekki að drífa mig í því í næstu viku. Við erum með allskonar góðar uppskriftir af pasta hérna á blogginu nú þegar og ég mæli með því að kíkja á ÞETTA ofnbakaða pestópasta sem Júlía útbjó í haust og hefur svo sannarlega slegið í gegn!

Eins og við systur höfum talað mikið um uppá síðkastið ætlum við árið 2022 að vera duglegari að birta uppskriftir af allskonar kvöldmat. Við fáum svo oft spurningar um hvort við getum ekki sýnt meira af hversdagslegum mat og svoleiðis og við lofum að gera meira af því. Að sjálfsögðu munu koma gómsætar kökur og fl. en við höfum oft verið lélegar í að birta “venjulegan mat” svo við erum mjög spenntar fyrir því og tökum alltaf fagnandi á móti allskonar fyrirspurnum og áskorunum!

Ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin og ef þið prófið að elda hana, eða einhverja aðra uppskrift af blogginu, væri ótrúlega gaman ef þið taggið okkur á Instagram. Það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar!

Rjómalagað vegan sítrónupasta

Hráefni:

  • 400 gr pasta - ég notaði spaghetti

  • 3 hvítlauksgeirar

  • Safi og börkur úr einni sítrónu

  • Chiliflögur eftir smekk. Það er svo misjafnt hversu mikið fólk þolir

  • 2,5 dl vegan matreiðslurjómi

  • 1,5 dl vatn sem pastað hefur verið soðið í

  • Rifinn prosociano (vegan parmesan frá Violife) eftir smekk. Þetta finnst mér líka vera svolítið smekksatriði. Ég notaði sirka 1/2 ost í sósuna og toppaði svo með aðeins meira. Það þarf allavega ekki meira en einn ost en það eru ekki allir sem vilja hafa svo mikið af parmesan en mér finnst það gera sósuna virkilega góða og “creamy”

  • Salt og pipar

  • Fersk steinselja að toppa með

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningum á pakkanum þar til það er “al dente” og sigtið þá vatnið frá. ATHUGIÐ að það þarf að taka frá 1.5 dl af vatninu og nota í sósuna. Munið að salta pastavatnið vel.

  2. Setjið ólífuolíu og smjörlíki í pott, pressið hvítlauk og steikið hann í 30 - 60 sekúndur. Hann á að mýkjast en á ekki að taka á sig brúnan lit.

  3. Rífið sítrónubörk út í pottinn (geymið smá ef þið viljið nota til að toppa pastað með) og kreistið sítrónusafann og hrærið saman við hvítlaukinn ásamt chiliflögunum og leyfið þessu að eldast í nokkrar sekúndur.

  4. Hellið rjómanum útí ásamt salti og pipar og leyfið rjómanum að hitna vel.

  5. Hellið vatninu frá pastanu út í og hrærið.

  6. Bætið pastanu út í sósuna (ekki hella sósunni út í pastað því þá er erfiðara að sjá til þess að þetta verði nógu “creamy”) og passið að sósan þekji pastað vel.

  7. Toppið með prosociano og steinselju og berið fram með góðu brauði.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Gómsæt vegan linsubaunasúpa

Uppskrift dagsins er að ómóstæðilega gómsætri vegan linsubaunasúpu sem yljar bæði líkama og sál á köldum vetrardegi. Súpan er ekki einungis dásamlega bragðgóð heldur er hún líka stútfull af næringu. Linsubaunasúpa er að mínu mati hinn FULLKOMNI kvöldmatur eða hádegismatur á þessum tíma árs og ég mæli mikið með því að bera hana fram með góðu brauði.

Við erum nú þegar með uppskrift af linsubaunasúpu hérna á blogginu sem við birtum fyrir mörgum árum og sú uppskrift er með þeim vinsælustu á sðunni í hverjum mánuði. Uppskriftin sem ég deili með ykkur í dag er í raun endurbætt útgáfa af gömlu súpunni og er því nokkuð svipuð. Mig hefur þó lengi langað að bæði mynda hana upp á nýtt og betrumbæta sjálfa uppskriftina og ákvað að gera nýja færslu í stað þess að fara að hræra í þeirri gömlu.

Þessi súpa er innblásin af indverskri matargerð og hún inniheldur gómsæt indversk krydd, þar á meðal garam masala sem mér þykir alltaf jafn gott í súpur og pottrétti. Ég vil helst hafa súpu matarmikla og mettandi og þessi súpa er einmitt það. Ég íhugaði þess vegna að kalla þetta linsubaunapottrétt en mér finnst þetta þó frekar vera súpa. En ef þið viljið heldur hafa súpunar ykkar léttari er annað hvort hægt að bæta við örlítið meira af vatni eða sleppa kartöflunum. Ég mæli þó með því að hafa kartöflurnar í því mér persónulega finnst það svakalega gott.

Rauðar linsubaunir finnst mér eiga skilið aðeins meiri kærleika. Þær eru hrikalega næringarríkar og virkilega góðar í allskonar rétti á sama tíma og þær eru mjög ódýrar. Fólk talar oft um að vegan matur sé dýr en í raun er það alls ekki satt. Vegan sérvörur eru oft í dýrara lagi en baunir, korn og grænmeti eru mjög ódýr matur. Mér finnst fátt betra en að geta skellt í pott allskonar gómsætum hráefninum eins og baunum og grænmeti og gert súpur, kássur eða pastarétti og oftar en ekki eru hráefnin hræódýr og maturinn endist lengi og er einfalt að bæði hafa með sér í nesti eða frysta til að hita upp seinna.

Grænmetið sem ég notaði í súpuna var:

  • Hvítlaukur

  • Laukur

  • Púrrulaukur

  • Gulrætur

  • Kartöflur

  • Svartkál (sem ég held að fáist því miður ekki á Íslandi) en grænkál eða spínat virkar jafn vel

Ekkert af þessu er heilagt. Mér finnst linsubaunasúpa einmitt vera réttur sem er tilvalið að elda þegar maður vill nota grænmetið sem maður á í ískápnum. Sætar kartöflur, grasker, paprika, rauðlaukur, blómkál, brokkólí.. Það er virkilega hægt að nota það sem maður á til.

Hráefni:

  • 1 meðalstór laukur

  • Sirka 10 cm púrrulaukur

  • 3-4 hvítlauksgeirar

  • 250 gr kartöflur

  • 200 gr rauðar linsubaunir

  • 150 gr gulrætur

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk cumin

  • 2 tsk garam masala

  • Smá chiliflögur fyrir þá sem vilja

  • 1 dós (sirka 400 gr) niðursoðnir tómatar

  • 1 líter vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2-1 tsk púðursykur

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi (það er ekkert mál að skipta honum út fyrir eina 400 ml dós af kókosmjólk)

  • 100 g grænkál eða spínat

  • Safi úr einni límónu

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti.

  2. Skerið niður lauk, púrrulauk, gulrætur og kartöflur og steikið í sirka 10 mínútur eða þar til grænmetið hefur mýkst og fengið á sig örlítinn lit. Ef grænmetið byrjar að festast við botninn mæli ég með því að bæta annhvort við smá olíu eða örlitlu vatni.

  3. Pressið hvítlauk og bætið út í pottinn ásamt linsubaununum (mæli með því að skola þær aðeins í sigti fyrst) og kryddunum og steikið í sirka 5 mínútur.

  4. Bætið út í pottinn niðursoðnum tómötum, vatni, grænmetisteningum, púðursykri og salti og leyfið þessu að sjóða í 20-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn.

  5. Bætið grænkálinu útí þegar sirka 5 mínútur eru eftir af suðutímanum.

  6. Hellið rjómanum út í og hitið upp að suðu og slökkvið þá undir pottinum.

  7. Hrærið límónusafanum út í og bætið við salti og pipar eftir smekk.

Það sem ég mæli með að bera fram með súpunni:

  • Ferskt kóríander

  • Vegan sýrður rjómi

  • Gott brauð eins og t.d. heimagert pönnubrauð - Uppskrift HÉR

Takk fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin. Ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þú eldar eitthvað af blogginu, það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar! <3

-Helga María

Fljótlegur vegan bröns

Núna er komin janúar og þó svo að rútínan fari kannski örlítið hægar af stað á mörgum stöðum sökum ástandsins í samfélaginu finnst mér alltaf gott að huga vel að heilsunni á þessum árstíma. Þessi tími er mér oft erfiður, þegar jólin eru búin, mikið myrkur og leiðinlegt veður og frekar langt í sumarið. Mér finnst hjálpa mér að borða góðan og næringarríkan mat og reyna að búa mér til rútínu sem hentar mér. Ég ætla því að deila með ykkur í dag góðum og næringarríkum bröns sem tekur enga stund að útbúa og er fullkomin um helgar eða til að bjóða vinkonum upp á til dæmis.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna en þar var að byrja í sölu þessar frábæru smoothie skálar sem koma tilbúnar með öllum innihaldsefnum í heila skál í hverjum pakka. Flestir eru líklega farnir að þekkja svona smotthie skálar hér á landi þar sem nokkur fyrirtæki sem selja þær hafa byrjað á síðustu árum en það er alveg æði að geta gert svona fallegar og næringarríkar skálar heima hjá sér.

Ég prófaði Tropical Bowl, Acai skálina og Ocean Bowl og eru þær hver annari betri. Þær eru einnig stútfullar af góðri næringu og eru fullkomin morgunmatur eða millimál einar og sér líka.

Ofan á skálarnar setti ég

  • Banana

  • Jarðaber

  • Bláber

  • Ferskan ananas

  • Almond candy möndlusmjör frá Wholey

  • Granóla

  • Kókosmjöl

Með skálunum ákvað ég að bjóða upp á ristaðar beyglur með rjómaosti, avocado og tómötum sem og þessar hollu bananapönnukökurnar. Pönnukökurnar er mjög einfalt að baka og eru þær hveiti og sykurlausar. Þær er einnig auðvelt að gera glútenlausar með því að skipta út venjulegu haframjöli fyrir glútenlaust haframjöl. Þær eru mjög næringarríkar og henta líka fullkomlega fyrir lítil börn. Ég bar pönnukökurnar fram með Wholey Sh*t súkkulaði og heslihnetusmyrju, jarðaberjum og hlynsírópi en það var alveg guðdómlega gott.

Hollar bananapönnukökur

  • 2 dl fínmalað haframjöl

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 stór banani eða 1 og hálfur lítill

  • 2 msk síróp (t.d. agave eða það síróp sem hver og einn kýs, því má líka alveg sleppa)

  • 2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

Aðferð:

  1. Malið haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að alveg fínu mjöli.

  2. Stappið banana vel niður.

  3. Hrærið öllum hráefnum vel saman í skál.

  4. Steikið upp úr góðri olíu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pönnukökurnar verða fallega gylltar.

-Njótið vel og eigið góða helgi.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fæst allt í uppskriftirnar þar -

 
 

Vegan bananapönnukökur

Þessar pönnukökurnar eru algjört æði og í miklu uppáhaldi hjá okkur þar sem það er ótrúlega einfalt að baka þær og eru þær hveiti og sykurlausar. Pönnukökurnar er einnig auðvelt að gera glútenlausar með því að skipta út venjulegu haframjöli fyrir glútenlaust haframjöl. Þær eru mjög næringarríkar og henta líka fullkomlega fyrir lítil börn. Þær tekur enga stund að útbúa og henta fullkomlega í morgunmat eða sem næringarríkt millimál. Það má bera þær fram á alls konar vegu og er til dæmis hægt að sleppa sírópinu í þeim og bera þær fram með vegan smjöri og vegan osti eða banana.

Hollar bananapönnukökur

  • 2 dl fínmalað haframjöl

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 stór banani eða 1 og hálfur lítill

  • 2 msk síróp (t.d. agave eða það síróp sem hver og einn kýs, því má líka alveg sleppa)

  • 2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

Aðferð:

  1. Malið haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að alveg fínu mjöli.

  2. Stappið banana vel niður.

  3. Hrærið öllum hráefnum vel saman í skál.

  4. Steikið upp úr góðri olíu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pönnukökurnar verða fallega gylltar.

-Njótið vel

Vegan grænmetisbollur með grænu pestó

Nú er komið nýtt ár og því fylgir að sjálfsögðu veganúar. Margir hafa sett sér ný markmið og sumir með það markmið að gerast vegan eða minnka dýraafurðaneyslu. Okkur finnst þessi mánuður alltaf jafn skemmtilegur og fáum við mikið að skilaboðum frá fólki sem er að byrja að vera vegan sem er alltaf jafn gaman. Við ætlum því að sjálfsögðu að vera duglegar að deila með ykkur nýjum sem gömlum uppskriftum núna í janúar sem og alls konar öðrum fróðleik. Við mælum að sjálfsögðu með að allir fylgi okkur á Instagram þar sem við erum duglegar að sýna frá alls konar vegan tengdu.

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er af ótrúlega auðveldum og hollum grænmetisbollum með grænu pestói. Þessar bollur eru virkilega bragðgóðar og hægt er að bera þær fram á alls konar vegu. Það er einnig auðvelt að gera þær í stóru magni og mæli ég með að gera til dæmis þrefalda eða fjórfalda uppskrift og setja í frysti. Ég elska að eiga til góða og holla rétti í frystinum sem ég get gripið í þegar ég hef ekki mikinn tíma til að elda.

Í bollunum er, ásamt hnetum og baunum, grænt pestó sem gerir þær ótrúlega bragðmiklar og góðar. það þarf því ekkert að krydda þær aukalega þar sem basil-hvítlauksbragðið af pestóinu skín vel í gegn. Bollurnar eru stútfullar af góðum næringarefnum úr baununum og hnetunum og auðvelt er að gera þær glútenlausar með því að nota glútenlaust brauðrasp.

Bollurnar má bera fram á ótal vegu. Ég ber þær mjög oft fram með rjómapasta, en þá sýð ég gott pasta, geri einfalda rjómasósu á pönnu með vegan rjóma, rjómaosti, hvítlauk og grænmetiskrafti. Velti pastanu síðan upp úr sósunni og ber bollurnar fram með. Þá mæli ég með að hafa grænt pestó með sem hægt er að setja út á og jafnvel vegan parmesanost og hvítlauksbrauð.

Bollurnar henta einnig fullkomlega með kaldri sósu og grænmeti, hvort sem það er í pítubrauði, vefju eða með hrísgrjónum til dæmis. Þær má einnig borða kaldar og henta því mjög vel sem nesti.

Pestó grænmetisbollur (20-24 litlar bollur)

  • 1 dós pinto baunir

  • sirka 2 bollar eða 2 lúkur spínat, eða eftir smekk

  • 1 dl malaðar kasjúhnetur

  • 1/2 krukka grænt vegan pestó frá Sacla Italia

  • 1/4 laukur

  • 1 1/2 dl brauðrasp

  • 1/2 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að vinna kasjúhneturnar í blandara eða matvinnsluvél þar til fínmalaðar, setjið til hliðar.

  2. Setjið spínatið í blandarann eða matvinnsluvélina og maukið, bætið pinto baununum út í og maukið gróflega saman.

  3. Saxið laukinn mjög smátt og hrærið öllum hráefnunum saman í skál.

  4. Mótið kúlur eða buff úr deiginu en það á að vera þannig að þið getið meðhöndlað það í höndunum. Ef það er of blautt má bæta aðeins við af brauðraspi.

  5. Bakið við 200°C í 20 mínútur.

-Tillögur af því hvernig bera megi fram bollurnar má finna í færslunni hér að ofan. Njótið vel.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
 

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Í dag deili ég með ykkur fyrstu uppskrift ársins en það eru þessar gómsætu amerísku pönnukökur með sítrónu og birkifræjum. Þykkar, dúnmjúkar og einstaklega braðgóðar. Pönnukökurnar eru hinn FULLKOMNI helgarmorgunmatur og passa vel með dögurði. Þær eru líka geggjaðar með kaffinu. Það tekur enga stund að skella í pönnsurnar og það er virkilega auðvelt að útbúa þær.

Sítrónur og birkifræ eru skemmtileg blanda. Við erum nú þegar með uppskrift af gómsætri sítrónuköku með birkifræjum og rjómaostakremi hérna á blogginu. Mér hefur alltaf þótt birkifræ góð en það er ekki langt síðan ég smakkaði þau í fyrsta sinn í sætum bakstri. Áður hafði ég einungis borðað þau í allskonar brauði, rúnstykkjum, beyglum og fl. En þau eru svo sannarlega ekki síður góð í sætum kökum og bakstri.

Í gær listaði ég niður 10 vinsælustu uppskrftirnar á blogginu árið 2021. Uppskriftin okkar af amerískum pönnukökum var ein af þeim vinsælustu og ég skil það vel. Pönnukökur slá einhvernveginn alltaf í gegn. Ég er mikið fyrir þessar þunnu íslensku en finnst amerískar líka mjög góðar. Eitt af því besta við þær síðarnefndu er að það er mun auðveldara að baka þær. Pönnukökudeigið er þykkt og það er létt að flippa þeim. Þær eru þessvegna skotheldar og fljótlegar.

Sjáið þessi fallegu birkifræ. Í deiginu er bæði sítrónusafi og sítrónubörkur sem gefur pönnukökunum dásamlegt bragð.

Ég toppaði pönnsurnar með því sem mér þykir best, þeyttum hafrarjóma, sultu og auðvitað fullt af hlynsírópi!

Ég neyddist að sjálfsögðu til að taka eina svona klassíska pönnukökumynd þar sem ég skar í gegnum allan pönnukökustaflann. Ég hló upphátt á meðan ég tók þessa mynd því ég myndi aldrei borða pönnukökur svona. Ég vil toppa hverja einustu pönnsu með allskonar góðgæti.

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Hráefni:

  • 5 dl hveiti (ca 300 gr). Smá tips: þegar ég nota dl mál til að mæla hveiti legg ég það á borðið og nota matskeið til að moka hveitinu yfir í málið. Með því kemst ég hjá því að pressa of miklu hveiti í dl málið og fæ alltaf sama magn.

  • 2 msk sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 dl birkifræ

  • Pínulítið salt

  • 3 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk

  • 2,5 dl sojajógúrt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk bráðið smjörlíki sem hefur fengið að kólna aðeins (plús meira til að steikja upp úr)

  • Safi og rifinn börkur úr einni sítrónu

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í skál. Ég bæti yfirleitt birkifræjunum seinast út í þegar ég hef blandað hinum þurrefnunum saman.

  2. Hrærið saman í aðra skál restinni af hráefnunum.

  3. Hellið blautu hráefnunum saman við þau þurru og hrærið saman með písk.

  4. Hitið smjörlíki á pönnu við meðalhita.

  5. Steikið hverja pönnuköku þangað til bubblur myndast á yfirborðinu og botninn hefur fengið fallegan gylltan lit, flippið þá pönnukökunni og steikið þar til hin hliðin hefur einnig fengið fallegan lit.

  6. Berið fram með því sem ykkur dettur í hug. Þeyttum vegan rjóma, sultu, hlynsírópi, vegan “nutella”, ávöxtum.. listinn er endalaus.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Munið að tagga okkur á instagram ef þið gerið pönnsurnar eða einhverjar aðrar uppskriftir af blogginu okkar. Það gerir okkur alltaf jafn ótrúlega glaðar!

-Helga María

10 vinsælustu uppskriftirnar okkar árið 2021!

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Í dag langar okkur að taka saman okkar 10 vinsælustu uppskriftir árið 2021. Við erum orðlausar yfir því hversu mörg þið eruð sem lesið bloggið okkar í hverjum mánuði og hversu mikinn kærleika þið sýnið okkur allan ársins hring. Það gefur okkur svo gríðarlega mikið að heyra hvað ykkur finnst uppskriftirnar góðar. Öll skilaboð og athugasemdir sem við fáum frá ykkur hlýa virkilega um hjartarætur. Við gætum ekki verið heppnari með lesendur og fylgjendur. TAKK!

En á morgun birtum við fyrstu uppskrift ársins en í dag lítum við yfir liðið ár og sjáum hvað sló mest í gegn á blogginu! Við birtum þær ekki í neinni sérstakri röð heldur listum bara þær 10 vinsælustu!

Klassíska súkkulaðitertan okkar!

Þessi uppskrift er ein af okkar allra fyrstu hérna á blogginu og er á hverju ári á listanum yfir þær 10 vinsælustu. Við getum sagt að þessi kaka er sú allra mest bakaða á blogginu. Við skiljum vel af hverju. Hún er einföld, skotheld en á sama tíma gríðarlega bragðgóð og mjúk. Júlía tók sig til og myndaði kökuna aftur. Eins og ég sagði var þetta ein af okkar allra fyrstu uppskriftum og ljósmyndahæfileikar okkar hafa sem betur fer skánað töluvert síðan 2016 svo okkur fannst kominn tími til að fríska aðeins upp á færsluna. Uppskriftin er þó að sjálfsögðu ennþá sú sama, fyrir utan það að Júlía bætti inn í færsluna uppskrift af gómsætu súkkulaðiganache. Uppskrift af kökunni finniði HÉR!

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum!

Önnur uppskrift sem lendir alltaf á top 10 listanum á blogginu er heita aspas rúllubrauðið okkar. Þessi uppskrift er einnig ein af okkar fyrstu uppskriftum og ég man að ég var uppi í sumarbústað þegar ég ákvað skyndilega að prófa að skella í aspasbrauðrétt. Ég hafði ekki prófað að gera svoleiðis í mörg ár en hugsaði að það gæti ekki verið svo erfitt. Brauðrétturinn kom heldur betur vel út og smakkaðist alveg eins og mig hafði minnt. Ég brunaði á Selfoss með réttinn heim til ömmu og lét hana og Júlíu smakka og þeim fannst hann æðislega góður. Meira að segja ömmu sem er oft frekar skeptísk á vegan mat, allavega á þeim tíma. Daginn eftir gerði ég hann svo aftur og myndaði. Athugið að myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftin á blogginu er gömul og myndirnar líka. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem mig dauðlangar að mynda aftur. Júlía verður eiginlega að taka það að sér þar sem ég fæ ekki rúllubrauðið hérna í Svíþjóð. Uppskriftina af brauðréttinum finniði HÉR!

Döðlukaka með karamellusósu og ís!

Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mér og það kom mér eiginlega á óvart hversu vinsæl hún varð. Við höfðum aldrei verið beðnar um uppskrift af svona köku að ég held. Ég man eftir því að hafa séð marga baka svona fyrir einhverjum árum síðan en finnst ég aldrei vera vör við það lengur. Döðlukakan er virkilega gómsæt og mjúk og með karamellusósunni og vanilluís er þetta fullkominn eftirréttur. Ég mæli virkilega með því að prófa ef þið hafið aldrei gert það. Ég held ég verði að skella í hana bráðum. Ég gerði þessa færslu snemma árið 2019. Ég fæ mikla nostalgíu þegar ég sé þessa mynd því ég man að á þessum tíma 2018-2019 elskaði ég að prófa nýjar og spennandi uppskrift. Ég veganæsaði allar kökur sem mér datt í hug og var svo forvitin í eldhúsinu. Mér líður stundum eins og ég sakni þess tíma svolítið. Ég er enn forvitin og elska að gera uppskriftir en á þessum tíma lærði ég svo mikið af því sem ég kann núna í eldhúsinu og var svo gríðarlega stolt eftir hverja einustu færslu. En jæja nóg um það. Kakan er æði! Uppskriftina finniði HÉR!

Ofnbakað pasta með rauðu pestói!

Þessi fáránlega einfaldi og gómsæti pastaréttur sló í gegn á blogginu okkar á þessu ári. Eitt af því sem við systur höfum mikið rætt um að bæta okkur í er að pósta meira af hefðbundnum heimilislegum kvöldmat. Við elskum að veganæsa allskonar kökur og hátíðarrétti, eins og þið hafið líklega flest tekið eftir, en gleymum oft að birta “venjulegan mat”. Það sem við sjálfar eldum okkur í kvöldmat. Við tókum okkur svolítið á með það á síðastliðnu ári og það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum 2022 að gera ennþá meira af. Þessi pastaréttur er einmitt fullkominn kvöldmatur. Öllu hráefni er skellt í eldfast mót eða pott og eldað saman. Útkoman er dásamleg. Uppskriftina finniði HÉR!

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum!

Möffins sem smakkast eins og á kaffihúsi. Hvað get ég sagt? Þetta eru þær allra bestu möffinskökur sem ég hef bakað. Það er kjánalegt að segja það en ég er virkilega stolt af þessari uppskrift. Ég man að það fór mikill tími og mikil orka í að búa uppskriftina til. Ég prófaði hana nokkrum sinnum og vildi alls ekki að þær væru þurrar. Eftir nokkrar tilraunir urðu þær alveg eins og ég vildi hafa þær. En það voru ekki bara kökurnar sem tóku nokkrar tilraunir heldur tók ég heilan dag í að mynda þær og myndirnar komu hræðilega út. Ég man að ég tók þær á brúnum bakgrunni og brúnu litirnir runnu saman í eitt. Daginn eftir tók ég mig saman og myndaði þær aftur og varð mun ánægðari með útkomuna. Uppskriftina finniði HÉR!

Mexíkósúpa!

Næst á dagskrá er ein önnur uppskrift sem lendir alltaf með þeim 10 vinsælustu á hverju ári. Mexíkósúpan sem Júlía birti árið 2017. Þessa súpu höfum við systur eldað svo oft og fáum aldrei leið á henni. Þetta er hin fullkomna súpa til að elda fyrir matarboð, afmæli eða aðrar samkomur þar sem sniðugt er að bera fram súpu. Hún er matarmikil, gómsæt og hægt að toppa hana með allskonar góðu. Við fengum fyrir einhverjum árum síðan skilaboð frá konu sem sagðist hafa eldað súpuna fyrir landbúnaðaráðherra Noregs og að hann hafi orðið yfir sig hrifinn. Það voru ein skemmtilegustu skilaboð sem við höfum fengið. Uppskriftina finniði HÉR!

Amerískar pönnukökur!

Við erum ekki hissar á því að amerískar pönnukökur séu á top 10 listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar okkar. Við systur elskum að baka pönnukökur og gerum pönnsur óspart í morgunmat um helgar. Uppskriftina birtum við í byrjun 2017 og hana er einnig að finna í bókinni okkar. Psst. Það gæti mögulega verið ný pönnukökuuppskrift á leiðinni á bloggið ekki seinna en á morgun!! Myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftina finniði HÉR!

Hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu!

Djúsí og gómsætur hamborgari. Eitthvað sem allir elska. Við gerðum þessa uppskrift saman sumarið 2019. Ég var komin til Íslands til að dvelja þar yfir sumarið og við vorum að hefjast handa við að mynda uppskriftirnar fyrir bókina okkar. Við byrjuðum á því að mynda nokkrar uppskriftir fyrir bloggið og þessi gómsæti borgari var einn af þeim. Þetta var byrjun á dásamlegu sumri. Við mynduðum bókina og þroskuðumst mikið í okkar vinnu við það. Við byrjuðum líka að þróa uppskriftina af veganistuborgaranum sem er seldur á Hamborgarafabrikkunni. Mér hlýnar um hjartað við að sjá þessa færslu og við að sjá að ykkur líki hún svona vel. Uppskriftina finniði HÉR!

Frosin Amaretto ostakaka með ristuðum möndlum!

Árið 2021 var árið sem ég byrjaði að nota áfengi meira í matargerð og bakstur. Ég geri mér grein fyrir því að það er riskí að birta of mikið af svoleiðis uppskriftum því mörgum líkar það verr að gera uppskriftir sem innihalda áfengi og svo er flest áfengi mjög dýrt og fáir sem eiga lager af því og eru ekki spennt fyrir því að kaupa flösku af amaretto til að nota smávegis af því í eina ostakökuuppskrift. Á sama tíma hefur mér þótt gaman að fá að þroskast og læra meira um eldamennsku og ég er glöð þegar ég birti það sem mér þykir gott og skemmtilegt. Ég hef því leyft sjálfri mér að pósta uppskriftum sem innihalda líkjör, hvítvín og fleira í þeim dúr en passað að halda þeim uppskriftum undir takmörkum. Jafnvægið er best. Þessi kaka er sú sem ég kannski naut þess mest að gera á þessu ári. Að sjá hvernig bragðið og útlitið kom út akkúrat eins og ég hafði óskað mér gerði mig ótrúlega glaða og ég er mjög ánægð að sjá þegar þið útbúið hana! Uppskriftina finniði HÉR!

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý!

Síðasta uppskriftin á listanum er þessi gríðarlega fallega og gómsæta núðlusúpa með rauðu karrý og tófú sem Júlía birti á árinu. Súpan er annað dæmi um virkilega góðan kvöldmat. Júlía eyddi þremur mánuðum í Asíu fyrir nokkrum árum og varð mjög hugtekin af tælenskri matargerð. Þessi súpa er innblásin af öllum þeim gómsæta mat sem hún borðaði þar. Einstaklega falleg súpa sem er fullkomin fyrir vetrarmánuðina. Uppskriftina finniði HÉR!

Takk innilega fyrir að lesa og takk enn og aftur fyrir að þið eldið og bakið uppskriftirnar okkar, sendið okkur svo falleg skilaboð og sýnið okkur þennan gríðarlega stuðning. Við erum svo þakklátar fyrir ykkur öll að við erum að springa! <3

-Veganistur

Safarík og gómsæt vegan eplakaka með kardimommum og vanilluís

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að dásamlega góðri vegan eplaköku með kardimommum, bourbon viskí og vanilluís. Dúnmjúk og gómsæt kaka sem gleður bragðlaukana. Eplakakan er einstaklega falleg og hentar fullkomlega í kaffiboð eða matarboð.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í kökuna notaði ég epla og kanilsultuna frá þeim sem gaf kökunni extra mýkt. Í kökunni finnur maður eplabita frá sultunni sem mér finnst alveg ótrúlega gott. Ég bókstaflega elska þessa sultu, bæði með vöfflum og pönnukökum en líka ofan á brauð og kex með vegan ostum. Hún er algjört uppáhald. Sulturnar frá St. Dalfour hafa í mörg ár verið mikið borðaðar á mínu heimili og slá alltaf í gegn.

Ég hef alltaf verið mikið fyrir eplaköku. Það var ein af mínum uppáhalds kökum sem barn og ég baka hana oft þegar ég á von á gestum í mat eða kaffi. Það er bæði ótrúlega einfalt og fljótlegt að baka hana og síðan er hún auðvitað virkilega góð.

Ég vildi gera eitthvað aðeins nýtt og öðruvísi en ég er vön svo ég ákvað að setja í kökuna kardemommur og bourbon viskí. Fjölskyldan mín gerir mikið grín að mér fyrir að vilja nota áfengi í allar uppskriftir þessa dagana. Ég drekk sjálf voðalega sjaldan áfengi svo mér hefur þótt spennandi að nota það sem ég á í mat og bakstur í staðinn. Að sjálfsögðu má sleppa viskíinu í kökunni og hún verður alveg jafn góð, en ég mæli mikið með því að prófa.

Ég bar kökuna fram með vanilluís. Það er eitthvað við eplaköku og vanilluís saman, fullkomin blanda að mínu mati. Ég toppaði kökuna með möndluflögum og kanilsykri sem gaf henni gott “krisp”.

Ég vona innilega að þið prófið að baka þessa köku og að ykkur líki vel. Ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þið prófið þessa uppskrift eða einhverja aðra frá okkur, okkur þykir svo vænt um það.

Eplakaka

  • 2 og 1/2 dl hveiti

  • 1 dl sykur

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk malaðar kardimommur

  • 1 tsk vanilludropar

    1 dl olía

  • 1 msk eplaedik

  • 2 og 1/2 - 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 1/2 dl bourbon viskí (má að sjálfsögðu sleppa eða setja minna)

  • 1/2 krukka epla- og kanilsulta frá St. Dalfour (ca 150 gr)

  • 1-2 epli

  • Kanilsykur

  • Möndluflögur að toppa með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Byrjið á því að hræra saman þurrefnum í stóra skál.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við (fyrir utan sultuna, kanelsykurinn og möndlurnar) og hærið saman í deig án kekkja. Hrærið samt ekki of mikið svo kakan verði ekki þurr.

  4. Smyrjið 20 cm form með smjörlíki eða leggið smjörpappír í það. Ég bakaði kökuna í steypujárnspönnu og notaði smjörpappír með.

  5. Hellið deiginu í formið og toppið með sultunni. Ég setti klumpa af sultu yfir deigið og deifði svo úr henni.

  6. Skerið eplið í þunnar sneiðar og raðið yfir sultuna. Stráið svo kanilsykri og möndluflögum yfir.

  7. Bakið í 25-30 minútur eða þar til pinni kemur hreinn úr kökunni þegar stungið er í hana. Athugið að það getur þó komið sulta með prjóninum til baka. Ef þið skoðið fyrstu mynd og ykkur finnst kakan líta óbökuð út er það alls ekki raunin heldur er það sultan sem hefur blandast í kökuna. Ótrúlega safaríkt og gott!

  8. Berið fram með vegan vanilluís og njótið. Ég læt kökuna kólna en finnst þó gott að bera hana fram örlítið volga.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin!

-Helga María

-Þessi uppskrift er í samstarfi við St. Dalfour á íslandi-

 
 

Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Vegan réttir í áramótaveisluna

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan partýréttum fyrir áramótaveisluna. Við vitum öll að gamlárskvöld einkennist að miklu leyti af mat og drykk. Við grænkerarnir erum að sjálfsögðu engin undantekning þar. Við systur höfum því sett saman gómsætan partýmat sem mun stela senunni í áramótapartýinu og sanna fyrir ÖLLUM að vegan partý eru bestu partýin! Færsla dagsins er í samstarfi við Krónuna og allt sem þarf í þessa dásamlegu áramótaveislu fáiði þar.

Það fyrsta sem við bjóðum uppá er krydduð ostakúla sem er fullkomin með góðu kexi. Ostakúlan er innblásin frá mexíkóosti og er svolítið spæsí en samt alls ekki of. Hún var ekki lengi að hverfa ofan í okkur eftir að við kláruðum að taka myndir af henni.

Það er alltaf jafn gaman að bjóða fólki uppá ostakúlur því það er skemmtilega öðruvísi og alveg svakalega bragðgott. Það er líka svo gaman að prófa sig áfram með mismunandi brögð og samsetningar.

Utan um kúluna gerðum við kasjúhnetukryddblöndu og hún setti punktinn yfir i-ið að okkar mati. Ekkert smá góð!

Mexíkó ostakúla

  • 1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur

  • 2 msk vegan smjör

  • 2 msk vegan majónes

  • 1 Chilli og hvítlauksostur úr ostabakkanum frá Violife

  • 1/2 epic mature úr ostabakkanum frá violife

  • 1 dl niðursaxaður vorlaukur

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 2-3 tsk hot sauce eða tabasco sósa

  • 1 tsk sojasósa

Mexíkó kryddblanda utan um ostinn:

  • 3-4 msk mexíkaninn krydd frá Kryddhúsinu

  • 1 tsk chilli og lime krydd frá Bowl&Basket

  • Heimagerður kasjúhnetuparmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 2 msk næringarger

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Saxið niður vorlaukinn.

  3. Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  4. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  5. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  6. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr kryddblöndunni.

Aðferð fyrir kryddblöndu:

  1. Setjið hráefni fyrir heimagerða kasjúhnetuostinn í blandari eða matvinnsluvél og vinnið í nokkrar sekúndur þar til það verður að mjög grófu “mjöli”.

  2. Blandið saman við restina af kryddunum.

  3. Dreifið á disk og veltið ostinum upp úr.

Næst á boðstólnum er önnur gómsæt ostakúla sem er aðeins meira í þessum hefðbundna hátíðlega búning, mjög jólaleg og góð. Hún inniheldur meðal annars timían og þurrkuð trönuber og utan um kúluna eru saxaðar pekanhnetur. Virkilega gómsætt og eins og hin kúlan er hún fullkomin með góðu kexi. Pssst.. Við erum með fleiri færslur á blogginu með dásamlegum partýréttum ef þið viljið kíkja!

Ostakúla með trönuberjum, timían og pekanhnetum:

  • 1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur

  • 2 msk vegan smjör

  • 2 msk vegan majónes

  • 1 smoked mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife

  • 1/2 epic mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife

  • 1 dl niðursaxaður vorlaukur

  • 1/2 dl niðursöxuð þurrkuð trönuber

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk timían

  • 1 tsk sojasósa

Utan um ostinn :

  • Pekanhnetur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Saxið niður vorlaukinn og trönuberin.

  3. Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  4. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  5. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  6. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr pekanhnetunum.

  7. Saxið niður pekan hnetur og dreifið á stóran disk. Veltið ostinum upp úr þeim.

Snakk og ídýfa er að okkar mati möst í gott partý. Við útbjuggum því einfalda og gómsæta ídýfu sem er innblásin af Holiday ídýfuduftinu frá Maarud sem fæst því miður ekki á Íslandi en er virkilega gott. Ídýfan kom ekkert smá vel út og tók snakkið á næsta level!

Gómsæt vegan ídýfa

  • 4 dl vegan sýrður rjómi

  • 3 msk vegan mæjónes

  • 1,5 tsk laukduft

  • 1,5 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk túrmerík

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1/2 tsk þurrkað dill

  • 1/2 tsk þurrkuð steinselja

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1/2-1 tsk hlynsíróp

  • 1 tsk tabasco sósa

  • Salt og pipar eftir smekk. Ég notaði 1 tsk salt og smá pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og leyfið að standa í ísskáp í sirka klukkustund til að leyfa brögðunum að blandast vel saman.

Nammi er svo sannarlega mikilvægt líka í góðum gleðskap og við ákváðum að búa til skemmtilegt súkkulaðibark með allskyns sælgæti í. Ef þið hafið ekki prófað súkkulaði með saltstöngum mælum við með því að gera það ASAP! Svo gott!!

Súkkulaði bark með nammi:

  • Saltkringlur

  • Fazer marianne brjóstsykur

  • Tutti Frutti nammi frá Fazer

  • 2 plötur reint hafrasúkkulaði frá HAPPI

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgju. Passið að hræra í því á 20-30 sekúndna fresti ef það er gert í örbylgjunni

  2. Saxið niður það nammið í mjög grófa bita og bætið út í súkkulaðið.

  3. Hellið á bökunarpappír, dreifið vel úr og leyfið því að harðna í kæli í allavega eina klukkustund.

  4. Brjótið eða skerið niður í bita og berið fram.

Auk þessarra rétta eru á plattanum:

  • Ólífur

  • Vínber

  • Ostarnir úr Holiday bakkanum frá Violife

  • Vegan chorizo frá Veggyness

  • Brauðstangir

  • Snakk

  • Baguettebrauð

  • Hrökkbrauð

  • Sulta

  • Jarðarber húðuð í hvítt súkkulaði og haframjólkusúkkulaði frá Happi

  • Pestó

  • Möndlur

  • Saltkringlur dýfðar í bráðið súkkulaði

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Veganistur

-Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í uppskriftirnar þar-